• Lykilorð:
  • Líkamsmeiðing af gáleysi
  • Manndráp af gáleysi
  • Sönnun
  • Sönnunarbyrði
  • Sönnunarmat

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 11. janúar 2019 í máli nr. S-184/2018:

Ákæruvaldið

(Einar E. Laxness aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 21. nóvember 2018, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 10. apríl 2018 á hendur ákærða, X, kt. […], […], […];

„fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa að morgni þriðjudagsins 21. febrúar 2017, ekið bifreiðinni [1] norður (austur) Reykjanesbraut skammt austan Brunnhóla í landi Hafnarfjarðar, án nægilegrar tillitsemi og varúðar, of hratt miðað við aðstæður þar sem snjóþekja (krapakennd bleyta) var á veginum og eigi fær um að stjórna ökutækinu örugglega vegna veikinda, en ákærði fékk aðsvif, yfir óbrotna línu á akrein fyrir umferð á móti, síðan yfir á réttan vegarhelming með þeim afleiðingum að árekstur varð við bifreiðina [2], sem ekið var suður (vestur) Reykjanesbraut, en ökumaður [2] hafði sveigt yfir á rangan vegarhelming til að forðast árekstur við [1], með þeim afleiðingum að farþegi í bifreiðinni [2], A fædd […], hlaut slíka fjöláverka að hún lést við áreksturinn og ökumaður bifreiðarinnar B, fæddur […], hlaut mörg rifbrot og áverka á kvið.

Telst þetta varða við 215. og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og 1. mgr. 4. gr.,  1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 14. gr., 1. mgr., sbr. g. og h. lið 2. mgr. 36. gr. og  1., sbr. 2. mgr. 44. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50, 1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993.

Kröfur ákærða eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til vara krefst ákærði þess að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.

I

Að morgni þriðjudagsins 21. febrúar 2017, kl. 06:48, barst lögreglu tilkynning um mjög harðan árekstur á Reykjanesbraut vestan við álverið í Straumsvík. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu gaf á vettvangi að líta jeppabifreið, með skráningarnúmerið [1], sem var á miðjum veginum og vísaði framendi hennar í akstursstefnu til austurs. Utan vegar, þvert á akstursstefnu í vegöxl akreinar til austurs, var fólksbifreiðin [2]. Miklar sjáanlegar skemmdir voru á framendum beggja bifreiðanna.

Um aðstæður á vettvangi segir í frumskýrslu lögreglu að vegurinn á umræddum vegarkafla sé með eina akrein í hvora akstursátt. Éljagangur hafi verið og snjóþekja því myndast. Dimmt hafi verið yfir og götulýsing ófullnægjandi. Akstursskilyrði hafi því verið slæm.

Þegar lögreglu bar að sat ökumaður jeppabifreiðarinnar, ákærði í máli þessu, í hægra aftursæti bifreiðarinnar. Í frumskýrslu lögreglu er ákærði sagður hafa verið með áverka í andliti. Hann hafi getað tjáð sig en augljóslega verið brugðið. Fram hafi komið hjá ákærða að þegar áreksturinn varð hefði hann verið á leið austur Reykjanesbraut eftir að hafa ekið konu sinni í flug til Keflavíkur.

Í fólksbifreiðinni voru tveir einstaklingar, ökumaður bifreiðarinnar, B, og farþegi í framsæti, A. Voru þau föst í bifreiðinni eftir áreksturinn. Fram kemur í áður tilvitnaðri frumskýrslu að B hafi verið töluvert slasaður og meðvitund hans skert, en hann þó lítillega getað tjáð sig. A hafi verið látin. Klippum hafi verið beitt til þess að ná fólkinu út úr bifreiðinni.

C lögreglumaður ræddi á vettvangi við D og E sem sögðust hafa ekið Reykjanesbraut til suðurs á eftir fólksbifreiðinni [2]. Samkvæmt skýrslu lögreglumannsins, sem hann ritaði um aðkomu sína að málinu, bar D og E saman um það að jeppabifreiðin [1] hefði komið úr gagnstæðri átt. Henni hefði síðan verið ekið yfir á öfugan vegarhelming og hún þá stefnt framan á bifreiðina [2]. Ökumaður hennar hefði þá einnig beygt yfir á öfugan vegarhelming til þess afstýra árekstri. Jeppabifreiðinni hefði þá skyndilega verið beygt aftur yfir á réttan vegarhelming og í kjölfarið hafi bifreiðarnar skollið saman. D og E sögðu þessa atburðarás hafa verið mjög hraða. Ökuhraða bifreiðanna tveggja sögðu þeir hafa verið eðlilegan. Hraða bifreiðar þeirrar sem þeir voru í kváðu þeir hafa verið 80-90 km/klst.

Þeir þrír einstaklingar sem lentu í slysinu voru allir fluttir á bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Þar staðfesti læknir andlát A. Umfjöllun um dánarorsök hennar er að finna í kafla II.A hér á eftir. Þeim meiðslum sem ákærði og brotaþoli B urðu fyrir við áreksturinn er lýst í kafla II.B. Þá er þar einnig að finna frekari umfjöllun um heilsufar ákærða.

F rannsóknarlögreglumaður rannsakaði vettvang slyssins og vann myndaskýrslu með skýringum vegna rannsóknar sinnar, dagsetta 27. febrúar 2017. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að yfirborð vegarins hafi verið malbikað og að er rannsóknin var framkvæmd hafi verið á því krapakennd bleyta. Veður hafi verið slæmt, norðan slydduhríð. Engin hemla- og/eða dragför hafi verið að sjá á yfirborði vegarins eftir bifreiðarnar. Niðurstaða rannsóknar lögreglumannsins var sú að árekstur bifreiðanna hefði átt sér stað á hægri akrein miðað við akstursstefnu jeppabifreiðarinnar, nærri miðlínu vegarins. Á ljósmyndum af vettvangi má sjá að jeppabifreiðin stöðvaðist skammt frá ætluðum árekstursstað samkvæmt niðurstöðu rannsóknarlögreglumannsins og var vinstra framhjól bifreiðarinnar þá komið yfir miðlínu vegarins.

II

A

Í málinu liggur fyrir krufningarskýrsla dr. G, sérfræðings í meinafræði, dagsett 6. mars 20017, vegna réttarkrufningar sem hann framkvæmdi á líki A. Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt niðurstöðum krufningar og sneiðmynda [---] megi álykta að hún hafi dáið í hörðum árekstri tveggja bifreiða sem lent hafi saman hægra megin.

G kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og staðfesti og skýrði tilvitnaða skýrslu sína.

