• Lykilorð:
  • Kyrrsetning
  • Samningur
  • Vanefndir
  • Skuldamál

Ár 2018, fimmtudaginn 21. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði, kveðinn upp í máli nr. E-125/2018:

 

Seaway Trading mle Corp

(Bernhard Bogason lögmaður)

gegn

B9 ehf.

(sjálfur)

 

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta, sem þingfest var 7. febrúar 2018 og dómtekið 15. júní sl., var höfðað með útgáfu réttarstefnu, þann 25. janúar sl., á hendur B9 ehf., kt. 000000-0000, Bröttutungu 9, Kópavogi.

            Dómkröfur stefnanda eru að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 40.815 kanadíska dollara ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af CAD 6.515 frá 9. október 2017 til 16. janúar 2018 en af CAD 40.815 frá þeim degi til greiðsludags. 

Þá krefst stefnandi að staðfest verði kyrrsetningargerð nr. 2018-001301 sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gerði þann 18. janúar í bifreiðunum sem tilgreindar eru með fastanúmerunum PN-K30 og DR-H90. Að lokum krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað auk virðisaukaskatts.

            Stefndi mótmælir  í greinargerð sinni kyrrsetningu á bifreiðinni DR-H90 þar sem hún hafi verið seld þann 2. janúar 2018. Þá mótmælir stefndi í greinargerð þátttöku í greiðslum vegna varahluta.

            Stefndi sem er ólöglærður tók til varna sjálfur og skilaði greinargerð þann 7. mars sl. Í fyrirtöku þann 15. maí sl. kvaðst stefndi vita að hann skuldaði stefnanda umkrafða reikninga. Við upphaf aðalmeðferðar þann 15. júní sl. er bókað eftir stefnda að hann eigi eftir að greiða stefnanda 3.515 kanadíska dollara, 12.500 kanadíska dollara, 5.000 kanadíska dollara og 14.000 kanadíska dollara, skv. 1. gr. samnings aðila og sem komi einnig fram í stefnu. Stefndi kveðst hins vegar mótmæla, eins og komi fram í greinargerð hans, að honum beri að greiða fyrir varahluti og tjón (útlitsgalla) er varð á þeim bifreiðum sem krafist sé greiðslu fyrir. Við aðalmeðferð málsins kvaðst stefndi ekki ætla að gefa aðilaskýrslu né flytja mál sitt fyrir dóminum.

             

Málsatvik.

Samkvæmt gögnum málsins gerðu aðilar með sér samning þann 13. ágúst 2017 sem fól í sér að stefndi myndi kaupa 12 bifreiðar af stefnanda.  Í 5. gr. samningsins er kveðið á um eignaréttarfyrirvara, sem felur í sér að eignaréttur af bifreiðunum skyldi ekki flytjast til stefnda fyrr en kaupverð þeirra hafi verið að fullu greitt. Ennfremur kveður 3. gr. á um að ef stefndi selji bifreiðarnar, beri honum að greiða inná skuld sína gagnvart stefnanda í samræmi við verð hverrar bifreiðar sem sé sundurliðað í 1. gr. samningsins. Þrátt fyrir eignaréttarfyrirvarann, sem tryggir eignarrétt stefnanda, var hluti bifreiðanna skráðar á stefnda.

Samningurinn kveður jafnframt á um að stefndi greiði stefnanda tilteknar aðrar greiðslur vegna viðskipta þeirra. Þannig kveður 6. gr. samningsins á um að stefndi greiði stefnanda CAD 5.000 vegna fyrri viðskipta þeirra þegar fyrsta bifreið sem samningurinn snýst um er seld en sú greiðsla hafi ekki verið innt af hendi. Þá sendi stefnandi stefnda kröfu um greiðslu á 50% hlutdeild í reikningi fyrir tilteknum varahlutum sem ekki hafa verið greiddir og nemur fjárhæð kröfunnar CAD 2.800.

Á árinu 2017 seldi stefndi eina bifreiðina (Jeep Compass EA-B99) og upplýsti stefnanda þar um. Samkvæmt samningi aðila skyldi stefndi greiða stefnanda CAD 8.000 við þá sölu en greiddi einungis 4.485. Í janúar 2018 kvaðst stefnandi hafa orðið þess var  að stefndi hafði selt bifreiðina YK-P49 án þess að upplýsa stefnanda þar um eða greiða stefnanda CAD 8.000 eins og honum bar samkvæmt samningi aðila.  

