• Lykilorð:
  • Galli
  • Riftun
  • Skuldajöfnuður
  • Skuldamál

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 18. september  í máli nr. E-67/2018:

 

Fríorka ehf

(Anna Svava Þórðardóttir lögmaður)

gegn

Hrísey ehf.

(Atli Már Ingólfsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem þingfest var 17. janúar 2018 og dómtekið 6. september sl., var höfðað með stefnu, birtri 10. janúar 2018, á hendur Hrísey ehf., kt. 000000-0000, Heiðvangi 2, Hafnarfirði.

            Dómkröfur stefnanda eru að hið stefnda einkahlutafélag verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 865.349 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 45.960 krónum frá 20. febrúar 2017 til 7. júní 2017 en af 618.294 krónum frá þeim degi til 18. ágúst 2017 en af 865.349 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti auk málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

            Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi þess að viðurkennt verði að stefnda sé heimilt að skuldajafna hluta af endurgreiðslukröfu stefnda á hendur stefnanda að fjárhæð 1.485.520 krónur á móti stefnukröfu máls þessa að fjárhæð 865.349 krónur. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda. 

            Aðalmeðferð fór fram þann 6. september sl. og var málið dómtekið að henni lokinni.

Málsatvik.

Stefnandi kveðst sérhæfa sig í sölu og uppsetningu á varmadælum fyrir allar gerðir húsa ásamt verkfræðiþjónustu. Segir í greinargerð stefnda að hann hafi, eftir símtal við forsvarsmann stefnanda, Lárus Bjarnason, sent til hans tölvupóst og óskað upplýsinga um stærðir og verð hitakúta sem nota átti fyrir kyndingu á nýju hóteli sem stefndi var þá að byggja á jörðinni Rauðsbakka undir Eyjafjöllum. Í tölvupósti frá 4. nóvember 2016, sem liggur fyrir í málinu, er fylgiskjal eða tafla frá fyrirsvarsmanni stefnanda þar sem fram koma stærðir á vatnstönkunum. Kemur fram í töflunni í reit fyrir ofan þvermál tankanna að það séu stærðir án einangrunar, „Uninsulated“. Þá kemur einnig fram að hæð tankanna sé án einangrunar. Í svarpósti frá fyrirsvarsmanni stefnda spyr hann hvað verðið sé á AKVA PRO 2000-2500-3000. Hvort hægt sé að hækka þá þannig að þeir verði 240 cm að heildarmáli að utan og alls ekki yfir 160 að utanmáli í þvermál. Hver sé afgreiðslutíminn til hans í hús.

            Með tölvupósti þann 6. desember 2016 frá fyrirsvarsmanni stefnanda til stefnda segir: „AKVATERM 3000L kútur með kopar spíral fyrir varmadælu. 40800 AKVA PRO H 3000. HST 6 bar. SYRAFAST AISI 316. ISOLERING 100 MM POLIURETAN + RACKILAT. 5000 LK 220 MED FLANSAN OCH LCKA. Verð á stk. án vsk. kr. 1.198.000. Venjulegur afhendingartími 4-5 vikur frá verksmiðju. Við reynum okkar besta í að flýta því. Seinast þegar að við pöntuðum voru kútarnir farnir úr verksmiðjunni á ca. viku. Eigum við að setja þetta í gang?“ Fyrirsvarsmaður stefnda svaraði sama dag þannig: „Já endilega setja þetta í gang 2 kútar. Reynum að fá þá sem allra fyrst.“

Þá liggur fyrir tölvupóstur frá stefnanda til teiknistofu stefnda þann 30. nóvember 2016 þar sem stefnandi segir að hann sendi upplýsingar yfir 3000L kúta og 1000L kúta sem þeir hafi verið að taka til samanburðar. Starfsmaður teiknistofunnar svaraði þann 5. desember 2016 og segir að hann og verkfræðingurinn hafi verið að ræða þrýstinginn fyrir Rauðsbakkann; 6 Bör dugi alveg þar sem þetta sé ekki háreist hús.

