• Lykilorð:
  • Hylming
  • Játningarmál
  • Hluti refsingar skilorðsbundinn og hluti óskilorðsbundinn
  • Skilorðsrof
  • Þjófnaður

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 21. febrúar 2018 í máli nr. S-623/2018:

Ákæruvaldið

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Einari Braga Þorkelssyni

(Guðni Jósep Einarsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 5. febrúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum 22. nóvember 2018 á hendur ákærða, Einari Braga Þorkelssyni, kt. […], nú til heimilis að […] í […], […];

fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum:

I

Fyrir eftirfarandi hlutdeild, með því að hafa, miðvikudaginn 19. september 2018, tekið HM armbandsúr frá Gilbert nr. […] að […], […], og yfirgefið íbúðina, er lögregla hafði þar afskipti að húsráðanda, A, kt. […], og öðrum aðila, B, kt. […], vegna aðildar að þjófnaði á framangreindu armbandsúri úr verslun Georg V. Hannah að […], […], þann sama dag, og með þeirri háttsemi sinni haldið ólöglega fyrir eigandanum armbandsúrinu, þannig aðstoðað meðkærða við að halda armbandsúrinu og halda við ólöglegum afleiðingum þjófnaðarins en ákærði var stöðvaður á gangi við […], […], með úrið falið í buxum sínum.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II

Fyrir innbrot og þjófnað, með því að hafa, aðfararnótt þriðjudagsins 23. október 2018, farið í heimildarleysi inn í verslunina Tjarnargrill, […], […], með því að brjóta neðri rúðu á aðalinngangi verslunarinnar og tekið þaðan ófrjálsri hendi 17 sígarettupakka og 7.500 kr. úr sjóðsvél verslunarinnar.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

III

Fyrir þjófnað, með því að hafa, þriðjudaginn 23. október 2018, tekið ófrjálsri hendi pakka af kjúklingavængjum, samtals að verðmæti kr. 1.098,- úr versluninni Nettó við Krossmóa 4, Reykjanesbæ.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

IV

Fyrir þjófnað, með því að hafa, að kvöldi mánudagsins 22. október 2018 eða aðfaranótt þriðjudagsins 23. október 2018, tekið ófrjálsri hendi reiðhjól og grillgaskút við […], […].

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. “

Kröfur ákærða í málinu eru þær að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegrar þóknunar sér til handa vegna verjandastarfans.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði hefur játað sakargiftir og var málið tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Forsendur og niðurstaða:

Svo sem áður greinir hefur ákærði játað sök í málinu. Að mati dómsins samrýmist játning hans framlögðum gögnum. Brot ákærða teljast því sönnuð og eru þau réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins á ákærði nokkurn sakaferil að baki. Árið 2016 gekkst hann undir sektargerð lögreglustjóra vegna fíkniefnalagabrots. Hinn 25. apríl 2017 var ákærði með dómi Héraðsdóms Vestfjarða dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir fíkniefnalagabrot. Þá var ákærði með dómi sama dómstóls 7. júní 2017 dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir líkamsárás, brot gegn valdstjórninni og brot gegn lögreglulögum. Var ákærða með dómnum gerður hegningarauki við dóminn frá 25. apríl 2017 en ekki verður séð að sá skilorðsdómur hafi verið dæmdur upp. Þá var ákærði með dómi Héraðsdóms Suðurlands 19. febrúar 2018 dæmdur til greiðslu sektar en skilorð áðurnefndra tveggja dóma Héraðsdóms Vestfjarða látið halda sér. Að lokum gekkst ákærði undir sektargerð lögreglustjóra 23. október 2018 vegna umferðarlagabrota.

Með brotum sínum nú rauf ákærði skilorð fyrrgreindra tveggja dóma Héraðsdóms Vestfjarða. Samkvæmt því og með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ber að taka dómana upp og ákveða ákærða refsingu í einu lagi fyrir öll málin samkvæmt fyrirmælum 77. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði hefur játað sök í málinu og er honum virt það til málsbóta. Þá er hann að reyna að taka sig á og er nú í fastri vinnu. Samkvæmt því, öðru framangreindu og að brotum ákærða virtum þykir refsing hans hæfilega ákveðin, eftir fyrirmælum 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, fangelsi í ellefu mánuði. Eftir atvikum þykir mega fresta fullnustu tíu mánaða af refsingunni og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 24. október 2018 til 28. nóvember 2018 að fullri dagatölu, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Á grundvelli sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður ákærða gert að greiða allan sakarkostnað málsins. Ákærði dæmist því til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Guðna Jóseps Einarssonar lögmanns, sem hæfilega þykir ákveðin að virðisaukaskatti meðtöldum svo sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Einar Bragi Þorkelsson, sæti fangelsi í ellefu mánuði en fresta skal fullnustu tíu mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 24. október 2018 til 28. nóvember 2018 að fullri dagatölu.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Guðna Jóseps Einarssonar lögmanns, 126.480 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

 

Kristinn Halldórsson