Í stefnu segir að þegar stefnandi hafi kannað málefni stefnda frekar, m.a. með skoðun á ársreikningi félagsins fyrir árið 2016, hafi komið í ljós að stefndi hafði skilað ársreikningi sem tilgreindi að félagið hefði enga starfsemi haft með höndum. Fyrir liggi þó að stefndi var í viðskiptum við stefnanda á árinu 2016 og keypti bifreiðar af stefnanda á því ári. Í kjölfarið hafi lögmaður stefnanda sett sig í samband við fyrirsvarsmann stefnda og haldnir hafi verið fundir um málið og kvaðst fyrirsvarsmaðurinn myndi greiða inná skuld sína við stefnanda og jafnframt gefa út tryggingarbréf fyrir eftirstöðvum skuldar stefnanda svo tryggja mætti réttindi hans yfir bifreiðunum.  Þegar það hafi ekki gengið eftir og þegar litið var til þess að stefndi hafði selt bifreið án þess að tilkynna stefnanda nokkuð þar um eða greiða þá fjárhæð sem honum bar að greiða þá hafi stefnandi talið að hann yrði að tryggja hagsmuni sína með því að fá fram kyrrsetningargerð í bifreiðunum. Hafi það verið gert með kyrrsetningarbeiðni, dags. 16. janúar 2018 sem tekin var fyrir af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu þann 18. janúar 2018 með kyrrsetningargerð nr. 2018-001301. Fallist hafi verið á kyrrsetningu bifreiðanna PN-K30 og DR-H90. Stefnandi kveðst ítrekað hafa reynt að ná fram sáttum án árangurs og sé því nauðbeygður til að höfða mál þetta.

Þá segir ennfremur í stefnu að þar sem fram hafi komið í samskiptum við stefnda að hann mótmæli greiðsluskyldu á framangreindum reikningi fyrir varahlutum og CAD 5.000 sem kveðið sé á um í 6. gr. samningsins hafi stefnandi látið við það sitja að krefjast kyrrsetningar fyrir CAD 35.015 auk kostnaðar við gerðina, en CAD 35.015 sé  fjárhæð sem stefndi hafi viðurkennt í samskiptum sínum við stefnanda að hann skuldi stefnanda og tengist beint kaupverði á einstökum bifreiðum sbr. 1. gr. samnings aðila og sundurliðun kröfugerðarinnar.

Í greinargerð stefnda eru ekki gerðar athugasemdir við málsatvikalýsingu stefnanda og verður því byggt á henni.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að framangreind lýsing málsatvika sé rétt lýsing málavaxta og viðskipta aðila.

Stefnandi styður fjárkröfu sína við samning aðila frá 17. ágúst 2017 og kröfu um greiðslu vegna varahluta sem stefnandi sendi stefnda.  Skuld stefnda við stefnanda sem krafist sé dóms fyrir nemi 40.815 kanadískum dollurum að höfuðstól samkvæmt sundurliðun kröfugerðarinnar hér á eftir.

Þá sé krafist staðfestingar á kyrrsetningu í samræmi við kyrrsetningargerð.

Stefnandi kveður kröfu sína byggjast í fyrsta lagi á samningi aðila dagsettum 13. ágúst 2017 um kaup stefnda á bifreiðum af stefnanda. Samkvæmt samningnum hafi stefndi keypt bifreiðar af stefnanda með eignarréttarfyrirvara, sbr. 5. gr. samningsins, þ.e. stefnandi skyldi teljast eigandi bifreiðanna þar til þær yrðu seldar. Stefndi hafi hins vegar verið skráður eigandi fjögurra bifreiða sem keyptar voru samkvæmt samningnum og engin tilgreining eignarréttarfyrirvarans skráður í bifreiðaskrá. Samkvæmt samningnum skyldi stefndi greiða bifreiðarnar við sölu þeirra. Hafi stefndi greitt hluta kaupverðs við sölu bifreiðarinnar EA-B99 á árinu 2017 en eftirstöðvar vegna þeirrar bifreiðar nema CAD 3.515. Þá hafi stefndi selt bifreiðina YK-P49 í janúar 2018 og átti þá að greiða CAD 12.500 við sölu hennar en hefur ekkert greitt. Þá beri stefnda greiða CAD 5.000 vegna PN-K30 og CAD 14.000 vegna bifreiðarinnar DR-H90. Samkvæmt 5. gr. samnings aðila skal stefnandi vera eigandi bifreiðanna þar til þær eru að fullu greiddar og hefur stefndi því að framið alvarlegt brot gegn skýrum eignarrétti stefnanda þegar hann greiddi ekki stefnanda fyrir bifreiðarnar eins og samningurinn kveður á um að gera eigi við sölu þeirra. Þetta hafi stefndi ekki staðið við og þar að auki ekki veitt stefnanda upplýsingar um sölu bifreiðarinnar sem fram fór nú í janúar 2018.