            Með tölvupósti þann 9. desember 2016 frá fyrirsvarsmanni stefnda til m.a. Gunnars Páls Kristinssonar arkitekts kemur fram að þar sem ekki hafi náðst að fá vatnstanka áður en þakið hafi verið sett á þurfi að stækka hurðina inn í inntaksrýmið. Vatnstankarnir séu 140 cm í þvermál og best sé að setja gatið í 150 cm og hafa tvöfalda hurð með kálfi sem hægt sé að opna til að setja inn þessa vatnstanka. Gunnar Páll svarar þessum tölvupósti frá stefnda þann 12. desember og kveðst breyta hurðinni með þessum hætti og sendi á þá  teikningar daginn eftir.

            Með tölvupósti þann 13. janúar 2017 frá fyrirsvarsmanni stefnanda til stefnda segir að Sigurður geti náð í varmadæluna í Fornubúðir 5. Með þessum pósti fylgdu myndir.

            Með tölvupósti 7. mars 2017  frá fyrirsvarsmanni stefnanda til stefnda segir að DB Schenker í Hafnarfirði vilji fara að losna við kútana, ef hann hafi tök á því að fá þá senda eða ná í þá. Þá megi hann endilega fara að borga kútana. Svo sé meira dót á Selfossi sem sé ætlað stefnda.

            Þann 26. janúar 2017 millifærði stefndi inn á reikning stefnanda 2.697.000 krónur og þann 3. apríl s.á. millifærði hann aftur á reikning stefnanda 2.971.040 krónur og loks þann 14. ágúst 2017 10.199 krónur. 

            Þann 23. september 2017 sendi fyrirsvarsmaður stefnda stefnanda tölvupóst og kvaðst vera búinn að gefast upp á því að bíða eftir því að stefnandi komi með lausn, enda sé hann búinn að bíða á sjötta mánuð eftir lausn frá stefnanda og hvað hann vilji gera við kútinn sem hann eigi hjá stefnda og sé til mikilla óþæginda. Hann geti ekki notað kútinn þar sem hann hafi verið of stór miðað við pöntun, sbr. póst frá 4. nóvember 2016 og aftur 7. nóvember 2016 en þar komi fram að kútarnir megi alls ekki fara yfir 160 cm á breidd. Stefnandi hafi alltaf talað um að þeir væru 140 cm á breidd og krafði stefndi stefnanda um endurgreiðslu auk dráttarvaxta. Þá krafði stefndi stefnanda um endurgreiðslu á flutningi, gjaldi fyrir geymslu og fleira, samtals að fjárhæð 4.412.508 krónur. Í svarpósti sama dag kvað stefnandi þetta svo mikið bull að það væri ekki svaravert. Þá minnti hann á ógreidda reikninga.

            Fyrir dóminum kvaðst stefndi hafa farið á sendibifreið á afhendingarstað vatnstankanna í mars 2017 til að sækja þá en þegar átti að setja tankana í bifreiðina hafi komið í ljós að þeir myndu ekki komast inn í hana og hafi hann hætt við að flytja þá sjálfur. Hann hafi þá haft samband við forsvarsmann stefnanda og beðið hann um að annast flutning á tönkunum fyrir sig, sem hann hafi gert. Stefndi kvaðst hafa greitt fyrir flutninginn á Rauðsbakka.

            Samkvæmt gögnum málsins sá Flytjandi um að flytja tankana frá Schenker AB í Fornubúðum að Rauðsbakka í Rangárvallasýslu þann 3. apríl 2017. Kemur fram á yfirliti: „kom tjónaður í hús.“

            Ljósmyndir liggja fyrir af hitakútum/vatnstönkum, teknum af stefnda, auk þess sem stefndi lagði fram upptöku af mælingu á USB-kubb.       

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefndi hafi leitað til sín og pantað tvo vatnstanka að stærðinni 1400 mm í þvermál samkvæmt yfirliti yfir stærðir sem stefnandi hafi afhent stefnda. Stefnandi hafi fengið tankana afhenta og annan búnað tilheyrandi tönkunum, sem gerð er krafa um að hann greiði fyrir. Stefnandi hafi greitt fyrir tankana en eigi eftir að greiða eftirstöðvar af reikningi nr. 1065, 45.960 krónur, dagsettum 17. febrúar 2017, reikningi nr. 1116 að fjárhæð 572.334 krónur, útgefnum7. júní 2017, og reikningi nr. 1165 að fjárhæð 247.055 krónur, útgefnum 18. ágúst 2017. Stefnandi kveðst hafa útlistað fyrir forsvarsmanni stefnda að tankarnir væru einangraðir með 10 cm einangrun þannig að ummál 140 cm tanks yrði samtals 160 cm. Byggir stefnandi á því að stefnda hafi verið það fullljóst frá upphafi enda hafi þeir í gegnum viðskipti þeirra átt góð samskipti.

