• Lykilorð:
  • Húsaleiga
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness, fimmtudaginn 3. janúar 2019, í máli nr. E-575/2018:

Orange Project ehf.

(Arndís Sveinbjörnsdóttir hdl.)

gegn

Sálfræðiþjónustu MJ slf.

og

Mjöll Jónsdóttur

(Bjarni Hólmar Einarsson hdl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 6. desember 2018, var höfðað með birtingu stefnu þann 6. júní 2018. Stefnandi er Orange Project ehf., kt. 000000-0000, Ármúla 6, 108 Reykjavík. Stefndu eru Sálfræðiþjónusta MJ slf., kt. 000000-0000, og Mjöll Jónsdóttir, kt. 000000-0000, til heimilis að Löngulínu 29, 210 Garðabæ.

Stefnandi krefst þess í endanlegum dómskröfum, að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 500.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 125.000 krónum frá 4. janúar 2018 til 31. janúar 2018, af 250.000 krónum frá 31. janúar 2018 til 7. mars 2018, af 375.000 krónum frá 7. mars 2018 til 4. apríl 2018 og af 500.000 krónum frá 4. apríl 2018 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins að teknu tilliti til framlagðs málskostnaðarreiknings, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun að teknu tilliti til innheimtukostnaðar fyrir löginnheimtu.

Báðir stefndu gera aðallega kröfu um sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að kröfufjárhæðir verði lækkaðar verulega. Þá er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða hvorum stefndu málskostnað í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

 

I

Málsatvik

Þann 18. apríl 2017 var undirritaður samningur á milli stefnanda og stefndu Mjallar Jónsdóttur um tímabundinn leigusamning á skrifstofurými nr. 3012, sem mun vera að Skútuvogi 3 í Reykjavík, tímabilið 1. maí 2018 til og með 30. apríl 2018. Í samningnum, sem er á ensku og ber heitið „Office Service Agreement“, kemur fram að leiguverð sé 125.000 íslenskar krónur á mánuði, án virðisaukaskatts.

Í framlagði þýðingu á skilmálum nefnds samnings kemur fram að annar hvor aðila geti sagt honum upp á lokadegi eða í lok framlengingartímabils, með minnst þriggja mánaða skriflegum fyrirvara til hins aðilans.

Með tölvupósti, dags. 16. maí 2017, óskaði stefnda Mjöll eftir því að leigan yrði „færð af mér persónulega yfir á nýja kennitölu sem ég er búin að stofna.“ Tilvísuð kennitala á við um stefnda Sálfræðiþjónustu MJ slf. og voru reikningar stefnanda eftirleiðis gefnir út á nafn þess félags. Liggur ekki annað fyrir en að félagið hafi greitt reikningana til og með desember 2017, og kvaðst Mjöll í sinni skýrslu fyrir dómi hafa notað þær greiðslur í bókhaldi félagsins.

Þann 30. nóvember 2017 gefur stefnandi út reikning á hendur stefnda, Sálfræðiþjónustunnar vegna janúar-mánaðar 2018. Fjárhæð greiðslu er þá tilgreind 139.850 krónur. Fyrirsvarsmaður stefnanda, Tómas Hilmar Ragnarsson og stefnda Mjöll munu hafa rætt saman í desember 2017 um forsendur hækkunar en ekki liggur fyrir hvað aðilum fór að öðru leyti á milli. Óumdeilt þykir hins vegar af samskiptum Mjallar og nefnds Tómasar að Mjöll hafi sagt upp samningnum í byrjun janúar 2018.

Stefnandi sendi stefnda Sálfræðiþjónustu MJ slf. innheimtuviðvörun í janúar vegna vangreidds reiknings fyrir desember 2017. Þann 7. febrúar 2018 eiga sér stað tölvupóstsamskipti á milli stefndu Mjallar og nefnds Tómasar, þar sem fram kemur: „Þú þarft að greiða Jan og þú þarft að greiða Feb. Trygging fer uppí 3 mánuðinn. Við lækkum leigureikning um þessa hækkun.“

Engin samskipti eða samkomulag virðast hafa verið með aðilum eftir þetta og sendir Lögheimtan innheimtubréf til beggja stefndu, dags. 26. apríl 2018, þar sem krafist er greiðslu fyrir fjóra mánuði, eða janúar til og með apríl 2018, og er leigufjárhæð tilgreind sem 139.850 krónur á mánuði.

