• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Fangelsi
  • Vopnalagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2019 í máli nr. S-191/2019:

Ákæruvaldið

(Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Magnúsi Jónssyni

(Guðni Jósep Einarsson lögmaður)

 

       Mál þetta, sem dómtekið var 28. mars síðastliðinn, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 5. mars síðastliðinn, á hendur Magnúsi Jónssyni, kt. 000000-0000, [...], Reykjavík,fyrir eftirtalin brot, framin í Reykjavík á árinu 2018:

 

1.       

Vopnalagabrot með því að hafa, fimmtudaginn 5. júlí, haft í vörslu sinni á almannafæri, heimatilbúið stunguvopn með tveimur blöðum, 14 sm að heildarlengd, sem ákærði geymdi í buxnastreng og fannst á slysadeild Landspítalans í Fossvogi í kjölfar afskipta af ákærða utan við [...]. 

       Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 30. gr. og b-lið 2. mgr. 30. gr.,  sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

 

2.       

Fyrir brot gegn valdstjórninni, tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar og vopnalagabrot með því að hafa, miðvikudagskvöldið 12. september, í og við viðtalsherbergi á bráðamóttöku geðsviðs Landspítalans á Hringbraut, veist með ofbeldi og hótunum um ofbeldi í verki, að A, geðlækni, sem var þar við skyldustörf, en ákærði dró upp úr peysuvasa kjöthníf, af gerðinni Tramintina, með 11 sm löngu blaði, um 22,5 sm að heildarlengd, gekk í átt að A, með hnífinn fyrir framan sig og otaði hnífnum fram líkt og hann ætlaði að stinga A í bakið, sem á sama tíma snéri sér við að ákærða, og hörfaði síðan út úr viðtalsherberginu en ákærði elti hann með hnífinn á lofti og gerði tilraun til að stinga hann með honum ofarlega í búk eða andlit, en A náði að verjast honum og varnarteymi geðdeildar yfirbugaði ákærða í kjölfarið. Þá hafði ákærði í vörslu sinni á almannafæri framangreindan kjöthníf sem ákærði geymdi í peysuvasa en missti í gólfið er hann var yfirbugaður af varnarteyminu.

       Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 106. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga og 1. mgr. 30. gr., sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

 

3.       

Vopnalagabrot með því að hafa, fimmtudaginn 13. desember, í anddyri Hótels Miðgarðs að Laugavegi 120, haft í vörslu sinni, á almannafæri, vasahníf með 7 sm löngu blaði og um 16 sm að heildarlengd, sem ákærði geymdi í buxnavasa og dró upp í anddyri hótelsins en missti fyrir utan hótelið, óopnaðan.

       Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 30. gr.,  sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

 

4.       

Brot gegn lögreglulögum með því að hafa, sunnudaginn 23. desember, á slysadeild Landspítalans í Fossvogi, ekki farið að ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa biðstofu slysadeildar sem ákærða hafði áður verið meinaður aðgangur að.

       Telst þessi háttsemi varða við 19. gr., sbr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.

 

5.       

Brot gegn valdstjórninni og vopnalagabrot með því að hafa, mánudaginn 24. desember, í símtölum við Neyðarlínuna og Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra, hótað lögreglumanninum B, sem var við skyldustörf, ofbeldi með því að segja „ef ég mæti þér hérna í myrkrinu þá sting ég þig fyrst“ og „ekki vera fokking aumingi þá kem ég bara og sker bara upp í hálsinn“, ásamt því að hóta ítrekað að stinga þá lögreglumenn sem sendir yrðu til hans, og skömmu síðar, við [...], hótað lögreglumönnunum GST-0606, SP-H1384, GH-0784, EÓJ-9516, HSH-0516, JMS-1727, ÞPS-1107 og THT-1509, sem voru þar við skyldustörf, ofbeldi í orðum og verki, með því að ógna þeim með tveimur hnífum, öðrum með  9 sm löngu blaði, um 18,5 sm að heildarlengd, en hinum með 10 sm löngu blaði, um 24,5 sm að heildarlengd, og segjast ætla að leggja til þeirra og eða stinga þá. Þá hafði ákærði í vörslu sinni á almannafæri, framangreinda tvo eldhúshnífa sem hann kastaði frá sér skömmu áður en lögregla yfirbugaði hann.

       Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 30. gr.,  sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

 

6.       

Fíkniefnalagabrot með því að hafa, föstudaginn 28. desember, haft í vörslum sínum 0,84 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit á ákærða í kjölfar afskipta við verslun 66° norður að Laugavegi 17.

       Telst þessi háttsemi varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

 

       Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er krafist upptöku á 0,84 g af amfetamíni og 6 stk „Vermox“ töflum sem fundust við afskipti sem frá er greint í 6. tl. ákæru samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og 3. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994. Loks er krafist upptöku á heimatilbúnu stunguvopni, kjöthníf að gerðinni Tramintina, tveimur eldhúshnífum að gerðinni IKEA og vasahníf, sbr. 1., 2., 3. og 5 tl., ákæru samkvæmt heimild í 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“

 

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið brot þau sem honum eru gefin að sök í ákærunni og er játning hans studd sakargögnum.  Það eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.  Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotin sem eru réttilega færð til refsiákvæða í ákærunni.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann, á árunum 2013 til 2018, verið sektaður fjórum sinnum fyrir brot gegn áfengis-, fíkniefna- og umferðarlögum. Síðast 25. júlí 2018. Refsing ákærða verður ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga, auk þess sem brot í 1. ákærulið er hegningarauki, sbr. 78. gr. sömu laga. Refsing hans er hæfilega ákveðin 12 mánaða fangelsi en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans eins og í dómsorði greinir.

Gerð var geðrannsókn á ákærða meðan hann sætti gæsluvarðhaldi. Samkvæmt henni er hann sakhæfur og ekkert sem bendir til annars en að refsing geti borið árangur.

       Þá verða fíkniefni, lyf, hnífar og stunguvopn gerð upptæk eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.

       Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað og málsvarnarþóknun verjanda síns sem ákveðin er með virðisaukaskatti í dómsorði.

 

       Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð :

       Ákærði, Magnús Jónsson, sæti fangelsi í 12 mánuði en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans frá 29. desember 2018.

       Upptæk skulu vera 0,84 g af amfetamíni, 6 stk. Vermox töflur, heimatilbúið stunguvopn, kjöthnífur af gerðinni Tamintina, tveir eldhúshnífar af IKEA gerð og vasahnífur.

        Ákærði greiði 600.000 krónur í sakarkostnað og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðna Jóseps Einarssonar lögmanns, 505.920 krónur.

                                                                                   

Arngrímur Ísberg