• Lykilorð:

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október í máli nr. E-1447/2018:

Guðríður Gunnarsdóttir

(Jóna Margrét Harðardóttir lögmaður)

gegn Guðna Kára Gylfasyni

(Einar Hugi Bjarnason lögmaður)

 

I.     Dómkröfur

Málið sem hér um ræðir var þingfest 31. maí 2018 en tekið til dóms 16. október sama ár að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 255.000 kr., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af kr. 255.000,00 frá 10. ágúst 2017 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, og þess krafist að tekið verði tillit til þegar áfallins innheimtukostnaðar við ákvörðun þess kostnaðar.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst stefndi sýknu af dómkröfum stefnanda en til þrautavara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. 

 

II.  Málavextir.

Samkvæmt gögnum málsins og framburðum aðila sem og vitna við aðalmeðferð 16. október fór stefndi í hestaferð ásamt öðrum tug manna í júlí 2017, en ferðin mun vera farin undir merkjum óformlegs félagsskapar sem kallar sig ,,Spaðarnir“. Af skýrslutökum í málinu verður ráðið að félagsskap þennan myndi einkum einstaklingar sem sækja vínveitingahúsið Kaffibarinn. Mun dómkrafa stefnanda í málinu vera komin til vegna þessarar ferðar en stefnandi og eiginmaður hennar munu hafa skipulagt og annast flutning hesta fyrir hópinn.

Aðilum bar, fyrir dómi, saman um að stefnandi og stefndi hefðu ekki átt í samskiptum áður en þessi ferð var farin. Samkvæmt smáskilaboðum sem lögð hafa verið fyrir dóminn, og skýrslum aðila og vitna, mun maður að nafni Arnar hafa verið í samskiptum við Björn Ólafsson, eiginmann stefnanda, skömmu áður en ferðin var farin. Fyrir dómi kváðust aðilar og vitni ekki vita hvað umræddur Arnar héti fullu nafni. Ljóst er þó að þessi Arnar mun hafa sent eiginmanni stefnanda skilaboð 4. júlí 2017 þar sem hann kvaðst þurfa að flytja hesta frá Sörla í Hafnarfirði 12. júlí 2017 upp á Hveravelli og sækja þá 17. apríl 2017 frá Kerlingafjöllum.

Eiginmaður stefnanda svaraði þessum skilaboðum samdægurs á þann veg að þetta væri ekki „beint spennandi dæmi fyrir mitt dót“ en miðað við að fara norðurleiðina gæti hann gert þetta fyrir 20 þúsund krónur á hest. Ekki væri verra ef hestarnir væru 24 frekar en 25.

Arnar svaraði þessum skilaboðum þremur dögum síðar, eða 7. júlí 2017, með þeim orðum að ,,þeir væru til“ en hann yrði að heyra í „Ragga“ með hesta. Aftur bárust skilaboð frá sama Arnari 16. júlí 2017 um að það yrðu að vera 13 hestar á Hveravöllum og 9 í Kerlingafjöllum.

Í framhaldinu mun eiginmaður stefnanda hafa sent títtnefndum Arnari skilaboð þar sem hann var krafinn greiðslu á 440.000 kr., miðað við að farið hefði verið með 22 hesta, en samkvæmt tilboði hafi flutningurinn á hverjum hesti átt að kosta 20.000 kr.

Næstu skilaboð eiginmanns stefnanda munu hafa síðan verið til stefnda en þau voru svohljóðandi:

 

Sæll Guðni. Ég flutti hestana f. ykkur. Þar sem ferð ykkar gekk brösuglega og varð dýrari en við mátti búast gaf ég Arnari rúmlega 100 þús kr afslátt á umsömdu verði ef staðið yrði við að greiða flutninginn í dag. Mér er sagt að þú sért peninga Spaðinn. Arnar er m bankaupplýsingar.

 

Stefndi svaraði þessum skilaboðum 18. júlí 2017 með þeim orðum að hann hefði verið á spítala í rannsókn um kvöldið og ekki getað sinnt þessu en hann myndi ganga í þetta strax í fyrramálið. Bað hann eiginmann stefnanda að afsaka töfina.

Sama dag mun eiginmaður stefnanda hafa sent Arnari þau skilaboð að hann hefði lækkað umsamið verð fyrir flutning um rúmar 100 þúsund miðað við að þetta yrði greitt eins og allir hópar gerðu og að nú yrði þetta að skila sér. Í skilaboðunum var einnig bent á að gjaldkeri Spaðanna hefði lofað þessu strax um morguninn.

