• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Upptaka

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 21. desember 2018 í máli nr. S-507/2018:

 

Ákæruvaldið

(Súsanna Björg Fróðadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Hoang Van Vu

 

            Mál þetta, sem var tekið til dóms 27. nóvember 2018, höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru dags. 1. október 2018, á hendur Hoang Van Vu, kt. 000000-0000, [...]:

,,Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, sunnudaginn 22. apríl 2018, í iðnaðarhúsnæði að [...], haft í vörslum sínum samtals 17 stk. kannabisplöntur og hafa um skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur, sem fundust í húsnæðinu.

Telst háttsemi þessi varða við 2., sbr. 4., sbr. 4. gr. a, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 10/1997 og lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að gerðar verði upptækar, framangreindar 17 kannabisplöntur samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997 og 68/2001, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerð nr. 233/2001.“

 

Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins 27. nóvember 2018 og boðaði ekki forföll en í fyrirkalli sem var ásamt ákæru löglega birt 16. nóvember 2018 var tekið fram að yrði ekki sótt þing af hans hálfu mætti hann búast við því að fjarvist hans yrði metin til jafns við það að hann viðurkenndi að hafa framið þau brot sem hann væri ákærður fyrir og að dómur yrði lagður á málið að honum fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með vísan til ofanritaðs og gagna málsins að öðru leyti telur dómurinn þannig sannað að ákærði hafi framið það brot sem ákært er út af og er brot hans réttilega heimfært til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærði er fæddur [...] og hefur samkvæmt framlögðu sakavottorði ekki áður sætt refsingu. Samkvæmt framangreindu, og að broti ákærða virtu, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga, en skal fresta fullnustu refsingarinnar, og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57.  gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til kröfugerðar ákæruvaldsins, gagna málsins og tilgreindra lagaákvæða í ákæru verða gerðar upptækar 17 kannabisplöntur.

Með vísan til sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður ákærða gert að greiða sakarkostnað málsins sem samkvæmt framlögðum reikningi nemur samtals 86.815 krónum.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Hoang Van Vu, sæti fangelsi í 45 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði sæti upptöku á 17 kannabisplöntum.

            Ákærði greiði 86.815 krónur í sakarkostnað.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir