• Lykilorð:
  • Galli
  • Sönnunarbyrði
  • Verksamningur
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september í máli nr. E-3300/2017:

GSG-þaklagnir ehf.

(Óskar Sigurðsson lögmaður)

gegn

HÆ ehf.

(Ingólfur Vignir Guðmundsson lögmaður)

 

            Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 13. október 2017 og dómtekið 30. ágúst 2018. Stefnandi er GSG þaklagnir ehf., Hellishólum 2, 800 Selfossi. Stefndi er Hæ ehf., Völuteigi 6, 270 Mosfellsbæ. 

            Stefnandi gerir kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 8.720.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 16. júní 2017 til greiðsludags, að frádreginni innborgun að fjárhæð 2.000.000 króna þann 21. ágúst 2017. Þá er krafist málskostnaðar. Stefndi gerir þá kröfu aðallega að stefnukrafan verði lækkuð um 3.540.000 krónur á grundvelli gagnkröfu stefnanda til skuldajafnaðar, auk málskostnaðar. Til vara er þess krafist að krafa stefnanda verði lækkuð að álitum að mati dómsins og málskostnaður látinn niður falla.

 

                                                               I.

Málavextir og helstu ágreiningsefni

            Stefnandi sem er verktakafyrirtæki og stefndi sem er byggingaverktaki, gerðu með sér verksamning í maí 2017 þar sem stefnandi tók að sér að rífa svokallaðan pvc-dúk af húseignunum að Efstalandi 12–18 og Sölkugötu 22–28 í Mosfellsbæ og klæða þökin með nýjum pvc-dúk. Heildarsamningsupphæð nam samtals 12.132.800 krónum vegna beggja húseignanna. Jafnframt var gerður viðauki við verksamninginn um að stefnandi fjarlægði hellur af svölum Efstalands 12–18 sem lágu yfir umræddum pvc-dúk, og legði þær niður aftur. Samkomulag var um að greiðsla fyrir þennan verkþátt næmi 2.640.000 krónum. Stefnandi gaf út reikning þann 1. júní 2017 með eindaga 16. júní 2017 fyrir þeim hluta verksins sem laut að Efstalandi 12–16, samtals að fjárhæð 8.720.000 krónur. Stefndi greiddi 2.000.000 króna þann 21. ágúst 2017, en frekari greiðslur bárust ekki inn á reikninginn.

            Stefndi neitaði að greiða reikninginn að fullu þar sem hann taldi að vankantar væru á frágangi á hellum sem hefðu leitt til þess að hann hefði þurft að endurvinna allan þann verkþátt. Þá væri lagning á þakdúk ekki í samræmi við verksamninginn þar sem hún næði ekki upp á kantana og að flassningu eins og eldri dúkurinn. Stefndi telur að hann eigi rétt á afslætti vegna þakdúksins sem nemi 900.000 krónum og 2.640.000 krónum vegna hellulagnar eða samtals 3.540.000 krónum, sem eigi að skuldjafna upp í kröfu stefnanda. Stefnandi hefur hafnað því að nokkrir meinbugir séu á verkinu og því séu engin skilyrði til skuldajöfnunar. 

            Ágreiningur aðila varðar það hvort verkið hafi verið unnið í samræmi við upphaflegan verksamning, hvort það sé haldið galla og hvort sönnunarbyrði hafi verið fullnægt.

            Eftir að gagnaöflun var lýst lokið, þann 25. apríl 2018, óskaði stefndi eftir dómkvaðningu matsmanns. Þeirri beiðni var hafnað með úrskurði 4. júlí 2018. Dómarar fóru á vettvang við upphaf aðalmeðferðar málsins þar sem aðstæður voru skoðaðar í Efstalandi 18. Aðilar voru sammála um að ekki væri þörf á að skoða aðrar eignir í húsalengjunni, þar sem aðstæður væru sambærilegar. Við aðalmeðferð málsins gáfu Guðbrandur Jónsson, framkvæmdastjóri stefnda, og Ævar Ingi Pálsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri, aðilaskýrslu. Þá gáfu skýrslu sem vitni Stefán Þór Hólmgeirsson og Gunnlaugur Óttarsson, sem báðir eru starfsmenn stefnanda, Haraldur Karl Reynisson, húsasmíðameistari hjá stefnda, Kristjón Jónsson, tæknimaður hjá stefnda, og Eyþór Skúli Jóhannesson, íbúi að Efstalandi 18.

 

                                                              II.

Helstu málsástæður stefnanda

            Stefnandi vísar til þess að samkomulag hafi verið um að greiða 6.080.000 inn á skuldina samkvæmt hinum útgefna reikningi, á meðan umfang hinna meintu galla sem ágreiningur væri um yrði skoðað sérstaklega. Stefndi hafi hins vegar vanefnt þetta samkomulag og einungis greitt 2.000.000 króna þann 21. ágúst 2017 þrátt fyrir loforð um frekari greiðslur.

