• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Hegningarauki
  • Fangelsi
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 3. maí 2019 í máli nr. S-538/2018:

Ákæruvaldið

(Friðrik Smári Björgvinsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Ragnari Jósep Gunnlaugssyni

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

I

Mál þetta, sem dómtekið var 12. apríl 2019, er höfðað af héraðssaksóknara með ákæru 25. október 2018 á hendur Ragnari Jósep Gunnlaugssyni, kt. 000000-0000, [...], Reykjanesbæ,

„fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa föstudaginn 2. mars 2018, utandyra við verslunarmiðstöðina Smáralind í Kópavogi, slegið lögreglumanninn A, sem þar var við skyldustörf, hnefahögg í andlitið og rifið í hár hennar.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði neitar sök og krefst aðallega sýknu, en til vara vægustu vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði.

II

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu barst henni tilkynning að kvöldi 2. mars 2018 um ölvaðan karlmann sem væri að leggja hendur á konu við veitingastaðinn Friday´s í verslunarmiðstöðinni Smáralind í Kópavogi. Þegar þangað kom bentu starfmenn Friday´s lögreglumönnum á Ragnar Jósep Gunnlaugsson, ákærða í máli þessu, og B, sem þá voru bæði sjáanlega mikið ölvuð á bifreiðastæðinu við Smáralind. Aðspurð könnuðust þau ekki við nein átök. Eftir samtöl við vitni, sem sögðu að ákærði hefði slegið og skallað B, ákvað lögreglan að handtaka ákærða fyrir heimilisofbeldi.

Í skýrslunni segir að ákærði hafi verið mjög ör og ógnandi þegar lögreglumenn ræddu við hann og hafi hann brugðist illa við þegar honum var tilkynnt um handtökuna og reyndi að komast undan því. Hafi hann verið tekinn lögreglutökum, en engu að síður hafi honum tekist að kýla með krepptum hnefa í andlit lögreglumanns A, og rífa í hár hennar. Einnig hafi hann ítrekað reynt að kýla og sparka í lögreglumennina. Eftir nokkra stund var hann yfirbugaður og fluttur í fangageymslu á lögreglustöð.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglunni daginn eftir og sagðist hann hafa verið „sósuölvaður“ umrætt sinn, en neitaði því að hafa kýlt og rifið í hár lögreglumannsins, enda hafi lögreglumenn strax sett á hann „strappa“. Hins vegar kvaðst hann mynnast þess að hafa streist á móti við handtökuna og verið með sorakjaft og kannski sagt eitthvað sem hann hefði ekki átt að segja. Bæðist hann afsökunar á því og endurtók að hann hafi verið ofurölvi.

III

Fyrir dómi neitaði ákærði með öllu að hafa slegið lögreglumanninn í andlitið eða rifið í hár hennar þegar hann var handtekinn, og bætti við að hann hefði aldrei ráðist á lögreglumann. Hann viðurkenndi hins vegar að hafa verið mjög ölvaður, en kvaðst engu að síður muna atvik vel. Sagði hann að aðfarir lögreglunnar við handtökuna hafi verið harkalegar og því hafi hann streist á móti og reynt að losa sig.

Vitnið B kvaðst hafa verið með ákærða í umrætt sinn. Hafi þau verið með einhver læti fyrir utan Smáralind og því hafi lögreglan verið kölluð til. Sagðist hún hvorki hafa séð ákærða slá lögreglumann né rífa í hár hans. Hins vegar hafi ákærði barist á móti við handtöku og ítrekað beðið um að meiða sig ekki í hendinni. Aðspurð sagðist hún hafa verið ölvuð, en myndi þó atvik vel.

Vitnið A lögreglumaður lýsti aðkomu sinni að málinu. Hún sagði að ákærði hefði brugðist illa við og veitt mikla mótspyrnu þegar honum var tilkynnt að hann væri handtekinn fyrir heimilisofbeldi. Þegar hún og starfsfélagi hennar höfðu tekið um sinn hvorn handlegg ákærða og ætluðu að færa hann í handjárn hefði honum tekist að spyrna sér í vegg, slíta aðra höndina lausa og kýla hana í andlitið og rífa í hár hennar. Eftir það hefði ákærði verið lagður á jörðina og settur í handjárn og fótabensli, enda hefði hann áfram reynt að kýla og sparka frá sér. Ekki sagðist vitnið hafa fengið áverka af höggi ákærða og því hafi hún ekki séð ástæðu til að fara á slysadeild. Hins vegar hafi hún fundið til eymsla í hársverðinum. Sérstaklega aðspurt sagði vitnið að höggið frá ákærða hafi verið með krepptum hnefa og taldi það ekki hafa verið óviljaverk. Fram kom einnig í máli vitnisins að hún hefði umrætt vinn verið með búkmyndavél, en henni hafi láðst að kveikja á henni fyrr en búið var að leggja ákærða á jörðina. 

Vitnið C lögreglumaður sagðist hafa handtekið ákærða, ásamt starfssystur sinni, A lögreglumanni. Lýsti hann atvikum á sama hátt og hún og sagðist hafa séð þegar ákærði sló til lögreglumannsins, en kvaðst ekki geta sagt til um hvort það hafi verið með krepptum hnefa, hvar höggið lenti né hvort um óviljaverk hafi verið að ræða. Hins vegar sagðist hann hafa séð roða í andliti lögreglumannsins eftir átökin. Þegar vitninu var bent á að samkvæmt frumskýrslu hans væri skráð að ákærði hefði náð að kýla með krepptum hnefa í andlit lögreglumannsins og rífa í hár hennar, sagðist vitnið hafa haft það eftir lögreglumanninum.

Einnig gaf skýrslu fyrir dómi sem vitni D lögreglumaður. Hann sagðist hafa snúið baki í lögreglumennina þegar ákærði á að hafa slegið til lögreglumannsins A og því hafi hann ekki séð það. Vitnið sagði hins vegar að ákærði hefði látið mjög ófriðlega við handtöku og verið kolbrjálaður. Allir lögreglumennirnir sem gáfu skýrslu fyrir dómi sögðu ákærða hafa verið mjög ölvaðan í umrætt sinn. 

IV

Í máli þessu er ákærði sakaður um brot gegn valdstjórninni, með því að hafa föstudaginn 2. mars 2018 slegið lögreglumanninn A, sem var við skyldustörf, hnefahöggi í andlitið og rifið í hár hennar. Ákærði neitar sök og krefst aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði. Byggist krafa hans á því að ekki liggi fyrir lögfull sönnun um sekt hans.

Meðal gagna málsins er myndbandsupptaka úr búkmyndavél (body-camera), en eins og fram er komið bar lögreglumaðurinn A slíka myndavél á sér. Henni láðist þó að hafa kveikt á vélinni frá upphafi, og mun fyrst hafa kveikt á henni þegar búið var að leggja ákærða á jörðina og verið var að færa hann í handjárn og setja á hann fótabensli. Má þar greina mikil átök og virðist sem ákærði streitist mjög á móti, auk þess sem hann hljóðar af sársauka vegna verkja í öxlinni. Einnig má þar heyra þegar lögreglumaður spyr lögreglumanninn A: „Náði hann höggi á þig vinan“ og svarar hún því játandi. Nokkru síðar spyr sami lögreglumaður: „Sló hann þig?“ og svarar hún: „Já, og reif í hárið á mér.“

Í aðkomuskýrslu áðurnefndrar A, sem rituð er 26. apríl 2018, segir m.a. eftirfarandi um handtöku ákærða: „Ragnar var mjög æstur og ógnandi meðan við ræddum við hann og brást illa við þegar honum var tilkynnt um handtökuna. Við [C lögreglumaður] héldum í sitthvora hendi Ragnars og tókum hann í lögreglutök. Þar sem við reyndum að færa Ragnar upp að vegg til þess að auðvelda okkur að færa hann í handjárn tókst Ragnari að spyrna sér í vegginn og kýla mig einu höggi með krepptum hnefa í andlitið ásamt því að rífa þéttingsfast í hár mitt.“ Fyrir dómi bar lögreglumaðurinn á sama veg og bætti því við, sérstaklega aðspurð, að hún teldi að höggið hafi ekki verið óviljaverk. Starfsfélagi hennar, vitnið C, sagðist hafa séð ákærða slá til lögreglumannsins, en gat ekki kveðið upp úr um hvort það var með krepptum hnefa, hvar höggið lenti, né hvort um óviljaverk hafi verið að ræða. Þá sagði hann fyrir dómi að í frumskýrslu sinni hafi lýsing hans á höggi ákærða verið samkvæmt frásögn lögreglumannsins A, enda hafi hann sjálfur ekki séð höggið lenda á A. Hins vegar kvaðst hann hafa séð roða í andliti lögreglumannsins eftir átökin.

Með áðurnefndri myndbandsupptöku og framburði vitna telst sannað að ákærði var verulega ölvaður í umrætt sinn og streittist harkalega á móti og barðist um þegar átti að handtaka hann. Ákærði hefur reyndar sjálfur viðurkennt að hafa verið mjög ölvaður og brugðist illa við og streist á móti við handtökuna, en neitar því að hafa kýlt áðurnefndan lögreglumann og rifið í hár hennar. Þrátt fyrir neitun ákærða liggur engu að síður fyrir að lögreglumaðurinn C kvaðst hafa séð ákærða slá til starfssystur sinnar og hafi roði sést á andliti hennar eftir átökin. Fullnægt er því skilyrði um ásetning, en ákærða mátti vera ljóst að af kröftugum mótþróa hans við handtöku gæti hlotist slys, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 19. nóvember 2009 í málinu nr. 77/2009. Samkvæmt því og að virtum öðrum gögnum málsins telur dómurinn sannað að ákærði hafi í umrætt sinn slegið lögreglumanninn í andlitið og rifið í hár hennar. Verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.

Ákærði er fæddur í [...] og á að baki nokkurn sakaferil vegna brota á almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 8. nóvember 2018 var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi, þar af voru 11 mánuðir bundnir skilorði til tveggja ára, fyrir þjófnað, nytjastuld, fíkniefnalagabrot og brot á umferðarlögum. Var sá dómur hegningarauki við dóm sama dómstóls frá 2. október 2014. Brot ákærða nú var framið fyrir uppsögu dómsins 8. nóvember 2018 og verður honum því gerður hegningarauki við þá refsingu sem honum var þá dæmd, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákveðst refsing hans hæfileg fangelsi í tvo mánuði, sem fært þykir að binda skilorði svo sem í dómsorði greinir.

Í samræmi við niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til greiðslu málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 316.200 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Ragnar Jósep Gunnlaugsson, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 316.200 krónur.

Ingimundur Einarsson