- Ávana- og fíkniefni
- Börn
- Frávísun frá héraðsdómi
- Kynferðisbrot
- Miskabætur
- Sekt dæmd og fangelsi sem vararefsing
- Upptaka
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjaness
mánudaginn 15. október 2018 í máli nr. S-59/2018:
Ákæruvaldið
(Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)
gegn
X
(Unnsteinn Örn Elvarsson lögmaður)
Mál þetta, sem þingfest var 21. mars 2018, höfðaði héraðssaksóknari með
ákæru 29. janúar 2018 á hendur X kt. 000000-0000, [...], „fyrir neðangreind hegningar- og fíkniefnalagabrot,
framin á árinu 2017, nema annað sé tekið
fram, svo sem hér greinir:
1. Nauðgun og
kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa þriðjudaginn 24. janúar og
föstudaginn 17. febrúar haft önnur kynferðismök við A, fædda [...], dóttur þáverandi sambýliskonu sinnar,
með því að hafa [...] og þannig beitt
hana ofbeldi og nýtt sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni og traust hennar og
trúnað til hans sem sambýlismanns móður.
Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2.
Kynferðisbrot, aðallega með því að hafa föstudaginn
10. mars haft í vörslum sínum í Samsung Galaxy S7 Edge farsíma sínum, 85 ljósmyndir og eina hreyfimynd sem sýna
börn á kynferðislegan hátt, en til vara að hafa á tímabilinu 2. október 2016
til 10. mars 2017, skoðað umræddar myndir og myndskeið á símanum.
Telst þetta aðallega varða við
1. mgr. 210. gr. a almennra
hegningarlaga, en til vara við 2. mgr. 210. gr. a laganna.
3. Fíkniefnalagabrot,
með því að hafa föstudaginn 10. mars haft í vörslum sínum 1,44 g af kókaíni sem
lögregla fann við leit.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5.
og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14.
gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur lyfseðilskyld efni nr.
233/2001.
Þess er krafist að ákærði verði
dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist
með vísan til 1. tl. 69. gr. a almennra hegningarlaga, að ofangreindur sími af
gerðinni Samsung Galaxy S7 Edge verði gerður upptækur. Einnig er þess krafist
með heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. mgr.
14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, að samtals 1,44 g af kókaíni sem lögregla
lagði hald á verði gerð upptæk.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu B, kennitala 000000-0000, og
C, kennitala 000000-0000, fyrir hönd ólögráða dóttur þeirra, A, kennitala 000000-0000,
er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að
fjárhæð kr. 3.000.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu
nr. 38/2001 frá 24. janúar 2017 þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafa
var birt ákærða en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu
laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði
gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum
málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“
Ákærði neitar sök samkvæmt
ákæruliðum 1 og 2, en játar sök samkvæmt 3. ákærulið. Hann hafnar jafnframt
bótakröfu.
Aðalmeðferð málsins hófst með skýrslutökum af
ákærða og hluta vitna 28. ágúst 2018, en var þá frestað til 24. september
síðastliðinn, og aðalmeðferð þá fram haldið og málið dómtekið. Við upphaf
aðalmeðferðar óskaði sækjandi eftir því bókað yrði að láðst hefði að tilgreina
brotavettvang í ákærulið 1, en hann væri heimili stúlkunnar að [...] í [...]. Við framhaldsaðalmeðferð óskaði sækjandi einnig eftir því að bókað
yrði að ákæruvaldið félli frá aðalkröfu samkvæmt 2. tölulið ákæru, en héldi sig
við varakröfu samkvæmt sama tölulið.
Málsatvik
Með bréfi 3. mars 2017 óskaði
barnaverndarnefnd [...] eftir
rannsókn lögreglu á meintu kynferðisbroti ákærða gegn A, brotaþola í máli
þessu, sem fædd er [...]. Fram
kemur í bréfinu að móðir brotaþola, B, hafi daginn áður hringt í starfsmann
barnaverndarnefndar og haft áhyggjur af atviki sem átti sér stað þann sama
morgun. Brotaþoli hefði [...].
Móðir brotaþola gaf skýrslu hjá lögreglu 7.
mars 2017 og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna meintra brota hans gegn
dóttur hennar. Er framburður hennar af atvikum á sama veg og að ofan greinir.
Aðspurð kvaðst móðirin aðeins muna eftir tveimur skiptum sem ákærði hafi verið
einn með stúlkunni, annars vegar 24. janúar 2017 og hins vegar 17. febrúar sama
ár. Þegar hún kom heim í fyrra skiptið hafi ákærði legið hjá dóttur hennar uppi
í rúmi hennar og hafi bæði verið sofandi. Ákærði hafi verið í buxum og bol, en
stúlkan líklega bara í náttbol og nærbuxum. Hafi henni ekkert fundist
athugavert við þetta. Ekki sagðist móðirin heldur hafa tekið eftir neinu
óvenjulegu í síðara skiptið, en hún hafi þá komið heim um eittleytið um
nóttina. Tók hún þó fram að ákærði hefði þá um kvöldið sent henni skilaboð um
að eldri bróðir hennar hefði komið í heimsókn og hafi ákærði þá verið á
nærbuxunum. Hafi hann bætt við að vonandi hafi bróðurnum ekki þótt það skrýtið.
Teknar voru skýrslur af
brotaþola í Barnahúsi 13. mars 2017 og 18. apríl sama ár og verður efni þeirra
rakið með framburði annarra.
Móðir brotaþola mætti á ný til
skýrslutöku hjá lögreglu 15. mars 2017 og sagðist þá þurfa að upplýsa um samtal
sem hún hefði átt við dóttur sína kvöldið áður. Sagði hún þær mæðgur hafa legið
í rúminu og verið að spjalla saman, m.a. um bíómynd sem þær höfðu horft á
saman. Einnig hefði hún beint spjalli þeirra að líðan dótturinnar í samtali við
konuna sem yfirheyrði hana í Barnahúsi 13. mars, og sagt að vel gæti verið að
hún þyrfti að hitta þá konu aftur. Dóttirin hafi þá neitað því, sagt að hún
vildi það ekki, og hafi hún spurt í framhaldinu af hverju konan vildi tala við
hana aftur. Kvaðst móðirin þá hafa sagt að konan vildi kannski vita eitthvað
meira um hana og X og hvað þau hafi verið að gera. Hafi stúlkan þá sagt að hún
vildi ekki segja það. Eftir nokkrar fortölur móðurinnar hafi stúlkan sagt að X
hefði [...]. Kvaðst móðirin þá
hafa spurt dóttur sína hvort hún gæti sagt konunni í Barnahúsi þetta, en
stúlkan hafi neitað því og sagt að hún mætti sjálf segja frá þessu. Fram kom
einnig í máli móðurinnar að eftir þetta hefði dóttir hennar orðið ólík sjálfri
sér í hegðun, m.a. hefði hún pissað í sig í leikskólanum daginn eftir spjall
þeirra mæðgna og um skeið ekki viljað fara þangað.
Ákærði var handtekinn 10. mars
2017 og yfirheyrður af lögreglu. Sama dag var húsleit gerð á heimili hans að [...], en daginn eftir var hann úrskurðaður í
gæsluvarðhald til 13. mars 2017. Ákærði var síðan aftur yfirheyrður af
lögreglunni 26. maí sama ár. Við yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði ákærði að
hafa brotið gegn brotaþola. Í fyrri yfirheyrslunni var hann sérstaklega að því
spurður hvort hann hefði látið brotaþola [...], en hann svaraði því neitandi. Hvort eitthvað annað hefði gerst
svaraði hann því til að einhvern tíma í janúar það ár hafi hann verið beðinn um
að passa brotaþola að kvöldi til. Þegar hann var að undirbúa stúlkuna fyrir
háttinn hafi hún sagt honum að [...]. Sjálfur hafi hann hins vegar verið í nærbuxum og bol. Hafi hann lagst
í rúmið við hlið hennar og lesið fyrir hana, en að því loknu hafi brotaþoli [...]. Hafi hann [...]. Kvaðst hann þá hafa sagt brotaþola að hún [...]. Eftir þetta sagði ákærði að brotaþoli hefði
sofnað og hann einnig. Minnti ákærða að brotaþoli hefði í umrætt sinn [...].
Aðspurður hvort eitthvað annað hefði gerst
milli hans og brotaþola sagði ákærði að einn morgun hefði B, móðir stúlkunnar,
beðið hann um að skutla stúlkunni í leikskólann og hefði hann tekið vel í það.
Kvaðst hann hafa verið á milli svefns og vöku þegar brotaþoli kom inn í
herbergið og [...]. Brotaþoli
hafi þá beðið hann um að [...].
Kvaðst ákærði hafa séð að hún var [...]
Í síðari yfirheyrslu lögreglu yfir ákærða,
26. maí 2017, kvaðst hann standa við allt sem hann sagði í fyrri yfirheyrslu og
hafnaði með öllu ásökunum um að hafa [...]. Hann var þá að því spurður hvort stúlkan hafi [...]. Hann kvaðst þó örugglega hafa vaknað við
slíkt ef sú hefði verið raunin. Við sama tækifæri var ákærði spurður um
ljósmyndir og hreyfimynd sem hann geymdi í síma sínum og sýna börn á
kynferðislegan hátt, og sagðist hann hafa farið inn á einhverja síðu, ýtt þar á
einhvern „link“, og hafi myndirnar þá dælst óumbeðið í síma hans. Kvaðst hann
ekki hafa skoðað þessar myndir og hefði alls engan áhuga á því.
Meðal gagna málsins er skýrsla D
barnalæknis og E kvensjúkdómalæknis, en þau önnuðust skoðun á brotaþola 10. maí
2017. Þar segir m.a. eftirfarandi: „[...].“
Einnig fylgja málinu upplýsingaskýrslur
Barnahúss um meðferðarviðtöl við brotaþola, dagsettar 5. júlí 2017 og 22.
febrúar 2018, ásamt teikningum brotaþola. Samkvæmt síðari skýrslunni hafði
brotaþoli komið í 17 meðferðarviðtöl í Barnahúsi.
Framburður fyrir dómi
Ákærði kvaðst hafa kynnst B, móður brotaþola, árið 2014 er þau störfuðu hjá [...]. Sambandið var í upphafi leynilegt ástarsamband sem varð til þess að slitnaði upp úr sambandi beggja við maka þeirra. Sambandið var þó slitrótt þeirra í milli, B hætti oft með honum og tók síðan aftur upp þráðinn. Ekki kvaðst hann hafa flutt formlega til hennar, samband þeirra hafi aðeins verið þannig að hann dvaldi oft hjá henni þegar hann var ekki með strákana sína og hún ekki með dóttur sína. Þess á milli kvaðst hann hafa dvalið á heimili foreldra sinna. Fyrir kom þó að hann dveldi hjá B þegar dóttir hennar var þar einnig. Samband hans og brotaþola hafi verið mjög gott og hafi þau verið ágætir félagar.
Spurður um líðan sína í upphafi árs 2017 sagði ákærði að hún hafi ekki verið góð, hann hafi glímt við þunglyndi og þurft lyfjameðferð vegna þess. Fyrir kom að hann mætti ekki til vinnu af þessum sökum og hefði B ráðlagt honum að leita sér aðstoðar sálfræðings. Ástæður þunglyndisins rakti hann til þess að hann hafi verið niðurbrotinn maður eftir öll þau skipti sem B hefði slitið sambandi sínu við hann. Í lok janúar eða byrjun febrúar 2017 hafi hann ákveðið að slíta endanlega sambandinu við hana og tók fram að hann hafi þá ekki getað meira.
Spurður um meint kynferðisbrot gagnvart brotaþola kvaðst ákærði alls ekki kannast við neitt slíkt. Hann var þá spurður um atvik í fyrra skiptið samkvæmt ákæru, þ.e. 24. janúar 2017. Hann sagði að B hefði þá beðið hann um að passa dóttur sína um kvöldið. Erfiðlega hefði gengið að fá brotaþola til að hátta, en svo fór að lokum að hún samþykkti að fara í rúmið. Vildi hún ekki vera í náttfötum, en sagðist frekar vilja sofa [...]. Komu þau sér fyrir í rúmi brotaþola, hún breiddi yfir sig sængina, en hann lagðist við hlið hennar fullklæddur og las fyrir hana sögu. Að lestri loknum hafi brotaþoli [...]. Síðan kvaðst ákærði hafa sofnað við hlið stúlkunnar, en vaknað þegar B kom heim. Ekki sagðist hann hafa sagt B frá þessu atviki og kunni ekki skýringu á því. Hins vegar hefði honum þótt þetta háttalag stúlkunnar skrýtið. Ákærði neitaði því alfarið að hafa í umrætt sinn [...].
Þessu næst var ákærði spurður hvort hann myndi eftir því að hafa passað brotaþola febrúarkvöld 2017, þegar B fór í afmæli, og kvaðst hann muna eftir því. Hafi þau tvö komið heim, eldað sér eitthvað, horft á sjónvarp og síðan hafi hann líkast til svæft stúlkuna. Bróðir B hefði komið í heimsókn um kvöldið og hefðu þeir horft á sjónvarpið stutta stund. Brotaþoli hafi þá verið vakandi. Ákærði kvaðst muna eftir því að hafa sent B SMS-skilaboð um kvöldið þar sem hann sagði frá því að bróðir hennar hefði komið í heimsókn, en hann sjálfur hefði þá verið á nærbuxunum. Gaf hann þá skýringu á skilaboðunum að honum hafi þótt það vandræðalegt að hann hefði verið á nærbuxunum þegar bróðir hennar kom í heimsókn.
Sérstaklega spurður um einhver önnur tilvik, þar sem brotaþoli hefði beðið hann um að [...], sagði ákærði að einn morgun hefði B beðið hann um að keyra dóttur sína í leikskólann. Kvaðst hann sofa fast, en í þetta skipti hafi hann vaknað við það að brotaþoli var með [...]. Hafi honum brugðið við þetta og orðið mjög vandræðalegur, en stokkið á fætur og klætt sig. Brotaþoli hafi verið uppi í rúminu og sagt að [...]. Ekki kvaðst hann heldur hafa haft orð á þessu atviki við B og gaf þær skýringar að honum hafi þótt þetta vandræðalegt.
Ákærði neitaði því með öllu að hann hneigðist að börnum. Kvaðst hann engar skýringar geta gefið á því hvers vegna stúlkan bæri á hann þessar sakir, samband þeirra hefði alltaf verið gott, þau hafi leikið sér saman, litað og málað. Þá hafi samband sona hans og barnsins einnig verið gott og hafi þau leikið sér saman þegar þeir komu í heimsókn. Þótti honum þessar ásakanir barnsins hræðilegar og kvaðst alls ekki hafa átt von á slíku.
Ákærði var því næst spurður um þær myndir sem fundust í síma hans, sbr. ákærulið 2, og sýna m.a. börn á kynferðislegan hátt. Kvaðst hann ekki hafa séð þær. Gaf hann þær skýringar að á þeim tíma þegar hann átti við þunglyndi að stríða, og um það leyti sem hann var að slíta sambandi við B, hafi hann verið að vafra á milli spjallsíðna þar sem klámfengnar, en eðlilegar myndir, hafi verið sendar á milli manna. Líklega hafi hann þá ýtt á einhvern „link“ sem hafi fært hann í ógáti inn á einhverja aðra netsíðu. Hafi hann „skrollað“ niður síðuna en séð að þarna var eitthvað athugavert og því strax farið út af síðunni. Ekki kvaðst hann hafa skýringar á því að myndirnar hafi vistast í síma hans, en neitaði því að hafa skoðað þær. Ekki gat hann heldur skýrt hvers vegna búið væri að opna sumar myndirnar oft, en taldi að hann hefði þá líklega í ógáti ýtt á sama „linkinn“ tvisvar. Tók hann fram að hann hefði litla kunnáttu á tölvur og vissi ekki hvernig þetta virkaði.
Brotaþoli, A, var yfirheyrð í Barnahúsi
13. mars og 18. apríl 2017, og hefur dómari horft og hlýtt á upptökur af þeim
yfirheyrslum. Í fyrri yfirheyrslunni sagði brotaþoli að ákærði hefði stundum gist á heimili hennar og strákarnir
hans líka. Hann væri fínn, þau léku sér stundum í mömmó og máluðu og lituðu
saman. Spurð hvort einhver hefði
gert eitthvað við hennar einkastaði svaraði hún því neitandi og bætti við að
hún myndi segja stopp ef einhver vildi gera það. Ekki sagðist hún heldur hafa
rekist í einkastað mömmu sinnar. Síðar í skýrslutökunni sagði stúlkan að ákærði
hefði [...]. Hefði henni bara
liðið vel og ekkert meitt sig við það. Síðar sagði hún að ákærði hefði [...], „eitt skipti fyrst, svo var það fimm og
fjögur og svo tuttugu“. Einu sinni hefði hann þó [...] og hefðu þau þá verið að lesa bók í
kósý-horninu undir kojunni hennar. Rúmið í koju hennar væri hátt uppi með engu
rúmi neðar. Frekar spurð um það atvik svaraði stúlkan þannig: „Hann hérna var
bara að strjúka mér og hann gerði bara einu sinni og ekki meira.“ Spurð um
líðan sína þegar ákærði [...] sagði
brotaþoli að henni hafi liðið vel og bætti við: „Af því að hann var að [...]
bara einu sinni [...].“ Sagðist brotaþoli hafa sagt mömmu sinni
frá þessu. Aðspurð neitaði brotaþoli því að ákærði hefði strokið henni einhvers
staðar annars staðar, svo og að hún hafi einhvern tíma [...].
Í síðari skýrslutöku yfir brotaþola, 18.
apríl 2017, sagði hún að hún og ákærði hefðu einu sinni verið að lita og fara í
leiki þegar ákærði hefði allt í einu sagt henni að leggjast í rúm mömmu sinnar.
Síðan hefði hann [...]. Sagði
stúlkan að þetta hefði gerst tvisvar, en ekki sama dag. [...]. Mamma hennar hefði ekki verið heima þegar
þetta gerðist, en hún og ákærði hefðu „fattað“ upp á þessu. Sjálf sagðist hún
hafa sagt ákærða að gera þetta ekki og hafi henni liðið illa. [...]. Að þessu loknu sagði brotaþoli að þau hafi
farið í dúkkuleik.
Brotaþoli svaraði því neitandi þegar hún var
að því spurð hvort ákærði hefði oft verið að passa hana. Hins vegar hefði hann
gist og þá sofið í rúmi með mömmu hennar,
en hún sjálf í koju, hátt uppi, og væri kojan inni hjá mömmu hennar og með
stiga. Hún neitaði því einnig að eitthvað meira hafi verið gert við líkama
hennar og tók fram að hún hefði sagt stopp. Þá sagðist hún aldrei sofa allsber,
en ýmist í náttfötum eða naríum og kjól og stundum í naríum og bol. [...]. Brotaþoli tók fram að ákærði gisti ekki
lengur á heimilinu og þætti henni það fínt.
Brotaþoli var því næst spurð hvort [...]. Þegar brotaþoli var spurð nánar hvernig [...].Brotaþoli var loks að því spurð [...]
Vitnið B, móðir brotaþola, skýrði fyrst frá upphafi sambands hennar og ákærða. Sagði hún að samband þeirra hefði hafist veturinn 2014, en með hléum allt til desembermánaðar 2016, þegar hún biðlaði til ákærða um að láta reyna á varanlegra samband. Hefði ákærði verið á báðum áttum um þá hugmynd, en þó slegið til á endanum og flutt inn á heimili hennar í byrjun janúar 2017. Vitnið sagðist áður hafa vitað af þyngslum hjá ákærða í sambandi þeirra, en um miðjan janúar hafi hann orðið ofboðslega þunglyndur. Hafi hann oft sofið heilu og hálfu dagana og ekki farið út úr húsi. Kvaðst vitnið hafa orðað það við ákærða að leita sér frekari aðstoðar þar sem hún hafi vitað að hann tæki inn þunglyndislyf, en hann hafi tekið því fálega. Þann 23. febrúar hafi ákærði síðan sagt henni að hann vildi slíta sambandi þeirra, en vitnið gat þess að fyrri sambandsslit þeirra hafi jafnan verið að hennar frumkvæði.
Spurð um samband ákærða og brotaþola sagði vitnið að það hafi verið gott, ákærði sé hlýr og barngóður maður og hafi leikið sér við stúlkuna og hafi hún sótt í hann. Hinu sama gegndi um syni ákærða sem hafi verið mjög hændir að honum.
Vitnið greindi því næst frá samtali hennar og brotaþola, er mál þetta kom upp. Sagðist vitnið hafa sótt dóttur sína í leikskólann skömmu fyrir afmæli hennar. Dóttir hennar hafi þá spurt hvort synir ákærðu kæmu ekki í afmælið og hafi vitnið þá sagt henni að hún og ákærði væru ekki lengur kærustupar og því byggi ákærði ekki lengur hjá þeim. Barnið hafi tekið þeim tíðindum illa og grátið óstjórnlega. Tveimur dögum síðar, á fimmtudagsmorgni, hafi þær mæðgur legið í rúminu undir sæng og verið að spjalla saman. Stúlkan hafi þá [...]. Skömmu síðar hafi [...]. Vitnið sagði að sér hefði brugðið mjög við þetta en ákveðið að spyrja dóttur sína ekki frekar. Þess í stað kvaðst vitnið hafa rætt við starfsfólk barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar í því skyni að leita ráða. Jafnframt sagðist vitnið hafa hringt í leikskóla dóttur sinnar og spurt hvort einhver fræðsla hafi verið þar um einkastaði barnanna, en fengið þau svör að svo hafi ekki verið. Tók vitnið fram að sér hafi þótt skrýtið að barnið væri að segja þetta, þótt hún hafi heldur ekki verið að kaupa það að ákærði hafi verið að gera þetta.
Vitnið kvaðst hafa farið með brotaþola í skýrslutöku í Barnahúsi 13. mars 2017. Eftir viðtal við stúlkuna sagði vitnið að starfsmaður barnaverndarnefndar hefði sagt sér að barnið hefði ekki greint frá öllu sem það sagði við hana. Lagði starfsmaðurinn til að ef barnið greindi síðar frá einhverju skyldi vitnið skrifa það niður. Jafnframt hafi henni verið sagt að ekki væri útilokað að barnið þyrfti að koma aftur til skýrslutöku. Daginn eftir sagðist vitnið hafa sagt stúlkunni að ef hún þyrfti að fara aftur í Barnahús gæti verið að hún yrði spurð frekar um hvað hún og ákærði hafi gert. Hafi stúlkan mótmælt því og sagt að hún væri búin að segja frá. Nokkru síðar hafi hún hins vegar sagt að [...]. Hefði henni brugðið mjög við þetta og spurt dóttur sína hvort hún gæti sagt þetta við konuna í Barnahúsi, en hún hafi alls ekki viljað það. Hafi brotaþoli viljað að móðir hennar segði frá þessu. Kvaðst vitnið þá hafa lagt til að hún fengi að taka frásögn stúlkunnar upp á vídeó og hafi hún samþykkt það. Hafi brotaþoli þar endurtekið það sem hún hafði áður sagt. Daginn eftir kvaðst vitnið aftur hafa gefið skýrslu hjá lögreglunni. Vitnið gat þess að þegar stúlkan var sótt á leikskólann þann dag hefði hún verið búin að pissa í sig, en slíkt hefði ekki gerst frá tveggja ára aldri.
Fram kom hjá vitninu að ákærði hefði aðeins tvisvar sinnum passað brotaþola, 24. janúar og 17. febrúar 2017. Í fyrra skiptið kvaðst vitnið hafa komið heim um tíuleytið og hafi þá bæði ákærði og brotaþoli verið sofandi í rúmi brotaþola. Sagðist vitnið hafa tekið mynd af þeim og er sú mynd meðal gagna málsins. Á myndinni má sjá ákærða og brotaþola sofandi í litlu barnarúmi í herbergi brotaþola. Ákærði liggur þar við hlið brotaþola, íklæddur bol, en brotaþoli liggur undir sæng og virðist ber að ofan. Kvaðst vitnið hafa hent þessu rúmi þegar dóttir hennar fékk koju í afmælisgjöf frá ömmu sinni.
Vitnið C, faðir brotaþola, sagði að B, barnsmóðir hans, hefði hringt í hann 2. mars 2017 og sagt honum frá samtali hennar og dóttur þeirra fyrr um morguninn. Kvaðst hann minnast þess að nokkrum vikum áður, eða um það leyti sem ákærði og synir hans hafi farið að venja komur sínar á heimilið, hafi hann og sambýliskona hans tekið eftir breytingum á hegðun dóttur sinnar, en hún dvelji hjá þeim aðra hverja viku. Hafi hún verið vælin og erfið og ólík sjálfri sér, og hafi hann spurt barnsmóður sína hvort hún hafi einnig tekið eftir þessu. Vitnið kvaðst einnig hafa orðið vart við miklar breytingar í fari dóttur sinnar eftir að hún sagði móður sinni frá umræddu atviki. Þannig hafi hún pissað í sig í leikskólanum og neitað að fara þangað um nokkurt skeið, auk þess sem hún hafi ítrekað fengið martraðir. Þá greindi vitnið frá því að dóttir hans hefði fyrst í október 2017 sagt honum frá því að ákærði hefði [...]. Sagðist vitnið margoft síðar hafa rætt þetta við dóttur sína og sagt henni að þetta eigi fullorðnir ekki að gera við börn.
Vitnið F, sambýliskona föður brotaþola, sagðist hafa heyrt af máli þessu frá C, föður brotaþola, og síðar í samtali við B, móður brotaþola. Á sama hátt og faðir brotaþola greindi vitnið frá þeim breytingum sem hún hefði merkt á hegðun stúlkunnar, bæði fyrir og eftir að hún greindi móður sinni frá meintu broti ákærða.
Vitnið D barnalæknir kvaðst hafa skoðað brotaþola í Barnahúsi 10. maí 2017, ásamt E kvensjúkdómalækni, og ritað um það skýrslu sem dagsett er 16. maí það ár. Sjálfur kvaðst hann þó ekki hafa skoðað kynfæri stúlkunnar, en aðeins stuðst við teikningu sem E hafi látið honum í té, og lögð var fram sem dómskjal í málinu. Tók hann fram að myndbandsupptaka af skoðun stúlkunnar hafi farið forgörðum og því hafi hann talið nauðsynlegt að endurtaka skoðunina. Móðir stúlkunnar hafi hins vegar ekki talið slíkt nauðsynlegt.
Vitnið sagði að [...]. Hins vegar kvaðst vitnið ekki með neinu móti geta kveðið upp úr um ástæðu þess. Sérstaklega spurður hvort verið gæti að ástæða þessa væri sú að [...] sagði vitnið þó að sú gæti verið skýringin.
