• Lykilorð:
  • Galli
  • Lausafjárkaup
  • Sönnun
  • Vanreifun

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 11. september 2018 í máli nr. E-1012/2017:

Tor ehf.

(Jónas A. Aðalsteinsson lögmaður)

gegn

Kötlu matvælaiðju ehf.

(Björgvin Jónsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem var dómtekið 24. ágúst sl., var höfðað 14. mars 2017.

            Stefnandi er Tor ehf., Eyrartröð 13 í Hafnarfirði.

            Stefndi er Katla matvælaiðja ehf., Kletthálsi 3 í Reykjavík.

            Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 14.183.959 kr. auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. mars 2015 til 22. apríl 2015, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

            Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar á kröfu stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar.

 

                                                                        I

            Málsatvik eru þau að stefnandi, sem rekur fiskvinnslu, hefur undanfarin ár flutt fisk út til Bretlands. Stefnandi hefur í ákveðnum tilvikum notað svonefnd hjálparefni við vinnsluna, en fyrir dómi sagði Arnar Atlason, framkvæmdastjóri félagsins, að þetta væri fyrst og fremst gert til að til að þyngja fiskinn. Slíkt sé gert í samráði við kaupendur erlendis. Í október 2014 keypti stefnandi hjálparefnið N242 af stefnda, en fram að því mun stefnandi hafa notað hjálparefni frá hollenskum framleiðanda. Málsaðila greinir nokkuð á um aðdraganda viðskiptanna. Fyrir liggur þó að vorið 2014 fékk stefnandi einn poka af efninu frá stefnda til prófunar. Í tölvubréfi Arnars Atlasonar til stefnda frá 19. maí 2014 kom fram að efnið hefði verið prófað og að það hefði virkað ágætlega. Stefnandi yrði því í sambandi við stefnda þegar næst kæmi að því að panta hjálparefni. Í millitíðinni notaði stefnandi síðan það hjálparefni sem hann hafði áður stuðst við frá fyrri framleiðanda. Aðspurður fyrir dómi sagði Arnar að umrædd prófun hefði falist í mati á þyngingu vörunnar.

            Fyrsta framleiðsla stefnanda með hjálparefninu frá stefnda var send til Englands 12., 13., 19. og 20. nóvember 2014. Stefnandi heldur því fram að kaupandinn, sem var enska félagið Seafood Holdings, hafi hafnað móttöku vörunnar á þeirri forsendu að hún væri skemmd og þar með óhæf til neyslu. Einkum hafi verið kvartað yfir megnri ammoníakslykt af fiskinum. Stefnandi hafi staðreynt að kvörtun Seafood Holdings ætti við rök að styðjast. Í framhaldinu hafi stefnanda tekist að takmarka tjón sitt með sölu á hluta vörunnar í dýrafóður, en beint fjárhagslegt tjón hafi þó numið 5.543.537 kr. Þetta hafi einnig orðið til þess að draga nokkuð úr frekari sölu á vöru stefnanda í framhaldinu.

            Með bréfi, dags. 16. apríl 2015, fór stefnandi þess á leit við Rannsóknarþjónustuna Sýni ehf. að gerð yrði samanburðarprófun á fiski meðhöndluðum með tveimur tegundum hjálparefna. Samkvæmt bréfi Rannsóknarþjónustunnar Sýnis ehf., dags. 8. maí 2015, var sú rannsókn gerð og unnið miðað við tvö ólík hjálparefni. Upplýsingar um hjálparefnin hafi borist í lokuðu umslagi. Fram kemur að niðurstaðan hafi verið sú að greinilegur munur væri á tilraunahópunum tveimur. Hollenskt efni, sem stefnandi hafi stuðst við fram til þess tíma er hann skipti yfir í efni stefnda, hafi fengið meðaleinkunnina 6 á svonefndum Torry-kvarða, en kvarðanum mun vera ætlað að meta lykt og bragð af soðnum mögrum fiski á borð við þorsk, ýsu og ufsa. Í einkunninni 6 hafi falist að sýnið hafi verið með lykt sem minnti á soðnar kartöflur, soðna mjólk eða vott af vanillu. Efnið frá stefnda hafi aftur á móti fengið meðaleinkunnina 3 á sama kvarða. Það sýni hafi verið með sterkri TMA-lykt (ammoníak) sem einhverjir af prófunarmönnum hafi líkt við siginn fisk. Þess skal getið að rannsóknarstofan hafði áður skoðað efnið í desember 2014, en þá að beiðni stefnda.

            Hinn 10. júní 2016 var Sigurjón Arason, prófessor og yfirverkfræðingur, dómkvaddur að beiðni stefnanda til að kanna hvort hjálparefnið N242 hefði verið haldið galla, sem valdið hefði skemmdum á þeim vörum stefnanda sem efnið hefði verið notað í. Í matsgerð Sigurjóns, sem ekki er dagsett en lögð var fram á dómþingi 28. mars 2017, er meðal annars komist að eftirfarandi niðurstöðu, sem byggð er á þremur tilraunum: „[...] efnið N242 er ekki „geymsluþolsefni“ og það hvetur myndun skemmdarefna sem framkalla sterkari ammoníakslykt en þá lykt sem myndast í viðmiðunarhópum.“

            Eftir að matsgerðin lá fyrir féllst Tryggingamiðstöðin hf. á að stefnandi hefði orðið fyrir tjóni sem félli að ákveðnu leyti undir ábyrgðartryggingu stefnda hjá vátryggingafélaginu, þ.e. hið beina fjárhagslega tjón stefnanda. Voru stefnanda greiddar 7.689.934 kr. Þær bætur samanstanda af áðurnefndum 5.543.537 kr., vöxtum af þeirri fjárhæð sem námu 565.145 kr., kostnaði vegna matsgerðar að fjárhæð 1.131.252 kr. og innborgun inn á kostnað lögmanns stefnanda að fjárhæð 450.000 kr.

            Vátryggingafélagið hafnaði aftur á móti bótaskyldu vegna annarra liða í bótakröfu stefnanda á þeirri forsendu að þeir féllu utan gildissviðs vátryggingarinnar. Síðastnefndir kröfuliðir byggjast annars vegar á áætluðu tjóni stefnanda vegna skertrar verðmætaaukningar seldra vara á nokkurra mánaða tímabili, þ.e. vegna þess að fiskurinn hafi vegið minna þegar hjálparefni væru ekki notuð, og hins vegar á áætluðu tjóni stefnanda vegna skertrar vörusölu frá tjónsdegi til 8. mars 2015. Nánari grein er gerð fyrir kröfu stefnanda hér á eftir í reifun á málsástæðum hans. Stefnandi höfðar mál þetta á hendur stefnda til að sækja umræddar bætur úr hendi stefnda. Stefndi hafnar aftur á móti öllum kröfum stefnanda.

            Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi Arnar Atlason, sem er eins og áður segir framkvæmdastjóri stefnanda, Trausti Bragason, viðskiptafræðingur og skoðunarmaður bókhalds stefnanda, og Sigmar Rafnsson, sölumaður á sjávarútvegssviði stefnda.

 

                                                                        II

            Í fyrsta lagi telur stefnandi að umrætt hjálparefni hafi verið haldið galla í skilningi 17. gr. laga nr. 50/2000. Söluhluturinn hafi verið gallaður þar eð hann hafi ekki hentað í þeim tilgangi sem sambærilegir hlutir séu venjulega notaðir til, sbr. a-lið 2. mgr., sbr. 3. mgr., 17. gr. laganna. Söluhluturinn teljist einnig haldinn galla þar eð hann hafi ekki hentað í ákveðnum tilgangi sem seljandi hafi vitað eða mátt vita um þegar kaup voru gerð, enda hafi stefnandi byggt á sérþekkingu seljanda eða mati hans, sbr. b-lið 2. mgr., sbr. 3. mgr., sama ákvæðis.

            Sölumönnum stefnda hafi verið kunnugt um það efni sem stefnandi hefði áður notað við framleiðslu sína á fiskafurðum með góðum árangri. Hinir sérfróðu sölumenn stefnda hafi fullvissað stefnanda um að efnið hefði ekki síðri eiginleika en það efni sem stefnandi hefði áður notað. Það sé því augljóst að stefndi hafi álitið að sitt efni væri samkeppnishæft við önnur sambærileg efni til þeirrar fiskvinnslu sem stefnandi hygðist nota efnið í. Með matsgerð dómkvadds matsmanns hafi stefnandi sýnt fram á að efni stefnda hafi alls ekki hentað í þeim tilgangi sem því hafi verið ætlaður. Við eldun hafi stigið upp megn ammoníakslykt af fiski sem efnið hafi verið notað í og hann reynst óhæfur til neyslu. Í niðurstöðu matsgerðar dómkvadds matsmanns komi fram að efni stefnda hafi valdið fyrrnefndri lykt. Efnið væri því ekki nothæft sem hjálparefni við fiskvinnslu. Þá hafi vátryggingafélag stefnda þegar fallist á að tjón stefnanda af þessum sökum sé bótaskylt úr ábyrgðartryggingu stefnda. Stefnandi telur því að hið selda efni hafi verið gallað í skilningi a-liðar 2. mgr. 17. gr. laga nr. 50/2000.

            Til viðbótar liggi fyrir í máli þessu að stefnandi hafi leitað til stefnda um kaup á efni sem átti að nota í afmarkaðri framleiðslu á tiltekinni fiskafurð. Stefndi hafi sérstaklega mælt með hinu umdeilda efni sínu til framleiðslunnar. Stefndi sé framleiðandi umrædds efnis og búi yfir sérþekkingu á eiginleikum þess. Þá hafi stefndi upp á að bjóða fjölbreytt vöruúrval og geti hann sniðið söluvöru sína eftir þörfum hvers viðskiptavinar. Stefnda hafi verið kunnugt um tilgang stefnanda með kaupunum. Þar sem efnið hafi ekki reynst henta í þeim ákveðna tilgangi sé efnið einnig haldið galla í skilningi b-liðar 2. mgr. 17. gr. laga nr. 50/2000, svo sem að framan greini. Undantekningarákvæði þeirrar greinar eigi hér ekki við, þar sem stefnandi hafi einmitt byggt á sérþekkingu stefnda við kaupin.

            Í öðru lagi telur stefnandi að stefndi beri skaðabótaskyldu á öllu því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna kaupa á hinu gallaða efni. Nánar tiltekið hafi stefnandi orðið fyrir óbeinu tjóni af völdum saknæmra vanefnda stefnda í skilningi laga nr. 50/2000. Um bótaskyldu sé vísað til 3. mgr., sbr. 2. mgr., 40. gr. og 2. mgr. 67. gr. laga nr. 50/2000. Samkvæmt þeim lagaákvæðum beri seljandi bótaskyldu á óbeinu tjóni stefnanda þar eð tjónið megi rekja til mistaka eða vanrækslu stefnda eða þess að söluhluturinn hafi ekki við samningsgerð verið í samræmi við það sem heitið hafi verið af stefnda.

            Óbeint tjón sé skilgreint í 2. mgr. 67. gr. laga nr. 50/2000. Undir slíkt tjón falli m.a. tjón sem rekja megi til samdráttar eða stöðvunar í framleiðslu eða viðskiptum, sbr. a-lið ákvæðisins. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna komi fram að stafliðurinn taki til þess tjóns sem seljandi valdi kaupanda við það að kaupandi missi af framtíðarviðskiptum. Í kjölfar fyrrgreindra vanefnda stefnda hafi erlendir viðskiptavinir stefnanda, sem keypt hefðu af honum fiskafurðir, slitið viðskiptum við hann. Það liggi í augum uppi að orðspor stefnanda á markaði hafi orðið fyrir skaða í kjölfar framangreinds galla á afurðum hans. Því sé orsakasamhengi milli tjóns stefnanda og vanefnda stefnda auk þess sem ljóst sé að tjónið heyri undir ákvæði laga nr. 50/2000.

            Þannig telji stefnandi að söluhluturinn hafi átt að henta í þeim tilgangi sem sambærilegir hlutir séu venjulega notaðir til og í þeim tilgangi sem stefndi hafi talið sig vita um þegar kaupin hafi verið gerð. Þar sem hjálparefnið hafi ekki gert það teljist það gallað í skilningi 3. mgr. 17. gr. laga nr. 50/2000, sbr. 5. mgr. 27. gr. og ákvæði 3. mgr. 40. gr. sömu laga.

            Um bótaskyldu vegna óbeins tjóns í lausafjárkaupum gildi sakarábyrgð, sbr. 2. mgr. 40. gr. laga nr. 50/2000. Þá geti kaupandi ávallt krafist skaðabóta ef galla eða tjón megi rekja til mistaka eða vanrækslu seljanda, sbr. a-lið 3. mgr. 40. gr., eða hlutur hafi ekki þegar við samningsgerð verið í samræmi við það sem seljandi hafi heitið, sbr. b-lið sama ákvæðis. Í matsgerð hins dómkvadda matsmanns komi skýrlega fram að efni það sem stefndi hafi selt stefnanda hafi ekki hentað í þeim tilgangi sem því hafi verið ætlað. Stefndi hafi þvert á móti talið stefnanda trú um að einmitt þetta efni væri ekki síðra að gæðum til framleiðslunnar en þau efni sem stefnandi hefði áður notað. Efnið hafi því frá upphafi verið í ósamræmi við það sem stefndi hafi heitið stefnanda. Af þessu leiði að mistök hafi verið gerð af hálfu stefnda við sölu á efninu til stefnanda.

            Stefndi hafi getað séð fyrir sem augljósar afleiðingar hugsanlegra vanefnda hans það óbeina tjón sem krafist sé bóta fyrir í máli þessu, tjón sem falli undir stafliði a, b, c og d í annarri málsgrein 67. gr. laga nr. 50/2000. Það skilyrði bótaskyldu vegna vanefnda stefnda liggi þannig fyrir. Tjón stefnanda hefði vel getað orðið mun meira ef stefnanda hefði ekki tekist að lágmarka tjónið á þann hátt sem fyrir liggi í málinu.

            Um nánari tilgreiningu á kröfu sinni í málinu tilgreinir stefnandi að þegar umrætt tjón hafi átt sér stað hafi viðskipti stefnanda við Seafood Holdings verið mjög stöðug í liðlega tvö ár. Stefnandi hafi ekki átt viðskipti við aðra aðila með vörur þessarar gerðar. Sala á fiskafurðum þessarar gerðar til Seafood Holdings hafi að jafnaði numið 15.000 sterlingspundum á viku á þessu tveggja ára tímabili. Sú sala hafi alfarið fallið niður eftir tjónsatburðinn. Stefnanda hafi þó tekist að ná upp sölu á vörunni án notkunar hjálparefna, en í mun minna magni en fyrir tjónsatburðinn. Um þetta sé vísað til framlagðs línurits (grafs) stefnanda um vörusölu á tilteknu tímabili. Sala stefnanda á vörum þessum með nýju ógölluðu hjálparefni hafi fyrst tekist á ný eftir liðlega þrjá mánuði frá tjónsatburðinum. Verðmætisaukning við notkun réttra hjálparefna við fiskvinnsluna til þessa kaupanda hafi numið milli 1.500 og 2.000 sterlingspundum á viku. Notkun réttra hjálparefna endurnýi og viðhaldi eðlilegri þyngd fisksins. Séu efnin ekki notuð missi fiskurinn sem næst 10% af eðlilegri þyngd og það valdi samsvarandi skertri verðmætisaukningu miðað við þyngd unninnar vöru. Í þessu tilviki sé sú verðmætisskerðing varlega áætluð 6.549.967 kr., þ.e. 10% af seldum fiskafurðum án efnisins á tímabilinu 27. nóvember 2014 til 12. mars 2015, samtals kr. 74.699.670, að frádregnum áætluðum efnis- og vinnusparnaði að fjárhæð 920.000 kr. eða 65.499.670 kr., sem sé sem næst helmingur dómkröfu stefnanda á hendur stefnda í máli þessu.

            Auk þessa tjóns hafi meðalvörusala stefnanda til kaupandans fallið úr 31.480 sterlingspundum á viku í 21.650 sterlingspund í framhaldi af tjónsatburðinum fram til 8. mars 2015. Áætlað tjón stefnanda vegna skertrar vörusölu á því tímabili, að frádregnum sparnaðarliðum, sé áætlað 7.633.992 kr., sem sé sem næst helmingur dómkröfu stefnanda á hendur stefnda í máli þessu. Þetta fjárhagslega tjón stefnanda var komið í ljós um miðjan mars 2015.

            Um lagarök vísar stefnandi einkum til meginreglna samninga-, skaðabóta- og kröfuréttar, laga nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð, laga nr. 50/2000 og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá sé krafa stefnanda um vexti í máli þessu byggð á ákvæðum 71. gr. laga nr. 50/2000, sbr. nánari ákvæði laga nr. 38/2001 um það efni.

 

                                                                        III

            Stefndi byggir sýknukröfu sína einkum á því að skilyrði skaðabótaábyrgðar skorti alfarið í málinu, svo sem varðandi sök, ólögmæti, orsakatengsl, tjón og sennilega afleiðingu.

            Nánar tiltekið byggir stefndi á því að skilyrði til skaðabótaábyrgðar skv. 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/2000 séu ekki fyrir hendi. Starfsmenn stefnda hafi ekki gefið stefnanda rangar upplýsingar um hið selda hjálparefni eða þagað yfir neinum upplýsingum sem þeir hafi vitað eða mátt vita að skipt hafi máli fyrir stefnanda. Umrætt hjálparefni hafi sætt prófun af hálfu stefnanda sjálfs á því hvort það hentaði til notkunar í framleiðslu- og dreifingarferli stefnanda, áður en stefnandi hafi keypt efnið. Stefnanda hafi boðist að starfsmenn stefnda kæmu í fyrirtæki stefnanda til að gera með stefnanda prófanir og greiningar á þessu, en stefnandi hafi hafnað því og ætlað að prófa efnið sjálfur. Stefndi hafi mátt ganga út frá því að stefnandi, sem starfi að fiskvinnslu og fiskútflutningi, hafi yfir að ráða sérþekkingu til slíkra prófana. Stefnandi hafi í engu upplýst stefnda um að til stæði að flytja vöruna út með skipi, þó að um útflutning á ferskvöru væri að ræða. Þó fram hafi komið hvaða hjálparefni stefnandi hefði áður verið að nota þá hafi stefndi ekki getað ráðið af því hvert dreifingarferlið hjá stefnanda væri. Ekki sé við stefnda að sakast þótt stefnandi hafi vanrækt að prófa notkun hjálparefnisins varðandi alla þætti í framleiðslu- og dreifingarferli stefnanda. Hjálparefnið hafi ekki verið selt sem efni sem hefði aðra áskilda eiginleika en að hindra vökvatap í fiskinum og bæta endurheimtur á vökva sem tapast hefði frá veiðum. Þannig hafi hjálparefnið alls ekki verið selt sem geymsluþolsefni, þ.e. því hafi ekki verið ætlað að auka geymsluþol fisksins.

            Stefndi geri athugasemd við það sem segi í stefnu um að niðurstaða hins dómkvadda matsmanns hafi verið sú að efnið Katla N242 hvetji til myndunar skemmdarefna í fiskinum sem framkalli sterka ammoníakslykt og sé þar af leiðandi ekki nothæft sem hjálparefni við fiskvinnslu. Þvert á móti segi einungis í niðurstöðum matsgerðar að efnið N242 sé ekki geymsluþolsefni og það hvetji myndun skemmdarefna sem framkalli sterkari ammoníakslykt en þá lykt sem myndist í viðmiðunarhópum. Þá bendi stefndi á þann ágalla matsgerðarinnar að matsmaður hafi fengið þau fiskflök sem hann hafi notað við tilraunir sínar frá stefnanda málsins, og í matsgerðinni segi að flökin hafi verið tveggja daga gömul er þau hafi borist matsmanni.

            Af hálfu stefnda sé vísað til skilyrða skaðabótaréttar um að orsakatengsl þurfi að vera milli bótaskylds atburðar og tjóns. Byggt sé á því að slíkt orsakasamband sé ekki fyrir hendi varðandi meint óbeint tjón stefnanda. Í stefnu sé staðhæft að erlendir viðskiptaaðilar stefnanda hafi slitið viðskiptum við hann í kjölfar umrædds tjónsatburðar. Engin nánari grein sé þó gerð fyrir þessu í stefnunni fyrir utan það að staðhæft sé að meðalvörusala til kaupandans Seafood Holdings hafi fallið niður úr 31.480 sterlingspundum á viku í 21.650 sterlingspund á viku í framhaldi af tjónsatburði fram til 8. mars 2015, eða í um 14½viku. Af hálfu stefnda sé þeim staðhæfingum stefnanda mótmælt sem röngum og fráleitum að skýringa á minni vörusölu um þennan tíma, ef sú hafi verið raunin um þennan kaupanda, sé að leita í því að umræddum viðskiptaaðila stefnanda hafi á um viku tímabili borist sendingar af skemmdum fiski. Stefnanda hafi auðvitað verið vandkvæðalaust að skýra hinum erlenda viðskiptaaðila, sem hann kveðist hafa átt í viðskiptum við í um tvö ár, frá því að stefnandi hefði þarna notað hjálparefni frá öðrum birgi en áður og að eftirleiðis yrði notað sama hjálparefni og fyrr hefði verið var notað, nema ef vera skyldi að stefndi hafi haldið því leyndu fyrir hinum erlenda viðskiptaaðila að hann væri að nota slíkt hjálparefni í fiskinn og hinn erlendi aðili brugðist ókvæða við er upplýst hefði verið um það. Þá megi benda á að ýmsar ástæður geti verið fyrir því að einn viðskiptaaðili hafi tímabundið dregið úr fiskkaupum af stefnanda, svo sem minni eftirspurn, minna framboð á fiski eða tímabundið offramboð, verðlag, atriði er varði fiskkaupandann sjálfan og svo framvegis.

            Þá verði ekki með nokkru móti séð hvers vegna stefndi hefði ekki átt að geta selt fisk með hjálparefni til annarra viðskiptaaðila á um 15 vikna tímabili vegna umrædds tjónsatburðar. Í þeim efnum sé vísað til reglna skaðabótaréttarins um skyldu tjónþola til þess að takmarka tjón sitt. Sé því alfarið hafnað að stefnandi hafi sýnt fram á orsakatengsl tjónsatburðar við hið meinta óbeina tjón sitt, sem og vávæni þess.

            Því sé einnig alfarið mótmælt að af hálfu stefnanda hafi verið sýnt fram á að stefnandi hafi orðið fyrir óbeinu fjártjóni vegna hins skemmda fisks. Vísað sé til þess að fjárkröfur í stefnu séu ekki byggðar á öðru en staðhæfingum stefnanda. Engin staðfest og óvilhöll gögn liggi til grundvallar kröfunum, heldur sé grundvöllur krafnanna eingöngu getsakir stefnanda um meint óbeint fjártjón. Því beri að hafna kröfunum, jafnvel þótt svo ólíklega færi að stefndi yrði talinn bótaskyldur í málinu.

