• Lykilorð:
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Skaðabótamál

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2019 í máli nr. E-3443/2018:

Aðalsteinn Valdimarsson

Björk Garðarsdóttir

Carsten Wulff

Daði Kárason

Eiður Már Arason

Guðni Vilmundarson

Guðrún Edda Gunnarsdóttir

Högni Hallgrímsson

Jóhann Sveinmar Sveinsson

Jörg Schmikale

Marý Björk Steingrímsdóttir

Matthías E Matthíasson

Pétur Þór Sigurðsson

Rúnar Sigurbjartsson

Stefán Konráðsson

Sveinn Áki Lúðvíksson

(Einar Gautur Steingrímsson lögmaður)

og Magnús Steinarr Norðdahl

(Guðrún Bergsteinsdóttir lögmaður)

gegn

Andrew Sylvain Bernhardt

Óttari Pálssyni

Robert Daniel Svanström

(Reimar Snæfells Pétursson lögmaður)

Birnu Hlín Káradóttur

Brynjari Þór Hreinssyni

og Gísla Val Guðjónssyni

(Viðar Lúðvíksson lögmaður)

og Vita ehf. til réttargæslu

(Hildur Sólveig Pétursdóttir lögmaður)

 

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfur stefndu 14. febrúar 2019, höfðuðu stefnendur 16. október 2018 á hendur stefndu og 24. október s.á. á hendur réttargæslustefnda.

Stefnendur eru Aðalsteinn Valdimarsson Suðurvangi 7, Hafnarfirði, Björk Garðarsdóttir, Löngulínu 26, Garðabæ, Carsten Wulff, Danmörku, Daði Kárason, Kringlunni 63, Reykjavík, Eiður Már Arason, Fitjasmára 1, Kópavogi, Guðni Vilmundarson, Bandaríkjunum, Guðrún Edda Gunnarsdóttir, Mánabraut 15, Kópavogi,  Högni Hallgrímsson, Foldasmára 20, Kópavogi, Jóhann Sveinsson, Fannafold 46, Reykjavík, Jörg Schmikale, Þýskalandi, Magnús S. Norðdahl, Bröttutungu 2, Kópavogi, Marý B. Steingrímsdóttir, Löngumýri 20, Garðabæ, Matthías Matthíasson, Safamýri 37, Reykjavík, Pétur Þór Sigurðsson, Svöluási 6, Hafnarfirði, Rúnar Sigurbjartsson, Bandaríkjunum, Stefán Konráðsson, Öldusölum 8, Kópavogi, og Sveinn Áki Lúðvíksson, Unnargrund 5, Garðabæ.

Stefndu eru Andrew Sylvain Bernhardt, búsettur erlendis, Christopher M. Perrin, búsettur erlendis, Óttar Pálsson, Kaldakri 5, Garðabæ, Robert Daniel Svanström, búsettur erlendis, Birna Hlín Káradóttir, Þinghólsbraut 49, Kópavogi, Brynjar Þór Hreinsson, Löngumýri 13, Akureyri, og Gísli Valur Guðjónsson, Lálandi 22, Reykjavík. Réttargæslustefndi er Viti ehf., Fornubúðum 12, Hafnarfirði.

Dómkröfur

Stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði að stefndu séu, óskipt, skaðabótaskyldir gagnvart stefnendum vegna þess tjóns sem þeir urðu fyrir vegna framsals allra hluta í LS Retail ehf., kt. 700807-0530, frá LS Retail Holding ehf., kt. 470610-0770, til Hoxton (Lux) S.A. í framhaldi af niðurstöðu hluthafafundar þann 27. apríl 2015 í LS Retail Holding ehf. gegn greiðslu á 17.638.600 evrum. 

Stefnendur krefjast þess í öllum tilvikum að stefndu verði óskipt dæmd til að greiða stefnendum málskostnað auk virðisaukaskatts, í samræmi við málskostnaðarreikninga sem lagðir verði fram við aðalmeðferð málsins.

Stefndu Andrew Sylvain Bernhardt, Christopher M. Perrin, Óttar Pálsson og Robert Daniel Svanström gera þær dómkröfur að máli þessu verði vísað frá dómi og stefndu verði hverjum um sig dæmdur málskostnaður úr hendi stefnenda óskipt að skaðlausu.

Stefndu Birna Hlín Káradóttir, Brynjar Þór Hreinsson og Gísli Valur Guðjónsson krefjast þess, hvert um sig, að máli þessu og öllum kröfum stefnenda á hendur þeim verði vísað frá dómi. Þessi stefndu krefjast þess jafnframt, hvert um sig, að þeim verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu óskipt úr hendi stefnenda að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

Greinargerðir allra stefndu eru einungis um kröfur þeirra um frávísun, sbr. 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 78/2015. Stefndu mótmæla málatilbúnaði stefnanda um efni máls í öllum atriðum en geyma sér, til samræmis við framangreind ákvæði, að skila greinargerð þar um fari svo að máli þessu verði ekki vísað frá dómi.

Við munnlegan málflutning um kröfur stefndu um frávísun óskuðu lögmenn stefnenda eftir að gera þá breytingu á orðalagi í kröfugerð í stefnu að á eftir orðunum gagnvart stefnendum komi orðin „hverjum um sig“ á undan orðunum vegna þess tjóns o.s.frv.

Í þessum þætti málsins eru stefndu sóknaraðilar og gera fyrrnefndar kröfur um frávísun þess og málskostnað. Stefnendur eru varnaraðilar í þessum þætti málsins og krefjast þess að kröfum sóknaraðila um frávísun verði hafnað og að tillit verði tekið til þessa þáttar málsins við endanlega ákvörðun um málskostnað. Réttargæslustefndi gerir engar kröfur í þessum þætti málsins. Lögmaður réttargæslustefnda ávarpaði dóminn við munnlegan málflutning um frávísunarkröfur sóknaraðila, tók undir kröfur varnaraðila og kvaðst myndu skila greinargerð við efnismeðferð málsins ef til kæmi.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna í þessum þætti málsins

Er atvik máls þessa urðu var LS Retail Holding ehf. (LSRH) eigandi alls hlutafjár í LS Retail ehf. (LS Retail). ALMC hf. (ALMC) var eigandi 93,1% hluta í LSRH. Stefnendur voru starfsmenn LS Retail og eiga það allir sameiginlegt að hafa gert samning við LSRH og ALMC um að þeir eigi kauprétt í LSRH með nettunarákvæði sem virkjast við sölu LS Retail. Stefndu Birna Hlín, Gísli Valur og Brynjar sátu í stjórn LSRH. Stefndu Andrew, Christopher og Óttar sátu í stjórn ALMC og stefndi Robert Daniel var framkvæmdastjóri ALMC. Stefnandi Aðalsteinn hafði nýtt kauprétt sinn að hluta, greitt fyrir hluti í LSRH og fengið þá afhenta. Þá hluti framseldi hann til eigin félags, réttargæslustefnda Vita ehf., sem var skráður eigandi 6,9% hluta í LSRH.

Á þeim hluthafafundi LSRH 27. apríl 2015, sem nefndur er í dómkröfu stefnenda, var samþykkt með öllum atkvæðum ALMC, að selja alla hluti í LS Retail til Anchorage eða heimilaðra framsalshafa Anchorage, þ.e. Hoxton (Lux) S.A. sem getið er um í dómkröfu. Stefnandi Aðalsteinn sótti hluthafafundinn fyrir hönd réttargæslustefnda Vita ehf. Hann greiddi atkvæði gegn sölunni og mótmælti henni og gerði jafnframt kauptilboð fyrir hönd Vita ehf. í alla hluti ALMC í LSRH, en því var hafnað.

Mál þetta er að rekja til þess að stefnendur telja að við sölu allra hluta í LS Retail hafi þeir verið seldir verulega undir markaðsverði. Málið er höfðað persónulega á hendur stjórnarmönnum LSRH og á hendur stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra ALMC. Stefnendur telja að stefndu beri sem stjórnarmenn í félögunum óskipta bótaábyrgð gagnvart sér vegna fyrrgreindra ákvarðana samkvæmt almennum skaðabótareglum og á grundvelli laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og laga um hlutafélög nr. 2/1995.

Áður en mál þetta var höfðað höfðu dómstólar fjallað um fyrrgreind málsatvik og vísa aðilar málsins í því sambandi til nokkurra dómsúrlausna. Með dómum Hæstaréttar 6. maí 2016 í málum nr. 246/2016 og nr. 247/2016 voru staðfestir úrskurðir héraðsdóms frá 16. mars s.á. Bæði málin voru höfðuð af réttargæslustefnda Vita ehf. á tímabilinu 30. júní til 19. september 2015. Hið fyrrnefnda á hendur LSRH og stefndu Brynjari Þór, Birnu Hlín og Gísla Val. Í málinu var m.a. krafist staðfestingar á kyrrsetningu á fjármunum á reikningum LSRH. LSRH krafðist frávísunar málsins og taldi Vita ehf. hafa með hluthafasamkomulagi og kaupréttarsamningi samið um að ágreiningur sem þessi ætti ekki undir almenna dómstóla heldur gerðardóm. Talið var að ágreiningur vegna krafna réttargæslustefnda um innlausn 6,9% hlutafjáreignar og um skaðabætur ætti undir gerðardóm og var þeim kröfum því vísað frá dómi. Kröfur um staðfestingu kyrrsetningargerðanna bíða í héraðsdómi efnisúrlausnar gerðardómsins.

Síðarnefnda málið höfðaði réttargæslustefndi Viti ehf. á hendur félaginu ALMC, stefndu Andrew, Christopher og Óttari, á hendur Anchorage Capital Group LLC, Hoxton (Lux), stefndu Birnu Hlín, Brynjari Þór og Gísla Val, félaginu LSRH og loks var til réttargæslu stefnt öllum stefnendum þessa máls. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans í Hæstarétti, var rakið að gerðardómsákvæði framangreindra samninga uppfylltu áskilnað laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Dómurinn taldi vafalaust að ákvæðin fælu ekki aðeins í sér heimild, heldur skyldu til þess að leita úrlausnar gerðardóms um ágreining sem samningarnir tækju til og félli ágreiningur málsins samkvæmt efni sínu undir gerðarsamning aðilanna. Ekki var fallist á að gerðardómsmeðferð ágreiningsins veitti ekki fullnægjandi réttarvernd eða væri í andstöðu við réttláta málsmeðferð og talið var að ágreiningur aðila ætti því undir gerðardóm. Talið var að kröfur réttargæslustefnda á hendur stefndu þessa máls væru svo nátengdar kröfum á hendur félögunum að ekki yrði hjá því komist að vísa þeim einnig frá dómi. Var kröfum réttargæslustefnda á hendur þeim því vísað frá dómi og málinu í heild.

Í dómum Hæstaréttar 16. september 2016 í málum nr. 428/2016 og nr. 429/2016 voru staðfestir úrskurðir héraðsdóms frá 17. maí 2016 og 20. maí s.á. Fyrrnefnda málið er höfðað af stefnendum þessa máls, öðrum en Magnúsi Norðdahl, á hendur félögunum LSRH og ALMC, en það síðarnefnda var höfðað af Magnúsi á hendur félögunum og stjórnarformönnum þeirra. Bæði málin voru höfðuð 17. september 2015 og í þeim krafist staðfestingar á kyrrsetningargerðum og greiðslu fjárkrafna á grundvelli kaupréttarsamninga til hlutdeildar stefnenda í söluandvirði dótturfélagsins LS Retail, auk skaðabóta á þeim grundvelli að söluverð félagsins hefði verið langt undir markaðsvirði. Hæstiréttur taldi að ágreiningur málsins félli samkvæmt efni sínu undir gerðarsamningana. Samkvæmt þessu, svo og dómum Hæstaréttar í málum nr. 246/2016 og 247/2016, átti ágreiningur aðila undir lögsögu gerðardóms og var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að vísa þessum kröfum stefnenda frá dómi.

Með dómum Hæstaréttar 7. september 2016 í málum nr. 526/2016 og nr. 529/2016 var hnekkt úrskurðum héraðsdóms frá 4. júlí og 11. júlí s.á., þar sem fallist hafði verið á kröfu réttargæslustefnda um dómkvaðningu matsmanna fyrir héraðsdómi, til að svara matsspurningum um markaðsvirði LS Retail við umdeilda sölu þess o.fl.

Dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur skipaði gerðarmann til að ljúka dómi á ágreining sem á undir lögsögu gerðardóms í samræmi við fyrrgreinda dóma Hæstaréttar. Fyrir gerðardómi reka stefnendur mál til greiðslu kaupréttarins samkvæmt uppgjöri LSRH við framsal hluta í LS Retail, en LSRH hafði hafnað greiðslu vegna áskilnaðar stefnenda um rétt til að krefjast skaðabóta að auki. Gerðardómsmálinu er enn ólokið, en stefnendur hafa fyrir gerðardómi aflað matsgerðar sem lögð er fram í þessu máli. Stefnendur og réttargæslustefndi, auk félaganna ALMC og LSRH, munu allir hafa óskað yfirmats fyrir gerðardómi og stóð sú yfirmatsvinna yfir þegar málið var höfðað.

Kröfur stefndu um að máli þessu verði vísað frá dómi byggja einkum á því að stefnendur skorti lögvarða hagsmuni til málshöfðunarinnar og til kröfugerðar um viðurkenningu á bótaskyldu. Ágreiningur um kaupréttarsamninga þeirra eigi undir gerðardóm og niðurstaða um þann ágreining liggi ekki fyrir. Stefnendur geti ekki leitt líkur að því að þeir hafi orðið fyrir tjóni, hver sé orsök þess og í hverju það felist. Hvorki séu uppfyllt skilyrði til samaðildar né samlagsaðildar til varnar og óljóst af kröfugerð á hvoru sé byggt. Skilyrði til kröfusamlags séu ekki fyrir hendi. Þá skorti svo á skýrleika í málatilbúnaði stefnenda að fullnægi ekki lágmarkskröfum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í þessum þætti málsins andmæla stefnendur þessum málsástæðum og byggja á því að málið sé tækt til efnismeðferðar fyrir héraðsdómi og þeir eigi rétt á því að fá dæmt um kröfur sínar um viðurkenningu á bótaskyldu stefndu.

Helstu málsástæður og lagarök stefnenda fyrir dómkröfum sínum

Stjórnarmenn ALMC hafi ákveðið að gera samning milli ALMC og Anchorage sem falið hafi í sér að ALMC seldi stórt og mikið eignasafn til Anchorage. Í því eignasafni hafi ALMC selt hluti LSRH í LS Retail þótt ALMC ætti ekki félagið. Frá sjónarmiði ALMC og Anchorage hafi LS Retail í eignapakkanum verið metið á 17,6 milljónir evra, en engu máli hafi skipt á hvaða verði LS Retail væri metið því seldur hafi verið heildareignapakki. Áður hafi verið slitið viðræðum um greiðslu á tæpum 40 milljón evrum fyrir félagið LS Retail og hafi bindandi tilboð verið lagt fram um 30 milljónir evra, en því verið hafnað af stjórnarformanni ALMC með þeim orðum að 32 milljónir evra væri lágmark. Það sé óráðvandlegt athæfi að taka ekki tilboði upp á 37,5 milljónir evra, 30 milljónir evra eða 24,9 milljónir evra en selja síðan á 17.638.600 evrur.

Til þess að ALMC gæti efnt samning sinn við Anchorage hafi félagið þurft að útvega hlutina í LS Retail og brugðið hafi verið á það ráð að halda hluthafafund í LSRH í því skyni. Á þeim fundi hafi blekkingum verið beitt og látið að því liggja að um væri að ræða samning milli LSRH og Anchorage þótt svo hafi ekki verið. Samningurinn hafi verið milli ALMC og Anchorage og aðilar komið sér saman um hvers virði LS Retail væri í heildarpakkanum. Verð annarra eigna hafi orðið því hærra sem undirverðinu nam. Ávinningur ALMC af undirverðlagningunni hafi verið sá að félagið hafi getað sölsað undir sig hluta af virði kauprétta stefnenda. Á sama tíma hafi það getað notað LS Retail til að liðka fyrir sölu annarra eigna.

Stefndu hafi bakað sér ábyrgð vegna brota á 70. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og 76. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 með framangreindu athæfi. Stefndu, stjórnarmenn ALMC, beri ábyrgð á grundvelli 134. gr. hlutafélagalaga og á grundvelli almennu skaðabótareglunnar. Þeir hafi með ólögmætum hætti í skilningi 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 staðið að því, í krafti yfirburðarstöðu á hluthafafundi, að umtalsverð verðmæti hafi flust úr LSRH í þágu ALMC þannig að LSRH hafi orðið fyrir tjóni en ALMC auðgast að sama skapi. Ekki þurfi í málinu að taka afstöðu til refsinæmis, aðeins ólögmætisins. Verði ekki talið að 249. gr. almennra hegningarlaga eigi við sé byggt á 248. gr. sömu laga. Að auki sé byggt á þeirri almennu reglu íslensks réttar að óheimilt sé að ganga á eignarrétt annarra með misnotkun á aðstöðu með þeim hætti sem hér sé lýst. ALMC hafi í raun endurselt LS Retail hærra verði í samningum sínum við Anchorage þótt það hafi verið falið inni í heildarverði fyrir allan eignapakkann. Það séu sjónhverfingar, sem ætlað sé að fela slóðina, að stilla verði LS Retail í fjárhæðinni 17.638.600 evra, en öðrum eignum hærra verði í staðinn. Daniel sé framkvæmdastjóri ALMC og hafi hann mætt á hluthafafundinn og framkvæmt hinn ólögmæta gerning, þrátt fyrir ólögmæti hans. Hann beri því ábyrgð á sama grunni og stjórnarmenn.

Stefndu stjórnarmenn LSRH hefðu ekki mátt framfylgja ákvörðun hluthafafundar sem þau vissu, en ella máttu vita, að færi gegn hagsmunum félagsins, sbr. 51. gr. laga um einkahlutafélög. Þau hafi engu að síður kosið að framkvæma gerninginn þótt ekki hefðu legið fyrir neinir samningar milli LSRH og Anchorage og þótt kaupverðið væri um 20 milljónum evra lægra en hægt hefði verið að selja félagið á. Virði félagsins hafi aukist verulega fyrstu fjóra mánuði ársins 2015 og stefndu hefðu mátt vænta þess að það væri orðið töluvert verðmeira en 40 milljónir evra 27. apríl 2015. Beri stefndu, stjórnarmenn LSRH, því ábyrgð á grundvelli 108. gr. laga um einkahlutafélög. Þau beri einnig ábyrgð á grundvelli almennu skaðabótareglunnar enda hafi þau tekið þátt í því athæfi ALMC sem stefnendur lýsi. Að auki varði það ábyrgð samkvæmt almennu skaðabótareglunni að leyfa stjórnendum ALMC að vera skuggastjórnendur LSRH.

Stefnendur lýsi efnislegum rétti sínum samkvæmt kaupréttarsamningum o.fl. í stefnu málsins. Stefndu séu ekki persónulega aðilar að þeim samningum og sé þeim ekki stefnt á þeim grunni heldur sökum þess að skaðabótaskyld háttsemi þeirra hafi valdið því að sá réttur sem stefnendur hafi átt samkvæmt þessum löggerningum hafi skerst eða farið forgörðum. Stefnendur byggi á almennum skaðabótareglum utan samninga, einkum sakareglunni, svo og lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994, lögum um hlutafélög nr. 2/1995, almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefndu Andrew Sylvain Bernhardt, Christopher M. Perrin, Óttars Pálssonar og Robert Daniel Svanström, fyrir kröfu um frávísun

Stefndu mótmæli því að mál þetta sé tækt til efnismeðferðar. Krafa um frávísun byggist einkum á þremur atriðum. Í fyrsta lagi að stefnendur skorti lögvarða hagsmuni af málshöfðun, í öðru lagi að skilyrði samlagsaðildar til varnar skorti, og í þriðja lagi að málatilbúnaður stefnenda fullnægi ekki lágmarkskröfum laga nr. 91/1991.

Óhugsandi sé að kröfur stefnenda gegn stjórnendum ALMC geti náð fram að ganga nema stefnendur hafi áður fengið viðurkennt við gerðarmeðferð að ALMC hafi brotið rétt gegn stefnendum. Hugsanlegar kröfur stefnenda á ALMC sem eigi heima fyrir gerðardómi, sbr. dóm Hæstaréttar 16. sept. 2016, og kröfur stefnenda hér séu einfaldlega samslungnar og nátengdar. Enginn grundvöllur geti því verið fyrir áframhaldandi meðferð máls meðan niðurstaða gerðardóms liggur ekki fyrir. Óhjákvæmilegt sé því að vísa málinu frá dómi, sbr. t.d. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 6. maí 2016, mál nr. 247/2016, um hliðstætt sakarefni.

Það sé ófrávíkjanleg forsenda kröfugerðar stefnenda að þeir geti af kaupréttarsamningum sínum við LSRH leitt einhvers konar réttindi á hendur ALMC og LSRH. Ekkert liggi fyrir um að stefnendum sé þetta unnt og sé niðurstaða um það alfarið í höndum gerðardóms. Málatilbúnaður stefnenda um að kröfugerð þeirra byggi ekki á kaupréttarsamningunum sé fjarstæðukenndur. Stefnendur hafi aldrei orðið hluthafar og án kaupréttarsamninganna sé staða þeirra einskorðuð við að vera starfsmenn LS Retail. Sem slíkir eigi þeir engan rétt til afskipta af eða lögvarða hagsmuni af þeim ákvörðunum sem þeir þó beini spjótum sínum að.

Krafa til viðurkenningar á skaðabótaskyldu heyri aðeins undir lögsögu dómstóla þegar stefnandi geti gert líklegt að hin meinta skaðabótaskylda háttsemi hafi valdið honum tjóni. Engu slíku sé til að dreifa hér. Stefnendur skorti því alfarið lögvarða hagsmuni af meðferð málsins. Engu breyti um þennan skort lögvarinna hagsmuna stefnenda hverjar verði lyktir gerðarmálsins. Verði niðurstaða gerðardóms sú að stefnendur eigi engan rétt gagnvart LSRH og ALMC þá hafi ekkert tjón orðið og engir lögvarðir hagsmunir séu til staðar. Hið eina sem stjórnendur ALMC hefðu þá gert væri að hafa lagt sitt til málanna svo ALMC héldi fram árangursríkum vörnum fyrir gerðardómi. Málshöfðun á þeim grundvelli að sú háttsemi stjórnendanna teldist ólögmæt og saknæm og hefði valdið tjóni ætti ekkert erindi fyrir almenna dómstóla. Stefnendur reifi málið ekki heldur með þessum hætti. Verði niðurstaða gerðardóms stefnendum hagstæð um hugsanlegar kröfur þeirra gegn ALMC séu engar líkur að því leiddar í stefnu málsins að ALMC, eða þá LSRH, muni reynast ófært til greiðslu dómkrafna. Staðan sé því sú að jafnvel þótt stefnendur ynnu gerðarmál sem þeir kynnu að höfða gegn ALMC, þá hafi þeir engar líkur leitt að því að þeir fengju ekki fullnustu krafna sinna. Hvergi sé vikið að því í stefnu að einhver hætta sé á slíku. Reyndar hafi stefnendur ekki gert dómkröfur gegn ALMC fyrir gerðardómi.

Til þess að stefnendur geti haft lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins þurfi fyrst að liggja fyrir niðurstaða gerðardóms og kröfugerð í síðara máli þurfi að samrýmast henni. Málsókn stefnenda nú sé því með öllu ótímabær, sbr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Búist stefnendur við að tapa óhöfðuðu máli sínu gegn ALMC fyrir gerðardómi og sjái sig af þeim sökum knúna, fyrir fram, til höfðunar máls fyrir almennum dómstólum, þá geti þeir ekki, um þá fjallabaksleið sem þeir velji hér, komist fram hjá lagaákvæðum sem mæli fyrir um hvernig megi ógilda gerðardóma, sbr. m.a. 12. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma.

Ekki verði af stefnu málsins ráðið á hvaða grundvelli stefndu sé stefnt í sama málinu. Vegna þessa verði, með vísan til d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, að vísa málinu frá dómi. Samaðild samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 komi undir engum kringumstæðum til greina. Skilyrðum 1. mgr. 19. gr. laganna um samlagsaðild sé heldur ekki fullnægt. Ákvarðanir stjórna LSRH og ALMC séu teknar á mismunandi fundum og ákvörðun um sölu LS Retail tekin á enn öðrum fundi, þ.e. hluthafafundi í LSRH. Trúnaðarskylda framkvæmdastjóra og stjórna LSRH og ALMC sé gagnvart mismunandi hluthöfum og ákvarðanataka einnar stjórnar verði ekki lögð að jöfnu við ákvarðanatöku hinnar. Stefnendur byggi svo mál sitt hver á sínum löggerningnum. Aðild málsins, bæði til sóknar og varnar, sé ekki að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, svo sem ákvæði 19. gr. laga um meðferð einkamála áskilji.

Málsástæður og lagarök stefndu Birnu Hlínar Káradóttur, Brynjars Þórs Hreinssonar og Gísla Vals Guðjónssonar, fyrir kröfu um frávísun

Stefnendur hafi ekki nýtt þá kauprétti, sem þeim hafi verið veittir, innan þeirra tímamarka sem um þá hafi gilt. Kaupréttirnir séu því niður fallnir. Stefnendur hvorki séu né verði hluthafar í LSRH og hafi aldrei notið réttinda sem slíkir, að því frátöldu sem varði kauprétt stefnanda Aðalsteins og riftun á kaupum hans á hlutum í LSRH.

Í kjölfar frávísunardóma Hæstaréttar hafi stefnendur óskað eftir skipun gerðarmanns til að leysa úr ágreiningi aðila. Stefnendur hafi höfðað mál á hendur LSRH fyrir gerðardómi, þar sem mál bíði úrlausnar um meintan kauprétt þeirra. Stefnendur hafi hins vegar ekki höfðað skaðabótamál á hendur LSRH fyrir gerðardómi. Á meðan svo standi á séu engin efni eða heimildir fyrir stefnendur að höfða mál þetta á hendur stefndu fyrir almennum dómstólum.

Hugsanlegur ágreiningur stefnenda við LSRH eigi undir gerðardóm. Ágreiningsefni máls þessa sé samofið hugsanlegum ágreiningi stefnenda við LSRH, svo mjög að enginn grundvöllur sé fyrir því að reka mál þetta á meðan niðurstaða gerðardóms um þann ágreining liggur ekki fyrir. Stefnendur geti ekki haft uppi kröfu um viðurkenningu skaðabótaskyldu nema líkur séu leiddar að því að þeir hafi orðið fyrir tjóni. Ekkert slíkt liggi fyrir í málinu, en niðurstaða þar um myndi leiða af endanlegri niðurstöðu gerðardóms. Stefnendur eigi því ekki lögvarða hagsmuni í máli þessu.  Með ótímabærri málshöfðun sinni nú séu stefnendur auk þess að bjóða heim hættunni á ósamrýmanlegri málsmeðferð, ályktunum og niðurstöðum milli almennra dómstóla og gerðardóms.

Vanreifað sé hver sé orsök ætlaðs tjóns og jafnframt hvert fjárhagslegt tjón þeirra sé.  Ekki sé heimilt að krefjast viðurkenningardóms við þær aðstæður, sbr. meðal annars 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Stefnendur virðist byggja á því að stefndu hafi brotið gegn skyldum sínum sem stjórnarmenn í félagi. Stefnendur hafi hins vegar ekki gert tilraun til að skýra hvaða hagsmuni þeir hafi af úrlausninni. Erfitt sé fyrir stefndu að taka til varna við slíkar aðstæður. Auk þess sé lögð fram matsgerð sem aflað hafi verið undir rekstri gerðardómsmáls vegna kaupréttarsamninganna. Stefnendur hafi ekki rökstutt hvernig sú matsgerð eigi að hafa þýðingu fyrir málatilbúnað stefnenda í þessu máli. Málatilbúnaður stefnenda sé þannig vanreifaður, haldinn verulegum annmörkum og fullnægi ekki þeim kröfum, sem gerðar séu í 95. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og 1. mgr. 80. gr. laganna. 

Ekki verði skýrlega ráðið af kröfugerð stefnenda hvort þau byggi á samaðild samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 eða samlagsaðild samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laganna. Kröfugerðin sé sett fram líkt og um skyldubundna samaðild sé að ræða enda sé ekki gerð sjálfstæð krafa á hendur stefndu, líkt og skylt væri sé nýtt heimild til að viðhafa aðilasamlag, sbr. einkum Hrd. 294/2005. Dómkröfur stefnenda séu því ekki dómtækar og verði að vísa þeim frá dómi. Þá séu skilyrði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um samlagsaðild til varnar í málinu ekki uppfyllt, en um það beri stefnendur sönnunarbyrði. Kröfur stefnenda á hendur þessum stefndu annars vegar og stjórnendum ALMC hins vegar byggi á ólíkum atvikum, aðstöðu og löggerningum.