Vitnið E kvensjúkdómalæknir sagðist hafa skoðað kynfæri brotaþola og hafi hún, ásamt D barnalækni, ritað vottorð um þá skoðun. Vel hafi gengið að skoða stúlkuna og hafi [...]. Hins vegar hafi þeim þótt óeðlilegt að [...]. Báðum hafi þeim fundist slíkt óeðlilegt á svo ungu barni. Vitnið var þá að því spurt hvort [...] gæti bent til þess að [...] og sagði vitnið að svo gæti verið. Vitnið var einnig að því spurt hvort hún teldi að [...].
Vitnið G, leikskólakennari og hópstjóri á leikskólanum [...], sagðist hafa kynnst brotaþola í ágúst 2016, er hún tók við hópi barna á þeirri deild er brotaþoli var. Sagði hún að brotaþoli hafi verið glöð, opin og ræðin stúlka, sem greinilega hafi verið vel sinnt af foreldrum. Engu að síður kvaðst vitnið hafa skynjað breytingar á stúlkunni frá hausti, september eða október, og fram yfir áramót, en þá hafi hún ekki viljað fara í leikskólann og sleppa hendi af foreldrum sínum, auk þess sem hún hafi verið lystarlaus og ekki tekið mikinn þátt í umræðum og öðru leikskólastarfi. Þegar borinn var undir vitnið framburður hennar hjá lögreglu 13. mars 2017, þar sem hún sagðist hafa skynjað áðurnefndar breytingar á barninu í lok janúar eða byrjun febrúar, sagðist vitnið enn halda að þetta hafi byrjað seint um haustið. Þó sagðist vitnið hafa munað þetta betur þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglunni. Vitnið sagði enn fremur að engin markviss fræðsla hefði verið fyrir börnin um kynferðisofbeldi á þessum tíma, en umræða um einkastaði þeirra hefði verið tekin þegar lesnar voru bækur um slíkt efni.
Vitnið H, félagsráðgjafi og starfsmaður
Barnahúss, kvaðst alls hafa átt 17 meðferðarviðtöl við brotaþola eftir meint
brot ákærða, og liggja fyrir í málinu tvær skýrslur vitnisins, dagsettar 5.
júlí 2017 og 22. febrúar 2018. Fram kom í máli vitnisins að brotaþoli hafi
fengið martraðir og hafi meðferðin í upphafi beinst að þeim vanda. Einnig hafi
stúlkan um langt skeið glímt við aðskilnaðarkvíða, auk þess sem hún hafi í
byrjun sýnt af sér breytta og óeðlilega hegðun, svo sem að [...], eins og henni
liði þar óþægilega. Með tímanum dró þó úr þessari hegðun, allt þar til í maí
2017, en þá hafi móðir stúlkunnar greint frá því að stúlkan væri hrædd við að
sofa í herbergi móður sinnar, þar sem meint brot voru talin hafa átt sér stað.
Hafi stúlkan því aftur komið til meðferðar. Sú meðferð hafi gengið vel, en
bakslag hafi þó síðar orðið, og nefndi vitnið sérstaklega frásögn móður
stúlkunnar af ferð þeirra mæðgna í verslun þar sem stúlkan hafi talið sig finna
lykt sem minnti hana á ákærða. Hafi móðirin tjáð vitninu að við þetta hafi
stúlkan tryllst.
Vitnið I, fyrrverandi sambýliskona ákærða og barnsmóðir hans, sagði að hún og ákærði hefðu búið saman í tíu ár og ættu saman þrjá drengi, [...]. Hún sagði að ákærði væri mjög góður maður og faðir og treysti hún honum 100 prósent fyrir börnum, bæði eigin börnum og annarra. Vitnið var einnig að því spurt hvort hún hafi vitað að ákærði hafi vistað klámfengið efni, barnaníð, í síma sínum og neitaði hún því. Þá sagðist hún aldrei hafa orðið þess vör að kynferðislegur áhugi hans beindist að börnum.
Vitnið J lögreglumaður gaf skýrslu í gegnum síma. Hún kvaðst hafa annast myndskoðun í síma ákærða og hafi hún þar meðal annars fundið myndir með barna-og dýraníði, og tók fram að myndirnar hafi verið í grófari kantinum.
Vitnið K lögreglumaður kvaðst hafa
fengið síma ákærða afhentan til þess að afrita gögn af honum. Síminn hafi verið
læstur, en tekist hefði að opna hann með sérstökum hugbúnaði sem lögreglan búi
yfir. Hafi síminn verið speglaður, gögnin afrituð og fengin öðrum lögreglumanni
til skoðunar. Síðar sagðist vitnið hafa verið beðið um að rannsaka hvar
myndirnar hafi verið í símanum. Hafi þær fundist í flýtiminninu, sem tengt væri
við „Gallerí-appið“. Útskýrði vitnið að í flýtiminni, tengt „Gallerí-appinu“,
færu til dæmis myndir sem teknar væru á símann og myndir sem hlaðið væri niður.
Flýtiminni, eða „cache-minni“, væri ekki aðgengilegt fyrir notendur, heldur
væri þar um að ræða virkni fyrir stýrikerfi símans svo að fljótlegra væri að
opna myndir og vefsíður. Sagði vitnið að myndir færu ekki sjálfkrafa í
flýtiminnið, til dæmis þegar notandi fengi sendan hlekk, heldur þyrfti
notandinn að opna hlekkinn. Að öðrum kosti vistist myndirnar ekki í flýtiminni
símans. Fullyrti vitnið að myndirnar í síma ákærða hefðu verið opnaðar, að
öðrum kosti hefðu þær ekki farið í flýtiminnið.
Niðurstaða
Eins og fram er komið neitar ákærði alfarið að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruliðum 1 og 2. Krefst hann aðallega sýknu, en til vara að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið. Til þrautavara krefst hann vægustu refsingar sem lög heimila. Þá krefst hann þess að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði verulega lækkuð. Loks er þess krafist að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, greiðist úr ríkissjóði.
Að því er varðar 3. tölulið ákærunnar játar ákærði sök og krefst vægustu refsingar sem lög framast leyfa.
1. töluliður ákæru
Ákæruvaldið byggir kröfu sína um sakfellingu ákærða samkvæmt þessum ákærulið á framburði brotaþola, framburði vitna og fyrirliggjandi gögnum. Í því sambandi er sérstaklega vísað til framburðar móður brotaþola sem ákæruvaldið telur trúverðugan. Þá hafi brotaþoli skýrt og greinilega sagt frá brotum ákærða í viðtölum við starfsmenn Barnahúss. Vanlíðan barnsins eftir brot ákærða, breytt hegðun þess og teikningar barnsins í meðferðarviðtölum styðji og frásögn þess. Fyrirliggjandi læknisvottorð um skoðun á [...] renni enn fremur stoðum undir sekt ákærða. Í ljósi þessa telur ákæruvaldið að leggja beri framburð stúlkunnar og móður hennar til grundvallar, enda sé hann trúverðugur. Að sama skapi sé framburður ákærða ótrúverðugur.
Sýknukrafa ákærða byggist á því að brot þau sem ákærði er sakaður um í 1. tölulið ákæru séu tilbúningur og hafi aldrei átt sér stað. Bendir hann á að ekkert saknæmt hafi komið fram í fyrsta viðtali við brotaþola og gerir um leið athugasemd við að ýmis vitni hafi síðan verið kölluð til, bæði hjá lögreglu og fyrir dóm, sem öll eigi það sammerkt að vera í nánum tengslum við móður brotaþola. Þá byggir hann á því að móðir brotaþola hafi, annaðhvort vísvitandi eða ómeðvitað, lagt barninu orð í munn í síðari skýrslutöku þess í Barnahúsi, svo og að viðmælendur þess í báðum skýrslutökum hafi lagt hart að barninu með leiðandi spurningum. Með svörum sínum hafi barnið verið að þóknast viðmælendum, en ekki að greina frá staðreyndum.
Eins og fram er komið er upphaf þessa máls að rekja til bréfs barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar 3. mars 2017 til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í bréfinu er skýrt frá því að daginn áður hafi móðir brotaþola hringt í starfsmann barnaverndarnefndar og lýst áhyggjum af atviki sem þá hafði gerst fyrr um morguninn. Hafði stúlkan þá [...]
Í skýrslu sinni hjá lögreglu og síðar fyrir dómi sagði móðir brotaþola frá atvikum á sama veg og að ofan. Fyrir dómi sagði hún einnig að skömmu fyrir afmæli dóttur sinnar hefði hún sótt hana í leikskólann og hefði stúlkan þá spurt hvort synir ákærða kæmu ekki í afmælið, en afmæli hennar var [...] mars. Þegar móðirin sagði dóttur sinni að hún og ákærði væru ekki lengur kærustupar og ákærði byggi því ekki lengur hjá þeim, hafi stúlkan tekið því illa og grátið óstjórnlega. Í SMS-skilaboðum frá móðurinni til ákærða, sem lögð voru fram við meðferð málsins, segir móðirin svo um þetta: „Er óskynsamlegt að bjóða strákunum í afmælið? A er nánast óhuggandi. Var að sækja hana og hún skilur ekki neitt í því af hverju hún hitti ykkur ekki aftur og segir að afmælisdagurinn verði ömurlegur. En þegar ég sótti hana var hún eitt sólskinsbros yfir því að það væru bara 8 dagar.“ Ákærði svaraði móðurinni með eftirfarandi skilaboðum: „Æ vá það er sárt að heyra. En nei nei eða þú veist ég held ekki eða hvað heldur þú?“ Tveimur dögum síðar, á fimmtudagsmorgni, sagði móðirin að dóttir hennar hefði svo greint sér frá því atviki sem áður er lýst og er upphaf þessa máls.
Ákærði var handtekinn 10. mars 2017 og færður til yfirheyrslu. Neitaði hann því að hafa brotið gegn stúlkunni. Hann greindi hins vegar frá atviki er stúlkan [...]. Mun þetta hafa átt sér stað 24. janúar 2017, en móðir stúlkunnar hafði þá beðið ákærða um að passa hana. Einnig skýrði ákærði frá því er móðir stúlkunnar bað hann um að skutla henni í leikskólann, en samkvæmt framburði ákærða mun stúlkan þá hafa [...]. Frásögn ákærða af atvikum þessum hefur verið rakin hér að framan og er samhljóða hjá lögreglu og fyrir dómi.
Í skýrslutöku í Barnahúsi 13. mars 2017 kom ekkert fram sem benti til þess að frásögn stúlkunnar af meintu broti ákærða, sem hún sagði móður sinni frá skömmu áður, ætti við rök að styðjast. Þannig sagði hún að enginn hefði gert neitt við hennar einkastaði og bætti við að hún myndi segja stopp ef einhver vildi gera það. Ekki sagðist hún heldur hafa rekist í einkastaðinn á mömmu sinni og ekki skýrði hún frá því er hún reyndi að [...], en bæði báru þau um að stúlkan hefði reynt það. Síðar í skýrslutökunni sagði stúlkan hins vegar að ákærði hefði [...] þegar hann var að svæfa hana í rúmi mömmu hennar, og hefði mamma hennar þá verið frammi. Enn síðar sagði stúlkan að ákærði hefði [...], þegar þau voru að lesa bók í kósý-horninu undir kojunni. Sagðist stúlkan einnig hafa sagt mömmu sinni frá þessu. Hins vegar neitaði barnið því að ákærði hefði strokið henni einhvers staðar annars staðar. Bæði ákærði og mamma hennar hefðu þó stundum hjálpað henni að skeina sig. Loks neitaði hún því að hafa einhvern tíma sofið nakin.
Fram er komið að móðir brotaþola tók mynd af ákærða og dóttur sinni er hún kom heim að kvöldi 24. janúar 2017. Á myndinni má sjá ákærða og brotaþola sofandi í barnarúmi og er ákærði þar íklæddur bol, en brotaþoli virðist ber að ofan. Sagðist móðirin hafa hent þessu rúmi þegar dóttir hennar fékk koju í afmælisgjöf frá ömmu sinni. Samkvæmt lýsingu brotaþola í skýrslutökum í Barnahúsi er koja þessi inni hjá mömmu hennar, með stiga og engu rúmi neðar, og sagðist brotaþoli sofa þar hátt uppi. Þar sem barnið fékk koju þessa í afmælisgjöf frá ömmu sinni [...] mars, en ákærði sleit sambandi við móður barnsins [...] febrúar, er ljóst að hvorki umrædd koja né kósý-hornið undir henni var á heimili þeirra mæðgna þegar ákærði á að hafa [...], eins og barnið lýsti í skýrslutöku í Barnahúsi.
Fyrir dómi sagði móðir brotaþola að eftir skýrslutökuna í Barnahúsi hafi starfsmaður barnaverndarnefndar sagt henni að barnið hefði ekki greint frá öllu sem það sagði henni, og lagði til að ef það myndi síðar greina frá einhverju skyldi hún skrifa það niður. Jafnframt hafi starfsmaðurinn sagt að ekki væri útilokað að barnið þyrfti að koma aftur til skýrslutöku. Daginn eftir sagðist móðirin hafa sagt dóttur sinni að ef hún þyrfti að fara aftur í Barnahús gæti verið að hún yrði spurð frekar um hvað hún og ákærði hafi gert. Mun dóttirin hafa mótmælt því og sagt að hún væri búin að segja frá. Skömmu síðar hafi barnið hins vegar sagt að [...]. Þar sem barnið hafi alls ekki viljað segja konunni í Barnahúsi þetta sagðist móðirin hafa lagt til að hún fengi að taka frásögnina upp á vídeó og hafi stúlkan samþykkt það og endurtekið þar frásögn sína. Upptaka þessi er þó ekki meðal gagna málsins og sætir það furðu.
Daginn eftir, 15. mars 2017, gaf móðir brotaþola skýrslu hjá lögreglu um umrætt atvik. Í skýrslunni ræðir hún meðal annars um samtal sitt við dóttur sína eftir skýrslutöku hennar í Barnahúsi 13. mars og aðdraganda þess að dóttir hennar sagði frá ofangreindu. Kvaðst hún hafa talið óhætt að dóttir hennar vissi af hverju hún þyrfti að fara þangað aftur og tala við konuna. Orðrétt segir hún síðan: „Og hún sagði af hverju þarf hún að tala við mig og svona og ég segi við hana að hún vilji kannski vita eitthvað meira hérna um hana og X. Og hérna og kannski vilji hún, kannski vilji hún heyra eitthvað meira sem að þið gerðuð.“ Fram kemur einnig við skýrslutökuna að móðirin ræddi daginn áður við lögreglumanninn sem stjórnaði skýrslutökunni og má skilja orð hennar svo að hún hafi talið að lögreglumaðurinn hafi sagt henni að í lagi væri að undirbúa stúlkuna fyrir síðari skýrslutöku í Barnahúsi. Lögreglumaðurinn sagðist þá ekki hafa sagt móðurinni að undirbúa stúlkuna fyrir síðara viðtal og bætti síðar við: [...] „bara ég vil að það komi skýrt fram sem sé að þetta sé, hafi ekki verið einhvers konar, ég var ekki að hvetja.“
Brotaþoli gaf aftur skýrslu í Barnahúsi 18. apríl 2017, eða rúmum mánuði eftir samtal hennar og móður hennar 14. mars sama ár. Hefur efni hennar þegar verið rakið, en ljóst er að þá greindi barnið frá allt öðrum og mun alvarlegri brotum en í fyrri skýrslutöku þess. Í tilefni af því var ákærði yfirheyrður á ný af lögreglu 26. maí 2017 og kvaðst hann standa við allt sem hann sagði í fyrri yfirheyrslu. Hafnaði hann með öllu ásökunum um að hafa [...]. Fyrir dómi neitaði hann því einnig alfarið að hafa [...]. Í öllum meginatriðum er fullur samhljómur í framburði hans hjá lögreglu og síðar fyrir dómi.
Ekki liggur ljóst fyrir hvenær ákærði á að hafa framið það brot sem stúlkan lýsti í samtali við móður sína 14. mars 2017, en samkvæmt ákæru er á því byggt að hann hafi framið það 24. janúar og 17. febrúar 2017. Óumdeilt er að ákærði var einn með brotaþola að kvöldi beggja þessara daga, en í bæði skiptin hafði móðir stúlkunnar beðið hann um að passa dóttur sína. Í fyrra skiptið kom móðirin heim um tíuleytið um kvöldið og kom þá að ákærða og dóttur sinni sofandi í barnarúminu og tók þá af þeim ljósmyndina sem áður er getið. Hjá lögreglu sagðist ákærði hafa hitt þær mæðgur það kvöld á [...] og hafi hann og brotaþoli verið komin heim einhvers staðar á milli átta og níu. Í sömu yfirheyrslu sagði hann að í seinna skiptið hefði hann sótt stúlkuna á leikskólann, farið með hana í vinnuna og leyft henni að prófa gröfu. Að því loknu hafi þau farið í Krónuna og svo heim, þar sem stúlkan hafi lagst í sófann og farið að horfa á barnaefni. Eftir það hafi þau meðal annars farið að lita. Bróðir B, móður brotaþola, hefði komið í heimsókn um áttaleytið og stoppað í korter til tuttugu mínútur. Síðan kvaðst ákærði hafa lesið og sungið fyrir stúlkuna og hún farið að sofa í sínu rúmi. Aðspurður sagðist hann umrætt sinn hafa verið í vinnubuxum, en farið úr þeim og því verið smástund á nærbuxum, en síðan klætt sig í aðrar buxur og bol. Fyrir dómi sagðist ákærði hafa verið á nærbuxunum þegar bróðir B kom í heimsókn og hafi honum þótt það vandræðalegt. Mundi hann eftir því að hafa sent B SMS-skilaboð um kvöldið, þar sem hann sagði frá heimsókn bróður hennar og að hann hafi þá verið á nærbuxunum. Þá kvaðst hann hafa verið vakandi þegar B kom heim um eittleytið um nóttina. Af óútskýrðum ástæðum er ekki að sjá að lögreglan hafi sannreynt frásögn ákærða af heimsókn móðurbróður brotaþola og ekki gaf sá heldur skýrslu fyrir dómi. Telur dómurinn það alvarlega yfirsjón við rannsókn jafn alvarlegs brots og hér um ræðir.
Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að brotaþoli hafi á neinn hátt verið búin undir skýrslutöku í Barnahúsi 13. mars 2017. Síðari frásögn brotaþola af meintum brotum ákærða vekur hins vegar óneitanlega athygli, ekki aðeins vegna alvarleika þeirra, heldur einnig vegna þess að brotaþoli greindi móður sinni frá þeim daginn eftir áðurnefnda skýrslutöku. Á þeim tíma hafði móðir stúlkunnar sagt henni að ef hún þyrfti að fara aftur í Barnahús gæti verið að hún yrði spurð frekar um hvað hún og ákærði hafi gert, en stúlkan mun þá hafa mótmælt því og sagt að hún væri búin að segja frá. Ósagt skal látið hvort stúlkan hafi við orð móður sinnar viljað þóknast henni, en viðbrögð hennar voru engu að síður þau að hún lýsti þeim brotum sem ákærði er sakaður um í máli þessu, fyrst fyrir móður sinni og rúmum mánuði síðar við skýrslutöku í Barnahúsi. Breytt viðhorf stúlkunnar til ákærða á skömmum tíma vekur einnig athygli, en eins og áður er rakið grét hún óstjórnlega þegar móðir hennar upplýsti hana um að hún og ákærði væru ekki lengur kærustupar, og því kæmi hvorki hann né strákarnir hans í afmæli hennar. Minnt er einnig á að í fyrri skýrslutöku í Barnahúsi sagði stúlkan að ákærði væri fínn, þau léku sér stundum í mömmó og máluðu og lituðu saman. Í síðari skýrslutökunni sagði stúlkan hins vegar að það væri fínt að ákærði gisti ekki lengur á heimilinu. Við mat á trúverðugleika frásagnar stúlkunnar verður að líta til þessa, og ekki síður til áðurrakins framburðar móðurinnar í skýrslu hennar hjá lögreglu 15. mars 2017, sem vart verður skilinn öðruvísi en svo að hún hafi eftir samtal við lögreglumanninn sem stjórnaði yfirheyrslunni, talið óhætt að undirbúa stúlkuna fyrir síðara viðtal í Barnahúsi. Reyndar mótmælti lögreglumaðurinn því að hann hafi sagt móðurinni að undirbúa stúlkuna fyrir það viðtal.
