• Lykilorð:
  • Fasteignakaup
  • Greiðsla

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 21. mars 2018 í máli nr. E-1137/2017:

 

Sigurður Jóhannsson

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

gegn

Skattalausnum ehf.

(Kolbrún Garðarsdóttir hdl.)

 

Mál þetta, sem þingfest var 15. nóvember 2017 og dómtekið 13. mars sl., var höfðað með stefnu, birtri 8. nóvember 2017, á hendur Skattalausnum ehf., kt. 000000-0000, Holtabyggð 6, 220 Hafnarfirði.

            Dómkröfur stefnanda eru að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 2.406.183 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 3.195.388 krónum frá 1. júlí 2017 til 25. júlí 2017 en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.  Einnig er krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts að mati dómsins.

            Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá gerir stefndi þá kröfu í greinargerð að stefnanda verði gert skylt með dómi að afhenda stefnda afsal af sumarhúsinu að Svínhaga R-11, fnr. 230-6249, innan 15 daga frá dómsuppsögu að viðlögðum 25.000 króna dagsektum frá þeim tíma og þar til afsal fer fram. Þá er krafist málskostnaðar.

Aðalmeðferð fór fram þann 13. mars sl. og var málið dómtekið að henni lokinni.

Málsatvik.

Fjölskyldutengsl tengja stefnanda og fyrirsvarsmann stefnda, Halldór Jörgen Gunnarsson. Samkvæmt frásögn aðila fyrir dóminum hafði stefnandi keypt sumarbústað að Svínhaga R-11 í Rangárþingi ytra, fastanúmer 230-6249, áður en samskipti sem deilt er um í þessu máli áttu sér stað. Gekk fasteignasalan Miðbær frá skjalagerð vegna kaupanna. Er ekki ágreiningur um að fyrirsvarsmaður stefnda, Halldór Jörgen Gunnarsson, hafi verið með stefnanda við gerð þess kaupsamnings.

Þann 6. nóvember 2015 gerðu aðilar með sér kaupsamning þar sem stefnandi seldi stefnda sumarhús að Svínhaga R-11 í Rangárþingi ytra, fastanúmer 230-6249, landnúmer 1908050, 9.600 fm. að stærð, ásamt öllu því er eign þeirri fylgdi og fylgja bar. Söluverð bústaðarins var 14.000.000 króna og skyldi greiðast þannig: Við undirritun kaupsamnings 1.000.000 króna. Við undirritun greitt inn á vangoldið lán sem á húsinu hvílir, 290.058 krónur. Þann 1. apríl 2016 709.942 krónur. Þann 1. júlí 2017 3.195.388 krónur og við kaupsamning að yfirtaka lán frá Stöfum lífeyrissjóði að fjárhæð 8.041.102 krónur. Þá segir að afsal skuli gefið út þegar allar greiðslur samkvæmt kaupsamningi hafi verið inntar af hendi og kaupandi að öðru leyti fullnægt skyldum sínum samkvæmt samningi þessum. Er kaupsamningurinn undirritaður af aðilum.

Í gögnum málsins er tölvuskeyti frá 17. desember 2013 þar sem Halldór Gunnarsson sendi á fasteignasöluna Miðbæ skattframtöl ásamt staðgreiðsluyfirliti ársins 2013. Daginn eftir sendi Halldór tölvupóst á starfsmann fasteignasölunnar og óskaði eftir því að hann yrði látinn vita ef það dygði ekki. Þann 27. desember 2013 er tölvupóstur milli sömu aðila þar sem rætt er um launaseðla. Þá liggur fyrir tölvupóstur frá 5. janúar 2015 þar sem starfsmaður fasteignasölunnar spyr Halldór hvort hann geti sent aftur gögn á Stafi lífeyrissjóð vegna Sigurðar til að klára Svínhagamálið.

Í gögnum málsins liggur fyrir afrit kæru til yfirskattanefndar, dagsett 22. júní 2011, óundirrituð, þar sem sektargreiðsla ríkisskattstjóra á hendur Borgarnisti ehf., kt. 000000-0000, er kærð. Einnig liggur fyrir afrit af kæru til yfirskattanefndar, dagsett 22. júní 2011, óundirrituð, vegna sektargreiðslu á hendur Grundarósi ehf., kt. 000000-0000. Yfirlýsing frá Steinbergi Finnbogasyni lögmanni liggur fyrir í málinu, dagsett 12. mars 2018, þar sem hann kveðst staðfesta að sú vinna sem unnin hafi verið við kærur til yfirskattanefndar vegna félaganna Grundaróss ehf. og Borgarnistis ehf. hafi verið unnin af Halldóri Jörgen Gunnarssyni. Hafi lögmaðurinn undirritað kærurnar sem lögmaður félaganna.

Innheimtuviðvörun liggur fyrir í málinu, dagsett 12. júlí 2017, vegna ógreiddrar kaupsamningsgreiðslu þann 1. júlí 2017, samtals að fjárhæð 3.210.937 krónur með kostnaði og innheimtubréf, dagsett 19. september 2017, vegna sama gjalddaga, að fjárhæð 2.750. 973. Hafði stefndi þá greitt inn á skuldina 789.205 krónur.

Reikningur á hendur stefnanda frá stefnda, dagsettur 25. júní 2017, liggur fyrir í málinu að fjárhæð 2.406.183 krónur. Segir í reikningnum að hann sé vegna vinnu við kærur til YSKN, framtöl hjóna árin 2011-2016, aðstoð við kaup á bústað, fastanr. 230-6249, vinna við að leigja út sama bústað árin 2014 og 2015, 10% þóknun. Vinna við lokafrágang á gjaldþroti Sigurðar og vinna við undirbúning að gjaldþroti eiginkonu Sigurðar til umboðsmanns skuldara. Er vinna við kæru til yfirskattanefndar sögð vera 30 klukkustundir á 5.000 krónur hver klukkustund eða samtals 150.000 krónur. Vinna við framtöl hjóna árin 2011 til 2016, 16 einingar á 125.403 krónur fyrir hverja einingu, samtals 752.419 krónur. Aðstoð við kaup á sumarbústað, ein eining að fjárhæð 300.000 krónur. Vinna við útleigu á sumarbústað, ein eining 523.051 króna, vinna við lokafrágang á gjaldþroti Sigurðar 25 klukkustundir, hver á krónur 5.000, samtal 125.000 krónur, og aðstoð við gjaldþrot eiginkonu Sigurðar, 18 klukkustundir, hver á 5.000 krónur, samtals 90.000 krónur. Samtals hljóðar reikningurinn upp á 1.940.470 krónur auk virðisaukaskatts, 465.713 króna, eða samtals 2.406.183 krónur.

Tímaskýrslur sem stafa frá stefnda vegna áranna 2013, 2014, 2015 liggja fyrir auk afrits af bréfi til Umboðsmanns skuldara, óundirritað og dagsett 12. maí 2015.

Skýrslur fyrir dómi.

Aðilar gáfu skýrslu fyrir dómi og verður vitnað til þeirra eftir því sem þörf krefur.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfu sína um réttar efndir á kaupsamningi sem aðilar gerðu með sér um kaup á sumarbústað við Svínhaga R-11 í Rangárþingi ytra en samkvæmt honum átti stefndi að greiða stefnanda 3.195.388 krónur. Stefndi hafi greitt inn á þá skuld 789.205 krónur 25. júlí 2017.

            Stefnandi mótmælir gagnkröfum stefnda sem röngum og tilhæfulausum telji dómurinn að krafa stefnda komist að í máli þessu.

Kveður stefnandi að skilyrði skuldajöfnunar séu ekki uppfyllt. Þá sé stefnandi enn skráður sem greiðandi að láni frá Stöfum lífeyrissjóði sem hvíli á sumarbústaðnum og stefndi yfirtók við kaupsamningsgerðina. Sé kröfu stefnda um útgáfu afsals mótmælt þar sem stefndi hafi ekki, þrátt fyrir að hann greiði upp kaupsamningsverðið, haft skuldaraskipti á yfirteknu áhvílandi láni og þar með ekki efnt sínar skyldur kaupsamningsins.

            Stefnandi mótmælir reikningi stefnda. Kveður hann vinnu við kæru til yfirskattanefndar vera ósannaða. Að baki liggi afrit af bréfum, dagsettum 22. júní 2011, vegna Borgarnistis ehf. og Grundaróss ehf. auk tímaskýrslu gerðri í júní 2011, samtals 30 klukkustundir sem hafi farið í að skrifa umrædd bréf. Í fyrsta lagi sé sú krafa fyrnd en að auki beinist hún að þriðja aðila. Geti sú krafa ekki verið tæk til skuldajöfnunar.