            Stefnandi vísar, kröfum sínum til stuðnings, til meginreglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, m.a. til 45., 47. og 54. gr. laga nr. 50/2000 og laga nr. 42/2000. Um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til meginreglu 49. gr. laga nr. 50/2000. Þá vísar hann til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og 130. gr. laga nr. 91/1991 vegna málskostnaðar.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að vatnstankarnir sem stefndi festi kaup á uppfylli ekki þá kosti sem stefnandi kynnti fyrir stefnda. Því teljist varan gölluð í skilningi 17. gr. kaupalaga nr. 50/2000. Þá byggir hann á því að upplýsingar seljanda hafi ekki verið fullnægjandi og rangar í skilningi 18. gr. kaupalaga. Stefndi hafi kynnt fyrir stefnanda þau skilyrði sem tankarnir yrðu að uppfylla, þ.e. að þeir mættu alls ekki vera meira en 160 cm í þvermál. Hafi stefnandi vísað til útgefinnar töflu og samkvæmt henni hafi þeir ekki átt að vera meira en það.

            Jafnframt byggir stefndi á því að skilyrði um þvermál tankanna hafi verið algjör forsenda fyrir kaupum stefnda á þeim og hafi það legið fyrir að svo væri í samskiptum stefnanda og stefnda fyrir kaupin. Stefnandi sé sérfræðingur á þessu sviði og hafi verið upplýstur um forsendur stefnda fyrir kaupunum. Þar sem tankarnir hafi verið stærri en uppgefin tafla segir, eða 168 cm í þvermál, hafi aðeins annar tankanna komist fyrir í rýminu sem þeim hafi verið ætlað. Hafi þetta haft alvarlegar afleiðingar fyrir stefnda. Ef stefndi hefði vitað fyrirfram um fulla stærð tankanna hefðu aðrir tankar orðið fyrir valinu og líklega aðeins einn stærri tankur sem hefði uppfyllt kröfur stefnda betur. Afhendingartíminn hafi einnig verið forsenda fyrir ákvörðun um kaupin. Samkvæmt upplýsingum stefnanda hafi afhendingartími átt að vera fjórar til fimm vikur frá verksmiðju frá pöntun, en hafi hins vegar reynst vera tólf vikur. Stefnandi hafi verið upplýstur um mikilvægi afhendingartímans eins og fram komi í tölvupóstsamskiptum aðila. Þar sem ekki hafi verið hægt að stoppa framkvæmdir við byggingu hótelsins hafi seinkun afhendingar valdið því að þak hafi verið komið á rýmið sem tankarnir áttu að fara í við afhendingu þeirra svo að saga varð út hurðarop til að koma þeim inn.

            Stefndi byggir jafnframt á því að annar tankanna hafi verið verulega skemmdur þegar hann var afhentur stefnda og því einnig, hvað það varði, verið gallaður við afhendingu. Verði stefndi ekki látinn kaupa vöru í því ástandi, sbr. 17. gr. kaupalaga nr. 50/2000. Hafi tankurinn verið með þessum skemmdum þegar stefndi vitjaði hans til flutnings eftir að hann greiddi reikninginn.

            Stefndi byggir á því að hann hafi ekki haft nein tök á því að skoða eða kynna sér umræddar vörur fyrir afhendingu, þ.e. stærð þeirra, og því treyst upplýsingum stefnanda þar að lútandi en stefnandi sé sérfræðingur á þessu sviði. Um leið og stærð þeirra hafi komið í ljós hafi stefndi haft samband við stefnanda og krafist þess að kaup annars tanksins gengju til baka og að hann yrði endurgreiddur og móttekinn af hálfu stefnanda og upplýsingar um afhendingarstað veittar.

            Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að félaginu sé heimilt að skuldajafna kröfu stefnda um endurgreiðslu á verði tanks sem stefndi greiddi þann 3. apríl 2017, 1.485.520 krónur, á móti stefnukröfu stefnanda að fjárhæð 865.349 krónur, sem sé vegna vöru tilheyrandi þessum viðskiptum sem stefndi mótmælir ekki að hafa fengið en greiddi ekki fyrir vegna ágreinings aðila í máli þessu. Er kröfu stefnanda skuldajafnað að því marki sem hún gangi upp í stefnukröfu máls þessa, en að öðru leyti mun stefndi leita réttar síns um eftirstöðvar kröfunnar síðar. Telur stefndi liggja fyrir að skilyrði skuldajöfnunar séu uppfyllt í máli þessu þar sem um sömu aðila sé að ræða, sömu viðskipti, efndatími sé kominn og séu kröfurnar hæfar til að mætast að öðru leyti.

