- Lykilorð:
- Dráttarvextir
- Gjalddagi
- Gjöf
- Greiðsla
- Innheimta
- Kröfuréttur
- Lánssamningur
- Löggerningur
- Lögmenn
- Samningur
- Skuldamál
- Sönnun
- Sönnunarbyrði
- Vitni
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 16. maí 2018 í máli nr.
E-2466/2017:
Guðfinna Aðalheiður Karlsdóttir
(Eyvindur Sveinn Sólnes lögmaður)
gegn
Arnþrúði Karlsdóttur
(Pétur Gunnlaugsson lögmaður)
I.
Mál þetta var höfðað 30. ágúst 2017 og dómtekið 7. maí 2018. Stefnandi er Guðfinna Aðalheiður Karlsdóttir, Sörlaskjóli 76, Reykjavík. Stefnda er Arnþrúður Karlsdóttir, Hverfisgötu 56, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 3.300.000 krónur, ásamt vöxtum, samkvæmt 3., sbr. 4., gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.000.000 króna frá 14. apríl 2016 til 23. maí 2016, af 2.500.000 krónum frá 23. maí 2016 til 6. júní 2016, af 2.800.000 krónum frá 6. júní 2016 til 3. mars 2017, af 3.300.000 krónum frá 3. mars 2017 til 19. júní 2017 og með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að henni verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins.
Dómara var úthlutað málinu 10. janúar 2018 en fram að þeim tíma hafði hann ekki komið að meðferð þess.
II.
Málsatvik:
Stefnandi kveðst hafa veitt stefndu peningalán á árunum 2016 og 2017. Stefnandi hafi lagt 2.000.000 króna inn á bankareikning stefndu 14. apríl 2016, 500.000 krónur 23. maí 2016, 300.000 krónur 6. júní 2016 og 500.000 krónur 3. maí 2017, eða samtals 3.300.000 krónur. Stefnandi hafi ítrekað reynt að fá skuldina greidda frá árinu 2017 en án árangurs og því hafi hún þurft að höfða mál á hendur stefndu til heimtu skuldarinnar.
Stefnda kannast ekki við að hafa fengið lán hjá stefnanda en hún kannast hins vegar við að hafa tekið við fjárframlögum frá henni til styrktar rekstri Útvarps Sögu sem tilheyri einkahlutafélaginu Saganet – Útvarp Saga en það félag sé eign stefndu og hún fari með stjórnarformennsku í því. Útvarpsstöðin hafi um árabil leitað eftir frjálsum framlögum frá hlustendum með auglýsingu á vefsíðu útvarpsstöðvarinnar og með spiluðum auglýsingum í útsendingum stöðvarinnar.
Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð stefndu hafi stefnandi komið óvænt í húsakynni útvarpsstöðvarinnar 14. apríl 2016 og óskað eftir fundi með stefndu. Þær hafi ekki þekkst fyrir. Stefnandi hafi tilkynnt stefndu um þá ákvörðun sína að styrkja rekstur útvarpsstöðvarinnar. Stefnandi hafi ekki viljað fara hefðbundna leið sem styrktaraðili með reglulegum greiðslum í heimabanka og hafi borið því við að hún notaði ekki heimabanka. Hafi stefnandi viljað hafa sinn háttinn á því hversu háum fjárhæðum hún styrkti stöðina með hverju sinni og hversu oft hún gerði það. Að sögn stefndu hafi stefnandi ekki gefið upp neinar fjárhæðir í því sambandi en hún hafi lagt ríka áherslu á að nafn hennar sem styrktaraðila kæmi hvergi fram og aldrei opinberlega, en nafnleyndin hafi verið henni nauðsynleg af persónulegum ástæðum. Að sögn stefndu hafi stefnandi lagt ríka áherslu á að upplýsingar yrðu ekki undir neinum kringumstæðum gefnar um það að hún væri styrktaraðili útvarpsstöðvarinnar.