Stefnandi byggir á því að vegna alvarlegra vanskila stefnda sé honum heimilt að gjaldfella eftirstöðvar heildarkaupverðs þeirra bifreiða sem stefndi fékk skráðar á sitt nafn og nemi sú fjárhæð í heild sinni CAD 35.015 þar af 16.015 vegna bifreiða sem stefndi hefur þegar selt og CAD 19.000 vegna bifreiða sem séu óseldar.     

Þá byggi krafa stefnanda um greiðslu á CAD 3.000 á 6. og 2. gr. samnings aðila. Samkvæmt ákvæðinu sé samkomulag um að stefndi skyldi greiða CAD 3.000 vegna fyrri viðskipta um leið og fyrsta bifreið yrði seld en stefndi hafi ekki staðið við það.         

Að síðustu byggist krafa um greiðslu á CAD 2.800 á kröfu um greiðslu 50% hlutdeildar í varahlutum sem stefnandi sannanlega sendi stefnda á árinu 2017.

Stefnandi sundurliðar kröfugerð sína þannig:

           

Í málinu er þess jafnframt krafist að staðfest verði kyrrsetning sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gerði þann 18. janúar 2018, kyrrsetningargerð nr. 2018-001301. Í gerðinni hafi tvær bifreiðar verið kyrrsettar sem auðkenndar séu með fastanúmerunum PN-K30 og DR-H90. Bifreiðarnar séu skráðar á stefnda en séu í raun eign stefnanda, eins og skýrlega sé kveðið á um í 5. gr. samnings aðila frá 13. ágúst 2017.   

Stefnandi telur að skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1991 hafi verið fyrir hendi við kyrrsetninguna og séu enn. Þegar litið sé til aðstæðna allra þá verði að telja að ekki verði við annað miðað en að fjárhagsstaða stefnda og málefni félagsins séu almennt mjög ótrygg og óvarlegt að áætla að nokkrar eignir verði fyrir hendi síðar til að taka fjárnám í, ef tilkall stefnanda til bifreiða sem stefndi sé skráður eigandi að, en stefnandi eigi í raun, verði takmarkað meira með háttsemi þeirri sem stefndi hafi orðið uppvís að. Það sé fyrirséð að ef staðfesting á kyrrsetningargerðinni nái ekki fram að ganga þá séu verulegar líkur á því að réttindi stefnanda á grundvelli samnings aðila, dagsettum 13. ágúst 2017, verði algerlega fyrir borð borin. 

Fyrir liggi, samkvæmt framangreindu, að stefndi standi í skuld við stefnanda og hafi engan reka gert að því að greiða skuldir sínar og er í aðstöðu til að selja þær bifreiðar sem hann sé skráður eigandi að án þess að stefnandi geti nokkuð að gert, nema fallist verði á staðfestingu á kyrrsetningarinnar.

Stefnandi byggir kröfu sína á almennum meginreglum kröfu- og samningaréttar um gagnkvæma samninga, skuldbindingargildi loforða og samninga, efndir fjárskuldbindinga, vanefndir og afleiðinga þeirra, en reglur þessar fá m.a. stoð í samningalögum nr. 7/1936. Til stuðnings kröfu um staðfestingu á kyrrsetningarbeiðni vísar stefnandi til laga nr. 31/1991 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sérstaklega 5. gr. laganna. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Upphafsdagur dráttarvaxta sér í fyrsta lagi 9. október 2017 að því er varðar eftirstöðvar á verði fyrstu bifreiðarinnar sem seld var CAD 3.515 og CAD 3.000 samkvæmt 2. og 6. gr. samnings aðila en látið er við það sitja að miða við dagsetningu kyrrsetningarbeiðni að öðru leyti. Krafa um málskostnað á stoð í 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Um varnarþing vísast til 1. mgr. 33. gr. sömu laga.

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi lagði fram greinargerð þann 7. mars sl. og í kaflanum um dómkröfur segir að stefndi mótmæli kyrrsetningu á bifreiðinni DR-H90 þar sem hún hafi verið seld þann 2. janúar 2018 og hafi bílasalan Netbílar ehf. gengið frá sölunni. Hafi stefnandi verið meðvitaður um þá sölu samkvæmt tölvupósti þar um frá 5. og 12. janúar 2018.