            Byggir stefndi á því að í kröfu um viðurkenningu á skuldajöfnun felist viðurkenning á rétti stefnda til að rifta kaupum á öðrum af tveimur vatnstönkum sem stefndi keypti af stefnanda af gerðinni AKVA PRO H 3000. Sé því ekki nauðsyn að hafa uppi sjálfstæða kröfu um viðurkenningu á riftun í málinu.

            Um lagarök vísar stefnandi til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, meginreglna kröfuréttar og samningaréttar og til laga um meðferð einkamála, m.a. vegna málskostnaðar.

Skýrslur fyrir dómi.

Lárus Bjarnason, fyrirsvarsmaður stefnanda, gaf skýrslu fyrir dóminum ásamt Sigurði Sólonssyni, fyrirsvarsmanni stefnda, og Stefáni Má Haraldssyni hjá Flytjanda. Verður vitnað til framburðar þeirra eftir því sem þörf þykir. 

Forsendur og niðurstöður.

Ekki er ágreiningur milli aðila um að reikningar þeir sem stefnandi byggir kröfur sínar á séu ógreiddir né eru þeir vefengdir af hálfu stefnda. Stefndi krefst hins vegar sýknu á þeim grundvelli að hann eigi jafnháa og hærri kröfu á hendur stefnanda sem uppfylli skilyrði 1. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um skuldajöfnuð. Er endurgreiðslukrafa stefnda samtals 1.485.520 krónur. Stefndi byggir á því að skilyrði 17. gr. kaupalaga, sbr. 31.-40. gr., séu uppfyllt.

Samkvæmt stefnanda voru tankarnir afhentir stefnda við móttöku þeirra í vöruskemmu Schenker í mars 2017. Kvaðst stefndi hafa farið þangað í mars 2017 og ætlað að flytja tankana í sendibifreið sinni að Rauðsbakka. Þegar tankarnir voru komnir út úr skemmunni að sendibifreiðinni sá stefndi að þeir kæmust ekki þar fyrir. Voru tankarnir því færðir aftur inn í vöruskemmuna á lyftara. Kvaðst stefndi ekki hafa séð þá hvort skemmd var komin á tankinn eða ekki. Það var svo ekki fyrr en 3. apríl 2017 sem stefnda var bent á skemmd neðst á öðrum tankinum af starfsmanni flytjanda hans. Var skráð í skýrslu Schenker þann 3. apríl að tankurinn hafi komið tjónaður í hús. Samkvæmt vitninu Stefáni Má Haraldssyni hafði hann fengið tilkynningu frá sendibílstjóra, sem flutti tankana fyrir stefnda frá Schenker þann 3. apríl 2017 til stefnda að Rauðsbrekku, um að skemmd væri neðst á öðrum tankinum, sennilega eftir lyftaragaffal. Ósannað er hvort skemmdin hafi orðið þegar tankurinn var fluttur með Eimskip í vöruhúsið eða hvort tankurinn hafi orðið fyrir tjóni þegar stefndi reyndi sjálfur að koma tankinum fyrir í sendibifreið sinni. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að skemmdin hafi verið á tankinum þegar hann ætlaði að sækja hann sjálfur í mars 2017 en hann kvaðst ekki hafa séð neina skemmd þá. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. kaupalaga nr. 50/2000 telst söluhlutur afhentur þegar kaupandi hefur veitt honum viðtöku. Flyst áhættan þá yfir á kaupanda, sbr. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Var það í mars 2017. Í framhaldi óskaði stefndi eftir því við stefnanda að hann gerði ráðstafanir með flutning á tönkunum að Rauðsbakka, sem stefnandi gerði með því að hafa samband við Flytjanda. Hefur stefndi því ekki sýnt fram á að skemmdin á tankinum hafi orðið áður en ábyrgð tanksins fluttist yfir til stefnda í byrjun mars 2017 er stefndi reyndi fyrst að sækja tankana. Þá greiddi stefndi andvirði tankanna og flutning þeirra til sín þann 3. apríl 2017 án nokkurs fyrirvara um galla eða afslátt þrátt fyrir að honum hafi þá verið bent á umrædda skemmd þann sama dag. Verður þessari málsástæðu stefnda því hafnað.

