• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot
  • Vörslur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2019 í máli nr. S-638/2018:

Ákæruvaldið

(Margrét Herdís Jónsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Steinari Þór Stefánssyni

(Jóhannes Albert Kristbjörnsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var þann 19. desember sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglu­stjóranum á höfuðborgarsvæðinu 27. nóvember 2018, á hendur Steinari Þór Stefánssyni, kt. [...],[...], Reykjanesbæ, fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot árið 2017 með því að hafa:

 

1.      Föstudaginn 21. apríl, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti, austur Borgartún í Reykjavík þar sem lögregla hafði afskipti af honum.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

2.      Miðvikudaginn 28. júní, ekið bifreiðinni [...],, sviptur ökurétti, um Vesturlandsveg við Höfðabakka í Reykjavík þar sem lögregla hafði afskipti af honum.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

3.      Fimmtudaginn 9. nóvember, ekið bifreiðinni [...],, sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 510 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 6,7 ng/ml), á bifreiðastæði við Sprengisand, Bústaðavegi, í Reykjavík þar sem lögregla hafði afskipti af honum og á sama tíma haft í vörslum sínum 248 grömm af amfetamíni, 4,09 grömm af maríjúana, 0,47 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni og 3 millilítra af anabólískum sterum, sem lögregla fann við leit í bifreiðinni [...], og lagði hald á, og haft í vörslum sínum 0,13 grömm af amfetamíni sem lögregla fann við leit á heimili hans að [...], Reykjanesbæ, og lagði hald á.

 

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Jafnframt er þess krafist að ákærði sæti upptöku á 248 grömmum af amfetamíni, 4,09 grömmum af maríjúana og 0,47 grömmum af tóbaksblönduðu kannabisefni samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974.

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 24. október 2018, hefur ákærða átta sinnum verið gert að sæta fangelsisrefsingu frá árinu 2004, fyrst og fremst fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot. Við ákvörðun refsingar hér verður því við það miðað að ákærði hafi nú gerst sekur um að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna í þriðja sinn og sviptur ökurétti í sjöunda sinn. Á hinn bóginn ber jafnframt að líta til þess að ákærði hefur gengist greiðlega við brotum sínum og verður það virt honum til málsbóta.

Með hliðsjón af framangreindu, sakarefni þessa máls, sem og dómvenju og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Ekki þykja efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru er áréttuð ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dóms þessa að telja. Þá er jafnframt með vísan til lagaákvæða í ákæru gert upptækt til ríkissjóðs 248 grömm af amfetamíni, 4,09 grömm af marijúana og 0,47 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Alberts Kristbjörnssonar lögmanns, 170.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 144.398 krónur í annan sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Margrét Herdís Jónsdóttir saksóknarfulltrúi.

Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð:

            Ákærði, Steinar Þór Stefánsson, sæti fangelsi í 10 mánuði.

            Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dóms þessa að telja.

            Upptækt er gert til ríkissjóðs 248 grömm af amfetamíni, 4,09 grömm af maríjúana og 0,47 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Alberts Kristbjörnssonar lögmanns, 170.000 krónur og 144.398 krónur í annan sakarkostnað.

 

Þórhildur Líndal