• Lykilorð:
  • Innlausn
  • Miskabætur
  • Ráðningarsamningur
  • Skaðabætur
  • Uppsögn

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 7. mars 2019 í máli nr. E-767/2017:

Ágúst Heimir Ólafsson

(Andri Árnason lögmaður)

gegn

D&T sf., Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf., Sigurði Páli Haukssyni, Jónasi Gesti Jónassyni, Birni Inga Victorssyni, Benóní Torfa Eggertssyni, Hilmari Alfreð Alfreðssyni, Pálínu Árnadóttur, Halldóri Arasyni, Sif Einarsdóttur, Páli Grétari Steingrímssyni, Önnu Birgittu Geirfinnsdóttur, Hólmgrími Pétri Bjarnasyni, Þorsteini Pétri Guðjónssyni, Signýju Magnúsdóttur, Bjarna Þór Bjarnasyni, Gunnari Þorvarðarsyni, Sigurði Pálma Sigurðssyni, Ragnari Jóhanni Jónssyni, Aðalsteini Þór Sigurðssyni, Sigurði Heiðari Steindórssyni, Sigurði Álfgeir Sigurðarsyni, Einari Hafliða Einarssyni, Jóhanni Geir Harðarsyni, Birni Helga Arasyni, Lúðvík Þráinssyni, Haraldi Inga Birgissyni, Guðna Björgvini Guðnasyni, Jóhanni Óskari Haraldssyni, Sunnu Dóru Einarsdóttur, Lovísu Önnu Finnbjörnsdóttur og Birnu Maríu Sigurðardóttur

(Ólafur Eiríksson lögmaður)

Birki Leóssyni, Guðmundi Kjartanssyni, Knúti Þórhallssyni og Lárusi Finnbogasyni

(Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 14. janúar sl., er höfðað 17. og 28. ágúst 2017.

Stefnandi er Ágúst Heimir Ólafsson, Dverghömrum 10, Reykjavík.

Stefndu eru D&T sf., Deloitte ehf. og Deloitte FAS ehf., allir til heimilis að Smáratorgi 3, Kópavogi, og Sigurður Páll Hauksson, Víðimel 35, Reykjavík, Jónas Gestur Jónasson, Jökulhæð 4, Garðabæ, Birkir Leósson, Fannafold 176, Reykjavík, Björn Ingi Victorsson, Þrymsölum 12, Kópavogi, Benóní Torfi Eggertsson, Langholtsvegi 161, Reykjavík, Guðmundur Kjartansson, Hjálmakri 3, Garðabæ, Hilmar Alfreð Alfreðsson, Seiðakvísl 37, Reykjavík, Pálína Árnadóttir, Jöklaseli 5, Reykjavík, Halldór Arason, Brekkubyggð 48, Garðabæ, Sif Einarsdóttir, Huldulandi 26, Reykjavík, Knútur Þórhallsson, Steinási 6, Garðabæ, Lárus Finnbogason, Brekkubæ 35, Reykjavík, Páll Grétar Steingrímsson, Garðsstöðum 45, Reykjavík, Anna Birgitta Geirfinnsdóttir, Hrauntúni 5, Keflavík, Hólmgrímur Pétur Bjarnason, Austurbyggð 12, Akureyri, Þorsteinn Pétur Guðjónsson, Þorrasölum 37, Kópavogi, Signý Magnúsdóttir, Kleifarvegi 13, Reykjavík, Bjarni Þór Bjarnason, Björtusölum 8, Kópavogi og Gunnar Þorvarðarson, Ljósalind 8, Kópavogi (A-félagsmenn í D&T sf.), svo og Sigurður Pálmi Sigurðsson, Markarvegi 7, Reykjavík, Ragnar Jóhann Jónsson, Strandgötu 3, Akureyri, Aðalsteinn Þór Sigurðsson, Vesturgili 1, Akureyri, Sigurður Heiðar Steindórsson, Jóruseli 15, Reykjavík, Sigurður Álfgeir Sigurðarson, Skógarseli 4, Egilsstöðum, Einar Hafliði Einarsson, Þingási 23, Reykjavík, Jóhann Geir Harðarson, Andarhvarfi 10, Kópavogi, Björn Helgi Arason, Stangarholti 7, Reykjavík, Lúðvík Þráinsson, Birkiási 9, Garðabæ, Haraldur Ingi Birgisson, Hófgerði 22, Kópavogi, Guðni Björgvin Guðnason, Breiðuvík 83, Reykjavík, Jóhann Óskar Haraldsson, Veghúsum 13, Reykjavík, Sunna Dóra Einarsdóttir, Bjarkargötu 8, Reykjavík, Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir, Naustabryggju 27, Reykjavík og Birna María Sigurðardóttir, Fífulind 15, Kópavogi (B-félagsmenn í D&T sf.).

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

A. Bætur vegna tapaðra launatekna.

Þess er krafist að stefndu Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf. og Sigurður Pálmi Sigurðsson, Sigurður Páll Hauksson, Jónas Gestur Jónasson, Birkir Leósson, Björn Ingi Victorsson, Benóní Torfi Eggertsson, Guðmundur Kjartansson, Hilmar Alfreð Alfreðsson, Pálína Árnadóttir, Halldór Arason, Sif Einarsdóttir, Knútur Þórhallsson, Lárus Finnbogason, Páll Grétar Steingrímsson, Anna Birgitta Geirfinnsdóttir, Hólmgrímur Pétur Bjarnason og Þorsteinn Pétur Guðjónsson verði dæmd óskipt til að greiða stefnanda 10.407.378 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. febrúar 2017 til 6. september 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

B. Miskabætur.

Þess er jafnframt krafist að stefndu Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf. og Sigurður Pálmi Sigurðsson, Sigurður Páll Hauksson, Jónas Gestur Jónasson, Birkir Leósson, Björn Ingi Victorsson, Benóní Torfi Eggertsson, Guðmundur Kjartansson, Hilmar Alfreð Alfreðsson, Pálína Árnadóttir, Halldór Arason, Sif Einarsdóttir, Knútur Þórhallsson, Lárus Finnbogason, Páll Grétar Steingrímsson, Anna Birgitta Geirfinnsdóttir, Hólmgrímur Pétur Bjarnason og Þorsteinn Pétur Guðjónsson verði dæmd óskipt til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 12.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. febrúar 2017 til 6. september 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

C. Krafa vegna innlausnarverðs hlutar.

Þess er krafist að stefndu D&T sf. og Sigurður Pálmi Sigurðsson, Sigurður Páll Hauksson, Jónas Gestur Jónasson, Birkir Leósson, Björn Ingi Victorsson, Benóní Torfi Eggertsson, Guðmundur Kjartansson, Hilmar Alfreð Alfreðsson, Pálína Árnadóttir, Halldór Arason, Sif Einarsdóttir, Knútur Þórhallsson, Lárus Finnbogason, Páll Grétar Steingrímsson, Anna Birgitta Geirfinnsdóttir, Hólmgrímur Pétur Bjarnason, Þorsteinn Pétur Guðjónsson, Signý Magnúsdóttir, Bjarni Þór Bjarnason, Gunnar Þorvarðarson, Ragnar Jóhann Jónsson, Aðalsteinn Þór Sigurðsson, Sigurður Heiðar Steindórsson, Sigurður Álfgeir Sigurðarson, Einar Hafliði Einarsson, Jóhann Geir Harðarson, Björn Helgi Arason, Lúðvík Þráinsson, Haraldur Ingi Birgisson, Guðni Björgvin Guðnason, Jóhann Óskar Haraldsson, Sunna Dóra Einarsdóttir, Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir og Birna María Sigurðardóttir greiði stefnanda óskipt 133.448.012 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. september 2017 til greiðsludags.

D. Krafa vegna hagnaðarhlutdeildar.

Þess er aðallega krafist gagnvart stefndu D&T sf., Deloitte ehf. og Sigurði Pálma Sigurðssyni, Sigurði Páli Haukssyni, Jónasi Gesti Jónassyni, Birki Leóssyni, Birni Inga Victorssyni, Benóní Torfa Eggertssyni, Guðmundi Kjartanssyni, Hilmari Alfreð Alfreðssyni, Pálínu Árnadóttur, Halldóri Arasyni, Sif Einarsdóttur, Knúti Þórhallssyni, Lárusi Finnbogasyni, Páli Grétari Steingrímssyni, Önnu Birgittu Geirfinnsdóttur, Hólmgrími Pétri Bjarnasyni, Þorsteini Pétri Guðjónssyni, Signýju Magnúsdóttur, Bjarna Þór Bjarnasyni, Gunnari Þorvarðarsyni, Ragnari Jóhanni Jónssyni, Aðalsteini Þór Sigurðssyni, Sigurði Heiðari Steindórssyni, Sigurði Álfgeir Sigurðarsyni, Einari Hafliða Einarssyni, Jóhanni Geir Harðarsyni, Birni Helga Arasyni, Lúðvík Þráinssyni, Haraldi Inga Birgissyni, Guðna Björgvini Guðnasyni, Jóhanni Óskari Haraldssyni, Sunnu Dóru Einarsdóttur, Lovísu Önnu Finnbjörnsdóttur og Birnu Maríu Sigurðardóttur að viðurkenndur verði réttur stefnanda til hlutdeildar í hagnaðarskiptingu vegna hagnaðar Deloitte ehf. vegna rekstrarársins 2016-2017 (1. júní 2016 – 31. maí 2017), sem samsvarar 195 einingum af samtals 4.085 útgefnum hagnaðarhlutdeildar­einingum og í samræmi við 2. gr. samkomulags A-félagsmanna D&T sf., dagsett 14. nóvember 2013.

Til vara er þess krafist að viðurkennd verði óskipt skaðabótaskylda stefndu Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf. og Sigurðar Pálma Sigurðssonar, Sigurðar Páls Haukssonar, Jónasar Gests Jónassonar, Birkis Leóssonar, Björns Inga Victorssonar, Benónís Torfa Eggertssonar, Guðmundar Kjartanssonar, Hilmars Alfreðs Alfreðssonar, Pálínu Árnadóttur, Halldórs Arasonar, Sifjar Einarsdóttur, Knúts Þórhallssonar, Lárusar Finnbogasonar, Páls Grétars Steingrímssonar, Önnu Birgittu Geirfinnsdóttur, Hólmgríms Péturs Bjarnasonar og Þorsteins Péturs Guðjónssonar vegna fjártjóns stefnanda sökum þess að stefnandi var, með uppsögn ráðningarsamnings og tilkynningu um innlausn eignarhlutar stefnanda í D&T sf. 13. febrúar 2017 og staðfestingu þessara ráðstafana á félagsfundi 7. mars 2017, sviptur með ólögmætum hætti rétti til hagnaðarhlutdeildar af hagnaði Deloitte ehf. vegna rekstrarársins 2016-2017 (1. júní 2016 – 31. maí 2017), sem svarar 195 einingum af samtals 4.085 útgefnum hagnaðarhlutdeildar­einingum, í samræmi við 2. gr. samkomulags A-félagsmanna D&T sf., dagsett 14. nóvember 2013.

E. Ógildi samkeppnistakmörkunarákvæða.

Þess er jafnframt krafist gagnvart stefnda Deloitte FAS ehf. að viðurkennt verði að 19. gr. ráðningarsamnings Deloitte FAS ehf. og stefnanda, dagsett 30. september 2009, sé ógild og óskuldbindandi gagnvart stefnanda.

Þá er þess krafist gagnvart stefndu Sigurði Pálma Sigurðssyni, Sigurði Páli Haukssyni, Jónasi Gesti Jónassyni, Birki Leóssyni, Birni Inga Victorssyni, Benóní Torfa Eggertssyni, Guðmundi Kjartanssyni, Hilmari Alfreð Alfreðssyni, Pálínu Árnadóttur, Halldóri Arasyni, Sif Einarsdóttur, Knúti Þórhallssyni, Lárusi Finnbogasyni, Páli Grétari Steingrímssyni, Önnu Birgittu Geirfinnsdóttur, Hólmgrími Pétri Bjarnasyni, Þorsteini Pétri Guðjónssyni, Signýju Magnúsdóttur, Bjarna Þór Bjarnasyni og Gunnari Þorvarðarsyni að viðurkennt verði að 2. og 3. mgr. 9. gr. samkomulags A-félagsmanna D&T sf., dagsett 14. nóvember 2013, sé ógild og óskuldbindandi gagnvart stefnanda.

Loks er þess krafist að viðurkennd verði óskipt skaðabótaskylda stefndu Deloitte FAS ehf. og Sigurðar Pálma Sigurðssonar, Sigurðar Páls Haukssonar, Jónasar Gests Jónassonar, Birkis Leóssonar, Björns Inga Victorssonar, Benónís Torfa Eggertssonar, Guðmundar Kjartanssonar, Hilmars Alfreðs Alfreðssonar, Pálínu Árnadóttur, Halldórs Arasonar, Sifjar Einarsdóttur, Knúts Þórhallssonar, Lárusar Finnbogasonar, Páls Grétars Steingrímssonar, Önnu Birgittu Geirfinnsdóttur, Hólmgríms Péturs Bjarnasonar, Þorsteins Péturs Guðjónssonar, Signýjar Magnúsdóttur, Bjarna Þórs Bjarnasonar og Gunnars Þorvarðarsonar vegna fjártjóns stefnanda vegna takmarkana á atvinnufrelsi stefnanda samkvæmt 19. gr. ráðningar-samnings stefnanda og Deloitte FAS ehf., dags. 30. september 2009, og 2. mgr. 9. gr. samkomulags A-félagsmanna D&T sf., dagsett 14. nóvember 2013.

F. Málskostnaður.

Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefndu, D&T sf., Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf., Aðalsteins Þórs Sigurðssonar, Önnu Birgittu Geirfinnsdóttur, Benónís Torfa Eggertssonar, Birnu Maríu Sigurðardóttur, Bjarna Þórs Bjarnasonar, Björns Helga Arasonar, Björns Inga Victorssonar, Einars Hafliða Einarssonar, Guðna Björgvins Guðnasonar, Gunnars Þorvarðarsonar, Halldórs Arasonar, Haralds Inga Birgissonar, Hilmars Alfreðs Alfreðssonar, Hólmgríms Péturs Bjarnasonar, Jóhanns Geirs Harðarsonar, Jóhanns Óskars Haraldssonar, Jónasar Gests Jónassonar, Lovísu Önnu Finnbjörnsdóttur, Lúðvíks Þráinssonar, Pálínu Árnadóttur, Páls Grétars Steingrímssonar, Ragnars Jóhanns Jónssonar, Sifjar Einarsdóttur, Signýjar Magnúsdóttur, Sigurðar Álfgeirs Sigurðarsonar, Sigurðar Heiðars Steindórssonar, Sigurðar Páls Haukssonar, Sigurðar Pálma Sigurðssonar, Sunnu Dóru Einarsdóttur og Þorsteins Péturs Guðjónssonar, eru eftirfarandi:

Stefndu Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf. og Sigurður Pálmi Sigurðsson, Sigurður Páll Hauksson, Jónas Gestur Jónasson, Björn Ingi Victorsson, Benóní Torfi Eggertsson, Hilmar Alfreð Alfreðsson, Pálína Árnadóttir, Halldór Arason, Sif Einarsdóttir, Páll Grétar Steingrímsson, Anna Birgitta Geirfinnsdóttir, Hólmgrímur Pétur Bjarnason og Þorsteinn Pétur Guðjónsson krefjast aðallega sýknu af kröfu stefnanda um greiðslu bóta vegna tapaðra launatekna að fjárhæð 10.407.378 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. febrúar 2017 til 6. september 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefjast sömu stefndu lækkunar á kröfu stefnanda í 2.796.326 krónur.

Að öllu öðru leyti krefjast þessir stefndu sýknu af kröfum stefnanda. Í öllum tilvikum krefjast þessir stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Stefndu Birkir Leósson, Guðmundur Kjartansson, Knútur Þórhallsson og Lárus Finnbogason krefjast, hver fyrir sig, sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

I

Málsatvik

            Í máli þessu er deilt um starfslok stefnanda hjá Deloitte-samstæðunni árið 2017 og fjárhagslegt uppgjör vegna þeirra. Stefnandi hóf störf hjá Deloitte FAS ehf. 13. október 1993 og starfaði hjá samstæðunni lengst af sem einn af stjórnendum hennar allt þar til honum var sagt upp störfum með uppsagnarbréfi 13. febrúar 2017. Um mitt ár 2001 gekk stefnandi í eigendahópinn og frá miðju ári 2005 gegndi stefnandi stöðu yfirmanns fjármálaráðgjafar Deloitte. Helstu þjónustuþættir fjármála-ráðgjafar Deloitte eru verðmatsþjónusta, gerð áreiðanleikakannana, ráðgjöf tengd sölu og kaupum á fyrirtækjum, áætlanagerð, yfirferð viðskiptaáætlana, fjárstýring, ráðgjöf um fjármögnun, gerð arðsemisgreininga og kostnaðarúthlutana, gerð fjárhagslíkana og ráðgjöf við endurskipulagningu fyrirtækja og ráðgjöf um stefnumótun.

Síðasti gildandi ráðningarsamningur stefnanda var dagsettur 30. september 2009 og gerður við stefnda Deloitte FAS ehf. Deloitte FAS ehf. er í eigu stefnda Deloitte ehf., en félögin hafa haldið utan um rekstur Deloitte-samstæðunnar. Deloitte ehf. er svo að fullu í eigu D&T sf., sem er í eigu félagsmanna sem taldir eru upp í stofnsamningi D&T sf. Skiptast félagsmenn D&T sf. í A- og B-félagsmenn. Njóta B-félagsmenn ekki atkvæðisréttar á félagsfundum en hafa þó rétt til að sækja slíka fundi og hafa aðgang að gögnum sem þar eru lögð fram, sbr. 8. gr. stofnsamningsins. B-félagsmenn bera eftir sem áður óskipta ábyrgð á skuldbindingum D&T sf. ásamt A-félagsmönnum, sbr. 4. gr. stofnsamningsins.

Í 2. gr. stofnsamnings stefnda D&T sf. segir að tilgangur félagsins sé meðal annars eignarhald hlutabréfa og eigna í sameiginlegri eigu félagsmanna. Þá kemur fram í 4. gr. að félagsmenn í D&T sf. geti þeir einir verið sem eru fastráðnir starfsmenn samstæðu félagsins. A-félagsmenn gerðu að auki með sér sérstakt samkomulag, dagsett 14. nóvember 2013. Í 2. mgr. 1. gr. samkomulagsins segir að gerður skuli sérstakur ráðningarsamningur við alla starfandi A-félagsmenn um störf þeirra fyrir Deloitte, réttindi þeirra og skyldur. Skal ráðningarsamningur við A-félagsmann gerður í nafni stefnda Deloitte ehf. eða annars rekstrarfélags Deloitte sem viðkomandi A-félagsmaður starfar hjá, sem í tilviki stefnanda var stefndi Deloitte FAS ehf.

Í 17. gr. ráðningarsamnings stefnanda er fjallað um uppsögn samningsins. Segir þar að gagnkvæmur uppsagnarfrestur skuli að minnsta kosti vera sex mánuðir. Þó sé félaginu heimilt að segja samningnum upp með „eins til þriggja mánaða fyrirvara“ ef fyrir hendi eru ástæður sem taldar eru upp í sjö liðum, þar með talin „[e]ndurtekin brot á óhæðis- og siðareglum“, sbr. 1. tölulið, meðeigandi „skaðar félagið eða álit þess út á við verulega“, sbr. 6. tölulið, „brýtur í veigamiklum atriðum“ gegn ákvæðum samningsins, sbr. 7. tölulið. Þá segir í greininni að sé meðeigandi ósáttur við uppsögn ráðningarsamnings eigi hann rétt á að kallaður verði saman meðeigendafundur í D&T sf. innan 14 daga til að fjalla um málið. Séu ¾ hlutar atkvæða á fundinum „ósammála uppsögninni skal henni hnekkt.“

            Í 8. gr. samkomulags A-félagsmanna segir að hafi Deloitte-samstæðan sagt upp ráðningarsamningi A-félagsmanns sé honum skylt að þola innlausn eignarhluta síns í D&T sf. Sé A-félagsmaður ósáttur við ákvörðun innlausnar á hann samkvæmt sama ákvæði rétt á að kallaður verði saman A-félagsmannafundur innan 14 daga. Til að innlausnin verði gild skulu a.m.k. ¾ greiddra atkvæða á A-félagsmannafundinum vera henni samþykkir. Í 5. gr. samkomulagsins er fjallað um útreikning innlausnarverðs við útgöngu félagsmanns úr D&T sf., en samkvæmt greininni skal „greiða út útgönguverð stofnverðs (gegnumstreymisverð) auk sérgreinds höfuðstóls með skulda­bréfum sem skulu bundin neysluverðsvísitölu“, eftir því sem nánar er rakið í ákvæðinu.

            Í 2. gr. samkomulags A-félagsmanna er fjallað um skiptingu hagnaðar af rekstri Deloitte ehf. Skal rekstrarniðurstöðu skipt eftir fyrir fram skilgreindu reiknilíkani sem mælir árangur félagsmanna og stjórn leggur fyrir A-félagsmenn til samþykktar á aðalfundi D&T sf. Í 3. gr. samkomulagsins segir að A-félagsmaður sem selur eignarhlut sinn eða sætir innlausn eigi ekki rétt á hagnaðarhlutdeild vegna þess rekstrarárs sem sala eða innlausn á sér stað. Sala eða innlausn er talin hafa átt sér stað í þeim mánuði sem A-félagsmaður hættir að skila fullri dagvinnu.

            Í 19. gr. ráðningarsamnings stefnanda og 9. gr. samkomulags A-félagsmanna er kveðið á um að þegar meðeigandi hættir störfum hjá félaginu megi hann ekki í þrjú ár frá þeim tíma stunda endurskoðunar- eða ráðgjafarstörf, hvorki í eigin nafni né óbeint sem meðlimur eða starfsmaður í öðru samkeppnisfyrirtæki, né fyrir þá sem voru viðskiptavinir Deloitte ehf. á þeim tíma sem hann hætti. 

            Þann 31. janúar 2017 var stefnandi boðaður á fund með framkvæmdastjóra stefnda Deloitte ehf. og stjórnarmanni stefnda Deloitte FAS ehf., Sigurði Páli Haukssyni. Í stefnu segir að stefnanda hafi á fundinum verið kynntur texti úr fundargerð stjórnar félagsins þar sem fram komi að veita bæri stefnanda viðvörun vegna tveggja frávika sem fælu í sér brot á siðareglum endurskoðenda. Ekki hafi komið fram í textanum í hverju ætluð frávik stefnanda væru nánar fólgin. Á fundinum hafi Sigurður Páll þó veitt stefnanda munnlegar upplýsingar um að tilvísuð frávik væru fólgin í eign fjárráða sonar stefnanda í sjóðum [...], viðskiptamanns Deloitte, að söluvirði 155.132 krónur. Eftir fundinn hafi stefnandi óskað eftir upplýsingum frá áhættustjóra Deloitte ehf. um framangreind atriði. 

            Sama dag sendi Sigurður Páll stefnanda kafla úr fundargerð stjórnar með tölvupósti sem rætt hafi verið á fundi með stefnanda. Þar er vísað í minnisblað sem hafði verið afhent fundinum varðandi niðurstöður prófana á fylgni eigenda, liðsstjóra og verkefnisstjóra við óhæðisreglur og skráningu í GIMS. Segir að í niðurstöðum prófana komi eftirfarandi meðal annars fram: „Þetta árið fundum við Code 2 frávik hjá einum meðeigenda sem verður að teljast mjög alvarlegt þar sem um er að ræða brot á siðareglum endurskoðenda ...“ Þá segir að stjórnin telji mikilvægt að eigendur eigi undantekningarlaust að fylgja óhæðisreglum Deloitte, þar á meðal um kaup og sölu hlutabréfa sem falli þar undir. Strangt sé tekið á reglunum á alþjóðavísu og þurfi Deloitte á Íslandi að bregðast við með sambærilegum hætti. Þá segir orðrétt í fundargerðinni: „Stjórn lítur mjög alvarlegum augum brot á Code 1-3 og óskar því eftir því við forstjóra að hann ræði við þann eiganda sem fékk athugasemdir vegna brota á óhæðisreglum vegna Code 2. Í samræmi við refsiákvæði vegna brota á óhæðisreglum ber að veita viðkomandi viðvörun.“

            Þann 13. febrúar 2017 var stefnandi boðaður á fund stjórnar stefndu Deloitte ehf. og Deloitte FAS ehf. þar sem honum var afhent uppsagnarbréf undirritað af Sigurði Páli Haukssyni, fyrir hönd Deloitte ehf. og Deloitte FAS ehf., og af stjórn Deloitte ehf. Fram kemur í bréfinu að stefnanda sé sagt upp störfum með eins mánaðar fyrirvara. Vísað er til 17. gr. í ráðningarsamningi stefnanda og Deloitte frá 30. september 2009, þar sem segir að séu ákveðin atvik fyrir hendi sé hægt að segja samningnum upp með eins til þriggja mánaða fyrirvara. Í uppsagnarbréfinu segir að byggt sé á því að þau atvik sem talin séu upp í töluliðum númer 1, 6 og 7 í 17. gr. samningsins séu fyrir hendi og enn fremur hafi stefnandi brotið gegn 4., 6. og 8. gr. ráðningarsamningsins, siðareglum endurskoðenda og ákvæðum laga nr. 79/2008 um endurskoðendur. Var stefnanda jafnframt tilkynnt um innlausn eignarhlutar hans í stefnda D&T sf., með vísan til 8. gr. samkomulags A-félagsmanna.

