• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Hraðakstur
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Útivist
  • Vörslur
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2018 í máli nr. S-95/2018:

Ákæruvaldið

(Margrét Herdís Jónsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Guðmundi Kristjáni Kristjónssyni

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 20. febrúar 2018, á hendur Guðmundi Kristjáni Kristjónssyni, kt. 000000-0000, Sólheimum 23, Reykjavík,

 

I.

Fyrir umferðarlagabrot árið 2017 með því að hafa:

 

Föstudaginn 15. janúar, ekið bifreiðinni [---], norður Vesturlandsveg, í Hvalfjarðarsveit, sviptur ökurétti, á 115 km hraða á klukkustund þar sem leyfður ökuhraði var 90 km á klukkustund.

 

Telst þetta varða við 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

II.

Fyrir umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot árið 2017 með því að hafa:

 

Fimmtudaginn 20. júlí ekið bifreiðinni [---], sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 640 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 11 ng/ml), inn á bifreiðastæði við Engihjalla 1, Kópavogi, þar sem lögregla hafði afskipti af honum og á sama tíma haft í vörslum sínum 0,64 g marijúana sem lögregla lagði hald á.

 

 

Telst þetta varða 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

 

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Fyrir dóminum krafðist sækjandi þess einnig að þau efni, sem tilgreind væru í ákæru og lögregla hefði lagt hald á, yrðu gerð upptæk.

 

            Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll en hafði verið birt ákæra og fyrirkall. Verður málið dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

            Ákærði er fæddur í apríl 1978. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 19. febrúar 2018, hefur ákærði margítrekað verið sakfelldur fyrir umferðarlagabrot. Ákærði var 29. september 2009 dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir sviptingarakstur, akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og fíkniefnalagabrot. Þá var hann dæmdur í 15 daga fangelsi fyrir sviptingarakstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna með dómi, 8. mars 2010. Var sá dómur hegningarauki við fyrrgreindan dóm frá 29. september 2009. Með dómi, 21. febrúar 2012, var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir hrað- og sviptingarakstur. Þá var hann dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir sviptingarakstur, 11. október 2013. Nú síðast var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í fjóra mánuði meðal annars fyrir sviptingarakstur með dómi, uppkveðnum 17. júlí 2017. Sakaferill ákærða hefur að öðru leyti ekki þýðingu við ákvörðun refsingar í málinu. Það brot sem ákærði er sakfelldur fyrir í þessu máli samkvæmt fyrsta kafla ákæru var framið fyrir gerð sáttar sem ákærði gekkst undir 3. mars 2017 og verður ákærða því dæmdur hegningarauki hvað það brot varðar í samræmi við ákvæði 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Með hliðsjón af framangreindu, sakarefni þessa máls sem og ákvæðum 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fimm og hálfan mánuð (165 daga).        

            Með vísan til lagaákvæða í ákæru er ákærði sviptur ökurétti í 12 mánuði frá birtingu dóms þessa að telja.

            Í ákæru er ekki að finna kröfu um upptöku þeirra efna sem tilgreind eru í ákæru. Samkvæmt 1. mgr. 180. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 má hvorki dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir né heldur dæma aðrar kröfu á hendur honum. Að því virtu verður ákærði ekki dæmdur til þess að sæta upptöku áðurgreindra efna.

            Ákærði greiði 29.630 krónur í sakarkostnað.

            Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                            D Ó M S O R Ð:       

            Ákærði, Guðmundur Kristján Kristjónsson, sæti fangelsi í fimm og hálfan mánuð (165 daga).

            Ákærði er sviptur ökurétti í 12 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

            Ákærði greiði 29.630 krónur í sakarkostnað.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir