• Lykilorð:
  • Hótanir
  • Fangelsi
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 27. september 2018 í máli nr. S-115/2018:

Ákæruvaldið

(Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Garðar Steinn Ólafsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem tekið var til dóms 24. ágúst 2018, höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 8. mars 2018 á hendur ákærða, X, kt. […], […], […];

fyrir hótun og brot gegn blygðunarsemi, með því að hafa, að kvöldi föstudagsins 26. janúar 2018, í samskiptum á samskiptamiðlinum Snapchat, skrifað eftirtalin skilaboð til A, sem voru til þess fallin að særa blygðunarsemi hennar og valda henni ótta um líf, heilbrigði og velferð sína:

 

1)      „Ætlaru að riða mer a eftir? […] Viltu mig? Riddu mer dóninn þinn […] Riddu mer beibe“

2)      „Fokking mella […] Þu eyðirlagði lif mitt Eg ætla drepa þig Hehehe“

3)      „Litla fokking hóran þin Þúrt hóra A […] Það er það sem þu ert Hóra Hóra Ekkert nema hóra Eg hata þig Fokking deyðu A“

4)      „Eg hata þig A Þu ert exactly the whore i wanna kill“

5)      „Ettu drullu hóra Hata þig Mun brjóta Þig Ef þu kmr nalægt Mer Hata þig Fokking hata þig ;)“

6)      „Ja eg fokking vona að þu deyir Ógeðiðþitt Eg hata þig út af lifinu Þu eyðilagðir lif mitt Þu fokking eyðilagðir það […] Eg mun fkn lata þig gjalda f það“

 

Teljast brot ákærða samkvæmt 1. lið varða við 209 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot samkvæmt 2. til 6. lið við 233. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Kröfur ákærða í málinu:

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds. Til vara krefst ákærði þess að honum verði ekki gerð refsing, til þrautavara að ákvörðun refsingar hans verði frestað en til þrautaþrautavara að refsing hans verði ákveðin svo væg sem lög framast heimila. Komi til þess að ákærða verði gerð fangelsisrefsing er þess krafist að hún verði að öllu leyti skilorðsbundin. Hvað sakarkostnað varðar krefst ákærði þess að hann „... falli á ákæruvaldið í hlutfalli við niðurstöðu málsins.“

I

Að kvöldi föstudagsins 26. janúar 2018 setti B sig í samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu á síðu embættisins á samskiptamiðlinum Facebook. Í tilkynningu hennar kom fram að starfandi lögreglumaður hefði haft í hótunum við unga konu. Óskaði lögregla eftir frekari upplýsingum um málið frá tilkynnanda. Í svari B síðla dags 27. janúar 2018 kom fram að unga konan sem um væri að ræða væri systir hennar, A, brotaþoli í máli þessu. Gaf B lögreglu upp símanúmer brotaþola og var henni tjáð að lögregla myndi setja sig í samband við brotaþola.

Mánudaginn 29. janúar 2018 ræddi lögreglumaður símleiðis við brotaþola. Upplýsti brotaþoli í samtalinu að lögreglumaður sá er um ræddi væri ákærði í málinu. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu greindi brotaþoli lögreglu frá því að hún og ákærði væru búin að þekkjast um tíma. Fyrrnefnt föstudagskvöld hefði ákærði sent brotaþola dónaleg skilaboð og jafnframt beðið hana um að sækja sig. Þegar brotaþoli hefði ekki viljað sækja ákærða hefði hann sent henni skilaboð sem innihaldið hefðu hótanir. Hefði ákærði meðal annars hótað að drepa brotaþola.

Eftir að brotaþoli ræddi símleiðis við lögreglu sendi hún lögreglu skjáskot af þeim skilaboðum sem hún kvaðst hafa fengið frá ákærða, þar með töldum þeim skilaboðum sem rakin eru í töluliðum 1-6 í ákæru. Í kjölfarið fór lögreglustjóri fram á heimild til leitar á heimili ákærða í því skyni að handtaka hann og leggja hald á sönnunargögn. Að fenginni heimild héraðsdóms fór lögregla að heimili ákærða þar sem ákærði var handtekinn og leit framkvæmd. Að leit lokinni var ákærði færður á lögreglustöð til yfirheyrslu.

Á sama tíma og lögreglustjóri fór fram á heimild dómsins til leitar á heimili ákærða tók lögregla skýrslu af brotaþola. Greindi hún svo frá að ákærði, sem hún hefði fyrr á árinu verið að hitta, hefði að kvöldi föstudagsins 26. janúar 2018 sent henni skilaboð á samskiptamiðlinum Snapchat. Ákærði hefði verið dónalegur og notað óviðeigandi og ruddaleg orð í hennar garð. Þá hefði hann ítrekað sent skilaboð sem innihaldið hefðu líflátshótanir. Brotaþola hefði fundist þetta mjög óþægilegt og ógnandi og hefði hún tekið skilaboðin alvarlega. Hún hefði því ákveðið að tilkynna málið til lögreglu, en ákærði væri starfandi lögreglumaður. Ákærði hefði haft samband við brotaþola að nýju daginn eftir og beðist afsökunar. Það hefði hann síðan margítrekað gert dagana á eftir.

Við skýrslugjöf hjá lögreglu hafnaði ákærði því að hafa gerst brotlegur við lög. Hann kannaðist við að hafa umrætt föstudagskvöld, þá mjög ölvaður, sent brotaþola skilaboð sem hann sagðist hvorki muna hvers efnis hefðu verið né af hverju hann sendi. Þegar hann síðla nætur eða morguninn eftir hefði séð hvers eðlis skilaboðin voru hefði hann strax haft samband við brotaþola og margbeðist afsökunar á framferði sínu og orðfæri. Sagði ákærði að um fyllerísrugl hefði verið að ræða. Engin meining hefði verið á bak við skilaboðin og væri hann miður sín vegna málsins. Skilaboð þau sem brotaþoli sendi lögreglu voru borin undir ákærða og sagðist hann ekki minnast þess að hafa sent þau. Ákærði sagðist ekki hafa ætlað að gera brotaþola óttaslegna og ekki vilja henni neitt illt.

Rannsókn lögreglu lauk um miðjan febrúar 2018 og var málið þá sent héraðssaksóknara til meðferðar. Héraðssaksóknari gaf síðan út ákæru á hendur ákærða 8. mars sl. samkvæmt áðursögðu.

II

Við upphaf aðalmeðferðar málsins kvaðst ákærði aðspurður kannast við þau ummæli sem tekin væru upp fyrsta tölulið ákæru. Hann sagðist hins vegar ekki minnast þess að hafa sent hótanir sem þær er reifaðar væru í töluliðum 2-6.

Fram kom hjá ákærða að hann og brotaþoli hefðu byrjað að hittast í ársbyrjun 2017 og hefði samband þeirra varað fram á vor eða byrjun sumars það ár. Sambandið hefði verið kynferðislegt en einnig hefði tekist með þeim tveimur góð kynni. Sagði ákærði sér enn þykja mjög vænt um brotaþola.

Eftir að formlegu sambandi ákærða og brotaþola lauk hefðu þau átt í óreglulegum samskiptum og hist við og við. Kvað ákærði það ítrekað hafa gerst að þau hefðu hist í tengslum við skemmtanir að kvöldi til og síðan farið saman heim. Síðast hefðu þau sofið saman í nóvember 2017.

Föstudagskvöldið 26. janúar 2018 hefði ákærði farið út að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur. Ákærði kvaðst hafa verið illa fyrirkallaður og fljótlega orðið töluvert ölvaður. Hann hefði af þeim sökum viljað fara heim. Ákærði hefði því sett sig í samband við brotaþola á samskiptamiðlinum Snapchat og spurt hana að því hvort hún gæti sótt hann. Brotaþoli hefði tekið dræmt í það, enda verið að koma úr vinnu að því er ákærða minnti. Ákærði kvaðst mögulega hafa strítt brotaþola eitthvað í þessum samskiptum en taldi allt að einu að hún hefði ekki átt að kippa sér upp við það orðalag sem hann notaði, sbr. tölulið 1 í ákæru.

Ákærði sagðist hafa verið leiður yfir sambandsslitum sínum og brotaþola. Eftir að upp úr reglulegu sambandi þeirra slitnaði kvaðst ákærði hafa gert tilraun til þess að taka upp samband að nýju með fyrrverandi kærustu sinni sumarið 2017. Það hefði ekki gengið upp og rakti ákærði það til þess að unnustan fyrrverandi hefði fengið vitneskju um að ákærði hefði verið að hitta brotaþola. Ákærði sagðist að nokkru, en ekki með réttu, hafa kennt brotaþola um að ekki gekk saman að nýju með honum og unnustunni fyrrverandi.