Daginn eftir, eða 19. júlí 2017, millifærði stefndi 185.000 kr. inn á reikning stefnanda. Sendi stefndi eiginmanni stefnanda jafnframt skilaboð um millifærsluna en í þeim tilgreindi hann að þetta hefði verið upphæðin sem hann hefði verið með inni á reikningi en aðrir hefðu borgað í reiðufé. Í skilaboðunum segir jafnframt að ,,Arnar [viti] af þessu og [sjái] um rest í seðlum.“ Samkvæmt gögnum málsins og skýrslu eiginmanns stefnanda mun hann hafa haft samband við Arnar í framhaldinu og krafið hann um eftirstöðvar af greiðslunni. Arnar hafi hins vegar ekki svarað honum.

Stefnandi mun í kjölfarið hafa gefið út reikning til stefnda á nafni fyrirtækisins Hestaflutningar en fyrirtækið mun vera einkafirma sem skráð er á kennitölu stefnanda. Með bréfum, dags. 28. ágúst, 7. september, 19. október og 20. nóvember 2017 var skorað á stefnda að greiða reikninginn. Í kjölfar þessara árangurslausu innheimtutilrauna höfðaði stefnandi mál þetta.

 

III.             Málsástæður aðila

Málsástæður stefnanda

Krafa stefnanda í málinu er byggð á reikningi sem gefinn var út 28. júlí 2017 með gjalddaga 10. ágúst sama ár að fjárhæð 255.000 kr. Stefnandi kveður skuldina vera tilkomna vegna vinnu stefnanda við flutninga 23 hesta fyrir stefnda og ferðahópinn ,,Spaðana‘‘ sem stefnandi telur að stefndi sé í forsvari fyrir, samkvæmt framlögðum reikningi. Stefnandi kveðst bjóða upp á þjónustu við hestaflutninga um land allt og að hann hafi tekið að sér það verkefni fyrir stefnda að flytja fyrir hann 23 hesta til Hveravalla. Við flutninginn hafi þurft að nota tvo trukka auk vagna og fara þurfti tvær ferðir.

Að sögn stefnanda hefur skuldin ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því sé nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar. Stefnandi hafi gert ítrekaðar tilraunir til innheimtu skuldarinnar hjá stefnda, eins og framlögð skjöl bera með sér. Því sé þess krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostnaðar sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna innheimtu skuldarinnar, sem stofnaðist til áður en hún var send í löginnheimtu, í samræmi við 12. gr. innheimtulaga nr. 95/2008.

Stefnandi byggir kröfur sínar á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. stoð í lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. og V. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, með síðari breytingum. Krafa um að tekið verði tillit til áfallins innheimtukostnaðar styðst við 7. og 12. gr. laga nr. 95/2008. Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 en um varnarþing er vísað til 32. gr. laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður stefnda

Stefndi telur að því fari fjarri að unnt sé að fá heildstætt yfirlit af stefnu málsins um atvik og samhengi þeirra við málsástæður sem kröfur eru reistar á, enda sé þeim aðeins lýst í fáum orðum. Frávísunarkrafan er á því reist að málið sé vanreifað og uppfylli ekki ákvæði 80. gr. laga nr. 91/1991. Vísar stefndi þá til þess að krafa stefnanda byggist á reikningi vegna flutninga á hestum samkvæmt tilboði en þó sé hvergi í stefnunni vikið að efni tilboðsins né sé tilboðið meðal gagna málsins. Þá sé engin grein gerð fyrir því með hvaða hætti hluti reikningsins var greiddur og gögn um þá greiðslu ekki lögð fram við þingfestingu. Í stefnunni er heldur ekki gerð grein fyrir aðild stefndu að málinu né réttarsambandi aðila. Þetta hafi þó augljóslega verið nauðsynlegt í ljósi þess að stefndi kannast ekki við að hafa stofnað til réttarsambands við stefnanda og engin gögn liggja fyrir í málinu um að viðskiptasamband hafi stofnast milli aðila. Telur stefndi að þessir ágallar á málatilbúnaðinum geti valdið því að stefndi komi ekki að þeim vörnum sem hann eigi kost á. Að mati stefnda er málið því verulega vanreifað að þessu leyti og stefnan uppfyllir ekki skilyrði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Varakrafa um sýknu:

Stefndi telur að af 16. gr. laga nr. 91/1991 leiði að sá einn geti með réttu höfðað mál sem sé rétthafi þeirra hagsmuna sem leitað er úrlausnar á. Máli verði því ekki með réttu beint að öðrum en þeim sem getur látið hagsmunina af hendi eða verður að þola þá. Ef á þetta skortir sé uppi aðildarskortur sem leiði til sýknu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi hafnar því að stofnast hafi til réttarsambands milli málsaðila. Stefndi hafi aldrei hitt stefnanda og hvað þá samið við hana um flutning á hestum. Það er því ósannað að stefndi hafi gengist undir beina skuldbindingu gagnvart stefnanda um að greiða kostnað vegna flutnings umræddra hesta. Sönnunarbyrði um hið gagnstæða hvílir á stefnanda sem ekki hefur axlað þá byrði í þessu máli. Af þeim sökum er óhjákvæmilegt að mati stefnanda að sýkna stefnda á grundvelli aðildarskorts.