            Nánar um ástæður uppsagnarinnar er í bréfinu vísað til þess að árið 2015 hefði stefnandi fyrir hönd Deloitte tekið að sér verkefni fyrir móðurfélag [...], sem hafi lotið að yfirferð viðskiptaáætlunar og virðisútreikningi fyrir fiskeldi, undir vinnuheitinu „[...]“, en verkefnið hafi verið unnið undir yfirstjórn stefnanda. Í janúar 2017 hafi stefnandi átt aðild að kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, þar sem krafist væri ógildingar á starfsleyfi [...] til sjókvíaeldis, útgefnu af Umhverfisstofnun 25. október 2016, en um sama verkefni væri að ræða. Að mati stjórna Deloitte bryti þetta gróflega gegn innri reglum Deloitte, ákvæðum ráðningarsamnings og siðareglum endurskoðenda, og væri það því mat stjórna Deloitte að stefnandi hefði skaðað Deloitte og álit þess út á við og brotið í veigamiklum atriðum gegn ákvæðum ráðningarsamnings. Þá segir að stefnanda væri kunnugt um að hafa áður gerst brotlegur við óhæðisreglur og fengið áminningu vegna þess. Þess var óskað í bréfinu að stefnandi léti strax af störfum, en laun yrðu greidd út mars 2017 og uppgjör vegna eignarhlutar stefnanda í D&T sf. færi fram í apríl sama ár. Loks er vísað í uppsagnarbréfinu til ákvæða í ráðningarsamningnum um starfslok meðeiganda í 18. og 19. gr. samningsins.

            Stefnandi fékk í svonefndum óhæðisúttektum Deloitte vegna áranna 2014, 2015 og 2016 athugasemdir við hlutabréfaeign sína og venslamanna í tilgreindum félögum sem voru jafnframt viðskiptamenn í endurskoðun hjá Deloitte, en Deloitte hefur, í samræmi við kröfur Deloitte Global – DTTL, framkvæmt úttektir á óhæði meðeigenda og stjórnenda í samræmi við áætlun þar að lútandi. Samkvæmt áætluninni skyldu meðeigendur sem jafnframt væru sviðsstjórar, líkt og stefnandi, undirgangast óhæðiskönnun árlega. Þá skyldu þeir sem yrðu uppvísir að frávikum frá reglunum skoðaðir aftur að ári liðnu.

            Í óhæðiskönnun á stefnanda 2014 kom í ljós að hann átti eign í [...] sem hafði verið í endurskoðun hjá Deloitte frá fjárhagsárinu 2013. Niðurstöður könnunarinnar koma fram í minnisblaði, dagsettu 8. desember 2014, og er brot stefnanda þar fellt í svokallaðan alvarleikaflokk 2 en undir hann heyra brot gegn siðareglum endurskoðenda sem gilda á Íslandi. Jafnframt er í minnisblaðinu getið um tvö önnur brot er vörðuðu nákvæmni og vanrækslu tímanlegrar skráningar upplýsinga í óhæðiseftirlitskerfi. Í skýrslu með samantekt úr óhæðiskönnun fyrir árið 2014 kemur fram að brot í alvarleikaflokki 2 væri álitið alvarlegt og að samkvæmt agareglum yrði stjórn stefnda Deloitte ehf. upplýst um brotið. Var stefnandi upplýstur um þetta brot.

            Með tölvupósti 2. mars 2015 var eigendum tilkynnt um að Deloitte hefði orðið hlutskarpast þátttakenda í útboði [...] á endurskoðun bankans sjálfs og dótturfélaga hans, þ. á m. [...]. Voru eigendur jafnframt upplýstir um að litið væri á hlutdeildareign í sjóðum í rekstri hjá [...] sem fjárhagsleg tengsl í skilningi óhæðisreglna og þeim veittur tveggja vikna frestur til að selja slíkar eignir. Stefnandi upplýsti samdægurs um að hann hefði töluverða fjárhagslega hagsmuni í vörslu hjá [...] og að líklega væri staðan um [...]. 

            Stefnandi var ásamt öðrum eigendum beðinn, með tölvupósti 18. maí 2015, um að ljúka óhæðiskönnun fyrir 12. júní 2015. Við lok frestsins hafði stefnandi enn ekki látið færa framangreindar eignir úr vörslu hjá [...] þótt liðnir væru tveir mánuðir frá lokum fyrrgreinds tveggja vikna frests sem veittur var í upphafi og rann út 16. mars 2015. Sú yfirfærsla mun ekki hafa átt sér stað fyrr en í lok október 2015 eftir ítrekaðar beiðnir af hálfu Deloitte. Þá voru liðnir sjö mánuðir frá lokum framangreinds frests. 

            Þegar eignirnar voru færðar úr stýringu hjá [...] var hluti fjármunanna færður í stýringu hjá [...] sem einnig var endurskoðað af Deloitte og hafði verið frá fjárhagsárinu 2013. Minnisblað um niðurstöður óhæðiskönnunarinnar á stefnanda fyrir árið 2015, dagsett 9. desember 2015, gefur til kynna að stefnandi hafi af þeim sökum gerst sekur um tvö brot á siðareglum endurskoðenda sem þess vegna féllu í alvarleikaflokk 2 samkvæmt innri reglum Deloitte. Í viðauka við skýrslu með samantekt úr óhæðiskönnun fyrir árið 2015 kemur fram að samkvæmt agareglum yrði stjórn stefnda Deloitte ehf. upplýst um brotið. Var stefnandi upplýstur um þessi brot.

            Í óhæðiskönnun vegna stefnanda 2016 komu í ljós tvö brot á siðareglum endurskoðenda og innri reglum Deloitte í alvarleikaflokki 2. Kemur þetta fram í minnisblaði um niðurstöður óhæðiskönnunarinnar fyrir árið 2016, dagsettu 10. desember 2016. Þar var um að ræða eign sona stefnanda í félögum sem voru í endurskoðun hjá Deloitte. Í öðru tilvikinu var þó búið að selja viðkomandi eign, en eignarhaldið mun hafa varað í nokkurn tíma. Var stefnanda veitt viðvörun vegna þessara brota. Í viðauka við skýrslu með samantekt úr óhæðiskönnun fyrir árið 2016 kemur fram að samkvæmt agareglum yrði stjórn stefnda Deloitte ehf. upplýst um brotið.  

            Stefnanda mun hafa verið gefinn kostur á að skrifa undir eigið uppsagnarbréf sem innihélt meðal annars samkeppnistakmarkanir og eins mánaðar uppsagnarfrest, samhliða móttöku fyrrnefnds uppsagnarbréfs stefndu Deloitte FAS og Deloitte ehf. Stefnandi varð ekki við því, en kvittaði þess í stað fyrir móttöku á uppsagnarbréfi stefndu Deloitte FAS og Deloitte ehf. Var stefnanda gert að yfirgefa starfsstöðvar Deloitte þá þegar. Þann 13. febrúar 2017 sendi Halldór Arason, stjórnarformaður Deloitte ehf. og stefnda D&T sf., út tölvubréf á alla meðeigendur, það er bæði A- og B- félagsmenn, þar sem upplýst var um þá ákvörðun stjórna Deloitte ehf. og Deloitte FAS ehf. að segja upp ráðningarsamningi stefnanda. Í bréfinu segir að ástæða uppsagnarinnar væri írekuð brot stefnanda gegn verklagsreglum Deloitte um óhæði og hagsmunaárekstra og ákvæðum laga nr. 79/2008 um endurskoðendur. Brot stefnanda eru sögð þess eðlis að þau geti og hafi verið félaginu til álitshnekkis og við það verði ekki unað. Sama dag var einnig boðað til kynningarfundar fyrir A-félagsmenn D&T sf. um ástæður brottvikningar stefnanda. Stefnandi var ekki boðaður á fundinn en að ósk nokkurra meðeigenda, sem vildu heyra hans hlið málsins, mætti stefnandi á fundinn. Halldór Arason vísaði stefnanda hins vegar af fundinum.

            Stefnandi mótmælti lögmæti uppsagnarinnar með tölvubréfi til Sigurðar Páls Haukssonar 14. febrúar 2017. Þar segir að ekki verði séð að ástæða sú sem tilgreind væri í uppsagnarbréfinu réttlætti uppsögn samkvæmt 17. gr. ráðningarsamningsins. Vísað er til þess í bréfinu að uppsögnin og fyrirkomulag hennar, sérstaklega það að tilkynna ástæður hennar sem ítrekuð brot, þar á meðal á lögum um endurskoðendur, yrði að teljast óforsvaranleg og óviðeigandi, meðal annars þar sem stefnanda hafi í engu verið gefinn kostur á því að koma fram andmælum og athugasemdum. Einnig var gagnrýnt að lokað hefði verið fyrir allan aðgang stefnanda að tölvubréfum, gögnum o.fl. og afleiðingar þess skýrðar.

            Með bréfi til stjórnarmanna stefnda Deloitte ehf. 17. febrúar 2017 lýstu Guðmundur Kjartansson, fyrrverandi áhættu- og gæðastjóri Deloitte, Lárus Finnbogason, fyrrverandi yfirmaður endurskoðunarsviðs, og Knútur Þórhallsson, fyrrverandi stjórnarformaður Deloitte ehf., því að þeir hefðu rannsakað tilgreindar ástæður brottvikningar stefnanda og komist að þeirri niðurstöðu að allt þetta mál væri illa unnið og mörgu haldið fram sem ekki fái staðist. Ákvörðun um að reka stefnanda geti fráleitt hafa átt að byggja á þeim rökum sem kynnt hafi verið honum og meðeigendum. Ítrekuðu þeir mikilvægi þess að gengið yrði tafarlaust til verks og uppsögnin afturkölluð til þess að forða frekari tjóni á sameiginlegri eign, Deloitte.

            Með tölvubréfi 24. febrúar 2017 krafðist stefnandi þess að kallaður yrði saman A-félagsmannafundur í stefnda D&T sf. í samræmi við 17. gr. ráðningarsamnings og 8. gr. samkomulags A-félagsmanna. Boðað var til slíks fundar 28. febrúar 2017 sem haldinn var 7. mars 2017. Á dagskrá fundarins var annars vegar uppsögn ráðningar-samnings stefnanda og hins vegar innlausn á eignarhlut stefnanda í D&T sf. Á fundinum gerði Halldór Arason, stjórnarformaður D&T sf. og Deloitte ehf., grein fyrir tilgangi fundarins og fjallaði um brot stefnanda á verklagsreglum Deloitte. Að því loknu var stefnanda boðið að tjá sig um málið sem hann og gerði. Því næst úrskurðaði fundarstjóri að atkvæðagreiðsla félagsmanna yrði leynileg og hafnaði því að bera það form hennar undir félagsfundinn, þrátt fyrir athugasemdir Guðmundar Kjartanssonar, Lárusar Finnbogasonar og stefnanda. Þá hafnaði fundarstjóri kröfu Knúts Þórhallssonar um að tilteknir félagsmenn greiddu ekki atkvæði vegna tengsla við málið. Enn fremur mótmæltu Knútur, Guðmundur, Lárus og Birkir þeirri ákvörðun fundarstjóra að auðir seðlar skyldu ekki teljast til greiddra atkvæða. Loks gerðu Knútur, Lárus og Guðmundur athugasemd við að fundarstjóri synjaði félagsmönnum um að gera sérstaklega grein fyrir atkvæðum sínum.

            Í fundargerðinni segir um niðurstöðu atkvæðagreiðslu um uppsögn ráðningarsamnings stefnanda að greidd atkvæði hafi verið 17, þar af voru 12 félagsmenn sem greiddu atkvæði með uppsögninni en 5 félagsmenn með því að uppsögninni yrði hnekkt. Einn félagsmaður skilaði auðum atkvæðaseðli og sat þar með hjá við atkvæðagreiðsluna. Tillögu um að hnekkja uppsögninni var því hafnað, sbr. 17. gr. ráðningarsamningsins, sem kveður á um að ¾ hluta atkvæða þurfi til að hnekkja uppsögn.

            Þegar annar liður fundarins var tekinn fyrir, um innlausn á eignarhlut stefnanda, vísaði fundarstjóri stefnanda af fundinum með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög, gegn mótmælum stefnanda. Fundarmennirnir Knútur og Guðmundur bókuðu einnig mótmæli við því að stefnanda væri vikið af fundinum. Birkir og Lárus lýstu einnig slíkum mótmælum í ræðum sínum, meðal annars með vísan til þess að 36. gr. laga nr. 50/2007 ætti ekki við í þessu tilviki. Greidd atkvæði voru 17, þar af samþykktu 13 félagsmenn innlausn eignarhlutar stefnanda en fjórir félagsmenn höfnuðu henni. Var tillagan samþykkt með tilskildum meirihluta samkvæmt 8. gr. samkomulags A-félagsmanna D&T sf., sem kveður á um að til þess að innlausn verði gild þurfi a.m.k. ¾ hlutar greiddra atkvæða að vera henni samþykkir.

            Þann 27. mars 2017 sendi stefnandi tölvubréf til lögmanns Deloitte þar sem meðal annars kemur fram að harmað væri að ekki hefði lánast að tryggja lögmæti eigendafundar 7. mars 2017 þar sem stefnanda hafi verið vísað út úr húsi, ásamt ráðgjafa sínum, á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga nr. 50/2007, en ljóst væri að það ákvæði ætti ekki við um þá umfjöllun sem óskað hafði verið eftir á fundinum. 

            Þann 23. maí 2017 var undirritað samkomulag milli stefnanda og stefnda D&T sf. um uppgjör vegna uppsagnar stefnanda og innlausnar á eignarhlut hans í D&T sf. Undirritaði stefnandi samkomulagið með fyrirvara um frekari kröfur og réttindi á hendur stefndu af þessu tilefni. Viðræður um frekara fjárhagslegt uppgjör vegna starfsloka og útgöngu stefnanda í ljósi krafna hans báru ekki árangur. 

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

            Stefnandi kveðst höfða málið til heimtu skaðabóta o.fl. vegna ólögmætrar uppsagnar og í raun riftunar á ráðningarsamningi stefnanda og stefnda Deloitte FAS ehf., svo og vegna ólögmætrar innlausnar á eignarhlut stefnanda í stefnda D&T sf. Nánar tiltekið sé í fyrsta lagi krafist skaðabóta vegna fjártjóns stefnanda í formi vangoldinna launa á uppsagnarfresti, það er fyrir tímabilið 1. apríl 2017 til 31. ágúst 2017, og í öðru lagi bóta fyrir ófjárhagslegt tjón og miska sem stefnandi hafi orðið fyrir í tengslum við starfslokin, sbr. A- og B-liði dómkrafna. Í þriðja lagi, sbr. C-lið dómkrafna, sé krafist greiðslu fyrir eignarhlut stefnanda í stefnda D&T sf., sem stefnanda hafi samhliða hinum ólögmætu ráðningarslitum verið gert að þola innlausn á á verði í samræmi við útreikningsreglu í 5. gr. samkomulags A-félagsmanna D&T sf., sem stefnandi telji miklum mun lægra en nemi sann- og raunvirði eignarhlutarins. Upphæð þessa kröfuliðar nemi því mismun á innlausnarverði eignarhlutar stefnanda annars vegar og sann- og raunvirði hans hins vegar, eða 133.448.012 krónum miðað við svonefnda sjóðstreymisaðferð að frádreginni innborgun til stefnanda. Í fjórða lagi sé krafist viðurkenningar á rétti stefnanda til hlutdeildar í hagnaði stefnda Deloitte ehf. o.fl. 2016-2017, sem stefnanda hafi verið synjað um á grundvelli ólögmæts brottrekstrar frá Deloitte, og sem taki mið af einingum stefnanda samkvæmt útreikningsaðferð í 2. gr. samkomulags A-félagsmanna, en til vara viðurkenningar á skaðabótarétti á sama grundvelli, sbr. D-lið dómkrafna. Í fimmta lagi sé krafist viðurkenningar á því að ákvæði, sem leggi hömlur við því að stefnandi sinni endurskoðunar- og ráðgjafarstörfum eftir starfslok hjá Deloitte-samstæðunni, og fram komi í ráðningarsamningi og samkomulagi A-félagsmanna, séu ógild og óskuldbindandi gagnvart stefnanda, meðal annars í ljósi ólögmæts brottrekstrar, auk viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna fjártjóns stefnanda vegna takmarkana samkvæmt fyrrnefndum samningsákvæðum, sbr. E-lið dómkrafna. Stefnandi höfði málið á hendur stefndu með heimild í 1. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfum samkvæmt A- og B-liðum dómkrafna sé beint að stefndu Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf. og A-félagsmönnum D&T sf., miðað við 7. mars 2017, vegna ólögmætrar uppsagnar á ráðningarsamningi stefnanda og ólögmætrar innlausnar á eignarhlut hans í D&T sf., sem fyrrtaldir stefndu hafi staðið að og beri óskipta bótaábyrgð á. Dómkröfum C-E, sem séu samrættar og að hluta samkynja dómkröfum A og B, sé jafnframt beint að fyrrgreindum stefndu auk D&T sf., eftir því sem við eigi, sbr. nánari umfjöllun um einstakar dómkröfur og aðild að þeim hér á eftir. Dómkröfu C og aðalkröfu D sé einnig beint að B-félagsmönnum D&T sf., ásamt þremur nýjum A-félagsmönnum sem gengið hafi í hóp meðeigenda eftir 7. mars 2017. Þess skal getið að stefndi Sigurður Pálmi hafi verið A-félagsmaður þegar A-félagsmannafundurinn hafi farið fram 7. mars 2017 en sé nú B-félagsmaður. Allt að einu verði í umfjöllun um skaðabótaskyldu o.fl. rætt um Sigurð Pálma sem A-félagsmann, miðað við stöðu hans 7. mars 2017.

            Ólögmæti uppsagnar o.fl.

            Fram er komið að stefnanda hafi með bréfi 13. febrúar 2017, undirrituðu af stjórnum stefndu Deloitte ehf. og Deloitte FAS ehf., verið sagt upp með eins mánaðar fyrirvara með vísan til 17. gr. ráðningarsamnings stefnanda og Deloitte FAS ehf., sem heimilar félaginu að segja samningnum upp með „eins til þriggja mánaða fyrirvara“ séu tiltekin atvik fyrir hendi. Uppsögn ráðningarsamningsins hafi í kjölfarið verið staðfest af A-félagsmannafundi 7. mars 2017. Hafi stefnanda samhliða verið gert að „þola innlausn“ eignarhlutar síns í stefnda D&T sf.

            Í uppsagnarbréfi til stefnanda sé vísað til þess eina atviks að á árinu 2015 hafi stefnandi tekið að sér, f.h. Deloitte, verkefni fyrir móðurfélag [...], sem hafi meðal annars falið í sér yfirferð viðskiptaáætlunar vegna fiskeldis. Í janúar 2017 hafi stefnandi síðan átt aðild að kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, þar sem krafa hafi verið gerð um að fellt yrði úr gildi starfsleyfi til sjókvíaeldis, sem hafi verið veitt [...]. Líta verði svo á að ákvörðun stefndu um fyrirvaralausa uppsögn ráðningarsamnings stefnanda sé eingöngu byggð á meintu broti stefnanda á „innri reglum Deloitte, ákvæðum ráðningarsamnings og siðareglum endurskoðenda …“, vegna aðildar stefnanda að kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Stefndu séu bundnir við framangreindan rökstuðning uppsagnarinnar eins og hann birtist í uppsagnarbréfi 13. febrúar 2017.

            Tekið sé fram að í byrjun árs 2017, eftir að fyrrgreindu verkefni fyrir móðurfélag [...]. hafi verið lokið, en því hafi lokið árið 2015, hafi stefnandi undirritað, sem eigandi að 1/7 hluta jarðarinnar [...], og þannig einn af fjölmörgum landeigendum við [...] sem hafi komið að stjórnsýslu­kærunni, fyrrnefnt kæruskjal til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna starfsleyfis [...] til fiskeldis, en í kærunni hafi verið vísað til þess að ekki hefði verið réttilega staðið að veitingu leyfisins.

            Stefnandi kveðst byggja á því að aðkoma hans að kærunni geti á engan hátt fallið undir brot á tilvísuðum „innri reglum Deloitte, ákvæðum ráðningarsamnings og siðareglum endurskoðenda“, svo sem stefndu byggi á. Í fyrsta lagi sé ljóst að engin orsakatengsl séu milli þess að starfsleyfið sætti kæru á stjórnsýslustigi og áritunar stefnanda á kæruna, sem einn af fjölmörgum, og sem að því leyti til hafi raunar verið þýðingarlaus. Í öðru lagi hafi fyrirsvarsmaður [...] staðfest við stefnanda og fulltrúa hans, að áritunin hefði enga þýðingu haft varðandi viðskiptatengsl við Deloitte, í þessu sambandi, þótt hún hafi komið viðkomandi á óvart. Á hinn bóginn hafi það verið sameiginlegur skilningur stefnanda og viðkomandi að hagsmunir viðkomandi lægju einmitt í því að leyfisveiting væri, frá upphafi, lögmæt, en að aðkoma stefnanda skipti engu í því tilliti. Í þriðja lagi hafi strax verið ljóst að áritun stefnanda á stjórnsýslukæruna hafi á engan hátt skaðað viðskiptasamband Deloitte við viðkomandi aðila, nema síður væri. Hafi hún í raun engu breytt í því tilliti. Í fjórða lagi sé byggt á sjónarmiðum um tjáningarfrelsi stefnanda, sbr. 1. og 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, en með undirskrift sinni hafi stefnandi verið að láta í ljós persónulegt mat sitt á mikilvægi þess að réttilega væri staðið að veitingu leyfis til fiskeldis. Að öllu framangreindu virtu sé þessi tilgreinda ástæða fyrirvaralausrar uppsagnar, og eins og hún hafi verið rökstudd í uppsagnarbréfi, haldlaus. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála númer 5/2017 hafi starfsleyfið verið fellt úr gildi, en stefnandi hafi ekki átt aðild að því kærumáli. Máli númer 6/2017, sem stefnandi hafi átt aðild að, hafi verið vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða ákvörðun hafi ekki lengur haft réttarverkan að lögum og höfðu kærendur því ekki hagsmuni af efnisúrlausn.

            Loks sé því sérstaklega hafnað sem röngu og ósönnuðu, sem fram komi af hálfu Pálínu Árnadóttur, áhættustjóra, á kynningarfundi um ástæður brottvikningar stefnanda 13. febrúar 2017, hvað það varði að stefnandi hafi nýtt sér gögn sem tengdust tilgreindri vinnu við viðskiptaáætlunina í tengslum við stjórnsýslukæruna. Stefnandi telji slíkt ekki eiga við nein rök að styðjast.

            Af hálfu stefndu hafi uppsögn stefnanda sem fyrr segir eingöngu verið reist á aðkomu stefnanda að stjórnsýslukæru vegna [...]. Að því er varði aðrar ásakanir um meint brot stefnanda, sem ekki verði séð að byggt hafi verið sérstaklega á í þessu sambandi, en hafi komið fram á síðari stigum, sé bent á að í fundargerð eigendafundar stefnda D&T sf., eftir uppsögn stefnanda, sé meðal annars vísað til brota stefnanda á óhæðisreglum Deloitte, það er vegna meintra fjárfestinga stefnanda í félögum sem Deloitte endurskoði. Því sé hafnað að tilgreind viðskipti stefnanda hafi falið í sér brot á framangreindum reglum, eða að frávik, hafi þeim verið til að dreifa, hafi getað réttlætt fyrirvaralausa uppsögn. Einnig andmæli stefnandi þýðingu slíkra viðskipta fyrir uppsögnina enda ekki vísað til þeirra í uppsagnarbréfi. Vísað sé til þess af hálfu stefnanda að hann hafi sjálfur hvorki, á því tímamarki sem hér skipti máli, keypt né selt verðbréf. Nánar tiltekið hafi allur sparnaður stefnanda, og eiginkonu hans, fram til ársins 2008 verið í sjóði 9 hjá Glitni banka. Í kjölfar bankahruns hafi stefnandi flutt sparnað sinn yfir til Deloitte í formi láns, báðum aðilum til hagsbóta. Árið 2010, þegar Deloitte hafði greitt niður yfirdrátt sinn, hafi stefnandi ákveðið að leggja sparnað sinn inn í [...] og hafi verið um það samið að bankinn sæi alfarið um stýringu eignasafnsins og hafi stefnandi ekki komið að henni. Nánar tiltekið hafi [...], starfsmaður [...], séð um öll þessi málefni stefnanda og hafi nefndur starfsmaður haft lista yfir öll þau félög sem Deloitte endurskoði og stefnanda hafi verið óheimilt að fjárfesta í. Þegar Deloitte hafi tekið við endurskoðun [...] árið 2015 hafi stefnandi flutt viðskipti sín yfir til [...] og gert samning um eignastýringu eignasafns síns þar. Verði því að telja ljóst að stefnandi hafi ekki komið að neinum fjárfestingarákvörðunum tengdum eignasafni sínu á síðustu árum. 

