• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 10. september 2018 í máli nr. S-93/2018:

 

Ákæruvaldið

(Súsanna Björg Fróðadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Jóhanni Salómon Gústafssyni

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem var tekið til dóms 13. ágúst 2018, höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru 19. febrúar 2018 á hendur Jóhanni Salómon Gústafssyni, kt. 000000-0000, [...], Reykjanesbæ: ,,fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa föstudaginn 11. ágúst 2017, ekið bifreiðinni [...], norður Njarðarbraut við Borgarveg í Reykjanesbæ, sviptur ökuréttindum og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (í þvagi fannst tetrahýdrókannabínól) og því verið óhæfur til að stjórna ökutækinu örugglega í umrætt sinn. Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. , sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þess er einnig krafist að ákærði verður dæmdur til sviptingar ökuréttar, skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá gerir skipaður verjandi kröfu um þóknun vegna starfa sinna.

 

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið það brot sem honum eru gefið að sök og var farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig í stuttu máli um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þau brot sem honum eru gefin að sök og eru þau réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærum. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar.

Ákærði er fæddur árið 1981 og á samkvæmt framlögðu sakavottorði að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 1999. Við úrlausn þessa máls hefur eftirfarandi áhrif: Með sektargerð lögreglustjóra 26. nóvember 2005 samþykkti ákærði greiðslu sektar og var gert að sæta tímabundinni sviptingu ökuréttar vegna ölvunar- og hraðaksturs.  Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2008 var ákærði sakfelldur fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og fíkniefnalagabrot og var gert að greiða sekt og sæta tímabundinni sviptingu ökuréttar. Ákærði var dæmdur í þrjátíu daga fangelsi og var gert að sæta ævilangri sviptingu ökuréttar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2012 fyrir að aka bifreið án gildra ökuréttinda og undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna. Ákærði lauk afplánun síðastnefnda dómsins með samfélagsþjónustu 15. nóvember 2013.

Að framangreindum sakaferli og broti ákærða virtu þykir refsing hans samkvæmt dómvenju réttilega ákveðin fangelsi í 60 daga.

Með vísan til framangreinds ber, í samræmi við kröfugerð ákæruvalds og með vísan til 3. mgr. 101. gr. laga nr. 50/1987, að árétta ævilanga ökuréttarsviptingu ákærða.

Við fyrirtöku málsins lýsti sækjandi því yfir að sakarkostnaður takmarkist við 6.830 krónur. Að því gættu, með hliðsjón af framlögðum gögnum um slíkan kostnað, og með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, er ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað að fjárhæð 6.830 krónur. Þá greiði ákærði þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, sem þykir, með hliðsjón af vöxtum málsins, hæfilega ákveðin 126.480 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Þinghöld urðu fleiri en efni stóðu til af ástæðum sem ákærða verður ekki um kennt. Að því gættu verður 1/3 hluti þóknunar skipaðs verjanda ákærða felldur á ríkissjóð.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Jóhann Salómon Gústafsson, sæti fangelsi í 60 daga.

            Ákærði sæti sviptingu ökuréttar ævilangt.

            Ákærði greiði 91.150 krónur í sakarkostnað, þar með talda 2/3 hluta af þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, sem í heild ákveðst 126.480 krónur.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir