Fallist var á kröfu stefnanda um ómerkingu þriggja ummæla sem birtust í fjölmiðli stefndu og greiðslu miskabóta úr hendi ábyrgðarmanns fjölmiðilsins. Talið var að ummælin, sem lutu að frétt um alvarlega líkamsárás sem stefnandi var sagður grunaður um að hafa framið, fælu í sér aðdróttun í hans garð. Óumdeilt var að mistök urðu við gerð fréttarinnar og stefnanda ruglað saman við annan mann með sömu eiginnöfn. Við ákvörðun um fjárhæð miskabóta var litið til ýmissa sjónarmiða, s.s. alvarleika ummælanna, útbreiðslu þeirra og viðbragða stefndu eftir að í mistökin komu í ljós.