• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 12. febrúar 2018 í máli nr. S-434/2017:

Ákæruvaldið

(Matthea Oddsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Hirti Howser

(Kolbrún Garðarsdóttir lögmaður)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 8. febrúar 2018, er höfðað af Héraðssaksóknara með ákæru 17. nóvember 2017 á hendur Hirti Howser, kt. 000000-0000, Álfaskeiði 42, Hafnarfirði,

„fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa þriðjudaginn 28. júní 2016 birt tengil á frétt af vefmiðlinum www.stundin.is undir yfirskriftinni: „Myndband: Lögreglumenn drógu hælisleitendur út úr kirkju“ á fésbókarsíðu sinni en mynd með fréttinni sýnir lögreglumenn í lögregluaðgerðum og ritaði eftirfarandi hótun í garð lögreglumannanna A og B sem sjást á myndinni, ofan við tengilinn á fréttina:  „VARÚÐ – HÓTUNARSTATUS!  Ég vil fá að vita nöfn þessara tveggja lögreglubjána, útbólginna steraneitenda með hallærislegar „Game-of-Thrones“ klippingar sínar – því ég ætla heim til þeirra og berja þá í andlitið – nákvæmlega eins kjaftshögg og þeim finnst eðlilegt og sjálfsagt að berja mann í andlitið á kirkjutröppum – þar sem grið höfðu rofin og 16 ára gamall drengur dreginn burt með lögregluofbeldi“.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Þá var sömuleiðis dómtekið í dag mál sem Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðaði gegn ákærða með ákæru 15. desember 2017 „fyrir vopnalagabrot með því að hafa, miðvikudaginn 16. ágúst 2017, haft í vörslum sínum skammbyssu af gerðinni Astra Falcon Model 4000 22 cal., skotgeymi fyrir skammbyssuna og 3 stk. 22 cal. skotfæri án þess að hafa til þess tilskilið leyfi og fyrir að hafa ekki ábyrgst að óviðkomandi aðilar næðu til skammbyssunnar og skotfæranna en skammbyssuna, skotgeyminn og skotfærin fann lögregla í stofu á dvalarstað ákærða að Cuxhavengötu 1, 4. hæð, Hafnarfirði.“

Er háttsemi þessi talin varða við 1. mgr. 12. gr. og 1. og 2. mgr. 23. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998, og er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá krefst ákæruvaldið þess að ákærði verði dæmdur til að sæta upptöku á framangreindri skammbyssu, skotgeymi og skotfærum samkvæmt heimild í 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998, sbr. 1. tölulið 69. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði neitar sök samkvæmt fyrri ákærunni og krefst sýknu af þeirri háttsemi sem honum er þar gefin að sök. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa. Að því er varðar síðari ákæruna játar hann skýlaust sök og krefst vægustu refsingar. Hann fellst einnig á upptöku þeirra eigna sem þar er krafist. Þá krefst hann þess að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði.

II

Málavextir varðandi fyrri ákæruna eru þeir að 28. júní 2016 var lögreglumönnum frá embætti ríkislögreglustjóra falið að sækja tvo hælisleitendur í Laugarneskirkju, en þangað höfðu þeir leitað eftir að Útlendingastofnun ákvað að þeim skyldi vísað úr landi. Í kirkjunni umrætt sinn munu hafa verið ljósmyndarar frá fjölmiðlum og tóku þeir ljósmyndir af því er tveir lögreglumenn leiddu annan hælisleitandann á milli sín út úr kirkjunni. Sjá má að hælisleitandinn streittist á móti við aðgerðir lögreglunnar.

Myndband af aðgerðum lögreglunnar birtist með frétt á vefmiðlinum www.stundin.is. Í kjölfarið og undir umræddri frétt birti ákærði tengil á fésbókarsíðu sína þar sem rituð var sú hótun í garð þeirra lögreglumanna sem sáust á myndbandinu og orðrétt er tekin upp í ákæru.

Þar sem ákærði hefur skýlaust játað sök samkvæmt síðari ákærunni er látið nægja að skírskota þar til málavaxta, sbr. 3. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008.

III

Við aðalmeðferð ítrekaði ákærði neitun sína og kvað umrædd skrif ekki hafa verið hótun í garð umræddra lögreglumanna. Færsla þessi hafi verið rituð í reiði, í kaldhæðni og af dómgreindarleysi. Fyrst og fremst hafi reiði hans beinst að því hvernig málsmeðferð hælisleitenda væri háttað hér á landi, en ekki að þeim lögreglumönnum sem sjáist á myndbandi og fylgi hælisleitandanum út úr kirkjunni. Hins vegar hafi honum gramist að annar lögreglumannanna hafi slegið til ungs manns sem stóð utan kirkjunnar og hafði uppi athugasemdir við aðgerðir lögreglunnar. 

Ákærði þvertók fyrir það að ætlun sín hafi verið að vekja ótta hjá umræddum lögreglumönnum, hvað þá að hann hafi haft í huga að fylgja skrifum sínum eftir með ofbeldi. Slíkt hafi aldrei verið ætlun hans og kvaðst hann reiðubúinn til að biðja lögreglumennina afsökunar hafi skrif hans vakið þeim ugg. Fram kom í máli ákærða að hann hafi ekki verið í Laugarneskirkju umrætt sinn og hefði hann því aðeins séð aðgerðir lögreglunnar á myndskeiði sem fylgdi frétt á vefmiðli Stundarinnar. 

Báðir lögreglumennirnir sögðu fyrir dómi að þeir hefðu tekið skrif ákærða alvarlega og litið á þau sem hótun um ofbeldi í þeirra garð. Í kjölfarið hafi þeir orðið varari um sig en ella. Kvaðst annar þeirra allt eins hafa átt von á því að ákærði kæmi að heimili sínu og fylgdi hótun sinni eftir gagnvart sér, eiginkonu sinni eða barni.

IV

Ákærði hefur viðurkennt að hafa ritað á fésbókarsíðu sína þau ummæli sem í ákæru greinir og birtust sem tengill við frétt á vefmiðlinum www.stundin.is. þriðjudaginn 28. júní 2016. Á hinn bóginn neitar hann því að í þeim hafi falist hótun í garð þeirra lögreglumanna sem um ræðir og að alvara hafi þar búið að baki.

Þrátt fyrir neitun ákærða þykir sannað að í áðurnefndri færslu hans hafi falist hótun um að beita umrædda lögreglumenn líkamlegu ofbeldi, enda segir þar berum orðum að hann ætli „heim til þeirra og berja þá í andlitið“. Hótun þessi var til þess fallin að vekja hjá þeim ótta og kváðust þeir báðir hafa tekið hana alvarlega. Lögreglumennirnir voru í umrætt sinn að framfylgja fyrirmælum og sinna skyldustörfum sínum. Að þessu virtu verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni, eins og honum er gefið að sök í ákæru, og er þar rétt fært til refsiákvæða.

Eins og áður greinir hefur ákærði skýlaust játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök í síðari ákærunni. Verður hann einnig sakfelldur fyrir þau brot, sem rétt eru heimfærð til refsiákvæða. Þá hefur ákærði fallist á upptöku þeirra eigna er þar greinir.

Ákærði er fæddur í [...] 1961 og hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður sætt refsingum. Við ákvörðun refsingar er m.a. til þess horft að ákærði játaði skýlaust vopnalagabrot sitt samkvæmt síðari ákærunni. Þá kvaðst hann, bæði við skýrslutöku hjá lögreglu og síðar fyrir dómi, reiðubúinn til að biðja umrædda lögreglumenn afsökunar á orðum sínum, en tilgangur þeirra orða hafi ekki verið að vekja þeim ótta um líkamsmeiðingar. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, sem bundin verður skilorði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Með vísan til 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998, sbr. 1. tl. 69. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er gert upptækt vopn og skotfæri, eins og greinir í dómsorði.

Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 68. gr. laga nr. 49/2016, verður ákærða gert að greiða allan sakarkostnað málsins. Er þar um að ræða málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Kolbrúnar Garðarsdóttur lögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 210.800 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Hjörtur Howser, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli  hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Upptæk er gerð skammbyssa af gerðinni Astra Falcon Model 4000 22 cal., skotgeymir fyrir skammbyssuna og 3 stk. 22 cal. skotfæri.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kolbrúar Garðarsdóttur lögmanns, 210.800 krónur.

 

Ingimundur Einarsson