            Í stefnu segi um sundurliðun á dómkröfu stefnanda að sala stefnanda á fiskafurðum án efnisins á tímabilinu 27. nóvember 2014 til 12. mars 2015, þ.e. á 15 vikna tímabili, hafi numið samtals 74.699.670 kr., sem stefndi telji að sé raunar mun hærri tala en 15 x 15.000 sterlingspund, og að verðmætisskerðing vegna þeirrar sölu sé áætluð 6.549.967 kr., 10% af heildarsölu á tímabilinu að frádregnum áætluðum efnis- og vinnusparnaði að fjárhæð 920.000 kr. Þar sem ráða megi að stefnandi sé að fjalla um heildarvörusölu sína á fiskafurðum á framangreindu 15 vikna tímabili sem varði að stærstum hluta sölu á fiskafurðum til annarra viðskiptaaðila en Seafood Holdings sé með öllu órökrétt að tengja hana við umræddan tjónsatburð.

            Málatilbúnaður stefnanda sé þannig óskýr, órökstuddur og í honum ekki innbyrðis samræmi, auk þess sem engin staðfest gögn séu til stuðnings þeim staðhæfingum stefnanda sem þar séu settar fram. Hafi stefnandi eftir tjónsatburð verið uppiskroppa með hjálparefni þessarar gerðar, sem ekki sé þó byggt á sem málsástæðu, sé á því byggt að honum hefði verið í lófa lagið að útvega sér það á einum til tveimur vikum að hámarki, sbr. skyldu tjónþola til þess að takmarka tjón sitt. Því sé einnig mótmælt sem ósönnuðu að stefnandi hafi almennt notað slík hjálparefni í allar fiskafurðir sínar. Þá sé tölulegum útreikningum og áætlunum stefnanda, svo sem um fisksölu stefnanda, um skerta verðmætisaukningu og um efnis- og vinnusparnað, mótmælt sem röngum og óstaðfestum.

            Varðandi sundurliðun og tilgreiningu hins „helmings“ dómkröfu stefnanda þá láti stefnandi ekki fylgja nein gögn er styðji staðhæfingar hans. Þá sé með öllu vanreifað hvaða fiskafurðir vörusalan varði og í hverju samdráttur liggi. Línurit (graf) sem stefnandi hafi lagt fram stafi eingöngu frá honum sjálfum. Sé þessi þáttur kröfugerðarinnar svo vanreifaður að vart komi annað til greina en að vísa honum frá dómi af sjálfsdáðum, en annars að hafna kröfunum á þeim grundvelli að tjón sé ósannað, þ.e. hafi þeim ekki áður verið hafnað á þeim grundvelli að bótaskylda stefnda sé ekki fyrir hendi og/eða orsakatengsl við hið meinta tjón.

            Til vara byggir stefndi á því að skaðabótakröfur stefnanda beri að lækka stórlega. Sömu sjónarmið, málsástæður og lagarök og að framan greini eigi þar að öllu leyti við af hálfu stefnda. Þá sé byggt á því að frá því óbeina tjóni beri þá til dæmis að draga tekjuhagnað sem stefnandi hafi fengið af sölu fiskafurða er annars hefðu farið til Seafood Holdings og alla kostnaðarliði sem sparast hafi.

            Þá sé dráttarvaxtakröfu stefnanda sérstaklega mótmælt. Stefnandi hafi ekki beint tölulegum fjárkröfum að stefnda fyrr en með bréfi, dags. 20. febrúar 2017. Verði kröfur stefnanda á hendur stefnda að einhverju leyti teknar til greina sé á því byggt að dráttarvextir geti fyrst reiknast að mánuði liðnum frá þeim tíma, enda hafi stefnda ekki verið kynnt kröfugerð stefnanda fyrr en þá, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

            Um lagarök vísar stefndi einkum til reglna samninga- og kauparéttar og ákvæða laga nr. 50/2000. Vísað er til reglna skaðabótaréttar um frekari skilyrði bótaskyldu. Vísað er til 80. gr. laga nr. 91/1991 og reglna um skýran og glöggan málatilbúnað. Þá er vísað til reglna skaðabótaréttar um eigin sök tjónþola og um skyldu tjónþola til þess að takmarka tjón sitt. Loks er vísað til 9. gr. laga nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafa stefnda byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

 

                                                                        IV

            Í máli þessu krefst stefnandi bóta fyrir meint óbeint tjón af völdum efnis sem hann keypti af stefnda og notaði í fiskvinnslu sinni. Um var að ræða svonefnt hjálparefni N242. Ekki liggur fyrir skriflegur kaupsamningur milli málsaðila. Óumdeilt er að gallamat í málinu ræðst af ákvæðum laga nr. 50/2000. Í þeim efnum byggir stefnandi annars vegar á a-lið 2. mgr. 17. gr. laganna og hins vegar á b-lið ákvæðisins. Í fyrri stafliðnum kemur fram að ef annað leiði ekki af samningi skuli söluhlutur henta í þeim tilgangi sem sambærilegir hlutir eru venjulega notaðir til. Í síðari stafliðnum er því bætt við að söluhlutir skuli ef annað leiði ekki af samningi henta í ákveðnum tilgangi sem seljandinn vissi eða mátti vita um þegar kaup voru gerð, nema leiða megi af atvikum að kaupandi hafi ekki byggt á sérþekkingu seljanda og mati hans eða hafi ekki haft sanngjarna ástæðu til þess.

            Eins og áður segir heldur stefnandi því fram að sölumenn stefnda hafi gefið ákveðnar yfirlýsingar fyrir söluna um að efnið N242 hefði ekki síðri eiginleika en það efni sem stefnandi notaðist áður við. Þar sem stefnanda hefur ekki tekist að sanna þessa fullyrðingu sína, svo sem með vitnaleiðslum eða framlagningu gagna, verður hún ekki lögð til grundvallar við úrlausn málsins gegn mótmælum stefnda. Gallamatið verður því að fara fram miðað við þær almennu væntingar sem kaupendur gætu haft í viðskiptum sem þessum. Við það mat verður þó jafnframt að hafa hliðsjón af því að óumdeilt er að stefndi vissi hvaða efni stefnandi hafði notast við í starfsemi sinni áður en salan á efninu N242 til stefnanda fór fram.

            Eins og áður greinir er niðurstaða matsgerðar hins dómkvadda matsmanns afdráttarlaus um að efnið N242 hefur hvetjandi áhrif á myndun svonefndra skemmdarefna sem framkalla sterkari ammoníakslykt en ella. Í greinargerð setur stefndi fram ákveðnar athugasemdir við framkvæmd á rannsókn hins dómkvadda matsmanns. Í matsgerðinni segir aftur á móti að tillaga að uppsetningu tilraunar matsmanns hafi verið send aðilum matsmálsins og engar athugasemdir hafi borist. Fær dómurinn, sem skipaður er sérfróðum meðdómanda, heldur ekki séð að staðið hafi verið að matinu á óforsvaranlegan hátt. Að þessu virtu og þar sem stefndi hefur enga tilraun gert til að hnekkja niðurstöðum matsgerðarinnar, svo sem með öflun yfirmats, verður niðurstaða hennar lögð til grundvallar við úrlausn málsins.

            Að öllu framangreindu virtu verður að mati dómsins að leggja til grundvallar að efnið N242 hafi verið haldið galla í skilningi a-liðar 2. mgr. 17. gr. laga nr. 50/2000 þar sem það hentaði ekki í þeim tilgangi sem sambærileg efni eru venjulega notuð til. Nánar tiltekið verður að ætla að hjálparefni við fiskvinnslu, sem ætlað er að þyngja fisk, megi ekki hvetja til myndunar svonefndra skemmdarefna með svo örum hætti sem raun bar vitni. Ef slíkt ætti þó í undantekningartilvikum að geta talist eðlilegur þáttur í virkni efnisins þá ætti stefndi, sem sérfróður framleiðandi efnisins og sá sem best hlaut að þekkja til virkni þess, í öllu falli ekki að selja það án þess að koma upplýsingum um framangreinda eiginleika efnisins skýrt á framfæri við kaupendur sem hyggjast nýta efnið til vinnslu matvæla. Stefndi hefur hvorki haldið því fram að hann hafi veitt stefnanda slíkar upplýsingar né gefa gögn málsins til kynna að slíkar upplýsingar hafi verið veittar. Getur prófun stefnanda á poka af efninu vorið 2014 ekki hnekkt framangreindri niðurstöðu um galla efnisins, enda gat sú prófun ekki leyst stefnda undan þeirri skyldu að afhenda stefnanda aðeins vöru sem hentaði í þeim tilgangi sem sambærilegir hlutir eru venjulega notaðir til, sbr. a-lið 2. mgr. 17. gr. laga nr. 50/2000. Þá liggur heldur ekkert fyrir um að samið hafi verið um annað í lögskiptum málsaðila.

            Eins og áður segir hafði stefnandi þegar fengið beint tjón sitt bætt áður en mál þetta var höfðað, en það uppgjör byggðist á samkomulagi stefnanda við það vátryggingafélag sem selt hafði stefnda ábyrgðartryggingu. Í hinu fyrirliggjandi máli krefur stefnandi því stefnda einungis um bætur vegna óbeins tjóns í skilningi 2. mgr. 67. gr. laga nr. 50/2000. Samkvæmt því ákvæði er með óbeinu tjóni átt við (a) tjón sem rekja má til samdráttar eða stöðvunar í framleiðslu eða viðskiptum (rekstrarstöðvun); (b) tjón sem rekja má til þess að hlutur kemur ekki að þeim notum sem að var stefnt; (c) tjón sem rekja má til tapaðs hagnaðar, þegar samningur við þriðja mann fellur brott eða verður ekki réttilega efndur, en aðeins að því marki sem kaupandi lætur án sanngjarnrar ástæðu hjá líða að gera samning við annan aðila eða gera aðrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða draga úr tjóni sínu; eða (d) tjón sem rekja má til skemmda á öðru en söluhlutnum sjálfum, svo og hlutum sem hann er notaður til framleiðslu á eða standa í nánu og beinu sambandi við fyrirhuguð not hans.