Ákæruvaldið bendir á að báðir foreldrar stúlkunnar, auk stjúpmóður hennar og leikskólakennara, hafi veitt athygli miklum breytingum á hegðun stúlkunnar eftir meint brot ákærða. Reyndar kvaðst faðir stúlkunnar og sambýliskona hans hafa tekið eftir breytingum á hegðun stúlkunnar nokkru áður, og lýstu þeim þannig að hún hafi verið vælin, erfið og ólík sjálfri sér. Sagði faðirinn að það hafi verið um það leyti sem ákærði og synir hans fóru að venja komur sínar á heimili móðurinnar. Þá sagði faðirinn að stúlkan hafi ítrekað fengið martraðir eftir meint brot ákærða. Vitnið H félagsráðgjafi staðfesti einnig að stúlkan hafi glímt við martraðir og hafi viðtalsmeðferð hennar í upphafi beinst að þeim vanda, en síðar einnig að aðskilnaðarkvíða. Telur ákæruvaldið að ofangreint styðji frásögn barnsins af meintum brotum.
Engin efni eru til að draga í efa frásagnir ofangreindra aðila um breytta hegðun stúlkunnar um það leyti sem hún lýsti meintum brotum ákærða. Hins vegar verður ekki á þeim byggt sem sönnun þess að ákærði hafi framið þau brot sem hann er sakaður um, enda liggur ekkert fyrir um að orsök breyttrar hegðunar verði rakin til meintra brota.
Af hálfu ákæruvaldsins er loks á því byggt að framlagt læknisvottorð tveggja lækna sem skoðuðu brotaþola í Barnahúsi, svo og vætti þeirra fyrir dómi, styrki frásögn stúlkunnar, en í vottorði þeirra komi fram að óeðlilegt [...]. Hvorugur læknanna kvaðst geta kveðið upp úr um ástæðu þessa, en báðir sögðu þó aðspurðir að skýringin gæti verið sú að [...]. Annar læknanna var þá að því spurður hvort [...], en þyrfti ekki að gera það. Hins vegar tók læknirinn fram að það hefði verið [...]. Í tilefni af þessu þykir rétt að minna á framburð brotaþola í seinni skýrslutöku í Barnahúsi, en þar sagði stúlkan að ákærði hefði [...]. Þó hefði hún ekki meitt sig. Þá er hvergi í gögnum málsins að finna vísbendingar um að fundist hafi [...].
Eins og áður greinir hefur ákærði staðfastlega neitað sök og er framburður hans, bæði hjá lögreglu og síðar fyrir dómi, samhljóða og stöðugur. Framburður brotaþola er hins vegar misvísandi í nokkrum atriðum og að því leyti ótraustur að ekki er unnt að útiloka áhrif annarra á framburð hennar. Í því ljósi, en einnig að öðrum atriðum gættum sem nefnd hafa verið hér að framan, þykir ekki unnt að slá því föstu, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er sakaður um samkvæmt þessum ákærulið. Verður hann því sýknaður af þeirri háttsemi og einkaréttarkröfu brotaþola vísað frá dómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.
2. töluliður ákæru
Eins og ákæruvaldið hefur nú breytt þessum ákærulið er ákærði sakaður um að hafa á tímabilinu 2. október 2016 til 10. mars 2017 skoðað 85 ljósmyndir og eina hreyfimynd í Samsung Galaxy S7 Edge farsíma sínum, en myndir þessar sýna börn á kynferðislegan hátt. Er háttsemin talin varða við 2. mgr. 210. gr. a í almennum hegningarlögum nr. 19/1940.
Fram er komið að ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið og krefst sýknu. Hefur hann skýrt umræddar myndir í síma sínum þannig að hann hafi verið að vafra á milli spjallsíðna þar sem klámfengnar, en eðlilegar myndir, hafi verið sendar á milli manna. Líklega hafi hann ýtt á einhvern hlekk sem fært hafi hann í ógáti inn á einhverja aðra netsíðu, og hafi myndirnar þá vistast óumbeðið í síma hans. Hafi hann „skrollað“ niður síðuna, en séð að þarna var eitthvað athugavert og því strax farið út af síðunni. Hann neitaði því að hafa opnað myndirnar og skoðað þær, en gat ekki skýrt hvers vegna búið væri að opna sumar þeirra oft.
Vitnið K lögreglumaður sagði fyrir dómi að hann hefði afritað gögn úr síma ákærða og þar hafi umræddar myndir fundist í flýtiminni hans. Tók hann fram að myndir færu ekki sjálfkrafa í flýtiminnið, til dæmis þegar notandi fengi sendan hlekk, heldur þyrfti notandinn að opna hlekkinn. Að öðrum kosti vistuðust myndirnar ekki í flýtiminni símans.
Með vísan til ofangreindra skýringa lögreglumannsins á hvar umræddar myndir var að finna í síma ákærða, þykja skýringar ákærða ekki trúverðugar. Þá liggur fyrir að ákærði opnaði og skoðaði að minnsta kosti einhverja þessara mynda áður en hann fór út af netsíðunni, enda hefði hann að öðrum kosti ekki séð að þar var eitthvað athugavert efni að finna. Samkvæmt því þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem að ofan greinir og varðar brot hans við 2. mgr. 210. gr. a í almennum hegningarlögum nr. 19/1940.
Samkvæmt því sem að framan er rakið er ákærði sýknaður af þeim verknaði sem lýst er í 1. tölulið ákærunnar. Hins vegar verður hann sakfelldur fyrir brot það sem greinir í varakröfu 2. töluliðar og 3. tölulið ákærunnar, en eins og fram er komið hefur hann játað sök samkvæmt síðastnefnda ákæruliðnum.
Ákærði er fæddur í [...] og hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin 300.000 króna sekt til ríkissjóðs, og skal hún greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, en ella sæti ákærði fangelsi í 20 daga. Þá verður honum, með vísan til 1. tl. 69. gr. a í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, gert að sæta upptöku á áðurnefndum farsíma af gerðinni Samsung Galaxy S7 Edge, og 1,44 g af kókaíni, sem lögreglan fann við leit á ákærða og lagði hald á.
Með hliðsjón af úrslitum málsins og vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 þykir rétt að allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Unnsteins Arnar Elvarssonar lögmanns, 2.039.490 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns, 1.052.450 krónur, og þóknun réttargæslumanns á rannsóknarstigi málsins, Jóhönnu Sigurjónsdóttur lögmanns, 84.320 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X, greiði 300.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, en sæti ella fangelsi í 20 daga.
Einkaréttarkröfu B og C, fyrir hönd A, er vísað frá dómi.
Upptækur skal gerður til ríkissjóðs farsími ákærða af gerðinni Samsung Galaxy S7 Edge, og 1,44 g af kókaíni.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Unnsteins Arnar Elvarssonar lögmanns, 2.039.490 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns, 1.052.450 krónur, og þóknun réttargæslumanns á rannsóknarstigi málsins, Jóhönnu Sigurjónsdóttur lögmanns, 84.320 krónur.
Ingimundur Einarsson