• Lykilorð:
  • Aðild
  • Höfundarréttur
  • Hönnun
  • Lögbann

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2018 í máli nr. E-1330/2017:

THG Arkitektar ehf.

Halldór Guðmundsson

(Erla Svanhvít Árnadóttir lögmaður)

gegn

Framkvæmdasýslu ríkisins

(Jón Eðvald Malmquist lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 18. janúar 2018, var höfðað 11. apríl 2017 af hálfu THG arkitekta ehf., Faxafeni 9, Reykjavík og Halldórs Guðmundssonar, Laugalæk 14, Reykjavík á hendur Framkvæmdasýslu ríkisins, Borgartúni 7A, Reykjavík til staðfestingar á lögbanni og viðurkenningar á réttindum.

Dómkröfur stefnenda eru eftirfarandi.

Að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt, á grundvelli 44. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, að láta fara fram opinbera hönnunarsamkeppni um hönnun hjúkrunaríbúða að Boðaþingi nr. 11 og 13, Kópavogi, nánar tiltekið hönnun 2. áfanga byggingar hjúkrunar- og þjónustumiðstöðvar við Boðaþing.

Að staðfest verði með dómi lögbann, sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 4. apríl 2017, við því að stefndi, á grundvelli 44. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, léti fara fram opinbera hönnunarsamkeppni um hönnun hjúkrunaríbúða að Boðaþingi nr. 11 og 13, Kópavogi, nánar tiltekið hönnun 2. áfanga byggingar hjúkrunar- og þjónustumiðstöðvar við Boðaþing.

Að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að afhenda til keppenda í tengslum við opinbera hönnunarsamkeppni eða gera með öðrum hætti aðgengilega sem hluta af gögnum hönnunarsamkeppninnar uppdrætti sem stefndi hefur undir höndum og stefnandi Halldór vann og sýna hönnun á tveimur síðari álmum hjúkrunarmiðstöðvarinnar að Boðaþingi 11 og 13, þ.m.t. afstöðumyndir, grunnmyndir, útlitsmyndir og sneiðingar vegna hjúkrunareininga og afstöðumyndir, grunnmyndir, útlitsmyndir og deiliuppdrætti vegna tengigangs milli fjölbýlishúsa, hjúkrunarálma og þjónustubyggingar. Átt er við fylgiskjöl 7, 13, 16 (bls. 21–23), 20, 22, 23, 24 og 27 og aðra uppdrætti er stefnendur kunna að hafa unnið vegna Boðaþings 11 og 13 eða tengigangs.

Að staðfest verði með dómi lögbann sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 4. apríl 2017 við því að afhenda til keppenda í tengslum við opinbera hönnunarsamkeppni eða gera með öðrum hætti aðgengilega sem hluta af gögnum hönnunarsamkeppninnar uppdrætti sem stefnandi Halldór vann og sýna hönnun á tveimur síðari álmum hjúkrunarmiðstöðvarinnar að Boðaþingi 11 og 13, þ.m.t. afstöðumyndir, grunnmyndir, útlitsmyndir og sneiðingar vegna hjúkrunareininga og afstöðumyndir, grunnmyndir, útlitsmyndir og deiliuppdrætti vegna tengigangs milli fjölbýlishúsa, hjúkrunarálma og þjónustubyggingar. Átt er við fylgiskjöl 7, 13, 16 (bls. 21–23), 20, 22, 23, 24 og 27 og aðra uppdrætti er stefnendur kunna að hafa unnið vegna Boðaþings 11 og 13 eða tengigangs.

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum, hvorum um sig, málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnenda í málinu og að lögbann sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 4. apríl 2017 á í lögbannsgerð nr. 17/2017 verði fellt úr gildi. Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnenda óskipt, samkvæmt málskostnaðaryfirliti, að mati dómsins.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi Halldór Guðmundsson er stofnandi og eigandi stefnanda THG arkitekta ehf. og stjórnarformaður félagsins. Stefnandi Halldór kveðst vera hönnuður hjúkrunar- og þjónustumiðstöðvar við lóð nr. 5, 7, 9, 11 og 13 við Boðaþing í Kópavogi. Nánar tiltekið sé um að ræða hönnun hjúkrunarheimilis sem samanstandi annars vegar af fjórum hjúkrunarálmum að Boðaþingi nr. 5, 7, 11 og 13 sem Hrafnista reki og hins vegar þjónustumiðstöð að Boðaþingi nr. 9 sem Kópavogsbær reki og tengd sé við álmurnar með tengibyggingu. Hann hafi ekki framselt neinum sæmdarréttindi sín til þessa byggingarverks, sbr. 4. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Hann hafi veitt stefnanda THG arkitektum ehf. heimild til að fénýta þau réttindi til arkitektaverka sinna sem mælt sé fyrir um í 2. gr. höfundalaga nr. 73/1973 og til að selja í því sambandi þjónustu til viðskiptamanna THG arkitekta ehf.

Stefndi kveðst samkvæmt lögum fara með stjórn verklegra framkvæmda af hálfu ríkisins, sbr. lög nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda. Stefndi mótmælir því sem röngu að stefnandi Halldór Guðmundsson sé hönnuður hjúkrunar- og þjónustumiðstöðvar við Boðaþing nr. 11 og 13. Engar byggingar hafi verið reistar þar né hafi þær verið hannaðar. Að minnsta kosti hafi verkkaupar ekki óskað eftir því við stefnendur að þeir hanni byggingar þar.

Forsaga málsins er sú að í kjölfar úthlutunar skipulagsreits við Boðaþing til byggingar hjúkrunaríbúða fyrir aldraða á árinu 2005 var stefnandi Halldór fenginn til liðs við starfshóp um framkvæmdina til að þróa hönnun svæðisins. Í kjölfarið sóttu Kópavogsbær og Hrafnista um leyfi ráðuneytis til að hefja framkvæmdir á svæðinu við byggingu 80 hjúkrunarrýma og 30 dagvistarrýma. Heimild var veitt til byggingar 44 hjúkrunarrýma og ákvað Kópavogsbær síðla árs 2006 að skipta framkvæmdinni upp í tvo áfanga. Stefndi stóð fyrir útboði á framkvæmdum við fyrri áfanga, hús nr. 5, 7 og 9, árið 2008 og byggði á þeirri fullbúnu hönnun mannvirkja sem Kópavogsbær hafði þá keypt af stefnanda Halldóri. Hrafnista hóf rekstur hjúkrunarálma við Boðaþing 5 og 7 í mars 2010, en Kópavogsbær á og rekur þjónustumiðstöðina við Boðaþing 9. Stefnendur kveða Kópavogsbæ hafa falið sér á árinu 2011 að vinna tillögur að öðrum áfanga hjúkrunarkjarnans, við Boðaþing nr. 11 og 13, en stefndi mótmælir því sem óstaðfestu. Í kjölfarið kom stefnandi Halldór að vinnu við deiliskipulag fyrir Kópavogsbæ árið 2013 og afhenti tillögur að fleiri hugmyndum að útfærslu hjúkrunarrýma árið 2015, bæði að beiðni Hrafnistu og vegna nýrra hönnunarviðmiða fyrir hjúkrunarheimili. Vorið 2016 stóð til að hefja framkvæmdir við síðari áfanga og mun stefnanda Halldóri þá hafa verið tjáð að óvíst væri að óskað yrði frekari þjónustu hans við hönnun.

Stefndi kveðst hafa unnið að undirbúningi að byggingu annars áfanga, nánar tiltekið byggingu hjúkrunarrýma að Boðaþingi nr. 11 og 13, og séu velferðarráðuneytið og Kópavogsbær verkkaupar. Þeim beri að fara eftir lögum um opinber innkaup nr. 120/2016 og samkvæmt þeim beri m.a. að bjóða út hönnun verksins, en óheimilt sé að semja beint við einn aðila án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar. Verkkaupar hafi ákveðið að viðhafa hönnunarsamkeppni vegna hönnunar á Boðaþingi nr. 11 og 13. Dómnefnd hafi verið skipuð til að útbúa samkeppnislýsingu, m.a. að útbúa rýmisáætlun. Gert sé ráð fyrir að byggð verði 64 hjúkrunarrými samkvæmt þeim viðmiðum sem velferðarráðuneytið hafi ákveðið að gilda eigi um skipulag hjúkrunarheimila og hjúkrunarrýma. Stefnt hafi verið að því að auglýsa samkeppnina í lok apríl 2017.

Stefnendur kröfðust þess 30. mars 2017 að lögbann yrði lagt á fyrirhugaðar aðgerðir stefnda, að láta fara fram opinbera hönnunarsamkeppni um hönnun hjúkrunaríbúða að Boðaþingi nr. 11 og 13, og jafnframt þá ætlun stefnda að afhenda keppendum eða með öðrum hætti gera aðgengilega í tengslum við hönnunarsamkeppnina nánar tilgreinda uppdrætti. Stefndi mótmælti lögbanni, en sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu féllst á beiðni stefnenda og lagði 4. apríl 2017 á lögbann það sem þeir krefjast staðfestingar á í máli þessu, sbr. VI. kafla laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Ágreiningur málsaðila felst í því að stefndi telur að sér sé skylt, á grundvelli laga nr. 120/2016 um opinber útboð, að bjóða út eða láta fara fram opinbera samkeppni um hönnunarvinnu við umræddar byggingar og telur sér ekki heimilt að semja við stefnendur án undanfarandi útboðs. Þá telur stefndi sér skylt að veita aðgang að öllum gögnum, upplýsingum og niðurstöðum sem hafa orðið til á fyrri stigum verksins, þ.m.t. frumteikningum, í ljósi þess að jafnræði bjóðenda í fyrirhugðu útboði yrði ella raskað. Stefnendur telja á hinn bóginn að stefnda sé með öllu óheimilt að bjóða út eða láta fara fram opinbera samkeppni um hönnun verksins og að óheimilt sé að veita utanaðkomandi aðilum aðgang að gögnum sem stefnandi Halldór eigi höfundarétt að.

Fyrir aðalmeðferð málsins gekk dómurinn á vettvang ásamt stefnanda Halldóri, starfsmanni stefnda og lögmönnum aðila. Skoðaði dómurinn að innan og utan samtengd mannvirki nr. 5, 7, og 9 við Boðaþing sem byggð hafa verið eftir hönnun stefnanda Halldórs, auk tengigangs við byggingu við Boðaþing 22-24. Á vettvangi gat og að líta óbyggðan hluta lóðarinnar sem ber númerin 11 og 13 við Boðaþing. Fyrir dómi gáfu skýrslur við aðalmeðferð vitnin Örn Baldursson, verkefna- og gæðastjóri hjá stefnda, og Steingrímur Hauksson, sviðstjóri umhverfissviðs Kópavogsbæjar.

Málsástæður og lagarök stefnenda

Gert sé ráð fyrir byggingu umræddra mannvirkja í aðalskipulagi Kópavogsbæjar. Í aðalskipulagi 2012–2024 sé tekið mið af grunn- og afstöðumyndum stefnenda sem samþykktar hafi verið af Byggingarnefnd Kópavogs. Kópavogsbær hafi samþykkt fyrsta deiliskipulag vegna reitsins á árinu 2004, því hafi verið breytt í nokkur skipti vegna byggingar mannvirkjanna og byggingaráformanna, en í því sé gert ráð fyrir þjónustukjarnanum. Í samþykktu deiliskipulagi vegna Boðaþings hafi ætíð verið byggt á grunn- og afstöðumyndum stefnenda. Ljóst sé af lestri greinargerða með deiliskipulaginu að fyrirhugað hafi verið frá upphafi að reisa hverfi fyrir þjónustu við aldraða við Boðaþing í Kópavogi útfært með þeim hætti. Í samþykktum breytingum á deiliskipulaginu sé ekki einvörðungu byggt á uppdráttum stefnenda varðandi legu mannvirkjanna heldur einnig varðandi útlit þeirra.

Stefnandi Halldór sé aðalhönnuður byggingarverksins Boðaþing 5, 7, 9, 11 og 13. Fyrsti áfangi bygginganna hafi verið tekinn í notkun á árinu 2010. Síðari áfangi verksins, sem enn sé ólokið, felist í því að ljúka hönnun og í byggingu hjúkrunareininga að Boðaþingi 11 og 13 með tengigöngum við þjónustumiðstöðina að Boðaþingi 9. Vegna þessarar skiptingar sé nú aðeins bráðabirgðatenging milli fjölbýlishúsa við Boðaþing nr. 24 og þjónustumiðstöðvarinnar og sé eftir að ákvarða nánari útfærslu hennar og tengingar milli þjónustumiðstöðvarinnar og Boðaþings nr. 11 og 13.

Hönnun stefnanda, Halldórs Guðmundssonar, á heildstæðum hjúkrunar- og þjónustukjarna í Boðaþingi í Kópavogi, í síðari áfanga verksins, hafi orðið til við framkvæmdir við fyrri áfanga verksins og eftir að sá áfangi hafi verið tekinn í notkun, og hafi falið í sér eitt hönnunarverk sem njóti í heild verndar sem byggingarlist í skilningi 1., sbr. 2. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 og 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Því sé stefnda óheimilt að bjóða út hönnunarvinnu vegna síðari áfanga þjónustukjarna að Boðaþingi eða að láta fara fram opinbera samkeppni vegna hennar. Stefnda sé óheimilt að afhenda utanaðkomandi aðilum eintök af hönnunarvinnu stefnanda Halldórs sem unnin hafi verið og Kópavogsbær, stefndi og/eða velferðarráðuneytið kunni að hafa eintak af, eða sem stefndi myndi afla sér í því skyni að afhenda keppendum í hönnunarsamkeppni.

Skýr fordæmi séu í íslenskum rétti um að til að verk njóti verndar höfundaréttar þurfi fyrst og fremst að vera um að ræða sjálfstæða andlega sköpun. Þröskuldur í þessu sambandi sé ekki hár. Í höfundarétti sé ekki áskilið að verk hafi tiltekin listræn gæði heldur að það sé sjálfstæð andleg sköpun.

Yrði talið að einhverjir af uppdráttum stefnanda Halldórs séu þess eðlis að falla ekki undir byggingarverk í skilningi 2. mgr. 1. gr. höfundalaga sé ótvírætt að þeir njóti verndar samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laganna. Gildi þá um slíka uppdrætti sömu reglur og um byggingarverk að því leyti sem máli skipti fyrir niðurstöðu máls þessa.

Umrætt byggingarverk uppfylli tvímælalaust skilyrði þess að teljast verndað verk samkvæmt 2. mgr. 1. gr. höfundalaga. Verkið einkennist af tilteknu útliti með tilteknum listrænum einkennum og sé útlit þeirra tveggja hluta byggingarheildarinnar sem hýsi hjúkrunaríbúðir samræmt útliti þjónustumiðstöðvarinnar. Því sé um eina heild að ræða. Húsin séu byggð úr staðsteyptri steinsteypu og klædd að utan með flísum og áli. Hjúkrunarálmurnar og þjónustumiðstöðin séu tengdar með svipuðum formum í grunnmynd og útliti, þakhallinn á þjónustumiðstöðinni sé endurtekinn með hallandi veggskífum á þaki hjúkrunarálmanna og í grunnmynd séu sömu brot á langhliðum húsanna.

Uppdrættir, samþykktir í janúar 2007, hafi gert ráð fyrir að bæði húsin yrðu klædd með flísum, hjúkrunarálmurnar með ljósum flísum og dekkri flísum í bland en þjónustumiðstöðin með dökkum flísum og ljósum í bland. Við breytingar samþykktar í október sama ár hafi flísum í klæðningu þjónustumiðstöðvarinnar verið skipt út fyrir álklæðningu. Sé þjónustumiðstöðin því klædd með áli í tveimur litum, silfurlituðu og bronslituðu. Hjúkrunarálmurnar hafi eftir sem áður verið klæddar með ljósum flísum en dökku flísunum verið sleppt. Einnig hafi verið gerð sú breyting að sama álklæðning og á þjónustumiðstöðinni hafi verið notuð á nokkra fleti á hjúkrunarálmunum. Þannig séu útkragandi gluggarammar og svalahandrið klædd með bronslituðu áli, veggir umhverfis svalir og flóttastiga með silfurlituðu áli og gluggar og gluggaumgjörð séu svört. Ekki hafi verið lagðir inn sérstakir uppdrættir fyrir hjúkrunarálmurnar þar sem litaútfærsla komi fram. Endanlegt útlit byggingarinnar sjáist í dómskjölum og sé vísað til þeirra um ásýnd þeirra tveggja álma sem eftir sé að byggja og vísað sé til draga að grunnmyndum þeirra.

Hluti af fyrirliggjandi byggingum sé tengigangur, sýndur á uppdráttum samþykktum í byggingarnefnd 10. og 22. nóvember 2010. Þar komi fram að tengigangi sé lokað til bráðabirgða þar sem fyrirhuguð sé tenging við hinar óbyggðu álmur og að skráningartöflu verði breytt þegar ákvörðun um framtíðarlegu og tengingu við 2. áfanga liggi fyrir. Hönnun síðari áfanga sé órjúfanlega tengd fyrirliggjandi byggingum bæði að útliti og innra skipulagi, eins og það birtist í samþykktum uppdráttum og samþykktu aðal- og deiliskipulagi á svæðinu og í þeim tillögum að hönnun sem stefnendur hafi afhent Kópavogsbæ. Því njóti verk stefnenda í heild verndar höfundaréttar þó að afráðið hafi verið á sínum tíma að ráðast ekki í byggingu þess hluta sem nú sé fyrirhugað að hefjast handa við.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. höfundalaga hafi höfundur einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að gera það aðgengilegt almenningi. Byggingarverk geti birst í mismunandi myndum en litið sé á arkitektateikningar og bygginguna sjálfa sem tvær birtingarmyndir eins og sama hugverksins. Slíkar teikningar njóti því verndar gegn því að bygging sé uppfærð eftir teikningunum en einnig gegn hvers kyns afritun með öðru móti. Í þessu felist meðal annars að höfundur eða sá er leiði rétt sinn frá honum hafi einkarétt til að fénýta þá uppdrætti er liggi fyrir vegna hönnunar verksins. Bæði með því að afrita uppdrættina, hvort sem sé í óbreyttri eða breyttri mynd, og til að byggja eða láta byggja mannvirki eftir þeim.

Réttur höfundar nái einnig til þess að gera breytingar á verkinu, hvort sem breytingar séu gerðar á uppdráttum eða byggingunni breytt. Breyti hönnuður, annar en höfundur, fyrirliggjandi uppdráttum felist í því eintakagerð sem brjóti gegn einkarétti höfundar samkvæmt 2. gr. höfundalaga. Gerð einungis eins eintaks falli undir eintakagerð samkvæmt 1. mgr. 2. gr. höfundalaga. Afhending á uppdráttum, sem stefnendur hafi afhent Kópavogsbæ, til annarra aðila, svo sem þátttakenda í hönnunarsamkeppni eða útboði, brjóti því gegn rétti höfundar sem stefnandi THG hafi öðlast einkarétt til að nýta. Því krefjist THG þess að lögbannið verði staðfest, sbr. kröfuliði 2 og 4, og að viðurkenningarkröfur hans samkvæmt kröfuliðum 1 og 3 verði teknar til greina.

Stefnandinn Halldór Guðmundsson byggi á því að breytingar á verkinu myndu brjóta gegn sæmdarréttindum hans sem höfundar samkvæmt 4. gr. höfundalaga, bæði gegn nafngreiningarrétti samkvæmt 1. mgr. 4. gr. og gegn höfundarheiðri höfundar samkvæmt 2. mgr. 4. gr. Stefnandi Halldór hafi ekki framselt rétt til að fylgja eftir brotum á sæmdarrétti sínum og því krefjist hann þess að lögbannið verði staðfest, sbr. kröfuliði 2 og 4, og að viðurkenningarkröfur hans samkvæmt kröfuliðum 1 og 3 verði teknar til greina.

Hönnun og uppfærsla tveggja nýrra álma teljist vera breyting á fyrirliggjandi byggingarverki. Breyting á þeirri hönnun sem þegar hafi verið látin í té í samþykktum uppdráttum, samþykktu skipulagi og afhentum tillögum feli í sér brot á réttindunum til byggingarverksins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 73/1972 og 1. og 2. mgr. 4. gr. sömu laga. Því yrði hönnun nýju álmanna tveggja ætíð háð samþykki stefnanda, Halldórs Guðmundsonar, sem eigi höfundarétt að fyrirliggjandi byggingarverki. Yrði annar arkitekt ráðinn til að hanna síðari hluta verksins væri alls óvíst að þær breytingar sem sá arkitekt kynni að óska eftir að gerðar yrðu á fyrirliggjandi verki fengjust samþykktar af höfundi verksins.

Ekki njóti einungis fullbúið verk verndar heldur einnig verk á vinnslustigi. Á árinu 2006, þegar ákveðið hafi verið að skipta framkvæmdinni upp í tvo áfanga, hafi hönnun verið komin langt áleiðis. Unnar hefðu verið grunnmyndir af báðum álmunum, útlit og sneiðingar. Í tillögum frá árinu 2013 hafi sömu atriði legið fyrir varðandi hönnunina, auk þess sem fyrirkomulag einstakra herbergja hafi legið fyrir. Sú hönnun hafi verið uppfærð með tilliti til minni rýma snemma árs 2015 og enn hafi hönnun verið uppfærð vegna óska um tilfærslu eininga sumarið 2015. Samþykktir deiliuppdrættir liggi fyrir og sá hluti verksins myndi nýtast við áframhaldandi hönnun stefnenda í síðari áfanga.

Af framangreindu leiði að óheimilt sé að láta fara fram útboð eða opinbera samkeppni vegna hönnunar tveggja nýrra eininga við hjúkrunarheimilið eða semja á öðrum grundvelli við annan hönnuð um þær breytingar á byggingarverkinu sem bygging slíkra eininga feli í sér. Bent sé á niðurstöðu gerðardóms Arkitektafélags Íslands frá 18. janúar 1980 í máli þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að það að fela nýjum arkitekt hönnun óbyggðs hluta byggingar Hótels Esju við Suðurlandsbraut 2 í Reykjavík bryti gegn 8. gr. þágildandi samþykkta Arkitektafélags Íslands og að með teikningum nýs arkitekts væri vegið að höfundarsæmd arkitekts hússins.

Einvörðungu hafi verið gerðar ráðstafanir til að koma fyrir tengigangi til bráðabirgða, eftir sé að velja útfærslu til að nota til tengingar við þær tvær álmur sem eftir sé að byggja. Tillögur stefnenda hafi í tengslum við hönnun fyrri áfanga verið afhentar stefnda að beiðni hans. Ljóst sé að ljúki annar hönnuður útfærslu tengingarinnar sé óumdeilt að um sé að ræða breytingu á verki arkitektsins.

Ákvæði laga nr. 120/2016 skyldi stefnda ekki til þess að bjóða út hönnun eða að láta fara fram opinbera samkeppni vegna hönnunar síðari hluta verksins þar sem skilyrði b-liðar 1. mgr. 39. gr. laganna séu uppfyllt fyrir því að stefnda sé heimilt að ganga frá samningi um hönnun verksins án undangenginnar útboðsauglýsingar.

Í 39. gr. laga nr. 120/2016 sé fjallað um samningskaup án undangenginnar útboðsauglýsingar en slík kaup séu heimil í nokkrum tilvikum. Eitt þeirra tilvika mæli fyrir um að samningskaup án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar séu heimil þegar aðeins eitt fyrirtæki kemur til greina af tæknilegum eða listrænum ástæðum eða sökum þess að um lögverndaðan einkarétt sé að ræða, sbr. b-lið 1. mgr. 39. gr. Regla þessi sé sama efnis og komið hafi fram í b-lið 1. mgr. 33. gr. eldri laga nr. 84/2007 um opinber útboð. Ákvæðinu beri að beita í þeim tilvikum þegar einvörðungu einn bjóðandi geti látið í té þá vöru, verk eða þjónustu sem um ræði. Ákvæðið taki þannig til þess þegar aðili njóti lögvarins einkaréttar en þær aðstæður leiði til þess að aðrir geti ekki látið í té þá afurð sem óskað sé eftir. Þetta eigi einkum við þegar um ræði einkaleyfi, vörumerki eða höfundaréttindi.

Höfundaréttur Halldórs Guðmundsonar að byggingarverkinu feli í sér einkarétt í skilningi framangreinds ákvæðis laga nr. 120/2016 og séu stefnda því heimil samningskaup án undangenginnar útboðsauglýsingar um hönnun tveggja nýrra álma við mannvirkið. Af framangreindu um höfundaréttindi stefnenda leiði að stefnda sé ekki fær nein önnur leið til að komast hjá broti á þessum réttindum en að halda sig við stefnanda sem hönnuð verksins og fela honum áframhaldandi þróun á þeirri hönnun sem hann hafi þegar innt af hendi við síðari áfanga. Minnt sé á ákvæði 1. mgr. 46. gr. laga nr. 120/2016 um að hafi fyrirtæki veitt kaupanda ráðgjöf skuli kaupandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að fyrri aðkoma fyrirtækisins raski ekki samkeppni. Slíkar ráðstafanir skuli m.a. felast í því að láta öðrum þátttakendum og bjóðendum í té upplýsingar sem máli skipti. Höfundaréttur stefnenda girði fyrir að stefnda sé heimilt að afhenda gögn er þegar hafi verið látin í té vegna hönnunarinnar. Þetta styrki þá niðurstöðu að útboð eða hönnunarsamkeppni sé ekki framkvæmanleg og ekki tæk leið til að ljúka hönnun síðari áfanga.

Hefði stefnda borið, áður en hönnunarvinna vegna byggingar þjónustukjarnans hófst í upphafi, að bjóða verkið út, hefði honum borið að bjóða það út sem eina heild. Þar sem það hafi ekki verið gert sé ljóst að slíkur annmarki geti ekki haft þau réttaráhrif að heildarverkið verði álitið vera tvö ólík verk og að réttur stefnenda verði fyrir borð borinn vegna þess. Það eitt að framkvæmdinni eða hönnuninni sé skipt í tvo eða fleiri áfanga hafi ekki í för með sér að skilgreina þurfi hvern áfanga fyrir sig sem nýtt verkefni sem óháð sé hinu fyrra. Allt fyrirkomulag fyrri áfangans sé miðað við að þarna standi að lokum heildstætt verk. Sá hugsanlegi annmarki að bjóða ekki út hönnun verksins í upphafi geti einvörðungu leitt til þess að aðrir aðilar hafi hugsanlega orðið fyrir fjárhagslegu tjóni og að stefndi beri eftir atvikum ábyrgð á slíku fjártjóni.

Geti 1. mgr. 13. gr. höfundalaga ekki með neinu móti veitt stefnda heimild til að bjóða út eða láta fara fram hönnunarsamkeppni um 2. áfanga verksins, enda liggi á þessu stigi engar hugmyndir fyrir um það á hvern hátt verkinu yrði breytt og engin greinargerð liggi fyrir um tæknilegar ástæður er gætu leitt til þess að ekki þyrfti að leita samþykkis stefnenda fyrir breytingum á höfundarverkinu. Sönnunarbyrði um nauðsyn breytinga vegna afnota af því eða af tæknilegum ástæðum hvíli á stefnda. Ekki sé nægjanlegt að vísa til þess að þörf sé á hjúkrunarrýmum á Íslandi til þess að ákvæðið eigi við heldur þyrfti meira að koma til.

Með því að stefndi hyggist halda samkeppni til að ljúka framangreindu verki og afhenda umþrætt hönnunargögn stefnenda sé ljóst að hann hafi ásetning til að brjóta framangreind lagaákvæði. Sýslumaður hafi orðið við beiðni stefnenda um lögbann þar sem um hafi verið að ræða byrjaða eða yfirvofandi aðgerð sem bryti gegn lögvörðum rétti þeirra. Þess sé því krafist í máli þessu að lögbannið verði staðfest og jafnframt að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að halda umrædda hönnunarsamkeppni og afhenda utanaðkomandi aðilum gögn sem lúti höfundarétti stefnenda.

Möguleiki stefnenda á að krefja stefnda um skaðabætur tryggi ekki réttindi þeirra nægilega þar sem réttarreglur um skaðabætur fyrir röskun hagsmuna í lögbannsmáli tryggi hagsmuni einungis nægilega þegar skaðabætur geti augljóslega bætt tjón að fullu. Það komi til greina þegar um sé að ræða tekju- eða ágóðamissi vegna tiltekinna athafna, sem skapi ekki varanlegt ástand og hægt sé að bæta að fullu. Vafasamt sé að ætla að réttindi á sviði hugverka- og auðkennaréttar séu nægilega tryggð með réttarreglum um skaðabætur og fordæmi þess séu ekki þekkt að lögbannskröfu sem byggð sé á slíkum réttindum hafi verið hafnað af þessum sökum.

Aðgerðir stefnda séu einkaréttarlegs eðlis og teljist ekki vera stjórnarathafnir í skilningi 2. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991. Að öðrum kosti væri aðilum sem teldu að brotið væri gegn rétti sínum aldrei heimilt að krefjast lögbanns vegna yfirvofandi aðgerða stjórnvalda. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 31/1991 segi:

Með orðalagi frumvarpsins um þetta atriði er miðað við að lögbann verði ekki lagt við töku stjórnvaldsákvörðunar eða við framkvæmd hennar, heldur komi lögbann aðeins til álita þegar um athafnir hins opinbera er að ræða á vettvangi einkaréttar. Slíkar athafnir gætu einkum tengst mannvirkjagerð hins opinbera eða atvinnustarfsemi þess, hvort sem hún er rekin í samkeppni við einkafyrirtæki eða í skjóli einkaréttar.

Hlutverk stefnda sé samkvæmt VII. kafla laga nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda, að fara með stjórn verklegra framkvæmda af hálfu ríkisins, veita ráðgjöf og beita sér fyrir því að hagkvæmni sé gætt í skipan opinberra framkvæmda. Samkvæmt hinni almennu skilgreiningu á hugtakinu „stjórnvaldsákvörðun“ sé átt við þá háttsemi þegar stjórnvald kveði einhliða á um rétt og/eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds. Ekki sé að sjá að stefndi fari með slíkt ákvörðunarvald. Sú aðgerð að halda hönnunarsamkeppni og afhenda gögn varin af höfundarétti sé ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar eða stjórnarathöfn í skilningi framangreindra athugasemda í frumvarpi til laganna. Athafnir stefnda séu á sviði einkaréttar sem heimilt sé að leggja lögbann við, sbr. skýrar athugasemdir með frumvarpi til laga nr. 31/1990.

Stefndi byggi á því að hagsmunir hans til þess að láta umþrætta hönnunarsamkeppni fara fram vegi mun þyngra en réttindi stefnenda. Þessu mótmæli stefnendur, enda telji þeir að hagsmunir stefnda af að halda hönnunarsamkeppni og afhenda gögn með ólögmætum hætti geti aldrei gengið framar lögmætum réttindum stefnenda. Ljóst sé að brot gegn slíkum hugverka- og höfundaréttindum verði ekki bætt að fullu með skaðabótum. Þá verði ekki séð að nokkur breyting hafi orðið á þörf á hjúkrunarheimilum á undanförnum 10 árum og verði því vart haldið fram að hagsmunir stefnda séu mun ríkari en hagsmunir stefnenda. Með vísan til alls framangreinds telji stefnendur að fallast eigi á dómkröfur þeirra.

Aðild THG ehf. og Halldórs að málinu sé byggð á 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, enda eigi dómkröfurnar það sameiginlegt að rætur þeirra sé að rekja til sama atviks og aðstöðu. Stefnendur byggi á ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972, lögum nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., lögum nr. 120/2016, um opinber innkaup, lögum nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda og meginreglum höfundaréttar og stjórnsýsluréttar. Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi mótmæli öllum málsástæðum og lagarökum stefnenda. Velferðarráðuneytið og Kópavogsbær séu eigendur þeirra bygginga sem standi á Boðaþingi nr. 5, 7 og 9. Standi þessir sömu aðilar að byggingu hjúkrunarheimilis að Boðaþingi nr. 11 og 13 og hafi sem verkkaupar ákveðið að viðhafa þá hönnunarsamkeppni vegna hönnunar á Boðaþingi nr. 11 og 13 sem stefnendur telji að óheimilt sé að viðhafa. Stefndi sé fyrir hönd verkkaupa eingöngu umsjónaraðili með hönnunarsamkeppninni. Kröfum stefnenda sé því ekki beint að réttum aðila og beri því að sýkna stefnda alfarið af öllum kröfum stefnenda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 16. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Verði ekki fallist á kröfu um sýknu vegna aðildarskorts, þá sé sýknukrafa stefnda reist á eftirfarandi málsástæðum. 

Stefndi krefjist sýknu af þeirri kröfu stefnenda að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt, á grundvelli 44. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, að láta fara fram opinbera hönnunarsamkeppni um hönnun hjúkrunaríbúða að Boðaþingi nr. 11 og 13, Kópavogi, nánar tiltekið hönnun 2. áfanga byggingar hjúkrunar- og þjónustumiðstöðvar við Boðaþing.

Við opinberar framkvæmdir beri að fara eftir lögum um opinber innkaup nr. 120/2016. Samkvæmt lögunum beri m.a. að bjóða hönnun verksins út en óheimilt sé að semja beint við einn aðila án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar. Hönnunarsamkeppni sé ein af þeim innkaupaaðferðum sem heimilaðar séu í lögum um opinber innkaup, sbr. 44. gr. laganna. Með því að viðhafa hönnunarsamkeppni um hönnun á Boðaþingi nr. 11 og 13 séu verkkaupar að uppfylla ákvæði laga um opinber innkaup og því sé það heimilt.

Framkvæmd og umsjón með hönnunarsamkeppni vegna byggingar hjúkrunarrýma að Boðaþingi nr. 11 og 13 sé hluti af lögbundnu hlutverki stefnda, sbr. lög um skipan opinberra framkvæmda, nr. 84/2001. Í 19. og 20. gr. laganna segi m.a. að stefndi skuli fara með stjórn verklegra framkvæmda af hálfu ríkisins. Framkvæmd og ákvarðanir varðandi hönnunarsamkeppnina séu því hluti af lögbundnu hlutverki stefnda.

Stefnendur eigi engan lögvarinn rétt til að hanna Boðaþing nr. 11 og 13. Í fyrsta lagi sé enginn skriflegur eða munnlegur samningur við stefnendur um hönnun Boðaþings nr. 11 og 13 þannig að stefnendur eigi á þeim grundvelli rétt á að framkvæma verkið, enda sé því ekki haldið fram af stefnendum að slíkur samningur sé til. Þannig sé ekki sú staða uppi að samið hafi verið við stefnendur um hönnun á Boðaþingi nr. 11 og 13. Í öðru lagi hafi stefnendur á grundvelli höfundaréttar engan lögverndaðan einkarétt til að hanna þær byggingar sem fyrirhugað sé að reisa að Boðaþingi nr. 11 og 13. Það eigi við hvort sem um nýjar byggingar sé að ræða eða talið að um breytingar á fyrirliggjandi byggingum sé að ræða. Þetta séu nýjar byggingar og sjálfstæð mannvirki sem eingöngu verði tengd við Boðaþing nr. 9 með tengibyggingu.

Jafnvel þó að talið verði að um breytingar á fyrirliggjandi byggingum sé að ræða byggi stefndi á því að arkitekt eða höfundur teikninga að mannvirki, sem hafi verið reist, hafi ekki á neinn hátt forgangsrétt að vinnu við hönnun í tengslum við mannvirkið, sem til falli eftir að það hefur verið reist, svo sem ef til stendur að stækka eða breyta mannvirki. Engan slíkan rétt sé unnt að leiða af reglum eignarréttar, vinnuréttar eða höfundaréttar. Þau lögfræðilegu álitaefni sem á hafi reynt í réttarframkvæmd varðandi viðbyggingu eða breytingu mannvirkis hafi ekki snúist um það hvort slíkur forgangsréttur til hönnunar sé fyrir hendi, heldur hvort eiganda byggingar sé yfirhöfuð heimilt að breyta henni án samþykkis arkitekts. Eigandinn megi fela hverjum sem er að hanna breytinguna. Það að enginn forgangsréttur til hönnunar sé til staðar sé óskráð meginregla íslensks réttar. Stefnendur hafi því ekki forgangsrétt á því að hanna þær byggingar sem reisa eigi að Boðaþingi nr. 11 og 13, jafnvel þó talið verði að um breytingar á fyrirliggjandi byggingum sé að ræða, sem stefndi mótmæli.

Í stefnu virðist stefnendur aðallega byggja á því að óheimilt sé að breyta hönnun stefnenda án þeirra samþykkis. Jafnvel þó að svo ólíklega vildi til að leita þyrfti samþykkis stefnenda í einhverjum tilvikum varðandi hönnun Boðaþings nr. 11 og 13 þá veiti það stefnendum ekki einkarétt á því að hanna Boðaþing nr. 11 og 13 eða rétt til þess að hindra stefnda í að láta fara fram hönnunarsamkeppni fyrir hönd eigenda fasteignarinnar. Byggingar þær sem fyrirhugað sé að reisa á Boðaþingi nr. 11 og 13 hafi ekki verið hannaðar. 

Í stefnu virðist gæta misskilnings á þeim réttarreglum sem gildi um það að hvaða marki eigandi fasteignar hafi heimild til að breyta mannvirki. Fyrsta spurningin sem þurfi að svara sé hvort mannvirki njóti verndar eftir reglum um byggingarlist, þ.e. að í hönnun þess felist listsköpun, sem njóta eigi verndar. Þetta álitamál felist í því að meta hvort nægileg sjálfstæð sköpun eða verkshæð felist í hönnun, að um sé að ræða listsköpun er njóti verndar höfundalaga nr. 73/1972 sem byggingarlist. Þessi greining skipti meginmáli, þar sem réttarvernd arkitekta samkvæmt höfundalögum sé ólík eftir því hvort í mannvirki teljist felast listsköpun eða ekki.

Það teljist almennt líkur gegn því að almennt atvinnuhúsnæði, þ.e. skrifstofuhúsnæði, opinberar stjórnarbyggingar o.þ.h. njóti verndar. Dæmi um opinberar byggingar sem óumdeilt megi telja að njóti verndar sem byggingarlist séu Þjóðleikhúsið, Listasafn Einars Jónssonar (Hnitbjörg), Norræna húsið og Harpa tónlistarhús. Það séu frekar byggingar sem teljist hafa eitthvert listrænt gildi sem njóti verndar. Því sé það verulegt álitamál hvort byggingar þær sem reistar hafi verið að Boðaþingi nr. 5, 7 og 9 eða sem fyrirhugað sé að reisa að Boðaþingi nr. 11 og 13 falli í þann flokk sem njóti verndar samkvæmt höfundalögum. Svo sé ekki með hliðsjón af því að hér sé um húsnæði undir hjúkrunarheimili að ræða. Þá verði ekki séð hvernig byggingar sem ekki hafi verið hannaðar eða reistar geti notið verndar sem byggingarlist. Engar byggingar hafi verið reistar eða hannaðar að Boðaþingi nr. 11 og 13.

Sé hins vegar bygging talin njóta verndar eftir reglum um byggingarlist þá njóti hún verndar samkvæmt 3. gr. höfundalaga þar sem segi að höfundur hafi einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að birta það í upphaflegri mynd eða breyttri … og verndar samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna um að óheimilt sé að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni. Þessi vernd sé þó háð mikilvægri takmörkun, sem felist í 13. gr. höfundalaga og varði heimild eiganda til að breyta mannvirki:

Nú nýtur mannvirki verndar eftir reglum um byggingarlist, og er eiganda þó allt að einu heimilt að breyta því án samþykkis höfundar, að því leyti sem það verður talið nauðsynlegt vegna afnota þess eða af tæknilegum ástæðum.

Af ákvæðinu leiði að þó að mannvirki njóti verndar eftir reglum um byggingarlist sé eiganda heimilt að breyta því án samþykkis höfundar verði það talið nauðsynlegt vegna afnota þess eða af tæknilegum ástæðum. Af ákvæðinu leiði jafnframt að teljist mannvirki ekki njóta verndar eftir reglum um byggingarlist, þá hafi eigandi rýmri heimildir til að gera breytingar á mannvirkinu. Heimildirnar séu ekki einskorðaðar við það sem teljist nauðsynlegt vegna afnota eða af tæknilegum ástæðum.

Jafnvel þó að komist yrði að þeirri niðurstöðu að Boðaþing nr. 5, 7 og 9 njóti verndar samkvæmt reglum um byggingarlist og jafnvel þó svo ólíklega vildi til að talið yrði að í einhverjum tilvikum yrði að leita samþykkis stefnenda vegna hönnunar á Boðaþingi nr. 11 og 13, þá komi það ekki í veg fyrir að aðrir geti tekið að sér hönnun þeirra bygginga. Það sé grundvallaratriði málsins. Þar sem aðrir geti tekið að sér hönnun Boðaþings nr. 11 og 13, þá beri að fara eftir lögum um opinber innkaup nr. 120/2016 þegar komi að vali á hönnuði.

Bygging Boðaþings nr. 11 og 13 feli ekki í sér breytingu á Boðaþingi nr. 5, 7 og 9 enda hafi legið fyrir að byggingar yrðu reistar að Boðaþingi nr. 11 og 13. Þá liggi ekkert fyrir um að brotið hafi verið gegn sæmdarrétti stefnenda samkvæmt 4. gr. höfundalaga eða að það verði gert. Ekki sé búið að hanna þær byggingar sem fyrirhugað sé að byggja að Boðaþingi nr. 11 og 13.

Vinna stefnenda fyrir Kópavogsbæ vegna breytinga á deiliskipulagi og breyttra krafna til hjúkrunarrýma leiði ekki til þess að óheimilt sé að semja við aðra en stefnendur um hönnun á Boðaþingi nr. 11 og 13. Jafnvel þó að búið væri að hanna Boðaþing nr. 11 og 13 að einhverju leyti þá breyti það ekki þeirri staðreynd að verkkaupa sé heimilt að fá annan til að hanna byggingarnar. Ekki sé hægt að horfa fram hjá því að engar byggingar hafi verið reistar að Boðaþingi nr. 11 og 13 né hafi stefndi eða verkkaupar óskað eftir hönnun þeirra.

Því sé mótmælt að ákvæði laga nr. 120/2016 skyldi ekki verkkaupa til þess að bjóða út hönnun eða að láta fara fram opinbera samkeppni vegna Boðaþings nr. 11 og 13 þar sem skilyrði b-liðar 1. mgr. 39. gr. laganna séu uppfyllt. Sú staða sé ekki uppi í þessu máli að eingöngu einn bjóðandi geti látið í té það verk eða þjónustu sem um ræði. 

Því sé mótmælt, jafnvel þó að talið væri að hönnun á Boðaþingi nr. 11 og 13 teldist vera breyting á Boðaþingi nr. 5, 7 og 9, að stefnendur hafi einkarétt á að hanna Boðaþing nr. 11 og 13. Þó að stefnendur hafi hannað tengigang við Boðaþing nr. 22–24 þá veiti það ekki einkarétt á að hanna Boðaþing nr. 11 og 13. 

Því sé mótmælt sem haldið sé fram í stefnu að teikningar sem samþykktar hafi verið í byggingarnefnd feli ekki einvörðungu í sér að hanna Boðaþing nr. 5, 7 og 9 heldur sé um að ræða heildstæða hönnun stefnanda Halldórs Guðmundssonar á hjúkrunar- og þjónustukjarna sem hannaður sé eftir tiltekinni hugmyndafræði þar sem áhersla sé lögð á að hjúkrunarheimilið sé sem líkast einkaheimili. Vart geti verið að fyrir liggi heildstæð hönnun þegar skoðað hafi verið að hafa eina byggingu fremur en tvær að Boðaþingi nr. 11 og 13. Því sé jafnframt mótmælt að stefnandi Halldór hafi einhvern forgangsrétt (eða einkaleyfi) á því að hanna hjúkrunarheimili þannig að það sé sem líkast einkaheimili eða því hvernig rýmum á hjúkrunarheimili sé skipt í séreignarsvæði annars vegar og sameignleg rými hins vegar. Uppbygging á hjúkrunarheimilum hafi verið í samræmi við þau viðmið sem velferðarráðuneytið (áður heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið) hafi sett fram. M.a. hafi verið byggt á þeirri hugmyndafræði að skipulag og starfsemi hjúkrunarheimila skuli líkjast eins og kostur er húsnæði og aðstæðum fólks á einkaheimilum. 

Einnig sé því mótmælt sem haldið sé fram í stefnu að um eina heildstæða hönnun þessara bygginga sé að ræða, þ.e. fjögurra hjúkrunarálma og þjónustumiðstöðvar sem hafi hafist á árunum 2005–2007. Þó að legið hafi fyrir þegar byggingar að Boðaþingi nr. 5, 7 og 9 hafi verið hannaðar að jafnframt mætti byggja hjúkrunarrými samkvæmt deiliskipulagi að Boðaþingi nr. 11 og 13, þá liggi ekki fyrir nein heildarhönnun. Við vinnu við breytingar á deiliskipulagi hafi verið skoðað hvort byggja ætti eina byggingu þar í staðinn fyrir tvær en slíkt sé heimilt samkvæmt deiliskipulagi. Þá séu verkkaupar ekki bundnir af afmörkun húsa eða formi samkvæmt deiliskipulagi heldur eingöngu af samþykktum byggingarreit. Gerð deiliskipulags sé á forræði sveitarfélaga, í þessu tilviki Kópavogsbæjar. Þar séu settir skilmálar um mótun byggðar og umhverfis, svo sem um stærðir, staðsetningu og notkun húsa. Einnig um yfirbragð byggðar, svo sem nánar um útfærslu og hönnun bygginga og efnisnotkun. Á grundvelli þess séu byggingar á umræddu svæði hannaðar. Þó að aðili hafi unnið að gerð deiliskipulags og aðstoðað við hönnun þess þá veiti það honum ekki rétt til að hanna þær byggingar sem heimilt sé að reisa samkvæmt því. 

Því sé mótmælt að Kópavogsbær hafi falið stefnendum á árinu 2011 að vinna tillögur að öðrum áfanga hjúkrunarheimilisins að Boðaþingi nr. 11 og 13. Eina vinnan sem Kópavogsbær hafi óskað eftir frá stefnendum varðandi Boðaþing nr. 11 og 13 sé vinna við breytingar á deiliskipulagi, m.a. vegna breyttra viðmiðana fyrir hjúkrunarrými. Jafnvel þó að Kópavogsbær hefði óskað eftir því við stefnendur að þeir hönnuðu byggingar að Boðaþingi nr. 11 og 13, en stefndi mótmæli því sem óstaðfestu, þá komi það ekki í veg fyrir að aðrir aðilar hanni þessar byggingar. Telji stefnendur að Kópavogsbær hafi samið við þá um hönnun á Boðaþingi nr. 11 og 13 þá verði þeir að beina kröfum sínum vegna þess að Kópavogsbæ, en ekki að stefnda.

Stefndi krefjist sýknu af kröfu stefnenda um staðfestingu á lögbanni við því að stefndi láti á grundvelli 44. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup fara fram opinbera hönnunarsamkeppni um hönnun hjúkrunaríbúða að Boðaþingi nr. 11 og 13, Kópavogi, nánar tiltekið hönnun 2. áfanga byggingar hjúkrunar- og þjónustumiðstöðvar við Boðaþing. Stefndi byggi á því að skilyrði 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990 séu ekki uppfyllt í málinu.

Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 verði lögbann ekki lagt við stjórnarathöfn þess sem fari með framkvæmdarvald ríkis eða sveitarfélags. Framkvæmd og ákvarðanir er varði hönnunarsamkeppnina séu hluti af lögbundnu hlutverki stefnda og séu því stjórnarathafnir stefnda í skilningi laganna. Í 19. og 20. gr. laga nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda segi m.a. að stefndi skuli fara með stjórn verklegra framkvæmda af hálfu ríkisins. Óheimilt sé því að leggja lögbann á þá athöfn að viðhafa hönnunarsamkeppni.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sé það skilyrði fyrir því að fallist verði á kröfu um lögbann að gerðarbeiðandi sanni eða geri sennilegt að athöfn sem lögbann verði lagt við brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti gerðarbeiðanda. Stefnendur hafi ekki sannað eða gert sennilegt að hönnunarsamkeppni um hönnun á Boðaþingi nr. 11 og 13 brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti stefnenda.

Samkvæmt 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 verði lögbann ekki lagt við athöfn verði talið að réttarreglur um skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðenda tryggi þá nægilega. Ljóst sé að ef aðili telur að hann eigi lögvarinn rétt til þess að vinna tiltekið verk þá geti hann krafist skaðabóta úr hendi viðsemjanda, telji hann hafa verið brotið á þeim rétti. Stefnendur hafi því þann möguleika, telji þeir að brotið sé á rétti þeirra, að krefjast skaðabóta úr hendi verkkaupa. Telji stefnendur síðar, þegar hönnun á Boðaþingi nr. 11 og 13 liggi fyrir, að hún brjóti á einhvern hátt gegn höfundarétti þeirra varðandi hönnun á Boðaþingi nr. 5, 7 og 9, þá geti þeir látið reyna á þann rétt þegar og ef að því kemur. Það liggi hins vegar ekkert fyrir um það á þessu stigi.

Lögbann verði ekki lagt við athöfn ef sýnt þykir að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola af því að athöfn fari fram og hagsmunum gerðarbeiðanda af að fyrirbyggja hana, enda setji gerðarþoli eftir atvikum tryggingu fyrir því tjóni sem athöfnin kunni að baka gerðarbeiðanda, sbr. 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Þetta skilyrði sé uppfyllt í málinu þannig að ekki komi til greina að staðfesta lögbannið. Það séu gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir umbjóðendur stefnda, verkkaupa, að ljúka við byggingu hjúkrunarrýma á réttum tíma og að ekki verði tafir á framkvæmd verksins. Mikil vöntun sé á hjúkrunarrýmum í landinu. Þeir hagsmunir séu mun meiri en þeir hagsmunir stefnenda að hanna Boðaþing nr. 11 og 13. Sérstaklega þegar haft sé í huga að stefnendur geti krafist skaðabóta, telji þeir að brotið hafi verið á rétti sínum.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sé það frumskilyrði þess að unnt sé að leggja lögbann við tiltekinni athöfn að hún sé annaðhvort yfirvofandi eða byrjuð. Þetta skilyrði sé ekki uppfyllt í málinu. Ekkert liggi fyrir um það að yfirvofandi sé brot á höfundarétti stefnenda eða það brot byrjað. Byggingar þær sem fyrirhugað sé að reisa að Boðaþingi nr. 11 og 13 hafi ekki verið hannaðar. Það liggi ekki einu sinni fyrir hver muni hanna þær byggingar.   

Stefndi krefjist sýknu af kröfu stefnenda um að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að afhenda til keppenda í tengslum við opinbera hönnunarsamkeppni eða gera með öðrum hætti aðgengileg sem hluta af gögnum hönnunarsamkeppninnar gögn sem stefndi hafi undir höndum og stefnandi Halldór hafi unnið. Krafa stefnenda sé svo óljós og víðtæk að hún samrýmist ekki kröfum réttarfars um skýra og ljósa kröfugerð, þannig að ekki verði lagður á hana dómur. Ekki sé eingöngu gerð krafa um að tiltekin gögn, sem séu hluti af dómskjölum, megi ekki afhenda heldur jafnframt aðra uppdrætti er stefnendur kunni að hafa unnið vegna Boðaþings 11 og 13 eða tengigangs. Það sé alveg óljóst til hvaða gagna verið sé að vísa. Stefndi krefjist ekki frávísunar vegna þessa en bendi á að þessi annmarki kunni að leiða til frávísunar án kröfu (ex officio).

Þau gögn sem stefnendur krefjist að stefnda sé óheimilt að afhenda keppendum í hönnunarsamkeppni eða gera með öðrum hætti aðgengileg í tengslum við hönnunarsamkeppnina séu gögn sem stefnendur hafi afhent stefnda óumbeðið. Stefndi hafi aldrei óskað eftir því að þessi gögn yrðu unnin. Samkvæmt upplýsingum stefnda sé að einhverju leyti um að ræða gögn sem unnin hafi verið í tengslum við breytingar á deiliskipulagi, og þá að beiðni Kópavogsbæjar. Þá séu einhver gögn sem unnin hafi verið að beiðni Hrafnistu. Í stefnu sé engin umfjöllun um hvert og eitt skjal, t.d. hver hafi óskað eftir þessari vinnu eða af hvaða tilefni. Það sé mjög erfitt fyrir stefnda að taka til varna í málinu vegna þessarar vanreifunar hjá stefnendum. Hafi gögnin verið unnin fyrir Kópavogsbæ eða Hrafnistu þá fari um heimild til afhendingar þeirra samkvæmt samningum stefnenda við þá aðila. Stefndi hafi engar upplýsingar um þá samninga.

Stefnendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um þessa kröfu. Gögnin virðist vera aðgengileg hjá Kópavogsbæ og Hrafnistu. Samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 hafi almenningur mjög víðtækan rétt til að óska eftir aðgangi að fyrirliggjandi gögnum. Upplýsingalögin taki bæði til starfsemi stjórnvalda og til einkaaðila sem sinni þjónustu sem hið opinbera skuli sinna, eins og Hrafnistu, sbr. 2. og 3. gr. laganna. Á grundvelli upplýsingalaga geti aðilar, þ.m.t. keppendur í hönnunarsamkeppninni, óskað eftir þessum gögnum. Skipti þá ekki máli hvort þau hafi verið unnin fyrir Kópavogsbæ eða Hrafnistu. Dómskjal sem sé stimplað af Kópavogsbæ á árinu 2009 sé aðgengilegt hjá Kópavogsbæ. Þá séu gögnin að hluta aðgengileg á veraldarvefnum. Að minnsta kosti sé ljóst að teikningar er varði svonefndan tengigang milli Boðaþings nr. 9 og Boðaþings nr. 22 til 24 séu aðgengilegar á heimasíðu Kópavogsbæjar. 

Jafnvel þó ekki mætti afhenda gögnin í tengslum við hönnunarsamkeppnina, þá komi það ekki í veg fyrir að hún sé haldin. Það gæti hins vegar haft áhrif á rétt stefnenda til að taka þátt í hönnunarsamkeppninni. Samkvæmt 46. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016 skuli kaupandi í þeim tilvikum að fyrirtæki eða aðili sem tengist fyrirtæki hafi veitt kaupanda ráðgjöf eða komið að undirbúningi innkaupa gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að fyrri aðkoma fyrirtækis eða aðila sem tengist fyrirtæki raski ekki samkeppni. Ráðstafanir skuli m.a. felast í því að láta öðrum þátttakendum og bjóðendum í té upplýsingar sem máli skipti og setja hæfilegan tilboðsfrest. Þá sé kveðið á um það í 2. mgr. að aðeins skuli útiloka hlutaðeigandi fyrirtæki frá innkaupaferli sé ekki með neinu öðru móti unnt að tryggja jafnræði. Áður en fyrirtæki verði útilokað skuli því gefinn kostur á að sýna fram á að aðkoma þess, eða aðila sem tengist því, að undirbúningi innkaupaferlisins geti ekki raskað samkeppni. Hafi aðili áður komið að undirbúningi innkaupa og sé ekki hægt að tryggja jafnræði bjóðenda, t.d. með því að afhenda þau gögn sem unnin hafi verið á fyrri stigum, þá leiði það ekki til þess að aðrir séu útlokaðir frá þátttöku heldur til þess að hlutaðeigandi missi þátttökurétt.

Stefndi krefjist sýknu af kröfu stefnenda um að staðfest verði með dómi lögbann við því að afhenda gögn til keppenda í tengslum við opinbera hönnunarsamkeppni eða gera þau með öðrum hætti aðgengileg sem hluta af gögnum hönnunarsamkeppninnar. Skilyrði 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990 séu ekki uppfyllt í málinu.

Stefnendur hafi ekki sannað eða gert sennilegt að afhending þeirra gagna sem tilgreind séu í lögbanninu til keppenda í opinberri hönnunarsamkeppni brjóti gegn lögvörðum rétti stefnenda. Vísað sé m.a. til þess að aðilar geti á grundvelli upplýsingalaga óskað eftir þessum gögnum og að þau séu að einhverju leyti aðgengileg á veraldarvefnum. Gerðarbeiðendur geti ekki haft lögvarða hagsmuni af því að fá lögbann við því að þessi skjöl verði afhent þar sem allir geti nálgast þessi skjöl á netinu eða hjá Kópavogsbæ eða Hrafnistu. Önnur skjöl hafi gerðarþoli ekki undir höndum né hafi óskað eftir að yrðu unnin.

Stefndi byggi málsvörn sína á almennum reglum samningaréttar, höfundaréttar og vinnuréttar, höfundalögum nr. 73/1972, lögum um opinber innkaup nr. 120/2016, lögum um skipan opinberra framkvæmda nr. 84/2001, upplýsingalögum nr. 140/2012, lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990 og lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa stefnda um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr.

Niðurstaða

Stefnendur krefjast í máli þessu, á grundvelli 36. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., staðfestingar á lögbanni sem lagt hefur verið við því að stefndi haldi hönnunarsamkeppni og við því að hann afhendi tiltekin gögn í tengslum við slíka keppni. Samkvæmt lagaákvæðinu skal, hafi ekki áður verið dæmt um kröfu stefnanda eða mál höfðað til þess að fá skorið úr um rétt hans, gera slíka kröfu í sama máli. Stefnandi krefst þess því jafnframt í málinu að viðurkennt verði að stefnda sé óheimilt að halda hönnunarsamkeppnina og afhenda gögnin.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og byggir hann þá kröfu í fyrsta lagi á aðildarskorti. Stefndi tók til varna sem gerðarþoli við lögbannsgerðina og krafðist þess í skriflegri greinargerð til sýslumanns að lögbannskröfum yrði hafnað þar sem skilyrði til lögbanns væru ekki fyrir hendi. Þar lýsti hann aðild sinni að lögbannsmálinu svo að hann færi lögum samkvæmt með stjórn verklegra framkvæmda af hálfu ríkisins, en verkkaupar væru velferðarráðuneytið og Kópavogsbær. Þessa stöðu sína hefur stefndi áréttað í greinargerð sinni í þessu máli og heldur því þar m.a. fram að framkvæmd og ákvarðanir varðandi hönnunarsamkeppnina séu hluti af lögbundnu hlutverki stefnda og séu því stjórnarathafnir í skilningi 2. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Stefndi kveðst þrátt fyrir þetta ekki vera réttur aðili að málinu þar sem verkkaupar hafi ákveðið að hönnunarsamkeppnin skyldi fara fram. Verður ekki fallist á að stefndi geti ekki átt aðild að málinu af þeirri ástæðu. Gerðarþoli við lögbannsgerð er réttur aðili að máli sem höfðað er til staðfestingar á henni, en lögbann var í báðum liðum lagt við athöfnum sem stefndi taldi og telur sér heimilar. Málsástæðu stefnda um að sýkna beri hann vegna aðildarskorts verður því hafnað.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 má leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Í 2. mgr. 24. gr. laganna segir að lögbann verði ekki lagt við stjórnarathöfn þess sem fari með framkvæmdarvald ríkis eða sveitarfélags. Þá er í 1. og 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laganna tekið fram að lögbann verði ekki lagt við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega. Heldur ekki ef sýnt þykir að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola af því að athöfn fari fram og hagsmunum gerðarbeiðanda af að fyrirbyggja hana, enda setji gerðarþoli eftir atvikum tryggingu fyrir því tjóni sem athöfnin kann að baka gerðarbeiðanda.

Málsatvik eru að mestu óumdeild. Í sérstökum kafla hér að framan er gerð grein fyrir þeim í meginatriðum, svo og ágreiningsefnum aðila. Aðilar deila í fyrsta lagi um það hvort sú athöfn stefnda sem var yfirvofandi og lögbann var lagt við, að láta fara fram hönnunarsamkeppni, brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti stefnenda.

Stefnendur byggja á því að heildstæð hönnun hafi orðið til við fyrri framkvæmd, við byggingar við Boðaþing 5, 7 og 9, og eftir að framkvæmdinni lauk, og njóti verkið í heild verndar höfundalaga nr. 73/1972. Það sé byggingarlist í skilningi 1., sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna og 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár. Stefndi andmælir því að um heildstæða hönnun hafi verið að ræða og dregur í efa að fyrirliggjandi byggingar teljist til byggingarlistar í skilningi höfundalaga. Stefnendur telja að eigi að bjóða út hönnun bygginga við Boðaþing 11 og 13 þá hafi í upphafi átt að bjóða verkið út sem eina heild. Óumdeilt er að við byggingu hjúkrunarálma við Boðaþing nr. 5 og nr. 7 sem teknar voru í notkun á árinu 2010 fór ekki fram hönnunarsamkeppni heldur var þá byggt á hönnun stefnanda Halldórs. Voru framkvæmdir boðnar út sjálfstætt og um það verkefni ritað skilamat stefnda í september 2015. Þar kemur fram að áætlunargerð hafi verið á hendi Kópavogsbæjar sem lagt hafi til gögn vegna fullhannaðrar byggingar. Samkvæmt deiliskipulagi hafi verið fyrirhugað að byggja þjónustumiðstöð og að út frá henni myndu ganga fjórar tveggja hæða hjúkrunarálmur, hver með 22 íbúðum eða alls 88 sérhæfðum þjónustuíbúðum. Fyrirhugað hafi verið að byggja hjúkrunarálmurnar í áföngum og sé verkefnið sem fjallað sé um í skilamatinu fyrsti áfangi hjúkrunaríbúða, nr. 5 og nr. 7 við Boðaþing, með samtals 44 þjónustuíbúðum, en kjarnabyggingin að Boðaþingi 9 hafi verið byggð á vegum Kópavogsbæjar. Þá segir í skilamatinu að ekki liggi fyrir skipting milli þeirra hönnuða sem veittu ráðgjöf við verkefnið þar sem umsjón með hönnunarsamningum hafi verið í höndum sveitarfélagsins. Þeir samningar liggja ekki fyrir í málinu og ekki er byggt á þeim eða öðrum samningum við verkkaupa af hálfu stefnenda í máli þessu.

Stefnendur kveða sér hafa af hálfu Kópavogsbæjar verið falið að vinna tillögur að öðrum áfanga hjúkrunarkjarnans, að Boðaþingi 11 og 13, á árinu 2011 vegna breyttra hugmynda í þá veru að koma fyrir á jarðhæð hjúkrunardeildum eða íbúðum fyrir fatlaða, sem hafi krafist breytingar á deiliskipulagi. Stefndi mótmælir því sem óstaðfestu að stefnendum hafi þá verið falið nokkuð annað en vinna við breytingar á deiliskipulagi, en gagna nýtur ekki við um að verkbeiðni hafi lotið að öðru.

Í samþykktu deiliskipulagi er byggingarreitur á lóðinni við Boðaþing, með númerin 5, 7, 9, 11 og 13, ákveðinn nærri lóðarmörkum. Í því felst að mikið svigrúm er veitt fyrir ákvörðun um stærð, fjölda og lögun bygginga sem þar geti risið. Ekki var hróflað við þeirri afmörkun byggingarreits í tillögu sem stefnandi Halldór vann að breytingu á deiliskipulagi, sem samþykkt var í skipulagsnefnd 21. mars 2016 og fól í sér að hjúkrunarrýmum í Boðaþingi 11–13 fjölgaði úr 60 í 64 og áætluð stærð hjúkrunarheimilis jókst um 200 fermetra. Sú afmörkun byggingarreits styður ekki þá túlkun stefnenda á deiliskipulaginu að í því sé byggt á uppdráttum Halldórs bæði um legu og útlit bygginga, og að í því felist ákvörðun um þá útfærslu sem heildstæða hönnun bygginga á lóðinni. Í þessu samhengi er rétt að horfa til greinargerðar með upphaflegu deiliskipulagi svæðisins, sem samþykkt var 11. júlí 2005. Þar segir m.a. „Gert er ráð fyrir að Kópavogsbær byggi þjónustumiðstöð á tveimur hæðum auk kjallara á þessu svæði en Hrafnista myndi sjá um almennan rekstur á henni. Í tengslum við þjónustumiðstöðina er gert ráð fyrir að byggðar verði hjúkrunaríbúðir alls 80 íbúðir í fjórum húsum á tveimur hæðum.“ Af þessu má ráða að skipulag svæðisins gerir ráð fyrir því að á lóðinni séu fimm byggingar. Ekki er að finna í skilmálum deiliskipulagsins ákvæði um samræmt heildaryfirbragð bygginga á lóðinni eða ákvæði um að sami höfundur skuli vera að byggingum á lóðinni. Einnig kemur fram á aðaluppdráttum stefnenda fyrir Boðaþing 5, 7 og 9, sem voru samþykktir af Byggingarnefnd Kópavogs 19. janúar 2007, að um aðskildar byggingar sé að ræða. Þar segir m.a. í byggingarlýsingu: „Sótt er um að byggja tvær byggingar á tveimur hæðum ... Í skipulagi er gert ráð fyrir fjórum byggingum með hjúkrunaríbúðum en nú er sótt um byggingar vestan við þjónustumiðstöð. Einnig er sótt um að byggja þjónustumiðstöð á tveimur hæðum auk kjallara“. Fyrir liggur að stefnandi Halldór vann í júlí 2015, að beiðni Hrafnistu og sveitarfélagsins, tillögu að útfærslu hjúkrunarálma í einni byggingu, nr. 11 og 13. Þetta bendir ekki til þess að þá þegar hafi verið ákveðið hvernig byggingum yrði fyrirkomið á lóðinni, þannig að heildstæð hönnun lægi fyrir um nýtingu hennar, svo sem stefnendur halda fram. Fallist er á það sjónarmið stefnda að hér sé um að ræða nýjar byggingar og sjálfstæð mannvirki sem tengd verði við þegar byggðar byggingar með tengibyggingu. Verður að öllu þessu virtu ekki fallist á þá málsástæðu að heildstæð hönnun hafi þegar orðið til við fyrri framkvæmd, þannig að höfundaréttur stefnanda Halldórs að þeim byggingum sem þegar hafa verið reistar standi því í vegi að halda megi hönnunarsamkeppni um framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á lóðinni.

Stefnendur halda því fram að vegna einkaréttar höfundar til eintakagerðar samkvæmt 2. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, sé öðrum óheimilt að hanna byggingar sem tengist höfundaverki Halldórs. Stefndi hafnar því að lögverndaður einkaréttur á hönnun sé fyrir hendi, um sé að ræða nýjar byggingar og sjálfstæð mannvirki og stefnda sé ekki heimilt á grundvelli 39. gr. laga nr. 120/2016 að semja við Halldór um verkið án útboðs og samkeppni, svo sem stefnandi heldur fram að honum sé heimilt. Fallist er á að hönnun bygginga við Boðaþing 5, 7, og 9 standi sem höfundarverk stefnanda Halldórs og njóti sem slíkt verndar ákvæða höfundalaga. Sá höfundaréttur nær þó ekki sjálfkrafa til fyrirhugaðra bygginga á lóðinni þannig að einkaréttur sé fyrir hendi til hönnunar á þeim, þótt fyrir liggi að höfundur hafi sett fram hugmyndir um byggingar þar. Ekki verður fallist á það með stefnendum að þar eð stefnandi Halldór hafi sett fram hugmyndir um hönnun bygginga nr. 11 og 13 komi aðrir hönnuðir ekki til greina eða að Halldór eigi lögverndaðan einkarétt til hönnunar á þeim, þannig að stefnda væri af þeim sökum heimilt, á grundvelli b-liðar 2. mgr. 39. gr. laga nr. 120/2016, um opinber innkaup, að semja við stefnendur um verkið án útboðs.

Stefnendur halda því fram að hönnun annarra á síðari hluta verksins, nýjum álmum, geti brotið gegn sæmdarrétti Halldórs samkvæmt 4. gr. höfundalaga vegna tengingar við fyrirliggjandi byggingarverk og séu það breytingar sem háðar séu samþykki hans, sem óvíst væri hvort fengist. Stefndi bendir á að samkvæmt 13. gr. höfundalaga sé eiganda heimilt að gera nauðsynlegar breytingar án samþykkis höfundar, en stefnendur telja skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt. Ógerlegt er að svo komnu máli, þegar engar tillögur annarra að hönnun hjúkrunaríbúða nr. 11 og 13 við Boðaþing eru komnar fram, að leggja mat á það hvort í slíkum tillögum myndu, vegna tengingar við Boðaþing 5, 7 og 9, felast breytingar sem samþykkis stefnanda Halldórs þyrfti við og verður ekki leyst úr því í þessu máli. Slík úrlausnarefni sem kunna að koma upp í framtíðinni, verði öðrum en stefnanda Halldóri falið verkefnið, standa því ekki í vegi að efnt verði til áformaðrar hönnunarsamkeppni.

Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins um fyrstu og aðra dómkröfu stefnenda að ekki sé fullnægt þeim áskilnaði 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., að stefnandi hafi sannað eða gert sennilegt að athöfn, byrjuð eða yfirvofandi, hafi brotið eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans. Ber þegar af þeirri ástæðu að synja kröfu stefnenda um að staðfest verði lögbann sem lagt var við því að stefndi léti fram fara opinbera hönnunarsamkeppni um hönnun hjúkrunaríbúða að Boðaþingi 11 og 13. Sömuleiðis er því hafnað að stefnda sé óheimilt að láta hönnunarsamkeppnina fara fram og verður því ekki fallist á viðurkenningarkröfu stefnanda um það.

Þriðja og fjórða dómkrafa stefnenda, og síðara ágreiningsefni aðila, varða áform stefnda um að afhenda eða gera með öðrum hætti aðgengileg í tengslum við hönnunarsamkeppnina tiltekin gögn sem stefnandi Halldór hefur unnið varðandi hugmyndir sínar um byggingar að Boðaþingi nr. 11 og 13. Stefnendur krefjast viðurkenningar á því að þetta sé stefnda óheimilt og krefjast staðfestingar á lögbanni sem lagt var við þeim áformum.

Þessar kröfur stefnenda byggja á því að umrædd gögn séu háð höfundarétti Halldórs, sem feli í sér einkarétt höfundar til að gera eintök af verki sínu og birta það, sbr. 2. gr. höfundalaga, nr. 73/1972. Höfundaréttur að gögnunum njóti verndar og jafnframt réttur til að gera breytingar á þeim. Fallist er á það með stefnendum að gögnin njóti verndar höfundalaga, enda eru uppdrættir og teikningar meðal þess sem sérstaklega er nefnt að njóti slíkrar verndar í 3. mgr. 1. gr. laganna. Í þeirri vernd felst jafnframt vernd gegn því að aðrir geri breytingar á uppdráttum og teikningum sem fyrir liggja án samþykkis höfundar.

Stefndi heldur því fram að lögmæltum skilyrðum lögbanns hafi ekki verið fullnægt. Stefnendur hafi ekki sannað eða gert sennilegt að afhending þeirra gagna sem tilgreind séu í lögbanninu til keppenda í opinberri hönnunarsamkeppni brjóti gegn lögvörðum rétti stefnenda. Aðilar geti á grundvelli upplýsingalaga óskað eftir þessum gögnum og séu þau að einhverju leyti aðgengileg á veraldarvefnum. Þess vegna hafi stefnendur ekki lögvarða hagsmuni af því að fá staðfest lögbann við því að þessi skjöl verði afhent. Þá telur stefndi kröfurnar of víðtækar og óljósar til að á þær verði fallist og vísar þá sérstaklega til orðanna „og aðra uppdrætti er stefnendur kunna að hafa unnið vegna Boðaþings 11 og 13 eða tengigangs“. Í kröfum stefnenda og í lögbanninu eru jafnframt tilgreind nákvæmlega tiltekin gögn sem fyrir lágu við lögbannsgerð og liggja fyrir í máli þessu. Í Minnisblaði stefnda til velferðarráðuneytisins 5. júlí 2016 kemur fram að stefnendum hafi verið kynnt áform stefnda um samkeppni og að samkvæmt lögfræðiráðgjöf yrði jafnræði bjóðenda í útboði raskað ef ekki yrði veittur aðgangur að „öllum gögnum, upplýsingum og niðurstöðum sem hafa orðið til á fyrri stigum, þ.m.t. frumteikningum“. Ætla verður að stefndi hafi hugmynd um hvaða gögn það séu sem hann mótmælir að sér sé meinað að gera aðgengileg í tengslum við hönnunarsamkeppnina. Þegar litið er til samhengis krafna stefnenda og þess að lögbannskrafan var sett fram í tilefni af þeirri niðurstöðu stefnda, sem hann hafði kynnt stefnendum, að nauðsynlegt væri að veita öllum þátttakendum aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem stefnandi Halldór hefði unnið, verður ekki fallist á að í orðalagi krafna stefnenda felist of víðtæk tilgreining á þeim gögnum sem við sé átt.

Stefndi telur að megi hann ekki afhenda gögnin í tengslum við hönnunarsamkeppnina gæti það haft áhrif á rétt stefnenda til að taka þátt í henni vegna ákvæða 46. gr. laga nr. 120/2016 um skyldu stefnda til að gera ráðstafanir til að tryggja að fyrri aðkoma aðila raski ekki samkeppni, m.a. með því að láta öðrum þátttakendum og bjóðendum í té upplýsingar sem máli skipti. Aðili verður samkvæmt lagaákvæðinu ekki útilokaður frá samkeppni nema með engu öðru móti sé unnt að tryggja jafnræði. Sá aðili sem til greina kemur að útiloka skal eiga kost á því að sýna fram á að fyrri aðkoma raski ekki samkeppni áður en til útilokunar hans komi. Stefndi hefur í þessu máli ekki sýnt fram á að jafnræði keppenda verði ekki tryggt með öðru móti en því að hann afhendi umrædd gögn eða geri þau aðgengileg, enda er það ekki til úrlausnar í málinu hverjir geti tekið þátt í fyrirhugaðri hönnunarsamkeppni. Þótt fallist verði á að stefnda sé óheimilt að afhenda gögnin í tengslum við hönnunarsamkeppnina kemur það ekki í veg fyrir að stefnendur sjálfir afhendi gögnin eða einhver þeirra áður en til samkeppni kemur, eftir atvikum í kjölfar málsmeðferðar á grundvelli 46. gr. laga nr. 120/2016.

Af þeirri vernd sem umrædd höfundarverk njóta samkvæmt höfundalögum leiðir að stefnandi Halldór hefur lögvarða hagsmuni af því að lagt sé bann við því að stefndi afhendi gögnin án hans samþykkis í tengslum við samkeppni. Breytir þar engu þótt einhver þeirra séu eða geti orðið keppendum aðgengileg með öðru móti. Þá er fallist á það með stefnendum að afhendi stefndi öðrum tillögur sem hann hefur undir höndum og stefnandi Halldór hefur unnið, og annar aðili ljúki útfærslu þeirra hugmynda án samþykkis höfundar, gæti það talist óheimil breyting á höfundarverki hans í skilningi 2. mgr. 4. gr. höfundalaga. Takmörkun á aðgengi að tillögunum skiptir hann því máli.

Fallist er á að stefnda sé óheimilt að afhenda umrædd gögn til keppenda í tengslum við opinbera hönnunarsamkeppni, en slíkt brot gegn lögvörðum hagsmunum stefnenda var yfirvofandi þegar lögbann var lagt við afhendingu stefnda á gögnunum.

Stefndi heldur því einnig fram að önnur skilyrði lögbanns samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., hafi ekki verið fyrir hendi. Þótt stefndi tilheyri stjórnsýslu ríkisins og hafi lögboðið hlutverk sem slíkur þá eru þær athafnir sem lögbannið lýtur að á sviði einkaréttar. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu stefnda að um stjórnarathöfn sé að ræða sem lögbann verði ekki lagt við samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laganna. Þegar litið er til eðlis þeirra réttinda sem lögbanninu er ætlað að vernda verður ekki fallist á að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna stefnenda tryggi þá nægilega, sbr. 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Mat á hagsmunum stefnda af því að fá að afhenda gögnin annars vegar og hagsmunum stefnenda af verndun höfundaréttarins hins vegar leiðir ekki til þess að 2. tl. 3. mgr. 24. gr. sömu laga standi því í vegi að lögbannið verði staðfest.

Því er fallist á að lögmælt skilyrði til að lögbann yrði lagt við fyrirhugaðri afhendingu gagna hafi verið fyrir hendi og verður lögbannið staðfest með dómi þessum. Þá er enn fremur fallist á að fyrirhuguð afhending gagna hafi verið og sé stefnda óheimil og verður því einnig fallist á viðurkenningarkröfu stefnenda í þriðja kröfulið.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða dómsins að hafna kröfu stefnenda um viðurkenningu á því að stefnda sé óheimilt að láta hönnunarsamkeppni fara fram og að synja stefnanda um staðfestingu lögbanns sem lagt var við því og verður það samkvæmt því fellt úr gildi. Á hinn bóginn fellst dómurinn á kröfu stefnenda um viðurkenningu á því að stefnda sé óheimilt að afhenda tiltekin gögn í tengslum við samkeppnina og verður lögbann sem lagt hefur verið við því staðfest. Að þessu virtu og með vísun til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu og verður málskostnaður felldur niður.

Dóminn sömdu Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari, sem er dómsformaður, og meðdómendurnir Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari og Þorkell Magnússon arkitekt.

D Ó M S O R Ð

Hafnað er kröfu stefnenda, THG arkitekta ehf. og Halldórs Guðmundssonar, um viðurkenningu á því að stefnda, Framkvæmdasýslu ríkisins, sé óheimilt, á grundvelli 44. gr. laga nr. 120/2016, um opinber innkaup, að láta fara fram opinbera hönnunarsamkeppni um hönnun hjúkrunaríbúða að Boðaþingi nr. 11 og 13, Kópavogi, nánar tiltekið hönnun annars áfanga byggingar hjúkrunar- og þjónustumiðstöðvar við Boðaþing.

Fellt er úr gildi lögbann sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 4. apríl 2017, í lögbannsgerð nr. 17/2017, við því að stefndi, á grundvelli 44. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, léti fara fram opinbera hönnunarsamkeppni um hönnun hjúkrunaríbúða að Boðaþingi nr. 11 og 13, Kópavogi, nánar tiltekið hönnun 2. áfanga byggingar hjúkrunar- og þjónustumiðstöðvar við Boðaþing.

Viðurkennt er að stefnda sé óheimilt að afhenda til keppenda í tengslum við opinbera hönnunarsamkeppni eða gera með öðrum hætti aðgengilega sem hluta af gögnum hönnunarsamkeppninnar uppdrætti sem stefndi hefur undir höndum og stefnandi, Halldór Guðmundsson, vann og sýna hönnun á tveimur síðari álmum hjúkrunarmiðstöðvarinnar að Boðaþingi 11 og 13 í Kópavogi, þar með talið afstöðumyndir, grunnmyndir, útlitsmyndir og sneiðingar vegna hjúkrunareininga og afstöðumyndir, grunnmyndir, útlitsmyndir og deiliuppdrætti vegna tengigangs milli fjölbýlishúsa, hjúkrunarálma og þjónustubyggingar. Átt er við fylgiskjöl 7, 13, 16 (bls. 21–23), 20, 22, 23, 24 og 27 og aðra uppdrætti er stefnendur kunna að hafa unnið vegna Boðaþings 11 og 13 eða tengigangs.

Staðfest er lögbann sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 4. apríl 2017, í lögbannsgerð nr. 17/2017, við því að stefndi afhendi til keppenda í tengslum við opinbera hönnunarsamkeppni eða geri með öðrum hætti aðgengilega sem hluta af gögnum hönnunarsamkeppninnar uppdrætti sem stefnandi Halldór vann og sýna hönnun á tveimur síðari álmum hjúkrunarmiðstöðvarinnar að Boðaþingi 11 og 13, þ.m.t. afstöðumyndir, grunnmyndir, útlitsmyndir og sneiðingar vegna hjúkrunareininga og afstöðumyndir, grunnmyndir, útlitsmyndir og deiliuppdrætti vegna tengigangs milli fjölbýlishúsa, hjúkrunarálma og þjónustubyggingar. Átt er við fylgiskjöl 7, 13, 16 (bls. 21–23), 20, 22, 23, 24 og 27 og aðra uppdrætti er stefnendur kunna að hafa unnið vegna Boðaþings 11 og 13 eða tengigangs.

Málskostnaður fellur niður.

                                                             Kristrún Kristinsdóttir

                                                            Hólmfríður Grímsdóttir

                                                            Þorkell Magnússon