Um 15-30 mínútum eftir að þeim samskiptum lauk sem áður var lýst hefði komið til frekari samskipta á Snapchat á milli ákærða og brotaþola. Í þeim hefði ákærði sakað brotaþola um að hafa rætt við unnustu sína fyrrverandi. Í kjölfarið hefðu þau rifist. Ákærði hefði reiðst mjög og „... ég segist hata hana og kalla hana einhverjum illum nöfnum, og ljótum nöfnum ...“, meðal annars „mellu“ og „hóru“. Ákærði lagði áherslu á það í skýrslu sinni fyrir dómi að nokkur tími hefði liðið frá því hann sendi skilaboð þau sem rakin væru í tölulið 1 í ákæru og þar til frekari samskipti urðu á milli hans og brotaþola. Fullyrti ákærði að ekkert samhengi hefði verið á milli tilvitnaðra skilaboða og þeirra samskipta á Snapchat sem síðar urðu. Á milli hefði samkvæmt framansögðu liðið nokkur tími, mögulega 15-30 mínútur. Tók ákærði fram að hann myndi aldrei tala svona við nokkra manneskju þegar hann væri með sjálfum sér. Þá vísaði ákærði til þess að hann hefði ekkert aðhafst í kjölfar samskiptanna við brotaþola um kvöldið sem samrýmdist því sem fram kæmi í ákæru. Ákærði hefði þannig aldrei reynt að hitta brotaþola, sitja fyrir henni eða hræða hana.

Ákærði kannaðist ekki við að hafa hringt í brotaþola eftir að hann sendi henni skilaboð á Snapchat. Hann kvaðst næst muna eftir sér á heimleið um kl. 23:30-00:00. Þegar heim var komið hefði ákærði lagst upp í sófa og farið horfa á sjónvarpið. Um kl. 04:00 kvaðst ákærði hafa opnað símann sinn og þá séð þar samskipti á milli sín og brotaþola. „Ég er að segja einhvern djöfulinn og ljóta hluti og bara búinn að vera í uppnámi og reiðikasti og einhverjum sárum og er að láta það bitna á A.“ Ákærði kvaðst hafa orðið miður sín um leið og hann sá þessi skilaboð og hann strax beðið brotaþola afsökunar. Ákærði sagði sér hafa liðið hræðilega eftir að hann sá það sem í símanum var, enda þætti honum vænt um brotaþola. Kvað ákærði brotaþola hafa átt að vita að fráleitt væri „... ef ég hef sagt einhverja svona hluti að ég myndi nokkurn tíma standa við það.“ Ákærði hefði aldrei ætlað sér að hræða brotaþola eða vekja hjá henni ótta.

Ákærði sagði greinilegt að brotaþoli hefði vistað allt sem fram fór en síðan hefði hún „eytt fullt af hlutum inn á milli“ þannig að samtal þeirra hefði verið samhengislaust. Spurður um hvaða skilaboð vantaði inn í samtalið nefndi ákærði rifrildi um mynd af brotaþola léttklæddri, er brotaþoli hefði „póstað“, sem ákærði hefði talið að brotaþoli hefði sent fyrrverandi unnustu hans. Þá sagði ákærði ekki útilokað að brotaþoli hafi breytt einhverjum skilaboðum en tók fram að „... ég er ekki að saka hana um það ...“.

Fyrir dómi voru borin undir ákærða skjáskot þau með skilaboðum sem brotaþoli sendi lögreglu. Spurður um hvort skjáskotin væru í tímaröð svaraði ákærði: „Það stendur enginn tími en þetta hlýtur að vera það, ég veit það ekki sko.“ Spurður um hvort það passaði við hans minningu af atvikum svaraði ákærði: „Já, já, það gerir það svo sem. Þetta er svona í tímaröð eins og ég segi nema það vantar þarna eitthvað bil inn á milli og samræður.“

Fram kom hjá ákærða að eftir umrætt kvöld hefðu hann og brotaþoli verið áfram í samskiptum á Snapchat í um það bil 10 daga. Ákærði sagðist hafa verið miður sín og ítrekað beðið brotaþola afsökunar. Brotaþoli hefði upplýst ákærða um að hún hefði tilkynnt yfirmönnum hans um málið, enda hefði henni þótt hann eiga það skilið að fá skammir frá þeim. Samskipti þeirra brotaþola hefðu samt sem áður verið góð, enda hefði ákærði alls ekki viljað henni illt. Hvorki þá né nú. Í þessu sambandi benti ákærði á að brotaþoli hefði ekki lagt fram kæru á hendur honum vegna samskiptanna.

III

A, brotaþoli í málinu, sagði kynni hafa tekist með henni og ákærða í febrúar 2017 og hefðu þau verið að „deita“ reglulega fram í apríl það ár.

Í júlí 2017 hefði ákærði hringt í brotaþola og haft í hótunum við hana í kjölfar þess að fyrrum unnusta ákærða hafði samband við brotaþola. Brotaþola hefðu í kjölfar símtalsins jafnframt borist ljót SMS-skilaboð frá ákærða. Ákærði hefði beðist afsökunar á þessu framferði sínu í ágúst 2017 og sagst vera leiður yfir framkomu sinni. Brotaþoli hefði ákveðið að fyrirgefa ákærða. Eftir þetta hefðu þau haldið sambandi og spjallað saman á Snapchat. Þau hefðu einnig hist nokkrum sinnum, fjórum sinnum að því er brotaþoli taldi, og sofið saman. Áleit brotaþoli að síðast hefðu þau hist í nóvember 2017.