Sýknukrafan er einnig reist á því að hann hafi þegar greitt stefnanda sinn hlut í umræddri hestaferð og krafa á hendur honum sé því greidd að fullu. Ef ekki verður fallist á að sýkna stefndu á framangreindum forsendum er á því byggt að krafa stefnanda sé óeðlileg og ósanngjörn, sbr. til hliðsjónar VII. kafli laga nr. 42/2000.

 

Þrautavarakrafa um verulega lækkun:

Þrautavarakrafan er byggð á sömu málsástæðum og sýknukrafa að breyttu breytanda. Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 91/1991, þ.m.t. 16. gr. laganna. Málskostnaðarkrafan styðst við 1. mgr. 130. gr. laganna. Um kröfu um álag á málskostnað vísar stefndi til 131. gr. laganna. Þá vísast til laga nr. 42/2000, um þjónustukaup. Þá byggir stefndi á almennum reglum kröfu- og samningaréttarins.

 

 

IV.             Niðurstaða

Mál þetta snýst um ferð sem aðilar málsins eru sammála um að hafi vissulega verið farin. Upplýsingar varðandi frekari tildrög og skipulagningu ferðarinnar eru hins vegar nokkuð á reiki. Raunar hefur stefndi talið allan málatilbúnað stefnanda svo óljósan að vísa beri málinu frá dómi.

Þótt upplýsingar um málsatvik og þau gögn sem vísað er til í stefnu málsins séu að sönnu nokkuð takmörkuð getur dómurinn ekki fallist á kröfu stefnda um frávísun. Er þá að líta til þess að ekki verður séð að málatilbúnaður stefnanda hafi verið með þeim hætti að hann hafi torveldað varnir stefnda. Telja verður að stefnda hafi verið fyllilega ljóst hvaða málsástæður og atvik lágu að baki stefnunni. Þau atvik voru að auki upplýst nánar við aðalmeðferð málsins þar sem stefnandi og eiginmaður hennar gáfu skýrslu, en stefnandi hefur samkvæmt langri dómaframkvæmd nokkurt svigrúm til að gera frekari grein fyrir kröfu sinni með sönnunarfærslu við aðalmeðferð máls. Kröfu stefnda um frávísun er því hafnað.     

Þegar sjónum er beint að efnislegum þætti málshöfðunar stefnanda er hins vegar nokkuð erfiðara að finna þau rök sem staðið geta undir kröfu hans í málinu. Fyrir liggur að hestaferðin sem um ræðir var farin undir merkjum óformlegs félagsskapar sem gengur undir heitinu Spaðarnir en uppistaðan í þeim félagsskap munu vera einstaklingar sem stunda vínveitingahúsið Kaffibarinn.

Óumdeilt er og upplýst í málinu að hvorki stefnandi, eiginmaður hennar né aðrir á þeirra vegum voru nokkru sinni í samskiptum við stefnda áður en til hestaferðarinnar kom. Eiginmaður stefnanda var í samskiptum við annan nafngreindan mann, Arnar að nafni, en á honum hefur hvorugur aðila málsins getað sagt nánari deili.

Af þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu verður hins vegar ekki um villst að þegar samið var um flutningana var eiginmaður stefnanda einungis í samskiptum við umræddan Arnar og að þeim samdist um hvert hestarnir skyldu fluttir og hvað það skyldi kosta. Jafnframt er ljóst að stefndi fór í ferðina og annaðist millifærslu á 185.000 krónum inn á reikning stefnanda, en í kjölfarið greindi hann eiginmanni stefnanda frá því í skilaboðum að þetta væru einu fjármunirnir sem hann hefði innheimt frá öðrum vegna ferðarinnar og að Arnar væri með afganganginn. Í gögnum málsins kemur fram að eiginmaður stefnanda hafi í kjölfarið haft samband við Arnar um greiðslu skuldarinnar en engin svör fengið.

Í ljósi framangreindra atvika sem og framburðar aðila og vitna fyrir dómi verður ekkert ráðið um það að stefndi hafi nokkru sinni gengist undir persónulega skuldbindingu gagnvart stefnanda um að greiða sjálfur fyrir þá þjónustu sem stefnandi innti af hendi vegna ferðar Spaðanna eða gengist í ábyrgð fyrir greiðslum annarra.

Af þeim sökum er það niðurstaða dómsins að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að stofnast hafi milli réttarsambands hennar og stefnda. Verður stefndi af þeim sökum sýknaður af kröfum stefnanda með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Samkvæmt þessum málsúrslitum verður stefnanda enn fremur gert að greiða stefnda 600.000 krónur í málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

 

DÓMSORÐ:

Stefndi, Guðni Kári Gylfason, er sýknaður af kröfu stefnanda, Guðríðar Gunnarsdóttur.

Stefnandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað.

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson