• Lykilorð:
  • Nauðgun
  • Nálgunarbann
  • Fangelsi

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 26. apríl 2018 í máli nr. S-371/2017:

Ákæruvaldið

(Óli Ingi Ólason aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var þingfest 18. desember 2017 og dómtekið 3. apríl 2018, höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 9. október 2017 á hendur X, kt. 000000-0000, [...], Kópavogi, „fyrir eftirfarandi hegningarlagabrot, brot gegn barnaverndarlögum og lögum um fjarskipti, sem beindust að A, þáverandi eiginkonu ákærða, og syni þeirra, B, á árinu 2016 nema annað sé tekið fram;

 

1.    Fyrir tilraun til nauðgunar, með því að hafa mánudaginn 15. febrúar, að [...] í Kópavogi, falast eftir samræði við A og þegar hún neitaði, ráðist á hana og rifið niður um hana buxur hennar og reynt að rífa niður nærbuxur hennar í þeim tilgangi að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismök gegn vilja hennar en við mótspyrnu hennar rifnuðu nærbuxurnar og ákærði lét af háttseminni.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

2.    Fyrir nauðgun, með því að hafa mánudaginn 22. febrúar, að [...] í Kópavogi, haft samræði við A, gegn vilja hennar, með því að beita hana ofbeldi og annars konar ólögmætri nauðung en ákærði tók hana úr fötunum, snéri henni á magann og hélt höndum hennar á sama tíma og hann þröngvaði getnaðarlim sínum inn í leggöng hennar. Við þetta hlaut A marbletti á vinstri framhandlegg.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

3.    Fyrir nauðgun og frelsissviptingu, með því að hafa, skömmu fyrir kl. 12 þriðjudaginn 23. febrúar ruðst inn í bifreiðina [...], sem A hafði til umráða, á bifreiðastæði við [...], við [...] í Kópavogi, þar sem hún stundaði nám, og skipað henni að aka bifreiðinni að [...] í Kópavogi. Þar skipaði ákærði henni að koma með inn í íbúð þar sem hann tók farsíma og bíllykla af henni og þvingaði hana til þess að veita sér munnmök og sleikja á sér punginn. Að þessu loknu meinaði ákærði A för og skipaði henni að koma með sér í bifreiðina [...], sem ákærði síðan ók um höfuðborgarsvæðið, uns hann ók henni að lögreglustöðinni við Dalveg í Kópavogi þar sem hann hleypti henni út um kl. 17:40, en þá hafði A verið svipt frelsi sínu í tæpar 6 klukkustundir.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  

 

4.    Fyrir brot í nánu sambandi, með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæruliðum 1 til 3 ógnað heilsu og velferð þáverandi maka síns, A, með ítrekuðu og alvarlegu ofbeldi og nauðung sem stóð yfir í langan tíma.

Telst þetta varða við 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

 

5.    Fyrir blygðunarsemis- og barnaverndarlagabrot og brot í nánu sambandi, með því að hafa ítrekað á tímabilinu 31. desember 2015 til 31. janúar 2016 horft á klámmyndir og fróað sér í viðurvist B, sonar síns, sem þá var [...] ára gamall. Með þessari háttsemi særði ákærði blygðunarsemi barnsins og sýndi af sér ruddalegt og ósiðlegt athæfi gagnvart barninu sem særði það og móðgaði ásamt því að ógna heilsu og velferð barnsins.

Telst þetta varða við 209. gr. og 218. gr. b.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

 

6.    Fyrir brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa ítrekað á tímabilinu 8. mars til 22. apríl hringt í símanúmerið [...], sem A hafði til umráða á fyrrgreindu tímabili, þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við hana með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 4. mars 2016 og úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í máli R-[...]/2016 frá 10. mars sama ár.

Telst þetta varða við 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

7.    Fyrir brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa ítrekað eða í allt að 848 skipti á tímabilinu 23. apríl til 13. maí hringt í símanúmerið [...], sem A hafði til umráða á fyrrgreindu tímabili, þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við hana með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem getið er í ákærulið 6.

Telst þetta varða við 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

8.    Fyrir brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa ítrekað eða í allt að 102 skipti á tímabilinu 1. júní til 1. september hringt í símanúmerin [...] og [...] og sent 64 sms skilaboð á sama tímabili í sömu símanúmer, sem A hafði til umráða á fyrrgreindu tímabili, þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við hana með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem getið er í ákærulið 6.

Telst þetta varða við 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

9.    Fyrir brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa mánudaginn 9. maí nálgast A og son þeirra C fyrir utan kvennaathvarfið við [...] í Reykjavík, gefið sig á tal við A og tekið utan um hana, þrátt fyrir að honum væri bannað að koma í námunda við þau bæði eða nálgast þau á almannafæri með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem getið er í ákærulið 6.

Telst þetta varða við 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

10.            Fyrir brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa fimmtudaginn 12. maí veitt A eftirför á bifreiðastæði við Hótel Nordica við Suðurlandsbraut í Reykjavík, nálgast hana og gert tilraun til að opna dyr bifreiðarinnar [...] sem A ók, þrátt fyrir að honum væri bannað að koma í námunda við hana eða nálgast á almannafæri með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem getið er í ákærulið 6.

Telst þetta varða við 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

11.            Fyrir brot gegn lögum um fjarskipti, með því að hafa látið þjónustuaðila koma fyrir  eftirfararbúnaði og GPS staðsetningartæki af gerðinni Scope í bifreiðinni [...] í ólögmætum tilgangi og án vitundar umráðamanns bifreiðarinnar, A, í þeim tilgangi að fylgjast með ferðum hennar á tímabilinu 22. febrúar til og með 16. júní en öllum upplýsingum um akstur bifreiðarinnar var safnað saman á læstan aðgang á vefsvæði, sem ákærði og einn annar aðili höfðu aðgang að.

Telst þetta varða við 5. mgr. 47. gr., sbr. 74. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að GPS staðsetningartæki af gerðinni Scope sem lögregla lagði hald á verði gert upptækt til ríkissjóðs (munur nr. 428593).

 

Einkaréttarkröfur:

Af hálfu A, kt. 000000-0000, er þess krafist að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 3.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 23. febrúar 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. 

 

Af hálfu A, kt. 000000-0000, fyrir hönd ólögráða sonar síns, B, kt. 000000-0000, er þess krafist að ákærða verði gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 1.200.000 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 1. janúar 2014 en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“

 

Ákærði neitar sök samkvæmt ákæruliðum 1-5, en játar að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæruliðum 6-11.

 

Málsatvik

Hér verða aðeins rakin málsatvik er lúta að ákæruliðum 1-5, en látið nægja að skírskota til ákæru og rannsóknargagna að því er aðra ákæruliði varðar.