Að kvöldi föstudagsins 26. janúar 2018, á milli kl. 21:00-22:30, hefði brotaþoli fengið skilaboð frá ákærða sem spurt hefði hvort hún gæti sótt hann. Brotaþoli hefði þá verið stödd heima hjá sér ásamt systur sinni, B, og hefðu þær setið saman fyrir framan sjónvarpið. Ákærði hefði í kjölfarið sent brotaþola skilaboð á Snapchat þar sem fram hefði komið að hún ætti að ríða honum. Brotaþoli kvaðst hafa svarað og sagt ákærða að hann væri mjög dónalegur og beðið hann um að hætta. Ákærði hefði þrátt fyrir það haldið áfram og í kjölfarið hefði hann sent brotaþola skilaboð þar sem hann hefði haft í hótunum við hana. Ákærði hefði hótað að drepa brotaþola, kallað hana hóru og sagt hana vera ógeðslega. Brotaþoli sagði systur sína hafa fylgst með þessum samskiptum hennar og ákærða og hefði hún séð þau skilaboð sem frá honum komu.

Eftir að hafa sent brotaþola skilaboðin sagði brotaþoli ákærða hafa hringt í hana í tvígang. Hann hefði í báðum tilvikum skellt á eftir að brotaþoli svaraði án þess að segja nokkuð.

Brotaþoli kvað það hafa verið mjög óþægilegt að fá þessi skilaboð og hringingar frá ákærða. Brotaþoli og systir hennar hefðu er þarna var komið sögu verið orðnar frekar hræddar, enda hefðu þær óttast að ákærði væri í annarlegu ástandi. Tilfinningin hefði verið mjög óþægileg. Brotaþoli sagði að þær hefðu ekkert endilega átt von á „... að hann myndi koma heim til mín og drepa mig en samt fær maður svona óþæginda tilfinningu fyrir þessu þegar einhver er í einhverju brjálæðiskasti og segir svona.“ ... „Maður veit aldrei hvað svona fólk getur gert ...“ Sem dæmi um óöryggið sem framganga ákærða hefði valdið nefndi brotaþoli að systir hennar hefði nefnt, í hálfkæringi þó, hvort þær ættu að sækja hníf. Þá kom fram hjá brotaþola að vikuna á eftir hefði hún sofið mjög illa og hefði hún þurft að taka svefntöflur til að ná að sofna.

Brotaþoli sagði ákærða hafa sent henni skilaboð um nóttina, um kl. 04:00-05:00, og beðist fyrirgefningar á framkomu sinni.

Skjáskot með þeim skilaboðum sem brotaþoli sendi lögreglu vegna málsins voru borin undir brotaþola fyrir dómi. Skilaboðin kvaðst brotaþoli hafa vistað á Snapchat í heild og síðan hefði hún tekið af þeim skjámyndir í nokkrum hlutum. Inn í þau samskipti sem brotaþoli sendi lögreglu kvað hún vanta ljósmynd sem ákærði hefði sent af henni á nærfötunum. Hún hefði hins vegar einnig varðveitt þann hluta samskiptanna. Brotaþoli sagðist hafa talið óþarft að láta myndina fylgja með til lögreglu. Brotaþoli kvað ákærða ranglega hafa sakað sig um að hafa sent fyrrum unnustu hans myndina. Brotaþoli staðfesti að hún hefði ekki tekið skjámyndir af skilaboðunum í heild en hún kvaðst hins vegar engum skilaboðum hafa breytt.

Brotaþoli sagði systur sína hafa spurt sig þess hvort hún mætti senda lögreglu skilaboð á Facebook og spyrja hvort það teldist vera eðlileg hegðun starfsmanns í lögreglunni að hóta að drepa tvítuga stelpu. Brotaþoli hefði svarað því játandi. Daginn eftir hefðu komið þau skilaboð frá lögreglu að slík háttsemi væri alls ekki í lagi og að samband yrði haft við brotaþola vegna málsins. Það hefði lögregla gert og í framhaldinu hefði brotaþoli sent lögreglu skjáskot af samskiptum hennar og ákærða. Hún hefði einnig sent lögreglu skjáskot úr síma sínum þar sem áðurnefnd tvö símtöl ákærða, sem varað hefðu í þögn í 13 sek og 17 sek, hefðu komið fram. Brotaþoli hefði síðan farið í skýrslutöku hjá lögreglu að kvöldi mánudagsins 29. janúar sl. Hún hefði hins vegar aldrei lagt fram kæru á hendur ákærða vegna málsins.

