• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Skilorð
  • Skilorðsrof
  • Umferðarlagabrot
  • Upptaka
  • Ökuréttarsvipting

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 15. febrúar 2019 í máli nr. S-188/2018:

Ákæruvaldið

(Sigurður Pétur Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Guðjóni Magnússyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 17. desember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 10. apríl 2018 á hendur ákærða, Guðjóni Magnússyni, kt. […], […], […];

fyrir eftirgreind fíkniefna- og umferðarlagabrot:

I

Fíkniefnalagabrot, með því að hafa:

1. Föstudaginn 22. júlí 2016 í Hafnarfirði haft í vörslum sínum 73,76 g af maríhúana og 0,16 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit á heimili hans að […] og lagði hald á.

Mál 007-2016-42749

2. Föstudaginn 11. nóvember 2016 í Hafnarfirði haft í vörslum sínum 51,85 g af maríhúana, 0,30 g af amfetamíni og 0,52 g af tóbaksblönduðu kannabisefni sem lögregla fann við leit á heimili hans að […] og lagði hald á.

Mál 007-2016-66680

3. Fimmtudaginn 16. febrúar 2017 í Hafnarfirði haft í vörslum sínum 1,96 g af maríhúana sem lögregla fann við leit á heimili hans að […] og lagði hald á.

Mál 007-2017-4479

4. Miðvikudaginn 10. maí 2017 haft í vörslum sínum 0,37 g af maríhúana og 1,93 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit á lögreglustöðinni í Hafnarfirði við Flatahraun 11, í kjölfar handtöku á ákærða, og lagði hald á.

Mál 007-2017-25189

5. Miðvikudaginn 24. maí í Hafnarfirði haft í vörslum sínum, í sölu- og dreifingarskyni, 23,58 g af maríhúana sem lögregla fann við leit á heimili hans að […] og lagði hald á.

Mál 007-2017-29197

II

Umferðarlagabrot, með því að hafa:

6. Miðvikudaginn 10. maí 2017 í Hafnarfirði ekið bifreiðinni […] óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 65 ng/ml og metamfetamín 90 ng/ml) austur Tjarnarbraut uns lögregla stöðvaði aksturinn.

007-2017-25189

7. Þriðjudaginn 15. ágúst 2017 í Reykjavík ekið bifreiðinni […] óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 115 ng/ml, metamfetamín 220 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 6,0 ng/ml) um Borgartún uns lögregla stöðvaði aksturinn.

007-2017-47193

 

Teljast brot í I. kafla varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001 og brot í II. kafla við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Jafnframt er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum (151,52 g af maríhúana. 2,39 g af amfetamíni og 0,52 g af tóbaksblönduðu kannabisefni) samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Kröfur ákærða í málinu eru þær að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa, sem öll verði bundin skilorði. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegrar þóknunar sér til handa.

Við fyrirtöku málsins 17. desember sl. féll sækjandi frá þeim sakargiftum samkvæmt ákærulið I.5 að þar tilgreind fíkniefni hefði ákærði haft í vörslum sínum í sölu og dreifingarskyni. Ákærða eru því eingöngu gefnar vörslur efnanna að sök. Að fram kominni þessari breytingu lá fyrir játning í málinu en sakargiftir að öðru leyti hafði ákærði játað við fyrirtöku málsins 22. ágúst 2018. Í ljósi játningar ákærða var farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var málið tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Forsendur og niðurstaða:

Svo sem rakið hefur verið hefur ákærði játað sök í málinu. Að mati dómsins samrýmist játning hans framlögðum gögnum. Brot ákærða, eins og þeim er lýst hér að framan, sbr. ákæru lögreglustjóra og að teknu tilliti til fyrrgreindrar breytingar, teljast því sönnuð og eru þau réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins á ákærði nokkurn sakaferil að baki. Á árunum 2008 til 2013 gekkst hann fjórum sinnum undir sektargerð lögreglustjóra vegna fíkniefnalagabrota. Með dómi 17. janúar 2014 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir fíkniefnalagabrot. Hinn 11. júní 2015 var ákærði  með dómi Héraðsdóms Reykjaness dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, einnig fyrir fíkniefnalagabrot. Var skilorðsdómurinn frá 17. janúar 2014 tekinn upp og málin dæmd í einu lagi. Þá var ákærði með dómi Héraðsdóms Vesturlands 1. desember 2015 dæmdur til greiðslu 140.000 króna sektar og honum gert að sæta sviptingu ökuréttar í 12 mánuði fyrir brot gegn 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987.

Með brotum sínum samkvæmt ákæruliðum I.1-I.5 og II.6 rauf ákærði skilorð áðurnefnds dóms Héraðsdóms Reykjaness. Samkvæmt því og með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ber að taka dóminn upp og ákveða ákærða refsingu í einu lagi fyrir bæði málin samkvæmt fyrirmælum 77. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði hefur játað sök í málinu og er honum virt það til málsbóta. Samkvæmt því og að brotum ákærða virtum þykir refsing hans hæfilega ákveðin, eftir fyrirmælum 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, fangelsi í fjóra mánuði. Eftir atvikum og að teknu tilliti til þess sem upplýst var fyrir dómi um aðstæður ákærða nú þykir mega fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til sakaferlis ákærða og að því gættu að hann braut í tvígang gegn 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987 þykir, í samræmi við kröfugerð ákæruvalds og með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, rétt að svipta ákærða ökurétti í þrjú ár frá birtingu dóms þessa að telja.

Með vísan til kröfugerðar ákæruvalds, gagna málsins og tilgreindra lagaákvæða í ákæru verða gerð upptæk 151,52 grömm af maríhúana, 2,39 grömm af amfetamíni og 0,52 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem lögregla haldlagði við rannsókn málsins.

Á grundvelli sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða allan sakarkostnað málsins. Ákærði dæmist því til að greiða þann sakarkostnað sem tilgreindur er á framlögðu sakarkostnaðar­yfirliti lögreglustjóra, samtals 226.826 krónur. Ákærði greiði einnig þóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar lögmanns, sem hæfilega þykir ákveðin að virðisaukaskatti meðtöldum svo sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Guðjón Magnússon, sæti fangelsi í fjóra mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði sæti sviptingu ökuréttar í þrjú ár frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði greiði 458.706 krónur í sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar lögmanns, 231.880 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

Ákærði sæti upptöku á 151,52 grömmum af maríhúana, 2,39 grömmum af amfetamíni og 0,52 grömmum af tóbaksblönduðu kannabisefni.

 

Kristinn Halldórsson