Hinn 21. janúar 2016 kom brotaþoli, A, á lögreglustöðina í Kópavogi  og óskaði eftir aðstoð vegna endurtekinna ofbeldisbrota af hálfu eiginmanns síns, ákærða í máli þessu, bæði gagnvart henni sjálfri og [...] ára gömlum syni þeirra. Sagði hún ofbeldið hafa staðið yfir í mörg ár, en væri sérlega slæmt nú þar sem eiginmaðurinn væri ölvaður og búinn að vera það samfellt frá áramótum. Lýsti hún ofbeldinu sem andlegu, líkamlegu og kynferðislegu. Í frumskýrslu lögreglunnar er haft eftir brotaþola að ákærði neyði hana til að horfa á klámmyndir með honum og vilji á meðan eiga við hana samfarir eða að hún veiti honum munnmök, stundum oft á dag, gegn vilja brotaþola. Hann gangi einnig um nakinn og frói sér á meðan hann horfi á klámmyndir og yfir hana þegar hún fari í bað. Hafi sonur þeirra oft orðið vitni að þessu háttalagi.  Ákærði hafi jafnframt lagt hendur á drenginn, rifið í hár hans og sparkað í magann á honum. Brotaþoli óskaði aðstoðar lögreglu og barnaverndaryfirvalda til að komast af heimilinu og var ákveðið að flytja hana, ásamt börnum hennar tveimur, í Kvennaathvarfið.

Brotaþoli kom á ný á lögreglustöð 29. janúar 2016 og lagði þá fram kæru á hendur eiginmanni sínum fyrir ofbeldi gagnvart henni og eldri syni þeirra. Lýsti hún atvikum á sama hátt og hér að ofan. Sérstaklega aðspurð sagði brotaþoli að ákærði hefði ekki lamið hana eða neytt hana til kynmaka, hann ýtti henni frekar með líkama sínum og togaði hönd hennar að getnaðarlimi sínum. Ofbeldið væri meira andlegt, ákærði biðji hana stöðugt um kynlíf og bregðist reiður við er hún neiti honum, allt þar til hún láti undan. Fram kemur í skýrslunni að brotaþoli og ákærði hafi verið saman í tólf ár, en þau fluttu hingað til lands frá [...] árið 2013.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 5. febrúar 2016. Hann sagðist hafa verið búinn að drekka í mánuð. Neitaði hann að hafa beitt konu sína ofbeldi, en kannaðist við að hafa togað í hárið á syni sínum. Hafi það gerst í kjölfar þess að drengurinn hafi verið að hlæja að honum er hann kom nakinn úr baði og gekk um íbúðina. Drengurinn hafi einnig verið að pirra hann. Sagðist hann stundum horfa á klámefni með konu sinni, en taldi að drengurinn hefði ekki séð slíkt þótt ekki væri hægt að útiloka að það hafi gerst. Hann hafnaði ásökunum konunnar um að hann hafi neytt hana til kynmaka.

Þann 23. febrúar komu á lögreglustöðina D og E og skýrðu frá því að vinkona þeirra, brotaþoli í máli þessu, hefði hringt í þau og beðið um aðstoð. Sögðu þau að ákærði væri að ógna henni og héldi henni nauðugri í íbúð ákærða að [...]. Óskuðu þau eftir að lögregla færi að heimili ákærða. Er lögreglan kom á vettvang var íbúðin mannlaus, en skömmu síðar kom sonur ákærða og brotaþola, B, og sagði foreldra sína hafa farið út í búð. Lögreglan ákvað að aka drengnum á lögreglustöð. Á leiðinni þangað hringdi brotaþoli í drenginn og kom hún ásamt ákærða skömmu síðar á lögreglustöðina. Eftir að hafa rætt við brotaþola ákvað lögreglan að handtaka ákærða og vista hann í fangageymslu, en brotaþoli var færður til skoðunar á Neyðarmóttöku LSH.

Daginn eftir lagði brotaþoli fram kæru á hendur ákærða vegna kynferðisbrots og frelsissviptingar. Skýrði hún svo frá að deginum áður, 23. febrúar, hefði hún verið á íslenskunámskeiði í skóla. Þangað hefði ákærði komið, setið um hana og beðið eftir henni á bílaplani. Þegar hún hugðist bakka bíl sínum hafi hann hoppað inn, sest í farþegasætið og sagt henni að keyra að [...], enda þyrftu þau að ræða um að breyta samningi um íbúðina sem þau væru með á leigu. Þegar þangað var komið hafi ákærði tekið af henni símann og talað um að hann langaði í kynlíf. Síðar hafi hann kallað hana inn í herbergi sona þeirra, þar sem hann reyndi að afklæða hana, en hún hafi streist á móti og sagt honum að hún myndi kæra hann fyrir nauðgun. Hafi ákærði þá hætt, en sagt að gott væri ef hún setti typpið á honum í munninn og sleikti á honum punginn. Hún hafi ekki viljað það og reynt að komast undan, en ákærði hafi þá haldið í hár hennar og hnakka og þröngvað henni til munnmaka. Allan tímann hafi hann haldið höfði hennar að limnum, uns hann fékk sáðlát í munn hennar. Eftir þetta hafi sonur þeirra, B, komið heim. Er ákærði fór á baðherbergið kvaðst brotaþoli hafa fengið síma sonar síns lánaðan og sent vini sínum, F, sms-skilaboð, þar sem hún bað um aðstoð vegna þess að ákærði héldi henni nauðugri. Skilaboð þessi er að finna í gögnum málsins og voru þau send úr síma sonarins umræddan dag kl. 14.21 til F. Eru þau rituð á pólsku, en hljóða þannig í íslenskri þýðingu „Gerðu eitthvað hann heldur okkur með valdi ekki skrifa ekki hringja annars tekur hann eftir því að ég hafi skrifað.“

Í sömu skýrslu brotaþola hjá lögreglu er einnig haft eftir henni að ákærði hafi deginum áður, þ.e. 22. febrúar 2016, nauðgað henni í sömu íbúð. Hafi hún farið þangað um hádegið til þess að ræða við hann um leigusamninginn. Þegar þangað kom hafi ákærði sagt að túlkurinn hefði ekki tíma þann dag til að fara yfir leigusamninginn með þeim. Hafi ákærði þá reynt að tala hana til og fá hana til kynmaka. Hafi hún streist á móti þegar ákærði reyndi að toga buxur hennar niður. Hafi ákærði þá sagt að hann væri með svo mikla standpínu að hann ætlaði beint inn. Í kjölfarið hafi hann gripið um hendur hennar, tekið hana úr fötunum, lagt hana á magann og haft við hana samfarir um leggöng. Brotaþoli kvaðst hafa sagt ákærða að hún vildi þetta ekki.

Brotaþoli gaf einnig skýrslu hjá lögreglu 29. febrúar 2016 og greindi þar frá langvarandi ofbeldi af hálfu ákærða. Greindi hún einnig frá því að 15. febrúar hefði hún og ákærði mælt sér mót á fyrrverandi heimili þeirra. Hafi hún átt að láta hann fá bíl þeirra og hafi hann boðið henni í kaffi í íbúðinni. Hafi hann stöðugt verið að biðja hana um að taka saman við sig aftur og spurt hvenær hún ætlaði að leyfa honum að hafa samfarir við hana. Hafi hún svarað honum að svo yrði pottþétt ekki í augnablikinu. Hafi hann þá gengið að henni og byrjað að rífa niður um hana buxurnar. Hafi hún haldið um þær báðum höndum og öskrað og sagt honum að hætta og láta sig í friði. Við þetta hafi nærbuxurnar rifnað. Sagðist hún hafa grátið og þá hafi ákærði látið hana vera. Hafi hann verið reiður á meðan á þessu stóð. Þegar brotaþoli kom í Kvennaathvarfið eftir þetta sagðist hún hafa tekið mynd af nærbuxunum og sent F til að sýna honum hvernig hún hafi komið frá ákærða.

Meðal gagna málsins er skýrsla læknis um skoðun á brotaþola á Neyðarmóttöku LSH að kvöldi 23. febrúar 2016. Frásögn brotaþola af atvikum þann dag og deginum áður er á sama veg og frásögn hennar hjá lögreglu. Þar segir einnig að brotaþoli sé með nýlegan marblett á vinstri framhandlegg, nýlega marbletti á hægri fótlegg og utanvert á mjöðm, svo og ílangt mar á sköflungi vinstri fótleggjar. 

 

Framburður fyrir dómi

Ákærði kannaðist ekki við þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 1. tölulið ákæru. Hann neitaði því að hafa gert tilraun til að nauðga brotaþola og tók fram að hann hafi aldrei beitt konu sína ofbeldi í sambandi þeirra. Þau hafi stundum rifist, en ofbeldi hafi hann aldrei beitt. Aðspurður um rifnar nærbuxur brotaþola, en ljósmynd af þeim liggur frammi í málinu, sagðist hann aðeins hafa séð myndir af þeim í málsskjölum. Brotaþoli hafi örugglega sjálf rifið nærbuxurnar og taldi ákærði að það væri liður í samsæri hennar gegn honum. Hann viðurkenndi að eiga við áfengisvandamál að stríða og drykki oftast í nokkrar vikur þegar hann byrjaði. Eftir langa drykkju væri hann mjög slappur og lægi þá oftast í rúminu eða sæti í sófanum. Ætti hann það til að missa minnið eða fara í „black-out“ eftir langvarandi drykkju.

Að því er varðar 2. tölulið ákærunnar kvaðst ákærði ekki muna nákvæmlega hvort eitthvað kynferðislegt hefði átt sér stað milli hans og eiginkonunnar þennan dag, 22. febrúar 2016, en tók fram að þau hafi oft haft samfarir þegar hún kom í heimsókn til hans, jafnvel eftir að hún var farin frá honum. Hafi það alltaf verið með fullu samþykki hennar. Ákærði var því næst spurður um frekari skýringar á eftirfarandi orðum hans við yfirheyrslu hjá lögreglu 24. febrúar 2016: „Já þá við já höfðum svona samfarir, stunduðum kynlíf, en þetta var svona með samþykki svona okkar beggja. En þetta var alls ekki svona nauðgun, ég spurði um leyfi og hún sagði svona, þetta var svona óljóst svar, en hún var ekki á móti því. [...] Við sátum þarna saman svona fórum að kyssast og ég fór að káfa á henni og hún gerði það sama gagnvart mér og já og svona byrjaði þetta og hún tók alveg þátt í þessu.“ Kvaðst ákærði ekki muna nákvæmlega hvernig þetta gekk fyrir sig, en áréttaði að alltaf hafi samfarirnar verið með hennar samþykki. Tók hann fram að hefði þetta verið nauðgun hefði brotaþoli ekki viljað koma aftur heim til hans. Spurður um áverka á brotaþola og hvort hann hafi haldið fast um hendur hennar í umrætt sinn, sagði hann að það gæti verið, en áverkarnir hafi ekki verið vegna nauðgunar. Ekki kvaðst hann heldur vita af hverju hún var með marga marbletti, en tók fram að þeir stöfuðu örugglega ekki af kynlífi þeirra. Aðspurður hvers vegna brotaþoli dveldi í Kvennaathvarfinu sagði ákærði að það hafi verið skipulagt af brotaþola til þess að hún gæti flutt frá honum og fengið félagslegt íbúðarhúsnæði. Þá hafi hún einnig fengið B, son þeirra, til þess að hlæja að honum og pirra hann. Því hafi hann tekið í eyrað á drengnum og togað í hárið á honum. 

Ákærði var því næst spurður um atvik að baki 3. tölulið ákærunnar. Skýrði hann svo frá að brotaþoli hefði viljað hitta hann og þess vegna hefði hann komið í skólann 23. febrúar. Vinur hans hefði ekið honum þangað. Í sömu andrá og brotaþoli keyrði úr bílastæðinu hafi hún séð hann og opnað bílhurðina fyrir honum. Kvaðst ákærði þá hafa spurt brotaþola um leigusamninginn og hafi hún sagt að þau skyldu ganga í að breyta honum.

Þegar á [...] var komið hafi brotaþoli lagt bílnum og þau farið inn. Ákærði sagðist hafa lagað kaffi, en nokkrum mínútum síðar hafi sonur þeirra, B, komið heim úr skólanum, eða upp úr kl. 13.00. Ákærði neitaði því að hafa tekið símann af brotaþola, hann hafi legið á borðinu, en vel gæti verið að hann hafi skoðað hann. Hún hafi líka stundum skoðað símann hans. Ákærði neitaði einnig að hafa varnað því að brotaþoli kæmist út og tók fram að dyrnar hafi verið ólæstar. Henni hafi verið frjálst að fara ef hún hefði óskað eftir því. Þá neitaði ákærði því að nokkuð kynferðislegt hefði gerst milli þeirra þennan dag. Sérstaklega spurður um hvort ákærði hafi látið brotaþola sleikja á honum punginn neitaði hann því einnig.

Eftir að þau yfirgáfu íbúðina sagði ákærði að þau hafi farið á leigumiðlunina til að gera nafnabreytingu á leigusamningnum. Taldi hann að þá hafi klukkan verið um þrjú. B hafi ekki viljað koma með, hann hafi frekar viljað vera hjá vini sínum. Spurður um sms-skeyti frá brotaþola, þar sem hún biður um hjálp, sagðist ákærði ekkert vita um það annað en að D hafi farið á lögreglustöðina og tilkynnt um hvarf A. Þess vegna hafi þau farið á lögreglustöðina. Hins vegar hafi brotaþoli gert ýmislegt til þess að losna úr sambandi þeirra og verið gæti að hún hafi sent sms-skeytið úr síma B í þeim tilgangi. Hafi það verið skipulagt af brotaþola og D til þess að gera þetta trúverðugra. Brotaþoli hafi viljað komast í nýtt samband, þrátt fyrir að hann bæði hana ítrekað um að hætta við slíkt, enda ættu þau saman tvö börn. Sérstaklega aðspurður sagði ákærði að brotaþoli hafi farið með honum í íbúðina og síðar í leigumiðlunina af fúsum og frjálsum vilja. Hann neitaði því staðfastlega að þau hafi haft kynmök þennan dag.  

Ákærði kannaðist ekki við að hafa verið að fróa sér svo sonur hans sæi til, eins og honum er gefið að sök í 5. tölulið ákærunnar. Hins vegar sagði hann að verið gæti að hann hafi setið á nærbuxum í sófanum, en neitaði því að hafa alltaf verið að „hrista“ typpið á sér, eins og sonur hans haldi fram. 

Brotaþoli, A, var fyrst spurð um atvik að baki 1. ákærulið. Sagðist hún á þessum tíma hafa búið í Kvennaathvarfinu, en hún hafi komið í íbúð ákærða 15. febrúar 2016, þar sem hann hafi alltaf verið að finna tilefni til þess að hún heimsækti sig vegna fyrirhugaðrar  nafnabreytingar á húsaleigusamningnum. Kvaðst hún líka hafa vorkennt honum. Í umrætt sinn hafi hún staðið við eldavélina þegar ákærði kom að henni og reyndi að toga af henni buxurnar og hafa við hana samfarir. Hafi hún streist á móti og við það hafi nærbuxur hennar rifnað. Eftir það hafi hún flúið úr íbúðinni. Aðspurð kvaðst hún hafa sagt sínum nánustu frá atvikinu, auk þess sem hún sendi vini sínum, F, skilaboð og ljósmynd af rifnum nærbuxum sínum sama dag. Sagðist hún þess fullviss að ákærði hafi ætlað að nauðga henni í umrætt sinn. 