B greindi svo frá fyrir dómi að hún og brotaþoli hefðu verið tvær heima að kvöldi föstudagsins 26. janúar 2018. Þær hefðu setið saman í sófa og hefði brotaþoli verið að spjalla við ákærða á Snapchat í símanum sínum. Klukkan hefði þá verið á bilinu tíu til hálf tólf. Þegar skilaboð ákærða hefðu orðið dónaleg hefði brotaþoli sýnt vitninu þau og í kjölfarið hefði vitnið skoðað öll samskipti systur sinnar og ákærða sem brotaþoli hafði vistað. Vitnið sagði skilaboðin hafa valdið brotaþola geðshræringu og hún átt erfitt með að sofna um kvöldið. Spurt um hvort brotaþoli hefði orðið hrædd svaraði vitnið: „Já, ég myndi segja það.“ Vitnið kvað sér heldur ekki hafa verið rótt. Í kjölfarið hefði ákærði hringt í brotaþola í tvígang. Minntist vitnið engra orðaskipta í þeim símtölum, sem það sagði hafa varað í skamman tíma.

Nánar spurt um efni skilaboðanna bar vitnið að þau hefðu verið dónaleg og þá hefði í þeim komið fram morðhótun í garð brotaþola. Fyrir dómi voru lögð fyrir vitnið skilaboð sem byggt er á af hálfu ákæruvalds að séu skilaboð sem fóru á milli brotaþola og ákærða umrætt kvöld. Staðfesti vitnið að um væri að ræða þau skilaboð sem það hefði séð í síma brotaþola. Vitnið sagði sér ekkert hafa litist á efni skilaboðanna og hefði það af þeim sökum, með vilja brotaþola, sett sig í samband við lögreglu á samskiptamiðlinum Facebook. Lögregla hefði í kjölfar samskipta við vitnið á Facebook sett sig í samband við brotaþola.

Vitnið bar að ákærði hefði áður gengið fram með líkum hætti gagnvart brotaþola. Í það skipti hefði verið hótun verið sett fram í símtali. Vitnið hefði verið hjá systur sinni þegar hún fékk það símtal og séð að henni var brugðið.

C bar fyrir dómi að hann hefði hitt ákærða á skemmtistaðnum B5 í Reykjavík um kl. 20:00 að kvöldi 26. janúar 2018. Upp úr kl. 21:00 kvaðst vitnið hafa orðið vart við að ákærði var að senda brotaþola skilaboð. Vitnið hefði séð nokkur skilaboðanna og ekkert það séð í þeim sem vitninu hefði fundist vera óeðlilegt.

Vitnið sagði sér hafa skilist á ákærða að brotaþoli myndi mögulega sækja hann þetta kvöld þegar hún væri búin í vinnu. Rak vitnið minni til þess að það hefði brotaþoli gert nokkru áður þegar þeir ákærði voru að skemmta sér, líklega í október 2017. Vitnið kvað þá ákærða hafa setið við þriðja mann við borð á B5 fram undir kl. 23:00 um kvöldið. Stuttu eftir það hefðu leiðir þeirra skilið.

D lögreglumaður kvaðst hafa afritað síma ákærða við upphaf rannsóknar málsins. Löngu síðar hefði vitnið fengið síma brotaþola til rannsóknar. Símann hefði brotaþoli sjálf afhent vitninu.

Þá gaf einnig skýrslu fyrir dómi E en ekki þykir vera þörf á að rekja framburð hans sérstaklega.

IV

Ákærði lagði fram greinargerð í málinu með heimild í 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í henni er meðal annars til þess vísað að umtalsverðir ágallar hafi verið á rannsókn málsins. Ýmiss gögn málsins séu einnig ófullkomin og ekki á þeim byggjandi. Þá segir ákærði orðfæri það sem í 1. tölulið ákæru greinir ekki geta talist fela í sér lostugt athæfi í skilningi 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hvað meintar hótanir varðar vísar ákærði meðal annars til þess að saknæmisskilyrði skorti. Ósannað sé að ákærði hafi haft ásetning til slíkra brota. Skilaboð ákærða hafi jafnframt ekki verið til þess fallin að vekja ótta hjá brotaþola og þá verði þau heldur ekki skilin svo að í þeim hafi falist hótun um refsiverða háttsemi.