            Í þessu sambandi telji stefnandi að við þeim fáu ábendingum sem hafi borist stefnanda frá áhættustýringu Deloitte á síðustu árum hafi sannanlega verið brugðist með fullnægjandi hætti og viðeigandi ráðstafanir gerðar við fyrsta tækifæri, sbr. leiðbeiningar starfsmanna áhættustýringar sem fram komi í tölvupóstsamskiptum við stefnanda og í samtölum stefnanda við viðkomandi starfsmenn. Þar að auki telji stefnandi sig ætíð hafa fylgt ráðgjöf starfsmanna áhættustýringar þegar svo hafi borið undir. Stefnandi telji sig ávallt hafa gert allt sem í sínu valdi standi til þess að lúta öllum þeim reglum sem varði störf hans hjá Deloitte, og hafi leitast við að leiðrétta samkvæmt þeim ábendingum sem hann hafi fengið.  

            Hvað varði kaup eða sölu fyrir hönd stefnanda, eða aðila tengdra honum, í bréfum í [...], um það bil 224.000 krónur, í sjóðum [...] sem í tilviki stefnanda hafi varðað það hvort sala hefði farið fram innan hæfilegs tíma, en í tilviki sona stefnanda varðaði annars vegar um það bil 126.000 krónur og hins vegar um það bil 155.000 krónur, [...], um það bil 140.000 krónur, og sjóðum [...], þá sé vísað til alls framangreinds, hvað varði þátttöku stefnanda, sem í öllum tilvikum hafi takmarkast eftir atvikum við leiðréttingar og eftirfarandi óskir um sölu. Af þessu telji stefnandi ljóst að hann hafi aldrei sjálfur staðið í fjárfestingum í félögum sem Deloitte endurskoðaði, hvað þá að slíkar meintar fjárfestingar geti talist ítrekaðar og stórfelldar og hafni stefnandi því alfarið að framangreint hafi getað gefið tilefni til fyrirvaralausrar uppsagnar stefnanda, ef því sé að skipta.

            Þá sé í fundargerð eigendafundar stefnda D&T sf., eftir uppsögn stefnanda, einnig vísað til þess sem eins af meintum brotum stefnanda að hann hafi „áritað ársreikning eins viðskiptavinar Deloitte án þess að fylgja verklagsreglum Deloitte.“ Stefnandi hafni þessu og mótmæli að þessar órökstuddu ávirðingar hafi þýðingu fyrir uppsögn ráðningarsamnings stefnanda, en uppsögnin hafi sem fyrr segir einvörðungu verið byggð á aðkomu stefnanda að tiltekinni stjórnsýslukæru, sbr. uppsagnarbréf frá 13. febrúar 2017, og séu stefndu við þann rökstuðning bundin. Í þessu sambandi skuli þó tekið fram, og sé óumdeilt, að stefnandi hafi ritað undir ársreikning félagsins [...]. vegna ársins 2015, ásamt [...], endurskoðanda hjá Deloitte. Stefnandi byggi á því að hann og [...] hafi haft fullnægjandi þekkingu á viðskiptavininum til þess að meta reikningsskilin. Félagið hafi verið í svokallaðri umsjón Páls Grétars Steingrímssonar, endurskoðanda hjá Deloitte. Töluvert hafi legið á að ljúka endurskoðun og undirritun ársreikningsins og hafi gætt nokkurrar óánægju á meðal forsvarsmanna [...] vegna áhugaleysis Páls Grétars á reikningsskilum félagsins, og hafi viðskiptavinurinn meðal annars óskað eftir því að stefnandi myndi ljúka endurskoðunarvinnu og áritaði reikningssilin. Með því að ljúka vinnu við endurskoðun og undirrita reikningsskilin hafi stefnandi talið sig vera að gæta bæði hagsmuna Deloitte og viðskiptamanns Deloitte, auk þess sem fyrir liggi að Páll Grétar hafi lítið sem ekkert unnið fyrir viðskiptavininn á því ári sem ársreikningurinn hafi varðað. Þar að auki liggi fyrir að Páll Grétar hafi lengi verið meðvitaður um áritun stefnanda á ársreikninginn áður en til ofangreindrar athugasemdar kom. Verði ekki séð að stefnandi teljist geta hafa, með framangreindri ráðstöfun sinni, ef því sé að skipta, stofnað hagsmunum Deloitte, eða viðskiptamanna þess, í hættu. Raunar verði fremur að telja að stefnandi hafi í einu og öllu leitast við að tryggja hag Deloitte og viðskiptamanna þess. Hér geti því í engu talist um brot í starfi að ræða.

            Önnur atriði í tengslum við uppsögn stefnanda

            Þá kveðst stefnandi vísa til þess að hann hafi í engu verið inntur eftir afstöðu sinni, röksemdum eða frekari útskýringum vegna þess meinta brots, sem tilgreint sé í uppsagnarbréfi, eða vegna annarra atvika, ef því sé að skipta, í tengslum við uppsögnina. Stefnandi hafi þannig ekki notið réttar til að bera fram mótmæli vegna þess atriðis sem hin fyrirvaralausa uppsögn hafi gagngert verið reist á. Því hafi í engu verið uppfylltar þær kröfur sem gera verði við slíkar aðstæður, meðal annars að mál sé nægjanlega upplýst áður en gripið sé til ráðstafana af þessum toga. Uppsögnin hafi að þessu leyti verið í brýnni andstöðu við almennar reglur vinnuréttar sem gildi um framkvæmd uppsagnar við aðstæður sem þessar, svo og gagnkvæmar trúnaðar- og tillitsskyldur sem hafi gilt í samnings-  og réttarsambandi aðila. Þegar af þessum sökum hafi uppsögnin og þær ráðstafanir sem fylgdu í kjölfarið verið ólögmætar.

            Með tilliti til alls þess sem að framan greini hafnar stefnandi því að ástæður 1., 6. og 7. tl. 17. gr. ráðningarsamningsins hafi verið fyrir hendi og að stefnandi hafi brotið gegn 4., 6. og 8. gr. ráðningarsamningsins, siðareglum endurskoðenda og ákvæðum laga nr. 79/2008 um endurskoðendur. Í því sambandi byggi stefnandi á því að með því að segja stefnanda upp með eins mánaðar fyrirvara, eftir að stefnandi hafði starfað í meira en 23 ár fyrir Deloitte, hafi stefndu Deloitte ehf. og Deloitte FAS ehf. í raun rift ráðningarsamningi stefnanda. Byggi stefnandi á því að uppsagnarfresturinn sé afar skammur, meðal annars með tilliti til hins umsamda almenna uppsagnarfrests, og með tilliti til almennra vinnuréttarviðmiðana, og því þurfi afar alvarleg atvik að vera fyrir hendi til að réttlæta beitingu svo skamms uppsagnarfyrirvara sem telst í raun fyrirvaralaus riftun ráðningarinnar. Séu þá einnig hafðar í huga aðrar afleiðingar slíkrar uppsagnar, meðal annars með tilliti til orðspors og æru stefnanda, sem hafi starfað sem sérfræðingur hjá og með stefndu um langt árabil, en afleiðing hinnar fyrirvaralausu uppsagnar sé meðal annars sú að stefnandi hafi verið ólöglega sviptur rétti sínum til hlutdeildar í hagnaði Deloitte ehf. vegna rekstrarársins 2016-2017, sem hann hefði annars notið, auk þess sem uppsögnin hafði sérstaklega alvarlegar afleiðingar fyrir stefnanda, sem sé 50 ára, í ljósi mjög íþyngjandi samkeppnistakmörkunarákvæða, sem nánar verði vikið að síðar. Stefnandi telji, með vísan til alls þess sem að framan greini, að uppsögnin hafi verið ólögmæt og að framkvæmd hinnar ólögmætu uppsagnar hafi verið sérlega særandi og lítilsvirðandi fyrir stefnanda.

            Nánar um skaðabótakröfur, sbr. A- og B-liði dómkrafna

            Með vísan til þess að uppsögn á ráðningarsamningi og innlausn á eignarhlut stefnanda hafi verið ólögmæt samkvæmt framansögðu, kveðst stefnandi byggja á því að stefndu Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf. og hlutaðeigandi A-félagsmenn hafi með aðkomu sinni að hinum ólögmætu ráðstöfunum, þar með talið samþykkt þeirra á A-félagsmannafundi 7. mars 2017, fellt á sig óskipta skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda vegna tjóns sem rakið verði til umræddra ráðstafana. Krafa um bætur vegna vangoldinna launa á uppsagnarfresti, sbr. A-lið dómkrafna, sé reist á almennum reglum skaðabótaréttar. Krafa um miskabætur samkvæmt B-lið dómkrafna sé reist á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þótt stefndu Deloitte ehf. og hlutaðeigandi A-félagsmenn hafi ekki verið aðilar að ráðningarsamningi stefnanda hafi þeir tekið þátt í hinum ólögmætu ráðstöfunum með þeim hætti sem að framan sé lýst, það er með hlutdeild í uppsögninni og staðfestingu hennar á félagsmannafundi, þrátt fyrir að þeim hafi verið eða að minnsta kosti mátt vera ljóst að umræddar ráðstafanir væru ólögmætar og ættu ekki við rök að styðjast. Beri þau því óskipta skaðabótaskyldu með stefnda Deloitte FAS ehf. vegna fjártjóns stefnanda sem rakið verði til viðkomandi ráðstafana.

            Stefnandi krefst þess í A-lið dómkrafna að stefndu Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf. og A-félagsmenn, miðað við 7. mars 2017, greiði stefnanda skaðabætur sem nemi vangoldnum launum á uppsagnarfresti, það er vegna tímabilsins frá 1. apríl 2017 til 31. ágúst 2017, sbr. 1. málsl. 17. gr. ráðningarsamningsins. Laun stefnanda hjá Deloitte hafi numið 1.398.163 krónum á mánuði, síðustu þrjá mánuði fyrir hina ólögmætu uppsögn. Um það vitni launaseðlar vegna janúar, febrúar og mars 2017. Launagreiðslur stefnanda fyrir fimm mánuði hefðu því réttilega átt að nema samtals 6.990.815 krónum. Í því sambandi geri stefnandi einnig kröfu um mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð fyrir sama tímabil. Nánar tiltekið geri stefnandi kröfu um mótframlag í séreignarsjóð, 111.853 krónur á mánuði í fimm mánuði, samtals 559.265 krónur, sbr. 8% framlag, og kröfu um mótframlag í lífeyrissjóð, sem nemi 118.844 krónum á mánuði, fyrir þrjá mánuði, sbr. 8,5% framlag, og sem nemi 139.816 krónum á mánuði fyrir tvo mánuði, sbr. 10% framlag, samtals 636.164 krónur. Auk launagreiðslna geri stefnandi kröfu um hlunnindi sem felist í bílastyrk, 270.000 krónur á mánuði, samtals 1.350.000 krónur fyrir fimm mánaða tímabil. Þá geri stefnandi kröfu um ógreitt orlof sem nemi fimm mánaða tímabili, samtals 806.634 krónur. Loks geri stefnandi kröfu um ógreidda desemberuppbót, 64.500 krónur. Samtals nemi skaðabótakrafa vegna tapaðra launa 10.407.378 krónum. Um skaðabótakröfu samkvæmt A-lið dómkrafna, þar með taldar forsendur skaðabótaskyldu, vísar stefnandi einnig til umfjöllunar um B-lið dómkrafna hér á eftir, að breyttu breytanda.

            Í B-lið dómkrafna krefjist stefnandi miskabóta óskipt úr hendi stefndu Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf. og A-félagsmanna vegna ólögmætra meingerða í garð stefnanda í tengslum við starfslokin. Nánar tiltekið byggi stefnandi á því að með hinni ólögmætu uppsögn, og því hvernig staðið var að uppsögninni, og eftirfarandi staðfestingu hennar á A-félagsmannafundi, hafi stefndu skaðað æru stefnanda og valdið honum miklum álitshnekki. Auk þess sem uppsögn stefnanda hafi verið ólögmæt og óheimil sé ljóst að uppsögnin, og atvik henni tengd, sem stefndu beri ábyrgð á, hafi valdið stefnanda miklum miska. Sé meðal annars í því sambandi vísað til þess að Halldór Arason stjórnarformaður hafi fyrir hönd stjórnar stefnda Deloitte ehf. sent tölvubréf á alla meðeigendur, bæði í A- og B-flokki, þar sem fullyrt hafi verið að ástæða uppsagnarinnar væri „ítrekuð brot“, og sérstaklega vísað til eðlis og alvarleika brotanna og að ljóst væri að brotin hefðu verið Deloitte til álitshnekkis. Í því sambandi sé tekið fram að í ljósi þess hversu víða tölvubréfið hafi verið sent þá hafi fregnir af brottrekstri stefnanda og meintum ástæðum hans borist eins og eldur um sinu um íslenskt viðskiptalíf og hafi stefnandi því beðið mikinn og óverðskuldaðan orðsporshnekki að óþörfu. Þá hafi stefnanda aldrei verið gefinn kostur á að andmæla ástæðum uppsagnar, eða meintum brotum, auk þess sem honum hafi verið gert að yfirgefa vinnustaðinn þegar í stað, eins og að vera hans þar skapaði sérstakt hættuástand. Einnig hafi stefnanda verið vikið af meðeigendafundum fyrir framan fyrrverandi samstarfsfélaga sína. Að auki sé vísað til þess að við uppsögn stefnanda hafi verið lokað á allan tölvuaðgang hans fyrirvaralaust. Ljóst sé að framganga stefndu hafi ekki verið í neinu samræmi við tilefnið og falið í sér grófa aðför að orðspori og starfsheiðri stefnanda, frammi fyrir samstarfsfélögum hans til margra ára og áratuga, og hafi jafnframt verið fallin til þess að auka verulega á tjón og miska stefnanda vegna starfslokanna algerlega að nauðsynjalausu.

            Stefnandi kveðst byggja á því, með vísan til framanritaðs, að stjórnarmenn stefndu Deloitte ehf. og Deloitte FAS ehf., svo og hlutaðeigandi A-félagsmenn, hafi vitað eða mátt vita að uppsagnarástæður væru óréttmætar og gæfu í engu falli tilefni til fyrirvaralausrar uppsagnar, auk þess sem telja verði að þeim hafi verið ljóst hverjar afleiðingar athafna þeirra kynnu að hafa í för með sér fyrir stefnanda. Byggi stefnandi því á því að stefndu Deloitte ehf. og Deloitte FAS ehf., það er stjórnarmenn í hvoru félagi um sig, svo og stefndu A-félagsmenn, sem hafi veitt hinni ólögmætu ráðstöfun endanlegt gildi á félagsfundi, hafi með saknæmum og ólögmætum hætti staðið að meingerð gegn persónu og æru stefnanda og hafi þessir stefndu því fellt á sig skyldu til að greiða stefnanda miskabætur á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. þó fyrirvara hér á eftir vegna tiltekinna meðeigenda. Þá sé á því byggt að bótaskyld háttsemi stefndu hafi gert stefnanda afar erfitt um vik að starfa áfram á þeim vettvangi sem hann hafi starfað á nánast alla starfsævi sína. Í því sambandi skipti einnig máli að telja verður afar erfitt fyrir stefnanda að skipta um starfsvettvang úr því sem nú sé komið og hvað þá að njóta sömu tekjumöguleika á þeim vettvangi. Að öllu framangreindu virtu telji stefnandi fjárhæð miskabóta hæfilega 12.000.000 króna. Áréttað skuli að þau atriði, sem vísað sé til hér að framan í tengslum við miskabótakröfu samkvæmt B-lið dómkrafna, séu einnig til stuðnings skaðabótakröfu vegna fjártjóns á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar, sbr. A-lið dómkrafna, eftir því sem við eigi.

Krafa vegna innlausnarverðs hlutar, sbr. C-lið dómkrafna

Í C-lið dómkrafna geri stefnandi kröfu um greiðslu á 133.448.012 krónum vegna innlausnarverðmætis eignarhlutar stefnanda í stefnda D&T sf., sem stefnanda hafi verið gert að þola innlausn á í kjölfar starfsloka hjá Deloitte, og stefnandi telji ranglega metinn til verðs. Greiðsla fyrir eignarhlutinn, þar með talið fyrir sérgreindan höfuðstól sinn, sem stefnandi hafi móttekið með fyrirvara, hafi numið 46.901.277 krónum miðað við 31. maí 2017, en raunvirði hlutarins, að meðtöldum sérgreindum höfuðstól, nemi að áliti stefnanda að minnsta kosti 180.349.289 krónum. Sé því gerð krafa um greiðslu mismunarins, það er á 133.448.012 krónum. Kröfunni sé beint að stefndu D&T sf., svo og stefndu A- og B-félagsmönnum í félaginu sem beri óskipta greiðsluskyldu gagnvart stefnanda vegna innlausnar hlutarins, þar á meðal eftir meginreglum laga nr. 50/2007 um sameignarfélög.

Framangreint innlausnarverð, sem stefnandi hafi fengið afhent fyrir eignarhlut sinn, þar með talið fyrir sérgreindan höfuðstól sinn, í stefnda D&T sf. og móttekið hafi verið með fyrirvara, hafi verið reiknað út á grundvelli 5. gr. samkomulags A-félagsmanna í félaginu, er varði útreikning á útgönguverði stofnverðs (gegnum­streymisverðs) o.fl. Stefnandi byggi á því að stefndu hafi fyrirgert rétti sínum til að bera fyrir sig útreikning útgönguverðs samkvæmt nefndu ákvæði samkomulagsins, og jafnframt sé stefnandi óbundinn af ákvæðinu af ástæðum sem nánar séu raktar hér á eftir. Eigi stefnandi því rétt á greiðslu fyrir eignarhlut sinn án tillits til 5. gr. samkomulagsins, sem svari fjárhæð dómkröfu. Beri með öðrum orðum að ákvarða virði eignarhlutarins eftir almennum viðmiðunum laga um sameignarfélög nr. 50/2007 og á grundvelli útreiknings­aðferðar sem nánar er lýst hér síðar. Til stuðnings því að stefnandi sé óbundinn af 5. gr. samkomulagsins um útreikning innlausnarverðs sé nánar tiltekið vísað til eftirtalinna atriða.

Í fyrsta lagi sé á því byggt að 5. gr. samkomulagsins eigi alls ekki við um brottrekstur félagsmanns, líkt og í tilviki stefnanda. Samkvæmt hljóðan ákvæðisins eigi það við um „útgöngu“ félagsmanns, en það orð vísar til þess þegar félagsmaður gengur sjálfviljugur úr félagi, sbr. einnig til hliðsjónar 33.-36. gr. laga nr. 50/2007, þar sem gerður sé skýr greinarmunur á „úrsögn“ og útgöngu félagsmanns annars vegar og brottvikningu félagsmanns hins vegar. Framangreint fái einnig stoð í því að í 8. gr. samkomulagsins, sem hafi að geyma sérreglu um það tilvik þegar A-félagsmanni sé „skylt að þola innlausn eignarhluta síns“, líkt og eigi við um stefnanda, sé í engu vísað til 5. gr. samkomulagsins. Verði því ályktað að þegar félagsmanni sé gert að þola innlausn eignarhlutar vegna uppsagnar ráðningarsamnings samkvæmt 8. gr. samkomulagsins, beri ekki að ákvarða innlausnarverð eftir sérreglu 5. gr., heldur samkvæmt almennum viðmiðunum og reglum laga nr. 50/2007, sbr. dómkröfu stefnanda. Enn síður sé fallist á að 5. gr. verði beitt gagnvart félagsmanni sem sagt hafi verið upp og gert að þola innlausn með ólögmætum hætti, líkt og í tilviki stefnanda, og hafi stefndu fyrirgert rétti sínum til að bera fyrir sig ákvæðið gagnvart stefnanda eins og hér standi á.

Þá sé í öðru lagi á því byggt af hálfu stefnanda að stefndu geti ekki borið fyrir sig nefnt uppgjörsákvæði 5. gr. samkomulags A-félagsmanna með vísan til þess að stefnanda hafi með ólögmætum hætti verið synjað um að bera ákvörðun stjórna stefndu Deloitte ehf. og Deloitte FAS ehf., um innlausn eignarhlutar stefnanda, löglega undir A-félagsmannafund til ógildingar, sbr. 2. mgr. 8. gr. fyrrgreinds samkomulags. Samkvæmt nefndu ákvæði hafi félagsmaður sem sé ósáttur við ákvörðun um innlausn eignarhlutar, sem rekja megi til uppsagnar ráðningarsamnings hans, getað borið innlausnina undir A-félagsmannafund og til að innlausnin „verði gild“ skuli að minnsta kosti ¾ greiddra atkvæða á félagsfundinum vera henni samþykkir. Á A-félagsmannafundi, sem stefnandi hafi óskað eftir og haldinn hafi verið 7. mars 2017, hafi stefnanda verið synjað um atkvæðisrétt og vísað af fundinum. Af hálfu stefnanda sé á því byggt að hann hafi á grundvelli 2. mgr. 8. gr. samkomulagsins og almennra reglna hvort tveggja átt rétt á að taka þátt í meðferð málskotsins á fundinum og til að greiða atkvæði sem A-félagsmaður, enda sé í nefndu samkomulagi hvergi vikið að því að félagsmaður, sem neyti málskots, eigi ekki slíkan rétt. Þá sé á því byggt að 2. mgr. 36. gr. laga nr. 50/2007, sem brottrekstur stefnanda af fundinum hafi verið byggður á, hafi ekki átt við við þær aðstæður sem um ræði, auk þess sem samið hafi verið um sérstakt fyrirkomulag í 8. gr. samkomulagsins. Ljóst sé, með vísan til þess hvernig atkvæði hafi fallið um innlausn eignarhlutar stefnanda, að hefði stefnandi notið lögmæts atkvæðisréttar hefðu atkvæði 13 félagsmanna af 18 ekki dugað til staðfestingar á innlausninni og hún því talin ógild. Með vísan til niðurstöðu fundarins, að því er þetta varði, beri að líta svo á að stefnanda hafi verið gert að sæta innlausn á eignarhlut sínum með ólögmætum hætti, sem leiði til þess að stefnanda verði ekki gert að sæta innlausnarreglu 5. gr. samkomulags A-félagsmanna og tilheyrandi skerðingu á verðmæti eignarhlutarins. Á hinn bóginn, og með vísan til uppgjörs aðila með fyrirvara, séu ekki forsendur fyrir því að líta svo á að stefnandi teljist enn eigandi eignarhlutarins að svo komnu, heldur eigi hann rétt á uppgjöri á raunvirði hlutarins í samræmi við C-lið dómkrafna. Sé þá jafnframt haft í huga að stefnanda sé í raun meinuð þátttaka í rekstri og starfsemi Deloitte.

Í þriðja lagi á því byggt að 5. gr. samkomulags A-félagsmanna verði allt að einu ekki beitt gagnvart stefnanda, enda sé ákvæðið óskuldbindandi gagnvart stefnanda með vísan til reglna um brostnar forsendur. Þegar stefnandi hafi gengist undir samkomulag A-félagsmanna, þar með talda 5. gr. um útreikning innlausnarverðs, hafi það ljóslega verið bundið þeirri forsendu, sem hafi í senn verið veruleg og ljós stefndu, að útganga eða uppsögn stefnanda, ef til hennar kæmi, bæri að með lögmætum hætti. Sú forsenda hafi brostið með ólögmætum brottrekstri stefnanda úr félaginu, sem stefndu beri sem fyrr segi ábyrgð á, og verði stefndu að bera halla af þeim forsendubresti. Hafi stefnandi því í ljósi atvika ekki verið bundinn af 5. gr. samkomulagsins við útreikning innlausnarverðs, og eigi því rétt á greiðslu er svari raunvirði eignarhlutarins án tillits til reglu 5. gr.

Í fjórða lagi byggi stefnandi á því að bersýnilega ósanngjarnt og óheiðarlegt sé af hálfu stefndu að bera fyrir sig 5. gr. samkomulags A-félagsmanna gagnvart stefnanda, sbr. 36. og 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Ákvæðið sé að efni til mjög íþyngjandi gagnvart stefnanda, enda leiðir það til óhóflegar skerðingar á virði eignarhlutar stefnanda, og valdi því að stefnandi fái ekki nema lítinn hluta af raunvirði hlutarins greiddan við innlausn. Sú niðurstaða sé bersýnilega ósanngjörn gagnvart stefnanda, þá ekki síst í ljósi þess að stefnanda hafi verið sagt upp og gert að sæta innlausn með ólögmætum og ótilhlýðilegum hætti, og verði 5. gr. samkomulagsins því ekki beitt, sbr. og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 33. gr. sömu laga. Loks sé í fimmta lagi á því byggt að stefndu geti að auki ekki borið fyrir sig 5. gr. samkomulagsins gagnvart stefnanda með vísan til almennra reglna um óréttmæta auðgun. Gagnstæð niðurstaða fæli í sér að stefndu auðguðust af ólögmætri háttsemi sinni sem nemi raunvirði eignarhlutar stefnanda, að frádregnu uppgjöri til stefnanda. Sú niðurstaða fái ekki staðist að lögum.  

            Fjárhæð kröfu samkvæmt C-lið dómkrafna miðist sem fyrr segi við raunvirði eignarhlutar stefnanda, að viðbættum sérgreindum höfuðstól stefnanda, í stefnda D&T sf. miðað við lok rekstrarársins 2016-2017, eða 31. maí 2017, að frádregnu uppgjöri til stefnanda. Við útreikning innlausnarverðs á eignarhlut og sérgreindum höfuðstól stefnanda styðjist stefnandi við svonefnda sjóðstreymisaðferð við mat á virði rekstrarfélagsins Deloitte ehf. og leggi eftirfarandi forsendur til grundvallar þeim útreikningi:

·         Bókfært eigið fé stefnda D&T sf., miðað við 31. maí 2017, sé 291.181.071 króna, sbr. ársreikning stefnda D&T sf. vegna rekstrarársins 2016-2017.

·         Þá sé bakfært bókfært verð eignarhluta stefnda D&T sf. í stefnda Deloitte ehf., miðað við 31. maí 2016, sem nemi 500.695.107 krónum, sbr. ársreikning stefnda D&T sf. vegna rekstrarársins 2016-2017.

·         Endurmetið virði eiginfjár Deloitte ehf. samkvæmt sjóðstreymisaðferð, miðað við 31. maí 2017, sé 3.763.270.280 krónur og sé þá miðað við að rekstrarvirði Deloitte ehf., sé samtals 3.687.742.000 krónur, órekstrartengdar eignir séu samtals 221.000.000 krónur, umframstaða handbærs fjár sé 253.028.000 krónur og að vaxtaberandi skuldir nemi samtals 398.500.000 krónur.

·         Þá sé gert ráð fyrir að arður stefnda Deloitte ehf. sem greiddur verði til stefnda D&T sf. vegna rekstrarársins 2016-2017 nemi 97% af hagnaði ársins sem sé jafnt meðaltali síðustu tveggja ára. Gert sé ráð fyrir að arðgreiðslan verði greidd til meðeigenda D&T sf., vegna rekstrarársins 2016-2017, og sé hún því dregin frá, samtals 245.887.481 króna.

·         Þá séu eignarhlutir B-meðeigenda dregnir frá, alls 1.100.000 krónur.

·         Uppreiknuðu virði skuldabréfa, miðað við 31. maí 2017, sem gefin hafi verið út vegna uppgjörs við stefnanda sé bætt við að fjárhæð 46.901.277 krónur.

·         Þá séu sérgreindir höfuðstólar meðeigenda í D&T sf. miðað við stöðu 31. maí 2017 dregnir frá enda í raun um skuld að ræða, samtals 418.054.699 krónur.

·         Framangreint gefi endurmetið eigið fé D&T sf., samtals 2.935.615.341 krónur.

·         Þá sé áætlað virði framtíðararðs til B-meðeigenda, sem reiknað sé sem 5% af endurmetnu eigin fé stefnda D&T sf., dregið frá, samtals 146.780.767 krónur.

·         Útgönguverð stefnanda, án hagnaðarhlutdeildar vegna rekstrarársins 2016-2017, sem nemi 1/18 hluta framangreinds endurmetins eigin fjár D&T sf., sé samtals 154.935.254 krónur. Við þá fjárhæð bætist síðan sérgreindur höfuðstólsreikningur stefnanda framreiknaður til 31. maí 2017, 25.414.035 krónur og nemi samtals innlausnarvirði til handa stefnanda með höfuðstólsreikningi því 180.349.289 krónum. Frá þeirri fjárhæð sé loks dregið frá það sem stefnandi hafi þegar fengið greitt með útgönguskuldabréfum framreiknuðum til 31. maí 2017, sem móttekin hafi verið með fyrirvara af hálfu stefnanda, samtals 46.901.277 krónur, sbr. uppgjörssamkomulag og kvittanir vegna greiðslu til stefnanda með fyrirvara 23. maí 2017. C-liður dómkrafna stefnanda nemi því eins og áður segi samtals 133.448.012 krónum.

·         Á það sé sérstaklega bent að stefnandi hafi ekki endurmetið aðrar eignir stefndu D&T sf. og Deloitte ehf. en rekstur Deloitte ehf. Að öðru leyti sé vísað um útreikning innlausnarverðs samkvæmt C-lið dómkrafna til framlagra sundurliðaðra útreikninga.

            Stefnandi telji sjóðstreymisaðferð gefa glögga og sanna mynd af raunvirði eignarhlutar hans í stefnda D&T sf. á þeim tíma sem máli skipti, það er í lok rekstrarársins 2016-2017. Nefnd aðferð sé meðal almennt viðtekinna aðferða við verðmat á félögum og fái að auki stoð í reglum laga nr. 50/2007 um sameignarfélög. Af hálfu stefnanda sé þannig á því byggt að leggja beri fyrrgreindar forsendur til grundvallar útreikningi á kröfu um greiðslu innlausnarverðs eignarhlutar hans samkvæmt C-lið dómkrafna, enda feli aðferðin í sér áreiðanlegustu nálgunina á raunvirði hlutarins sem völ sé á að stefnandi telji.

            Hagnaðarhlutdeild, sbr. D-lið dómkrafna

            Í D-lið dómkrafna sé aðallega gerð krafa um viðurkenningu á rétti stefnanda til hagnaðarhlutdeildar vegna hagnaðar stefnda Deloitte ehf. rekstrarárið 2016-2017, frá 1. júní 2016 – 31. maí 2017, sem stefnandi teljist eiga rétt á þrátt fyrir ólögmæta uppsögn á ráðningarsamningi og innlausn á eignarhlut stefnanda í stefnda D&T sf. Sé réttur stefnanda til hagnaðarhlutdeildar talinn niður fallinn vegna ólögmæts brottrekstrar stefnanda sé til vara krafist viðurkenningar á skaðabótarétti stefnanda vegna hagnaðarhlutdeildar sem stefnandi hafi farið á mis við af þeim sökum. Samkvæmt 2. gr. samkomulags félagsmanna stefnda D&T sf. skuli rekstrarniðurstöðu ársreiknings stefnda Deloitte ehf. skipt eftir ákveðinni aðferðafræði sem mæli árangur félagsmanna og lögð sé fyrir A-félagsmenn til samþykktar á aðalfundi. Í 3. gr. samkomulagsins sé kveðið á um að A-félagsmaður sem selji hlut sinn eða sæti innlausn eigi ekki rétt á hagnaðarhlutdeild vegna þess rekstrarárs sem sala eða innlausn eigi sér stað.

            Stefnandi kveðst byggja á því að hann sé óbundinn af reglu 3. gr. samkomulags A-félagsmanna um brottfall á rétti til hagnaðarhlutdeildar við innlausn eignarhlutar og eigi stefnandi því rétt til óskertrar hlutdeildar í hagnaði stefnda Deloitte ehf. vegna rekstrarársins 2016-2017. Um atriði, sem stefnandi byggi á til stuðnings því að hann teljist ekki bundinn af 3. gr. samkomulagsins eins og atvikum sé háttað, sé vísað til framangreindrar umfjöllunar um ólögmæti uppsagnar ráðningar-samningsins og innlausnar eignarhlutar stefnanda í stefnda D&T sf., svo og umfjöllunar í tengslum við 5. gr. samkomulags A-félagsmanna hér að framan, þar með talið ólögmæti félagsfundarins 7. mars 2017, reglur um brostnar forsendur og ógildingarreglur laga nr. 7/1936, en sú umfjöllun eigi hér við að breyttu breytanda. Þessu til samræmis krefjist stefnandi viðurkenningar á rétti til hlutdeildar í hagnaði Deloitte ehf. sem stefnandi teljist eiga rétt til á grundvelli 2. gr. samkomulags A-félagsmanna og almennra reglna, og fá þær ólögmætu ráðstafanir, sem hafi leitt til innlausnar á eignarhlut hans í D&T sf., engu breytt um þann rétt. Með hliðsjón af grundvelli og inntaki þessarar kröfu beini stefnandi henni að stefndu D&T sf. og Deloitte ehf., svo og stefndu A- og B-félagsmönnum D&T sf. vegna óskiptrar ábyrgðar þeirra á skuldbindingum félagsins.

            Til vara geri stefnandi kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefndu Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf. og A-félagsmanna miðað við 7. mars 2017 vegna missis stefnanda á hlutdeild í hagnaði Deloitte ehf. vegna rekstrarársins 2016-2017, sbr. nánar D-lið dómkrafna. Sé stefnandi talinn bundinn af fyrrgreindri 3. gr. samkomulags A-félagsmanna sé ljóst að með hinni ólögmætu uppsögn og eftirfarandi þvingaðri innlausn hlutar stefnanda, sem hann hafi mótmælt og hafi verið bundin fyrirvara af hans hálfu, hafi stefnandi verið með ólögmætum hætti sviptur rétti sínum til hagnaðarhlutdeildar vegna framangreinds tímabils. Hafi stefndu Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf. og viðkomandi A-félagsmenn, sem beri sem fyrr segi ábyrgð á framangreindum ráðstöfunum, því fellt á sig óskipta skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda vegna þeirrar hagnaðarhlutdeildar sem stefnandi hafi orðið af vegna framangreindra ráðstafana. Þegar litið sé til þess hvernig stefndu hafi staðið að starfslokum stefnanda og hversu brátt þau hafi borið að, telji stefnandi jafnframt ljóst að stefndu hafi gagngert reynt að tryggja að stefnandi fengi ekki notið réttmætrar hlutdeildar í hagnaði Deloitte ehf. vegna rekstrarársins 2016-2017, sem stefnandi hefði að öðrum kosti átt rétt til að óbreyttu. Þessi framganga stefndu hafi því ekki aðeins verið meiðandi og harkaleg í garð stefnanda heldur hafi hún jafnframt miðað að því að tryggja stefndu, það er að segja meðeigendum stefnanda í A-flokki, aukna arðshlutdeild á kostnað stefnanda með ólögmætum og ótilhlýðilegum hætti. Um forsendur og grundvöll skaðabótaskyldu vísist að öðru leyti til allrar fyrri umfjöllunar að breyttu breytanda.

            Ekki liggi fyrir forsendur til að stefnanda sé unnt að áætla með nákvæmum hætti þá hagnaðarhlutdeild sem honum beri vegna rekstrarárins 2016-2017 og hefði að óbreyttu komið í hans hlut samkvæmt framansögðu. Hagnaðarhlutdeild A-félagsmanna vegna hvers rekstrarárs sé reiknuð út á grundvelli fjölda eininga sem hverjum A-félagsmanni sé úthlutað eftir ákveðinni aðferðafræði, og í samræmi við reglur í 2. gr. samkomulags A-félagsmanna. Stefnandi hafi þegar fengið úthlutað 195 einingum af samtals 4.085 útgefnum einingum vegna rekstrarársins 2016-2017, það er sem nemi 4,77% af útgefnum einingum. Telji stefnandi að því megi slá því föstu að hann njóti réttar til hagnaðarhlutdeildar að tiltölu við fyrirliggjandi einingar og eftir því sem fyrir sé mælt í 2. gr. samkomulagsins og sem leiði af almennum reglum laga nr. 50/2007. Séu því forsendur til að viðurkenna rétt stefnanda til þeirrar hlutdeildar, en til vara skaðabótarétt vegna tilsvarandi fjártjóns stefnanda, sbr. D-lið dómkrafna, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

            Hömlur á atvinnufrelsi stefnanda óskuldbindandi, sbr. E-lið dómkrafna

Í 19. gr. ráðningarsamnings stefnda Deloitte FAS ehf. og stefnanda sé að finna ákvæði sem takmarki atvinnufrelsi stefnanda í kjölfar starfsloka hjá Deloitte. Nánar tiltekið komi þar fram að „[h]ætti meðeigandi störfum hjá félaginu má hann ekki í 3 ár frá þeim tíma stunda endurskoðunar- eða ráðgjafarstörf, hvorki í eigin nafni né óbeint sem meðlimur eða starfsmaður í öðru samkeppnisfyrirtæki, né fyrir þá sem voru viðskiptavinir Deloitte hf. á þeim tíma sem hann hætti.“ Jafnframt segi að „[e]f meðeigandi hættir störfum hjá félaginu en heldur áfram störfum á sama sviði og tekur með sér viðskiptamenn frá félaginu, skal hann greiða félaginu fjárhæð er nemur meðaltali af ársþóknun þriggja síðustu ára fyrir þau verkefni. Deloitte hf. hefur rétt á að láta slíkar greiðslur ganga upp í greiðslur fyrir kaupverð eignarhlutans eða óuppgerða hagnaðarhlutdeild.“ Sams konar ákvæði sé að finna í samkomulagi A-félagsmanna stefnda D&T sf., sbr. 2. og 3. mgr. 9. gr.

Í E-lið dómkrafna geri stefnandi kröfu um að viðurkennt verði að fyrrgreind ákvæði ráðningarsamningsins og samkomulagsins séu ógild og óskuldbindandi gagnvart stefnanda. Að því er ráðningarsamninginn varði sé kröfunni beint að stefnda Deloitte FAS ehf., en hvað samkomulagið varði sé kröfunni beint að stefndu A-félagsmönnum, auk stefnda Sigurðar Pálma sem fyrrverandi A-félagsmanns og aðila að samkomulaginu. Jafnframt sé í E-lið dómkrafna krafist viðurkenningar á skaðabótaskyldu sömu stefndu vegna tjóns stefnanda, þar með talið tekjutaps, sem leiði af framangreindum samningsákvæðum.

            Í fyrsta lagi byggi stefnandi á því að fyrrgreind samningsákvæði séu ógild og óskuldbindandi gagnvart stefnanda þegar af þeirri ástæðu að honum hafi verið sagt upp störfum með ólögmætum hætti, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936. Sé í því sambandi vísað til fyrri umfjöllunar um ólögmæta uppsögn ráðningarsamnings stefnanda og tengd atriði. Í öðru lagi, og hvað sem líði framansögðu, byggi stefnandi á því að framangreind samningsákvæði séu ógild gagnvart stefnanda á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936, enda gangi þau miklum mun lengra en nauðsynlegt sé til að varna samkeppni, bæði með hliðsjón af umfangi þeirra byrða sem þau leggi á stefnanda og atvikum að öðru leyti. Jafnframt skerði umrædd ákvæði atvinnufrelsi stefnanda með ósanngjörnum og óeðlilegum hætti, án þess að séð verði að neinir raunverulegir hagsmunir stefndu réttlæti svo víðtækar hömlur. Í fyrrgreindu samhengi beri meðal annars að líta til þess að stefnandi sé aðeins 50 ára og eigi því stóran hluta starfsævi sinnar eftir. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. samkomulags A-félagsmanna þurfi meðeigendur að jafnaði ekki að selja eignarhlut sinn og innleysa hagnaðarhlutdeild fyrr en við lok þess reikningsárs sem viðkomandi nær 62 ára aldri. Verði að telja að fyrrgreindum samkeppnistakmörkunum sé fyrst og fremst ætlað að taka til þess hóps félagsmanna, sem hættir við 62 ára aldur, en ekki félagsmanna á aldur við stefnanda, enda er það miklum mun meira íþyngjandi fyrir síðari hópinn að vera bundinn af þriggja ára banni frá því að sinna endurskoðunar- eða ráðgjafarstörfum utan Deloitte, og tilheyrandi kvöðum.

            Í þriðja lagi á því byggt að fyrrgreind samningsákvæði séu í öllu falli óskuldbindandi gagnvart stefnanda á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, enda sé bersýnilega ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að halda þeim upp á stefnanda eins og hér hátti til. Ákvæðin séu að efni til mjög íþyngjandi fyrir stefnanda og eigi það bæði við um ákvæði er feli í sér beinar samkeppnistakmarkanir og ákvæði um að stefnanda beri að greiða ársþóknun þriggja síðustu ára fyrir verkefni sem tengjist viðskiptamönnum Deloitte. Engin haldbær rök réttlæti svo íþyngjandi hömlur á atvinnufrelsi stefnanda, og enn síður þegar stefnanda hafi verið sagt upp með ólögmætum hætti eins og hér hagi til, sbr. og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, sem kveður meðal annars svo á að við ósanngirnismat skuli litið til „atvika sem síðar komu til.“ Um rök fyrir ógildingu vísi stefnandi að öðru leyti til allrar framangreindrar umfjöllunar, þar á meðal um ólögmætan brottrekstur stefnanda og hvernig að honum hafi verið staðið, svo og um inntak og íþyngjandi áhrif þeirra samningsákvæða, sem hér eigi við að breyttu breytanda.

Þá geri stefnandi kröfu um að viðurkenndur verði réttur hans til skaðabóta óskipt úr hendi stefndu Deloitte FAS ehf. og A-félagsmanna, vegna tapaðra tekna stefnanda, vegna fyrrgreindra samkeppnis­takmörkunarákvæða í 19. gr. ráðningar-samnings stefnanda og 2. mgr. 9. gr. samkomulags A-félagsmanna. Með þessum samningsákvæðum, sem stefnandi telji ólögmæt og óskuldbindandi gagnvart sér, séu lagðar mjög íþyngjandi og ósanngjarnar hömlur við því að stefnandi sinni endurskoðunar- og ráðgjafarstörfum, og sé ljóst að stefnandi verði fyrir umtalsverðu tekjutapi af þeim sökum. Sé fallist á þau sjónarmið sem rakin hafi verið hér að framan, meðal annars varðandi ólögmæti ákvæðanna, megi þannig um leið slá því föstu að fyrrgreindir stefndu hafi bakað stefnanda skaðabótaskylt fjártjón sem þeim hafi borið að bæta eftir reglum skaðabótaréttar. 

            Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttar og ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 26. gr. laganna. Einnig er vísað til almennra reglna vinnuréttar, almennra reglna laga nr. 50/2007 um sameignarfélög og til ógildingarreglna samningaréttar, þar með talið 36. og 37. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Vaxta- og dráttarvaxtakröfur styðjast við 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. einnig 5. og 9. gr. sömu laga. Um heimild til að krefjast viðurkenningardóms vísast til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Aðila- og kröfusamlag styðst við 1. mgr. 19. gr. og 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Varnarþing styðst við 1. mgr. 33. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr., sömu laga. Krafa um málskostnað styðst við 129. og 130. gr. sömu laga.

III

Málsástæður og lagarök stefndu D&T sf., Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf. o.fl.

Stefndu D&T sf., Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf. o.fl. reisa kröfur sínar um sýknu af öllum kröfum stefnanda á málsástæðum sem lúta að því að uppsögn stefnanda hafi verið lögmæt. Á fundi með stefnanda og í uppsagnarbréfi til hans séu ástæður uppsagnarinnar raktar og vísað til þess að stefnandi hafi gerst brotlegur við óhæðisreglur og fengið áminningu vegna þess og að um ítrekuð brot hafi verið að ræða. Þar að auki hafi stefnandi brotið gegn reglum um hagsmunaárekstra, líkt og einnig greini í uppsagnarbréfinu, og innri verklagsreglum Deloitte um áritun ársreikninga. Hafi stefnanda því verið gerð grein fyrir öllum ástæðum uppsagnarinnar á fundi með stjórn félagsins 13. febrúar 2017 líkt og hann hefur sjálfur upplýst.

Lögmæti uppsagnar o.fl.

Stefnandi hafi verið skuldbundinn samkvæmt ráðningarsamningi sínum við stefnda Deloitte FAS ehf. til að fylgja siðareglum endurskoðenda og til að fylgja óhæðis- og siðareglum Deloitte eins og þær eru á hverjum tíma. Í 4. gr. ráðningar-samningsins segi að meðeigandi skuli „ávallt uppfylla skyldur sínar samviskusamlega, samkvæmt góðri starfsvenju og óhæðis- og siðareglum ásamt verklags- og gæðareglum félagsins og samkvæmt þeirri stefnu og aðferðarfræði sem sett hefur verið hjá félaginu á hverjum tíma“. Í 6. gr. samningsins segi að meðeigandi skuli hafa í heiðri lög og reglur sem að starfinu lúta og rækja starf sitt af kostgæfni og samviskusemi í samræmi við góðar starfsvenjur og óhæðis- og siðareglur. Í 17. gr. ráðningarsamningsins sé fjallað um uppsögn hans. Þar komi fram að almennt gildi gagnkvæmur að minnsta kosti sex mánaða uppsagnarfrestur. Félaginu sé þó heimilt að segja samningnum upp með eins til þriggja mánaða fyrirvara ef tilteknar ástæður eru fyrir hendi sem taldar séu upp í 1., 6. og 7. töluliðum.

Þá segi í niðurlagi 17. gr. ráðningarsamningsins að viðurlög við brotum á óhæðis- og siðareglum Deloitte fari eftir refsiákvæðum vegna brota á óhæðisreglum sem samþykktar hafi verið af stjórn 24. maí 2007. Slík brot geta varðað fyrirvaralausri uppsögn. Í 20. gr. samningsins komi fram að meðeigandi megi ekki „beint eða óbeint, eiga hlut í fyrirtæki sem félagið endurskoðar. Verði ytri atvik, svo sem arfur, gjöf eða samruni fyrirtækja til þess að meðeigandi eignist hlut í fyrirtæki umbjóðanda, ber honum að losa sig við þann hlut eins fljótt og auðið er og í síðasta lagi innan 3 mánaða“. Þá segi í 21. gr. ráðningarsamningsins segir að meðeigendum beri að „haga störfum sínum í samræmi við við siðareglur viðkomandi starfsstéttar hverju sinni; siðareglum endurskoðenda (IFAC og FLE). Auk þess ber ávallt að fylgja óhæðis- og siðareglum Deloitte sem í gildi eru á hverjum tíma“. Þar sé vísað til alþjóðasamtaka endurskoðenda og Félags löggiltra endurskoðenda.

Um störf löggiltra endurskoðenda gildi lög nr. 79/2008 um endurskoðendur. Í 2. mgr. 8. gr. laganna komi fram að endurskoðendur skuli fylgja siðareglum sem settar hafi verið af Félagi löggiltra endurskoðenda. Enn fremur komi fram í 1. mgr. 19. gr. laganna að endurskoðendur skuli vera óháðir viðskiptavinum sínum, bæði í reynd og ásýnd. Þá segi í 3. mgr. 19. gr. að við mat á óhæði skuli fylgja ákvæðum siðareglna Félags löggiltra endurskoðenda. Stefndu telji að stefnandi hafi með framferði sínu gerst brotlegur gegn óhæðisreglum Deloitte, siðareglum endurskoðenda og lögum um endurskoðendur með hætti sem sé til þess fallinn að geta skaðað félagið verulega út á við og brjóti í veigamiklum atriðum gegn ákvæðum ráðningar­samnings hans.

Stefnandi hafi orðið uppvís að því þrjú ár í röð að víkja frá óhæðisreglum með brotum sem teljist varða við siðareglur endurskoðenda og falli því í alvarleikaflokk 2. Stefndu vísi sérstaklega til kafla 290 í siðareglunum, einkum reglu 290.108, þar sem lagt sé bann við því að meðeigendur á endurskoðunarstofu eða nánir fjölskyldu-meðlimir þeirra eigi beina fjárhagslega hagsmuni eða verulega óbeina fjárhagslega hagsmuni í viðskiptavini í endurskoðun. Sérstaklega sé tekið fram í reglunni að ógnun vegna eigin hagsmuna í tilvikum sem þessum sé svo mikil að engar varúðarráðstafanir geti gert hana ásættanlega. Efnislega sambærilegt ákvæði sé að finna í 290. kafla siðareglna IFAC en siðareglur Félags löggiltra endurskoðenda séu að stórum hluta þýðing á þeirri erlendu fyrirmynd sem einnig liggi að þessu leyti til grundvallar innri reglum Deloitte um óhæði. Í grein 2.2 í reglunum sé lagt bann við því að meðeigendur eða nánir fjölskyldumeðlimir þeirra eigi beina fjárhagslega hagsmuni eða verulega óbeina fjárhagslega hagsmuni í viðskiptavini í endurskoðun. Tilvísuð ákvæði eigi bæði við um það þegar stefnandi eða, eftir atvikum, nánir fjölskyldumeðlimir hans hafi átt viðkomandi fjárhagslegu hagsmuni á sama tíma og hlutaðeigandi félög hafi verið endurskoðuð af Deloitte og þegar stefnandi hafi ekki tímanlega fylgt fyrirmælum um að selja sömu hagsmuni.

