• Lykilorð:
  • Áhættutaka
  • Gjafsókn
  • Skaðabætur
  • Sönnun
  • Vinnuslys

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 2. maí 2019 í máli nr. E-1087/2018:

X

(Stefán Þórarinn Ólafsson lögmaður)

gegn

Y

(Eldjárn Árnason lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 4. apríl síðastliðinn, er höfðað 1. nóvember 2018.

Stefnandi er X, [...], [...].

Stefnda er Y, [...], [...].

Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu vegna vinnuslyss sem stefnandi varð fyrir 28. mars 2017 í vinnu hjá stefndu við að hreyfa hesta að Fornahvarfi 10, Kópavogi.

Til vara er þess krafist að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu vegna slyss sem stefnandi varð fyrir 28. mars 2017 við að hreyfa hesta stefndu að Fornahvarfi 10, Kópavogi.

Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar óháð gjafsóknarleyfi. 

Stefnda krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að skaðabótakrafa stefnanda verði aðeins viðurkennd að hluta til vegna meints vinnuslyss/slyss 28. mars 2017. Stefnda krefst í báðum tilvikum málskostnaðar.

I

            Í máli þessu er deilt um skaðabótaskyldu stefndu vegna tjóns af völdum slyss sem stefnandi varð fyrir 28. mars 2017 að Fornahvarfi 10 í Kópavogi.

Í febrúar 2017 setti stefnda inn svohljóðandi stöðufærslu á Facebook-hóp fyrir hestamenn: „Mig vantar hjálp frá duglegum dreng eða stúlku sem getur hreyft fyrir mig þæg 4-6 hross, 3x í viku frá og með 22. mars til 1. júní.“ Fjárhæðin 400 krónur kom fram í stöðufærslunni. Stefnandi sá færsluna 20. mars 2017 og hafði samband við stefndu í gegnum Facebook. Hittust þær daginn eftir. Fram kom að stefnda væri að fara til útlanda og vildi að hestarnir yrðu hreyfðir á meðan, en framhaldið yrði ákveðið þegar stefnda kæmi til baka. Í Facebook-samskiptum aðila spurði stefnda stefnanda hvort hún væri vön hestum. Kvaðst stefnandi í svarinu vera úr sveit og hafa stundað hestamennsku frá unga aldri. Þá lét stefnandi þess getið að hún hefði aðstoðað við að halda hestum í formi fyrir hestaferðir og farið í einstaka ferðir með Íshestum og Eldhestum. Stefnandi kvaðst auk þessa hafa aðstoðað við tamningar og þjálfað fyrir göngur og hestatúra. Úr varð að stefnandi tók að sér að hreyfa hesta fyrir stefndu.

Í stefnu segir að áður en stefnda hafi farið til útlanda hafi hún sagt stefnanda frá hestunum og hverjir þeirra væru góðir saman. Er haft eftir stefndu að hestarnir Herkúles, Hrafntinna og Orfeus væru fulltamdir en Nökkvi og Sprettur væru svo til fulltamdir en gott væri að hafa annan hest með þeim þótt þess ætti ekki að þurfa. Síðan ætti bara að „lónsera“ Sælu. Í greinargerð stefndu er því haldið fram að stefnda hafi bannað stefnanda að hreyfa Sprett því að hann væri minna taminn.

Í fyrrnefndum samskiptum aðila á Facebook spyr stefnda stefnanda þann 22. mars 2017 sérstaklega að því á hvaða hesta hún hafi farið. Stefnandi nefnir Orfeus, Hrafntinnu, Herkúles og Nökkva. Þá spyr stefnda hvort stefnandi hafi „lónserað“ Sælu. Því svarar stefnandi játandi og bætir við að hún hafi farið á Sprett eins og í gær. Var stefnda ánægð með það og spyr hvernig Sprettur hafi verið. Stefnanda svarar því að Sprettur hafi verið fínn, en pínulítið þrjóskur, en um leið og hann hafi orðið þess áskynja að stefnandi réði þá hafi hann verið fínn. Stefnda svarar þá: „Gott, kannski prófa að fara út á honum með Herkúles á morgun.“ Í stefnu segir að stefnandi og kærasti hennar, A, hafi hreyft hestana daglega frá 23. mars til 28. mars 2017 þegar slysið varð.

            Í lögregluskýrslu B lögreglumanns segir að Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra hafi þriðjudaginn 28. mars 2017, klukkan 14.42, tilkynnt um slys við Fornahvarf 10, Kópavogi. Þar hafi „stúlka dottið á hestbaki og slasast á fæti.“ Segir í skýrslunni að stefnandi hafi verið á hestbaki inni í gerði við hesthúsið Fornahvarf 10. „Þar hafi hún dottið af baki.“ Þá segir að lögreglan hafi komið á vettvang á eftir sjúkraflutningamönnum sem hafi verið að hlúa að stefnanda. Aðstoðaði lögreglan við að koma stefnanda í sjúkrabifreið sem flutti hana á slysadeild Landspítalans. Töldu sjúkraflutningamenn að stefnandi væri ökklabrotin eða hefði farið úr lið.

Stefnandi lýsir atvikinu og aðdraganda slyssins þannig að hún og kærasti hennar hafi farið í hesthús stefndu til að hreyfa Herkúles og Sprett. Hafi stefnandi ákveðið að taka nokkra hringi á Spretti inni í gerði áður en lagt væri af stað. Segir stefnandi að þegar hún hafi verið að fara á bak á Spretti og komin með annan fótinn í ístaðið hefði Sprettur prjónað og hent henni af baki. Hafi stefnandi lent á rassinum við hliðina á hestinum. Þá hafi Sprettur hreyft sig og stigið ofan á ökklann á stefnanda sem hafi fundið að ökklinn brotnaði. Hringt hefði verið á sjúkrabíl sem hefði komið skömmu síðar.

Stefnda lýsir atvikum sama dag með þeim hætti að stefnandi hafi hringt í hana og spurt hvort hún mætti prófa Sprett í gerðinu. Hafi stefnda beðið hana um að bíða þar til hún væri komin úr vinnu um klukkan 17.00 og gæti verið með henni. Stefnandi hafi ekki beðið eftir því heldur farið á bak á Spretti. Þegar hún hafi verið komin í annað ístaðið hafi hún dottið úr ístaðinu og hesturinn snúið sér og stigið ofan á fótinn á stefnanda. Kannast stefnda ekki við að hafa beðið stefnanda um að hreyfa Sprett. Það hafi verið ákvörðun stefnanda.

Við skoðun stefnanda á Landspítalanum kom í ljós að hægri ökkli stefnanda var úr lið og auk þess brotinn. Fór stefnandi í aðgerðir og segir í stefnu að hún hafi verið óvinnufær eftir slysið, en ekki sé tímabært að meta afleiðingar slyssins eða örorku stefnanda. 

Stefnda heldur því fram að hún hafi ekki greitt stefnanda fyrir að hreyfa hestana. Hún hafi látið kærasta stefnanda, A, hafa 10-15.000 krónur þegar þau hafi farið með sjúkrabílnum til að greiða fyrir bílinn. Í stefnu segir á hinn bóginn að A hafi haft samband við stefndu sama kvöld og stefnandi slasaðist og spurt hana hvort stefnandi fái ekki greitt fyrir þá daga sem stefnandi hafi hreyft hestanna. Daginn eftir lét stefnda A hafa 16.000 krónur og vatnsflöskur. Fyrir dómi greindi vitnið A svo frá að stefnda hefði hringt í síma stefnanda þegar vitnið og stefnandi voru á spítalanum í kjölfar slyssins. Kvaðst vitnið hafa svarað símtalinu frá stefndu sem sagðist vilja koma og borga fyrir vinnuna við hestanna. Stefnda hefði komið og rétt stefnanda 16.500 krónur í peningum og tvær vatnsflöskur.

Í læknisvottorði C, sérfræðings í taugasjúkdómum, dagsettu 30. janúar 2019, segir að stefnandi hafi verið í gipsi í um átta vikur eftir slysið. Bólga hafi hjaðnað en ekki önnur einkenni. Hún hafi viðvarandi  snertiviðkvæmni, innanvert við ökklann, kringum „medial malleolus“ og aðeins niður á við í átt að il. Þá segir að stefnandi hafi verið hjá sjúkraþjálfara og í eftirliti hjá bæklunarlækni. Allur málmur hafi verið fjarlægður úr ökklanum 1. júní 2018, en það hafi ekki breytt neinu um líðan stefnanda. Stefnandi eigi aldrei verkjalausan dag. Skerði verkur svefn og trufli einbeitingu. Þá sé göngufærni skert. Í vottorðinu kemur fram það álit að stefnandi hafi hlotið lítinn taugaskaða á húðgrein með „hyperesthesia/dysesthesia“ í kjölfarið. Mat sérfræðingsins er að ekki sé tímabært að fullyrða hvort um varanlegan skaða sé að ræða.

Samkvæmt upplýsingum frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins er D núverandi eigandi hestsins Spretts. Neitaði stefnda því fyrir dómi aðspurð að hafa selt henni hestinn í ágúst 2017, en kvaðst hafa látið „stelpu“ sem var hjá henni hafa hestinn. Þeim hefði „komið vel saman og verið eins og eitt.“ Væri hesturinn „eins og hugur hennar“ en væri stundum hvumpinn og stykki til hliðar. 

Með bréfi dómsmálaráðuneytisins 16. júlí 2018 var stefnanda veitt leyfi til gjafsóknar vegna höfðunar málsins. Takmarkast gjafsóknarleyfið við réttargjöld, þóknun lögmanns og rekstur málsins fyrir héraðsdómi.

II

Stefnandi kveðst höfða mál þetta til viðurkenningar á bótaskyldu vegna vinnuslyss sem hún hafi orðið fyrir 28. mars 2017 við vinnu sína hjá stefndu. Starf stefnanda hafi falist í að hreyfa hesta fyrir stefndu sem voru að Fornahvarfi 10 í Kópavogi. Byggi stefnandi aðallega á því að um vinnuréttarsamband hafi verið að ræða á milli aðila.

Stefnandi fullyrðir að slysið hafi átt sér stað vegna þess að ekki hafi verið gætt fyllsta öryggis og að stefnda beri skaðabótaábyrgð á slysi stefnanda. Sú ábyrgð grundvallist á sakarreglunni og meginreglum skaðabótaréttar um ábyrgð atvinnurekenda, meðal annars um ófullnægjandi verkstjórn og aðgæslu.

Stefnandi vísar til þess að stefnda hafi falið ólögráða unglingi hættulegt verk án samráðs við foreldra og án þess að vera á staðnum til þess að tryggja fyllsta öryggi. Stefnda beri því ábyrgð á því tjóni sem það saknæma og ólögmæta gáleysi hafi valdið. Enginn hafi verið til staðar til að fylgjast með því að fyllsta öryggis væri gætt og rétt farið að. Horfa verði til þess að stefnandi hafi einungis verið í vinnu hjá stefndu í nokkra daga þegar slysið hafi orðið. Stefnandi hafi verið ung að árum og alls ekki forsvaranlegt að fela henni verkið án fullnægjandi verkstjórnar og eftirfylgni af hálfu stefndu. 

Stefnandi reisir kröfu sína á meginreglu skaðabótaréttar um bótaskyldu vegna saknæms vanbúnaðar á vinnustað og rangra upplýsinga um hestinn Sprett. Stefnda hafi ekki fullnægt þeim kröfum sem gerðar séu til atvinnurekenda, það er eiganda hesta, um að tryggja öryggi starfsmanna sinna, en stefndu hafi borið að tryggja að starfsmönnum væru ekki falin verk við óviðunandi og hættulegar aðstæður. Telur stefnandi að óforsvaranlegt og hættulegt hafi verið að fela stefnanda að fara á bak á hestinum Spretti og að líkamstjón stefnanda sé bein afleiðing þess.

Stefnandi kveðst byggja á því að stefnda hafi brotið gegn lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðum settum með heimild í lögunum. Bein orsakatengsl séu á milli þessara brota og þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir. Þá telji stefnandi að skort hafi á eftirlit með starfi stefnanda og leiðbeiningum af hálfu vinnuveitanda og eiganda hestanna. Hefði verkið verið unnið undir eðlilegu eftirliti og þess gætt að gefa skýr fyrirmæli um hvaða hesta mætti hreyfa hefði mátt koma í veg fyrir slysið. Stefnda beri skaðabótaábyrgð á því að þessi atriði hafi ekki verið í lagi af hennar hálfu sem vinnuveitanda og eiganda hestanna.  

Þá telji stefnandi að stefnda verði að bera hallann af sönnunarskorti um atvik málsins og aðstæður á slysstað þar sem stefnda hafi vanrækt ótvíræða skyldu til að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins. Af þeim sökum eigi að snúa við sönnunarbyrði hvað þetta varði.

Stefnandi hafi ekki borið neina sök á slysinu og kveðst hafna því að vera svipt bótarétti á grundvelli eigin sakar. Vinnuveitanda og eiganda hestanna beri að sjá til þess að vinnuaðstæður séu forsvaranlegar, leiðbeiningar nákvæmar og eftirlit í lagi, sérstaklega þar sem ólögráða einstaklingur hafi verið fenginn til þess að vinna við hættulegar aðstæður. 

Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til meginreglna skaðabótaréttar, aðallega sakarreglunnar og reglunnar um húsbóndaábyrgð en jafnframt til ábyrgðar atvinnurekanda á vanbúnaði á vinnustað og ófullnægjandi verkstjórnar. Þá byggir stefnandi á ákvæðum laga nr. 50/1993 um skaðabætur. Stefnandi byggir einnig á ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og á almennum reglum vinnuréttar. Um varnarþing og málsmeðferð er vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu sína um viðurkenningu á bótaskyldu byggir stefnandi á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Kröfuna um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla sömu laga, einkum til 129. og 130. gr. laganna. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988. 

III

Stefnda kveðst byggja á því að um óhappatilvik hafi verið að ræða, sem hún beri ekki ábyrgð á. Óhapp stefnanda sé dæmigert slys sem verði við hestamennsku án þess að sök á því slysi liggi hjá einhverjum tilteknum aðila. Hestamennska sé ekki hættulaus íþrótt og eigi stefnandi að þekkja vel til þess. 

            Þá hafni stefnda því að skilyrði sakarreglunnar séu uppfyllt enda hafi stefnandi verið að hreyfa hestana á eigin ábyrgð. Stefnandi hafi sjálf tekið ákvörðun um að fara á hestinn Sprett og hafi átt frumkvæði að því. Sönnunarbyrði um meinta sök stefndu, orsakatengsl, tjón og önnur skilyrði sakarreglunnar hvíli hjá stefnanda og hafi sú sönnun ekki tekist. Hafi stefnandi ekki sýnt fram á þau grundvallaratriði sem þurfi að vera til staðar til þess að skilyrði um sök séu uppfyllt samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar. 

            Stefnda kveðst byggja á því að hún sé ekki atvinnurekandi og hafi henni því ekki borið nein skylda til verkstjórnar og eftirfylgni. Stefnandi hafi viljað hreyfa hesta fyrir stefndu og alkunna sé í hestamennsku að slíkt sé gert sem greiði á móti greiða og viðkomandi sé á eigin ábyrgð við slíka iðju. Bendir stefnda á að engin tilraun sé gerð af hálfu stefnanda til að sýna fram á að um einhvers konar vinnuréttarsambands hafi verið að ræða á milli aðila. Enginn ráðningarsamningur hafi verið gerður og sé því hafnað að á milli aðila hafi stofnast vinnusamband. Sönnunarbyrði um þetta atriði sé hjá stefnanda en ekki hafi verið sýnt fram á það með nokkrum hætti. 

            Þá kveðst stefnda hafna því að slysið, aðdragandi þess og orsök megi á einhvern hátt rekja til hennar. Engin hlutlæg ábyrgðarregla hvíli á stefndu sem eiganda hesta. Stefnandi hafi gengið til leiks, vön hestum frá blautu barnsbeini, og hafi þekkt hættulega eiginleika þeirra. Stefnandi hafi farið á hestbak sér til skemmtunar á eigin ábyrgð. Stefnandi hafi tekið áhættu og verði að taka afleiðingum af þeirri áhættu sjálf og geti ekki fært þá áhættu og ábyrgð yfir á stefndu.

Stefnda kveðst einnig byggja á því að stefnandi hafi með ákvörðun sinni að fara á hestinn án samþykkis stefndu tekið áhættu af því að slasast við þá iðkun og hafi þannig fyrirgert rétti sínum til bóta fyrir það tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir. Það sé grundvallarregla íslensks skaðabótaréttar að með þátttöku í íþróttum taki iðkendur þeirra áhættu á ýmiss konar tjóni sem orðið geti af íþróttaiðkuninni. Þessari grunnreglu íslensks réttar um áhættutöku sé að finna í niðurlagi XIII. kafla mannhelgisbálks Jónsbókar, þar sem segi að gangi maður til leiks, fangs eða skinndráttar að vilja sínum ábyrgist hann sig sjálfur að öllu þótt hann fái mein eða skaða af. Í máli þessu liggi fyrir að stefnandi hafi verið vön hestum og stundað hestamennsku frá því að hún hafi getað riðið hesti ein. Þá hafi stefnandi aðstoðað við að halda hestum í formi og tekið túra í hestaferðum. Einnig hafi stefnandi aðstoðað við tamningar og þjálfað eigin hross fyrir göngur og hestatúra. Stefnandi þekki því vel þá áhættu sem stafi af hestum og hestamennsku, en í slíku tilviki verði að gera kröfu til aðgæslu stefnanda.

            Stefnda kveðst hafna því að hún beri hallann af sönnunarskorti um atvik máls og aðstæður, þar sem hún hafi ekki tilkynnt um slysið til Vinnueftirlits ríkisins. Stefnda sé ekki atvinnurekandi og beri ekki skyldur samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

            Þá sé hafnað varakröfu stefnanda en engin tilraun sé gerð af hálfu stefnanda til að rökstyðja varakröfuna sem ætti að varða frávísun með vísan til e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

            Varakrafa stefndu byggist á því að stefnandi eigi einnig sök á slysinu og verði því að bera tjón sitt sjálf í hlutfalli við eigin sök. Stefnda kveðst byggja þessa kröfu á sömu málsástæðum og í aðalkröfu, en að sök stefnanda sé algjör og því beri að fella bætur niður að fullu. Stefnandi sé vön hestum og hafi verið kunnugt um að hesturinn Sprettur hafi verið viðkvæmur og hafi gert sér grein fyrir því. Taki stefnandi sjálf fram í samskiptum við stefndu að Sprettur hafi verið þrjóskur. Stefnandi hafi því átt að sýna aukna aðgæslu í umgengni við hestinn. Þá byggi stefnda á því að slysið hafi ekkert með eiginleika hestsins að gera. Stefnandi hafi einfaldlega dottið úr ístaðinu og hesturinn stigið á hana í kjölfarið. Um aðgæsluleysi stefnanda hafi verið að ræða og atvikið óhappatilvik.

            Loks kveðst stefnda byggja á því að ekkert liggi fyrir um hvert umfang tjóns stefnanda sé. Stefnanda beri að sanna tjón sitt og leggja fram matsgerð til sönnunar tjóninu. Að mati stefndu hafi stefnandi ekki uppfyllt lágmarkskröfur um sönnun fyrir ætluðu tjóni. Stefnda telji að framlögð gögn leiði ekki nægar líkur að því að óhapp stefnanda muni hafa varanlegar afleiðingar í för með sér fyrir stefnanda. Skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála séu ekki uppfyllt þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni. Málssóknin sé tilhæfulaus og krefjist stefnda sýknu af öllum kröfum stefnanda og greiðslu málskostnaðar.

            Hvað lagarök varðar vísar stefnda til almennra reglna skaðabótaréttar, XIII. kafla mannhelgisbálks Jónsbókar og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. og 131. gr. Þá vísar stefnda til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.  

IV

Í máli þessu er deilt um bótaábyrgð stefndu á slysi sem stefnandi varð fyrir þegar hún var að hreyfa hestinn Sprett fyrir stefndu að Fornahvarfi 10 í Kópavogi 28. mars 2017. Stefnandi og stefnda gáfu skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins og vitnin A og E.

Í skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem kom á vettvang vegna slyssins, segir að stefnandi hafi verið á hestbaki inni í gerði en dottið af baki og væri líklega ökklabrotin eða hefði farið úr lið. Var stefnandi flutt með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss. Fyrir dómi skýrði kærasti stefnanda, vitnið A, sem var sjónarvottur að slysinu, frá því að vitnið hefði staðið framan við hestinn Sprett og haldið í tauminn þegar stefnandi hefði ætlað á bak á honum. Ekkert hefði fælt hestinn, en stefnandi hefði komst í annað ístaðið og hefði verið að fara í hitt þegar hesturinn hefði prjónað og hent stefnanda af baki og stigið ofan á ökklann á stefnanda. Hefði stefnandi nánast verið komin í hnakkinn þegar hesturinn prjónaði en hún hefði ekki náð að komast í hitt ístaðið. Stefnandi lýsti því fyrir dómi að þegar hún hefði ætlað á bak á Spretti hefði hann prjónað sem varð þess valdandi að stefnandi datt aftur fyrir sig, lenti á rassinum við hliðina á hestinum sem hefði hreyft sig og snúið rassinum í átt að stefnanda og stigið ofan á ökklann á henni. Utanaðkomandi hljóð hafi ekki fælt hestinn.  