            Forsenda þess að kaupandi geti krafið seljanda um bætur fyrir slíkt óbeint tjón af völdum galla samkvæmt lögum nr. 50/2000 er að eitthvert af skilyrðum 3. mgr. 40. gr. laganna eigi við, en í ákvæðinu felst að kaupandi getur krafist skaðabóta ef gallann eða tjónið má rekja til mistaka eða vanrækslu seljanda eða þess að hlutur var ekki þegar við samningsgerð í samræmi við það sem heitið var af seljanda.

            Að mati dómsins verður það að teljast til mistaka stefnda, sem er eins og áður segir sérfróður framleiðandi hjálparefna í fiskvinnslu, að hafa selt stefnanda hjálparefni, sem hvatti til myndunar svonefndra skemmdarefna með svo örum hætti sem raun bar vitni án þess að því fylgdi skýr viðvörun um þennan óvenjulega eiginleika efnisins. Þá verður að telja að tjón á borð við það sem stefnandi heldur fram að hann hafi orðið fyrir geti talist sennileg afleiðing af mistökum stefnda.

            Að öllu framangreindu virtu er bótagrundvöllur fyrir hendi samkvæmt 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/2000 og verður að telja sannað að stefnandi hafi orðið fyrir óbeinu tjóni sem stefndi ber ábyrgð á. Þar sem stefnandi vísar einnig til laga nr. 25/1991, sem lagaraka til stuðnings bótakröfu sinni, skal þess þó getið að hann hefur engin rök fært fram fyrir því hvernig hann eigi að geta byggt rétt á þeim lögum. Verður heldur ekki fallist á að bótaskylda stefnda gagnvart stefnanda geti byggst á þeim lögum eins og málsatvikum er háttað og að teknu tilliti til afmörkunar á gildissviði laganna í 2. gr. þeirra.

            Hvað varðar umfang hins óbeina tjóns stefnanda þá hefur stefndi mótmælt því að það teljist sannað. Þótt ekki megi gera óhóflega strangar kröfur um sönnun á umfangi óbeins tjóns, meðal annars vegna þess að slíkt mat er gjarnan háð nokkurri óvissu, þá verður eigi að síður að gera þá kröfu að ekki leiki vafi á réttmæti þeirra gagna, sem stefnandi leggur fram um tjón sitt. Eins og áður segir þá hefur stefndi allt frá upphafi vefengt útreikninga stefnanda og framlagðar upplýsingar sem sagðar eru byggja á bókhaldi hans, þar á meðal línurit (graf) um sölutölur eftir tjónið. Var því ríkt tilefni fyrir stefnanda til að renna traustari stoðum undir kröfugerð sína, svo sem með öflun matsgerðar dómkvadds matsmanns þannig að ekki færi á milli mála að framlagðir útreikningar og gögn byggðu á raunverulegum tölum úr bókhaldi stefnanda. Það gerði stefnandi aftur á móti ekki, heldur lagði fram staðfestingu á bókhaldsupplýsingum, sem hann aflaði einhliða frá Trausta Bragasyni, viðskiptafræðingi, sem annast ársreikningagerð stefnanda og vinnur að skattskilum hans. Gegn mótmælum stefnda verða því útreikningar stefnanda og áðurnefnt línurit (graf) hans ekki lögð til grundvallar við úrlausn málsins, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 31. janúar 2008 í máli nr. 224/2007. Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir næg gögn um fjártjón stefnanda til að unnt sé að fella efnisdóm á kröfu hans. Telst málatilbúnaður stefnanda svo vanreifaður að þessu leyti að ekki verður hjá því komist að vísa máli þessu af sjálfsdáðum frá dómi.

            Eins og atvikum er háttað þykir rétt að málskostnaður falli niður.

            Af hálfu stefnanda flutti málið Jónas A. Aðalsteinsson lögmaður.

            Af hálfu stefnda flutti málið Björgvin Jónsson lögmaður.

            Úrskurð þennan kveða upp Arnaldur Hjartarson, héraðsdómari og dómsformaður, Símon Sigvaldason héraðsdómari og Andri Ísak Þórhallsson efnaverkfræðingur. Dómsformaður tók við meðferð málsins 19. febrúar sl., en hafði fram til þess engin afskipti haft af meðferð þess.

 

                                                Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

            Máli þessu er vísað frá dómi.

            Málskostnaður fellur niður.

 

                                                                        Arnaldur Hjartarson

                                                                        Símon Sigvaldason

                                                                        Andri Ísak Þórhallsson