            Þá segir í greinargerðinni að stefndi mótmæli að öllu leyti þátttöku í greiðslum vegna varahluta. Aldrei hafi verið talað um hvorki munnlega né skriflega að stefndi ætti að taka þátt í kostnaði aðsendra varahluta vegna galla í bílum sem hafi verið sendir til landsins frá stefnanda. Komi fram í tölvupósti stefnanda þann 19. desember 2017 að bílunum hafi verið vel við haldið samkvæmt þjónustuskýrslum. Þá segir að stefnandi hafi vitað af útlitsgöllum á fjórum bifreiðum, Dodge Grand Caravan, DR-H90 og YK-P49, árgerð 2014, Volvo S80 árgerð 2007, fastanúmer PN-K30 og Jeep Compass árgerð 2012, fastanúmer EA-B99 og hafi ætlað að taka þátt í kostnaði að hálfu leyti vegna útlitsviðgerðar. Ekki liggi fyrir kostnaður vegna þessara hluta og sé áskilinn réttur til þess að leggja fram upplýsingar um kostnaðinn á síðari stigum málsins.

 

Forsendur og niðurstöður.

Við upphaf aðalmeðferðar þann 15. júní sl. kvaðst fyrirsvarsmaður stefnda ekki ætla að gefa skýrslu. Þá neitaði hann að taka frekar til máls og ítreka kröfugerð sína. Var bókað eftir honum að hann viðurkenndi skuld stefnda á umkröfðum reikningum stefnanda en neitaði því að honum bæri að greiða fyrir varahluti og viðgerðir á bifreiðunum. Verður því úrlausn máls þessa byggð á framkomnum gögnum, kröfugerð aðila eins og hún liggur fyrir og málflutningi stefnanda.

            Að því leyti er varðar umkrafða reikninga stefnanda, sem stefndi hefur viðurkennt að skulda stefnanda, verður sú krafa tekin til greina að fullu ásamt tildæmdum dráttarvöxtum eins og segir í dómsorði.

            Varðandi kröfu stefnanda um greiðslu að fjárhæð CAD 2.800 þá byggir hann þá kröfu á reikningum og flutningskostnaði frá stefnanda til stefnda, samtals að fjárhæð CAD 4.368.62. Er stefndi krafinn um helming af þeirri fjárhæð auk flutningskostnaðar að fjárhæð CAD 547,6. Stefndi mótmælti fyrir dóminum að honum bæri að greiða hlutdeild í varahlutum en færði engin rök né gögn fyrir máli sínu. Ber hann hallan af þeim sönnunarskorti og verður krafa stefnanda því tekin til greina að þessu leyti.

            Stefnandi krefst einnig CAD 3.000 samkvæmt 2. gr. samnings aðila. Stefndi hefur ekki mótmælt gildi samningsins og ekki fært nein rök að því að honum beri ekki að greiða umkrafða fjárhæð. Ber hann hallan af þeim sönnunarskorti. Verður krafa stefnanda því tekin til greina eins og hún er fram lögð. Stefndi hefur ekki mótmælt dráttarvaxtakröfu stefnanda né kröfu um málskostnað.

            Að þessu virtu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda samtals 40.815 kanadíska dollara ásamt dráttarvöxtum af 6.515 kanadískum dollurum frá 9. október 2017 til 16. janúar 2017 en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Kyrrsetningarbeiðni stefnanda var tekin fyrir á heimili fyrirsvarsmanns stefnda þann 18. janúar 2018. Benti fyrirsvarsmaður stefnda á bifreiðina PN-K30, Volvo S80 og bifreiðina DR-H90, Dodge Grand Caravan. Var gerðinni lokið og brýnt fyrir gerðarþola að óheimilt væri að ráðstafa kyrrsettum eignum í bága við rétt gerðarbeiðanda og var honum leiðbeint um réttaráhrif kyrrsetningarinnar.

Skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 fyrir kyrrsetningu eru uppfyllt, en í ljósi atvikanna verður talið að án kyrrsetningar muni draga mjög úr líkum á því að stefnanda takist að ná fullnustu krafna sinna. Kyrrsetningargerðin verður því staðfest.

            Að þessum málalokum virtum og með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda  640.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Stefndi, B9 ehf., greiði stefnanda, Seaway Trading mle Corp, 40.815 kanadíska dollara ásamt dráttarvöxtum af 6.515 kanadískum dollurum frá 9. október 2017 til 16. janúar 2017 en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

            Stefndi greiði stefnanda 640.000 krónur í málskostnað.

            Staðfest er kyrrsetningargerð sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gerði 18. janúar 2018, í máli nr. 2018-001301, í bifreiðunum PN-K30 og DR-H90.

 

 

Ástríður Grímsdóttir.