Í málinu krafðist J þess að felldur yrði úr gildi úrskurður mannanafnanefndar og viðurkennt að hann mætti bera eiginnafnið Aftur. Voru forsendur úrskurðar mannanafnanefndar þær að þó að nafnið væri ritað í samræmi við ritreglur íslensks máls uppfyllti það ekki skilyrði 2.málsliðar 1. mgr. 5. gr. laga nr 45/1996 um mannanöfn um að nafnið mætti ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Taldi nefndin að engin hefð væri fyrir því að nöfn væru leidd af atviksorðum auk þess sem slík nöfn gætu orðið nafnbera til ama. Var talið að sú forsenda úrskurðar nefndarinnar væri efnislega röng að engin hefð væri fyrir því að nöfn væru leidd af atviksorðum enda var í málatilbúnaði stefnanda bent á nöfn sem ættu sér samhljóð atviksorð og nafnorð og verið tekin upp í mannanafnaskrá. Þá var einnig talið að sú engin rök stæðu fyrir þeirri ályktun nefndarinnar í úrskurði sínum að það sé nafnbera til ama að bera nafn sem sé samhljóða atviksorði. Í því sambandi var bent á að samkvæmt lögskýringargögnum skal mat á því hvort nafn sé nafnbera til ama lúta að merkingu nafnsins en ekki tegund orðsins, þ.e. að nafnið sé leitt af atviksorði. Með því að mannanafnanefnd hefði eingöngu tekið afstöðu til framangreindra atriða gæti ekki komið til athugunar við úrlausn ógildingarkröfu stefnanda önnur skilyrði ákvæðisins, svo sem hvort eða hvernig það gæti tekið íslenska eignarfallsendingu en um það skilyrði ákvæðisins ríkti þögnin ein í úrskurði mannanafnanefndar. Var úrskurður mannanafnanefndar felldur úr gildi. Þá var viðurkenningarkröfu stefnanda um að mega bera nafið Aftur vísað frá héraðsdómi þar sem það var ekki talið á valdi dómstóla að meta í nefndarinnar stað hvort önnur skilyrði 1. mgr. 5. gr. mannanafnalaga, þ.e. skilyrðið um íslenska eignarfallsendingu, væru uppfyllt.