Aðila málsins greinir ekki á um það með hvaða hætti slysið varð og er atvikinu lýst með sama hætti í stefnu og greinargerð stefndu. Að því virtu og samkvæmt málsgögnum og framburði stefnanda og vitnisins A verður lagt til grundvallar að slysið hafi atvikast eins og að framan er lýst og hafi hesturinn Sprettur prjónað þegar stefnandi var að fara á bak á honum og hafi hent stefnanda af baki þegar hún hafi verið við það að komast í bæði ístöðin og stígið ofan á hægri ökkla stefnanda þar sem hún sat við hliðina á hestinum.

Stefnandi byggir á því öðrum þræði að stefnda hafi verið atvinnurekandi og haft stefndu í vinnu. Í málinu hefur ekkert komið fram sem rennir stoðum undir það að stefnda hafi tekjur af hestamennsku eða hafi með höndum atvinnurekstur. Þá hefur hvorki verið gerð grein fyrir því í stefnu né málflutningi með hvaða hætti lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum geti átt við tilvikið eða hvaða ákvæði laganna eða reglugerða hafi þýðingu við úrlausn málsins. Þá hefur ekki verið gerð grein fyrir því hverju tilkynning til Vinnueftirlits ríkisins hefði breytt. Stefnandi hefur ekki rökstutt í stefnu eða við flutning málsins hvernig svonefnd húsbóndaábyrgð kemur til álita í málinu. Að þessu virtu þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að stefnda hafi verið atvinnurekandi stefnanda þrátt fyrir að samband þeirra hafi haft einkenni vinnuréttarsambands. Af þessum ástæðum er aðalkröfu stefnanda hafnað. Varakrafa stefnanda er efnislega samhljóða aðalkröfu að því frátöldu að skaðabótaábyrgð er rökstudd með vísan til þess að stefnda hafi verið eigandi hestanna en ekki atvinnurekandi.

Af hálfu stefnanda er meðal annars byggt á því í málinu að hún hafi fengið rangar upplýsingar um hestinn Sprett sem sagður er hafa verið fulltaminn. Stefnda hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gera verði til hennar sem eiganda þeirra hesta sem stefnandi tók að sér að hreyfa fyrir stefndu til að tryggja öryggi stefnanda. Því sé um sök að ræða hjá stefndu. Stefnda byggir á hinn bóginn á því að um óhappatilvik hafi verið að ræða sem stefnda beri ekki ábyrgð á. Um sé að ræða dæmigert slys án þess að sök á því liggi hjá stefndu eða öðrum. Því er hafnað af stefndu að skilyrði sakarreglunnar séu uppfyllt, enda hafi stefnandi verið að hreyfa hesta á eigin ábyrgð og hestamennska sé ekki hættulaus íþrótt og eigi stefnandi að þekkja vel til þess.

Eins og atvikum háttar í málinu verður ekki fallist á þessi sjónarmið stefndu. Fyrir liggur að stefnda auglýsti eftir aðstoð við að hreyfa 4-6 „þæga“ hesta í hennar eigu þrisvar sinnum í viku. Í auglýsingu stefndu voru boðnar 400 krónur og er upplýst í málinu með framburði stefnanda og vitnanna A og E að sú upphæð hafi verið fyrir að hreyfa hvern hest í hvert skipti. Stefnda neitar því að hafa rætt við stefnanda um greiðslu fyrir aðstoðina og segir að eingöngu hafi átt að vera um að ræða „greiða á móti greiða“ fyrir hreyfingu hestanna og að greiðsla sú sem stefnda innti af hendi eftir að slysið varð hafi verið til að koma til móts við stefnanda vegna kostnaðar sem hlaust af því að stefnandi var flutt með sjúkrabíl á slysadeild í kjölfar slyssins. Stefnandi fullyrðir á hinn bóginn að stefnda hafi rætt um greiðslu fyrir að hreyfa hestana og lofað sömu fjárhæð fyrir hverja hreyfingu hests og fram kom í auglýsingu stefndu. Fær sú fullyrðing stefnanda stoð í framburði vitnisins E fyrir dómi sem sá auglýsingu stefndu og ræddi við hana á sama tíma og stefnandi en vildi fá hærri greiðslu en stefnda bauð fyrir hugsanlega aðstoð við stefndu. Telst nægjanlega í ljós leitt að stefnandi og stefnda hafi komist að samkomulagi um það að stefnandi hreyfði hesta stefndu gegn greiðslu eins og boðið var í fyrrnefndri auglýsingu stefndu. Að þessu virtu er hafnað öllum sjónarmiðum stefndu um að stefnandi hafi verið að hreyfa hestana á eigin ábyrgð. Sama á við um þá fullyrðingu stefndu að við eigi sú regla skaðabótaréttar að með þátttöku í íþróttum taki iðkendur þeirra áhættu á ýmiss konar tjóni sem orðið geti við iðkun íþróttarinnar sem stefna byggir á, enda var stefnandi að hreyfa hestana í þágu stefndu, að hennar beiðni, og fékk greitt fyrir.