Við upphaf aðalmeðferðar málsins lækkaði stefnandi stefnufjárhæð sína með þeim hætti að reikningsfjárhæð hvers reiknings telst 125.000 krónur á mánuði.

Í málinu liggur fyrir framangreindur samningur, og þýðing á skilmálum hans, og afrit fjögurra reikninga, auk tölvupóstsamskipta, og upplýsingar um stofnun og ábyrgð hins stefnda félags.

Fyrir dóminn komu og gáfu aðilaskýrslur Tómas Hilmar Garðarsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, og stefnda Mjöll Jónsdóttir.

 

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að fyrir liggi í málinu fjórir reikningar útgefnir á hendur Sálfræðiþjónustu MJ slf. Samkvæmt firmaskráningu þann 25. apríl 2018 taki Mjöll á sig ábyrgð á skuldum félagsins auk þess sem hún sé prókúruhafi félagsins. Því sé henni jafnframt stefnt í málinu, enda uppfyllt ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 42/1903 um verslunarskrá, firma og prókúruumboð. Hafi Mjöll jafnframt staðfest fyrir dómi að félagið hafi notað reikningana í bókhaldi sínu. Nánar komi fram í tilgreiningu um aðila málsins í stefnu, að stefndu séu Sálfræðiþjónusta MJ slf. og Mjöll Jónsdóttir persónulega og fyrir hönd félagsins. Sé því gerð sú krafa að stefndu verði dæmd in solidum til þess að greiða ógreidda reikninga málsins.

Stefnandi byggir á því að ósannað sé að stefndu hafi verið lofað í desember 2017 að ekki yrðu innheimtir reikningar í uppsagnarfresti eins og stefndu haldi fram. Staðreynt væri í málinu að stefnda Mjöll hafi viðurkennt að hún hafi fengið atvinnutilboð þar sem hún þyrfti að hefja störf 1. febrúar 2018, og vegna þess þurft að losna fyrr undan samningi. Fyrir liggi uppsögn samnings í janúar 2018, en ekki riftun eins og byggt sé á af hálfu stefndu. Geti þar af leiðandi málsástæður stefndu um riftun og efndir in natura ekki átt við í málinu. Stefndu hafi nýtt herbergið í janúar 2018 og samkvæmt skilmálum í samningi aðila beri að greiða fyrir leigu á uppsagnartíma í þrjá mánuði. Stefndu verði hins vegar greidd til baka framlögð trygging þegar greiðsla hafi farið fram.

Stefnandi bendir á að stefndu geti ekki borið því við að þeim beri eingöngu að greiða fyrir þrjá mánuði, með vísan til tölvupóstsamskipta aðila þann 7. febrúar 2018, enda hafi stefnda Mjöll ekki svarað þeim tölvupósti sem hafi verið tillaga um lúkningu málsins. 

Stefnandi byggir kröfu sína á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga, að samninga skuli halda. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við lög um vexti- og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa varnaraðila um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafan um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir þeim skatti úr hendi stefndu. Um varnarþing er vísað til 33. gr. laga nr. 91/1991.

 

III

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefndu byggja sýknukröfur sínar á eftirfarandi málsástæðum, í þeirri röð sem þær eru taldar upp:

  1. Aðildarskortur.
  2. Að fjárkröfur vegna leigu séu að fullu greiddar og stefnandi eigi því engar kröfur gagnvart stefndu.
  3. Að leigutaka hafi verið heimilt að rifta leigusamningi þar sem leigusali virti ekki ákvæði um leigufjárhæð, þrátt fyrir áskorun þess efnis.
  4. Að við riftun leigusamnings falli niður efndir in natura og geti leigusali því ekki krafist greiðslu skv. reikningum heldur þurfi að höfða mál til greiðslu bóta vegna riftunar. Það sé ekki gert í stefnu og því sé málið höfðað á röngum lagagrundvelli.

