• Lykilorð:
  • Börn
  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur
  • Fangelsi
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 24. október 2018 í máli nr. S-111/2018:

Ákæruvaldið

(Katrín Hilmarsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

X

(Bjarni Hauksson lögmaður)

 

Mál þetta, sem tekið var til dóms 29. ágúst sl., höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 1. mars 2018 á hendur ákærða, Z, kt. […], til heimilis að […], […];

„fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum, gegn stjúpdóttur sinni, A, kt. […], sem hér segir:

 

1.      Með því að hafa í eitt skipti í desember 2015 á þáverandi sameiginlegu heimili þeirra að […], […], sært blygðunarkennd A með því að kíkja í gegnum skráargat á dyrum að baðherbergi  þar sem stúlkan var að baða sig.

2.      Með því að hafa þann 5. desember 2016, á þáverandi sameiginlegu heimili þeirra að […], […], sært blygðunarkennd A með því að kíkja í gegnum skráargat á dyrum að baðherbergi, þar sem stúlkan var inni.

 

Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kt. […], er gerð sú krafa að ákærði verði dæmdur til að greiða henni kr. 700.000,- ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. desember 2016 til þess dags er liðinn verður mánuður frá því að krafa þessi er kynnt ákærða en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. IV. kafla laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. laganna, allt til greiðsludags. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar vegna starfa réttargæslumanns að viðbættum virðisaukaskatti, að mati dómara eða skv. framlögðum málskostnaðarreikningi verði slíkur reikningur lagður fram.

Kröfur ákærða:

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af sakargiftum samkvæmt báðum töluliðum ákæru. Til vara krefst ákærði vægustu refsingar sem lög leyfa. Hvað bótakröfu brotaþola varðar krefst ákærði aðallega sýknu af kröfunni en til vara að krafan verði lækkuð. Þá krefst ákærði þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda.

I

Hinn 5. desember 2016 kom B á lögreglustöð í […] ásamt dóttur sinni, A, brotaþola í málinu, og tilkynnti að ákærði, stjúpfaðir brotaþola og eiginmaður tilkynnanda, hefði kíkt á brotaþola á meðan hún var í sturtu. Ákærði var handtekinn í kjölfar tilkynningarinnar og færður í fangageymslur lögreglu. Ákærði gaf skýrslu vegna málsins daginn eftir og gekkst hann þá við því að hafa stungið grillpinna í gegnum skráargat á baðherbergishurð á heimili fjölskyldunnar í þeim tilgangi að sjá inn í herbergið þar sem brotaþoli var inni. Um ástæðu þeirrar háttsemi sinnar gat ákærði ekki borið. Hann kannaðist hins vegar ekki við að hafa gert nokkuð af þessum toga áður.

Brotaþoli gaf skýrslu vegna málsins hjá lögreglu sama dag. Lýsti brotaþoli tveimur tilvikum þar sem hún taldi að ákærði hefði kíkt á hana þegar hún var inni á baðherbergi. Fyrra tilvikið sagði brotaþoli hafa gerst í desember 2015. Hið síðara hefði átt sér stað ári síðar, daginn fyrir skýrslugjöf brotaþola hjá lögreglu, þ.e. 5. desember 2016.

Undir rannsókn málsins var jafnframt tekin skýrsla af móður brotaþola. Skýrði hún lögreglu frá frásögn brotaþola af áðurnefndum tveimur tilvikum. Þá rannsakaði lögregla síma ákærða og síðu hans á samskiptamiðlinum Facebook. Þar mátti finna ítrekaðar afsökunarbeiðnir ákærða til brotaþola og móður hennar án þess að fram kæmi á hverju hann væri að biðjast afsökunar. Í tölvum ákærða fann lögregla enn fremur nokkurt magn leitarstrengja þar sem leitað hafði verið eftir klámefni sem tengdist kynlífi á milli stjúpföður og stjúpdóttur.

Upplýst er í málinu að ákærði og móðir brotaþola eru skilin. Þau munu hafa sótt um skilnað í desember 2016.

Rannsókn lögreglu lauk í apríl 2017. Ákæra var síðan gefin út á hendur ákærða 1. mars 2018 samkvæmt áðursögðu.

II

Þegar mál þetta var þingfest 9. maí 2018 kom ákærði fyrir dóm og neitaði sök samkvæmt báðum liðum ákæru. Við upphaf aðalmeðferðar málsins sagði hann þá afstöðu sína óbreytta.

Í skýrslu sinni fyrir dómi tók ákærði fram að atvik það sem vísað væri til í ákærulið 1 hefði ekki gerst að […] í […]. Fjölskyldan hefði þá verið flutt að […] í […]. Ákærði sagði rangt að hann hefði umrætt sinn kíkt inn um skráargat á baðherbergishurð. Hann hefði einungis farið að baðherbergisdyrunum og sótt dóttur sína, hálfsystur brotaþola, sem staðið hefði við hurðina og ætlað inn á baðherbergið til systur sinnar. Ákærði kvaðst hafa vitað af brotaþola inni á baðherberginu en ekkert séð til hennar, enda hefði systur hennar ekki tekist að opna dyrnar. Hvort baðherbergisdyrnar voru læstar sagðist ákærði ekki vita. Hann kvaðst heldur ekki vita hvort lykillinn að baðherbergisdyrunum hefði fallið í gólfið umrætt sinn. Þá lýsingu af atvikum sem ráða mætti af skýrslu ákærða hjá lögreglu um að litla stúlkan hefði ýtt á hurðina umrætt sinn og dyrnar við það opnast sagði ákærði ekki rétta.

Fyrir dómi viðurkenndi ákærði að hafa 5. desember 2016 reynt að kíkja í gegnum skráargat á hurðinni á baðherberginu á heimili fjölskyldunnar að […] í […]. Ákærði kvaðst hafa séð til brotaþola sem staðið hefði fyrir framan spegilinn á baðinu og verið að bursta í sér tennurnar. Stúlkan hefði þá verið klædd. Kannaðist ákærði einnig við að hafa stungið grillpinna í gegnum skráargatið til þess að ýta fatnaði til hliðar. Ákærði sagðist ekki geta skýrt þessa háttsemi sína en með henni hefði hann gert mistök sem hann sæi mjög eftir. Kom fram hjá ákærða að brotaþoli hefði haft það fyrir venju að hengja fatnað á húninn á baðherbergishurðunum á heimilinu og skilja hann þar eftir.

Fyrir dómi staðfesti ákærði að leitarstrengi, sem tilgreindir eru í rannsóknar­gögnum lögreglu, hefði verið að finna í tölvum er verið hefðu í hans umráðum og lögregla haldlagði og tók til rannsóknar. Ákærði kannaðist einnig við að hafa sent skilaboð á Facebook og SMS-skilaboð til að biðjast afsökunar á framangreindum mistökum sínum. Ákærði neitaði því aftur á móti að hann hefði haft kynferðislegan áhuga á brotaþola.

III

A, brotaþoli í málinu, bar fyrir dómi að bæði þau tilvik sem ákæra málsins tæki til hefðu átt sér stað að […] í […]. Brotaþoli sagði fyrra tilvikið hafa átt sér stað á árinu 2015. Brotaþoli hefði verið í sturtu þegar hún hefði heyrt lykilinn að baðherbergisdyrunum falla í gólfið. Brotaþoli hefði ekkert aðhafst vegna þess heldur lokið við steypibaðið og síðan dregið sturtuhengið frá. Í sömu svifum hefði brotaþoli heyrt ákærða segja að næst skyldi hún gæta sín betur þar sem yngri systir brotaþola hefði farið inn á baðherbergið á meðan brotaþoli var í sturtunni. Brotaþoli hefði síðan séð hvar lykillinn lá í gólfinu. Þegar hún hefði sett lykilinn á sinn stað hefði hún tekið í hurðina og staðreynt að dyrnar voru læstar. Kvaðst brotaþoli ávallt hafa læst baðherbergisdyrunum þegar hún var inni á baðherberginu. Því væri útilokað að frásögn ákærða af því að systir brotaþola hefði farið inn á baðherbergið gæti verið sönn. Brotaþoli hefði orðið áhyggjufull og kvíðin vegna þessa atviks en samt haldið sínu striki. Hún hefði síðan greint móður sinni frá því sem gerðist síðar þennan sama dag.

Síðara tilvikið kvað brotaþoli hafa átt sér stað 5. desember 2016, um kl. 11:00 að morgni. Vegna fyrra tilviksins sagðist brotaþoli hafa haft varann á sér og hún því tekið bréfþurrku, hnoðað henni saman og troðið í skráargatið. Hún hefði jafnframt hengt gallabuxur á hurðarhúninn og lagt handklæði á gólfið þannig að ákærði gæti hvorki kíkt inn um skráargatið né undir hurðina.

Brotaþoli kvaðst þennan morgun hafa verið að fara í sturtu. Um það hefði ákærða verið fullkunnugt. Áður en brotaþoli fór í sturtuna hefði hún burstað tennurnar. Hún hefði staðið klædd við vaskinn, mögulega í náttfötum, og verið að tannbursta sig þegar hún hefði séð gallbuxurnar hreyfast. Buxurnar hefðu verið við það að falla í gólfið og hefði hún því gripið í þær. Brotaþoli hefði þá veitt því athygli að búið var að stinga pinna í gegnum skráargatið til að hreyfa við buxunum. Þegar brotaþoli áttaði sig á þessu hefði hún orðið hrædd og ekki vitað hvernig hún ætti að bregðast við. Hún hefði þó ákveðið að fara ekki út af baðherberginu strax, þar sem hún hefði getað átt von á að mæta ákærða fyrir utan dyrnar, heldur halda sínu striki og fara í sturtu, eins og hún hefði ætlað sér. Síðar um daginn, eftir að móðir brotaþola kom heim og ákærði var farinn til vinnu, hefði hún sagt móður sinni frá því sem gerðist.

Brotaþoli sagði móður sína hafa rætt við ákærða eftir að brotaþoli greindi henni frá því sem gerðist um morguninn. Ákærði hefði í kjölfarið beðið brotaþola afsökunar á framkomu sinni í SMS-skeyti.

Um samband sitt við ákærða bar brotaþoli að hún hefði litið á hann sem föður sinn, en blóðfaðir hennar væri ekki búsettur hér á landi. Það væri ástæða þess að brotaþoli hefði ákveðið að fyrirgefa ákærða eftir að fyrra tilvikið átti sér stað, þrátt fyrir að hann hefði aldrei beðist afsökunar á því.

Brotaþoli sagði lýst tvö atvik hafa valdið sér óöryggi og kvíða. Nefndi brotaþoli sérstaklega að vegna þeirra væri henni ekki rótt þegar hún færi í sturtu, sér í lagi þegar hún vissi af karlmanni nærri.

B, móðir brotaþola og fyrrverandi eiginkona ákærða, bar fyrir dómi að í desember 2015 hefði fjölskyldan búið að […] í […]. Þangað hefðu þau flust í nóvember 2014.

Vegna tvíræðra skilaboða, sem vitnið hefði fregnað að ákærði hefði sent stúlkum er passað hefðu fyrir þau, hefði vitnið rætt við brotaþola og sagt henni að gjalda varhug við skilaboðum af þeim toga frá ákærða. Hefði vitnið brýnt fyrir brotaþola að láta sig vita ef slík skilaboð bærust.

Vitnið kvað brotaþola hafa greint sér frá tilviki þar sem stúlkan hefði orðið vör við að lykill, sem staðið hefði í skránni að baðherbergisdyrunum, féll í gólfið á meðan hún var í sturtu. Í sömu andrá hefði ákærði kallað til hennar að hún þyrfti að gæta að sér þegar hún færi í sturtu þar sem litla systir hennar vildi fara inn á baðherbergið. Brotaþola hefði ekki brugðið við þetta fyrr en hún áttaði sig á því stuttu síðar að baðherbergisdyrnar voru læstar og að lykillinn hefði því ekki getað dottið úr skránni öðruvísi en honum hefði verið ýtt. Í kjölfarið hefði vitnið rætt þetta atvik við ákærða sem borið hefði því við að litla systir brotaþola, dóttir ákærða og vitnisins, hefði verið að leika sér inni á baðherberginu. Vitnið sagðist þá hafa gert sér grein fyrir því að ákærði sagði ósatt. Vitninu hefði verið vandi á höndum vegna þessa atviks og hefði það haft slæm áhrif á samband þeirra ákærða. Um mánuði síðar hefði vitnið fært þetta atvik aftur í tal við ákærða sem í fyrstu hefði neitað öllu misjöfnu en hann síðan beðist fyrirgefningar og sagt að þetta myndi ekki gerast aftur. Vitnið hefði síðan rætt atvikið að nýju við brotaþola og eftir það hefðu þær mæðgur ákveðið að fyrirgefa ákærða framkomu hans. Vitnið hefði allt að einu lagt fast að brotaþola að gæta að sér og lagt til við hana að þegar hún færi í sturtu skyldi hún hengja eitthvað á hurðarhúninn á baðherbergishurðinni, svo að ekki væri hægt að kíkja inn um skráargatið.

Þá bar vitnið jafnframt að síðla dags 5. desember 2016, eftir að ákærði var farinn til vinnu, hefði brotaþoli greint vitninu frá atviki sem gerst hefði fyrr um daginn. Brotaþoli hefði þá verið að bursta tennurnar inni á baðherberginu þegar hún hefði veitt því athygli að buxur hennar, sem hangið hefðu á hurðarhúninum, tóku að hreyfast. Þegar nánar var að gáð hefði brotaþoli séð að pinni gekk inn og út úr skráargatinu. Hún hefði gripið um pinnann sem í kjölfarið hefði verið dreginn út. Þegar brotaþoli hefði komið út nokkru síðar hefði ákærði látið sem ekkert væri. Kom fram hjá vitninu að faðir þess hefði verið í heimsókn hjá fjölskyldunni er þetta atvik gerðist.

Vitnið sagðist strax í kjölfar frásagnar stúlkunnar hafa reynt að ná sambandi við ákærða. Þegar það hefði tekist hefði hún gengið á ákærða og spurt hvað hann hefði verið að gera brotaþola. Ákærði hefði í fyrstu ekkert þóst vita um hvað hún væri að tala en hann síðan sagt: „Fyrirgefðu.“

Aðspurt kvað vitnið þessi tvö atvik hafa haft áhrif á andlega líðan stúlkunnar og hefði hún óttast ákærða vegna þeirra. Þá kom fram hjá vitninu að bótakröfu brotaþola hefði skipaður réttargæslumaður sett fram fyrir hennar hönd að fenginni heimild frá vitninu.

IV

Ákærði lagði fram greinargerð í málinu með heimild í 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í henni er meðal annars til þess vísað að álitamál sé hvort í ákærulið nr. 1 sé yfir höfuð lýst meintri lostugri háttsemi ákærða sem til þess hafi verið fallin að særa blygðunarsemi brotaþola. Auk þess séu atvik máls hvað ákærulið þennan varðar mjög á huldu og meðal annars ljóst af framburði brotaþola að hún hafi ekki séð ákærða gera það sem honum er gefið að sök í ákæruliðnum. Ákærði hafi neitað sök fyrir dómi og lýst atvikinu skilmerkilega. Frásögn hans fyrir lögreglu hafi í fyrstu verið nokkuð skýr en framburður hans í framhaldinu orðið óljósari vegna ruglingslegra spurninga sem fyrir hann hafi verið lagðar. Vegna þess vafa sem uppi sé um atvik samkvæmt þessum ákærulið beri dómnum að sýkna ákærða af þeim sakargiftum sem þar séu á hann bornar.

Hvað sakargiftir samkvæmt ákærulið nr. 2 varðar vísar ákærði meðal annars til þess að þar sé ekki lýst refsiverðu broti. Það að kíkja á brotaþola þar sem hún hafi verið að tannbursta sig inni á baðherberginu geti ekki talist vera kynferðisbrot. Þá séu annmarkar á þeirri háttsemislýsingu sem ákæruliðurinn geymi og lýsingin sé jafnframt ófullkomin. Dómnum beri því einnig að sýkna ákærða af þeim sakargiftum sem þar greini.

V

Ákæruliður 1:

Í þessum ákærulið er ákærða gefið að sök kynferðisbrot með því að hafa í eitt skipti í desember 2015, á þá sameiginlegu heimili þeirra að […], […], sært blygðunarsemi stjúpdóttur sinnar A með því að kíkja í gegnum skráargat á dyrum að baðherbergi þar sem stúlkan var að baða sig.

Brotaþoli bar fyrir dómi að atvik þau sem ákæruliður 1 tekur til hafi gerst að […] í […], en ekki að […] eins og vísað er til í ákæru. Þá báru bæði ákærði og vitnið B að fjölskyldan hefði verið búsett að […] í desember 2015. Samkvæmt því liggur fyrir að vettvangur meints brots ákærða er ranglega tilgreindur í ákæru.

Ákærði neitar sök. Fyrir dómi sagði ákærði rangt að hann hefði umrætt sinn kíkt inn um skráargatið á baðherbergishurðinni. Hann kvaðst einungis hafa farið að baðherbergis­dyrunum og sótt dóttur sína, hálfsystur brotaþola, sem þar hefði staðið og ætlað inn á baðherbergið til systur sinnar. Ákærði kvaðst hafa vitað af brotaþola inni á baðherberginu en ekkert séð til hennar, enda hefði systur hennar ekki tekist að opna dyrnar. Hvort baðherbergisdyrnar voru læstar sagðist ákærði ekki vita. Hann kvaðst heldur ekki vita hvort lykillinn að baðherbergisdyrunum hefði fallið í gólfið umrætt sinn.

Brotaþoli lýsti atvikum þessum svo að hún hefði verið í sturtu þegar hún hefði heyrt lykilinn að baðherbergisdyrunum falla í gólfið. Hún hefði ekkert aðhafst vegna þess heldur lokið við steypibaðið og síðan dregið sturtuhengið frá. Í sömu svifum hefði brotaþoli heyrt ákærða segja að næst skyldi hún gæta sín betur þar sem yngri systir brotaþola hefði farið inn á baðherbergið á meðan hún var í sturtunni. Brotaþoli hefði síðan séð hvar lykillinn lá í gólfinu. Þegar hún hefði sett lykilinn á sinn stað hefði hún tekið í hurðina og staðreynt að dyrnar voru læstar. Brotaþoli hefði orðið áhyggjufull og kvíðin vegna þessa atviks en samt haldið sínu striki. Hún hefði síðan greint móður sinni frá því sem gerðist síðar þennan sama dag.

Ákærði og brotaþoli eru ein til frásagnar af þeim atvikum sem hér um ræðir. Svo sem fyrr var rakið er ákærða gefið að sök að hafa sært blygðunarsemi brotaþola með því að kíkja í gegnum skráargat á dyrum að baðherbergi þar sem stúlkan var að baða sig. Ljóst er að framburði brotaþola virtum að hún grunar ákærða um að hafa kíkt inn um skráargatið umrætt sinn. Hins vegar er jafnljóst að það sá brotaþoli ákærða ekki gera. Framburður ákærða fyrir lögreglu ber þess skýr merki að mati dómsins að hann hafi ekki fyllilega skilið spurningar lögreglu og þá hafi honum að nokkru leyti verið lögð orð í munn. Að þessu gættu og þar sem sakargiftir samkvæmt ákærulið 1 fá samkvæmt framansögðu ekki nægjanlega stoð í framburði brotaþola þykir ákæruvaldinu ekki hafa tekist að sanna, gegn neitun ákærða, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem þar greinir. Verður ákærði því sýknaður af sakargiftum samkvæmt ákærulið 1.

Ákæruliður 2:

Fyrir dómi viðurkenndi ákærði að hafa 5. desember 2016 reynt að kíkja í gegnum skráargat á hurðinni á baðherberginu á heimili fjölskyldunnar að […] í […] þar sem brotaþoli var inni. Ákærði kvaðst hafa séð til brotaþola sem staðið hefði fyrir framan spegilinn á baðinu og verið að bursta í sér tennurnar. Stúlkan hefði þá verið klædd. Ákærði kannaðist jafnframt við að hafa stungið grillpinna í gegnum skráargatið til þess að ýta fatnaði til hliðar. Gat ákærði ekki gefið skýringar á þessari háttsemi sinni.

Brotaþoli lýsti atviki þessu svo að eftir að hún var komin inn á baðherbergið hefði hún tekið bréfþurrku, hnoðað henni saman og troðið í skráargatið. Hún hefði jafnframt hengt gallabuxur á hurðarhúninn og lagt handklæði á gólfið þannig að ákærði gæti hvorki kíkt inn um skráargatið né undir hurðina. Brotaþoli kvaðst hafa verið að fara í sturtu og hefði ákærða verið um það fullkunnugt. Áður en hún fór í sturtuna hefði hún burstað tennurnar. Brotaþoli hefði staðið klædd við vaskinn og verið að tannbursta sig þegar hún hefði séð gallbuxurnar hreyfast. Buxurnar hefðu verið við það að falla í gólfið og hefði hún því gripið í þær. Brotaþoli hefði þá veitt því athygli að búið var að stinga pinna í gegnum skráargatið til að hreyfa við buxunum. Þegar brotaþoli áttaði sig á þessu hefði hún orðið hrædd og ekki vitað hvernig hún ætti að bregðast við. Hún hefði þó ákveðið að fara ekki út af baðherberginu strax, þar sem hún hefði getað átt von á að mæta ákærða fyrir utan dyrnar, heldur halda sínu striki og fara í sturtu, eins og hún hafði ætlað sér. Fram kom hjá móður brotaþola fyrir dómi að seint þennan dag, eftir að ákærði var farinn til vinnu, hefði brotaþoli greint vitninu frá þessum atvikum.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að 5. desember 2016, á þá sameiginlegu heimili þeirra að […], […], kíkti ákærði í gegnum skráargat á dyrum að baðherbergi þar sem brotaþoli var inni. Ákærði hefur engar skýringar getað gefið á þeirri háttsemi sinni. Brotaþoli fullyrti að ákærði hefði vitað að hún væri á leið í sturtu. Að framangreindu virtu þykir mega leggja þann framburð brotaþola til grundvallar.

Aðspurður fyrir dómi neitaði ákærði að hafa haft kynferðislegan áhuga á brotaþola. Hann staðfesti aftur á móti að leitarstrengi, sem tilgreindir eru í rannsóknar­gögnum lögreglu, hefði verið að finna í tölvum er verið hefðu í hans umráðum og lögregla haldlagði og tók til rannsóknar. Töluverður fjöldi þeirra leitarstrengja vísa til kynferðislegra samskipta á milli stjúpföður og stjúpdóttur. Að því gættu og með vísan til annars þess sem að framan er rakið þykir mega slá því föstu, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi með því að kíkja í gegnum skráargatið á baðherbergis­hurðinni, þar sem ákærði vissi að brotaþoli var inni og hann gat samkvæmt framansögðu og einnig eðli málsins samkvæmt búist við að væri lítið eða óklædd, hafi ákærði sært blygðunarsemi brotaþola. Var háttsemin jafnframt vanvirðandi gagnvart brotaþola. Ákærði verður því sakfelldur fyrir að hafa með lýstri háttsemi brotið gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, svo sem honum er gefið að sök í ákærulið 2.

VI

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærða ekki áður verið gerð refsing.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður sérstaklega að líta til þess að hann braut gegn stjúpdóttur sinni á heimili fjölskyldunnar. Að því gættu og að broti ákærða að öðru leyti virtu þykir refsing hans, sbr. 1., 2., 6. og 7. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi. Eftir atvikum þykir mega fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

VII

Í málinu krefst brotaþoli miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 700.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. desember 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi er liðinn var mánuður frá birtingu bótakrakröfunnar til greiðsludags. Miskabótakrafan er tekin upp í ákæru málsins og hefur réttargæslumaður brotaþola fylgt kröfunni eftir hér fyrir dómi. Þá var fyrir upphaf aðalmeðferðar í málinu lögð fram yfirlýsing lögráðamanns brotaþola, móður hennar, B, þess efnis að réttargæslumaður hefði umboð frá brotaþola til þess að setja bótakröfuna fram í málinu. Að þessu gættu þykja ekki efni til þess að vísa bótakröfunni frá dómi, svo sem ákærði hefur krafist.

Samkvæmt framansögðu hefur dómurinn slegið því föstu að ákærði hafi í eitt skipti brotið gegn brotaþola svo varði við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Með hinni refsiverðu háttsemi hefur ákærði bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Bætur fyrir miska skulu ákvarðaðar eftir því sem sanngjarnt þykir og við mat á fjárhæð þeirra skal einkum líta til alvarleika brotsins, sakarstigs brotamanns, huglægrar upplifunar brotaþola og umfangs tjónsins. Í dómaframkvæmd hefur því verið slegið föstu að kynferðisbrot séu almennt til þess fallin að valda þeim sem fyrir verður sálrænum erfiðleikum. Þá voru þau fjölskyldu­tengsl sem á milli ákærða og brotaþola voru til þess fallin að auka á miska hennar. Fyrir dómi sagði brotaþoli atvikið hafa valdið sér óöryggi og kvíða. Fær sá framburður stoð í framburði móður brotaþola er sagði atvikið hafa haft áhrif á andlega líðan stúlkunnar og hefði hún óttast ákærða vegna þess. Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið þykja miskabætur til handa brotaþola hæfilega ákvarðaðar 250.000 krónur. Um vexti og dráttarvexti af kröfunni fer svo sem í dómsorði greinir en krafan var kynnt ákærða við skýrslutöku hjá lögreglu 7. mars 2017.

VIII

Með vísan til úrslita málsins, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður ákærða gert að greiða helming sakarkostnaðar. Sakarkostnaður í málinu er þóknun skipaðs verjanda ákærða, Bjarna Haukssonar lögmanns, ferðakostnaður verjandans og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ástu Bjarkar Eiríksdóttur lögmanns, en þóknun verjanda og réttargæslu­manns þykir að umfangi málsins virtu hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppsögu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í tvo mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 727.720 krónur í sakarkostnað, sem er helmingur þóknunar skipaðs verjanda ákærða, Bjarna Haukssonar lögmanns, sem í heild nemur 1.032.920 krónum að virðisaukaskatti meðtöldum, helmingur ferðakostnaðar verjanda, sem í heild nemur 22.000 krónum, og helmingur þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ástu Bjarkar Eiríksdóttur lögmanns, sem í heild nemur 400.520 krónum að virðisaukaskatti meðtöldum.

Ákærði greiði brotaþola, A, 250.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. desember 2016 til 7. apríl 2017, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

Kristinn Halldórsson