            Stefnandi hafnar því að einhverjir meinbugir séu á umræddum reikningi eða undirliggjandi vinnu og verki stefnanda fyrir stefnda. Stefnandi vísar til þess að órökstuddar varnir um að stefndi telji reikninginn of háan eða að gallar séu á verki stefnanda, sem stefndi beri alfarið sönnunarbyrði um, fái engu breytt um greiðsluskyldu hans á dómkröfunni.

            Stefnandi byggir á meginreglum kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga sem eigi sér lagastoð í 45., 47., 51., 52., og 54. gr. laga nr. 50/2000 og 28. gr. laga nr. 42/2000. Varðandi gjalddaga kröfunnar vísar stefnandi einkum til meginreglu 49. gr. laga nr. 50/2000. Kröfur um dráttarvexti styðjast við III. og V. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Varðandi varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991.

 

                                                              III.

Helstu málsástæður stefnda

            Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki unnið verkið í samræmi við verksamninginn, með því að hafa ekki skipt um allan pvc-dúkinn á fasteigninni. Stefnanda hafi því borið að veita afslátt frá umsaminni verkfjárhæð. Stefndi telur sig eiga rétt á 25% afslætti frá umsaminni fjárhæð vegna þessa eða gagnkröfu sem nemi 900.000 krónum, enda hafi verulegur vinnusparnaður verið fólginn í því að sleppa við að leggja dúk upp með veggjum og að flassningum.

            Þá byggir stefndi á því að frágangur á hellum hafi verið haldinn verulegum galla. Eftir að stefnandi lauk verkinu hafi hellurnar verið svo skakkar og illa lagðar að stefndi hafi, að kröfu húseigenda, orðið að endurvinna allt verkið, þar sem stefnandi hafi ekki orðið við beiðni stefnda um að bæta úr ágöllunum. Stefndi vísar til þess að tjón hans vegna þessa geti aldrei numið lægri fjárhæð en þeirri sem samið var um vegna verksins eða 2.640.000 krónum.

            Stefndi vísar til þess að samkvæmt verksamningi eigi að vinna verkið í samræmi við íslenskan staðal ÍST 30, 5. útgáfu 2003, með þeim breytingum sem leiða af ákvæðum útboðs- og verklýsingar og verksamnings. Stefnandi hafi vanrækt að boða stefnda til verklokaúttektar þegar hann lauk framkvæmdum á Efstalandi 12–18, sbr. 28. kafla staðals ÍST 30.

            Stefndi vísar til meginreglna kröfu- og samningaréttar um réttar efndir samninga, almennra reglna skaðabótaréttarins og laga um lausafjárkaup, einkum 17. gr. Varðandi gagnkröfu til skuldajafnaðar er byggt á 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

IV.

Niðurstaða

            Í málinu er deilt um hvort frágangur á þakdúk sé í samræmi við verksamning. Stefnandi hafi ekki rifið allan þakdúkinn af húseigninni, en það sé í ósamræmi við ákvæði verksamningsins um að „rífa af allan núverandi pvc dúk“. Í greinargerð stefnda kemur fram að hann telji sig eiga gagnkröfu á 25% afslætti frá umsaminni fjárhæð, 3.600.000 krónum. Undir rekstri málsins féllst stefndi á að viðmiðunarfjárhæðin væri of há þar sem hún tæki bæði til dúklagningar á þaki og svalagólfi. Rétt viðmiðunarfjárhæð væri því 1.320.000 krónur og 25% afsláttur af þeirri fjárhæð næmi því 330.000 krónum. Í verksamningi aðila kemur fram að verkið skuli unnið samkvæmt tilboði og íslenskum staðli ÍST 30. Í ákvæði 16.3. í ÍST 30 kemur fram að verktaki geti krafist lækkunar ef breyting er gerð á verkinu sem leiðir til lægri samningsfjárhæðar enda sé sú krafa gerð þegar í stað. Í skýrslutöku yfir Kristjóni Jónssyni, tæknimanni hjá stefnda sem vann að gerð og frágangi verksamningsins, kom fram að stefnandi hefði greint honum frá því að frágangur á flassningum væri í lagi og stefnandi hygðist vinna verkið með því að skera á eldri dúk og sjóða yngri dúkinn saman við eldri dúkinn. Vitnið gat ekki staðfest hvort þetta hefði komið upp áður en verksamningurinn var undirritaður eða í kjölfar þess. Hvað sem því líður liggur fyrir að stefndi gerði engar athugasemdir við þetta fyrirkomulag, hvorki á þann veg að þessi útfærsla væri í ósamræmi við gildandi samning né að hún ætti að leiða til þess að samningsfjárhæðin lækkaði. Þá verður ekki séð að það hafi verið óforsvaranlegt að vinna verkið með þessum hætti. Með vísan til framangreinds verður ekki fallist á að lækka kröfu stefnanda vegna frágangs á pvc-dúk á svalagólfi fasteignanna að Efstalandi 12–18.

            Í málinu er enn fremur ágreiningur um hellulögn á svalagólfum. Fallast verður á það með stefnanda að stefndi verði varðandi gagnkröfu að sýna fram á að gallar hafi verið á verkinu og hvert umfang þeirra er. Stefndi óskaði ekki eftir matsgerð vegna þessa fyrr en eftir að gagnaöflunarfresti var lokið. Hellulögnin var auk þess endurunninn, eða að minnsta kosti lokið við endanlegan frágang hennar, áður en mál þetta var höfðað. Þær ljósmyndir og þau samskipti sem stefndi leggur fram í málinu sýna ekki að hellulögnin hafi verið haldinn umtalsverðum göllum. Þá verður að hafa í huga að verkinu var ekki lokið af hálfu stefnanda þegar hann fór frá því og því ekki hægt að fullyrða að við endanlegan frágang verksins hefði verið hægt með litlum tilkostnaði að lagfæra hugsanlega vankanta á hellulögninni. Það liggja því ekki fyrir dóminum fullnægjandi gögn um umfang hins meinta tjóns stefnda, svo sem nauðsyn þess að taka upp hellurnar og endurleggja þær. Stefndi verður að bera hallann af því.

            Samkvæmt 28 kafla ÍST 30 þá tilkynnir verktaki um áætluð verklok og boðar verkkaupi þá tafarlaust til úttektar á verkinu. Láti verkkaupi það farast fyrir getur verktaki boðað til úttektarinnar. Í skýrslutöku yfir Guðbrandi Jónssyni kom fram að engin lokaúttekt hefði verið gerð á verkinu, þar sem því hefði ekki verið að fullu lokið, en stefnandi hefði ekki verið tilbúinn að klára verkið fyrr en stefndi væri búinn að greiða verulega inn á reikningsfjárhæðina. Í skýrslutöku yfir Haraldi Karli Reynissyni, húsasmíðameistara og eins eiganda stefnda, kom fram að stefndi hefði ekki boðað til lokaúttektar vegna verksins. Hvorki stefnandi né stefndi nýttu sér því framangreinda heimild til lokaúttektar 

            Í málinu er óumdeilt að stefndi skyldi greiða stefnanda 2.640.000 krónur fyrir að taka upp og leggja niður umræddar hellur. Í skýrslutöku yfir Guðbrandi Jónssyni, forsvarsmanni stefnanda, og við munnlegan málflutning kom fram að hellulögninni var ekki að fullu lokið þegar reikningur var sendur til stefnda fyrir heildarfjárhæðinni. Sá hluti sem var ólokið fólst í að leggja þær hellur sem höfðu verið sérskornar til að falla að köntunum. Þó að þetta sé ekki stór hluti af hellulögninni í heild sinni verður að horfa til þess að við lokafrágang þarf að gæta að því að særa ekki pvc dúkinn þegar síðustu hellunum er þrýst niður á flötinn. Verður að fallast á það með stefnda að stefnandi geti ekki krafist fullrar greiðslu fyrir hellulögnina sem hann hefur sjálfur viðurkennt að hafa ekki lokið við að öllu leyti. Þykir rétt að umsamið verð lækki um 528.000 krónur eða sem svarar til 20% af upphaflegu samningsverði.

            Með vísan til framangreinds verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 8.192.000 krónur, með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 16. júní 2017 til greiðsludags, en upphafstíma dráttarvaxta hefur ekki verið mótmælt. Til frádráttar kemur innborgun að fjárhæð 2.000.000 króna þann 21. ágúst 2017.

            Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna.

            Af hálfu stefnanda flutti málið Birgir Már Björnsson lögmaður f.h. Óskars Sigurðssonar lögmanns.

            Af hálfu stefnda flutti málið Ingólfur Vignir Guðmundsson lögmaður.

            Dóm þennan sömdu Helgi Sigurðsson héraðsdómari, sem er dómsformaður, Daði Kristjánsson héraðsdómari og Maríus Þór Jónasson bygginga-tæknifræðingur.

 

                                                D Ó M S O R Ð

            Stefndi greiði stefnanda 8.192.000 krónur, með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 16. júní 2017 til greiðsludags, að frádreginni innborgun að fjárhæð 2.000.000 króna þann 21. ágúst 2017.

            Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað.

 

                                                            Helgi Sigurðsson (sign)

                                                            Daði Kristjánsson (sign)

                                                            Maríus Þór Jónasson (sign)