Um aðildarskort er byggt á því að leigusamningur sé formgerningur, enda tiltekið sérstaklega í 1. mgr. 4. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 að húsaleigusamningar skuli vera skriflegir. Ætti krafa til skýrleika og skriflegs leigusamnings að vera ennþá ríkari hjá fyrirtækjum sem byggi starfsemi sína nær eingöngu á útleigu húsnæðis, líkt og fyrirtæki stefnanda geri. Fyrir liggi að umræddur leigusamningur sé á milli stefndu Mjallar Jónsdóttur persónulega og stefnanda. Stefndi Sálfræðiþjónusta MJ slf. hafi þar hvergi komið nærri. Aldrei hafi því verið samið um að leigusamningurinn yrði framseldur til nýs aðila, hvað þá að gerður hafi verið nýr leigusamningur og hinn eldri felldur úr gildi. Öll sönnun þess að gerður hafi verið nýr leigusamningur, eða samningur framseldur með formlegum hætti, hvíli á stefnanda. Í málinu liggi fyrir tölvupóstsamskipti þar sem óskað hafi verið eftir því að stefnandi Sálfræðiþjónusta SJ slf. yrði gerður að greiðanda. Í þessum tölvupósti felist alls ekki framsal leigusamnings á milli aðila, enda komi ekkert fram um það að félagið sé að yfirtaka leigusamninginn, né þá heldur riti Mjöll undir þetta f.h. umrædds félags eða sem prókúruhafi félagsins.

Stefnandi bendir á að í íslenskum rétti gildi um það skýrar reglur að einhver riti undir fyrir hönd félags eða lögaðila, og skýrt að í undirrituninni sé verið að skrifa undir fyrir hönd lögaðilans. Í lögum nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð segir eftirfarandi í 28. gr. laganna: „Þegar prókúruhafi ritar firmað, skal hann bæta við það orðum eða stöfum, sem merkja umboð hans, svo sem per prókúra, p.p. eða annarri skammstöfun þessara orða og auk þess rita nafn sitt. Nú er um sameiginlega prókúru að ræða, og skal þess þá gætt, er ákveðið var um tölu undirskriftanna, þegar prókúran var gefin.“ Þessar reglur séu ekki nýjar af nálinni, enda framangreind lög sett fyrir 115 árum. Það breyti engu hvort sá sem skrifar undir eigi mögulega stóran hluta í umræddu félagi eða ekki. Lagalegum formreglum til skuldbindingar félags þurfi alltaf að fylgja. Sérstök athygli sé vakin á því að stefnda Mjöll Jónsdóttir eigi umrætt félag ekki ein heldur eigi annar maður hluta og fjárhagslega hagsmuni í félaginu. Til verndar hluthafa félaga beri að gera skýlausa kröfu um að félag sé ekki skuldbundið að lögum nema að maður sem hafi til þess völd skuldbindi félagið á skriflegan og sannanlegan hátt. Það blasi því við að enginn hafi skuldbundið stefnda Sálfræðiþjónustu MJ slf. til þess að greiða umþrætta reikninga. Beri því að sýkna stefnda Sálfræðiþjónustu MJ slf. af kröfum stefnanda á grundvelli 2. mgr. 16. gr. einkamálalaga nr. 91/1991. Þar sem dómkröfur gagnvart stefndu Mjöll Jónsdóttur séu byggðar á þeim grundvelli að hún sé persónulega ábyrg fyrir skuldum meðstefnda Sálfræðiþjónustu MJ slf., þá beri að sýkna hana að sama skapi á grundvelli aðildarskorts.

Stefndu byggja á því að engin skuld sé til staðar. Byggt sé á því í málinu að komist hafi á samkomulag á milli leigusala og leigutaka um að leigutaki myndi hætta að leigja umrætt skrifstofuherbergi og finna sér annað húsnæði. Margt í ferli málsins styðji þetta, s.s. að vel hafi gengið hjá aðilum fyrstu 8 mánuðina, en snurða komið á þráðinn þegar leigusali hafi boðað ólögmæta hækkun leigugjalds. Það sé í raun órökrétt að gera ráð fyrir því að stefnda Mjöll hafi byrjað að leita að annarri skrifstofu til að leigja nema að leigusali hafi gert þetta samkomulag við hana. Ef samkomulag hafi náðst til loka leigusamnings, og um afhendingu hins leigða þann 1. febrúar 2018, sé ljóst að leigan sé að fullu greidd, þar sem fyrirframgreiðsla Mjallar í upphafi samnings komi til greiðslu leigu fyrir janúarmánuð. Á því er einnig byggt að leigusala hafi verið óheimilt að innheimta hærri leigufjárhæð en skv. leigusamningi, þ.e. 125.000 krónur á mánuði, sem væri sama fjárhæð og umrædd trygging. Undir þessum kringumstæðum væri leigutaki skuldlaus gagnvart leigusala, og beri því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.

Byggt er á því að leigutaka hafi verið heimilt að rifta leigusamningi þar sem leigusali virti ekki ákvæði um leigufjárhæð, þrátt fyrir áskorun þess efnis. Fyrir liggi að stefnda Mjöll hafi mótmælt fyrirhugðum hækkunum á leigugreiðslum sem boðaðar hafi verið, enda andstætt skýru samkomulagi í leigusamningi. Byggja stefndu á því að verði ekki talið sannað í málinu að samkomulag hafi náðst um lok leigusamnings frá 1. febrúar 2018, sé á því byggt að leigutaka hafi verið heimilt að rifta leigusamningi vegna vanefnda leigusala á samningnum. Riftun sé heimil skv. ákvæðum húsaleigulaga, enda hafi leigutaki verið búinn að skora á leigusala að standa við ákvæði samningsins um leigu að fjárhæð 125.000 krónur á mánuði. Sjá megi á reikningum sem stefnandi byggi á að krafist sé greiðslu á 139.850 krónum á mánuði, sem honum hafi verið óheimilt að innheimta. Undir þessum kringumstæðum hafi leigutaka verið heimilt að rifta leigusamningnum og afhenda húsnæðið fyrir 1. febrúar 2018, líkt og hún hafi gert. Frá þeim degi hafi fallið niður samningssamband þeirra á milli og leigan að fullu greidd, sbr. framangreint. Séu stefndu skuldlaus gagnvart stefnanda og því beri að sýkna þau af öllum kröfum stefnanda. Kröfugerð þessi er m.a. byggð með vísan til 8. töluliðar 1. mgr. 60. gr. húsaleigulaga.

Stefndu byggja á því að við riftun leigusamnings hafi fallið niður efndir in natura og geti leigusali því ekki krafist greiðslu skv. reikningum heldur þurfi að höfða mál til greiðslu bóta vegna riftunar. Það sé ekki gert í stefnu og því sé málið höfðað á röngum lagagrundvelli. Eins og málið sé byggt upp af hálfu stefnanda þá geti þetta dómsmál aldrei endað með þeirri dómsniðurstöðu að stefndu verði dæmd til greiðslu ógreiddra reikninga. Óumdeilt sé í málinu að stefnda Mjöll hafi afhent húsnæðið þann 31. janúar 2018, og þá lokið leigusambandi á milli aðila, og þá fallið niður efndir in natura, enda sé leigutaki búinn að skila af sér leiguhúsnæðinu og leigusali búinn að taka við því.

Samkvæmt framansögðu sé á því byggt að samkomulag hafi verið um lok leigusamnings en til vara að leigutaka hafi verið heimilt að rifta samningnum vegna vanefnda leigusala á leigusamningi. Ef fallist verði á hvorugt gerist það að leigusali eigi mögulega rétt til bóta úr hendi leigutaka, en hann geti aldrei krafist greiðslu ógreiddra reikninga. Þessar reglur séu alveg skýrar og í grunninn byggðar á reglum kröfuréttar um bætur þegar samningar séu ekki efndir in natura. Í 1. mgr. 62. gr. húsaleigulaga komi það fram berum orðum að undir þeim kringumstæðum þegar leigusamningi sé rift skuli leigjandi greiða leigusala bætur er nemi leigugreiðslum á tímabilinu. Sú skylda hvíli á leigusala undir þessum kringumstæðum að takmarka tjón sitt með því að leigja aftur út umrætt húsnæði, sbr. 2. mgr. 62. gr. húsaleigulaga. Í málinu sé á því byggt að algerlega sé ósannað að stefnandi hafi gert neitt í því að reyna að leigja út umrædda skrifstofu að nýju, líkt og honum hafi verið skylt að gera. Sé sýknukrafan því einnig byggð á því að hann hafi fyrirgert sér rétti sínum til nokkurra bóta með því að hafa ekki hlutast til um að leigja skrifstofuna út að nýju.

Stefndu byggja og á því að þar sem ekki sé nein lagaheimild fyrir því að gefa út reikninga fyrir leigugreiðslum eftir að efndir in natura falli niður, enda byggt á því af hálfu stefnanda að við eigi reglur samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga, þá sé þess krafist að stefndu verði sýknuð af kröfum stefnanda. Skýrt sé í húsaleigulögum að við riftun leigusamnings falli efndir in natura niður, sbr. 3. mgr. 60. gr. og 3. mgr. 61. gr. húsaleigulaga. Sé því einungis mögulegt að fá dæmda fjárkröfu á grundvelli kröfu um bætur. Það sama myndi eiga við um kröfu um bætur á grundvelli samningsbundins uppsagnarfrests eftir að leigjandi hafi skilað af sér húnsæði, þ.e. að gera verði kröfu um bætur, og óheimilt sé að gefa út reikning fyrir leigu. Séu útgefnir reikningar fyrir leigu í febrúar, mars og apríl sem dómsmál þetta er byggt á því ólögmætir.

Stefnda Mjöll bendir á að málatilbúnaður stefnanda gagnvart henni sé eingöngu grundvallaður á því að hún beri persónulega ábyrgð á fjárkröfum stefnda Sálfræðiþjónustu MJ slf. Því verði hún ekki undir neinum kringumstæðum dæmd sjálfstætt til greiðslu neinna fjárkrafna.

Krafist er greiðslu málskostnaðar til handa báðum stefndu. Málskostnaðarkröfu sína styðja stefndu við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafan um að virðisaukaskattur leggist ofan á tildæmdan málskostnað á rætur sínar að rekja til þess að hvorugt stefndu eru virðisaukaskattsskyld og því ber þeim nauðsyn til að fá dóm fyrir virðisaukaskatti úr hendi stefnanda með vísan til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. 

IV

Forsendur og niðurstaða

Aðila greinir á um hvort húsaleigulög nr. 36/1994 gildi um samning þann sem gerður var hér á landi og ber enska heitið „Office Service Agreement“. Óljóst telst að hve miklu leyti þjónusta er hluti samningsins, en ljóst er að samningurinn felur í sér leigu á skrifstofurými og séu afnot húsnæðis meginefni samningsins. Í skilmálum samningsins kemur fram að hann sé „viðskiptalegt jafngildi samnings um húsnæði á hóteli.“ Ekki liggja fyrir í málinu nein gögn þess efnis að um skrifstofurýmið gildi lög um veitinga- og gististaði þannig að undantekningarákvæði 4. mgr. 1. gr. laga nr. 36/1994 eigi við, og verður þannig ekki á því byggt í málinu „að um annað hafi verið samið“, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 36/1994. Eiga því við ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994 um samninginn eftir því sem við getur átt, þar á meðal 1. mgr. 4. gr. laganna um að leigusamningur um húsnæði skuli vera skriflegur.

 Skriflegur samningur var undirritaður á milli stefnanda og stefndu Mjallar. Í tölvupósti sem stefnda Mjöll sendir á starfsmann stefnda óskar hún eftir því að færa leiguna frá sér persónulega og yfir á nýja kennitölu sem hún væri búin að stofna. Í sama tölvupósti kemur fram að starfsmaðurinn staðfestir að Mjöll hafi beðið um að færa reikninga yfir á aðra kennitölu. Þótt fyrir liggi að stefnda Mjöll sé prókúruhafi Sálfræðiþjónustu MJ slf., þá hefur formleg skuldskeyting ekki átt sér stað þar sem ekki var gerður nýr skriflegur samningur milli stefnanda og Sálfræðiþjónustunnar eins og borið hefði. Gátu stefndu því hvenær sem var óskað breytingar til fyrra horfs. Þá verður beiðni um að færa reikninga yfir á aðra kennitölu, sem einkum varðar innbyrðis réttarsamband stefndu, með engum hætti túlkað sem loforð til stefnanda um greiðslu reikninganna eða ábyrgð Sálfræðiþjónustunnar á efndum samningsins á annan hátt.

Með vísan til framangreinds verður ekki séð að Sálfræðiþjónusta MJ slf. geti borið skyldur í málinu, og ber því að sýkna Sálfræðiþjónustu MJ slf., með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnda Mjöll byggir á því að verði Sálfræðiþjónustan sýknuð á grundvelli aðildarskorts þá leiði það einnig til sýknu hennar þar sem henni sé eingöngu stefnt á þeim forsendum að hún sé persónulega ábyrg fyrir skuldum félagsins. Stefnandi mótmælti þeirri túlkun stefndu. Í stefnu segir skýrt að Sálfræðiþjónustu MJ sé stefnt og Mjöll Jónsdóttur persónulega og fyrir hönd félagsins, og þess krafist að stefndu verði dæmd in solidum. Fyrir liggur að umræddur samningur er undirritaður af Mjöll Jónsdóttur persónulega og er því ekki fallist á framangreinda málsástæðu hennar.

Stefnda Mjöll byggir næst á því að sýkna beri hana á þeim grundvelli að fjárkröfur séu að fullu greiddar. Telur stefnda að samkomulag hafi náðst milli hennar og fyrirsvarsmanns stefnanda um að hún myndi fara úr húsnæðinu fyrir lok janúar 2018 og trygging sem hún hefði lagt fram myndi greiða leigu fyrir janúar-mánuð. Þá yrði henni ekki gert að greiða leigu á þeim þriggja mánaða uppsagnartíma sem um geti í skilmálum samnings. Gegn andmælum fyrirsvarsmanns stefnanda um meint samkomulag, telst það ósannað. Þá verður ekki séð að samkomulag hafi náðst um málalok sem fram koma í tölvupóstsamskiptum aðila frá 7. febrúar 2018 þannig að á þeim verði byggt.

Á því er byggt af hálfu stefndu að henni hafi verið heimilt að rifta samningi þar sem leigutaki hafi ekki virt ákvæði samnings um leigufjárhæðir, og að við riftun hafi fallið niður efndir in natura. Sé málinu því stefnt inn á röngum lagagrundvelli.

Ekkert í málinu gefur til kynna að stefnda hafi rift samningnum, en óumdeilt er að hún hafi sagt honum upp í janúar 2018 og nýtt húsnæðið þann mánuð. Verður þegar af þeirri ástæðu að hafna öllum málsástæðum sem byggjast á því að riftun hafi átt sér stað, þar á meðal málsástæðu byggðri á 2. mgr. 62. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994.

Umstefndir reikningar málsins eru innan tímabils samnings. Fjárhæð dómkröfu  eftir lækkun hennar er í samræmi við fjárhæð þá sem fram kemur í samningnum. Stefnda Mjöll Jónsdóttir ber ábyrgð á greiðslu þeirra reikninga, og með vísan til þess verður henni gert að greiða stefnanda, Orange Project ehf, skuld að fjárhæð 500.000 krónur með dráttarvöxtum eins og nánar getur um í dómsorði.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda Sálfræðiþjónustu MJ slf., 400.000 krónur í málskostnað að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndu Mjöll Jónsdóttur gert að greiða stefnanda 400.000 krónur í málskostnað, að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts. Við ákvörðun þess málskostnaðar þykir mega hafa hliðsjón af því að upplýst er í málinu að ekki hafi verið heimild til þess að hækka umþrætta reikninga málsins með þeim hætti sem gert var, og var sú hækkun ekki dregin til baka fyrr en við upphaf aðalmeðferðar eða ári eftir að hækkunin kom fram, sem hefur að mati dómsins haft veruleg áhrif á framgang málsins.

Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi Sálfræðiþjónusta MJ slf. er sýkn af kröfum stefnanda, Orange Project ehf.

Stefnda Mjöll Jónsdóttir, greiði stefnanda 500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 125.000 krónum frá 4. janúar 2018 til 31. janúar 2018, af 250.000 krónum frá 31. janúar 2018 til 7. mars 2018, af 375.000 krónum frá 7. mars 2018 til 4. apríl 2018 og af 500.000 krónum frá 4. apríl 2018 til greiðsludags.

Stefnandi greiði stefnda Sálfræðiþjónustu MJ slf 400.000 krónur í málskostnað.

Stefnda Mjöll Jónsdóttir greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.

 

Bogi Hjálmtýsson