            Stefndi byggir skuldajöfnunarkröfu sína á því að hann hafi greitt verð hitakúts þann 3. apríl 2017 að fjarhæð 1.485.520 krónur og eigi hann rétt til þess að skuldajafna þeirri kröfu eins langt og hún nái upp í kröfufjárhæð stefnanda. Krafa stefnda uppfylli öll skilyrði skuldajöfnunar og hún sé komin á gjalddaga. Stefndi kveðst hafa rift kaupunum með tölvupósti til stefnanda þann 23. september 2017. Í þeim tölvupósti er í engu minnst á riftun heldur eingöngu að stefndi sé búinn að gefast upp á því að bíða eftir því að stefnandi komi með lausn á málinu. Krefst stefndi í þeim tölvupósti endurkröfu á geymslugjaldi að fjárhæð 2.475.000 krónur, endurgreiðslu á flutningi á kút að fjárhæð 69.500 krónur, endurgreiðslu á hitakút að fjárhæð 1.198.000 krónur og endurgreiðslu vegna sögunar og viðgerðar að fjárhæð 600.000 krónur. Engin gögn hafa verið lögð fram til staðfestingar á þessum kostnaði. Þá er ekki minnst á riftun á kaupunum í tölvupóstinum. Þá hefur stefndi ekki fengið endurkröfu sína samþykkta af stefnanda né fengið dóm fyrir henni. Stefnandi mótmælir því að tölvupóstur frá stefnda þann 23. september 2017 sé ígildi riftunar á kaupunum á öðrum vatnstankinum og hafi stefnandi ekki litið svo á. Gegn mótmælum stefnanda uppfyllir þessi tölvupóstur ekki skilyrði riftunar, sbr. 29. gr.39. gr. kaupalaga nr. 50/2000, en þar segir að kaupandi geti ekki rift kaupum, nema hann tilkynni seljanda um riftun án ástæðulauss dráttar frá því að hann fékk vitneskju um gallann. Sá galli sem stefndi ber fyrir sigvarð honum ljós 3. apríl 2017. Gegn mótmælum stefnanda verður því þeirri málsástæðu stefnda, um að stefndi hafi rift samningi aðila um kaupin, hafnað. 

            Stefndi byggir á því að tankarnir hafi verið gallaðir í skilningi 17. gr. laga nr. 50/2000, sérstaklega b-liðar 2. mgr., þar sem ummál þeirra hafi verið meira en stefnandi hafi gefið upp eða 1400 mm. 

            Í þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu sendi stefnandi stefnda töflu yfir stærð þeirra vatnstanka sem hann hafði milligöngu um. Í þeirri töflu, sem er ágreiningslaust að stefndi fékk í tölvupósti þann 4. nóvember 2016, kemur m.a. fram að tankur AKVA PRO 3000 sé 1400 mm að ummáli. Kemur fram í yfirskrift yfir stærð tankanna, sem er í sérstökum reit með stóru letri, að uppgefin mál séu „Uninsulated“ óeinangrað. Sama dag spyr stefndi stefnanda hvort hægt sé að hækka tankana og að heildarmál að utan sé alls ekki yfir 160 í þvermál. Í tölvupósti þann 6. desember frá stefnanda til stefnda kemur meðal annars fram að einangrun fyrir tankana sé 100 mm Poliurethan auk kápu og verðið á tank sé 1.198.000 krónur. Tæpum hálftíma síðar þann sama dag svaraði stefndi stefnanda með tölvupósti og sagði: „Já endilega setja þetta í gang 2 kútar. Reynum að fá þá sem allra fyrst.“ Fyrir dóminum kvaðst fyrirsvarsmaður stefnda ekki hafa lesið „smáa letrið“ og hafi treyst stefnanda þar sem hann væri sérfræðingur á þessu sviði. Stefnandi kvað fyrir dóminum að þeir hafi rætt um að tankarnir væru 160 cm samtals í ummál með einangrun. Stefndi lagði fram myndbrot þar sem mæling með málbandi er sýnd en samkvæmt því myndbroti er alls ósannað hvernig eða hvað er verið að mæla. Var stefnanda ekki gefinn kostur á að vera við þá mælingu. Verður niðurstaða máls þessa ekki byggð á þeirri mælingu. Heldur stefndi því fram að tankurinn hafi þá mælst 168 cm í ummál en samkvæmt yfirlýsingu frá honum hafi tankurinn alls ekki mátt fara yfir 160 cm í þvermál. Stefndi hafi því ekki getað komið báðum tönkunum fyrir í því rými sem þeir áttu að fara í. Stefndi kvaðst heldur ekki hafa gert sér grein fyrir því plássi sem aukahlutir með tönkunum tækju, svo sem varmadælur og fleira. Því hafi verið ómögulegt að koma báðum tönkunum fyrir í rýminu ásamt fylgihlutum. Stefndi hafi því ekki getað nýtt sér annan tankinn og orðið fyrir kostnaði og óþægindum vegna þess. Það hafi verið á ábyrgð stefnanda að tankarnir færu ekki yfir 160 cm í þvermál. Stefndi gerir ekki aðrar athugasemdir við eiginleika tankanna en að þeir hafi verið stærri en stefndi hafi gert ráð fyrir og því ekki komist inn í rými ætlað til þess að hafa vatnstankana í. Kveður stefndi stefnanda bera ábyrgð á því.