Í greinargerð stefndu greinir að stefnanda hafi verið bent á aðalstyrktarreikning útvarpsstöðvarinnar í Arion banka en hún hafi ekki viljað að stuðningurinn færi inn á opinberan reikning stöðvarinnar. Stefnda kveður að stefnandi hafi óskað eftir að fá að leggja greiðslur inn á reikning í Landsbankanum. Útvarpsstöðin hafi hins vegar ekki verið með styrktarreikning í þeim banka á þessum tíma. Eini bankareikningurinn sem hafi verið opinn í Landsbankanum og notaður hafi verið í þágu útvarpsstöðvarinnar hafi verið bankareikningur á kennitölu stefndu. Að sögn stefndu hafi stefnandi óskað eftir að fá að leggja styrktargreiðslur inn á þann bankareikning.
Að sögn stefndu hafi stefnandi greitt inn á umræddan bankareikning í Landsbankanum, fjármunirnir síðan verið millifærðir á bankareikning rekstrarfélags útvarpsstöðvarinnar í Arion banka og þeir nýttir í rekstur stöðvarinnar. Að sögn stefndu hafi stefnandi aldrei haft orð á því að hún ætlaði að lána útvarpsstöðinni eða stefndu fjármunina enda sé engum lánasamningi til að dreifa. Þvert á móti, að sögn stefndu, hafi stefnandi viljað að fjármunirnir færu í rekstur útvarpsstöðvarinnar sem stefnandi hlustaði nánast alfarið á og hafi hún látið í ljós þakkir fyrir framlag útvarpsstöðvarinnar til þjóðfélagsumræðunnar.
Við aðalmeðferð gáfu stefnandi og stefnda
aðilaskýrslu. Þá gáfu skýrslu vitnis Pétur Gunnlaugsson, lögmaður stefndu og
fjölmiðlamaður á Útvarpi Sögu, Sigrún Pálmadóttir, starfsmaður á
Útvarpi Sögu og Elías Illugason, löggiltur endurskoðandi.
Helstu málsástæður og
lagarök stefnanda:
Stefnandi byggir á meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga. Um gjalddaga kröfu vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttar um að gjalddagi sé almennt við stofnun kröfu nema samningsákvæði leiði til annars, sbr. meðal annars 49. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Þannig sé skuldari skyldugur til að greiða skuld sína þegar kröfuhafi krefst þess.
Stefnandi telur sig hafa samið um að vextir yrðu greiddir af umræddum lánum en ekki liggi fyrir skriflegir samningar um gjalddaga eða vaxtafót. Þar sem um sé að ræða umtalsverðar fjárhæðir og til nokkuð langs lánstíma þá verði að telja sanngjarnt og eðlilegt að greiddir séu vextir af lánsfjárhæðinni. Stefnandi miðar dráttarvaxtakröfu við 19. júní 2017, sem er mánuði eftir að krafa var sannarlega gerð um endurgreiðslu. Um kröfu um vexti og dráttarvexti, þar með talið vaxtavexti, vísar stefnandi til 3. gr., sbr. 4. gr. og 1. mgr. 6. gr., sbr. III. kafla laga nr. 38/2008 með síðari breytingum.
Krafa stefnanda um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur aðili. Um varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991.
Helstu málsástæður og
lagarök stefndu:
Stefnda reisir sýknukröfu á því að stefnandi eigi enga
kröfu á hendur henni. Um hafi verið að ræða gjöf til styrktar rekstri Útvarps
Sögu. Stefnda hafi aldrei fengið lán hjá stefnanda. Engir lánasamningar hafi
verið eða séu á milli stefnanda og stefndu.
III.
Niðurstaða:
Í máli þessu er ekki tölulegur ágreiningur um stefnufjárhæð né heldur að stefnandi hafi lagt inn á bankareikning stefndu í Landsbankanum umræddar fjárhæðir með fjórum millifærslum á tímabilinu frá 14. apríl 2016 til 3. mars 2017. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort um hafi verið að ræða peningalán til stefndu eða gjafir til styrktar rekstri útvarpsstöðvar á vegum einkahlutafélags stefndu. Fjórar viðskiptakvittanir frá Landsbankanum liggja fyrir sem staðfesta umræddar millifærslur stefnanda á bankareikning stefndu en á þeim skjölum eru ekki tilgreindar skýringar á greiðslum.
Stefnandi og stefnda gáfu aðilaskýrslur og stendur orð gegn orði um það hvort um hafi verið að ræða peningalán til stefndu eða gjafir til styrktar rekstri útvarpsstöðvarinnar. Stefnandi hefur borið um að ekki hafi verið samið um sérstakan gjalddaga á lánunum og ekki hafi verið samið um að greiða ætti vexti af lánunum. Þá ber talsvert mikið á milli í framburði þeirra um það hvernig samskiptum þeirra hafi verið háttað fyrir og eftir umræddar millifærslur, þar með talið hvort stefnandi hefði lagt ríka áherslu á nafnleynd við meintar styrkveitingar, eins og stefnda heldur fram, og hefur stefnandi ekki kannast við að það hafi sérstaklega átt við í þau skipti sem hún hafi styrkt rekstur útvarpsstöðvarinnar með fjárframlögum. Stefnda kannaðist við það fyrir dómi að greiðslur stefnanda til stefndu, að því gefnu að um væri að ræða gjafir til styrktar rekstri útvarpsstöðvarinnar, hefðu verið óvenjulega háar miðað við það sem almennt tíðkaðist í gjöfum sem bærust frá almenningi til styrktar rekstrinum. Þá kannaðist stefnda ekki við það í þessu sambandi að hún eða stjórnendur útvarpsstöðvarinnar hefðu talið sérstaka þörf á því að tryggja sönnun á því að um væri að ræða gjöf til styrktar rekstri stöðvarinnar.
Í málinu liggur fyrir ljósrit af viðskiptakvittun frá Landsbankanum þar sem fram kemur að 150.000 krónur voru millifærðar af bankareikningi stefnanda á opinberan styrktarreikning útvarpsstöðvarinnar í Arion banka 22. september 2015. Ágreiningslaust er í málinu að innborgunin var gjöf til styrktar rekstri útvarpsstöðvarinnar á þessum tíma og er ekki krafist endurgreiðslu á því fjárframlagi.
Vitnið Pétur Gunnlaugsson, lögmaður stefndu og fjölmiðlamaður á umræddri útvarpsstöð, bar um að hann þekkti til stefnanda sem styrktaraðila útvarpsstöðvarinnar en hún hefði verið kynnt fyrir honum sem slík. Stefnandi hefði komið nokkrum sinnum í heimsókn á útvarpsstöðina þegar hann hefði verið þar við störf. Sér hefði ekki verið kunnugt um að stefnandi hefði lánað stefndu eða Útvarpi Sögu fjármuni. Hann hefði aldrei heyrt um neitt slíkt og talað hefði verið um stefnanda sem styrktaraðila útvarpsstöðvarinnar. Sér hefðu hins vegar ekki orðið ljósar upphæðirnar fyrr en í apríl 2017, þegar tiltekin kona, tengd stefnanda fjölskylduböndum, hefði haft samband við stefndu og krafið hana um endurgreiðslu.
Sigrún Pálmadóttir, starfsmaður Útvarps Sögu, bar um að hún hefði oft verið til svara þegar fólk kæmi á útvarpsstöðina og vildi gerast styrktaraðilar. Sigrún kvaðst muna mjög vel eftir því þegar stefnandi hefði komið á útvarpsstöðina og beðið um að fá að hitta stefndu. Stefnandi hefði rætt við Sigrúnu um hvernig það væri að vera styrktaraðili. Sigrún hefði hins vegar ekki séð um að ganga frá styrktarbeiðni til stefnanda. Stefnandi hefði komið nokkrum sinnum á útvarpsstöðina og viljað hitta stefndu og ræða við hana og hefði verið ákveðið að gefa henni tíma með stefndu til að ræða þessi mál. Stefnandi og stefnda hefðu hist í framhaldinu og þær rætt saman. Sigrún hefði staðið í þeirri meiningu eftir þetta að stefnandi væri styrktaraðili útvarpsstöðvarinnar. Hinn sami skilningur hefði verið hjá öðrum starfsmönnum útvarpsstöðvarinnar á tengslum stefnanda við stöðina.
Meðal gagna er Excel-yfirlit sem stefnda hefur lagt fram, unnið úr upplýsingum af umræddum bankareikningi hennar í Landsbankanum, þar sem fram kemur að stefnandi hafi lagt inn á bankareikninginn samtals 3.300.000 krónur í fjórum greiðslum, eða 2.000.000 króna 14. apríl 2016, 500.000 krónur 23. maí 2016, 300.000 krónur 6. júní 2016 og 500.000 krónur 3. mars 2017. Þá kemur jafnframt fram á yfirlitinu að stefnda hafi á tímabilinu frá 25. maí 2016 til 3. mars 2017 millifært af bankareikningi sínum yfir á bankareikning rekstrarfélags útvarpsstöðvarinnar í Arion banka samtals 4.850.000 krónur, þar af 1.500.000 krónur 25. maí 2016, 200.000 krónur 6. júní 2016, 1.300.000 krónur 4. ágúst 2016, 1.000.000 króna 16. september 2016, 300.000 krónur 5. október 2016, 50.000 krónur 7. febrúar 2017, 50.000 krónur 8. febrúar 2017, 150.000 krónur 10. febrúar 2017 og 300.000 krónur 3. mars 2017. Þessu til viðbótar liggur fyrir skrifleg staðfesting Elíasar Illugasonar, löggilts endurskoðanda, dagsett 15. desember 2017, sem tekur til framangreindra millifærslna af bankareikningi stefndu yfir á bankareikning rekstrarfélags útvarpsstöðvarinnar. Elías kom fyrir dóminn og gaf skýrslu vitnis og staðfesti framangreind skjöl og efni þeirra. Í framburði Elíasar kom fram að umræddar greiðslur frá stefnanda væru skráðar í bókhaldi útvarpsstöðvarinnar sem styrkir frá stefnanda og að sú bókhaldsskráning væri samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjóra rekstrarfélags útvarpsstöðvarinnar. Ársreikningur rekstrarfélagsins vegna ársins 2016 lægi hins vegar ekki endanlega fyrir.
Í málinu er óumdeilt að forsvarsmenn útvarpsstöðvarinnar Útvarps Sögu hafa um árabil leitað til almennings um fjárstuðning til styrktar rekstri stöðvarinnar. Af málatilbúnaði stefndu verður ráðið að styrktargreiðslur frá almenningi til útvarpsstöðvarinnar hafi yfirleitt farið inn á opinberan styrktarreikning rekstrarfélags útvarpsstöðvarinnar. Stefnda er ein til frásagnar um að stefnandi hafi óskað eftir nafnleynd og ekki viljað nota almennan styrktarreikning útvarpsstöðvarinnar í umrædd þrjú skipti árið 2016 og í eitt skipti árið 2017. Fyrir liggur að stefnandi hefur áður veitt útvarpsstöðinni fjárstuðning með 150.000 króna styrktargreiðslu 22. september 2015 og fór sú greiðsla inn á almennan styrktarreikning útvarpsstöðvarinnar á nafni og kennitölu stefnanda. Að því virtu er að mati dómsins ósennilegt og órökrétt að stefnandi hefði viljað hafa annan hátt á meintum styrkjum til útvarpsstöðvarinnar árin 2016 og 2017. Þá er það auk þess ósennilegt, í ljósi þeirra háu fjárhæða sem um ræðir, að stefnandi hefði viljað styrkja útvarpsstöðina um slíkar fjárhæðir með því að leggja upphæðirnar inn á persónulegan bankareikning stefndu í stað þess að leggja þær beint inn á bankareikning rekstrarfélagsins. Framburður vitnanna Péturs Gunnlaugssonar og Sigrúnar Pálmadóttur, sem bæði báru um að þau hefðu staðið í þeirri trú að stefnandi væri styrktaraðili, og þau byggðu meðal annars á samskiptum sínum við stefnanda á útvarpsstöðinni, fær þessu ekki breytt. Þá verður auk þess að taka tillit til þess að Pétur og Sigrún eru bæði samstarfsfólk stefndu á útvarpsstöðinni og ber að líta til þess við sönnunarmatið, sbr. 59. gr. laga nr. 91/1991.
Að mati dómsins hefur sú ráðstöfun stefndu á fjármunum af bankareikningi sínum, eftir á, að millifæra áþekkar fjárhæðir af bankareikningnum og lagðar höfðu verið inn á reikninginn af stefnanda yfir á bankareikning rekstrarfélags útvarpsstöðvarinnar takmarkaða þýðingu í málinu. Ekki er fullkomið tölulegt samræmi í fjárhæðum inn á bankareikning stefndu frá stefnanda og út af bankareikningnum og inn á bankareikning rekstrarfélags útvarpsstöðvarinnar. Þá liggur auk þess fyrir að einkahlutafélagið, sem er alfarið í eigu stefndu, naut góðs af greiðslunum. Framburður Elíasar Illugasonar, löggilts endurskoðanda, að umræddar greiðslur frá stefnanda væru skráðar í bókhaldi útvarpsstöðvarinnar sem styrkir frá stefnanda, hefur takmarkaða þýðingu við sönnunarmat um það hvort um hafi verið að ræða gjafir til styrktar rekstri útvarpsstöðvarinnar eða hvort um hafi verið að ræða lán frá stefnanda til stefndu. Í framburði Elíasar kom fram að umrædd bókhaldsskráning væri reist á upplýsingum frá framkvæmdastjóra og stjórnarmanni rekstrarfélags útvarpsstöðvarinnar um tilurð þessara tekna. Þá kom auk þess fram hjá Elíasi að ekki væri um að ræða endanleg og staðfest reikningsskil þar sem ársreikningur vegna ársins 2016 væri enn ófrágenginn.
Að mati dómsins hefði stefnda og rekstrarfélag útvarpsstöðvarinnar að minnsta kosti átt að tryggja sönnun fyrir því ef um var að ræða styrk en ekki peningalán í ljósi þess hversu háar fjárhæðirnar voru og að umræddar greiðslur voru lagðar inn á persónulegan bankareikning stefndu en ekki almennan styrktarreikning rekstrarfélagsins.
Að öllu framangreindu virtu hefur stefnda ekki sýnt fram á eða gert líklegt að stefnandi hafi í umrædd fjögur skipti verið að færa rekstrarfélagi útvarpsstöðvarinnar féð að gjöf til styrktar útvarpsrekstrinum með því að leggja fjárhæðirnar inn á persónulegan bankareikning stefndu. Hefur þannig ekki verið hnekkt þeirri staðhæfingu stefnanda að hún hafi greitt stefndu féð sem lán þar sem ekki var samið um sérstakan gjalddaga. Bar stefndu því að endurgreiða stefnanda féð, 3.300.000 krónur, þegar þess var krafist, sbr. meginreglu kröfuréttar. Í framburði stefnanda fyrir dómi kom fram að ekki hefði verið samið um að skuldin skyldi bera almenna vexti á lánstímanum. Þá er lánstíminn ekki svo langur að mati dómsins að til greina komi vegna sanngirnissjónarmiða að leggja til grundvallar að skuldin beri almenna vexti þó að ekki hafi verið um það samið. Verða því ekki dæmdir almennir vextir og vaxtavextir á lánstímanum. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 3. mgr. 5. gr., laga nr. 38/2001 er heimilt að reikna dráttarvexti samkvæmt viðmiðunum Seðlabanka Íslands af kröfum, þar sem ekki er samið um gjalddaga, þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara um greiðslu. Fyrsta innheimtubréf stefnanda til stefndu var dagsett 19. maí 2017 og að því virtu og með vísan til 1. mgr. 6. gr., sbr. 3. mgr. 5. gr., laga nr. 38/2001, er fallist á dráttarvaxtakröfu stefnanda af höfuðstól kröfunnar frá 19. júní 2017 til greiðsludags.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 620.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Daði Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefnda, Arnþrúður Karlsdóttir, greiði stefnanda, Guðfinnu Aðalheiði Karlsdóttur, 3.300.000 krónur, auk dráttarvaxta af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. júní 2017 til greiðsludags.
Stefnda greiði stefnanda 620.000 krónur í málskostnað.
Daði Kristjánsson