V

A

Fallast verður á það með ákærða að rannsókn málsins hafi í ýmsum atriðum verið ábótavant. Þannig var skýrsla ekki tekin af systur brotaþola við rannsóknina þótt fyrir lægi að hún hefði verið hjá brotaþola er henni bárust þau skilaboð frá ákærða sem mál þetta varðar. Var full ástæða til skýrslutöku af vitninu í ljósi eðlis þeirra gagna, skjáskota af samskiptum á samskiptamiðlinum Snapchat, sem byggt er á af hálfu ákæruvalds í málinu. Þá rannsakaði lögregla ekki síma brotaþola heldur lét við það sitja að byggja rannsókn sína á gögnum sem brotaþoli sendi lögreglu, en við frekari rannsókn undir rekstri málsins fyrir dómi kom í ljós að samskipti brotaþola og ákærða á Snapchat, bæði að kvöldi föstudagsins 26. janúar 2018 og einnig fyrir og eftir það tímamark, voru umtalsverð og átti hluti þeirra samskipta fullt erindi inn í málið, svo sem nánar verður vikið að síðar. Þeir ágallar sem voru á rannsókn málsins geta hins vegar einir og sér hvorki leitt til frávísunar þess né sýknu ákærða, enda verður ekki talið að þeir hafi komið niður á vörn ákærða þó svo þeir hafi leitt til meiri vinnu af hálfu verjanda hans en annars hefði orðið, svo sem nánar verður vikið að hér á eftir.

B

Í málinu er ákærða gefið að sök brot gegn blygðunarsemi með því að hafa að kvöldi föstudagsins 26. janúar 2018, í samskiptum á samskiptamiðlinum Snapchat, skrifað eftirgreind skilaboð til brotaþola sem verið hafi til þess fallin að særa blygðunarsemi hennar: „Ætlaru að riða mer a eftir? […] Viltu mig? Riddu mer dóninn þinn […] Riddu mer beibe.“ Ákærði neitar sök.

Brotaþoli bar fyrir dómi að hún hefði fengið skilaboð þau sem rakin eru í tölulið 1 í ákæru frá ákærða á samskiptamiðlinum Snapchat að kvöldi 26. janúar 2018. Staðfesti brotaþoli að hún hefði sent lögreglu skjáskot af skilaboðunum. Þá kannaðist ákærði við það fyrir dómi að hafa sent brotaþola skilaboð þessa efnis. Það liggur því fyrir að ákærði hafi á þeim tíma og með þeim hætti sem lýst er í ákæru sent brotaþola þau skilaboð sem í tölulið 1 greinir.

Samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga skal hver sá sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis sæta fangelsi allt að fjórum árum, en fangelsi allt að sex mánuðum eða sektum ef brot er smávægilegt. Við mat á því hvort ákærði hafi með umræddum skilaboðum sært blygðunarsemi brotaþola verður að líta til þess sem fyrir liggur um samband þeirra en ákærða og brotaþola ber saman um að þau hafi verið í ástarsambandi frá því snemma árs 2017 og fram á vor það ár. Þá ber þeim einnig saman um að eftir að sambandinu lauk hafi þau verið í óreglulegum samskiptum á samskiptamiðlum og einnig hist nokkrum sinnum og sofið saman. Taldi brotaþoli að síðastnefnd tilvik hefðu verið fjögur að tölu, hið síðasta í nóvember 2017.

Fyrir dómi lýsti brotaþoli þeirri skoðun sinni að skilaboð þau sem hér um ræðir hefðu verið dónaleg. Verður að taka undir það álit brotaþola. Til þess er hins vegar að líta að í skilaboðum frá brotaþola, sem lögð voru fram undir rekstri málsins og dómurinn telur upplýst að brotaþoli hafi sent ákærða sumarið 2017, er að finna sambærilegt orðalag og ákærði notar í þeim skilaboðum sem rakin eru í tölulið 1 í ákæru. Að því gættu og í ljósi þess sem að framan greinir um samband ákærða og brotaþola getur dómurinn ekki fallist á það með ákæruvaldinu að ummælin hafi verið til þess fallin að særa blygðunarsemi brotaþola í skilningi 209. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærði því sýknaður af ákæru um brot gegn því ákvæði.

C

Ákærða eru í málinu einnig gefnar að sök hótanir með því að hafa umrætt kvöld í samskiptum á Snapchat skrifað þar nánar tilgreind skilaboð til brotaþola, sbr. töluliði 2-6 í ákæru, sem verið hafi til þess fallin að valda henni ótta um líf, heilbrigði og velferð sína.

Við aðalmeðferð málsins sagðist ákærði ekki minnast þess að hafa sent brotaþola hótanir eins og þær sem reifaðar eru í ákæru. Ákærði lýsti atvikum annars svo að um 15-30 mínútum eftir að þeim samskiptum lauk sem fjallað er um í kafla V B hér að framan hefðu orðið frekari samskipti á Snapchat á milli hans og brotaþola. Komið hefði til rifrildis á milli þeirra sem tengst hefði fyrrverandi unnustu ákærða. Ákærði kvaðst hafa orðið mjög reiður og „... ég segist hata hana og kalla hana einhverjum illum nöfnum, og ljótum nöfnum ...“, meðal annars „mellu“ og „hóru“. Fullyrti ákærði að hann myndi aldrei segja neitt þessu líkt við nokkra manneskju þegar hann væri með sjálfum sér. Þá benti ákærði á að hann hefði ekkert aðhafst í kjölfar samskiptanna við brotaþola um kvöldið sem samrýmdist því sem fram kæmi í töluliðum 2-6 í ákæru.

Samkvæmt framburði ákærða fór hann heim um kl. 23:30-00:00 eftir að hafa sent brotaþola Snapchat-skilaboðin. Síðar um nóttina, eða um kl. 04:00, kvaðst ákærði hafa opnað símann sinn og þá séð þar samskipti á milli sín og brotaþola. Ákærði kvaðst hafa orðið miður sín um leið og hann sá skilaboðin og hann strax beðið brotaþola afsökunar „... á þessum fáránlegu hlutum sem ég hafði verið að segja.“ Sagði ákærði brotaþola hafa átt að vita að fráleitt væri „... ef ég hef sagt einhverja svona hluti að ég myndi nokkurn tíma standa við það.“ Ákærði hefði aldrei ætlað sér að hræða brotaþola eða vekja hjá henni ótta.

Brotaþoli bar um þessi atvik að hún hefði verið stödd heima hjá sér ásamt systur sinni, B, þegar skilaboð hefðu tekið að berast frá ákærða. Eftir að ákærði sendi henni þau skilaboð sem reifuð eru í 1. tölulið í ákæru hefði hún svarað og sagt ákærða að hann væri mjög dónalegur og beðið hann um að hætta. Ákærði hefði í kjölfarið sent brotaþola skilaboð þar sem hann hefði haft í hótunum við hana. Ákærði hefði hótað að drepa brotaþola, kallað hana hóru og sagt hana vera ógeðslega. Brotaþoli sagði systur sína hafa fylgst með þessum samskiptum hennar og ákærða og hefði hún séð þau skilaboð sem frá honum komu. Eftir að hafa sent brotaþola skilaboðin hefði ákærði hringt í hana í tvígang en skellt á eftir að brotaþoli svaraði án þess að segja nokkuð.

B bar um atvik þessi að hún og brotaþoli hefðu verið tvær heima um kvöldið þegar skilaboð hefðu farið að berast frá ákærða. Þegar skilaboð ákærða hefðu orðið dónalegri hefði brotaþoli sýnt systur sinni þau og hefði hún í kjölfarið skoðað öll samskipti brotaþola og ákærða. Vitnið sagði skilaboðin hafa verið dónaleg og jafnframt hefði komið fram í þeim morðhótun í garð brotaþola. Skilaboðin hefðu valdið brotaþola geðshræringu og hefði hún átt erfitt með að sofna um kvöldið. Spurt um hvort brotaþoli hefði orðið hrædd svaraði vitnið: „Já, ég myndi segja það.“ Eftir að ákærði sendi skilaboðin hefði hann hringt í tvígang í brotaþola.

Fyrir dómi voru skjáskot af þeim skilaboðum sem brotaþoli sendi lögreglu vegna málsins borin undir hana. Inn í þau samskipti sem brotaþoli sendi lögreglu kvað brotaþoli vanta ljósmynd sem ákærði hefði sent af henni á nærfötunum og samskipti henni tengd. Hún kvaðst hins vegar engum skilaboðum hafa breytt. Brotaþoli upplýsti að hún hefði einnig varðveitt áðurnefndan hluta samskiptanna og voru skjáskot af þeim lögð fram í málinu er aðalmeðferð málsins var fram haldið 24. ágúst sl. Skilaboð þau sem brotaþoli sendi lögreglu samkvæmt framansögðu voru einnig lögð fyrir systur brotaþola fyrir dómi og staðfesti hún að um væri að ræða skilaboð sem hún hefði séð í síma brotaþola umrætt kvöld.

Ummæli þau sem rakin eru í töluliðum 2-6 í ákæru koma samkvæmt framansögðu fram í skjáskotum af skilaboðum sem brotaþoli sendi lögreglu. Brotaþoli og systir hennar hafa báðar borið um það fyrir dómi að skilaboð þessa efnis hafi brotaþoli fengið frá ákærða á samskiptamiðlinum Snapchat umrætt kvöld. Eins og fyrr var rakið kveðst ákærði ekki minnast þess að hafa sent brotaþola slík skilaboð. Hann hefur hins vegar kannast við að hafa orðið mjög reiður brotaþola og sagst hata hana og kallað hana illum og ljótum nöfnum, meðal annars mellu og hóru. Sá framburður ákærða samrýmist framburði systranna vel, svo langt sem hann nær.

Af hálfu ákærða hafa verið settar fram óljósar hugleiðingar um að þeim skilaboðum sem farið hafi á milli ákærða og brotaþola umrætt kvöld hafi verið breytt. Ákærði tók allt að einu fram fyrir dómi að hann væri ekki að væna brotþola um að hafa breytt skilaboðunum. Þrátt fyrir að ákærði hafi með réttu á það bent að mögulegt sé að breyta skilaboðum sem þessum án þess að það megi greina verður ekki framhjá því litið að brotaþoli og systir hennar hafa báðar staðfest fyrir dómi að ákærði hafi sent brotaþola skilaboð þess efnis sem rakin eru í töluliðum 2-6 í ákæru. Með vísan þess og annars framangreinds þykir dómnum ákæruvaldið hafa fært á það sönnur, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi á þeim tíma og með þeim hætti sem í ákæru greinir sent brotaþola skilaboð þess efnis sem rakið er í töluliðum 2-6 í ákæru.

Að mati dómsins felst ekki hótun um refsiverðan verknað í þeim skilaboðum sem rakin eru í tölulið 3 í ákæru. Ákærði verður því ekki sakfelldur fyrir brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga með sendingu þeirra skilaboða. Í öllum þeim skilaboðum sem rakin eru í töluliðum 2 og 4 til 6 er hins vegar að finna hótun um að fremja refsiverðan verknað. Voru þær hótanir til þess fallnar að vekja hjá brotaþola ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð, svo sem þær gerðu, að minnsta kosti upp að vissu marki, samkvæmt framburði brotaþola og systur hennar. Við mat á því hvort ákærði hafi brotið gegn ákvæði 233. gr. skiptir engu hvort ákærði hafi í raun og veru ætlað sér að láta verða af hótunum sínum heldur var brot hans fullframið er hann ákvað að skrifa til brotaþola skilaboð sem honum hlaut að vera ljóst að innhéldu hótanir sem hlutlægt séð og í ljósi málsatvika allra voru til þess fallnar að vekja hjá brotaþola ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð. Ölvun ákærða getur ekki leyst hann undan refsiábyrgð í málinu, sbr. ákvæði 17. gr. almennra hegningarlaga. Þá er málsókn vegna brota gegn 233. gr. almennra hegningarlaga ekki háð kröfu þess sem misgert er við. Samkvæmt öllu þessu verður ákærði sakfelldur fyrir að hafa með því að skrifa til brotaþola þau skilaboð sem rakin eru í töluliðum 2 og 4-6 í ákæru brotið gegn 233. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar.

VI

Við ákvörðun refsingar verður ekki litið framhjá alvarleika þeirra hótana sem ákærði setti fram í skilaboðum sínum til brotaþola, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga 19/1940. Vegna efnis þeirra þykir hvorki koma til álita að fresta ákvörðun refsingar ákærða né gera honum sektarrefsingu.

Ákærði á engan sakaferil að baki. Jafnframt þykir mega horfa til þess við ákvörðun refsingar að ákærði aðhafðist ekkert til þess að hrinda hótunum sínum í framkvæmd. Þá bað hann brotaþola strax afsökunar um nóttina og hefur hann margítrekað afsökunarbeiðni sína síðan og telur dómurinn ekki efni til þess að vefengja að ákærði sannanlega iðrist gjörða sinna. Verður horft til þessara atriða við ákvörðun refsingar ákærða, sbr. 3., 5., 6. og 8. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir þykir refsing ákærða réttilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Eftir atvikum þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til úrslita málsins og þeirra annmarka sem voru að mati dómsins á rannsókn málsins og leiddu til meiri vinnu af hálfu verjanda en ella hefði orðið, meðal annars gagnaöflunar, þykir rétt, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að gera ákærða að greiða ⅓ hluta þóknunar skipaðs verjanda síns, Garðars Steins Ólafssonar lögmanns, en þóknunin þykir að virtu umfangi málsins og fjölda þinghalda hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir. Þóknun verjanda greiðist að öðru leyti úr ríkissjóði. Annan sakarkostnað leiddi ekki af rannsókn málsins og rekstri þess hér fyrir dómi.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppsögu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 808.067 krónur í sakarkostnað, sem er ⅓ hluti þóknunar skipaðs verjanda hans, Garðars Steins Ólafssonar lögmanns, en þóknunin nemur í heild 2.424.200 krónum að virðisaukaskatti meðtöldum. Þóknun verjanda greiðist að öðru leyti úr ríkissjóði.

 

Kristinn Halldórsson