Aðila málsins greinir á um það hvaða upplýsingar stefnandi hafi fengið um hestana. Byggir stefnandi sem fyrr segir á því að hún hafi ekki fengið réttar upplýsingar um hestinn Sprett. Fyrir dómi kvaðst stefnda hafa farið yfir eiginleika hestanna með stefnanda. Í tölvupósti 4. janúar 2018 lýsir stefnandi því að stefnda hafi sagt að Nökkvi og Sprettur væru alveg tamdir en gott væri að hafa annan hest með þeim. Þá kemur fram í samskiptum aðila á Facebook 22. mars 2017 að stefnandi hefði hreyft alla hestana og hreyft Sprett og Sælu í gerðinu. Þá spyr stefnda sérstaklega að því hvernig hafi gengið með Sprett en ekki hina hestana. Stakk stefnda upp á því að stefnandi færi á Sprett ásamt Herkúlesi. Af þessu má ráða að stefnda hafi talið að meiri varfærni þyrfti að viðhafa gagnvart Spretti en hinum hestunum, að frátalinni Sælu sem átti  að „lónsera“ í stað þess að fara á bak á henni. Fyrir liggur að stefnandi fór á bak á Spretti 23. mars 2017 án áfalla. Þegar stefnandi hugðist fara á Sprett í þriðja sinn 28. mars 2017 ákvað hún að fara fyrst á hann í gerðinu og samkvæmt framburði stefnanda og vitnisins A, hélt A í taum hestsins á meðan stefnandi fór á bak. Líkt og áður hefur komið fram prjónaði Sprettur þegar stefnandi var komin í annað ístaðið og nánast komin í hitt þegar Sprettur henti stefnanda af baki með fyrrgreindum afleiðingum. 

Stefnandi greindi frá því fyrir dómi að Sprettur væri fínn hestur en hann væri hrekkjóttur. Hann hefði þó alltaf látið undan í þau skipti sem farið hefði verið á hann þannig að stefnandi kvaðst ekki hafa haft áhyggjur af honum. Hún hefði fundið að hann væri þrjóskur. Hún hefði ekki fengið að vita af því fyrirfram að Sprettur væri ekki fulltaminn. Stefnda hefði sagt að allir hestarnir væru fulltamdir nema Sæla. Stefnda sagði fyrir dómi að hún hefði rætt eiginleika hestanna við stefnanda og aðra stelpu sem sýnt hefði áhuga á að hreyfa hesta fyrir stefndu. Þær hefðu farið í útreiðartúr. Stefnda sagði hestana vera tamda og að Sprettur væri fulltaminn en væri „hvumpinn og skvettist til hliðar“ þegar farið væri á bak á honum. Lýsti stefnda hestinum nánar þannig að stundum brygði honum og þá kastaði hann sér til hliðar.

Samkvæmt því sem nú er fram komið liggur fyrir að stefndu var kunnugt um að hesturinn Sprettur væri „hvumpinn“ og ætti það til að „skvettast til hliðar.“ Samkvæmt orðabók merkir orðið hvumpinn það sama og „hvimpinn“ sem merkir að vera viðkvæmur og hrökkva oft við. Orðið er sagt notað um hesta sem eru dálítið fælnir og kippa hausnum til þegar verið er að beisla þá. Eins og fram er komið óskaði stefnda beinlínis eftir því nokkrum dögum fyrir slysið að stefnandi myndi „prófa að fara út á ... [Spretti] með Herkúles á morgun.“ Að mati dómsins bar stefndu að gefa stefnanda, sem var aðeins 17 ára þegar hún tók að sér það verkefni sem um ræðir fyrir stefndu, að gefa stefnanda skýrar og afdráttarlausar upplýsingar um alla eiginleika Spretts og þessa vankanta hans. Það gerði stefnda ekki og verður að bera hallann af því. Verður að virða stefndu þetta til sakar í málinu. Það fær ekki breytt þessari niðurstöðu að stefnandi var eitthvað vön hestum frá unga aldri. 