Spurð um atvik samkvæmt 2. tölulið ákærunnar sagði brotaþoli að hún hafi komið á heimili ákærða þar sem til stóð að breyta leigusamningi um íbúðina. Líklega hafi það þó aðeins verið yfirvarp af hálfu ákærða, enda hafi hann strax sagt við hana er þangað var komið að þau færu ekki á leigumiðlunina þann dag. Þess í stað hafi ákærði talað um að langt væri frá því að hann hefði haft samfarir við konu. Kvaðst hún hafa sagt honum að hún vildi ekki kynmök, en ákærði hafi haft svo mikla stjórn yfir henni að hún taldi það skyldu að verða við ósk hans. Hafi ákærði klætt hana úr fötunum og haldið um hendur hennar á meðan á samförum stóð. Eftir þetta kvaðst brotaþoli hafa ákveðið að skrifa hvorki undir breytingu á leigusamningi né svara nokkrum símtölum frá ákærða. Daginn eftir hafi það þó breyst er ákærði kom í skólann. Aðspurð sagðist brotaþoli hafa sagt ákærða skýrt að hún vildi ekki eiga við hann kynmök umrætt sinn.

Að því er varðar 3. ákærulið kvaðst brotaþoli hafa verið í skólanum þennan dag. Hafi ákærði reynt að hafa símasamband við hana, en hún ekki svarað. Í frímínútum hafi hún tekið eftir honum á bílastæðinu og orðið hrædd. Kennarinn hennar hafi líka séð að henni var brugðið. Þegar skóla var lokið, um tólfleytið, hafi ákærði komist inn í bíl hennar á bílastæðinu og hafi henni þá orðið ljóst hvað myndi gerast. Hafi þau ekið að [...] og hafi ákærði þar talað um að breyta þyrfti leigusamningnum. Kvaðst hún alls ekki hafa farið sjálfviljug í íbúð ákærða. Ákærði hafi síðan lokað krakkana inni í herbergi og beðið hana um að klippa sig, sem hún gerði. Að því loknu hafi hann farið í bað. Eftir það hefði ákærði reynt að hafa við hana samfarir, en hún hafi sagt honum að hún leyfði það ekki, og ef hann héldi áfram myndi hún kæra hann fyrir nauðgun. Ákærði hefði þá neytt hana til að fróa sér og sleikja á honum punginn, uns hann fékk sáðlát. Kvaðst hún hafa sagt ákærða að hún vildi þetta ekki, en ákærði hafi haldið henni.

Aðspurð kvaðst brotaþoli ekki hafa reynt að kalla eftir aðstoð þegar komið var í íbúðina og taldi að það hefði verið þýðingarlaust. Ákærði hefði líklega skemmt síma hennar ef hann sæi hana hringja. Brotaþoli var þá spurð um skilaboð sem send voru úr síma B, sonar hennar, til F. Sagði hún að ákærði hafi þá verið búinn að taka af henni síma hennar. Því hafi hún notað síma sonarins þegar hann kom heim um tvöleytið og þegar ákærði fór í bað. Brotaþoli kvaðst skýrt hafa látið það í ljós við ákærða að hún vildi fara úr húsinu, en hann hafi neitað því og sagt að þau yrðu að ganga frá nýjum leigusamningi.

Fram kom í máli brotaþola að hún og ákærði hefðu farið á nokkra staði eftir að hafa yfirgefið íbúðina, þ. á m. í leigumiðlunina. Spurð hvort henni hafi ekki dottið í hug að flýja þá frá ákærða sagði brotaþoli að hún hafi ekki reynt það. Hún sagðist ekki hafa óttast um líf sitt, en hún hafi verið hrædd um að ákærði lemdi hana.

Brotaþoli var loks spurð um atvik að baki 5. tölulið ákærunnar. Sagði hún það oft hafa gerst að B hafi orðið vitni að því er ákærði var að horfa á klámmyndir og fróa sér. Hafi hún oft gert athugasemdir við þetta háttalag, en ákærði hafi svarað því til að B ætti ekki að vera þarna. Kvaðst hann mega gera þetta í sinni íbúð.

Fram kom í máli brotaþola að hjónabandi hennar og ákærða hafi lokið í desember 2016.

Sonur ákærða og brotaþola, B, var yfirheyrður í Barnahúsi 8. febrúar 2016. Var hann [...] ára gamall, fæddur í [...] árið 2006.

Drengurinn skýrði frá því að pabbi hans og mamma rifust stundum og öskruðu á hvort annað, en aldrei lemdu þau hvort annað. Ástandið á heimilinu væri ekki gott þegar pabbi hans væri að drekka. Segði pabbi hans þá honum að fara inn í herbergið sitt með bróður sínum, en mamma hans ætti að vera frammi hjá honum. Úr herberginu gæti hann heyrt hljóð frá sjónvarpinu og væri pabbi hans þá að horfa á klámmyndir. Oft hafi hann sjálfur séð slíkar myndir. Stundum sagðist hann ekki vilja fara inn í herbergi sitt og hafi hann þá séð pabba sinn hrista typpið á sér í sófastólnum. Hafi pabbi hans oft gert þetta svo hann sæi, og geri þetta alltaf þegar hann sé fullur. Þá sagðist hann hafa heyrt pabba sinn segja við mömmu hans að hún ætti að sleikja á honum typpið, en hún segi þá að hún vilji það ekki. Reyni hann þá að hjálpa mömmu sinni með því að koma fram, en við það verði pabbi hans reiður.

Aðspurður sagði drengurinn að alltaf þegar hann pirraði pabba sinn togaði pabbi hans í hárið á honum og væri það svolítið vont. Hann hefði líka einu sinni sparkað í hann, en mundi ekki hvar. Hann hefði þó ekki meitt sig.

Vitnið G, sálfræðingur hjá barnavernd í Kópavogi, kvaðst hafa rætt við B að ósk lögreglunnar 21. janúar 2016. Hafi samtalið farið fram í skóla drengsins með aðstoð túlks. Sagði hún að drengurinn hafi lýst alvarlegu ástandi á heimili sínu. Faðir hans sæti að drykkju, horfði á klámmyndir og fróaði sér. Þá hafi drengurinn heyrt pabba sinn biðja mömmu hans um að sleikja á sér typpið og hafi hann séð slíkt.

Vitnið H, dómtúlkur, sagðist hafa túlkað fyrir brotaþola og ákærða í nokkur skipti, þ. á m. þegar þau fóru í leigumiðlunina 23. febrúar 2016. Fannst henni þá sem brotaþola liði illa, væri óstyrk og ólík sjálfri sér. Ekki kvaðst vitnið minnast þess að ákærði hafi sagt sér frá því að hann hafi nauðgað brotaþola. Borin var undir vitnið samantekt úr skýrslu þess hjá lögreglu 13. júní 2016, og taldi vitnið þar rétt eftir sér haft.