            Rétt sé að stefndi hafi skilað framtölum fyrir stefnanda en ósannað sé hversu mikil vinna hafi farið í þau skil og ósannað sé að stefnandi hafi gert munnlegt samkomulag um að greiða 125.403 krónur fyrir hvert skattframtal. Þá sé ósannað fyrir hvaða ár sú vinna fór fram en að öllu jöfnu séu þær kröfur fyrndar. Auk þess geti stefndi ekki krafið stefnanda um vinnu fyrir þriðja aðila eða eiginkonu stefnanda. Stefndi hafi aldrei gefið út neina reikninga fyrir þá vinnu þar sem um fjölskyldugreiða hafi verið að ræða. Stefnandi sé ellilífeyrisþegi og því sé skattframtal hans einfalt og taki nokkrar mínútur að vinna það og skila því til skattyfirvalda. Geti þessi krafa því ekki verið tæk til skuldajöfnunar.

            Stefnandi mótmælir því að honum beri að greiða stefnda fyrir aðstoð við kaup á sumarbústað, samtals 300.000 krónur. Í gögnum málsins liggi fyrir tímaskýrsla sem ekkert standi að baki né styðji hana þar sem stefnandi sé krafinn um 300.000 krónur og hafi stefndi unnið við þá aðstoð í fjörutíu klukkustundir. Kvað stefnandi að fasteignasali hafi séð um þá samninga- og skjalagerð en stefndi hafi viljað koma með sér í samningsgerðina. Hafi aldrei verið rætt um að honum bæri að greiða fyrir þá aðstoð.

            Stefnandi mótmælir kröfu stefnda um greiðslu vegna vinnu við útleigu á sumarbústað að fjárhæð 523.051 króna. Allar greiðslur og bókanir hafi farið í gegnum airbnb.com og hafi stefndi ekki átt neinn þátt í því. Þá hafi allar greiðslur sem hafi komið þar í gegn farið til Grettis sem hafi selt sér bústaðinn í upphafi. Hafi stefndi ekki átt neina hlutdeild í því.

            Stefnandi mótmælir því að honum beri að greiða stefnda fyrir aðstoð við lokafrágang á gjaldþroti stefnanda. Bankastofnun hafi krafist gjaldþrotaskipta á stefnanda og hafi stefnandi ekki haft neinn kostnað af því né stefndi.

            Stefnandi mótmælir því einnig að skuld hafi stofnast við stefnda vegna aðstoðar við gjaldþrot eiginkonu stefnanda. Eiginkona stefnanda hafi aldrei verið úrskurðuð gjaldþrota. Hafi stefndi aðstoðað við skuldauppgjör þá verði hann að beina þeirri kröfu að þeim viðskiptavini en ekki stefnanda.

            Stefnandi kveður því kröfu stefnda ótæka til skuldajöfnunar fjárkröfu stefnanda þar sem skilyrði skuldajöfnunar séu ekki fyrir hendi.

            Stefnandi byggir kröfu sína um dráttarvexti á III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafan um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda í greinargerð sinni. Þá krefst hann þess að stefnanda verði gert að afhenda afsal af sumarhúsinu Svínhaga R-11, fnr. 230-6249, inna 15 daga frá dómsuppsögu að viðlögðum 25.000 krónum í dagsektir frá þeim tíma og þar til afsal fer fram. Að auki er krafist málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

            Undir liðnum „Málsatvik og málsástæður“ rekur stefndi í greinargerð sinni þá vinnu sem hann kveðst hafa unnið fyrir stefnanda frá árinu 2011. Rekur hann aðkomu sína að kaupum stefnanda á umræddum sumarbústað í janúar 2014 og munnlegt samkomulag sem aðilar hafi gert þegar stefnandi seldi stefnda aftur sama sumarbústað. Rekur stefndi aðdragandann að útgáfu reikningsins að fjárhæð 2.406.183 krónur og að vinnan hafi verið unnin að beiðni stefnanda. Hafi stefndi því greitt sem fullnaðargreiðslu 798.205 krónur sem hafi verið mismunur á lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi og fjárhæð reiknings stefnda á hendur stefnanda. Þá er rakin meint vinna stefnda fyrir einkahlutafélögin Borgarnisti ehf. og Grundarós ehf. árin 2007 til 2010. Stefndi rekur vinnu fyrir stefnanda og eiginkonu hans vegna gjaldþrotameðferðar. Rakin er aðkoma og milliganga stefnda við útleigu á bústaðnum á árunum 2014 og 2015. Telur stefndi alveg ljóst að hann skuldi stefnanda ekki þá fjárhæð sem hann krefji hann um. Í lok greinargerðar ítrekar stefndi kröfu sína um sýknu af kröfu stefnanda og kveðst algerlega gáttaður á málatilbúnaði stefnanda í máli þessu.