Af hálfu stefndu er vísað til þess að ekkert liggi fyrir um umfang tjóns stefnanda en henni beri að sanna tjón og leggja fram matsgerð til sönnunar á ætluðu tjóni sínu. Ekki séu uppfylltar lágmarkskröfur um sönnun og leiði gögn málsins ekki nægar líkur að því að óhapp stefnanda muni hafa varanlegar afleiðingar í för með sér fyrir stefnanda. Telur stefnda vafa leika á því að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni í málinu, en samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé það skilyrði þess að mál verði höfðað sem viðurkenningarmál.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er heimilt að höfða mál og krefjast aðeins dóms um viðurkenningu á tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands, en áskilið er að stefnandi þurfi þá að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um slíkt. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómum Hæstaréttar Íslands verið skýrður svo, að sá sem höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls. Í stefnu málsins er málatilbúnaði stefnanda lýst til stuðnings kröfu hennar um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefndu. Þar er lýst aðdraganda og atvikum þess slyss sem stefnandi varð fyrir við að hreyfa hestinn Sprett í gerði við Fornahvarf 10 í Kópavogi 28. mars 2017 og afleiðingum þess á heilsufar stefnanda og því sem stefnandi hefur gert til að bæta heilsufar sitt. Meðal málsgagna eru fyrrnefnt læknisvottorð sérfræðings í taugalækningum og upplýsingar Landspítala-Háskóla-sjúkrahúss þar sem lýst er áverkum á stefnanda í kjölfar slyssins, líkamlegu ástandi hennar í dag sem afleiðingum af þeim áverka sem stefnandi hlaut í slysinu. Stefnandi hefur þannig aflað vottorða um afleiðingar af áverkum sem hún hlaut í slysinu 28. mars 2017. Að mati dómsins þykir stefnandi hafa fært fyrir því viðhlítandi sönnur að hún hafi hlotið þau einkenni og þá áverka sem lýst er í framangreindu vottorði í umræddu slysi. Hefur stefnandi þannig að mati dómsins sýnt fram á að orsakatengsl séu á milli slyssins og þess líkamstjóns sem stefnandi býr við í dag. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður talið að uppfyllt sé skilyrði fyrir því að stefnandi geti krafist viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefndu af nefndu tilefni. Stendur 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála því ekki í vegi að taka megi kröfu stefnanda í málinu til greina.

Af hálfu stefndu er til vara gerð krafa um að sök verði skipt og skaðabótaskylda stefndu vegna slyssins verði aðeins viðurkennd að hluta. Byggir stefnda á því að stefnandi beri einnig ábyrgð á slysinu og verði að bera ábyrgð á tjóninu í hlutfalli við eigin sök. Samkvæmt því sem að framan greinir um ófullnægjandi upplýsingar um eiginleika hestsins Spretts sem stefnda þekkti verður stefnda, sem hefur 45 ára reynslu af hestum samkvæmt því sem hún bar um fyrir dómi, talin bera ábyrgð á tjóni stefnanda sem hlaust af slysinu og er hafnað sjónamiðum og varakröfu stefndu um sakarskiptingu. 

Eftir framangreindum úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda dæmd til greiðslu málskostnaðar á þann hátt sem í dómsorði greinir.  

Stefnanda var veitt gjafsókn til reksturs málsins með bréfi dómsmála-ráðuneytisins 16. júlí 2018. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist því úr ríkissjóði, það er þóknun lögmanns hennar sem þykir hæfilega ákveðin eins og í dómsorði greinir.

Af hálfu stefnanda flutti málið Stefán Þórarinn Ólafsson lögmaður, en Eldjárn Árnason lögmaður fyrir stefndu.

Dóm þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Viðurkennd er skaðabótaskylda stefndu, Y, vegna slyss sem stefnandi, X, varð fyrir 28. mars 2017 við að hreyfa hesta stefndu að Fornahvarfi 10, Kópavogi.  

Stefnda greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað er renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 800.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði, sem er þóknun lögmanns hennar, Stefáns Þórarins Ólafssonar lögmanns, að meðtöldum virðisaukaskatti. 

 

Jón Höskuldsson