B

Ákærði kom á bráðamóttöku Landspítala-háskólasjúkrahúss í Fossvogi til skoðunar og meðferðar kl. 7:37 í kjölfar umferðarslyssins. Samkvæmt vottorði H, sérfræðings í slysa- og bráðalækningum, dagsettu 5. ágúst 2017, var ákærði við komu með skurð á augabrún en vel áttaður á stað og stund. Ákærði var einnig með brotið rifbein og mar á hægra hné. Var sárið á höfði ákærða saumað og hann því næst lagður inn til eftirlits. Í læknisvottorðinu er einnig tekið fram að ákærði væri í blóðþynningarmeðferð vegna gáttatifs.

Brotaþoli B kom á bráðamóttökuna kl. 7:43 um morguninn. Samkvæmt vottorði H, dagsettu 25. október 2017, var brotaþoli með dreifð eymsli í öllum kvið, í vöðvavörn og yfir hægri mjöðm. Við rannsóknir kom í ljós að blætt hafði inn í kviðarhol brotaþola og þá var hann með mörg rifbrot. Af bráðamóttöku var brotaþoli færður til meðferðar á gjörgæsludeild.

H kom fyrir dóminn og staðfesti og skýrði tilvitnuð vottorð sín. Gáttatif sagði vitnið vera frekar algenga og tiltölulega saklausa hjartsláttartruflun sem flestir fyndu ekki fyrir dagsdaglega. Aðspurt kvað vitnið mjög ólíklegt að gáttatif gæti valdið því að sjúklingur fengi aðsvif. Það væri mjög sjaldgæfur fylgifiskur gáttatifs.

Í málinu liggur frammi göngudeildarnóta, rituð af I hjartalækni, dagsett 5. júlí 2017, er varðar ákærða. Í henni segir að frá því í september 2015 hafi liðið fimm sinnum yfir ákærða. Þá hafi ákærði legið inni á spítala vegna gáttatifs á árinu 2014 en við rannsóknir hafi ekkert fundist sem gefið hafi tilefni til þess að gangráður yrði græddur í ákærða. Þeim rannsóknum hafi verið fylgt eftir með „Holter“ sem ekki hafi sýnt lengri hlé en þrjár sekúndur. Miðað við söguna væri mögulegt að yfirlið gætu starfað af hléum vegna gáttatifs en það hafi hins vegar ekki fundist við rannsóknir. Vegna frásagnar ákærða hafi læknirinn sett ákærða í „akstursbann“ og fylgt því eftir með sjö sólarhringa hjartalínuriti. Þá kemur fram í bréfi, dagsettu 4. ágúst 2017, sem varðar meðferð ákærða á hjartadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, að gangráður hafi verið græddur í hann 1. ágúst 2017.

I kom fyrir dóm og staðfesti tilvitnaða göngudeildarnótu sína. Fram kom hjá vitninu að gangráður hefði verið græddur í ákærða „... vegna yfirliða og gáttatifs.“ Gáttatif kvað vitnið vera algenga hjartsláttartruflun. Þannig væru um 20% einstaklinga 75 ára og eldri með gáttatif. Minntist vitnið þess ekki að hafa, áður en atvik máls gerðust, rætt akstur bifreiðar við ákærða í tengslum við þær truflanir á hjartslætti sem hann hrjáðu. Vitnið sagði yfirlið vegna truflunar á hjartslætti (pása) koma án fyrirvara fyrir sjúklinginn. Aðspurt kvaðst vitnið „alls ekki“ geta fullyrt nokkuð um það hvort ákærði hefði fallið í yfirlið í aðdraganda árekstursins. Þá svaraði vitnið þeirri spurningu neitandi hvort það hefði, í ljósi þess sem fyrir lá 21. febrúar 2017 um heilsufar ákærða samkvæmt framansögðu, verið óvarlegt af hans hálfu að aka bifreið.

C

Að beiðni lögreglu vann J bíltæknirannsókn á bifreiðunum [1] og [2]. Í skýrslu J vegna rannsóknar á bifreiðinni [1], sem ákærði ók umræddan morgun, kemur fram í niðurstöðukafla að verulegar skemmdir hafi orðið á yfirbyggingu, burðarvirki í yfirbyggingu og grind framan miðju hægra megin og framhluta í árekstri. Hjólabúnaður og hjólbarði hægra megin hafi einnig skemmst verulega í árekstrinum. Engir gallar, bilun eða ummerki skyndibilunar hafi fundist í ökutækinu í aðdraganda slyssins. Útsýni ökumanns fram á við, til hliða og gegnum afturrúðu hafi verið óskert. Sýnileiki ökutækisins hafi verið í lagi, að ljósabúnaði hægra megin að framan frátöldum, en hann hafi albrotnað í árekstrinum og því ekki verið matshæfur. Að lokum segir í tilvitnuðum kafla skýrslunnar: „Bíltæknirannsóknin leiddi í ljós að orsök slyssins verður ekki rakin til ástands ökutækisins í aðdraganda slyssins.“

Í skýrslu J vegna rannsóknar á bifreiðinni [2], sem brotaþoli B ók er atvik máls gerðust, kemur fram í niðurstöðukafla að engin ummerki hafi fundist um að útsýni ökumanns hafi verið hindrað í aðdraganda slyssins. Þá hafi engin ummerki fundist um að sýnileiki ökutækisins hafi verið skertur í aðdraganda slyssins. Engin ummerki hafi fundist um annað en rétta virkni öryggispúða og öryggisbelta í árekstri. Sætið hægra megin að framan hafi skemmst verulega í árekstrinum. Í skýrslunni er ekki gerð athugasemd við hjólbarða [2] að framan. Hjólbarðinn hægra megin hafi skemmst verulega við áreksturinn en engin ummerki hafi fundist um að ekið hafi verið á honum loftlitlum eða loftlausum í aðdraganda slyssins. Þá kemur fram að verulegar skemmdir hafi orðið á stýrisvél og hjólabúnaði í hægra framhjóli en engin ummerki bilunar, skyndibilunar eða lélegs ástands í aðdraganda slyssins hafi fundist í búnaðinum. Í árekstrinum hafi þrjú þung högg komið á [2]. Í fyrsta lagi þegar grindarkjálkar hægra megin á báðum ökutækjunum hafi skollið saman. Í öðru lagi þegar hægra framhjól [2] hafi skollið á A-stafnum hægra megin og keyrt hann aftur í farþegarýmið. Í þriðja lagi vegna þyngdarmunar ökutækjanna, [2] 1.228 kg að eigin þyngd samkvæmt ökutækjaskrá og [1] 2.258 kg, hafi [2] snúist til vinstri undan þyngra ökutækinu sem keyrt hafi inn í framhurð [2] hægra megin og inn í framsætið hægra megin.