            Eins og mál þetta liggur fyrir var það á ábyrgð kaupanda að kynna sér upplýsingar um gerð og stærð vatnstankanna áður en hann festi kaup á þeim. Stefndi var bæði með arkitekt og byggingarverkfræðing á sínum vegum, samkvæmt framburði hans fyrir dóminum, sem hann kvað hafa farið yfir teikningar og upplýsingar um stærð og gerð tankanna. Telur dómurinn það alveg ljóst að samkvæmt þeim upplýsingum sem bárust stefnda frá stefnanda um stærð tankanna og einangrun, hafi það verið á ábyrgð stefnda að áætla nægjanlegt rými fyrir þá, en í upphafi ætlaði stefndi að láta tankana fara niður um þak rýmisins áður en því yrði lokað. Gefur það fastlega til kynna að stefnda hafi verið ljóst að rýmið var á mörkum þess að tankarnir kæmust fyrir. Þá var það á ábyrgð stefnda að kynna sér hversu mikið rými aðrir tengdir hlutir tækju, s.s. varmadælur o.fl. sem fylgdi tönkunum. Það kvaðst stefndi ekki hafa gert. Bar stefndi því við að hann hefði haft öðrum hnöppum að hneppa er hann pantaði vatnstankana, hann hafi verið að byggja hótel og hafi verið með marga starfsmenn í vinnu og því í mörg önnur horn að líta en að fara yfir gerð og stærð vatnstankanna. Í þeim efnum hafi hann treyst sérfræðiþekkingu stefnanda.

Samkvæmt því sem að ofan er rakið og gögnum málsins hefur stefndi ekki sýnt fram á að stefnandi hafi veitt honum rangar eða villandi upplýsingar um stærð vatnstankanna áður en kaupin voru ákveðin. Þá hefur stefndi ekki sýnt fram á að eiginleikar vatnstankanna séu ekki þeir sem stefnandi upplýsti hann um. Samkvæmt þessu getur stefndi ekki borið ummál vatnstankanna fyrir sig sem galla þar sem hann vissi eða mátti vita um stærðina þegar kaupin voru gerð, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/2000.  

Verður stefndi því dæmdur til að greiða kröfu stefnanda ásamt dráttarvöxtum eins og segir í dómsorði. Með vísan til 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu verður ekki dæmt sérstaklega um að vextir bætist við höfuðstól á tólf mánaða fresti. Er óþarft að hafa slíka kröfu uppi í stefnu.

Með vísan til 130., sbr. 129., gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.

             

             Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Stefndi, Hrísey ehf., kt. 000000-0000, Heiðvangi 2, Hafnarfirði, greiði stefnanda, Fríorku ehf., kt. 000000-0000, Úthaga 7, Selfossi, 865.349 krónur ásamt dráttarvöxtum af 45.960 krónum frá 20. febrúar 2017 til 7. júní 2017, en af 618.294 krónum frá þeim degi til 18. ágúst 2017 en af 865.349 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

            Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.

 

Ástríður Grímsdóttir.