Vitnið I sagðist búa í sama húsi og ákærði og áður brotaþoli, að [...] í Kópavogi. Ekki sagðist hún oft hafa rætt við brotaþola, enda hafi þær ekki verið nánar vinkonur. Hins vegar hafi henni oft fundist brotaþoli vera óróleg og undir álagi. Hafi hún vitað að vandamál væru í hjónabandi hennar og ákærða. Ákærði væri ekki góður við brotaþola og son þeirra þegar hann væri undir áhrifum áfengis og væri brotaþoli þá mjög hrædd við hann. Nefndi hún að brotaþoli hefði einu sinni verið svo hrædd við hann að hún hafi gist á heimili vitnisins. Hafi ákærði oft verið drukkinn í langan tíma og kvaðst vitnið þá sjálft hafa verið hrætt við hann, svo og börnin hennar.

Vitnið E kvaðst þekkja brotaþola og vera vinur F. Sagði hann að D hafi hringt í sig að ósk F og hafi F sagt D í símann að ákærði héldi brotaþola gegn vilja hennar. Þar sem hvorki D né F tali ensku hafi hann farið til lögreglunnar með D og óskað aðstoðar hennar vegna málsins. Ekki kvaðst vitnið þekkja neitt til ákærða, hann hafi þó einu sinni komið á verkstæðið þar sem hann vinni, og hafi þá verið að leita að F.

Vitnið D sagði að hún og brotaþoli væru vinkonur, en kvaðst ekkert þekkja ákærða. Hún greindi frá því að 23. febrúar 2016 hefði F hringt í hana og beðið hana um að aðstoða sig við að tilkynna lögreglu um hvarf brotaþola, en sjálfur kvaðst F ekki geta haft samband við hana. Kvaðst hún hafa reynt að ná símasambandi við brotaþola, en án árangurs. Vegna tungumálaerfiðleika hafi hún hringt í E, vin sinn, og beðið hann um að koma með sér á lögreglustöðina og hafi hann orðið við því. Hún sagðist ekki hafa séð áverka á brotaþola.

Aðspurð hvort brotaþoli hafi síðar greint henni frá því hvað gerst hefði þennan dag játti vitnið því, en kvaðst ekki muna það til að segja frá því nú. Vildi hún heldur vísa til framburðar síns hjá lögreglu. Borin var síðan undir vitnið frásögn þess í samantekt lögreglunnar 1. mars 2016, þar sem vitnið sagði að brotaþoli hefði tjáð sér að ákærði hefði reynt að nauðga henni 23. febrúar og nauðgað henni deginum áður, og sagði vitnið að rétt væri þar eftir sér haft. 

Vitnið F kvaðst hafa kynnst brotaþola á íslenskunámskeiði og upp úr því hafi þau orðið vinir. Seinna hafi brotaþoli hringt í hann og beðið um aðstoð þar sem eiginmaður hennar hefði nauðgað henni. Áður hefði bæði hún og B, sonur brotaþola, rætt við vitnið um mikla drykkju ákærða og líkamlegt ofbeldi af hans hálfu. Einnig hefði brotaþoli tjáð vitninu að hún óttaðist ákærða. Kvaðst vitnið strax hafa skynjað að brotaþola leið ekki vel. Ekki kvaðst vitnið hafa séð áverka á brotaþola, en hún notaði andlitsfarða.

F var að því spurður hvort hann hafi fengið senda ljósmynd í síma sinn frá brotaþola 15. febrúar 2016, þar sem sjá má rifnar nærbuxur brotaþola og kynfæri hennar. Játti hann því og sagði að brotaþoli hefði sagt sér að hún og ákærði hefðu verið að rífast og að ákærði hefði ætlað að nauðga henni. Brotaþoli þekkti engan annan hér á landi og því hefði hún sent honum ljósmyndina til að sýna honum hvernig ákærði kæmi fram við hana. Tók vitnið fram að hvorki hann né brotaþoli hefðu getað farið til lögreglunnar vegna tungumálaörðugleika. Aðspurt sagði vitnið að í síma hans væri nafn A skráð sem Ax. 

F kannaðist við að hafa móttekið sms-skilaboð úr síma B 23. febrúar 2016, þar sem fram komi að ákærði haldi brotaþola og B föstum á heimilinu og megi hann ekki hringja til baka. Í fyrstu sagðist hann ekki fyllilega hafa skilið skilaboðin, en hafi síðan áttað sig á því að eitthvað amaði að brotaþola. Hafi hann þá hringt í D og beðið hana um að hafa samband við lögreglu. 

Aðspurt sagði vitnið að hann og brotaþoli væru kærustupar í dag og hefðu þau hafið sambúð á heimili hans eftir skilnað brotaþola og ákærða. Vitnið var því næst spurt um samband hans og brotaþola 15. febrúar 2016 og sagði vitnið að þau hefðu þá aðeins verið góðir vinir.

Vitnið J sagði að brotaþoli hefði verið nemandi hennar í tungumálaskólanum. Hún kvaðst muna eftir því að ákærði hafi komið í skólann og viljað hitta brotaþola. Hafi hann verið mjög ógnandi og því hafi hún ekki hleypt honum inn í kennslustofuna. Brotaþoli hafi greinilega verið mjög hrædd við manninn og hafi hún falið sig. Taldi vitnið að ákærði hafi komið tvisvar þennan dag til þess að hitta brotaþola og hafi vitnið þurft að vísa ákærða úr skólanum. Borin var undir vitnið samantekt úr skýrslu þess hjá lögreglunni 26. febrúar 2016 og staðfesti vitnið að þar væri rétt eftir sér haft. 

Vitnið K lögreglumaður kvaðst hafa komið að máli þessu 23. febrúar 2016 þegar D og E komu á lögreglustöðina og óskuðu aðstoðar. Lýsti hann líðan og ástandi brotaþola þannig að hún hafi verið dofin og í einhvers konar sjokki. Ákærði hafi hins vegar virst í jafnvægi.

Vitnið L lögreglumaður ræddi við brotaþola síðdegis 23. febrúar 2016. Sagði hann að brotaþoli hafi skýrt frá því að þennan dag hafi hún verið frelsissvipt og orðið fyrir kynferðisofbeldi, m.a. nauðgun, af hálfu eiginmanns síns. Hafi hún sérstaklega nefnt að ákærði hafi neytt hana til munnmaka. Einnig hafi hún nefnt að eiginmaðurinn hefði deginum áður neytt hana til kynmaka gegn hennar vilja. Í kjölfar þessa hafi ákærði verið handtekinn og vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins, en brotaþoli fluttur á Neyðarmóttöku til skoðunar. Vitnið gat þess að brotaþoli hafi virst buguð og í ójafnvægi.

Vitnið M læknir kvaðst hafa skoðað brotaþola við komu hennar á Neyðarmóttöku og hafi hún strax skynjað að brotaþoli þyrfti að dvelja í Kvennaathvarfinu. Líðan brotaþola og frásögn hennar hafi gefið slíkt til kynna. Taldi hún að áverkar á brotaþola samræmdust frásögn hennar af atvikum, eins og þeim er lýst í skýrslu læknisins.  