            Stefndi vísar kröfum sínum til stuðnings til meginreglna laga um samningagerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 og skuldbindandi réttaráhrif munnlegra samninga til jafns á við skriflega. Kröfuna um skuldajöfnun byggir stefndi á 28. gr. laga nr. 91/1991 og krafan um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Kröfuna um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggir stefndi á lögum nr. 50/1988.

Forsendur og niðurstöður.

Í máli þessu gerir stefnandi þá dómkröfu að hinu stefnda fyrirtæki verði gert að greiða lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi er aðilar undirrituðu þann 6. nóvember 2015 en lokagreiðsla átti að fara fram 1. júlí 2017 að fjárhæð 3.195.388 krónur.

            Í greinargerð stefnda er ekki gerð gagnkrafa um að reikningur sem stefndi lagði fram í málinu yrði til skuldajafnaðar kröfu stefnanda. Einungis er krafist sýknu af kröfum stefnanda.

Gagnkrafa stefnda verður að hafa sjálfstætt inntak í samanburði við kröfu stefnanda en slíkt er ekki fyrir hendi þar sem stefndi krefst einungis að kröfu stefnanda verði hafnað, þ.e. sýknu. Stefndi reifar í greinargerð sinni tilurð reiknings sem hann leggur fram í máli þessu. Auk þeirra annmarka sem er á kröfugerð stefnda verður tekið undir þá málsástæðu stefnanda að sé gagnkrafa um skuldajöfnun gerð í greinargerð, verði kröfur aðila að vera af sameiginlegum uppruna, þær þurfi að vera sprottnar af sama atviki, sömu aðstæðum eða að sami löggerningur búi að baki þeim báðum. Svo á ekki við um reikning stefnda á hendur stefnanda. Eru þessar kröfur ekki hæfar til að mætast með skuldajöfnuði.

            Stefnandi hefur sýnt fram á að stefndi hafi ekki efnt kaupsamning aðila frá 6. nóvember 2015 en ekki er ágreiningur um að stefndi hafi greitt stefnanda 25. júlí 2017 789.205 krónur, sem tekið er tillit til við kröfugerð stefnda.

Stefndi vísar til 28. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 undir liðnum lagarök í greinargerð sinni. Í greinargerð, undir liðnum „Dómkröfur“,  er krafist sýknu af kröfum stefnanda auk þess sem krafist er að stefnandi afhendi afsal af sumarhúsinu Svínhaga R-11, fnr. 230-6249, innan 15 daga frá dómsuppsögu að viðlögðum 25.000 krónum í dagsektir frá þeim tíma og þar til afsal fer fram.

Í 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 segir að varnaraðila sé rétt að hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar í máli án þess að gagnstefna ef skilyrði fyrir skuldajöfnuði séu fyrir hendi. Gagnkrafan skal þá höfð uppi í greinargerð en sjálfstæður dómur geti ekki gengið um hana. Svo er ekki gert í greinargerð stefnda auk þess sem kröfur aðila eru ekki tækar til skuldajöfnunar.        

            Um þá kröfu stefnda að fá afhent afsal fyrir sumarbústaðnum er það að segja að til þess að fá sjálfstæðan dóm um þá kröfu verður hún í þessu máli að vera höfð uppi með gagnstefnu skv. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Svo er ekki gert og er henni því vísað frá dómi ex officio.

            Að öllu ofangreindu virtu verða dómkröfur stefnanda teknar til greina eins og segir í dómsorði.

 Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilegur 700.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jón Auðunn Jónsson lögmaður.

Af hálfu stefnda flutti málið Kolbrún Garðarsdóttir lögmaður. 

 

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Stefndi, Skattalausnir ehf., kt. 000000-0000, greiði stefnanda, Sigurði Jóhannssyni, kt. 000000-0000, 2.406.183 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 3.195.388 krónum frá 1. júlí 2017 til 25. júlí 2017 en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

            Kröfu stefnda um að stefnanda verði gert skylt að afhenda stefnda afsal af sumarhúsinu að Svínhaga R-11, fnr. 230-6249, innan 15 daga frá dómsuppsögu að viðlögðum 25.000 krónum í dagsektir frá þeim tíma og þar til afsal fer fram er vísað frá dómi.

            Stefndi greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.

 

                                    Ástríður Grímsdóttir.