Vegna stöðu stefnanda sem meðeigandi og sviðsstjóri hafi hvert og eitt þessara brota gegn óhæðisreglum talist alvarlegt í skilningi refsiákvæða vegna brota á óhæðisreglum, viðauka við þær reglur og agareglur Deloitte. Brotin hafi sætt aðfinnslum og í hvert sinn sem stefnanda hafi verið birt niðurstaða óhæðiskönnunar hafi honum verið rétt að líta svo á að hann hafi fengið viðvörun vegna viðkomandi brota. Brotin hafi því verið ítrekuð. Samkvæmt innri reglum Deloitte um refsiákvæði vegna brota á óhæðisreglum, viðauka við þær reglur og agareglur teljist ítrekuð alvarleg brot vera vítaverð og skuli leiða til viðvörunar og jafnvel fyrirvaralausrar uppsagnar. Brot stefnanda gegn óhæðisreglum hefðu því ein og sér getað verið fullnægjandi grundvöllur uppsagnar með eins mánaðar fyrirvara. Til viðbótar hafi háttsemi stefnanda sem lýst sé að framan falið í sér brot á greinum 4, 6, 20 og 21 í ráðningarsamningnum. Rétt sé að geta þess sérstaklega, þar sem lesa megi af stefnu að stefnandi telji að um léttvæg brot hafi verið að ræða, að alvarleiki felst í brotunum sem slíkum án tillits til undirliggjandi fjárhæða. Það þurfi því ekki að vera um verulegar fjárhæðir að ræða að baki brotum, brotið telst alvarlegt hver sem fjárhæð fjárfestingar sé.

Áritun skýrslu óháðs endurskoðanda vegna endurskoðunar [...] hafi falið í sér brot á innri reglum Deloitte. Samkvæmt þeim, einkum handbók um aðferðafræði við endurskoðun, hvíli ábyrgð á endurskoðun á herðum þess eiganda sem beri ábyrgð á málinu. Til að viðhalda heimild hjá Deloitte til að rita undir ársreikninga þurfi að sækja námskeið samkvæmt námskeiðsáætlun Deloitte í samræmi við reglur þar um. Þá sé almenna reglan sú að viðkomandi starfi á endurskoðunarsviði Deloitte, nema annað fyrirkomulag hafi verið sérstaklega ákveðið í samráði við sviðsstjóra endurskoðunarsviðs og gæða- og áhættustjóra Deloitte. Stefnandi hafi ekki sótt þau námskeið sem voru forsenda slíkrar heimildar og ekki haft samráð við sviðsstjóra endurskoðunarsviðs og gæða- og áhættustjóra vegna undirritunar ársreikninga. Af þeim sökum hafi honum verið óheimilt samkvæmt innri reglum Deloitte að árita skýrslu óháðs endurskoðanda um endurskoðun.

Engu breytir um það hvort framganga stefnanda hafi talist brot á ráðningarsamningi hans hafi honum verið heimilt, út á við og með vísan til laga um endurskoðendur, að skrifa undir ársreikninginn. Stefnandi hafði að áliti stefndu hvort sem er ekki slíka heimild vegna þess að 11. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur áskilji að sá sem beri ábyrgð á endurskoðuninni skuli staðfesta hana með áritun um að hún innihaldi upplýsingar um endurskoðunina og álit endurskoðandans. Stefnandi hafi ekki borið ábyrgð á endurskoðun [...] heldur sá sem í samantekt um samþykktarferli verkefnisins og áhættumat þess var tilgreindur sem ábyrgur á málinu. Þá skipti ekki máli varðandi fylgni við innri reglur Deloitte að viðskiptavinurinn hafi óskað eftir því að stefnandi áritaði reikningsskilin eða að stefnandi hafi talið sig vera að gæta bæði hagsmuna Deloitte og viðskiptamanns Deloitte. Hafi stefnandi talið á það vanta að viðskiptavini Deloitte væri veitt fullnægjandi þjónusta bar honum að tilkynna þar um í samræmi við reglur IS PM35. Það hafi hann ekki gert.

Loks hafi stefnandi gerst brotlegur við siðareglur endurskoðenda, einkum ákvæði kafla 220 þar sem fjallað sé um hagsmunaárekstra, og jafnframt innri reglur Deloitte um hugsanlega hagsmunaárekstra, þegar hann hafi tekið að sér vinnu fyrir [...] vegna [...]. Í reglu 220.1 í siðareglum endurskoðenda sé þannig fjallað um að endurskoðandi skuli gera viðeigandi varúðarráðstafanir til að greina aðstæður sem leitt geti til hagsmunaárekstra og grípa þá til viðeigandi varúðarráðstafana, sbr. reglur 220.3, 220.4 og 220.5, til að upplýsa um eða koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Þá sé í kafla 120 fjallað um grundvallarregluna um hlutlægni og sagt að endurskoðandi skuli ekki stofna dómgreind sinni í hættu vegna hlutdrægni, hagsmunaárekstra eða óviðeigandi áhrifa frá öðrum. Tekið sé fram að óraunhæft sé að skilgreina og lýsa öllum slíkum aðstæðum.

Stefndu byggi á því að augljóslega hafi það falið í sér hættu á hlutdrægni og hagsmunaárekstrum þegar stefnandi hafi tekið að sér verkefni vegna fyrirhugaðs laxeldis þar sem hann hafi sjálfur átt beinna hagsmuna að gæta sem landeigandi og veiðiréttarhafi á sama svæði. Enda hafi það síðar komið í ljós og verið staðfest með aðild stefnanda að kæru á starfsleyfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem krafist hafi verið ógildingar starfsleyfis [...] til sjókvíaeldis í [...] 6. janúar 2017.

Reglurnar um hagsmunaárekstra taki ekki aðeins til óhæðis í reynd heldur krefjist þær einnig ásýndar óhæðis. Geti því engu máli skipt í þessu sambandi þau sjónarmið sem komi fram af hálfu stefnanda um orsakatengsl, áhrif á viðskiptatengsl og tjáningarfrelsi. Sama máli gegni um það að kærunni sem stefnandi hafi átt aðild að hafi verið vísað frá úrskurðarnefndinni eða að hún hafi af þeim sökum ekki réttarverkan. Ástæða frávísunar sé eingöngu sú að önnur kæra hafi verið skráð á undan í málaskráningarkerfi úrskurðarnefndar og þar sem leyfi hafi verið afturkallað á grundvelli hennar hafi kæru stefnanda, sem hafi verið með hærra málaskráningar-númeri en hin, verið vísað frá. Það verði að hafa í huga við mat á alvarleika brotsins gagnvart [...] að þjónusta Deloitte, og þá stefnanda fyrir hönd félagsins, hafi falist í yfirferð viðskiptaáætlunar fyrir fiskeldi félagsins, ásamt framkvæmd viðeigandi virðisútreikninga. Við gerð slíkrar viðskiptaáætlunar sé veittur aðgangur að öllum gögnum félagsins, þar með talið trúnaðargögnum. Af skýrslu um verkefnið megi sjá að stefnandi hafi fengið ítarlegar upplýsingar um fiskeldið, áskoranir hvað það varði, heimildir félagsins til fiskeldis og fyrirhuguð aukin umsvif. Forsenda rekstrar félagsins hafi verið tengd þeim starfs- og rekstrarleyfum sem félagið hafði og hafi verið að afla sér og stefnandi hafi fengið allar upplýsingar um við vinnu sína. Með vísan til alls þessa hafi Deloitte litið það mjög alvarlegum augum að stefnandi skyldi ekki upplýsa um hagsmunatengsl sín og síðan krefjast þess að lífæð viðskiptavinarins og forsenda starfsemi hans, starfsleyfið, yrði tekið af honum.

Samkvæmt því sem að framan sé rakið hafi stefnandi ítrekað og með alvarlegum hætti gerst uppvís að brotum gegn innri reglum Deloitte, siðareglum endurskoðenda og lögum um endurskoðendur, sem hann hafi sérstaklega verið skuldbundinn til að fylgja í störfum sínum. Þessu hafi að mati stefndu verið gerð fullnægjandi skil í uppsagnarbréfi og á fundi stefnanda með stjórn Deloitte líkt og að framan greinir.

Önnur atriði í tengslum við uppsögn stefnanda

Stefndu hafni því að skylt hafi verið að inna stefnanda frekar eftir afstöðu hans, röksemdum eða frekari útskýringum á þeim brotum sem hafi legið til grundvallar uppsögn hans. Stefnandi hafi komið ýmsum skýringum á framfæri líkt og tölvupóstur sem lagður hafi verið fram í málinu beri með sér en þær skýringar hafi ekki verið til þess fallnar að réttlæta athafnir og, eftir atvikum, athafnaleysi stefnanda, eða breyta því hvernig háttsemin verði heimfærð til viðeigandi reglna. Brot á óhæðisreglum þyki  alvarleg enda sé óhæði einn mikilvægasti þáttur í störfum endurskoðanda. Í lögum nr. 79/2008 sé sérstakur kafli helgaður ákvæðum um óhæði endurskoðenda og í siðareglum séu mjög ítarleg ákvæði um óhæði endurskoðenda sem hafi það að markmiði að tryggja að endurskoðandi sé ekki háður viðskiptavini sínum í ásýnd eða reynd.

Sérstakar reglur hafi verið settar um „Refsiákvæði vegna brota á óhæðisreglum“ og sé til þeirra vísað í 17. gr. ráðningarsamnings stefnanda við stefnda Deloitte FAS ehf. Brot gegn þeim reglum geti varðað fyrirvaralausri uppsögn þótt stefnanda hafi verið sagt upp með eins mánaðar fyrirvara með vísan til endurtekinna brota gegn óhæðisreglum. Uppsögn á ráðningarsamningi stefnanda hafi ekki falið í sér riftun eða fyrirvaralausa uppsögn þrátt fyrir fullyrðingar um hið gagnstæða í stefnu. Hið rétta sé að allir eigendur Deloitte hafa samið við félagið um styttri uppsagnarfrest en sex mánuði ef ákveðnar ástæður og aðstæður séu fyrir hendi, sbr. 17. gr. ráðningarsamnings. Sé því um að ræða umsaminn uppsagnarfrest að tilteknum skilyrðum uppfylltum en ekki fyrirvaralausa uppsögn eða riftun, enda hafi stefnandi fengið greidd laun í einn mánuð á grundvelli samnings í stað þess að fella niður launagreiðslur samstundis líkt og hefði verið um að ræða við riftun eða fyrirvaralausa uppsögn.

A – Krafa stefnanda um bætur vegna tapaðra launatekna

Með vísan til þess að uppsögn á ráðningarsamningi hafi verið lögmæt samkvæmt framansögðu kveðst Deloitte FAS ehf. byggja á því að það hafi ekki fellt á sig neina skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda vegna meints tjóns sem rakið verði til uppsagnarinnar, sbr. A-lið dómkrafna stefnanda. Uppsögnin hafi hvorki verið félaginu saknæm né ólögmæt þar sem nauðsynleg skilyrði, samkvæmt ráðningarsamningnum, hafi verið uppfyllt fyrir uppsögn. Stefndu, A-félagsmenn, krefjist sýknu af kröfu stefnanda um bætur vegna tapaðra launatekna vegna aðildarskorts, enda hafi þeir ekki verið launagreiðendur stefnanda og hafi ekki átt aðild að ráðningarsamningi stefnanda við Deloitte FAS ehf. Þá byggi sömu stefndu A-félagsmenn á því að tilkynning stefnda Deloitte FAS ehf. til stefnanda um uppsögn hafi verið ákvöð sem hafi skuldbundið stefnanda frá þeim tíma er hún hafi verið komin til hans. Af þeim sökum hafi niðurstaða atkvæðagreiðslu á A-félagsmannafundi hinn 7. mars 2017 engu breytt hér um þótt þeim félagsmönnum hafi þá gefist kostur á að fjalla um málið og hnekkja uppsögn stefnanda. Bæði leiðir af almennum reglum og samkomulagi stefnanda við stefnda Deloitte FAS ehf. að gildi uppsagnarinnar varð endanlegt er hún barst stefnanda. Þar að auki vísi sömu stefndu A-félagsmenn til þess að þegar þeir hafi tekið afstöðu til tillögu á A-félagsmannafundi 7. mars 2017 hafi þeir ekki verið bundnir af mati á því hvort uppsögnin væri lögmæt eða ekki, heldur aðeins hvort þeir væru sammála henni. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar hefði af þeim sökum staðið óháð meintu ólögmæti uppsagnarinnar.

Til viðbótar byggi sömu stefndu A-félagsmenn á því að ábyrgð á framkvæmd og útfærslu atkvæðagreiðslunnar verði ekki felld á þátttakendur í henni. Fundarstjóri hafi tekið afstöðu til þeirra athugasemda sem upp hafi verið bornar á fundinum um lögmæti atkvæðagreiðslunnar og komist að þeirri niðurstöðu að löglega hefði verið að henni staðið. Loks byggi sömu stefndu á því að þar sem atkvæðagreiðslan hafi verið leynileg og atkvæði fallið á báða vegu sé ómögulegt að segja til um hverjir hafi greitt atkvæði með tillögunni og hverjir á móti. Skilyrði sakarreglunnar um orsakatengsl og sennilega afleiðingu geti því ekki verið uppfyllt að því er varðar þá stefndu sem í hlut áttu.

Stefnda Deloitte ehf. krefjist sýknu vegna aðildarskorts af kröfu stefnanda um bætur vegna tapaðra launatekna, enda hafi stefnandi ekki verið í ráðningarsambandi við það félag og Deloitte ehf. hafi ekki tekið þátt í A-félagsmannafundi hinn 7. mars 2017 eða komið að honum með öðrum hætti. Enda þótt fastráðnir starfsmenn einir geti orðið A-félagsmenn verði ekki gagnályktað frá því á þann veg að innlausn eignarhlutar feli í sér uppsögn á ráðningarsamningi. Skaðabætur sem nemi vangoldnum launum í uppsagnarfresti geti þegar af þeim sökum ekki komið til vegna innlausnar á eignarhlut stefnanda. Sama gildi um mótframlag í lífeyrissjóð, hlunnindi sem felist í bílastyrk, ógreitt orlof og ógreidda desemberuppbót. Með vísan til þess hafni allir stefndu kröfu um bætur vegna tapaðra launatekna á þessum grunni.

Til vara krefjist hlutaðeigandi stefndu lækkunar á stefnufjárhæð í 2.796.326 krónur en í því sambandi sé miðað við þriggja mánaða uppsagnarfrest, það er tvo mánuði til viðbótar við þann sem þegar hafi verið greiddur, en ekki sex mánuði eins og stefnandi geri. Sé sú krafa byggð á því að stefndu telji ljóst af framangreindu að stefnandi hafi brotið starfsskyldur sínar með þeim hætti sem lýst hafi verið. Verði talið að brotin réttlæti ekki uppsögn ráðningarsamnings með eins mánaðar fyrirvara telji stefndu að miða beri við þriggja mánaða uppsagnarfrest líkt og heimild sé til í ráðningarsamningi. Stefndu telji ekki efni til þess að líta fram hjá 17. grein ráðningarsamningsins, enda hafi stefnandi ekki krafist ógildingar á þeirri grein.

B – Krafa stefnanda um miskabætur

Í B-lið dómkrafna sinna geri stefnandi kröfu um greiðslu miskabóta að fjárhæð 12.000.000 króna óskipt úr hendi stefndu Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf. og A-félagsmanna vegna „ólögmætra meingerða í garð stefnanda í tengslum við starfslokin.“ Forsenda kröfu stefnanda að þessu leyti sé að uppsögn hans hafi verið ólögmæt og í henni hafi falist meingerð. Stefndu krefjist sýknu þegar af þeirri ástæðu að uppsögn hans hafi verið lögmæt, eins og rakið hafi verið að framan, og þeir hafi því ekki fellt á sig neina skyldu til greiðslu miskabóta vegna þess hvernig staðið var að uppsögninni. Fyrir liggi að stefnandi hafi vissulega ítrekað orðið uppvís að brotum bæði á siðareglum endurskoðenda, innri reglum Deloitte sem hafi gilt um starf hans og lögum um endurskoðendur, og með því hafi hann gerst brotlegur við ráðningarsamning sinn við stefnda Deloitte FAS ehf. Því hafi frásögn í tölvubréfi til meðeigenda um uppsögn stefnanda verið í fullu samræmi við raunverulegar og lögmætar ástæður uppsagnar hans. Því hafi hvorki uppsögn stefnanda né önnur atvik í tengslum við hana falið í sér ólögmæta háttsemi af hálfu stefndu. Að auki sé því mótmælt að stefnandi hafi orðið fyrir nokkrum miska sem stefndu hafi valdið. Fullyrðingu í stefnu um að fregnir af brottrekstri stefnanda hafi farið eins og eldur um sinu um íslenskt viðskiptalíf sé mótmælt sem ósannaðri og jafnframt sé því mótmælt, hafi fregnir borist utanaðkomandi af uppsögn stefnanda og ástæðum hennar, að stefndu hafi átt þar nokkurn hlut að máli. Fyrrnefnt tölvubréf hafi verið sent meðeigendum stefnda D&T sf. og engum öðrum.

Stefnda Deloitte ehf. krefjist sýknu vegna aðildarskorts með vísan til þess sem rakið hafi verið að framan, að breyttu breytanda. Stefndu A-félagsmenn þann 7. mars 2017, það er þeir einstaklingar í hópi stefndu sem séu taldir upp að framan, krefjist sýknu vegna aðildarskorts, enda hafi þeir ekki verið launagreiðendur stefnanda og hafi ekki átt aðild að ráðningarsamningi stefnanda við Deloitte FAS ehf. Hafi þeir að auki hvorki átt þátt í tölvubréfinu né tekið þátt í að dreifa því sem þar kom fram til annarra aðila. Það að móttaka tölvubréf geti hvorki falið í sér meingerð gagnvart stefnanda né æru hans og hvað þá að slík móttaka hafi áhrif á orðspor stefnanda. Þá sé fjárhæð kröfunnar sérstaklega mótmælt.

C – Krafa stefnanda vegna innlausnarverðs hlutar

Í C-lið dómkrafna geri stefnandi kröfu um greiðslu á 133.448.012 krónum vegna innlausnarverðmætis eignarhlutar stefnanda í D&T sf., sem stefnanda hafi verið gert að þola innlausn á í kjölfar starfsloka hjá Deloitte, og stefnandi telur ranglega metinn til verðs. Með vísan til þess að uppsögn á ráðningarsamningi hafi verið lögmæt samkvæmt framansögðu byggja stefndu á því að þeir hafi ekki fellt á sig neina skyldu til greiðslu vegna innlausnarverðmætis eignarhlutar stefnanda í stefnda D&T sf. umfram það sem þegar hafi verið greitt til stefnanda. Krafist sé sýknu með vísan til þess að staðið hafi verið með réttum hætti að ákvörðun um innlausn auk þess sem eignarhlutur stefnanda í D&T sf. hafi verið réttilega metinn til verðs. Sé hafnað öllum málsástæðum sem stefnandi tefli fram til stuðnings því að hann sé óbundinn af 5. gr. samkomulags A-félagsmanna um útreikning innlausnarverðs enda hafi innlausnin verið lögmæt.

Líta beri til þess að einhliða fyrirvari stefnanda við útreikning innlausnarverðs hafi ekki haft þau áhrif að leysa hann einhliða undan ákvæðum uppgjörssamningsins og sé stefnandi því bundinn af því uppgjöri sem um hafi samist. Hafi hann enda tekið á móti greiðslu í samræmi við uppgjörið. Þá kveði samkomulag A-félagsmanna með skýrum hætti á um inn- og útgönguverð í D&T sf., sbr. 5. gr. samkomulagsins. Ekki séu efni til þess að túlka hugtakið „útganga“ svo þröngt að taki eingöngu til þess er félagsmaður gangi sjálfviljugur úr félagi. Engin rök standi til þess að túlka samkomulagið með þeim hætti að mismunandi útgönguverð eigi við eftir því hvort félagið eða félagsmaður eigi frumkvæði að útgöngu eða að leiða skuli til betri réttar félagsmanns ef honum sé sagt upp vegna brota í starfi. Því verði ekki séð að reglur laga nr. 50/2007 eigi að gilda þegar félagið eigi frumkvæði að starfslokum en regla 5. gr. þegar starfsmaður sjálfur eigi frumkvæðið. Beri í því sambandi að líta til þess hversu ólík niðurstaða fáist af beitingu hinna ólíku reglna. Þvert á móti verði að ætla að ef svo mismunandi reglur hefðu átt að gilda um útgöngu félagsmanna þá hefði það verið tekið fram berum orðum í samkomulaginu. Í því sambandi verði að líta til þess að stefnandi hafi verið meðeigandi og einn af lykilstjórnendum Deloitte FAS ehf. þegar samkomulagið hafi verið gert. Margir af þeim félagsmönnum D&T sf. sem sé stefnt í þessu máli hafi hins vegar ekki verið A-félagsmenn á þeim tíma og hafi ekki með neinum hætti komið að gerð þessa samkomulags. Verði stefnandi því að bera hallann af því gagnvart stefndu ef vafi leiki á túlkun samkomulagsins. Um gagnkvæmt samband sé að ræða og ætla verði að sambærileg sjónarmið eigi við þegar að starfslokum komi og við inngöngu í félagið, það er að framlag félagsmanns byggist á persónulegum forsendum fremur en fjárhagslegum. Stefnandi geri ekki reka að því að útskýra hvernig beiting innlausnarreglunnar leiði til „skerðingar“ á verðmæti eignarhlutarins þegar inngönguverð hafi verið ákvarðað á grundvelli sambærilegra forsendna en kaupverðið hafi verið reiknað út í samræmi við 5. gr. samkomulagsins. Í þessu sambandi athugist að víkja megi frá ákvæðum laga nr. 50/2007 um sameignarfélög með samningi. Stuðst hafi verið við slíkar heimildir í nokkuð ríkum mæli innan Deloitte og samið allítarlega um fjölda atriða. Megi til að mynda nefna að útreikningur á eignarhluta við inn- og útgöngu sé ein af grundvallarforsendunum fyrir samstarfi eigenda Deloitte og nokkuð sem gilt hafi í félaginu í áratugi, þar með talið þegar stefnandi hafi gengið inn í félagið. Þennan ramma um samstarf verði að túlka með tilliti til gagnkvæmra trúnaðar- og tillitsskyldna sem giltu í samnings- og réttarsambandi aðila.

Uppsögn stefnanda hafi borið að með lögmætum hætti. Byggi hlutaðeigandi stefndu á því að jafnvel þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að uppsögnin hafi verið ólögmæt þá væri ekki ósanngjarnt að beita 5. gr. samkomulags A-félagsmanna þar sem hún endurspegli samkomulag um hvernig raunvirði eignarhlutarins verði reiknað. Af sömu ástæðum hafi það mátt vera stefndu ljóst að útreikningur innlausnarverðs á þessum grundvelli væri bundinn þeirri forsendu að útgöngu bæri að með tilteknum hætti. Við það megi bæta að sambærilegar reglur hafi gilt þegar stefnandi hafi gengið inn í félagið. Sé því ekki mögulegt að byggja á því að um forsendubrest hafi verið að ræða. Sé rétt að nefna að frá því að stefnandi hafi gengið inn í félagið hafi umsamin reikniregla ítrekað verið notuð við mat á virði hlutar við útgöngu A-félagsmanns án þess að stefnandi eða nokkur annar hafi borið því við að reglan væri ósanngjörn eða óheiðarleg.

Hlutaðeigandi stefndu mótmæli því að bersýnilega ósanngjarnt eða óheiðarlegt væri af hálfu stefndu að bera fyrir sig 5. gr. samkomulags A-félagsmanna, sbr. 36. gr. og 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefnandi hafi gengist sjálfviljugur undir þessar skuldbindingar og hafði, líkt og stefnda Deloitte FAS ehf., ávinning af ráðningarsambandinu. Stefnandi hafi verið framkvæmdastjóri stefnda Deloitte FAS ehf. og gegnt sviðsstjóra- og yfirmannsstöðu í fyrirtækinu. Til viðbótar því megi nefna að þessar sömu reglur hafi gilt um áratugaskeið og gildi enn um aðra eigendur. Sé því ekki um bersýnilega ósanngjarnar eða óheiðarlegar reglur að ræða heldur sameiginlega ákvörðun meðeigenda í félagi um verðmat á eignarhluta.

Þá geti almennar reglur um óréttmæta auðgun ekki leitt til þess að 5. gr. samkomulags A-félagsmanna teljist óskuldbindandi fyrir stefnanda. Skilyrðið reglnanna um ólögmæti sé að áliti stefndu ekki uppfyllt með vísan til þess að uppsögnin hafi verið lögmæt. Af hálfu stefnanda séu skilyrði beitingar reglunnar ekki reifuð í stefnu og láti stefndu því við það sitja að hafna því að þau séu uppfyllt, enda hvílir á herðum stefnanda að sýna fram á að hann eigi kröfu á þessum grundvelli.

Til viðbótar byggi stefndu á því að ábyrgð á framkvæmd og útfærslu atkvæðagreiðslu á eigendafundi verði ekki felld á þátttakendur í henni. Fundarstjóri hafi tekið afstöðu til þeirra athugasemda sem hafi verið bornar upp á fundinum um lögmæti atkvæðagreiðslunnar og komist að þeirri niðurstöðu að löglega hafi verið staðið að henni. Hvað sem þessu líði telji hlutaðeigandi stefndu 36. gr. laga nr. 50/2007 hafa átt við þegar fjallað hafi verið um innlausn á eignarhlut stefnanda. Sé sú lagagrein til samræmis við þá meginreglu félagaréttar að manni sé meinað að taka þátt í meðferð máls og atkvæðagreiðslu ef hann hafi verulegra hagsmuna að gæta af niðurstöðu þess. Af þeim sökum hafi stefnandi ekki átt rétt á að taka þátt í meðferð þessa fundarefnis. Því sé þess vegna hafnað að miða eigi við 18 atkvæði og að atkvæði 13 félagsmanna hafi því ekki dugað til staðfestingar á innlausninni. Þá byggi sömu stefndu A-félagsmenn á því að þar sem atkvæðagreiðslan hafi verið leynileg og atkvæði fallið á báða vegu sé ómögulegt að segja til um hverjir hafi greitt atkvæði með tillögunni og hverjir á móti. Skilyrði sakarreglunnar um orsakatengsl og sennilega afleiðingu geti því ekki verið uppfyllt að því er varði þá stefndu sem hafi átt í hlut.

Að lokum sé mótmælt þeirri verðmatsaðferð sem stefnandi beiti við rökstuðning fjárhæðar kröfu sinnar. Telji stefndu að því fari fjarri að raunvirði hlutar stefnanda í stefnda D&T sf. verði reiknað með því að nota svonefnda sjóðsstreymis-aðferð. Fyrir það fyrsta þá hafi eigendur félagsins þegar ákveðið hvernig meta eigi verðmæti hlutarins í lögmætum samningum sín á milli. Í annan stað telji stefndu rangt að taka ekki tillit við slíkt verðmat til þeirra hamla sem gildi um eignarhlut stefnanda í stefnda D&T sf. Sé að mati stefndu augljóst, ef líta ætti fram hjá umsaminni aðferð við mat á virði hlutarins, að taka þurfi tillit til þeirra kvaða sem gildi um hlutinn, þar með talið hömlur á sölu hlutar á opnum markaði og skuldbindingu félagsmanna um að selja eignarhluta sinn við 62 ára aldur. Þannig sé ekki hægt að meta hlut A-félagsmanna í stefnda D&T sf. með sömu aðferðafræði og hefðbundin hlutabréf þar sem eigendur geti notið góðs af framtíðarsjóðflæði undirliggjandi eigna eða selt hlutinn ótengdum aðila á verði sem taki mið af framtíðarsjóðflæði.

Loks byggi stefndu félagsmenn í D&T sf. á því að samkvæmt 4. mgr. 5. gr. samkomulags A-félagsmanna hafi félagsmenn í D&T sf. samið um að skuldabréf sem útgefin séu vegna útgöngu félagsmanna skuli vera án persónulegra ábyrgða félagsmanna. Hafi ákvæðinu verið ætlað að taka af vafa um það að þótt félagsmenn í D&T sf. beri ábyrgð á skuldbindingum félagsins samkvæmt lögum um sameignarfélög skuli félagsmenn ekki bera ábyrgð gagnvart hver öðrum á greiðslu útgönguverðs. Stefnandi hafi ekki haldið því fram að hann sé óbundinn af þessu ákvæði.

D – Krafa stefnanda vegna hagnaðarhlutdeildar

Í D-lið dómkrafna geri stefnandi aðallega kröfu um viðurkenningu á rétti til hagnaðarhlutdeildar vegna hagnaðar stefnda Deloitte ehf. rekstrarárið 2016-2017, sem stefnandi teljist eiga rétt á þrátt fyrir meinta ólögmæta uppsögn á ráðningarsamningi og innlausn á eignarhlut stefnanda í stefnda D&T sf. Til vara geri stefnandi kröfu um viðurkenningu á skaðabótarétti vegna hagnaðarhlutdeildar sem stefnandi hafi farið á mis við verði réttur hans til hagnaðarhlutdeildar talinn niður fallinn vegna uppsagnar stefnanda. Stefndu byggi á því að 3. gr. samkomulags A-félagsmanna, um brottfall á rétti til hagnaðarhlutdeildar við innlausn eignarhlutar vegna þess rekstrarárs sem sala eða innlausn eigi sér stað, sé bindandi fyrir stefnanda líkt og aðra A-félagsmenn í stefnda D&T sf. Engin rök standi til annars enda hafi reglan verið í gildi hjá félaginu um árabil og margsinnis beitt án athugasemda. Að auki sé vísað til þess að uppsögn á ráðningarsamningi stefnanda hafi verið lögmæt. Um atriði, sem hlutaðeigandi stefndu byggi á þessu til stuðnings, sé að auki vísað til þess sem fram komi að framan í tengslum við 5. gr. samkomulags A-félagsmanna. Komi af þessum sökum ekki til álita að viðurkenna rétt stefnanda til hagnaðarhlutdeildar með vísan til 2. gr. samkomulags A-félagsmanna.

Stefnda Deloitte ehf. krefjist sýknu vegna aðildarskorts af aðalkröfu undir D-lið dómkrafna stefnanda þar sem félagið hafi ekki átt aðild að samkomulagi A-félagsmanna. Stefndu vísi til þess að ekki séu skilyrði til þess að viðurkenna skaðabótaskyldu þeirra vegna þess að stefnanda hafi, með vísan til 3. gr. samkomulags A-félagsmanna, ekki borið hagnaðarhlutdeild vegna rekstrarársins 2016-2017. Sé vísað til þess að staðið hafi verið að uppsögn með lögmætum hætti. Því sé sérstaklega mótmælt að stefndu hafi gagngert gengið fram með þeim hætti sem gert hafi verið til að reyna að tryggja að stefnandi fengi ekki notið hlutdeildar í hagnaði Deloitte ehf. vegna rekstrarársins 2016-2017. Rakið hafi verið ítarlega að framan hvernig stefnandi hafi brotið gegn ráðningarsamningi sínum við stefnda Deloitte FAS ehf. Þau brot hefðu getað leitt til fyrirvaralausrar uppsagnar en ekki hafi verið gengið svo langt, heldur hafi honum verið sagt upp störfum með eins mánaðar fyrirvara. Jafnvel þótt stefnanda hefði verið sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara hefði hann ekki öðlast rétt til umkrafinnar hagnaðarhlutdeildar. Í öllu falli hafi þær aðgerðir sem gripið hafi verið til verið í rökréttu samhengi og í framhaldi af því sem á undan hafi gengið. Stefnda Deloitte ehf. krefjist sýknu vegna aðildarskorts af varakröfu undir D-lið dómkrafna stefnanda þar sem félagið hafi ekki átt aðild að samkomulagi A-félagsmanna. Stefndu A-félagsmenn hinn 7. mars 2017 krefjist sýknu af varakröfu undir D-lið dómkrafna stefnanda vegna aðildarskorts með vísan til þess sem fram sé komið að breyttu breytanda.

E – Krafa stefnanda um ógildi samkeppnistakmörkunarákvæða

Í E-lið dómkrafna geri stefnandi kröfu um að viðurkennt verði að ákvæði 19. gr. ráðningarsamnings hans við stefnda Deloitte FAS ehf. og 2. og 3. mgr. 9. gr. samkomulags A-félagsmanna séu ógild og óskuldbindandi gagnvart stefnanda. Að því er ráðningarsamninginn varði sé kröfunni beint að stefnda Deloitte FAS ehf., en hvað samkomulagið varði sé kröfunni beint að stefndu A-félagsmönnum. Einnig krefjist stefnandi viðurkenningar á skaðabótaskyldu sömu stefndu. Hlutaðeigandi stefndu byggi á því að framangreind ákvæði séu bindandi fyrir stefnanda líkt og aðra A-félagsmenn í D&T sf. Engin rök standi til annars enda hafi reglurnar verið í gildi hjá félaginu um árabil og margsinnis beitt án athugasemda. Að auki hafni hlutaðeigandi stefndu því að fyrrgreind samningsákvæði séu ógild og óskuldbindandi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936, með vísan til þess að uppsögn á ráðningarsamningi hafi verið lögmæt samkvæmt framansögðu. Að auki telji stefndu einsýnt að 2. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936 eigi ekki við í tilviki stefnanda þar sem stefnanda hafi verið sagt upp störfum vegna títtnefndra brota. Hafi hann því gefið „nægilega ástæðu“ til þess að honum væri sagt upp störfum. Lagagreinin eigi ekki við þegar slíkar aðstæður séu fyrir hendi. Því sé mótmælt sem stefnandi virðist halda fram að samkeppnisákvæði eigi eingöngu við um þá eigendur sem séu 62 ára gamlir.

Stefnda Deloitte FAS ehf. hafni því að skuldbinding sú er stefnandi hafi tekist á herðar með 19. gr. ráðningarsamnings síns sé víðtækari en nauðsynlegt hafi verið til þess að varna samkeppni eða að hún skerði með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi stefnanda. Þá hafi ekki verið fyrir aðstöðumunur milli stefnanda og stefnda Deloitte FAS ehf., sem nokkru skipti, enda hafi stefnandi verið sjálfur framkvæmdastjóri Deloitte FAS ehf. þegar ráðningarsamningurinn hafi verið gerður auk þess sem hann hafi verið A-félagsmaður og því óbeinn eigandi Deloitte FAS ehf. Sem slíkur hafi hann notið jafnframt góðs af því að aðrir félagsmenn höfðu undirgengist samsvarandi skyldu samkvæmt samkomulagi A-félagsmanna.

Stefndu A-félagsmenn hafni því að skuldbinding sú er stefnandi hafi tekist á herðar með 2. og 3. mgr. 9. gr. samkomulags A-félagsmanna sé víðtækari en nauðsynlegt hafi verið til þess að varna samkeppni eða að hún skerði með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi stefnanda. Stefnandi hafði með sama hætti áskilið sér hjá öðrum A-félagsmönnum að þeir tækjust á herðar sömu skuldbindingar. Staða samningsaðila hafi því ekki aðeins jöfn, heldur alfarið sú sama.

Stefnandi hafi haft ávinning af þeim ráðningarsamningi sem hann hafi gert við stefnda Deloitte FAS ehf. og af því að gerast aðili að samkomulagi A-félagsmanna. Stefnandi hafi fallist á að hafa þetta ákvæði í samningnum og þurfi því að sýna fram á að þær aðstæður 1. mgr. 37. gr. laganna séu fyrir hendi sem geri ákvæðið óskuldbindandi fyrir hann. Ákvæði 19. gr. ráðningarsamningsins og 2. mgr. og 3. mgr. 9. gr. samkomulags A-félagsmanna hafi að mati stefndu verið sett í því skyni að vernda ákveðna og lögmæta samkeppnishagsmuni. Stefnandi hafi verið framkvæmdastjóri stefnda Deloitte FAS ehf. og gegnt sviðsstjóra- og yfirmannsstöðu í fyrirtækinu. Þá hafi hann verið í beinu sambandi við viðskiptamenn og borið ríka trúnaðarskyldu. Með vísan til þessa verði að mati hlutaðeigandi stefndu ekki talið að samningsákvæðið hafi skert atvinnufrelsi hans með ósanngjörnum hætti. Af öllum sömu ástæðum og raktar hafi verið að framan hafni hlutaðeigandi stefndu því að fyrrgreind samningsákvæði séu ógild og óskuldbindandi með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem þar séu rakin sé hvorki ósanngjarnt né andstætt góðri viðskiptavenju að halda ákvæðunum upp á stefnanda eins og hér hátti til.

Ekki aðeins hafi stefnandi verið eigandi, það er að segja A-félagsmaður, sem hafi gegnt stöðu yfirmanns í lykilstöðu á einu af meginsviðum stefnda Deloitte FAS ehf. heldur hafi hann unnið fyrir stóra viðskiptavini. Ef hann hafi stuðlað að því að viðskiptavinir hættu viðskiptum hjá Deloitte væri það til þess fallið að valda stefndu tjóni. Í ljósi mikilvægis þessa í samstarfinu hafi verið samið sérstaklega, sbr. 18. gr. ráðningarsamningsins og 1. mgr. 9. gr. samkomulags A-félagsmanna, um að meðeigandi sem hætti hjá félaginu skuli ávallt leitast við að tryggja áframhaldandi viðskipti viðskiptavina hjá félaginu. Framangreint réttlæti þær íþyngjandi skuldbindingar sem stefnandi hafi undirgengist eins og aðrir A-félagsmenn.

Hlutaðeigandi stefndu telji rétt að kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna takmarkana á atvinnufrelsi stefnanda verði vísað frá ex officio þar sem stefnandi hafi ekki fært fullnægjandi rök fyrir ætluðu tjóni. Þá krefjist sömu stefndu sýknu af kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu með vísan til þess að samningsákvæðið sé skuldbindandi, enda hafi uppsögn stefnanda verið lögmæt.

Hvað lagarök varðar vísa stefndu til meginreglna félaga-, samninga- og kröfuréttar, almennra reglna vinnuréttar, laga nr. 50/2007 um sameignarfélög, laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Málsástæður og lagarök stefndu Birkis Leóssonar o.fl.

Stefndu Birkir Leósson, Guðmundur Kjartansson, Knútur Þórhallsson og Lárus Finnbogason telji að mál þetta sé höfðað gegn þeim að ófyrirsynju. Stefnandi krefjist skaða- og miskabóta úr hendi stefndu, auk viðurkenningar á bótaskyldu þeirra, þrátt fyrir að stefndu hafi á fundinum 7. mars 2017 greitt atkvæði gegn uppsögn og innlausn stefnanda og þannig í raun reynt að afstýra meintu tjóni bæði Deloitte og stefnanda fremur en að stuðla að því. Þá geri stefnandi kröfur um réttindi byggð á vanefndum á samkomulagi stefnanda og stefndu og ógildi á tilteknum ákvæðum þess samkomulags án þess að stefndu hafi vanefnt þann samning með nokkrum hætti.

Í stefnu sé ekki leitast við að útskýra sérstaklega hvers vegna þessum kröfum sé beint að stefndu. Ekki sé til að dreifa neinni saknæmri eða ólögmætri háttsemi af þeirra hálfu. Þá sé engum orsakatengslum fyrir að fara á milli háttsemi stefndu og meints tjóns stefnanda. Skilyrði bótaskyldu er þannig uppfyllt í tilviki stefndu. Þá hafi stefndu ekki vanefnt samkomulag þeirra við stefnanda með nokkrum hætti. Stefnandi hafi í raun áskilið sér rétt til að falla frá tilteknum dómkröfum „á hendur þeim A-félagsmönnum sem studdu stefnanda og greiddu atkvæði stefnanda í hag á meðeigendafundi þann 7. mars 2017.“

            Stefnandi hafi verið launþegi hjá Deloitte ehf. og Deloitte FAS ehf. Framkvæmdastjóri og stjórn Deloitte ehf. og dótturfélagsins Deloitte FAS ehf. hafi sagt upp ráðningarsamningi stefnanda. Hafi stefndu ekki haft nokkra aðkomu, hvorki persónulega né sem fyrirsvarsmenn áðurnefndra félaga, að þeirri ákvörðun eða framkvæmd hennar. Ljóst sé að ráðningarsamband stefnanda hafi einungis verið við framangreind félög og það séu því einungis þau sem geti borið ábyrgð á meintum vanefndum tengdum ráðningarsamningi stefnanda. Hljóti sú krafa sem stefnandi geri í A-lið dómkrafna, um bætur vegna vangoldinna launa, að vera innan samninga. Þar sem stefndu hafi eðli málsins samkvæmt ekki verið launagreiðendur stefnanda verði slíkri bótakröfu ekki beint að þeim. Því ber að sýkna stefndu af A-lið dómkrafna stefnanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Í stefnu sé ekki útskýrt sérstaklega á hverju stefnandi byggi kröfu sína um bætur vegna vangoldinna launa og miskabóta úr hendi stefndu. Þvert á móti segi í stefnunni að stefnandi byggi skaðabótakröfur sínar í A- og B-lið stefnu á því að hlutaðeigandi A-félagsmenn hafi með aðkomu sinni að hinum ólögmætu ráðstöfunum, þar með talið samþykkt þeirra á A-félagsmannafundi 7. mars 2017, fellt á sig óskipta skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda vegna tjóns sem rakið verði til þeirra ráðstafana sem um ræði. Fái stefndu ekki betur séð en að stefnandi geri þarna greinarmun annars vegar á þeim A-félagsmönnum sem hafi greitt atkvæði með uppsögn hans og hins vegar þeim sem greiddu atkvæði gegn henni. Virðist stefnandi þannig afmarka málatilbúnað sinn nánar og beina honum aðeins að „hlutaðeigandi“ A-félagsmönnum sem hafi með „aðkomu sinni að hinum ólögmætu ráðstöfunum“ fellt á sig skaðabótaskyldu gagnvart honum. Stefndu séu ekki í þeim hópi, enda hafi þeir greitt atkvæði gegn uppsögn stefnanda. Stefndu hafi hvorki sýnt af sér saknæma né ólögmæta háttsemi og engin orsakatengsl séu á milli háttsemi þeirra og meints tjóns stefnanda. Stefndu hafi ekki átt aðkomu að þeim ráðstöfunum, sem stefnandi telji að hafi valdið sér tjóni, aðra en að tala gegn þeim og reyna að fá þeim hnekkt. Skilyrði almennra reglna skaðabótaréttar séu því augljóslega ekki uppfyllt gagnvart stefndu.

Varðandi miskabótakröfu stefnanda í B-lið dómkrafna byggi stefndu á því að skilyrði miskabóta samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, um ólögmæta meingerð í garð æru eða persónu manns, geti, með vísan til framangreinds, fráleitt talist uppfyllt hvað stefndu varði. Verði ekki fallist á framangreint byggi stefndu á því að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að tilvitnaðar ráðstafanir hafi verið ólögmætar. Með vísan til alls framangreinds beri að sýkna stefndu af A- og B-liðum dómkrafna stefnanda.

Í C-lið dómkrafna geri stefnandi kröfu um greiðslu á 133.448.012 krónum vegna innlausnarverðmætis eignarhlutar stefnanda í stefnda D&T sf. sem stefnandi telji að hafi ranglega verið metinn til verðs við innlausn. Kröfunni sé beint að stefnda D&T sf. og stefndu A- og B-félagsmönnum í félaginu sem beri óskipta greiðsluskyldu gagnvart stefnanda vegna innlausnar hlutarins, þar á meðal eftir meginreglum laga nr. 50/2007 um sameignarfélög. Stefndu byggi á því að þær ábyrgðarreglur nefndra laga geti ekki tekið til þeirra innbyrðis lögskipta félagsmanna sem hér séu til umfjöllunar. Helgist það einna helst af því hvernig stefnandi hagi málatilbúnaði sínum. Þannig virðist málsástæðum stefnanda fyrir kröfunni ekki beint sérstaklega að stefnda D&T sf., heldur einstaka félagsmönnum félagsins. Virðist málsástæðurnar snúa að ætlaðri vanefnd félagsmanna á félagasamningnum sjálfum, en ekki að lögskiptum stefnanda og D&T sf.

Stefndu byggi á því að stefnandi standi enn í samnings- og trúnaðarsambandi við stefndu á grundvelli samkomulags A-félagsmanna. Stefndu hafi sem fyrr segir ekki átt neina aðkomu að innlausn stefnanda, heldur greitt atkvæði gegn þessum ráðstöfunum eða „studdu“ stefnanda eins og hann kemst sjálfur að orði. Þannig sé ljóst að stefndu hafi með engum hætti vanefnt samning þeirra við stefnanda, heldur þvert á móti virt þann samning að öllu leyti. Hljóti því ákvæði samningsins enn að gilda um samband stefnanda og stefndu að því leyti sem hægt er.

Með vísan til framangreinds byggi stefndu á því að ákvæði 5. gr. samkomulagsins sé enn í fullu gildi milli stefnanda og stefndu. Þannig beri að leggja til grundvallar útgönguverð stofnverðs, gegnumstreymisverð, auk sérgreinds höfuðstóls við ákvörðun á innlausnarverði í samskiptum stefnanda og stefndu. Verði stefndu því ekki gert að greiða stefnanda hærri fjárhæð en sem nemi hlutdeild stefndu í útgönguverði stofnverðs miðað við eignarhlut þeirra. Þá greiðslu hafi þeir þegar innt af hendi og því ber að sýkna þá af C-lið dómkrafna stefnanda. Þá sé ljóst að þær málsástæður, sem stefnandi nefni til stuðnings því að hann sé óbundinn af 5. gr. samkomulagsins, geti ekki átt við um stefndu. Þannig geti stefndu ekki hafa fyrirgert rétti sínum til að bera fyrir sig ákvæðið vegna meints ólögmætis uppsagnar stefnanda, enda hafi stefndu greitt atkvæði gegn uppsögn stefnanda og innlausn á eignarhlut hans. Með sömu rökum sé hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að stefndu geti ekki borið fyrir sig ákvæðið þar sem stefnanda hafi með ólögmætum hætti verið synjað um að bera ákvörðun um innlausn eignarhlutar hans „löglega undir A-félagsmannafund til ógildingar.“ Þá færi stefnandi engin rök fyrir því hvers vegna aðkoma annarra meðeigenda að hinum meinta ólögmæta brottrekstri eigi að valda því að forsendur samkomulags hans og stefndu séu brostnar. Af því verði stefnandi að bera hallann. Þá byggi stefnandi á því með vísan til 36. og 33. gr. laga nr. 7/1936 að bersýnlega ósanngjarnt og óheiðarlegt sé af hálfu stefndu að bera fyrir sig 5. gr. samkomulagsins gagnvart stefnanda í ljósi þess að honum hafi verið sagt upp og gert að sæta innlausn „með ólögmætum og ótilhlýðilegum hætti.“ Með sömu rökum og að framan hafni stefndu því að þessi málsástæða geti átt við um þá. Stefndu hafi sýnt stefnanda heiðarleika í hvívetna og stutt hann í málinu að hans eigin sögn. Komi framangreindar ógildingarreglur laga nr. 7/1936 því fráleitt til skoðunar gagnvart stefndu. Líkt og með málsástæðu stefnanda um brostnar forsendur færi hann engin rök fyrir því hvers vegna aðkoma annarra meðeigenda að hinum meinta ólögmæta brottrekstri eigi að valda því að 5. gr. samkomulagsins sé óskuldbindandi milli stefnanda og stefnda vegna 36. og 33. gr. laga nr. 7/1936 og verði stefnandi að bera hallann af því. 

Við allt framangreint bætist að C-liður dómkrafna stefnanda sé ósamrýmanlegur kröfu stefnanda um ógildi 3. mgr. 9. gr. samkomulags A-félagsmanna, sbr. E-lið dómkrafna. Í síðarnefndu dómkröfunni felist að takmörkun samkomulagsins við því að stefnandi taki með sér viðskipamenn frá Deloitte-samstæðunni verði óskuldbindandi gagnvart stefnanda og hann geti tekið með sér viðskiptamenn samstæðunnar endurgjaldslaust. Helstu verðmæti Deloitte-samstæðunnar og þar með eignarhluta eigenda hennar sé sú viðskiptavild sem felst í samböndum samstæðunnar við viðskiptavini hennar, enda gengur starfsemi samstæðunnar út á að veita viðskiptamönnum þjónustu og ráðgjöf á sviði endurskoðunar, reikningsskila, fjármála og skatta- og lögfræðiþjónustu, sbr. sjóðstreymismat stefnanda. Stefndu byggi á því að stefnandi geti hér ekki bæði sleppt og haldið. Það samrýmist ekki kröfu stefnanda um að fá fullt markaðsverð fyrir eignarhlut sinn í stefnda D&T sf., sbr. C-lið dómkrafna, en ætla síðan að geta haft með sér hluta af mikilvægustu eign félagsins án endurgjalds. Hljóti stefnandi að þurfa að ákveða hvort hann vilji fá fullt markaðsverð fyrir eignarhlut sinn eða vera óskuldbundinn af takmörkun við því að hann taki með sér viðskiptamenn. Stefndu telji að þetta kunni að leiða til sjálfkrafa frávísunar á C- og E-liðum dómkrafna stefnanda, en byggi engu að síður á því að sýkna beri þá af þessum kröfum stefnanda með vísan til framangreinds. Í öllu falli hljóti að þurfa að draga frá C-lið dómkröfu stefnanda fjárhæð, sem nemi meðaltali af ársþóknun þriggja síðustu ára fyrir þau verkefni sem hann hyggist taka með sér, sbr. 3. mgr. 9. gr. fyrrnefnds samkomulags. Með vísan til framangreinds ber að sýkna stefndu af C-lið dómkrafna stefnanda.

Undir D-lið dómkrafna geri stefnandi aðallega kröfu um að viðurkenndur verði réttur hans til nánar tiltekinnar hlutdeildar í hagnaðarskiptingu vegna rekstrarársins 2016-2017, en til vara kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu stefndu, óskipt með öðrum stefndu, sökum þess að stefnandi hafi með ólögmætum hætti verið sviptur rétti til sömu hagnaðarhlutdeildar. Með vísan til sömu röksemda og áður greini byggi stefndu á því að aðild þeirra að aðalkröfu stefnanda verði ekki byggð á ábyrgðarreglum laga nr. 50/2007. Þá telji stefndu að aðalkrafa stefnanda geti ekki komið til greina í ljósi þess að stefnandi sé ekki lengur félagsmaður í D&T sf. og eigi því ekki rétt til hagnaðarhlutdeildar. Þá byggi stefndu á því með sömu rökum að stefnandi sé bundinn af 3. gr. samkomulags A-félagsmanna gagnvart stefndu. Loks byggi stefndu á því að varakrafa stefnanda undir D-lið dómkrafna geti ekki tekið til þeirra, enda afmarkar stefnandi hana við „viðkomandi A-félagsmenn“, auk þess sem skilyrðum skaðabótaskyldu um saknæma og ólögmæta háttsemi og orsakatengsl er ekki fullnægt gagnvart stefndu. Með vísan til framangreinds ber að sýkna stefndu af D-lið dómkrafna stefnanda.

Í E-lið dómkrafna geri stefnandi tvíþætta kröfu á hendur stefndu. Annars vegar um að viðurkennt verði að 2. og 3. mgr. 9. gr. samkomulags A-félagsmanna D&T sf. séu ógildar og óskuldbindandi gagnvart stefnanda og hins vegar að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu vegna meints fjártjóns stefnanda vegna takmarkana á atvinnufrelsi stefnanda samkvæmt 19. gr. ráðningarsamnings stefnanda við Deloitte FAS ehf. og 2. mgr. 9. gr. samkomulags A-félagsmanna. Í fyrsta lagi sé ósamræmi fólgið í því að gera kröfu um að áðurnefnd samningsákvæði verði dæmd óskuldbindandi gagnvart stefnanda og hafa samhliða henni uppi kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu vegna þeirra takmarkana sem stefnandi telji ákvæðin leggja á atvinnufrelsi sitt. Ef fallist yrði á kröfu stefnanda um ógildingu ákvæðanna bresta væntanlega forsendur fyrir kröfunni um viðurkenningu á bótaskyldu, eins og hún sé sett fram, og öfugt. Stefndu telji að þetta kunni að leiða til sjálfkrafa frávísunar á E-lið dómkrafna stefnanda, en byggi engu að síður á því að sýkna beri þá af þessari kröfu stefnanda með vísan til framangreinds. Í öðru lagi, varðandi kröfu um ógildingu samningsákvæða sérstaklega, þá byggi stefndu á því að ákvæði samkomulags A-félagsmanna gildi um samband stefnanda og stefndu að því leyti sem hægt er, enda lögðust stefndu gegn uppsögn ráðningarsamnings stefnanda og innlausn á hlutum hans. Með vísan til þessa byggi stefndu á því að ákvæði 2. og 3. mgr. 9. gr. samkomulagsins sé enn í fullu gildi milli stefnanda og stefndu. Jafnframt telji stefndu að málsástæður stefnanda fyrir því að 2. og 3. mgr. 9. gr. samkomulagsins séu óskuldbindandi fyrir hann séu haldlausar. Þá telja stefndu það ósamrýmanlegt að stefnandi fari bæði fram á fullt markaðsverð í C-lið dómkrafna og geri jafnframt kröfu um ógildi samkeppnistakmörkunarákvæða og ætlist þannig til að geta haldið áfram þeim viðskiptum sem seld voru með eignarhlutnum. Stefndu telji að þetta kunni að leiða til sjálfkrafa frávísunar á C- og E-liðum dómkrafna stefnanda, en byggja engu að síður á því að sýkna beri þá af þessum kröfum stefnanda með vísan til framangreinds.

Í þriðja lagi uppfylli málatilbúnaður stefnanda, vegna kröfu hans um viðurkenningu á bótaskyldu stefndu, ekki kröfur 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, eins og ákvæðið hafi verið skýrt í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands. Stefnanda skorti þannig lögvarða hagsmuni af úrlausn hennar. Í engu sé leitast við að útskýra hver sé ætluð bótaskyld háttsemi stefndu. Varla geti það eitt að hafa gert samning við stefnanda um gagnkvæmt samkeppnistakmörkunarákvæði talist til bótaskyldrar háttsemi. Sem fyrr segi hafi stefndu ekki haft aðkomu að því að stefnanda var sagt upp störfum hjá Deloitte-samstæðunni og að hlutur hans í stefnda D&T sf. hafi verið innleystur. Ekki sé leitast við að útskýra hvers vegna meint ólögmæt háttsemi annarra stefndu eigi að smitast yfir á stefndu þannig þeir verði gerðir ábyrgir fyrir meintu tjóni stefnanda vegna samkeppnistakmörkunarákvæðanna. Þá sé í engu leitast við að leiða líkur að því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna háttsemi stefndu eða í hverju það tjón eigi að vera fólgið. Ekki stoði fyrir stefnanda að áskilja sér rétt til að gera nánari grein fyrir fjártjóni sínu og leggja fram gögn þar að lútandi undir rekstri málsins, sbr. d- og e-liði 1. mgr. 80. gr. og 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndu byggja mál sitt á almennum reglum skaðabótaréttar og almennum reglum samninga- og kröfuréttar, einkum meginreglunni um skuldbindingargildi samninga. Stefndu byggja málskostnaðarkröfur sínar á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins og stefndu Guðmundur Kjartansson, Lárus Finnbogason, Knútur Þórhallsson, Birkir Leósson og Pálína Árnadóttir.

Mál þetta varðar starfslok stefnanda hjá Deloitte FAS ehf. Stefnandi hóf störf hjá félaginu 13. október 1993 og var einn af meðeigendum félagsins og einn af stjórnendum allt þar til honum var sagt upp störfum með bréfi 13. febrúar 2017. 

1

Dómkröfur stefnanda eru tilgreindar í stafliðum A-F í stefnu. Í lið A krefst stefnandi þess að stefndu Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf. og Sigurður Pálmi Sigurðsson, Sigurður Páll Hauksson, Jónas Gestur Jónasson, Birkir Leósson, Björn Ingi Victorsson, Benóní Torfi Eggertsson, Guðmundur Kjartansson, Hilmar Alfreð Alfreðsson, Pálína Árnadóttir, Halldór Arason, Sif Einarsdóttir, Knútur Þórhallsson, Lárus Finnbogason, Páll Grétar Steingrímsson, Anna Birgitta Geirfinnsdóttir, Hólmgrímur Pétur Bjarnason og Þorsteinn Pétur Guðjónsson, sem öll eru A-félagsmenn í D&T sf., verði dæmd óskipt til að greiða stefnanda bætur vegna tapaðra launatekna, 10.407.378 krónur, að viðbættum vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. febrúar 2017 til 6. september 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Kröfuna byggir stefnandi á því að uppsögn á ráðningarsamningi og innlausn á eignarhluta stefnanda, sem honum hafi verið gert að þola, hafi verið ólögmæt og hafi stefndu Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf. og fyrrnefndir A-félagsmenn „með aðkomu sinni að hinum ólögmætu ráðstöfunum, þar með talið samþykkt þeirra á A-félagsmannafundi 7. mars 2017,“ fellt á sig óskipta skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda vegna tjóns sem rakið verði til þeirra ráðstafana sem um ræðir. Vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttarins um bætur vegna vangoldinna launa á uppsagnarfresti.

Stefndu Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf. og fyrrnefndir A-félagsmenn krefjast aðallega sýknu af kröfu stefnanda, en til vara lækkunar á kröfu stefnanda í 2.796.326 krónur. Sýknukröfuna reisa þessir stefndu á því að uppsögn stefnanda hafi verið lögmæt. Bent er á að stefnandi hafi verið skuldbundinn samkvæmt ráðningarsamningi sínum til að fylgja siðareglum endurskoðenda og óhæðis- og siðareglum Deloitte.

Stefndu Birkir Leósson, Guðmundur Kjartansson, Knútur Þórhallsson og Lárus Finnbogason krefjast sýknu af kröfum stefnanda. Þeir benda á að þeir hafi reynt að afstýra meintu tjóni stefnanda og Deloitte með því að greiða atkvæði gegn uppsögn og innlausn stefnanda fremur en að stuðla að því.

            Í 1. gr. ráðningarsamnings Deloitte FAS ehf. og stefnanda, sem var í gildi þegar stefnanda var sagt upp störfum, segir að stefnandi taki sem meðeigandi að sér að vinna hjá félaginu sem einn af stjórnendum þess. Í 4. og 6. gr. samningsins segir að meðeigandi skuli ávallt uppfylla skyldur sínar samviskusamlega samkvæmt góðri starfsvenju og óhæðis- og siðareglum ásamt verklags- og gæðareglum félagsins. Þá skal meðeigandi hafa í heiðri lög og reglur sem lúta að starfinu og rækja starf sitt af kostgæfni og samviskusemi í samræmi við góðar starfsvenjur og óhæðis- og siðareglur. Í 8. gr. samningsins segir að meðeigandi skuli fara eftir verklagsreglum Deloitte um faglega stjórnun verkefna.

Gagnkvæmur uppsagnarfrestur skal samkvæmt 17. gr. samningsins vera að minnsta kosti sex mánuðir. Þó er félaginu heimilt að segja ráðningarsamningnum upp með eins til þriggja mánaða fyrirvara séu tilteknar ástæður fyrir hendi sem taldar eru upp í greininni í sjö tölusettum liðum. Meðal ástæðna sem leitt geta til uppsagnar á ráðningarsamningnum eru endurtekin brot á óhæðis- og siðareglum innan eða utan skrifstofunnar, sbr. 1. tölulið; ef meðeigandi skaðar félagið eða álit þess út á við verulega, sbr. 6. tölulið, og ef meðeigandi brýtur í veigamiklum atriðum gegn ákvæðum ráðningarsamningsins. Greinin hefur einnig að geyma ákvæði um viðurlög við brotum á óhæðis- og siðareglum Deloitte og þar er vísað til refsiákvæða vegna brota á óhæðisreglum sem voru samþykktar af stjórn félagsins 24. maí 2007. Þá segir að viðurlög við öðrum brotum geti verið áminning, lægri þóknun eða fyrirvaralaus uppsögn.

Í 20. gr. samningsins segir að meðeigandi megi ekki, beint eða óbeint, eiga hlut í fyrirtæki sem félagið endurskoðar. Komi til þess að meðeigandi eignist hlut í fyrirtæki umbjóðanda fyrir arf, gjöf eða samruna fyrirtækja, ber honum að losa sig við þann hlut eins fljótt og auðið er og í síðasta lagi innan þriggja mánaða. Loks segir í 21. gr. samningsins að meðeigendum beri að haga störfum sínum í samræmi við siðareglur endurskoðenda (IFAC og FLE). Auk þess beri ávallt að fylgja óhæðis- og siðareglum.

Um störf stefnanda í þágu stefnda Deloitte FAS ehf. gilda lög nr. 79/2008 um endurskoðendur. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna skulu endurskoðendur rækja störf sín af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna og fylgja ákvæðum þeirra laga og reglna sem gilda um störf þeirra. Þá skal endurskoðandi fylgja siðareglum sem settar hafa verið af Félagi löggiltra endurskoðenda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laganna. Endurskoðendum ber að vera óháðir viðskiptavinum sínum eins og segir í 1. mgr. 19. gr. laganna, bæði í reynd og ásýnd. Loks segir í 3. mgr. 19. gr. að við mat á óhæði skuli fylgja ákvæðum siðareglna Félags löggiltra endurskoðenda.

Meðal málsgagna eru úttektir á óhæði stefnanda sem stefndi Deloitte ehf. kveðst framkvæma að kröfu Deloitte Global – DTTL („Deloitte Touche Tohmatsu Limited“) á óhæði meðeigenda og stjórnenda samkvæmt áætlun þar um. Í könnunar- og prófáætlun, sem gefin var út í apríl 2016, segir að þess sé vænst af hálfu DTTL að aðildarfélagið muni prófa eftirfarandi í því skyni að (1) ákvarða hvort sá aðili sem er til skoðunar uppfylli reglur DTTL um óhæði (og reglur aðildarfélagsins að því marki sem þær eru strangari en kröfur DDTL), og (2) meta hvort upplýsingarnar sem skráðar eru í alþjóðlega eftirlitskerfið með óhæði séu heildstæðar, nákvæmar og tímanlega skráðar fyrir þann aðila sem er til skoðunar eða nánustu skyldmenni hans. Til skoðunar eru beinir og verulegir fjárhagslegir hagsmunir viðkomandi og nánustu skyldmenna, verðbréfareikningar, yfirlýsingar er varða vörslureikninga, eða sambærilega reikninga, lán, tryggingarskírteini, atvinna og viðskiptasambönd.

Í minnisblaði 8. desember 2014 um óhæðiskönnun 2014 segir að stefnandi hafi átt eign í [...] sem sé í endurskoðun hjá Deloitte ehf. Leiddi könnunin í ljós brot á siðareglum endurskoðenda númer 290.108. Tekið er fram að eigendum sé óheimilt að eiga hlut í félagi sem sé til endurskoðunar „samkvæmt DPM 1420, verklagsreglu um óhæðismál.“ Var brot stefnanda á siðareglum fellt í alvarleikaflokk tvö. Þá eru í sama minnisblaði tilgreind tvö önnur brot sem voru ekki metin eins alvarleg, en vörðuðu nákvæmni og vanrækslu tímanlegrar skráningar upplýsinga í óhæðiseftirlitskerfi.

Í minnisblaði 9. desember 2015 um óhæðiskönnun það ár segir að stefnandi hafi átt eign í [...] sem sé í endurskoðun hjá Deloitte ehf. Leiddi könnunin í ljós brot á siðareglum endurskoðenda númer 290.108. Tekið er fram að salan hafi tekið of langan tíma frá því að tilkynning barst í mars 2015 um óhæðismál [...] og [...], en salan fór fram í október/nóvember. Einnig segir að stefnandi hafi átt eign í [...] sem sé í endurskoðun hjá Deloitte hf.

Hvað þessa könnun varðar liggur fyrir að með tölvupósti Pálínu Árnadóttur, yfirmanns óhæðismála, 2. mars 2015, var eigendum tilkynnt að stefndi Deloitte hefði „hreppt“ endurskoðun [...] og dótturfélaga fyrir árin 2015-2019 í nýlegu útboði. Voru eigendur sérstaklega beðnir um að upplýsa um hugsanlega óhæðis- og hagsmunaárekstra. Stefnandi upplýsti Pálínu samdægurs um það að hann ætti „töluverða fjárhagslega hagsmuni í vörslu [...]/[...]. Líklega er staðan á því um [...].“ Í tölvupósti til stefnanda 8. júní 2015 kemur fram að stefnandi eigi ennþá eftir að ljúka óhæðisyfirlýsingunni 2015. Var stefnanda tilkynnt að lokafrestur væri núna 12. júní og var stefnanda boðin aðstoð ef með þyrfti. Upphaflegur frestur sem eigendum hafði verið settur var til 16. mars 2015. Eign stefnanda var færð frá [...] og meðal annars til [...] sem er, eins og fram er komið, í endurskoðun hjá Deloitte. Samkvæmt þessu liggur fyrir að stefnandi gerðist sekur um tvö brot á siðareglum endurskoðenda sem felld voru í alvarleikaflokk tvö samkvæmt innri reglum stefnda Deloitte.

Í minnisblaði 10. desember 2016 um óhæðiskönnun á stefnanda fyrir sama ár segir að komið hafi í ljós tvö brot á siðareglum endurskoðenda og innri reglum stefnda Deloitte í alvarleikaflokki tvö. Um var að ræða eign sona stefnanda í sjóðum [...] sem sé í endurskoðun hjá Deloitte. Einnig kom í ljós í könnuninni að stefnandi átti hlut í [...] á tímabilinu og að kaupin hafi ekki verið skráð í „GIMS“ (Global Independence Monitoring System). Var hluturinn í eigu stefnanda í meira en 30 daga en hafði verið seldur þegar könnunin fór fram. Loks segir í sama minnisblaði að stefnandi hafi verið með fjögur frávik um skráningu fjárfestingarverðbréfa í GIMS þar sem upplýsingar um fjárfestingarverðbréf voru ekki skráðar á tilskildum tíma og var því brot á verklagsreglum DTTL.

Samkvæmt framanröktu og gögnum málsins liggur fyrir að við óhæðiskönnun á stefnanda árin 2014, 2015 og 2016 komu í ljós brot stefnanda á siðareglum endurskoðenda og innri reglum Deloitte í alvarleikaflokkum 1-3 öll árin sem um ræðir.  Stefnanda var veitt viðvörun á fundi 31. janúar 2017 með framkvæmdastjóra stefnda ehf. og stjórnarmanni stefnda Deloitte FAS ehf. og svo fór að stefnanda var á fundi stjórna Deloitte ehf. og Deloitte FAS ehf. þann 13. febrúar 2017 afhent uppsagnarbréf þar sem fram kemur að stefnanda sé sagt upp störfum með eins mánaðar fyrirvara með vísan til 17. gr. í ráðningarsamningi og jafnframt tilkynnt um innlausn á eignarhluta hans í D&T sf. með vísan til 8. gr. í samkomulagi A-félagsmanna. Í uppsagnarbréfinu er sérstaklega tekið fram að uppsögnin sé byggð á því að atvik sem talin eru upp í töluliðum 1, 6 og 7 í 17. gr. í ráðningarsamningi stefnanda séu fyrir hendi og að stefnandi hafi brotið að minnsta kosti gegn ákvæðum 4., 6. og 8. gr. ráðningarsamningsins, siðareglum endurskoðenda og ákvæðum laga nr. 79/2008 um endurskoðendur. Að auki er vísað til tilviks um brot á innri reglum Deloitte og greint frá því mati stjórna Deloitte að stefnandi hafi skaðað Deloitte og álit þess út á við og brotið í veigamiklum atriðum gegn ákvæðum ráðningarsamningsins. Loks er vísað til þess að stefnandi hafi gerst brotlegur við óhæðisreglur og fengið áminningu vegna þess. Þá segir að um endurtekin brot sé að ræða.

Af hálfu stefnanda er einkum vísað til þess að hann hafi aldrei sjálfur staðið í fjárfestingum í félögum sem Deloitte endurskoðar, hvað þá að slíkar meintar fjárfestingar geti talist ítrekaðar og stórfelldar og hafnar stefnandi því að tilgreind tilvik geti gefið tilefni til fyrirvaralausrar uppsagnar stefnanda. Þannig er málatilbúnaður stefnanda meðal annars á því byggður að brotin sem um ræðir eigi að teljast léttvægari þar sem hann hafi falið öðrum að sjá um fjárfestingar sínar. Á þetta verður ekki fallist með stefnanda. Um starf stefnanda hjá stefnda Deloitte FAS ehf. gildir ráðningarsamningur frá 30. september 2009.  Eins og rakið er í upphafi kaflans skuldbatt stefnandi sig til þess að uppfylla ávallt skyldur sínar samviskusamlega samkvæmt góðri starfsvenju og óhæðis- og siðareglum ásamt verklags- og gæðareglum félagsins. Þá skal meðeigandi hafa í heiðri lög og reglur sem lúta að starfinu og rækja starf sitt af kostgæfni og samviskusemi í samræmi við góðar starfsvenjur og óhæðis- og siðareglur. Var stefnanda, sem einn meðeigenda og stjórnenda félagsins, ljóst hvaða reglur giltu um fjárfestingar hans og í hvaða félögum heimilt var að fjárfesta í og hverjum ekki. Ber stefnandi sjálfur ábyrgð á slíkum fjárfestingum og ekki stoðar fyrir hann að benda á að þriðji aðili hafi annast þær fyrir stefnanda. Brot stefnanda felast ekki einvörðungu í fjárfestingum í félögum sem voru á sama tíma í endurskoðun hjá Deloitte ehf., heldur einnig í því að hann lét það dragast svo mánuðum skipti að losa sig við fjárfestingar sem gengu á svig við skýrar óhæðisreglur sem félagið var bundið af. Brot stefnanda á siðareglum endurskoðenda sem uppgötvuðust 2014 munu hafa leitt til þess að stefnandi sætti slíkri skoðun árin 2015 og 2016. Öll árin var stefnandi brotlegur við skýrar reglur um óhæði sem honum, vegna stöðu sinnar innan félagsins, hlaut að vera vel kunnugt um. Brot stefnanda varða kafla 290 sem fjallar um óhæði – endurskoðunar- og könnunarverkefni. Í minnisblöðum um óhæðisúttekt á stefnanda er ítrekað vísað til reglu 290.108, en þar er kveðið á um bann við því að meðeigendur eða nánustu fjölskyldumeðlimir þeirra eigi beina fjárhagslega hagsmuni eða verulega óbeina hagsmuni í viðskiptavini í endurskoðun. Tekið er sérstaklega fram í ákvæðinu að við slíkar aðstæður „verður ógnunin vegna eigin hagsmuna svo mikil að engar varúðarráðstafanir geta gert hana ásættanlega.“  

Svo sem fyrr segir var stefnanda veitt viðvörun vegna brotanna sem voru talin alvarleg brot á siðareglum. Í minnisblaði sem afhent var á fyrrnefndum fundi 31. janúar 2017 segir meðal annars að stjórn telji mikilvægt að eigendur eigi undantekningarlaust að fylgja óhæðisreglum Deloitte, þar á meðal varðandi kaup og sölu verðbréfa sem falla þar undir. Ljóst sé að Deloitte á alþjóðavísu taki mjög strangt á reglunum og þurfi Deloitte á Íslandi í allra nánustu framtíð að bregðast við með sambærilegum hætti. Þá segir að stjórnin líti mjög alvarlegum augum á brot á Code 1-3 og óskar eftir því við forstjóra að hann ræði við þann sem fékk athugasemdir vegna brota á óhæðisreglum vegna Code 2. Ber í samræmi við refsiákvæði vegna brota á óhæðisreglum að veita viðkomandi viðvörun.

Þá liggur fyrir, auk framangreindra brota stefnanda á óhæðisreglum, að stefnandi áritaði skýrslu óháðs endurskoðanda um endurskoðun ársreiknings [...] fyrir árið 2015 þrátt fyrir að sinna ekki endurskoðun viðskiptavina, þá yfirmaður fjármálasviðs félagsins. Með þessu gekk stefnandi á svig við innri reglur Deloitte og ákvæði 11. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur. Þá tók stefnandi einnig að sér verkefni það sem hafði vinnuheitið „[...]“ fyrir hönd Deloitte ehf. Var stefnandi ábyrgðarmaður þeirrar þjónustu sem verkkaupinn [...], móðurfélag [...], keypti af Deloitte ehf. Verkið fólst í því að fara yfir viðskiptaáætlun um rekstur fiskeldis í [...] ásamt viðeigandi virðisútreikningum. Stóð stefnandi, sem einn eigandi jarðar í [...], með laxveiðiréttindum í tveimur ám, ásamt fleirum að því að kæra starfsleyfi sem Umhverfisstofnun veitti [...] til sjókvíaeldis 25. október 2016 til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála til að fá það fellt úr gildi eða það yrði afturkallað. Verkefnið er tilgreint í skýrslu um samþykkt og áhættumat fyrir áhættustjórnun Deloitte 2015 án þess að getið sé um hættu á hagsmunaárekstri vegna fasteignar stefnanda á sama svæði og er spurningu í skýrslunni um það hvort einhverjir faglegir, lagalegir eða viðskiptalegir hagsmunaárekstrar séu til staðar svarað neitandi. 

Að öllu því virtu sem að framan er rakið þykja stefndu Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf. og D&T sf. hafa fært fyrir því fullgild rök að stefnandi hafi með háttsemi sinni gerst brotlegur við ákvæði í ráðningarsamningi sínum, sbr. 4., 6. og 8. gr., sbr. 1., 6. og 7. töluliði 17. gr., samningsins, innri reglur Deloitte ehf., siðareglur endurskoðenda og fyrrnefnd ákvæði laga nr. 79/2008 um endurskoðendur, þannig að réttlæti uppsögn á ráðningarsamningi hans við stefnda Deloitte FAS ehf. Er það niðurstaða dómsins að fallast á það með stefnda Deloitte FAS ehf. að uppsögn á ráðningarsamningi félagsins og stefnanda hafi verið lögmæt.

Kemur þá til skoðunar hvort réttlætanlegt hafi verið að segja stefnanda upp störfum með eins mánaðar fyrirvara svo sem gert var með fyrrnefndu bréfi 13. febrúar 2017. Fékk stefnandi í samræmi við það greidd umsamin laun til 1. apríl 2017. Krefst stefnandi skaðabóta sem nema vangoldnum launum í uppsagnarfresti fyrir tímabilið frá 1. apríl til 1. september 2017, eða í fimm mánuði, auk mótframlags atvinnurekanda í lífeyrissjóð, bílastyrks, orlofs og desemberuppbótar, eða samtals 10.407.378 krónur. Stefndu Birkir, Guðmundur, Knútur og Lárus krefjast sem fyrr segir sýknu af kröfum stefnanda í þessum lið, en aðrir stefndu krefjast aðallega sýknu, en til vara lækkunar á dómkröfu stefnanda í 2.796.326 krónur og sé þá miðað við þriggja mánaða uppsagnarfrest og beri stefnanda því að fá tvo mánuði greidda til viðbótar.

Samkvæmt 17. gr. ráðningarsamnings stefnanda og stefnda Deloitte FAS ehf. er gagnkvæmur uppsagnarfrestur að minnsta kosti sex mánuðir og tekur uppsögn gildi frá fyrsta degi næsta mánaðar. Félaginu er þó heimilt að segja samningnum upp með eins til þriggja mánaða fyrirvara séu tilteknar ástæður fyrir hendi sem taldar eru upp í sjö töluliðum í ákvæðinu. Augljóst er að við mat á þeim fjölda mánaða, sem starfsmaður skal fá greidda eftir uppsögn, verður að horfa til þess hversu alvarleg þau atriði eru. Í uppsagnarbréfinu er eins og fram er komið vísað til 1., 6. og 7. töluliða. Þá var stefnandi talinn hafa gerst brotlegur við 4., 6. og 8. gr. ráðningarsamningsins, siðareglur endurskoðenda og lög nr. 79/2008 um endurskoðendur. Dómurinn hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að brot stefnanda á starfsskyldum sínum samkvæmt ákvæðum ráðningarsamningsins réttlæti uppsögn samningsins eins og gert var. Fyrir liggur að stefnandi nýtti heimild í 2. mgr. 17. gr. samningsins til að kalla saman meðeigendafund í D&T sf. til að fjalla um málið. Var fundurinn haldinn 7. mars 2017 en leiddi ekki til þess að uppsögninni yrði hnekkt. Eins og áður segir var stefnandi kallaður á fund 13. febrúar 2017 þar sem honum var afhent uppsagnarbréf eftir nokkrar viðræður og honum gert að yfirgefa vinnustaðinn þá þegar. Er það mat dómsins að þrátt fyrir ítrekuð brot stefnanda, sem réttlætt hafi uppsögn hans, hafi ekki verið næg efni til að segja stefnanda upp störfum með þeim uppsagnarfresti sem beitt var. Má hér hafa í huga að forsvarsmanni [...] mun hafa verið kunnugt um hagsmuni stefnanda í ljósi langra persónulegra kynna þeirra og að það mál mun hvorki hafa haft áhrif á viðskiptasamband viðskiptavinarins og stefnda Deloitte FAS ehf. né skaðað endurskoðunarfyrirtækið á annan hátt. Þá verður að telja smávægilegt það atriði er varðar eign fjárráða sona stefnanda á lítilræði í vörslu [...]. Loks verður að horfa til þess að undirritun stefnanda á ársreikning viðskiptavinarins [...] var, samkvæmt gögnum málsins, gerð að ósk viðskiptavinarins sem taldi aðra starfsmenn endurskoðunarstofunnar ekki hafa sinnt sér eins vel og skyldi. Þegar á þetta er horft verður að telja stefnanda hafa átt rétt á þriggja mánaða launum við uppsögn. Stefnandi sundurliðar dómkröfu sína í þessum lið eins og fram er komið og sæta þær fjárhæðir ekki athugasemdum stefndu. Stefnandi krefst 10.407.378 króna vegna tapaðra launatekna í fimm mánuði, en fallist er á kröfu stefnanda vegna tveggja mánaða og verður stefnda Deloitte FAS ehf. því gert að greiða stefnanda 4.162.951 krónu með vöxtum eins og segir í dómsorði. Sýkna ber aðra stefndu af skaðabótakröfu stefnanda vegna vangoldinna launa á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda var stefnandi í ráðningarsambandi við stefnda Deloitte FAS ehf. en ekki aðra stefndu. Breytir engu fyrir þessa niðurstöðu afstaða stefndu A-félagsmanna á fundi 7. mars 2017 sem haldinn var í því skyni að hnekkja uppsögn á ráðningarsamningi stefnanda, enda gátu þeir félagsmenn ekki fellt á sig hugsanlega skaðabótaábyrgð vegna uppsagnarinnar með þátttöku sinni á fundinum eins og stefnandi byggir á. Það fær ekki staðist að lögum og er því hafnað.   

2

Stefnandi krefst miskabóta, sbr. B-lið dómkrafna, að fjárhæð 12.000.000 króna óskipt úr hendi stefndu Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf. og A-félagsmanna vegna ólögmætra meingerða í garð stefnanda í tengslum við starfslokin. Stefndu krefjast sýknu af kröfunni og benda á að uppsögnin hafi verið lögmæt. Eins og fram er komið er það niðurstaða dómsins að uppsögn stefnanda hafi verið lögmæt vegna þess að stefnandi hafi gerst brotlegur við tiltekin ákvæði í ráðningarsamningnum. Hann hafi ítrekað gerst brotlegur við siðareglur endurskoðenda, innri reglur stefnda Deloitte ehf. sem giltu um starf hans, svo og lög nr. 79/2008 um endurskoðendur.

Krafa stefnanda um miskabætur er byggð á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt ákvæði b-liðar 1. mgr. 26. gr. laganna er heimilt að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Kemur fram í athugasemdum með frumvarpi til laganna að í skilyrðinu um ólögmæta meingerð felist að um saknæma hegðun sé að ræða og þurfi gáleysi að vera verulegt til þess að tjónsatvik verði talin ólögmæt meingerð. Hefur í dómaframkvæmd verið við það miðað að lægsta stig gáleysis fullnægi ekki kröfum ákvæðisins. Þótt stefnanda hafi verið greiddur skemmsti mögulegi uppsagnarfrestur og þannig gefið til kynna að brot hans væru alvarlegri en þau voru, þykir það ekki hafa verið gert af svo verulegu gáleysi að varðað geti greiðslu miskabóta. Verða Deloitte FAS ehf. og aðrir stefndu því sýknaður af þessari kröfu stefnanda. Tölvubréf það sem [...] endurskoðandi sendi 13. febrúar 2017 til meðeigenda og stefnandi vísar til fær engu breytt um þessa niðurstöðu, enda hefur bréfið að geyma almennt orðaða tilkynningu um þá ákvörðun stjórnar að segja upp ráðningarsamningi við stefnanda og af hvaða ástæðum það hafi verið gert. 

3

Í C-lið dómkrafa sinna krefst stefnandi greiðslu á 133.448.012 krónum fyrir innlausnarverð á eignarhluta hans í D&T ehf. Kröfunni beinir stefnandi að stefnda D&T ehf. og stefndu A- og B-félagsmönnum sem beri óskipta greiðsluskyldu gagnvart stefnanda eftir reglum laga um sameignarfélög. Stefndu krefjast sýknu af kröfu stefnanda með vísan til þess að staðið hafi verið með réttum hætti að innlausninni og eignarhlutur stefnanda rétt metinn til verðs. Einnig með vísan til þess að uppsögn ráðningarsamningsins hafi verið lögmæt og því hafi stefndu ekki fellt á sig neina skyldu til að greiða innlausnarverðmæti eignarhluta stefnanda í stefnda D&T sf. umfram það sem þegar hafi verið greitt til stefnanda. Stefndu Birkir Leósson, Guðmundur Kjartansson, Knútur Þórhallsson og Lárus Finnbogason benda á að þær ábyrgðarreglur laga nr. 50/2007, sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á, geti ekki tekið til innbyrðis lögskipta félagsmanna sem um ræðir.

Af hálfu stefnanda er einkum byggt á því að 5. gr. í samkomulagi A-félagsmanna um útreikning innlausnarverðs eigi ekki við um brottrekinn félagsmann eins og við eigi í tilviki stefnanda. Fyrir liggur að við útgöngu úr félaginu fékk stefnandi greiddar samtals 46.901.277 krónur fyrir eignarhlut sinn í félaginu. Stefnandi kvittaði fyrir móttöku greiðslunnar með fyrirvara þar sem hann telur raunvirði hlutarins ranglega reiknað. Kveður stefnandi raunvirði hlutarins að meðtöldum sérgreindum höfuðstól nema að minnsta kosti 180.349.289 krónum og gerir kröfu um greiðslu á mismuninum, 133.448.012 krónum (180.349.289 - 46.901.277).

Í 1. mgr. 5. gr. samkomulags A-félagsmanna D&T sf. frá 14. nóvember 2013 segir að inn- og útgönguverð í D&T sf. sé í formi gegnumstreymiskerfis. Við inngöngu greiða félagsmenn 20.000.000 króna sem bundið er vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 1. júní 2013. Sé greitt með skuldabréfi skal fjárhæðin bera 4% fasta vexti og afborgunartími vera 10 ár. Þá segir í 3. mgr. greinarinnar að við útgöngu skuli greiða út „útgönguverð“ stofnverðs (gegnumstreymisverð) auk sérgreinds höfuðstóls með skuldabréfum sem skulu bundin vísitölu neysluverðs. Þá er kveðið á um vexti og afborgunartíma skuldabréfs. Ekki er í ákvæðinu greint á milli þess hvort félagsmaður gengur sjálfviljugur úr félaginu eða ekki. Verður því ekki ályktað á annan veg en þann að ákvæði 3. mgr. 5. gr. samkomulagsins eigi við um útgöngu félagsmanns úr félaginu óháð því af hvaða ástæðum hún er og eigi sömu reglur að gilda í báðum tilvikum um útgönguverð. Að mati dómsins er stefnandi bundinn af þessu ákvæði samningsins og og því er dómkröfu stefnanda samkvæmt C-lið hafnað. 

4

Í D-lið dómkrafna krefst stefnandi aðallega viðurkenningar á rétti hans til hagnaðarhlutdeildar vegna hagnaðar stefnda Deloitte rekstrarárið 2016-2017, það er frá 1. júní 2016 til 31. maí 2017. Byggir stefnandi á því að hann eigi rétt á slíkri hlutdeild þrátt fyrir ætlaða ólögmæta uppsögn á ráðningarsamningi og innlausn á eignarhluta hans í stefnda D&T sf. Verði réttur stefnanda til hagnaðarhlutdeildar talinn niður fallinn vegna „ólögmæts brottrekstrar” er til vara krafist viðurkenningar á skaðabótarétti stefnanda vegna hagnaðarhlutdeildar sem stefnandi hafi farið á mis við.

Í 2. gr. samkomulags A-félagsmanna í stefnda D&T ehf., dagsettu 14. nóvember 2013, segir að rekstrarniðurstöðu ársreiknings stefnda Deloitte ehf. skuli skipt eftir fyrirfram ákveðnu reiknilíkani sem mælir árangur félagsmanna og stjórn leggur fyrir A-félagsmenn til samþykktar á aðalfundi félagsins. Í 3. gr. samkomu-lagsins segir að A-félagsmaður sem selur hlut sinn eða sætir innlausn eigi ekki rétt á hagnaðarhlutdeild vegna þess rekstrarárs sem salan eða innlausnin á sér stað á. Er sala eða innlausn talin hafa átt sér stað í þeim mánuði sem A-félagsmaður sem viðkomandi félagsmaður hættir að skila fullri dagvinnu í dagvinnutíma til samstæðunnar eftir að ákveðið hefur verið að um sölu eða innlausn sé að ræða.

Af hálfu stefnanda er vísað til þess, kröfum hans til stuðnings, að hann sé ekki bundinn af 3. gr. samkomulagsins eins og atvikum sé háttað. Bendir stefnandi á að uppsögn á ráðningarsamningi hans hafi verið ólögmæt og innlausn eignarhluta hans í stefnda D&T sf. Á þetta er ekki fallist með stefnanda. Hefur dómurinn þegar komist að þeirri niðurstöðu að uppsögnin hafi verið lögmæt og innlausn eignarhlutans við þær aðstæður heimil og rétt reiknuð. Fyrir liggur að stefnandi lét af störfum hjá stefnda D&T sf. í febrúar 2017 og var eignarhluti hans innleystur í sama mánuði með greiðslu til stefnanda fyrir eignarhlutinn. Um það vitna tvær kvittanir fyrir útgreiðslu á höfuðstól í D&T sf. í málsgögnum, báðar dagsettar 23. maí 2017. Samkvæmt fyrrnefndu ákvæði í 3. gr. samkomulags A-félagsmanna um brottfall á rétti til hagnaðarhlutdeildar við innlausn vegna þess rekstrarárs sem sala eða innlausn fer fram á er ekki hjá því komist að hafna kröfu stefnanda um viðurkenningu á rétti stefnanda til hlutdeildar í hagnaði stefnda Deloitte ehf. vegna rekstrarársins 2016-2017, enda er stefnandi bundinn af ákvæðum samkomulagsins. Verða stefndu A-félagsmenn í stefnda D&T sf. því sýknaðir að þessari dómkröfu stefnanda, en sýkna ber stefnda Deloitte ehf. á grundvelli aðildarskorts, svo sem krafist er, þar sem félagið er ekki aðili að fyrrnefndu samkomulagi A-félagsmanna frá 14. nóvember 2013. Þá verður talið, með vísan til þess sem áður er fram komið varðandi lögmæti uppsagnar stefnanda á ráðningarsamningi hans vegna ítrekaðrar brota á samningnum og reglum um óhæði og þeirrar niðurstöðu dómsins að stefnanda beri með réttu þriggja mánaða uppsagnarfrestur, að stefnanda beri ekki réttur til umkrafinnar hagnaðarhlutdeildar í stefnda Deloitte ehf. Að því virtu sem fram er komið verður því einnig hafnað að stefndu hafi fellt á sig skaðabótaábyrgð vegna ætlaðrar hagnaðarhlutdeildar sem stefnandi kveðst hafa farið á mis við. Er varakröfu stefnanda undir þessum kröfulið hafnað.

5

Stefnandi krefst þess í E-lið dómkrafna að viðurkennt verði gagnvart stefnda Deloitte FAS ehf. að ákvæði 19. gr. ráðningarsamnings stefnda Deloitte FAS sf. og stefnanda séu ógild og óskuldbindandi gagnvart stefnanda. Enn fremur að 2. og 3. mgr. 9. gr. í samkomulagi A-félagsmanna séu ógildar og óskuldbindandi gagnvart stefnanda. Að auki krefst stefnandi viðurkenningar á skaðabótaskyldu þessara stefndu.

Vísar stefnandi einkum til þess að samningsákvæði þau sem um ræðir séu ógild og óskuldbindandi  gagnvart honum þar sem honum hafi verið sagt upp með ólögmætum hætti, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá byggir stefnandi einnig á því að samningsákvæðin séu ógild gagnvart stefnanda á grundvelli 1. mgr. 37. gr. sömu laga, enda gangi þau miklu lengra en nauðsynlegt geti talist til varnar samkeppni og skerði atvinnufrelsi stefnanda með ósanngjörnum og óeðlilegum hætti án þess að séð verði að raunverulegir hagsmunir stefndu réttlæti svo víðtækar hömlur. Enn fremur vísar stefnandi til þess að samningsákvæðin séu í öllu falli óskuldbindandi gagnvart stefnanda á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laganna, enda sé bersýnilega ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að halda þeim upp á stefnanda eins og hátti til.

Í 19. gr. í ráðningarsamningi stefnanda segir að hætti meðeignandi störfum hjá félaginu megi hann ekki í þrjú ár frá þeim tíma stunda endurskoðunar- eða ráðgjafarstörf, hvorki í eigin nafni né óbeint sem meðlimur eða starfsmaður í öðru samkeppnisfyrirtæki, né fyrir þá sem voru viðskiptavinir Deloitte ehf. á þeim tíma sem hann hætti.

Með vísan til þess sem áður er fram komið um það mat dómsins að uppsögn ráðningarsamningsins hafi verið lögmæt vegna ítrekaðra brota stefnanda geta 1. og 2. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga ekki átt við í málinu. Eins og komið hefur fram höfðu stjórnir stefndu Deloitte ehf. og  Deloitte FAS ehf. fullt tilefni til að segja upp ráðningarsamningi við stefnanda. Þá fær ekki staðist ákvæði 19. gr. ráðningarsamningsins sú túlkun stefnanda að samkeppnishamlandi ákvæði samkomulagsins eigi ekki við um þá meðeigendur sem hætta fyrir 62 ára aldur. Dregur stefnandi þá ályktun út frá ákvæði 2. mgr. 7. gr. samkomulagsins þar sem segir að félagsmaður skuli selja eignarhlut sinn og innleysa hagnaðarhlutdeild í síðasta lagi við lok þess reikningsárs sem hann nær 62. ára aldri. Verður sú túlkun hvorki leidd af 19. gr. samningsins né af 2. eða 3. mgr. 9. gr. í samkomulagi A-félagsmanna D&T sf. Að mati dómsins ber að hafna því að fyrrnefnd samningsákvæði séu ógild og óskuldbindandi fyrir stefnanda með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 og verður ekki í ljósi atvika málsins og þess sem þegar er fram komið talið að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að halda nefndum ákvæðum upp á stefnanda. Er þá einnig horft til þeirrar stöðu sem stefnandi gegndi hjá Deloitte ehf.

Varakrafa stefnanda undir þessum lið um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefndu á sér enga haldbæra stoð í ljósi þess að fyrrnefnd ákvæði í ráðningarsamningi stefnanda og Deloitte FAS ehf. og í samkomulagi A-félagsmanna eru skuldbindandi fyrir stefnanda og einnig þess að uppsögn ráðningarsamnings stefnanda var að áliti dómsins lögmæt.  Verða stefndu samkvæmt því sýknuð af þessari kröfu stefnanda.

6

Einn dómari, Guðmundur Óskarsson, fyrrverandi endurskoðandi, er sammála öðrum dómendum um annað en úrlausn krafna um bætur vegna tapaðra launatekna, miskabætur og hagnaðarhlutdeild. Hann telur að þær ávirðingar sem lagðar hafi verið til grundvallar uppsögn á ráðningarsamningi stefnanda séu ekki þess eðlis að réttlæti skerðingu á sex mánaða uppsagnarfresti. Þar horfi hann til eftirfarandi atriða: Í málsgögnum sé ekkert sem staðfesti að stefnandi hafi verið áminntur í starfi. Stefnanda hafi verið veitt ein viðvörun án þess að um lokaviðvörun væri að ræða. Þá hafi stefnandi, þrjú ár í röð, fengið send minnisblöð frá yfirmanni óhæðismála hjá Deloitte. Ekki hafi verið minnst á að verið væri að veita stefnanda viðvörun eða áminningu. Í minnisblöðunum séu tilgreind brot á skráningarreglum. Stefnandi hafi engan ávinning haft af því að fara ekki eftir settum skráningarreglum. Verði ekki annað séð en að um gáleysisbrot hafi verið að ræða eða kæruleysi, frekar en ásetningsbrot eða óhlýðni. Hafi stefnandi verið talinn hafa brotið gegn grein 290.108 í siðareglum fyrir endurskoðendur, með því að eiga hlut í félögum sem séu í endurskoðun hjá Deloitte. Félögin séu [...], 224.000 krónur, sem sé 0,56% af [...] króna eignasafni stefnanda í fjárvörslu og hlutur í [...] um það bil 140.000 krónur sem svari til 0,35% af eignasafninu. Hvort tveggja sé óveruleg eign.

Við mat yfirmanns óhæðismála á þessum brotum sé ekki lagt mat á mikilvægi hinna fjárhagslegu hagsmuna, sem þó beri að gera samkvæmt grein 290.102 í sömu siðareglum. Fram hjá þessari grundvallarreglu sé horft. Minniháttar frávik séu dregin fram og látið eins og um sé að ræða afar mikilvæg atriði. Eins sé stefnandi talinn hafa brotið grein 290.108 með því að eiga eign í [...]. Stefnanda hafi þó verið heimilt að kaupa og eiga hlut í [...] þegar kaupin hafi átt sér stað. Eignarhaldið hafi ekki orðið óheimilt fyrr en síðar þegar Deloitte hafi tekið við endurskoðun [...] og [...] á árinu 2015. Í einu minnisblaði segi: „það kom í ljós að þú átt eign í [...] sem er einnig skilyrt félag en fékkst ekki brot í þetta sinn.“ Það að yfirmaður óhæðismála Deloitte sleppi stefnanda við þetta óhæðisbrot sé í algjörri andstöðu við hversu strangt Deloitte taki á hverju minnsta óhæðisfráviki og bendi til þess að óheimil eign eigenda Deloitte í skilyrtu félagi sé ekki eins alvarleg og ófrávíkjanleg regla og af sé látið. Í öðru minnisblaði segi: „Synir þínir áttu í sjóðum [...] sem er í endurskoðun hjá Deloitte ehf.” Eignarhaldið hafi verið í höndum fjárráða sona stefnanda á mjög litlum hlutum í sjóðnum. Fjárráða maður ráði einn fé sínu. Stefnandi ráði ekki yfir fjárráðum sona sinna. Deloitte ehf. hafi ekkert yfir sonum stefnanda að segja og geti ekki gert meðeigendur ábyrga fyrir gjörðum fjárráða barna sinna. Meðdómsmaðurinn telur að stefndu hafi ekki sýnt fram á að stefnandi hafi skaðað félagið út á við með brotum sínum og alls ekki verulega og ekki að brot hans séu meiriháttar, veigamikil eða sýni vítaverða vanrækslu í starfi. Af þessari niðurstöðu leiði að stefnandi eigi rétt á hagnaðarhlutdeild rekstarársins 2016-2017. Þá telur meðdómsmaðurinn að stefndi Deloitte FAS ehf. eigi að greiða stefnanda 1.000.000 króna í miskabætur.

7

            Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið verður niðurstaða dómsins á þann veg að stefnda Deloitte FAS ehf. er gert að greiða stefnanda 4.162.951 krónu með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. febrúar 2017 til 6. september 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Aðrir stefndu, D&T sf., Deloitte ehf., Sigurður Páll Hauksson, Jónas Gestur Jónasson, Birkir Leósson, Björn Ingi Victorsson, Benóní Torfi Eggertsson, Guðmundur Kjartansson, Hilmar Alfreð Alfreðsson, Pálína Árnadóttir, Halldór Arason, Sif Einarsdóttir, Knútur Þórhallsson, Lárus Finnbogason, Páll Grétar Steingrímsson, Anna Birgitta Geirfinnsdóttir, Hólmgrímur Pétur Bjarnason, Þorsteinn Pétur Guðjónsson, Signý Magnúsdóttir, Bjarni Þór Bjarnason, og Gunnar Þorvarðarson, (A-félagsmenn í D&T sf.), Sigurður Pálmi Sigurðsson, Ragnar Jóhann Jónsson, Aðalsteinn Þór Sigurðsson, Sigurður Heiðar Steindórsson, Sigurður Álfgeir Sigurðarson, Einar Hafliði Einarsson, Jóhann Geir Harðarson, Björn Helgi Arason, Lúðvík Þráinsson, Haraldur Ingi Birgisson, Guðni Björgvin Guðnason, Jóhann Óskar Haraldsson, Sunna Dóra Einarsdóttir, Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir og Birna María Sigurðardóttir (B-félagsmenn í D&T sf.) eru sýkn af kröfum stefnanda.

Þegar horft er á dómkröfur, málsúrslit og atvik öll verður ákveðið að stefnda Deloitte FAS ehf. greiði stefnanda 1.000.000 krónur í málskostnað, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en stefnandi greiði stefndu Birki Leóssyni, Guðmundi Kjartanssyni Knúti Þórhallssyni og Lárusi Finnbogasyni óskipt 1.200.000 króna í málskostnað. Að öðru leyti falli málskostnaður niður milli aðila.

Mál þetta dæma Jón Höskuldsson héraðsdómari, dómsformaður, og meðdómsmennirnir Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari og Guðmundur Óskarsson, fyrrverandi endurskoðandi.

Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

D ó m s o r ð:            

Stefndu, D&T sf., Deloitte ehf., Sigurður Páll Hauksson, Jónas Gestur Jónasson, Birkir Leósson, Björn Ingi Victorsson, Benóní Torfi Eggertsson, Guðmundur Kjartansson, Hilmar Alfreð Alfreðsson, Pálína Árnadóttir, Halldór Arason, Sif Einarsdóttir, Knútur Þórhallsson, Lárus Finnbogason, Páll Grétar Steingrímsson, Anna Birgitta Geirfinnsdóttir, Hólmgrímur Pétur Bjarnason, Þorsteinn Pétur Guðjónsson, Signý Magnúsdóttir, Bjarni Þór Bjarnason, Gunnar Þorvarðarson, Sigurður Pálmi Sigurðsson, Ragnar Jóhann Jónsson, Aðalsteinn Þór Sigurðsson, Sigurður Heiðar Steindórsson, Sigurður Álfgeir Sigurðarson, Einar Hafliði Einarsson, Jóhann Geir Harðarson, Björn Helgi Arason, Lúðvík Þráinsson, Haraldur Ingi Birgisson, Guðni Björgvin Guðnason, Jóhann Óskar Haraldsson, Sunna Dóra Einarsdóttir, Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir og Birna María Sigurðardóttir eru sýkn af kröfum stefnanda, Ágústar Heimis Ólafssonar.

Stefndi Deloitte FAS ehf. greiði stefnanda 4.162.951 krónu með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. febrúar 2017 til 6. september 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 1.000.000 krónur í málskostnað.

Stefnandi greiði stefndu Birki Leóssyni, Guðmundi Kjartanssyni, Knúti Þórhallssyni og Lárusi Finnbogasyni óskipt 1.200.000 króna í málskostnað.

Að öðru leyti fellur málskostnaður niður milli aðila. 

 

Jón Höskuldsson

Þorsteinn Davíðsson

Guðmundur Óskarsson