Stefnandi lenti í stimpingum við andyri í stigagangi á heimili sínu við fyrri barnsmóður sína. Hún kallaði til lögreglu vegna atviksins og svaraði fyrirspurn lögreglu um að hann væri hugsanlega með skotvopn á heimilinu, en hún hafði áður kært hann fyrir að hafa beint því að sér. Lögreglumenn ásamt sérsveitarmönnum fóru á vettvang og var stefnandi handtekinn fyrir utan heimili sitt, settur í handjárn og færður í lögreglubifreið á meðan lögreglumenn leituðu að skotvopni á heimili hans þar sem sambýliskona hans var ásamt tveimur litlum börnum sem voru sofandi. Leitinni var haldið áfram eftir að stefnandi upplýsti að skotvopnið væri geymt annars staðar. Frelsissvipting stefnanda stóð í 47 mínútur. Fallist var á að þrátt fyrir að stefnandi hefði stuðlað að handtökunni hefði meðalhófs ekki verið gætt við handtökuna. Stefnandi lagði fram matsgerð þar sem fram kom að hann byggi við veruleg einkenni áfallastreitu og var varanleg örorka hans metin 15%. Þegar horft var til skammvinnrar frelsissviptingar sem stefnandi stuðlaði að nokkru leyti sjálfur að, væntinga hans sjálfs um handtökuna, undirliggjandi heilsufar og vinnusögu fyrir atvikið, svo og ólíkrar niðurstöðu ýmissa heilsugæsluaðila varðandi áfallastreituröskun, einkum sérhæfðs geðteymis, var ekki fallst á að sýnt væri fram á orsakatengsl þess að ekki var gætt meðalhófs við handtökuna og að varanleg örorka stefnanda væri sennileg afleiðing þess. Hins vegar var talið að stefnandi ætt rétt á miskabótum vegna þess að meðalhófs var ekki gætt auk þess sem ótvírætt samþykki lá ekki fyrir húsleitinni.