• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 29. október 2018 í máli nr. S-616/2018:

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)

gegn

X

 

 

            Mál þetta sem dómtekið er í dag var höfðað með ákæru útgefinni af héraðssaksóknara þann 1. febrúar 2017 „á hendur X, kt. [...], [...], [...], fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa laugardaginn 2. janúar 2016 á lögreglustöðinni á Hverfisgötu er ákærði sat á bekk í fangamóttökunni, hrækt framan í andlit lögreglumannsins, A, með þeim afleiðingum að hann fékk hluta af hráka í hægra auga og var ákærði þá færður í lögreglutök og í kjölfarið hótaði hann A með orðunum „you die tomorrow“.

            Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

            Ákærða var birt fyrirkall sem hafði að geyma viðvörun samkvæmt 1. mgr. 161. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Þrátt fyrir þetta sótti ákærði ekki þing og ekki var kunnugt um að hann væri forfallaður. Málið verður því dæmt á grundvelli framlagðra gagna og samkvæmt þeim hefur verið færð fram næg sönnun fyrir sekt ákærða.  Hann verður því sakfelldur samkvæmt ákærunni, en brot hans er þar rétt fært til refsiákvæðis. 

            Ákærði er fæddur í [...] [...]. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot svo kunnugt sé. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga en fullnustu refsingarinnar er frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Engan kostnað leiddi af rekstri málsins.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.

            Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                              D Ó M S O R Ð :

            Ákærði X, sæti fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.