Kröfur stefnenda byggi einnig á mismunandi ákvörðunum og löggerningum, þó að svipaðir séu, sem gerðir séu á mismunandi tímum. Hver og einn stefnandi hafi gert sérstakan kaupréttarsamning. Ákvæði 1. mgr. 19. gr. heimili ekki samlagsaðild til sóknar við þessar aðstæður. Því hafi verið lýst yfir við stefnanda Aðalstein að kaupréttur hans sé ógildur og verði ekki nýttur og njóti hann því einskis kaupréttar. Aðstæður stefnenda séu ólíkar og „sama atvik, aðstaða eða löggerningur“ séu ekki fyrir hendi. Hið sama gildi um kröfusamlag, en skilyrði fyrir því séu af sömu ástæðum ekki uppfyllt í málinu, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991. Kröfur stefnenda byggi á ólíkum atvikum, aðstöðu og löggerningum og engin heimild sé til að hafa þær uppi í sama máli, en stefnendur beri sönnunarbyrði fyrir hinu gagnstæða. Vegna þessa verði að vísa málinu frá dómi, sbr. meðal annars ákvæði d- og e- liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndu byggi á almennum óskráðum reglum samningaréttar og kröfuréttar um skuldbindingargildi og efndir samninga. Einnig byggi þeir á almennum reglum hlutafélagaréttar og skaðabótaréttar um ábyrgð stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og almennum reglum skaðabótaréttar um orsakatengsl og sennilega afleiðingu. Byggt sé á almennum reglum íslensks réttar um gerðardóma og reglum einkamálaréttarfars um afsal á rétti til að bera mál undir almenna dómstóla, sbr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vísað sé til laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma, einkum til 1. og 2. gr. laganna, og til 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Einnig sé vísað til 1. mgr. 80. gr. sömu laga, einkum til d-, e- og g-liða, 95. gr. laganna og til almennra reglna einkamálaréttarfars, en stefndu telji skorta á skýrleika í málatilbúnaði stefnenda. Málskostnaðarkrafa stefndu eigi sér stoð í 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Stefnendur voru öll starfsmenn LS Retail, sem var dótturfélag eignarhaldsfélagsins LSRH og eina eign þess, en tilgangur þessa eignarhaldsfélags, samkvæmt samþykktum þess er eignarhald, meðferð og sala hluta í LS Retail. Í lok árs 2010 gerðu stefnendur kaupréttarsamninga við LSRH, sem þá var að fullu í eigu félagsins ALMC. Mun þá hafa verið ráð fyrir því gert að kaupréttirnir yrðu virkir m.a. við sölu félagsins LS Retail. Samkvæmt því sem greinir í gögnum málsins er ágreiningur fyrir hendi um umrædda kauprétti og uppgjör á grundvelli þeirra og á sá ágreiningur rætur að rekja til réttinda og skyldna aðila samkvæmt þessum samningum og hluthafasamkomulagi sem þeim fylgdi og félagið ALCM tengist.

Í dómi Hæstaréttar 16. september 2016 í máli nr. 428/2016, um fyrrgreinda samninga, segir m.a. að svo sem rakið sé í dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2016 í málum nr. E-2785/2015 og E-3170/2015, sem staðfestir voru með vísun til forsendna þeirra í dómum Hæstaréttar 6. maí 2016 í málum nr. 246/2016 og nr. 247/2016, eigi ágreiningur sem rekja megi til réttinda og skyldna aðila samkvæmt kaupréttarsamningunum og hluthafasamningnum undir lögsögu gerðardóms samkvæmt nánari ákvæðum samninganna þar um. Af þessari ástæðu var málum, m.a. á hendur stefndu í þessu máli, vísað frá dómi. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 247/2016 var m.a. staðfest að vísað var frá héraðsdómi kröfum réttargæslustefnda sem beindust að félögunum ALMC og LSRH. Í forsendum héraðsdómsins sem vísað var til segir svo um kröfur á hendur stefndu í þessu máli, að jafnframt verði að telja að grundvöllur málatilbúnaðar gagnvart öðrum stefndu sé brostinn þar sem dómkröfur á hendur þeim séu ýmist nátengdar kröfum á hendur félögunum eða hafðar uppi samhliða kröfu á hendur öðrum þeirra. Því verði ekki hjá því komist að vísa kröfum á hendur öðrum stefndu, þ.e. stefndu í máli þessu, einnig frá dómi.

Gerðarmaður samkvæmt samningum þessum er nú að störfum og er mál um þessi viðskipti og tengdan ágreining til meðferðar fyrir gerðardómi þar sem stefnendur m.a. krefjast greiðslu af söluverði hluta í LS Retail á grundvelli kauréttarsamninga. Byggja stefnendur málsókn sína í þessu máli að nokkru á sönnunarfærslu um atvik sem nú stendur yfir fyrir gerðardómi með skýrslutökum og matsvinnu. Taka verður undir það með stefndu að málatilbúnaður stefnenda er ekki svo skýr sem skyldi um umfang þess tjóns sem kröfugerðinni er ætlað að ná til. Krafist er viðurkenningar á bótaskyldu stefndu vegna tjóns stefnenda af framsali hluta gegn tilteknu verði í framhaldi af tilteknum hluthafafundi. Ekki er ljóst hvort dómkrafan eins og hún er fram sett eigi að ná til ógreidds andvirðis af sölu hluta á því verði sem þar var samþykkt og stefnendur krefjast greiðslu á fyrir gerðardómi og auk þess hærra verði því til viðbótar eða hvort hún eigi aðeins að taka til mismunar af þessu tvennu. Af rökstuðningi í stefnu verður helst ráðið að krafist sé viðurkenningar á bótaskyldu vegna tjóns sem hljótist af mismun á fjárhæð á grundvelli söluverðs hlutanna og ætlaðs markaðsvirðis þeirra hluta, sem verið hafi hærra en söluverðinu hafi numið. Réttmæt krafa til greiðslu af söluverði hlutanna hlýtur að vera nauðsynleg forsenda fyrir bótakröfu vegna meints hærra markaðsvirðis. Meðan enn er óleyst úr þeim ágreiningi hvort stefnendur eigi rétt til greiðslna á grundvelli kaupréttarsamninga sinna, sem til meðferðar er fyrir gerðardómi og verður að svo komnu ekki leyst úr á öðrum vettvangi, er ekki unnt að taka afstöðu til þess hér fyrir dómi hvort stefnendur eigi rétt til greiðslu á grundvelli þessara samninga, en á slíkum rétti verður bótaréttur vegna ætlaðs tjóns þeirra að byggja eins og atvikum er háttað.

Svo sem stefndu færa rök fyrir er erfitt að greina í hverju tjón stefnenda sé eða verði falið meðan ágreiningurinn sem til meðferðar er fyrir gerðardómi er óleystur. Í málatilbúnaði stefnenda í máli þessu er lögð á það áhersla að kröfur þeirra byggi ekki á kaupréttarsamningum þeim sem þegar gengnir dómar Hæstaréttar hafa staðfest að eigi efnislega undir úrlausn gerðardóms. Dómkrafa stefnenda um viðurkenningu á bótaskyldu stefndu er engu að síður á því byggð að efnislegur réttur sem þeir hafi átt samkvæmt kaupréttarsamningum hafi farið forgörðum vegna saknæmrar háttsemi stefndu. Í því sé tjón þeirra falið. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að leita dóms um viðurkenningu á skaðabótaskyldu, eins og stefnendur gera í máli þessu. Sú heimild er þó háð þeim skilyrðum að sá sem höfðar mál færi nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni af tilteknu tilefni og geri grein fyrir því í hverju það tjón felist og tengslum þess við málsatvik.

Í stefnu segir m.a. að tilgangur málshöfðunarinnar sé að fá viðurkennt með dómi að ALMC hafi í gegnum stjórnir ALMC og LSRH knúið í gegn ólögmæta ákvörðun um sölu LS Retail til þriðja aðila. Þó að nokkur grein sé gerð fyrir meintri bótaskyldri háttsemi stefndu í málatilbúnaði stefnenda er viðurkenningarkrafan um bótaskyldu stefndu sem hér er til úrlausnar óljós um það tjón sem stefnendur hafi orðið fyrir og um grundvöll og umfang slíks tjóns. Af gögnum málsins og stöðu tengdra mála fyrir gerðardómi verður ekki annað ráðið en að það komi fyrst í ljós að niðurstöðu gerðardóms fenginni hvort stefnendur hafi orðið fyrir tjóni og í hverju það felist. Að tjóni stefnenda eru því ekki leiddar nægilegar líkur í skilningi 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 til þess að fullnægt sé skilyrðum ákvæðisins um lögvarða hagsmuni af úrlausn máls eins og það hefur verið skýrt í dómaframkvæmd. Við svo búið hefur ekki verið gerð sú grein fyrir tjóni stefnenda að dómur verði lagður á viðurkenningarkröfu um bótaskyldu stefndu.

Staðfest hefur verið í fyrirliggjandi dómsúrlausnum Hæstaréttar að efnislegur ágreiningur samkvæmt umræddum kaupréttarsamningum eigi undir gerðardóm og verði því ekki borinn undir almenna dómstóla. Kröfur stefnenda á hendur stefndu þykja svo samtvinnaðar úrlausn þess máls að ógerlegt er að leyst verði úr dómkröfum stefnenda hér fyrir dómi meðan málið er óleyst fyrir gerðardómi. Stendur að því leyti eins á í þessu máli og vísað var til í dómi Hæstaréttar í máli nr. 247/2016 og leiddi til frávísunar málsins frá héraðsdómi. Verður að öllu framangreindu virtu ekki fallist á það með stefnendum að unnt sé að leysa úr sakarefni máls þessa, eins og það er úr garði gert, án tillits til málsmeðferðar fyrir gerðardómi og úrslitum þess máls.

Þegar af framangreindum ástæðum þykir óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá dómi. Annmarkar á málatilbúnaði stefnenda, sem stefndu telja fara í bága við 1. mgr. 80. gr. og 95. gr. laga um meðferð einkamála og varða reifun máls og rökstuðning má rekja til þess að grundvöll brestur fyrir málsókninni eins og hún er úr gerði gerð og leiðir það til sömu niðurstöðu um frávísun málsins. Þarf þá ekki að fjalla frekar um álitaefni um aðild málsins og breytingar sem stefnendur hafa kynnt að þeir vilji gera á kröfugerð vegna samlagsaðildar sinnar þannig að gerðar séu kröfur á hendur stefndu fyrir hvern stefnenda um sig.

Samkvæmt þessari niðurstöðu og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnendum gert að greiða stefndu sameiginlega óskipt í málskostnað 400.00 krónur.

Úrskurðinn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

Ú r k u r ð a r o r ð:

Máli þessu er vísað frá dómi. Stefnendur greiði stefndu óskipt í málskostnað, 400.000 krónur.                                                                                                                                                                                                                              Kristrún Kristinsdóttir