Í skýrslunni eru gerðar athugasemdir við hjólbarða bifreiðarinnar [2] að aftan og bremsubúnað bifreiðarinnar. Í lok niðurstöðukafla skýrslunnar er tekið fram að bíltæknirannsóknin hafi leitt í ljós ágalla vegna ólíkrar gerðar, tegundar og eiginleika hjólbarðanna og skertrar hemlagetu vegna fastra færslna hemladæla að framan ásamt ryðtærðum innri slitfleti hemladisksins vinstra megin að aftan. Þrátt fyrir þessa ágalla yrði hins vegar ekki séð að þeir hefðu breytt neinu í atburðarásinni í aðdraganda slyssins eða haft áhrif á möguleika ökumannsins til að hafa fullt vald á stjórnun ökutækisins.

J kom fyrir dóm og staðfesti og skýrði tilvitnaðar skýrslur sínar.

III

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði að morgni 21. febrúar 2017 keyrt sambýliskonu sína og dóttur hennar í flug. Ákærði sagðist hafa farið snemma að sofa kvöldið áður og sofið vel um nóttina. Hann hefði vaknað um kl. 04:00 og lagt af stað heiman frá sér kl. 05:30 um morguninn. Ákærði hefði síðan ekið sem leið lá suður á Keflavíkurflugvöll. Veður á leiðinni kvað ákærði hafa verið þokkalegt. Spurður um líðan sína á leiðinni svaraði ákærði því til að honum hefði fundist hann vera „í góðu formi.“

Á leiðinni til baka frá flugvellinum sagði ákærði hafa verið tekið að slydda svolítið og hefði af þeim sökum verið komin á veginn smá snjó- eða krapaþekja. Þá hefði enn verið myrkur. Ákærði kvaðst hafa ekið mjög varlega og í samræmi við aðstæður. Ökuhraði hans hefði verið 50-60 km/klst. Vegna þess hversu varlega ákærði ók sagði hann bifreið sína aldrei hafa rásað til á veginum, en á því hefði hann talið vera hættu æki hann hraðar.

Fram kom hjá ákærða að þegar hann var að leggja af stað frá flugvellinum hefði lögregla haft afskipti af honum, að sögn lögreglu vegna rásandi aksturslags. Ákærði nefndi sem skýringu á því að honum hefði ekki verið alveg ljóst hvaða leið hann ætti að fara til baka frá flugvellinum. Hann hefði því verið að skima í kringum sig eftir réttri akstursleið. Ákærði sagðist hafa rætt við lögreglu og að því loknu haldið akstrinum áfram. Lögreglan hefði síðan fylgt ákærða eftir alla leið að Fitjum án þess að til frekari afskipta af honum kæmi.

Ákærði neitaði því aðspurður að hafa fundið til svima við aksturinn. Við afleggjarann að Vogum kvaðst ákærði hins vegar hafa opnað alla glugga til að hressa sig aðeins við, mögulega vegna þess að of heitt hefði verið í bifreiðinni. Sú aðgerð hefði skilað tilætluðum árangri.

Aðdraganda árekstursins lýsti ákærði svo að hann hefði séð bifreið koma á móti sér og hefði honum fundist bifreiðin vera á talsvert miklum hraða. Ákærða hefði síðan virst sem ökumaður bifreiðarinnar missti stjórn á henni og í kjölfarið hefði bifreiðin farið í veg fyrir bifreið ákærða. Sjálfur kvaðst ákærði allan tímann hafa haldið bifreið sinni á hægri akrein miðað við akstursstefnu. Minntist hann þess alls ekki að hafa farið yfir á öfugan vegarhelming. Bifreiðin sem kom á móti hefði í kjölfar þess að hún fór yfir á öfugan vegarhelming lent á hægra framhorni bifreiðar ákærða og hún síðan farið út af veginum. Ákærði kvaðst telja að hann hefði misst meðvitund í mjög stutta stund við áreksturinn.

Fram kom hjá ákærða að hann hefði glímt við gáttatif áður en atvik máls gerðust og verið undir læknishendi vegna þess. Ákærði sagði þrjú til fjögur tilvik hafa komið upp og hefði langur tími liðið á milli þeirra. Ekkert þeirra hefði komið til er ákærði var í akstri og hefði hann engin fyrirmæli eða ráðleggingar fengið frá læknum um að aka ekki bifreið. Þvert á móti hefði hjartalæknir ákærða gefið út jákvætt vottorð í tilefni af umsókn hans um endurnýjun ökuréttinda nokkru áður en atvik máls gerðust.

Eftir slysið hefði ákærði farið í rannsókn hjá hjartalækni sínum. Læknirinn hefði þá lagt að ákærða að aka ekki bifreið í um vikutíma, eða á meðan ástand hans væri metið. Hinn 3. ágúst 2017 hefði ákærði síðan farið í aðgerð og gangráður verið græddur í hann. Tilgangur aðgerðarinnar hefði verið að koma í veg fyrir hjartsláttar­truflanir. Svo virtist sem aðgerðin hefði skilað tilætluðum árangri þar sem eftir hana hefði ekkert nýtt tilfelli komið upp.

IV

B skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði vaknað tímanlega 21. febrúar 2017 og haldið af stað áleiðis til Keflavíkur, en þau hjónin hefðu átt flug kl. 08:30 um morguninn. Veðrið sagði vitnið hafa verið þokkalegt en svolítil slydda hefði verið. Hvort sú úrkoma var farin að festast á veginum er atvik máls gerðust kvaðst vitnið ekki muna.

Þegar vitnið hefði verið að aka eftir Reykjanesbrautinni og verið komið rétt suður fyrir álverið í Straumsvík hefði eiginkona þess haft orð á því að bifreið væri að koma úr gagnstæðri átt sem ekki væri „á réttum stað á veginum.“ Örstuttu síðar hefði vitnið séð að sú bifreið, sem verið hefði að koma yfir hæð á veginum, stefndi út af veginum sömu megin og vitnið ók. Ökuhraði vitnisins hefði þá verið 80-90 km/klst. Hina bifreiðina kvað vitnið hafa verið á miklum hraða. Hvort hraði hennar hefði verið meiri en hraði bifreiðar vitnisins gat vitnið ekki sagt til um. Vitnið kvaðst hafa gripið til þess ráðs að sleppa bensíngjöfinni og beygja frá bifreiðinni sem kom á móti yfir á rangan vegarhelming. Vitnið hefði talið sig vera komið framhjá bifreiðinni þegar það hefði séð ljós koma og hin bifreiðin svo lent á bifreið vitnisins með miklum skelli. Bifreið vitnisins hefði þá verið komin yfir á rangan vegarhelming miðað við akstursstefnu. Taldi vitnið aðspurt að ökumaður þeirrar bifreiðar hefði ekki bremsað í aðdraganda árekstursins. Atvik þessi sagði vitnið hafa gerst mjög hratt. Við höggið hefði vitnið dottið út í nokkrar sekúndur og það rankað við sér aftur í þann mund sem bifreið þess var að stöðvast. Vitnið hefði þá litið til hliðar og séð að eiginkona þess átti erfitt með að anda. Fljótlega hefði síðan einhver komið að bifreiðinni og látið vitnið vita af því að aðstoð væri á leiðinni.

Spurt um ástand bifreiðar sinnar fyrir áreksturinn kvað vitnið það hafa verið mjög gott. Nefndi vitnið sérstaklega að það hefði nokkrum vikum áður farið á verkstæði og keypt ný framdekk á bifreiðina.

Við slysið sagðist vitnið hafa hlotið líkamlega áverka, þ.m.t. mörg rifbrot og áverka á kvið. Vitnið væri enn að jafna sig á þeim áverkum.

D kvaðst umræddan morgun hafa verið akandi á leið til vinnu ásamt vinnufélaga sínum, E. Hefði sá síðarnefndi verið undir stýri. Vitnið kvaðst hafa veitt athygli fólksbifreið sem verið hefði um það bil 50 metrum á undan bifreið þeirra. Bifreiðinni hefði verið ekið á „venjulegum hraða“, um það bil 80-90 km/klst., og hefðu bifreiðarnar fylgst að í nokkurn tíma.

Vitnið hefði síðan séð að jeppabifreið, sem kom úr gagnstæðri átt, sveigði yfir á rangan vegarhelming. Um hraða jeppabifreiðarinnar gat vitnið ekki borið. Þegar fólksbifreiðin framan við bifreið vitnisins hefði nálgast jeppabifreiðina hefði ökumaður hennar reynt að afstýra árekstri með því að fara yfir á öfugan vegarhelming. Þá hefði ökumaðurinn stigið á hemlana í stutta stund, en vitnið hefði séð bremsuljós fólksbifreiðarinnar kvikna í stutta stund. Jeppabifreiðinni hefði í kjölfarið verið sveigt aftur yfir á hægri akrein miðað við akstursstefnu hennar og þar hefðu bifreiðarnar rekist saman. Tók vitnið fram að ökumaður fólksbifreiðarinnar hefði haft mjög skamman tíma til þess að bregðast við eftir að jeppabifreiðinni var ekið yfir á rangan vegarhelming.

Vitnið sagði starfsfélaga sinn hafa náð að stöðva bifreið þeirra áður en að slysstaðnum kom. Þeir hefðu strax kallað símleiðis eftir aðstoð en síðan farið út og kannað með ástand fólksins í bifreiðunum tveimur. Þá hefðu þeir gert ráðstafanir til þess að hægja á aðvífandi umferð með því að tendra öryggisljós bifreiðar sinnar.

Vitnið kvað ökumann jeppabifreiðarinnar hafa legið yfir framsæti bifreiðarinnar þegar að var komið, en hann hefði þó verið fær um að hreyfa sig. Í fólksbílnum hefði ökumaðurinn verið hreyfingarlaus en með meðvitund. Þegar ökumaður jeppa­bifreiðarinnar hefði komið út úr bifreiðinni skömmu eftir áreksturinn, sem hann hefði gert farþegamegin, hefði það fyrsta sem hann sagði verið: „Er ég ekki réttu megin?“

Um aðstæður á vettvangi bar vitnið að vegurinn hefði verið blautur, þungskýjað og hálfgerð slydda. Vitnið hefði hins vegar ekki orðið vart við hálku á veginum.

E bar að hann hefði umræddan morgun verið akandi á leið til vinnu. Með vitninu í för hefði verið vinnufélagi þess, D. Skammt framan við bifreið vitnisins hefði verið önnur bifreið með sömu akstursstefnu. Úr gagnstæðri átt hefði síðan komið jeppabifreið. Aðspurt um ökuhraða hennar gat vitnið ekkert borið með neinni vissu. Jeppabifreiðinni hefði í framhaldinu verið ekið yfir á rangan vegarhelming. Þeim atvikum lýsti vitnið nánar svo að jeppabifreiðin hefði verið að koma út úr beygju og hefði henni verið ekið beint áfram út úr beygjunni og hún þannig farið yfir á rangan vegarhelming. Jeppabifreiðin hefði á þessum tímapunkti stefnt út af veginum. Ökumaður fólksbifreiðarinnar, sem var á undan bifreið vitnisins, hefði í fyrstu bremsað og hægt ferðina en hann síðan tekið á það ráð að beygja til vinstri frá jeppabifreiðinni sem þá hefði snögglega verið sveigt til baka. Í kjölfarið hefði árekstur orðið með bifreiðunum tveimur, nærri miðlínu vegarins að því er vitnið taldi.

Vitnið kvaðst hafa, án vandræða, náð að stöðva bifreið sína úti í vegkanti áður en það kom að slysstaðnum, enda hefði vitnið séð í hvað stefndi og það verið farið að hægja ferðina áður en áreksturinn varð. Eftir að vitnið hafði stöðvað bifreið sína hefði það reynt að að hægja á aðvífandi umferð.

Um aðstæður á vettvangi bar vitnið að það hefði verið dimmt og vegurinn blautur. Aðspurt kvaðst vitnið ekki reka minni til þess að hálka hefði verið á veginum.

K sagðist hafa verið á leið til vinnu umræddan morgun og ekið norður Reykjanesbraut. Snjór hefði verið á veginum og með tilliti til þeirra aðstæðna kvaðst vitnið hafa ekið á 70 km/klst. hraða. Vitnið hefði verið að nálgast þann hluta Reykjanesbrautar þar sem vegurinn mjókkar og verður tveggja akreina þegar það hefði veitt athygli bílhluta sem komið hefði skoppandi eftir veginum. Vitnið sagði skyggnið á vettvangi hafa verið mjög slæmt vegna rigningarslyddu, roks og myrkurs og af þeim sökum hefði vitnið ekkert séð hvað á gekk. Vitnið hefði hægt ferðina og í kjölfarið stöðvað bifreið sína úti í kanti. Vitnið hefði þá komið auga á kyrrstæða bifreið í vegarkantinum. Það hefði í kjölfarið séð tvær aðrar bifreiðar, aðra rétt aftan við skilti sem þarna sé og hina aðeins framan við skiltið. Á veginum hefðu verið menn sem vitnið taldi hafa verið að tala í síma og kalla eftir aðstoð. Vitnið, sem upplýsti að það væri hjúkrunarfræðingur, hefði í framhaldinu stokkið út úr bifreið sinni til þess að kanna með ástand fólksins í bifreiðunum og bjóða fram aðstoð sína. Í framhaldinu hefði vitnið hlúð að ökumanni fólksbifreiðarinnar. Læknir, sem einnig hefði komið að slysinu, hefði hlúð að eiginkonu ökumannsins.

L kvaðst hafa komið á vettvang skömmu eftir að áreksturinn varð. Enginn hefði þá virst vera inni í jeppabifreiðinni. Vegfarandi hefði verið að ræða við ökumann fólksbifreiðarinnar. Vitnið hefði beðið ungan mann sem að kom um að skýla konu sem verið hefði meðvitundarlaus í framsæti fólksbifreiðarinnar. Vitnið hefði þá séð hvar ökumaður jeppabifreiðarinnar, ákærði í málinu, kom hálfskríðandi út úr bifreiðinni, farþegamegin að framan. Hann hefði síðan fallið í götuna. Vitnið hefði reist ákærða við og stutt hann að aftursæti bifreiðarinnar þar sem það hefði reynt að hlúa að honum. Ákærði hefði spurt vitnið að því hvort hann væri ekki á réttum vegarhelmingi. Vitnið hefði svipast aðeins um og síðan svarað spurningunni játandi. Ákærði hefði þá sagt: „Bíllinn kom bara beint framan á mig.“

Aðstæður á vettvangi sagði vitnið hafa verið í lagi. Vegurinn hefði verið þurr og hálkulaus. Spurt um skyggni svaraði vitnið því til að mögulega hefði verið smá fjúk.

M greindi svo frá að hann hefði verið á leið til baka heim til sín í Garðabæ eftir að hafa skutlað ættmennum út á Keflavíkurflugvöll þegar hann hefði komið að árekstri tveggja bifreiða. Vitnið hefði ekið framhjá bifreiðunum en síðan stöðvað úti í vegkanti og ákveðið að kanna hvort það gæti orðið að liði, en vitnið væri menntaður svæfingalæknir. Vitnið hefði gengið að fólksbifreiðinni og fyrst farið að ökumanninum. Hann hefði verið verkjaður og ekki viðræðuhæfur. Vitnið hefði því næst farið að konu sem setið hefði í farþegasætinu við hlið ökumanns. Konan hefði augljóslega verið alvarlega slösuð og hún virst látin.

Spurt um aðstæður á vettvangi bar vitnið að það hefði verið myrkur. Minnti vitnið jafnframt að skyggnið hefði verið skert vegna úrkomu.

N lögregluvarðstjóri sagði lögreglu hafa borist tilkynning umræddan morgun um harðan árekstur tveggja bifreiða vestan álversins í Straumsvík. Á vettvangi hefði mátt sjá fólksbifreið utan vegar. Jeppabifreið hefði verið á veginum. Jeppabifreiðina kvað vitnið hafa verið á réttum vegarhelmingi miðað við akstursstefnu, alveg við miðlínu vegarins. Í fólksbifreiðinni hefðu verið tveir einstaklingar. Ökumaður bifreiðarinnar hefði verið með mjög skerta meðvitund en farþegi í henni verið meðvitundarlaus. Ökumaður jeppa­bifreiðarinnar hefði setið í aftursæti hennar og hefði hann verið illa áttaður.

Vitnið sagði að snjóað hefði á vettvangi og minnti vitnið að nýfallin snjór hefði legið yfir. Þá kvað vitnið hálku hafa verið á veginum. Aðstæður hefðu því alls ekki verið góðar og akstursskilyrði varasöm.

C lögreglumaður kvaðst hafa farið á slysavettvang um morguninn ásamt tveimur starfsfélögum sínum. Veður sagði vitnið hafa verið frekar skítt, slydda eða hríð, snjór í vegköntum og yfirborð vegarins blautt. Á vettvangi hefðu verið tvær bifreiðar sem báðar hefðu verið illa farnar. Fólksbifreiðin hefði þó verið sýnu verr farin en jeppabifreiðin. Fólksbifreiðin hefði verið utan vegar en jeppabifreiðin á veginum. Læknir sem átt hefði leið hjá hefði tjáð vitninu að hann teldi að farþegi í fólksbifreiðinni væri látinn. Vitnið hefði farið að þeim einstaklingi og engin lífsmörk fundið. Ökumaður í bifreiðinni hefði verið með meðvitund og svarað nokkrum einföldum spurningum.

Vitnið sagðist hafa rætt við tvo vegfarendur á vettvangi, sem ekið hefðu á eftir fólksbifreiðinni í aðdraganda árekstursins. Þeir hefðu borið að jeppabifreiðin hefði komið úr áttinni frá Keflavík en fólksbifreiðin hefði verið á leið í gagnstæða átt. Jeppabifreiðinni hefði síðan verið ekið með aflíðandi hætti yfir á rangan vegarhelming. Ökumaður fólksbifreiðarinnar hefði brugðist við með því að beygja yfir á rangan vegarhelming til þess að afstýra árekstri en jeppabifreiðinni hefði þá verið rykkt aftur yfir á réttan vegarhelming miðað við akstursstefnu hennar og bifreiðarnar skollið saman í kjölfarið. Vitnið hefði gert skýrslu í málinu þar sem það hefði rakið framburð þessara aðila. Í skýrslunni hefði vitnið enn fremur eftir öðrum mannanna að ákærði, sem verið hefði dasaður eftir áreksturinn, hefði spurt hann að því hvort hann væri á réttum vegarhelmingi.

F, sem var starfandi lögreglufulltrúi er atvik máls gerðust, kvaðst hafa rannsakað vettvang umferðarslyssins. Þangað taldi vitnið sig hafa verið komið kl. 08:00 um morguninn. Veður sagði vitnið hafa verið vont, snjóhraglandi og krapi yfir öllu.

Af braki og öðrum ummerkjum á vettvangi kvaðst vitnið hafa komist að þeirri niðurstöðu að árekstur bifreiðanna hefði átt sér stað á hægri vegarhelmingi miðað við akstursstefnu ákærða, svo sem vitnið hefði merkt inn á ljósmynd í framlagðri ljósmyndaskýrslu, dagsettri 27. febrúar 2017.

O rannsóknarlögreglumaður sagðist hafa komið á vettvang slyssins um morguninn. Vitnið sagði veðrið hafa verið vont, mikil slydda hefði verið og vegurinn háll. Vitnið sagði fólksbifreið hafa verið úti í vegkanti og er vitnið kom að hefði verið í gangi vinna við að ná farþega út úr bifreiðinni. Þá hefði þegar verið búið að flytja aðra þá sem í slysinu lentu af vettvangi.

Vitnið sagði aðila, sem verið hefðu í bifreið er ekið var á eftir fólksbifreiðinni, hafa greint svo frá á vettvangi að þeir hefðu séð jeppabifreið koma úr gagnstæðri átt sem síðan hefði verið ekið yfir á öfugan vegarhelming. Ökumaður fólksbifreiðarinnar hefði reynt að afstýra árekstri með því að sveigja sinni bifreið yfir á hinn vegarhelminginn. Þá hefði svo virst sem ökumaður jeppabifreiðarinnar hefði áttað sig á því að hann væri kominn yfir á rangan vegarhelming og hann farið aftur til baka á sinn helming vegarins. Við það hefði orðið árekstur með bifreiðunum. Lögreglumenn, sem vitnið ræddi við á vettvangi, hefðu staðfest að þeir hefðu fengið þessa sömu frásögn. Þá hefði komið fram hjá aðilum sem hlúð hefðu að ákærða á vettvangi að ákærði hefði spurt þá að því hvort hann hefði verið á réttum vegarhelmingi þegar áreksturinn varð.

Spurt um möguleg hemlaför sagði vitnið ómögulegt hafa verið að átta sig á því. Vitnið hefði komið á vettvang töluvert eftir að áreksturinn átti sér stað og mikið verið búið að snjóa og slydda í millitíðinni. Kom fram hjá vitninu að það hefði verið statt á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík þegar það heyrði tilkynningu um slysið í fjarskiptum.

P rannsóknarlögreglumaður skýrði svo frá að hann hefði rætt við ákærða á slysadeild í kjölfar slyssins. Vitnið hefði síðar tekið framburðarskýrslu af ákærða á lögreglustöð. Sú skýrsla væri vottuð af öðrum rannsóknarlögreglumanni, Q.

R rannsóknarlögreglumaður bar fyrir dómi að hann hefði verið við umferðareftirlit ásamt starfsfélaga sínum umræddan morgun við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Vitnið hefði veitt bifreið ákærða athygli vegna rásandi aksturslags og haft af henni afskipti.

Vitnið hefði rætt við ákærða, sem að mati vitnisins hefði gefið greinargóðar skýringar á aksturslagi sínu, en ákærði hefði vísað til veðursins og þess að snjór hefði verið á framrúðunni. Vitnið hefði tekið þau rök ákærða góð og gild, enda hefði veður verið slæmt, mikil slydda og hvasst. Ákærði hefði verið kvefaður og laslegur að sjá en vitninu þrátt fyrir það fundist hann vera vel áttaður og „... í góðu lagi að ég taldi.“

Eftir að hafa rætt við ákærða við flugstöðina kvaðst vitnið hafa fylgt honum eftir ásamt starfsfélaga sínum að Fitjum, um fjögurra til fimm kílómetra leið, og síðan horft á eftir honum út Reykjanesbraut og á þeirri akstursleið hefði ekkert athugavert verið að sjá við aksturslag ákærða sem haldið hefði sig vel innan leyfilegs hámarkshraða.

S lögreglumaður, sem var við umferðareftirlit umrætt sinn við Flugstöð Leifs Eiríkssonar ásamt starfsfélaga sínum, R, kvað þennan morgun hafa verið snjókomu og skyggni verið slæmt. Þau hefðu veitt bifreið ákærða athygli vegna aksturslags hans, sem lýst hefði sér í því að hann hefði átt erfitt með að halda sig á sinni akrein, líkt og hann sæi illa. Ákærða hefði af þeim sökum verið gefið merki um að stöðva bifreið sína. R hefði í kjölfarið farið út úr lögreglubifreiðinni og rætt við ákærða. Þegar til baka kom hefði hann upplýst vitnið um þær skýringar ákærða á aksturslaginu að hann hefði séð illa á veginn. Þá hefði ákærði einnig nefnt að hann væri nýbúinn að vera veikur og því ekki alveg með sjálfum sér. Ákærði hefði hins vegar treyst sér til þess að aka heim.

Eftir að hafa rætt við ákærða hefðu lögreglumennirnir tveir fylgt ákærða eftir að Fitjum. Á þeirri akstursleið hefði ekkert verið að athuga við aksturslag ákærða.

Þá gaf einnig skýrslu fyrir dómi T lögreglumaður, en ekki þykir vera þörf á að rekja framburð vitnisins sérstaklega.

V

Fyrir liggur að snemma morguns, þriðjudaginn 21. febrúar 2017, varð árekstur með jeppabifreið, með skráningarnúmerið [1], sem ákærði ók, og fólksbifreið, með skráningarnúmerið [2], sem B ók, á Reykjanesbraut skammt suðvestan við álverið í Straumsvík. Ákærði var einn í jeppabifreiðinni en tvennt var í fólksbifreiðinni, áðurnefndur ökumaður hennar og farþegi í framsæti, A, eiginkona B. Við áreksturinn hlaut A mjög alvarlega áverka sem drógu hana til dauða, sbr. niðurstöður réttarkrufningar dr. G, sérfræðings í meinafræði, en niðurstöður skýrslu sem hann ritaði vegna krufningarinnar eru stuttlega reifaðar í kafla II.A hér að framan. Þá er enn fremur upplýst að við áreksturinn hlaut B talsverða áverka, meðal annars mörg rifbrot og áverka á kvið, sbr. vottorð H læknis, dagsett 25. október 2017, en efni vottorðsins er að nokkru reifað í kafla II.B í dómnum.

Reykjanesbraut liggur í suðvestur-norðaustur á þeim vegarkafla þar sem árekstur varð með bifreiðunum. Ljóst er af rannsóknargögnum lögreglu, þar með talið framlögðum ljósmyndum, að vegurinn er á umræddum vegarkafla með eina akrein í hvora akstursátt. Upplýst er að ákærði var á heimleið frá Keflavíkurflugvelli og ók því Reykjanesbraut til norðausturs. B og eiginkona hans voru hins vegar á leið í gagnstæða átt, áleiðis á flugvöllinn.

Fyrir liggur samkvæmt framburði ákærða og vitna og rannsóknargögnum lögreglu að myrkur var er atvik máls gerðust. Í frumskýrslu lögreglu er annars bókað um aðstæður á vettvangi að éljagangur hafi verið og snjóþekja því myndast og að götulýsing hafi verið ófullnægjandi. Þá liggur að mati dómsins fyrir með framburði ákærða og vitna að þegar áreksturinn varð hafi skyggni að nokkru verið skert vegna úrkomu, en sú niðurstaða samræmist vel þeim upplýsingum sem fram koma í vottorði um veður er lögregla aflaði undir rannsókn málsins.

Aðspurðir fyrir dómi minntust D, E, B og M þess ekki að hálka hefði verið á veginum. K, sem ók í sömu átt og ákærði, kvað hins vegar snjó hafa verið á veginum og ákærði sagði hafa verið komna á veginn smá snjó- eða krapaþekju þegar atvik máls gerðust. Þá bar N lögreglu­varðstjóri, sem var einn þeirra lögreglumanna er fyrstir komu á vettvang, að hálka hefði verið á veginum. Að þessu virtu þykja vera fram komnar meiri líkur en minni fyrir því að einhverjar hálku hafi gætt á veginum umrætt sinn. Í málinu er aftur á móti ekkert haldbært fram um það komið að þær aðstæður hafi átt þátt í því að árekstur varð með bifreiðunum tveimur.

Að beiðni lögreglu vann J bíltæknirannsókn á bifreiðunum [1] og [2] og eru rannsóknarniðurstöður hans reifaðar í kafla II.C hér að framan. Bíltæknirannsóknin leiddi að mati J í ljós að orsök slyssins yrði ekki rakin til ástands bifreiðar ákærða í aðdraganda slyssins. Í skýrslunni eru gerðar athugasemdir við hjólbarða bifreiðarinnar [2] að aftan og bremsubúnað bifreiðarinnar. Þar segir hins vegar jafnframt að þrátt fyrir þá ágalla yrði ekki séð að þeir hefðu breytt neinu í atburðarásinni í aðdraganda slyssins eða að þeir hefðu haft áhrif á möguleika ökumanns bifreiðarinnar til að hafa fullt vald á stjórnun ökutækisins. Samkvæmt þessu liggur því ekkert fyrir um það í málinu að ástand bifreiðanna tveggja hafi átt þátt í því að árekstur varð með þeim umrætt sinn.

Í ákæru er ákærða gefið að sök að hafa ekið bifreið sinni of hratt miðað við aðstæður vegna krapakenndrar bleytu sem verið hafi á veginum. Fyrir dómi fullyrti ákærði að hann hefði ekið mjög varlega og í samræmi við aðstæður. Ökuhraði hans hefði verið 50-60 km/klst. B kvaðst í aðdraganda árekstursins hafa ekið bifreið sinni með 80-90 km/klst hraða. Bifreið ákærða kvað hann hafa verið á miklum hraða en sérstaklega aðspurður um hvort ökuhraði bifreiðar ákærða hefði verið meiri en hraði bifreiðar hans gat B ekki sagt til um það. Hvorki D né E, sem voru vitni að árekstrinum, gátu borið um ökuhraða ákærða með nokkurri vissu. Þegar allt þetta er virt fær dómurinn ekki séð að nokkuð haldbært hafi komið fram í málinu því til stuðnings að ákærði hafi ekið bifreið sinni of hratt miðað við aðstæður.

Í ákæru er ákærða einnig gefið að sök að hafa eigi verið fær um að stjórna bifreið sinni vegna veikinda en hann hafi umrætt sinn fengið aðsvif. Ákærði bar fyrir dómi um líðan sína umræddan morgun að hann hefði farið snemma að sofa kvöldið áður og sofið vel um nóttina. Hann hefði vaknað um kl. 04:00 og lagt af stað heiman frá sér kl. 05:30 um morguninn. Ákærða hefði fundist hann vera „í góðu formi.“ Er þessi framburður ákærða í góðu samræmi við vætti R rannsóknarlögreglumanns, sem ræddi við ákærða þegar ákærði var að leggja af stað aftur heim frá Keflavíkurflugvelli, en fram kom í skýrslu lögreglumannsins fyrir dómi að ákærði hefði verið kvefaður og laslegur að sjá en honum þrátt fyrir það fundist ákærði vera vel áttaður og „... í góðu lagi að ég taldi.“ Þá báru R og starfsfélagi hans, S, um að þau hefðu fylgt ákærða eftir að Fitjum, um 4-5 km leið að því er sá fyrrnefndi taldi, og hefði þá ekkert verið athugavert að sjá við aksturslag ákærða.

Ákærði bar fyrir dómi almennt um heilsufar sitt að hann hefði glímt við gáttatif áður en atvik máls gerðust og verið undir læknishendi vegna þess. Ákærði sagði þrjú til fjögur tilvik hafa komið upp því tengt og hefði langur tími liðið á milli þeirra. Ákærði hefði í engu tilvikanna verið í akstri og hefði hann engin fyrirmæli eða ráðleggingar fengið frá læknum um að aka ekki bifreið. Þvert á móti hefði hjartalæknir ákærða gefið út jákvætt vottorð í tilefni af umsókn hans um endurnýjun ökuréttinda nokkru áður en atvik máls gerðust. Eftir slysið hefði ákærði farið í rannsókn hjá hjartalækninum sem þá hefði lagt að ákærða að aka ekki bifreið í um viku tíma, eða á meðan ástand hans væri metið. Hinn 3. ágúst 2017 hefði ákærði síðan farið í aðgerð og gangráður verið græddur í hann. Tilgangur aðgerðarinnar hefði verið að koma í veg fyrir hjartsláttar­truflanir og svo virtist sem aðgerðin hefði skilað tilætluðum árangri þar sem eftir hana hefði ekkert nýtt tilfelli komið upp.

Tilvitnaður framburður ákærða fær stoð í framlagðri göngudeildarnótu I hjartalæknis frá 5. júlí 2017. Efni nótunnar er reifað í kafla II.B hér að framan en í henni segir meðal annars að frá því í september 2015 hafi liðið fimm sinnum yfir ákærða. Fær dómurinn ekki annað séð en fimmta tilvikið sem vísað sé til eigi að hafa átt sér stað þegar atvik máls þessa gerðust. Í göngudeildarnótunni segir jafnframt að ákærði hafi legið inni á spítala vegna gáttatifs á árinu 2014 en við rannsóknir hafi ekkert fundist sem gefið hafi tilefni til þess að gangráður yrði græddur í ákærða. Þeim rannsóknum hafi verið fylgt eftir með „Holter“ sem ekki hafi sýnt lengri hlé en þrjár sekúndur. Vegna frásagnar ákærða af atvikum þessa máls hafi læknirinn hins vegar sett ákærða í „akstursbann“ og fylgt því eftir með sjö sólarhringa hjartalínuriti. Upplýst er að í kjölfarið var gangráður græddur í ákærða í ágúst 2017. I staðfesti göngudeildarnótu sína fyrir dómi og bar að gangráðurinn hefði verið græddur í ákærða „... vegna yfirliða og gáttatifs.“ Læknirinn minntist þess ekki að hafa áður en atvik máls þessa gerðust rætt akstur bifreiðar við ákærða í tengslum við þær truflanir á hjartslætti sem hann hrjáðu. Þá sagði hann yfirlið vegna truflunar á hjartslætti (pása) koma án fyrirvara fyrir sjúklinginn. Aðspurður kvaðst læknirinn alls ekki geta fullyrt nokkuð um það hvort ákærði hefði fallið í yfirlið í aðdraganda árekstursins. Þá svaraði hann þeirri spurningu neitandi hvort það hefði, í ljósi þess sem fyrir lá 21. febrúar 2017 um heilsufar ákærða samkvæmt framansögðu, verið óvarlegt af hans hálfu að aka bifreið. Að þessu svari læknisins og öðru því sem að framan er rakið virtu getur það að mati dómsins ekki talist hafa verið saknæmt af hálfu ákærða, vegna heilsufars hans og ástands að öðru leyti, að vera við akstur bifreiðar sinnar umræddan morgun.

B lýsti aðdraganda árekstursins svo fyrir dómi að eiginkona hans hefði haft orð á því að bifreið væri að koma úr gagnstæðri átt sem ekki væri „á réttum stað á veginum.“ Örstuttu síðar hefði B séð að sú bifreið stefndi út af veginum sömu megin og hann ók. Hann kvaðst hafa gripið til þess ráðs að sleppa bensíngjöfinni og beygja frá bifreiðinni, sem kom á móti, yfir á rangan vegarhelming. B hefði talið sig vera kominn framhjá bifreiðinni þegar hann hefði séð ljós koma og hin bifreiðin síðan lent á bifreið hans með miklum skelli. Bifreið hans hefði þá verið komin yfir á rangan vegarhelming miðað við akstursstefnu. Atvik þessi sagði B hafa gerst mjög hratt.

Framburður D, en hann er reifaður í kafla IV hér að framan, er að mati dómsins að öllu leyti í samræmi við lýsingu B á því hvernig áreksturinn atvikaðist. Þá er lýsing E, sem ók bifreið þeirri er D var farþegi í, í góðu samræmi við vætti tvímenninganna. Að því virtu þykir dómnum sannað, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að jeppabifreið ákærða hafi, skömmu áður en árekstur varð með henni og fólksbifreið þeirri sem B ók, farið yfir á rangan vegarhelming. Þá telur dómurinn í ljósi þess framburðar vitnanna þriggja að jeppabifreið ákærða hafi, eftir að hún var komin yfir á rangan vegarhelming, stefnt út af veginum vinstra megin miðað við akstursstefnu eðlileg þau viðbrögð ökumanns fólksbifreiðarinnar að freista þess að afstýra yfirvofandi árekstri með því að sveigja bifreið sinni yfir á rangan vegarhelming. Það tókst honum hins vegar ekki samkvæmt framburði vitnanna þriggja þar sem jeppabifreiðinni var skyndilega sveigt aftur til baka á réttan vegarhelming þar sem bifreiðarnar síðan skullu saman. Með vísan til alls þessa telur dómurinn að slá megi því föstu að meginorsök árekstursins hafi verið sú að skömmu áður en hann varð fór bifreið ákærða yfir á rangan vegarhelming samkvæmt áðursögðu.

Svo fyrir liggi brot gegn 215. og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem og þeim ákvæðum umferðarlaga er í ákæru greinir, þarf að vera sannað svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum að ákærði hafi sýnt af sér refsivert gáleysi. Sönnunarbyrðin um þetta atriði hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið telur dómurinn óupplýst hver var orsök þess að jeppabifreið ákærða fór yfir á rangan vegarhelming skömmu áður en árekstur varð með bifreiðunum tveimur. Ákærði hefur hvorki fyrir lögreglu né fyrir dómi kannast við að bifreið hans hafi farið yfir á rangan vegarhelming. Þegar hann gaf skýrslu fyrir lögreglu 28. júní 2017 kvaðst hann hins vegar ekki mótmæla framburði ökumanns fólksbifreiðarinnar um að bifreið hans hafi farið yfir á rangan vegar­helming. Síðan er eftir honum haft í skýrslunni: „Þarna hef ég dottið út eða misst meðvitund. Ég man ekkert eftir þessu atviki nema þegar bifreiðarnar skella saman.“ Síðar í skýrslunni er enn fremur haft eftir ákærða: „Nei ég sofnaði ekki. Ég hef misst meðvitund útaf hjartatifi.“

Staðreynd er að ákærði hefur frá árinu 2014 notið læknismeðferðar vegna gáttatifs. Ljóst er af framburði I hjartalæknis og fyrrgreindri göngudeildarnótu hans að ákærði upplýsti lækninn um áreksturinn og þá skýringu sína á honum sem hann lýsti þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu samkvæmt framansögðu. Augljóst er að mati dómsins að gættum viðbrögðum læknisins við frásögn ákærða, en læknirinn er sérfræðingur í hjartasjúkdómum, og þeim breytingum sem urðu á þeirri læknismeðferð sem ákærða var veitt, að sérfræðilæknirinn taldi skýringu ákærða mögulega geta verið rétta, þótt hann segðist aðspurður fyrir dómi ekkert geta um það fullyrt. Að því virtu telur dómurinn ófært að slá því föstu, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, að jeppabifreið ákærða hafi farið yfir á rangan vegarhelming í aðdraganda árekstursins vegna gáleysis hans. Af þeirri niðurstöðu og öðru framangreindu leiðir að sýkna ber ákærða af sakargiftum í málinu.

VI

Með vísan til úrslita málsins, sbr. 2. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, greiðist allur sakarkostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda ákærða, Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns, en þóknun hans þykir hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppsögu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, skal sýkn af kröfum ákæruvalds í máli þessu.

Þóknun skipaðs verjanda ákærða, Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns, 948.600 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.

 

Kristinn Halldórsson