• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 14. september 2018 í máli nr. S-143/2018:

 

Ákæruvaldið

(Halldór Rósmundur Guðjónsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Sigurði Gretti Erlendssyni

(Guðmundína Ragnarsdóttir lögmaður)

 

            Mál þetta, sem var dómtekið 12. september 2018, höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru 19. mars 2018 á á hendur Sigurði Gretti Erlendssyni, kt. 000000-0000, [...]:

,,Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 10. janúar 2018, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökuréttindum inn á Ægisgötu, Keflavík, í veg fyrir bifreiðina [...] þannig að árekstur varð með bifreiðunum og ekki sinnt skyldum sínum við umferðaróhapp heldur ekið brott af vettvangi. 

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 10. gr. og  1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 24/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um hæfilega þóknun sér til handa.

 

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið það brot sem honum er gefið að sök og var farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig í stuttu máli um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um það brot sem honum er gefið að sök og er það réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar.

Ákærði er fæddur árið 1957 og á samkvæmt framlögðu sakavottorði að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 1983. Við úrlausn þessa máls hefur eftirfarandi áhrif: Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2007 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar og gert að sæta tímabundinni sviptingu ökuréttar fyrir ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 3. júní 2009 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt fyrir að akstur undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti. Ákærði var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting hans var áréttuð með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2011 fyrir akstur undir áhrifum áfengis og akstur sviptur ökurétti. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2012 var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt fyrir hraðakstur, ölvunarakstur og fyrir akstur sviptur ökurétti. Þá var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 2016 fyrir að hafa tvívegis ekið bifreið sviptur ökurétti.

Að sakaferli og að broti ákærða virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Ekki eru efni til að skilorðsbinda þá refsingu.

            Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað málsins, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Guðmundínu Ragnarsdóttur lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 126.480 krónur að  meðtöldum virðisaukaskatti.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Sigurður Grettir Erlendsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði.

            Ákærði greiði allan sakarkostnað, 126.480 krónur, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Guðmundínu Ragnarsdóttur lögmanns.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir