• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 31. ágúst 2018 í máli nr. S-206/2018:

 

Ákæruvaldið

(Sigrún Inga Guðnadóttir fulltrúi)

gegn

Józef Jan Damrath

 

            Mál þetta, sem var dómtekið 15. ágúst 2018, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 30. apríl 2018, á hendur Józef Jan Damrath, kt. 000000-0000, [...], Hafnarfirði:

,,fyrir þjófnað með því að hafa sunnudaginn 12. nóvember 2017 í verslun N1, Ártúnshöfða, Reykjavík, stolið vegahandbókinni að verðmæti 4.990 [krónur].

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar [og] til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Við fyrirtöku málsins 15. ágúst 2018 kom ákærði fyrir dóm og játaði sök. Í ljósi játningar ákærða var farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málið því tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað sök í málinu. Að mati dómsins samrýmist játning hans framkomnum gögnum. Brot ákærða telst því sannað og er réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur árið 1956 og á samkvæmt framlögðu sakavottorði að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2006. Ákærði hefur þrívegis áður gerst sekur um brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga. Síðast var honum gerð refsing fyrir brot gegn því ákvæði með dómi Héraðsdóms Reykjaness 15. febrúar 2017 en ákærði var þá dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár. Með broti sínu rauf ákærði skilorð samkvæmt framangreindum dómi. Ber að taka þann dóm upp og gera ákærða refsingu í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar ákærða þykir mega líta til þess að ekki var um að tefla mikil verðmæti. Þá horfir skýlaus játning ákærða honum til málsbóta. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af því sem áður var rakið um sakaferil ákærða þykir refsing hans hæfilega ákveðin 60 daga fangelsi. Eftir atvikum þykir mega binda fullnustu refsingarinnar skilorði svo sem nánar greinir í dómsorði.

Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Józef Jan Damrath, sæti fangelsi í sextíu daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir