• Lykilorð:
  • Aðild
  • Skuldamál
  • Tómlæti

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 26. október 2018 í máli nr. E-154/2018:

Landsbankinn hf.

(Hannes Júlíus Hafstein lögmaður)

gegn

X

(Stefán Reykjalín lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 18. september sl., er höfðað 29. janúar 2018.

Stefnandi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

Stefndi er X, […], […].

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum 4.751.999 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. febrúar 2014 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.

I

Þann 14. október 1981 stofnaði stefndi tékkareikning númer […] við útibú stefnanda að Hagatorgi í Reykjavík. Í stefnu segir að stefndi hafi fengið yfirdráttarheimild á reikninginn sem hafi runnið út án þess að skuld á reikningnum væri greidd og hafi reikningnum verið lokað í kjölfarið. Skuldin hafi þá numið stefnufjárhæð málsins auk dráttarvaxta og kostnaðar. Í greinargerð stefnda segir að hann hafi hvorki heimilað né óskað eftir yfirdráttarheimild á reikningnum, líkt og ranglega sé haldið fram í stefnu. Lýsir stefndi því að hann hafi frá árinu 2006 átt í viðskiptum með gjaldmiðlaskiptasamninga við forvera stefnanda. Viðskiptin hafi ekki skilað hagnaði.

Á árinu 2007 skrifuðu Landsbanki Íslands hf. og stefndi undir samning um stýringu á skammtímastöðutöku í gjaldmiðlum. Í 2. gr. samningsins segir að markmið hans hafi verið að vinna til baka tap sem hafði myndast vegna fyrri afleiðuviðskipta aðila og skyldu allar færslur í íslenskum krónum fara í gegnum fyrrnefndan tékkareikning stefnda. Í greinargerð stefnda segir að þegar liðið hafði á árið 2008 hafi lítið gengið með að snúa vörn í sókn en þá hafði stefndi greitt um 11.000.000 króna til stefnanda vegna taps á afleiðusamningum auk þess að hafa yfirtekið og greitt skuld sonar síns vegna sambærilegra viðskipta að fjárhæð 5.700.000 krónur. Einnig segir að þrátt fyrir að stefndi hafi ítrekað vísað til markmiða áðurnefnds samnings, það er að fara varlega í allar stöðutökur, þá hafi umsjónarmenn samningsins tekið nokkuð stóra afleiðustöðu 7. október 2008. Sama dag hafi forveri stefnanda orðið gjaldþrota. Tap þessara viðskipta hafi samtals numið 3.490.156 krónum. Stefndi hafi enga vitneskju haft um þessa stöðutöku fyrr en eftir á.

Þann 2. febrúar 2009 var stefnda tilkynnt um óheimilan yfirdrátt á reikningi númer […] að fjárhæð 3.735.202 krónur, þar af væru 135.202 krónur umfram heimild. Þá fékk stefndi sent innheimtubréf, dagsett 17. ágúst 2010, sem stefndi svaraði með tölvupósti 31. ágúst 2010. Mótmælti stefndi kröfunni. Óskaði stefndi jafnframt eftir fresti til að skila skýringum sínum vegna málsins. Þann 26. janúar 2011 gaf Nýi Landsbanki Íslands hf. (NBI hf.) út stefnu á hendur stefnda, sem þingfesta skyldi 9. mars sama ár, þar sem krafist var greiðslu skuldar að fjárhæð 4.751.999 krónur, eða sömu fjárhæðar og stefnandi krefst greiðslu á í máli því sem hér er til úrlausnar. Ítrekaði stefndi fyrri mótmæli varðandi fjárkröfuna og kvaðst ekki hafa stofnað til yfirdráttar á reikningnum. Mótmæli stefnda koma fram í tölvupósti 24. febrúar 2011 til lögfræðiinnheimtu bankans og í bréfi 28. febrúar 2011. Í svari stefnanda var stefnda bent á að mæta við þingfestingu málsins og óska eftir fresti sem aðilar myndu nýta til að fara yfir málið. Dómsmálið mun hafa verið fellt niður að ósk stefnanda 4. maí 2011 og kveðst stefndi ekki hafa heyrt af því fyrr en hann fékk ítrekun frá stefnanda með bréfi 13. desember 2017.

Stefna í máli þessu var birt á heimili stefnda 29. janúar 2018 og var málið þingfest 21. febrúar sama ár.

II

Svo sem fram er komið krefst stefnandi í máli þessu greiðslu skuldar að fjárhæð 4.751.999 krónur, að viðbættum dráttarvöxtum, sem hann segir vera uppsafnaða skuld á tékkareikningi stefnda sem hafi verið yfirdreginn. Var reikningum lokað 30. júlí 2010. Kveðst stefnandi byggja kröfu sína á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Krefst stefnandi dráttarvaxta af stefnufjárhæðinni frá 21. febrúar 2014 eða fjórum árum fyrir þingfestingardag málsins. Krafa um dráttarvexti er byggð á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa stefnanda um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Um aðild Landsbankans hf. segir stefnandi að Fjármálaeftirlitið hafi með heimild í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tekið þá ákvörðun að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., kt. […], til Nýja Landsbanka Íslands hf., kt. […], nú Landsbankinn hf., sé dagsett 9. október 2008. 

III

Stefndi kveður meinta skuld hans við stefnanda til komna vegna afleiðuviðskipta stefnda við forvera stefnanda, LBI ehf. (áður Landsbanki Íslands hf.), sem jafnan hafi verið kallaður gamli Landsbankinn. Í kjölfar efnahagshremminganna á síðari hluta ársins 2008 hafi stjórn LBI ehf. (þá Landsbanki Íslands hf.) verið vikið frá af Fjármálaeftirlitinu og bankanum skipuð skilanefnd enda hafi bankinn verið gjaldþrota. Sú ráðstöfun hafi einnig leitt af sér uppskiptingu bankans í stefnanda, þá Nýi Landsbanki Íslands hf., sem hafi tekið við tilteknum eignum og skuldum gamla bankans. Skipting þessi hafi verið grundvölluð á ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins, fyrst 9. október 2008, auk nokkurra síðari ákvarðana sem hafi breytt upphaflegu ákvörðuninni.

Upphafleg ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi meðal annars kveðið á um að stefnandi skyldi yfirtaka réttindi og skyldur forvera síns samkvæmt afleiðusamningum, sbr. 2. málslið 7. töluliðar ákvörðunarinnar. Ákvörðuninni hafi verið breytt 12. október 2008 á þann veg að málsliður þessi hafi verið felldur brott. Með síðari ákvörðuninni hafi stefnandi hvorki yfirtekið réttindi né skyldur samkvæmt afleiðusamningum. Þann 19. október 2008 hafi endanlega verið tekin af öll tvímæli um hjá hvorum, gamla eða nýja bankanum, réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum ættu að liggja og hafi þá ekki verið nokkur vafi á að þessi réttindi og skyldur hafi tilheyrt gamla bankanum. Með síðarnefndu ákvörðuninni hafi einnig verið gerð sú breyting á ákvörðuninni frá 12. október að hún hefði afturvirkt gildi frá 9. október. Af þessu leiði að stefnandi hafi aldrei átt réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum.

Þann 21. október 2008 hafi verið skuldfærð krafa á reikning stefnda vegna afleiðusamninga sem hafi myndað óheimilan yfirdrátt sem sé grundvöllur kröfu stefnanda í málinu. Stefnandi hafi hvorki þá né hafi hann nokkurn tíma átt kröfur á grundvelli afleiðusamninga. Þannig sé ljóst að þegar reikningur stefnda hafi verið yfirdreginn hafi það verið gamli Landsbankinn sem hafi átt réttindi og skyldur á grundvelli afleiðusamninga sem gerðir hafi verið við hann fyrir fall bankans. Stefnandi hafi því ekki haft heimild til að skuldfæra kröfu vegna afleiðusamninga sem ekki hafi tilheyrt stefnanda á reikning stefnda. Af því leiði jafnframt að stefnandi hafi ekki haft heimild til að búa til yfirdrátt á reikninginn vegna afleiðuviðskipta sem hafi verið stefnanda óviðkomandi. Þá hafi gamli Landsbanki Íslands hf. ekki haft heimild til að mynda skuld á innlánsreikningi stefnda hjá stefnanda.

Af öllu þessu leiði að óumdeilt sé að stefnandi hafi ekki átt kröfu á grundvelli afleiðusamninga sem gerðir hafi verið við forvera hans og því hafi stefnandi ekki getað myndað yfirdrátt á reikningnum til greiðslu á samningsskuldbindingu sem ekki tilheyrði honum. Af þessum sökum beri að sýkna stefnda á grundvelli aðildarskorts.

Verði ekki fallist á kröfu stefnda um sýknu vegna aðildarskorts kveðst stefndi byggja kröfu sína um sýknu einnig á því að hann hafi ekki veitt heimild fyrir því að stofnað yrði til yfirdráttar á þeim innlánsreikningi sem um ræðir. Heimildir þær sem stefnandi hafi haft til að binda stefnda án hans samþykkis séu tæmandi taldar upp í samningi um stýringu. Líkt og þar komi fram hafi gamla Landsbankanum verið veitt heimild til að stofna til nýrra afleiðusamninga og loka þeim og þannig veitt heimild til að taka ákvarðanir um einstaka samninga og undirrita þá fyrir hönd stefnda. Ekki sé hægt að túlka ákvæði samningsins á þann veg að gamla Landsbankanum, hvað þá stefnanda, hafi verið heimilt að stofna til yfirdráttar heldur hefði stefndi alltaf þurft að veita samþykki sitt fyrir slíkri íþyngjandi aðgerð. Hafi stefndi aldrei veitt heimild fyrir því að draga mætti á reikninginn eða sótt sérstaklega um yfirdráttarheimild á reikninginn. Sýni yfirlit fyrir reikninginn stöðu hans frá 1. október 2008 til 24. nóvember sama ár og komi þar fram að yfirdráttarheimild sé 0 krónur. Í stefnu sé haldið fram að yfirdráttarheimild hafi runnið út en hið rétta sé að henni hafi aldrei verið til að dreifa þar sem stefndi hafi hvorki óskað eftir né heimilað yfirdrátt á reikninginn.

Stefndi kveðst telja ljóst að orðalag fyrrnefnds stýringarsamnings þess efnis að færslur skuli fara í gegnum reikninginn feli ekki í sér heimild til að mynda skuld á reikningnum. Í því felist einvörðungu að sé innstæða á reikningnum skuli skuldfæra af reikningnum og hagnað skuli greiða út á þann reikning. Stefndi telji tilefni til að árétta að óskýrleika í samningsskilmálum, sem séu samdir af fjármálafyrirtæki, beri að túlka viðkomandi fjármálafyrirtæki í óhag, sérstaklega þegar aðstöðumunurinn sé jafn mikill og í máli þessu. Beri að sýkna stefnda enda hafi hann ekki gefið samþykki sitt fyrir yfirdrætti á reikningnum.

Auk þess sem nú sé fram komið byggi stefndi á því að forveri stefnanda hafi fellt afleiðusamningana úr gildi. Þannig hátti til að forveri stefnanda hafi sent tölvubréf á viðskiptamenn sína 16. október 2008 þar sem tiltekið sé að í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 13. október 2008 liggi réttindi og skyldur vegna afleiðusamninga áfram hjá Landsbanka Íslands hf. Einnig að óbreyttu liggi fyrir að umræddum afleiðusamningum verði lokað. Í því felist meðal annars að sjóðstreymis- og gengisvarnir á lána- og eignasöfnum viðskiptavina falli niður. Í kjölfarið muni afleiðustöður í hagnaði mynda kröfu viðskiptavinar á Landsbanka Íslands hf., en tapstöður myndi kröfu Landsbanka Íslands hf. á viðskiptavini. Leitast verði við að samræma aðgerðir viðskiptabankanna til að tryggja að allir viðskiptavinir njóti sömu málsmeðferðar. Með bréfi þessu hafi forveri stefnanda gefið út með skýrum hætti að ekki verði staðið við skyldur Landsbanka Íslands hf. samkvæmt afleiðusamningum og hafi því verið óhjákvæmilegt að líta svo á að þeim hafi verið rift, sem hafi haft þau áhrif að þeir hafi fallið niður án greiðslu. Hafi stefndi haft réttmætar væntingar til að framvegis myndi stefnandi hvorki efna afleiðusamninga af sinni hálfu né ætlast til efnda af hálfu þeirra sem hafi verið aðilar að slíkum samningum og þar með fellt samningana úr gildi hafi stefnandi þaðan af síður haft heimild til að draga síðar á reikning stefnda og því beri sömuleiðis að sýkna stefnda á þessum grundvelli.

Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður um sýknu kveðst stefndi byggja á því að krafa stefnanda sé fyrnd. Óumdeilanlegt sé að stefndi hafi ekki heimilað yfirdrátt á reikning sinn og hafi stefnandi því ekki haft heimild til að breyta kröfu á grundvelli afleiðusamnings í yfirdrátt. Verði því að líta til fyrningarfrests upphaflegrar skuldbindingar. Ítrekað sé að meint krafa stefnanda sé vegna afleiðusamninga sem stefndi hafi gert við forvera stefnanda. Almennur fyrningar-frestur krafna sé fjögur ár, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Stefndi telji fyllilega ljóst að afleiðusamningar falli ekki undir neitt ákvæði framangreindra laga sem kveði á um lengri fyrningarfrest. Krafa stefnanda, hafi hann nokkurn tímann átt kröfu, fyrndist því ekki seinna en á árinu 2012. Gildi einu þótt stefnandi hafi höfðað mál á hendur stefnda vegna sama sakarefnis enda hafi hann fellt málið niður og efnisdómur ekki gengið. Mál þetta sé höfðað töluvert síðar en sex mánuðum eftir að hið fyrra mál hafi verið fellt niður. Sé því ljóst að fyrri málshöfðun hafi ekki haft þau réttaráhrif að nýr fyrningarfrestur hafi hafist.

Verði krafan ekki talin fyrnd í heild sinni kveðst stefndi byggja á því að hluti hennar, sem nemi samningsvöxtum, sé fyrndur. Ljóst sé að 10 ára fyrningarfrestur peningalána gildi ekki um vexti eða verðbætur. Engu breyti þótt þeir hafi verið skuldfærðir á sama reikning og upphafleg skuld. Geti krafa stefnanda því aldrei verið hærri en 3.487.732 krónur. Þetta sé sú fjárhæð sem hafi verið yfirdregin á reikningnum 21. október 2008.

Eins og fram hafi komið hafi stefnandi höfðað mál vegna sömu kröfu á árinu 2010 en hafi fellt málið niður í kjölfar samskipta stefnanda og stefnda. Tæpum sjö árum eftir að fyrra málið hafi verið fellt niður hafi stefnandi ítrekað bréf sem hafi verið sent 18. ágúst 2010. Það fái ekki staðist. Hefði stefnandi viljað halda meintum rétti sínum til streitu hefði hann átt að halda áfram með fyrra málið. Þess í stað hafi stefnandi höfðað mál á ný á hendur stefnda sjö árum eftir að fyrra málið hafi verið fellt niður. Það sé alveg ljóst að á þessum tíma sem liðið hafi frá því að fyrra málið var fellt niður hafi stefnandi glatað rétti sínum vegna tómlætis.

Eftir meginreglum kröfuréttar geti annar samningsaðili glatað rétti til að bera fyrir sig vanefnd eða annað réttarbrot viðsemjanda síns ef athugasemdum er ekki hreyft af slíku tilefni án ástæðulauss dráttar. Stefnandi sé fjármálafyrirtæki og hafi lánastarfsemi að atvinnu. Stefnanda hafi verið kunnugt um ætlaða kröfu sína á árinu 2008 og höfðað mál tveimur árum síðar, en felldi það niður, og höfðaði svo aftur mál sjö árum síðar, rétt tæpum 10 árum eftir að ætluð krafa hafi stofnast. Þannig sé ljóst að stefnandi hafi ekki haldið fram rétti sínum án ástæðulauss dráttar. Raunar telji stefndi atvik sýna að stefnandi hafi litið svo á að mál væru uppgerð og lokið milli aðilanna með niðurfellingu málsins á árinu 2011, enda hafi samskipti aðila ekki gefið annað til kynna. Stefndi hafi þannig frá því að fyrra málið hafi verið fellt niður lifað í þeirri trú að mál þetta heyrði sögunni til. Því hafi „ítrekunarbréf“ stefnanda komið stefnda í opna skjöldu. Að mati stefnda sé ljóst að stefnandi hafi sýnt af sér stórfellt tómlæti, einkum með hliðsjón af réttmætum væntingum stefnda, þannig að hann hafi glatað rétti sínum, hafi sá réttur nokkur tímann verið fyrir hendi.

Verði ekki fallist á kröfur stefnda um sýknu krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Því til stuðnings vísi stefndi til framangreindrar umfjöllunar um tómlæti stefnanda og réttmætar væntingar stefnda um að í niðurfellingu fyrra máls stefnanda hafi falist endanleg málalok. Fyllilega ósanngjarnt sé að stefndi verði látinn bera hallann af þessu tómlæti einn. Megi af þessu tilefni vísa til 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og byggi stefndi á því að víkja skuli skuldbindingu hans til hliðar að hluta þar sem það væri bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig meintan yfirdrátt að öllu leyti eftir þetta mikla tómlæti sem stefnandi hefur sýnt. Þá bendi stefndi jafnframt á að stefnandi krefjist dráttarvaxta í fjögur ár. Sé þessi krafa ein birtingarmynd þeirrar ósanngirni sem felist í kröfugerð stefnanda. Telji stefndi ekki tilefni til annars, verði á annað borð fallist á kröfur stefnanda, en að upphafsdagur dráttarvaxta miðist í fyrsta lagi við málshöfðun.

Stefndi geri kröfu um málskostnað sér að skaðlausu og telji fullt tilefni til að vísa til 1. og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Hvað lagarök varðar vísar stefndi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Í máli þessu krefst stefnandi þess að stefndi greiði sér skuld að fjárhæð 4.751.999 krónur sem stefnandi kveður vera yfirdráttarskuld á tékkareikningi stefnda númer […] við útibú stefnanda við Hagatorg í Reykjavík. Reikningnum hafi verið lokað 30. júlí 2010 og þá hafi reikningurinn verið yfirdreginn um stefnufjárhæð málsins. Stefndi krefst sýknu og byggir einkum á aðildarskorti til sóknar og að stefnandi hafi ekki haft heimild til að yfirdraga reikninginn. Þá vísar stefndi einnig til þess að krafa stefnanda, hafi hún verið til, sé fyrnd og enn fremur til þess að stefnandi hafa glatað rétti sínum til að fá skuldina greidda vegna tómlætis.

Hinn 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. Byggðist ákvörðunin á 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Í 2. málslið 7. tölulið 1. mgr. ákvörðunarinnar kemur fram að Nýi Landsbanki Íslands hf. taki yfir réttindi og skyldur Landsbanka Íslands hf. meðal annars samkvæmt afleiðusamningum. Í lok ákvörðunarinnar kemur fram að reynist hún byggjast á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða aðrar forsendur ákvörðunarinnar brygðust verulega gæti Fjármálaeftirlitið gert hvers konar breytingar á ákvörðuninni, þar með talið fellt hana úr gildi í heild eða að hluta.

Hinn 12. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um breytingu á framangreindri ákvörðun eftirlitsins 9. október 2018. Í forsendum ákvörðunarinnar 12. október 2008 segir að nú liggi fyrir að Nýja Landsbankanum hf. sé af ýmsum veigamiklum ástæðum ekki mögulegt að taka við réttindum og skyldum samkvæmt þeim afleiðusamningum sem ráð hafi verið fyrir gert í fyrri ákvörðun. Sé það því mat Fjármálaeftirlitsins að nauðsyn beri til að taka nýja ákvörðun þess efnis að Nýi Landsbanki Íslands hf. yfirtaki ekki réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum sem Landsbanki Íslands hf. hafi verið aðili að. Því var felldur úr gildi fyrrnefndur 2. málsliður 7. töluliðar 1. mgr. ákvörðunarinnar frá 9. október 2008. Hin breytta ákvörðun tók gildi í lok dags 12. október 2008. Enn var gerð breyting á upphaflegri ákvörðun 19. október 2008. Í þeirri ákvörðun segir: „Ákvörðunin frá 9. október 2008, ásamt fyrstu breytingarákvörðun frá 12. október 2008, er nú jafnframt staðfest með áorðnum breytingum sem gildandi ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda.“

Af framangreindu má ráða að þegar mál þetta var höfðað var Landsbanki Íslands hf., kt. […], eigandi krafna vegna afleiðusamninga þeirra sem sá banki hafði gert, en ekki stefnandi málsins, Landsbankinn hf. (áður Nýi Landsbanki Íslands hf.), kt. […]. Hvað sem þessu líður liggur fyrir að málsgrundvöllur stefnanda er ekki byggður á því að aðilar hafi gert með sér afleiðusamninga og fyrir hendi sé skuld vegna þeirra, heldur því að stefndi standi í yfirdráttarskuld við stefnanda. Er yfirdráttarskuldin sögð vegna tékkareiknings númer […]. Samkvæmt þeim ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins sem gerð er grein fyrir hér að framan var bankareikningum, eignum á þeim og skuldum, ráðstafað frá Landsbanka Íslands hf. til hins nýja Landsbanka. Þegar tékkareikningur stefnda var yfirdreginn 21. október 2008 var hann því vistaður hjá stefnanda, Nýja Landsbanka Íslands hf., sem skuldfærði reikninginn um 3.414.000 krónur. Fyrrgreindar ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins frá 9. og 12. október 2008 geta ekki breytt því að tékkareikningurinn, og þar með hugsanleg skuld á honum, var kominn á hendi stefnanda við skuldfærsluna. Er samkvæmt þessu ekki unnt að fallast á það að stefnandi eigi ekki aðild að málinu.