Vitnið N sálfræðingur gaf skýrslu í gegnum síma. Fram kom í máli hennar að brotaþola hafi verið vísað til hennar vegna ofbeldis af hálfu eiginmanns hennar, en brotaþoli hafi þá dvalið í Kvennaathvarfinu. Kvaðst vitnið alls hafa átt nítján viðtöl við brotaþola, á tímabilinu frá 19. febrúar 2016 til 26. janúar 2017. Vitnið sagði að í viðtölum við brotaþola hafi aðallega verið rætt um meint ofbeldi eiginmanns brotaþola og afleiðingar þess. Brotaþoli hafi greint henni frá viðvarandi ofbeldi eiginmannsins í þrettán ár, jafnt andlegu, líkamlegu og kynferðislegu. Hafi brotaþoli verið döpur og dofin og upplifði bæði skömm og sjálfsásökun, ásamt því að hún óttaðist eiginmanninn. Þá hafi brotaþoli greint henni frá kynferðisofbeldi 23. febrúar 2016 og að eiginmaðurinn hafi þá haldið henni fanginni, ásamt syni þeirra, á heimili sínu. Einnig hafi brotaþoli sagt henni frá því að eiginmaðurinn horfði mikið á klám og fróaði sér þá í viðurvist brotaþola og sonar síns. Vitnið staðfesti vottorð sem liggur frammi í málinu, dagsett 19. mars 2018.

Ekki er ástæða til að rekja framburð annarra vitna sem gáfu skýrslu fyrir dómi.

Niðurstaða 

I

Eins og fram er komið neitar ákærði að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruliðum 1-5. Krefst hann aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að einkaréttarkröfum verði vísað frá dómi, en til vara að þær verði lækkaðar verulega. Loks er krafist málsvarnarlauna. Byggist sýknukrafa á því að ósannað sé að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir. Ákærði gengst á hinn bóginn við sakargiftum samkvæmt ákæruliðum 6-11 og krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.

1. töluliður ákæru

Ákærða er samkvæmt þessum lið gefin að sök tilraun til nauðgunar 15. febrúar 2016. Byggir ákæruvaldið á því að leggja beri til grundvallar frásögn brotaþola af atvikum, enda sé hún trúverðug og studd framburði vitna, auk þess sem ljósmyndir af rifnum nærbuxum brotaþola bendi til átaka ákærða og brotaþola umrætt sinn. 

Eins og rakið er hér að framan fór brotaþoli í Kvennaathvarfið, ásamt börnum sínum tveimur, eftir að hafa leitað aðstoðar lögreglu 21. janúar 2016. Í skýrslu sinni hjá lögreglu 29. febrúar sama ár greindi brotaþoli fyrst frá því atviki sem hér er til umfjöllunar, en hafði þá nokkrum dögum áður, 24. febrúar, lagt fram kæru á hendur ákærða vegna meintra kynferðisbrota hans gagnvart henni 22. og 23. febrúar sama ár. Fyrir dómi sagðist brotaþoli hafa heimsótt ákærða umræddan dag vegna fyrirhugaðrar nafnabreytingar á húsaleigusamningi. Einnig kvaðst hún hafa vorkennt honum. Kvaðst hún þess fullviss að ákærði hafi ætlað að nauðga henni. 

Ákærði og brotaþoli eru ein til frásagnar um það sem gerðist umrætt sinn og stendur þar orð gegn orði. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki kannast við þá háttsemi sem honum er gefin að sök og neitaði því að hafa reynt að nauðga konu sinni. Þá kannaðist hann heldur ekki við umrætt atvik í skýrslu sinni hjá lögreglu 24. febrúar 2016. Sagði hann að öll fjölskyldan hefði þennan dag verið að hjálpa bróður hans að þrífa bílskúr í Hafnarfirði, og gætu bæði bróðir hans og eigandi bílskúrsins staðfest það. Ekki verður séð að athugun hafi farið fram á sannleiksgildi þessa. Þá verður ekki framhjá því horft að brotaþoli skýrði fyrst frá atviki þessu í síðari skýrslu sinni hjá lögreglu, 29. febrúar 2016, en hafði ekki greint frá því í kæruskýrslu 24. sama mánaðar. Brotaþoli greindi heldur ekki frá atvikinu í samtali við lækni á neyðarmóttöku LSH 23. febrúar 2016, né í samtölum sínum við sálfræðing, en eins og áður greinir átti sálfræðingur fyrst viðtal við brotaþola 19. febrúar 2016. Frásögn vitnisins H af samtali sínu við ákærða, sem greint er frá í skýrslu vitnisins hjá lögreglu 13. júní 2016, getur ekki ráðið hér úrslitum, enda var þá nokkuð liðið frá atvikinu, auk þess sem ekki verður ráðið af frásögninni að ákærði hafi þá reynt að nauðga brotaþola. Fyrir dómi kvaðst vitnið reyndar ekki muna eftir þessu samtali. Ekki þykir heldur unnt að byggja á framburði vitnisins F fyrir dómi þar sem hann og brotaþoli hafa verið kærustupar um langt skeið og í sambúð frá desember 2016. Loks hafa rifnar nærbuxur brotaþola sem afhentar voru lögreglu nokkru eftir umrætt atvik, svo og ljósmynd af þeim og kynfærum brotaþola, sem send var F 15. febrúar 2016, takmarkað sönnunargildi, þar sem ekki er ljóst að um sömu nærbuxur sé að ræða í báðum tilvikum. 

Samkvæmt framanrituðu þykir slíkur vafi leika á um atvik samkvæmt þessum ákærulið, bæði um meintan verknað og ásetning ákærða, að ekki verður hjá því komist að sýkna hann af þeirri háttsemi sem hann er þar ákærður fyrir.

2. töluliður ákæru

Samkvæmt þessum ákærulið er ákærði sakaður um að hafa nauðgað brotaþola að [...] í Kópavogi 22. febrúar 2016. Byggir ákæruvaldið á því að leggja beri til grundvallar framburð brotaþola um atvik, enda hafi hann verið stöðugur og óbreyttur frá upphafi, jafnt hjá lögreglu og fyrir dómi, sem og á Neyðarmóttöku LSH. Framburður vitnisins D styðji og framburð brotaþola. Þá telur ákæruvaldið framburð ákærða um að brotaþoli hafi samþykkt kynlíf ótrúverðugan í ljósi fyrri framkomu ákærða gagnvart brotaþola, svo og þess að brotaþoli hafði þá þegar flúið heimilið og dvaldi í Kvennaathvarfinu.

Í skýrslu sinni hjá lögreglu 24. febrúar 2016 játaði ákærði að hafa haft kynmök við brotaþola umræddan dag, en hafnaði því alfarið að um nauðgun hafi verið að ræða. Hafi kynmökin verið með fullu samþykki brotaþola. Fyrir dómi kvaðst hann ekki muna nákvæmlega hvernig þetta gekk fyrir sig, en tók fram að þau hafi oft haft samfarir þegar brotaþoli kom í heimsókn til hans, og hafi það ávallt verið með samþykki brotaþola. Þá telur ákærði það rýra trúverðugleika framburðar brotaþola að hún hafi ekki greint lögreglu frá atviki þessu fyrr en tveimur dögum síðar.

Í kæruskýrslu hjá lögreglu 24. febrúar 2016 greindi brotaþoli frá því atviki sem hér er til umfjöllunar. Hafa meginatriði frásagnar hennar verið rakin hér að framan og samrýmist hún lýsingu brotaþola í samantekt læknis sem skoðaði hana á Neyðarmóttöku LSH síðdegis 23. febrúar 2016. Þá kvaðst vitnið D minnast þess að brotaþoli hafi sagt henni að ákærði hafi nauðgað henni þennan dag. Brotaþoli mun hins vegar ekki hafa greint sálfræðingi frá umræddu atviki.

Sannað er að ákærði og brotaþoli höfðu samfarir umrætt sinn, en þau greinir á um hvort það hafi verið með samþykki brotaþola. Ákærði fullyrðir að kynmökin hafi farið fram með samþykki brotaþola, en í skýrslu hans hjá lögreglu er eftir honum haft að brotaþoli hafi gefið „svona óljóst svar, en hún var ekki á móti því.“ Fyrir dómi kvaðst brotaþoli hafa sagt skýrt við ákærða að hún vildi ekki kynmök umrætt sinn, en ákærði hafi haft svo mikla stjórn yfir henni að hún taldi það skyldu sína að verða við ósk hans. Af þessum orðum brotaþola verður ekki annað ráðið en að brotaþoli hafi látið til leiðast og fallist á kynmökin þótt henni hafi verið það óljúft. Alltént verður að teljast ósannað að ákærði hafi haft ásetning til þess að þvinga brotaþola til kynmaka með þeim verknaðaraðferðum sem lýst er í þessum ákærulið. Að því virtu verður ákærði sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er þar gefin að sök.

3. töluliður ákæru

Atvikum að baki þessum ákærulið hefur ítarlega verið lýst hér að framan. Telur ákæruvaldið hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um nauðgun og frelsissviptingu gagnvart brotaþola 23. febrúar 2016 og hafi brotin verið framin af ásetningi. Ákærði neitar sök og mótmælir því að nokkuð kynferðislegt hafi gerst milli hans og brotaþola þennan dag. Jafnframt neitar hann því staðfastlega að hafa frelsissvipt brotaþola.

Eins og rakið er kom ákærði í skólann, þar sem brotaþoli var við íslenskunám, að morgni 23. febrúar 2016. Samkvæmt vætti kennara brotaþola fyrir dómi vildi hann hitta brotaþola og var ógnandi í framkomu. Þurfti kennarinn að vísa ákærða út, en brotaþoli virtist mjög hrædd og faldi sig fyrir honum. Að sögn brotaþola hafði ákærði reynt að hringja í hana um nóttina, en hún ekki svarað. Sagði brotaþoli hjá lögreglu að ástæða þess væri sú að hún hefði daginn áður skipt um símanúmer þar sem hún ætlaði ekki að ræða við ákærða frekar eftir atburði þess dags, þ.e. 22. febrúar 2016. Af framlögðu yfirliti lögreglu um símanotkun ákærða og brotaþola má sjá að ákærði hringdi 33 sinnum í síma brotaþola á tímabilinu frá kl. 02:57 til kl. 11:36, án þess að brotaþoli svaraði. Í skýrslu brotaþola hjá lögreglu kemur fram að skóla lauk kl. 11:35 og hófst þá sú atburðarás sem hér er til umfjöllunar.

Frásögn brotaþola af því sem gerðist, er komið var í íbúð ákærða umrætt sinn og allt þar til þau komu á lögreglustöð síðdegis þennan dag, hefur verið óbreytt og stöðug frá upphafi. Að vísu gætir misræmis í framburði brotaþola fyrir dómi og hjá lögreglu um hvenær ákærði þvingaði brotaþola til munnmaka. Þannig sagði hún hjá lögreglu að ákærði hefði gert það áður en eldri sonur þeirra kom í íbúðina, en fyrir dómi sagði hún að þetta hefði gerst á meðan báðir drengirnir voru í íbúðinni og hefði ákærði lokað þá inni í herbergi. Hefur þetta þó engin áhrif á trúverðugleika framburðar brotaþola og verður hann, gegn neitun ákærða, en með stoð í framburði vitna um ástand og líðan brotaþola fyrir og eftir brot ákærða, lagður til grundvallar sem sönnun fyrir sekt ákærða. Vísast í þessu efni til framburðar kennara brotaþola, lögreglumanna sem komu að frumrannsókn málsins, skýrslu og framburðar læknis á Neyðarmóttöku LSH, ásamt vottorði og framburði sálfræðings er annaðist brotaþola. Samkvæmt því verður ákærði sakfelldur fyrir að hafa í umrætt sinn, gegn vilja brotaþola, þvingað hana með ofbeldi til að veita sér munnmök og sleikja á honum punginn. Varðar háttsemi þessi við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Samkvæmt ákæru er háttsemi ákærða umræddan dag einnig talin varða við 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga, en samkvæmt því ákvæði skal hver sem sviptir annan mann frelsi sínu sæta fangelsi allt að fjórum árum. Byggir ákæruvaldið á því að ákærði hafi hindrað brotaþola í því að hún kæmist frá honum allt frá hádegi til kl. 17:40 og því hafi brotaþoli í raun verið svipt frelsi þann tíma. Þessu til stuðnings vísar ákæruvaldið til framburðar brotaþola fyrir dómi og hjá lögreglu. Ákærði neitar þessu og mótmælir því að hann hafi á nokkurn hátt hindrað brotaþola í að yfirgefa íbúðina eða hann síðar þennan sama dag. Íbúðin hafi verið ólæst og hafi þau síðan ekið saman á ýmsa staði, þar sem brotaþola hafi verið frjálst að yfirgefa bílinn hafi hún kosið það.

Í málinu liggur fyrir að ákærði settist í framsætið í bíl brotaþola í þann mund er hún var að aka frá skólanum skömmu fyrir hádegið 23. febrúar 2016. Þaðan lá leið þeirra í íbúð ákærða. Nokkru eftir að þangað var komið kom eldri sonur þeirra í íbúðina og dvaldi þar allt til þess er ákærði og brotaþoli yfirgáfu íbúðina um kl. 15:00, en sonur þeirra fór þá til vinar síns. Fram er komið að á þeim tíma er þau dvöldu í íbúðinni fór ákærði tvisvar á baðherbergið og í fyrra skiptið í bað. Eftir þetta óku þau um, m.a. á leigumiðlun, þar sem þau gengu frá nafnabreytingu á leigusamningi um íbúðina. Nutu þau þar aðstoðar túlks, vitnisins H. Fyrir dómi sagði túlkurinn að henni hafi virst sem brotaþola liði illa, hún hafi verið óstyrk og ólík sjálfri sér. Frá leigumiðluninni var síðan ekið um, m.a. á bílasölu og í Hagkaup í Garðabæ, þar sem þau hittu túlkinn.

Fyrir dómi sagði brotaþoli að ákærði hafi tekið af henni símann þegar í íbúðina var komið og neitað henni um að yfirgefa húsið. Kvaðst hún heldur ekki hafa þorað að flýja frá ákærða, hvorki er hún dvaldi í íbúðinni, né síðar um daginn. Hafi hún óttast að ákærði lemdi hana.

Dómurinn fellst ekki á að sú háttsemi sem hér að framan er lýst geti talist frelsissvipting í skilningi 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga. Er þá sérstaklega til þess horft að ekki er sýnt að brotaþola hafi með beinum eða óbeinum hætti verið haldið fanginni eða á þann hátt að henni væri illmögulegt að koma sér úr þeim aðstæðum sem þar er lýst og yfirgefa ákærða. Þvert á móti verður ekki annað ályktað en að til þess hafi gefist fjölmörg tækifæri. Að þessu gættu verður ákærði sýknaður af því að hafa í umrætt sinn svipt brotaþola frelsi sínu.

