• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Upptaka

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 9. nóvember 2018 í máli nr. S-536/2018:

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)

gegn

Antonio Lopez Ojeda

(Halldóra Aðalsteinsdóttir lögmaður)

I

Mál þetta, sem þingfest var 6. nóvember 2018 og dómtekið sama dag, höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 25. október 2018 á hendur Antonio Lopez Ojeda, fæddum [...], spænskum ríkisborgara, nú með dvalarstað í fangelsinu Litla-Hrauni,

fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 26. ágúst 2018, staðið að innflutningi á samtals 832,19 g af kókaíni ætluðum til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin, sem eru að styrkleika 39-40% kókaín sem samsvarar 44-45% kókaínklóríðs, flutti ákærði til landsins sem farþegi með flugi FI-599 frá Madrid á Spáni, falin í skónum sínum en ákærði var handtekinn við komuna til landsins.

Telst brot ákærða varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Jafnframt er þess krafist að gerð verði upptæk ofangreind fíkniefni sem hald var lagt á, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2 mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.“

Ákærði kom fyrir dóminn, játaði skýlaust brot sitt og féllst á kröfu ákæruvaldsins um upptöku tilgreindra fíkniefna. Var því farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjandi og verjandi höfðu tjáð sig stuttlega um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Krafðist ákærði vægustu refsingar sem lög leyfa og að allur sakarkostnaður yrði greidd úr ríkissjóði.

II

Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði er fæddur í [...] og er spænskur ríkisborgari. Engra gagna nýtur við um að ákærði hafi áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Fyrir lögreglu kvaðst ákærði ekki vera eigandi fíkniefnanna, en hann hafi tekið að sér að flytja þau hingað til lands gegn þóknun. Eru ekki efni til að draga frásögn hans í efa og verður til þess litið við ákvörðun refsingar hans. Jafnframt ber að taka tillit til þess að ákærði var allt frá fyrstu tíð samvinnufús við rannsókn lögreglu og greindi hann skilmerkilega frá atvikum. Fyrir dómi játaði hann og skýlaust sök. Á hinn bóginn verður ekki framhjá því horft að ákærði stóð að innflutningi mikils magns fíkniefna. Með hliðsjón af 1., 5. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940, dómaframkvæmd og magni og styrkleika þeirra efna sem brot ákærða tekur til, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 26. ágúst 2018 að fullri dagatölu, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002, er fallist á kröfu ákæruvaldsins um upptöku tilgreindra fíkniefna. 

Samkvæmt framlögðum reikningum nemur sakarkostnaður vegna lögreglurannsóknar alls 155.060 krónum. Með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til greiðslu þeirrar fjárhæðar, auk þóknunar til skipaðs verjanda síns, Halldóru Aðalsteinsdóttur lögmanns, 741.210 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, svo og ferðakostnaðar lögmannsins, 80.080 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanns og ferðakostnaðar er höfð hliðsjón af leiðbeinandi reglum dómstólasýslunnar nr. 11/2018.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

  Ákærði, Antonio Lopez Ojeda, sæti fangelsi í 12 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðahald sem ákærði hefur sætt frá 26. ágúst 2018 að fullri dagatölu.

Ákærði sæti upptöku á 832,19 g af kókaíni.

Ákærði greiði 976.350 krónur í sakarkostnað, þar af 741.210 krónur í þóknun til skipaðs verjanda síns, Halldóru Aðalsteinsdóttur lögmanns, og 80.080 krónur í ferðakostnað lögmannsins.

 

Ingimundur Einarsson