Stefnandi byggir sem fyrr segir kröfu sína á því að stefndi standi í skuld við sig vegna yfirdráttar á tékkareikningi númer […] við útibú stefnanda við Hagatorg í Reykjavík. Er höfuðstóll skuldarinnar sagður nema 4.751.999 krónum. Segir í stefnu að stefndi hafi fengið yfirdráttarheimild á reikninginn sem hafi runnið út án þess að skuld á reikningum væri greidd.

Fjármálafyrirtæki hafa ekki heimild til að stofna til skuldar á hendur reikningseiganda bankareiknings með því að yfirdraga bankareikninga að vild. Ekki verður þannig stofnað til fjárkröfu á grundvelli yfirdráttar á bankareikningi nema skuldari hafi sjálfur fallist á eða óskað eftir að reikningur sé yfirdreginn og skuld þannig mynduð.

Meðal málsgagna er samningur um stýringu á skammtímastöðutöku í gjaldmiðlum á milli forvera stefnanda og stefnda frá byrjun október 2007. Gildir samningurinn í hálft ár og var markmið hans að vinna til baka tap sem varð vegna skammtímastöðutöku á tímabilinu frá september 2005 til ágúst 2006, en tapið nam átta milljónum króna. Skyldi bankinn annast stýringu á gjaldmiðlaskiptasamningnum í samræmi við tiltekinn ramma sem markaður var í samningnum. Þá segir að gjaldmiðlaskiptasamningnum verði stýrt með framvirkum samningum, valréttar-samningum eða öðrum afleiðusamningum og eða samsetningu slíkra samninga. Tekið er fram í samningnum að allar færslur í íslenskum krónum, tengdar samningnum, muni fara í gegnum reikning stefnda númer […]. Á yfirliti yfir reikninginn fyrir tímabilið frá 1. október til og með 24. nóvember 2008 má sjá að yfirdráttarheimild reikningsins er 0 krónur, en eins og fram er komið var reikningurinn yfirdreginn þann 21. október 2008 um 3.414.000 krónur.

Að mati dómsins hafa ekki verið lögð fram nein gögn sem rennt geta stoðum undir það að stefndi hafi óskað eftir eða samþykkt að fyrrnefndur reikningur yrði yfirdreginn, hvort sem er vegna vanskila á grundvelli afleiðusamninga eða annarra viðskipta sem hann kann að hafa átt við stefnanda. Skortir þannig á að fyrir hendi sé lögmætur grundvöllur fyrir þeirri fjárkröfu sem stefndi er krafinn um í málinu.

Eins og áður er fram komið liggur fyrir að stefnandi hefur áður krafið stefnda um greiðslu á sömu kröfu. Hinn 26. janúar 2011 gaf stefnandi út stefnu á hendur stefnda, sem þingfesta skyldi 9. mars sama ár. Þar var krafist greiðslu yfirdráttar-skuldar að fjárhæð 4.751.999 krónur. Stefndi mótmælti kröfunni og kvaðst ekki hafa stofnað til yfirdráttar. Málið mun hafa verið fellt niður 4. maí 2011 og kveðst stefndi ekki hafa heyrt af málinu fyrr en hann fékk ítrekun frá stefnanda með bréfi 13. desember 2017 eða sex og hálfu ári síðar. Fallist er á það með stefnda, að með tilliti til forsögu málsins og málsatvika, hafi stefndi mátt hafa réttmætar væntingar til þess að stefnandi myndi ekki innheimta kröfuna eftir að fyrra mál aðila var fellt niður. Verður með sama rökstuðningi að telja að stefnandi hafi sýnt verulegt tómlæti gagnvart stefnda og glatað rétti sínum til heimtu kröfunnar.  

Samkvæmt því sem nú er fram komið ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Að fenginni þeirri niðurstöðu þykir óþarft að fjalla um aðrar málsástæður að baki sýknukröfu stefnda. Sama á við um sjónarmið að baki kröfu hans um lækkun dómkröfunnar.

Eftir úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.200.000 króna að meðtöldum virðisaukaskatti. Ekki þykja vera alveg næg efni til þess að dæma álag á málskostnað.  

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

D ó m s o r ð:

Stefndi, X, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Landsbankans hf.

Stefnandi greiði stefnda 1.200.000 króna í málskostnað.

 

Jón Höskuldsson