4. töluliður ákæru

Í þessum lið er ákærða gefið að sök brot í nánu sambandi, með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæruliðum 1 til 3 ógnað heilsu og velferð þáverandi maka síns með ítrekuðu og alvarlegu ofbeldi og nauðung sem stóð yfir í langan tíma. Er brot þetta talið varða við 218. gr. b. í almennum hegningarlögum.

Með lögum nr. 23/2016, um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940, var 218. gr. b. skeytt við gildandi hegningarlög. Lögin tóku gildi 5. apríl 2016 og því nokkru eftir þau atvik sem ákært er fyrir samkvæmt 1. til 3. tölulið ákæru. Verður ákærða þar af leiðandi ekki gerð refsing á grundvelli ákvæðisins, sbr. 1. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og hann því sýknaður af þeirri háttsemi er í þessum ákærulið greinir.

5. töluliður ákæru

Eins og áður greinir var sonur ákærða og brotaþola, B yfirheyrður í Barnahúsi 8. febrúar 2016. Drengurinn var þá [...] ára gamall og greindi frá því að ákærði, faðir hans, væri oft að horfa á klámmyndir og hristi þá á sér typpið í sófastólnum. Sagðist drengurinn oft hafa séð þetta og gerði pabbi hans þetta alltaf þegar hann væri fullur. Vitnið G, sálfræðingur hjá barnavernd Kópavogs, sagði fyrir dómi að drengurinn hefði einnig sagt henni frá þessu í samtali þeirra 21. janúar 2016. Brotaþoli hefur jafnframt ítrekað, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, en einnig í samtölum við N sálfræðing, greint frá því að ákærði horfi á klámmyndir og frói sér þá að henni og drengnum ásjáandi. Er framburður brotaþola og sonar hennar trúverðugur og engin efni til að draga hann í efa. Gegn neitun ákærða verður hann lagður til grundvallar sem sönnun fyrir sekt ákærða. Með háttsemi sinni hefur ákærði sært blygðunarsemi drengsins og sýnt af sér ruddalegt og ósiðlegt athæfi.

Við aðalmeðferð málsins benti ákærði á að bæði brotaþoli og synir hans hefðu flutt í Kvennaathvarfið 21. janúar 2016 og því stæðist ekki að hann hefði sýnt af sér þá háttsemi sem þessi ákæruliður lýtur að til 31. janúar það ár. Ábending þessi á við rök að styðjast og verður ákærði því sakfelldur fyrir þessa háttsemi frá 31. desember 2015 til 21. janúar 2016. Telst brot hans varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Af sömu ástæðu og um er fjallað hér að ofan undir 4. tölulið verður ákærði á hinn bóginn sýknaður af broti gegn 218. gr. b. almennra hegningarlaga.

II

Samkvæmt framanrituðu hefur ákærði verið fundinn sekur um nauðgun gegn þáverandi eiginkonu sinni 23. febrúar 2016 og blygðunarsemis- og barnaverndarlagabrot gagnvart syni sínum á tímabilinu frá 31. desember 2015 til 21. janúar 2016. Að auki hefur hann játað að hafa ítrekað gerst sekur um ótal brot gegn nálgunarbanni samkvæmt töluliðum 6 til 10  í ákæru, og eru þau brot rétt heimfærð til 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Loks hefur hann játað brot gegn lögum um fjarskipti, sbr. 11. tölulið ákæru, og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða.

Ákærði er fæddur í [...] árið 1980. Framlagt sakavottorð frá sakaskrá ríkisins hefur ekki áhrif við ákvörðun refsingar hans. Vegna óskýrleika þykir ekki unnt að líta til sakavottorðs hans frá sakaskrá ríkisins í [...], en ákæruvaldið lagði það fram við upphaf aðalmeðferðar  málsins. Með hliðsjón af öllu framangreindu, sbr. og 1. og 8. tl. 1. mgr. og 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 24. febrúar 2016 til 4. mars sama ár. Þá er með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. sömu laga fallist á kröfu ákæruvaldsins um upptöku á GPS- staðsetningartæki af gerðinni Scope, sem lögreglna lagði hald á.

Af hálfu brotaþola, A, er krafist miskabóta að fjárhæð 3.000.000 króna. Brot ákærða voru til þess fallin að valda brotaþola andlegri vanlíðan og ótta. Vísast um það til vættis sálfræðings brotaþola fyrir dómi, svo og vottorðs sama sálfræðings, en þar kemur fram að brotaþoli var í 19 viðtölum á tímabilinu frá 19. febrúar 2016 til 26. janúar 2017. Enn fremur er vísað til skýrslu læknis er skoðaði brotaþola á Neyðarmóttöku LSH 23. febrúar 2016. Samkvæmt því, og með vísan til b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur sem þykja hæfilega ákveðnar 1.600.000 krónur, auk vaxta eins og greinir í dómsorði.

Sami brotaþoli hefur einnig krafist miskabóta að fjárhæð 1.200.000 krónur fyrir hönd ólögráða sonar síns, B. Þar sem ekki nýtur við neinna sérfræðigagna um að drengurinn hafi hlotið skaða eða andlega vanlíðan af háttsemi ákærða er krafa þessi vanreifuð. Óhjákvæmilegt er því að vísa henni frá dómi.

Þar sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir sum þeirra brota sem ákæra lýtur að, en sýknaður af öðrum, verður honum, með vísan til 2. málsliðar 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 68. gr. laga nr. 49/2016, gert að greiða helming alls sakarkostnaðar málsins, en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði. Samkvæmt framlögðum reikningum nemur kostnaður vegna rannsóknar lögreglu og vottorðs sálfræðings alls 580.245 krónum, og verður ákærða gert að greiða helming þeirrar fjárhæðar. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjólfs Eyvindssonar lögmanns, eru hæfilega ákveðin 1.370.200 krónur og verður ákærða einnig gert að greiða helming þeirrar fjárhæðar. Þá verður ákærða gert að greiða helming þóknunar skipaðs réttargæslumanns A, Sigurðar Freys Sigurðssonar lögmanns, sem í heild ákveðst 1.623.160 krónur, auk helmings þóknunar réttargæslumanns sama brotaþola á rannsóknarstigi málsins, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns, 77.812 krónur. Loks verður ákærði dæmdur til að greiða helming þóknunar réttargæslumanns B, Jóhönnu Sigurjónsdóttur lögmanns, sem í heild ákveðst 737.800 krónur.

Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í fjögur ár. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 24. febrúar 2016 til 4. mars 2016.

Upptækt skal gert GPS- staðsetningartæki af gerðinni Scope.

Ákærði greiði A 1.600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. febrúar 2016 til 18. desember 2017, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Vísað er frá dómi einkaréttarkröfu A, fyrir hönd ólögráða sonar hennar, B. 

Ákærði greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar lögmanns, sem í heild nemur 1.370.200 krónum, helming þóknunar til réttargæslumanna A, Sigurðar Freys Sigurðssonar lögmanns, sem í heild nemur 1.623.160 krónum og 77.812 krónum til Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns, auk helmings þóknunar til réttargæslumanns B, Jóhönnu Sigurjónsdóttur lögmanns, sem í heild nemur 737.800 krónum. Þá greiði ákærði helming annars sakarkostnaðar, sem alls nemur 580.245 krónum. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.

 

Ingimundur Einarsson