• Lykilorð:
  • Aðför
  • Kyrrsetning
  • Skattar
  • Tekjuskattur

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Héraðsdóms Reykjavíkur, fimmtudaginn 16. maí 2019 í máli nr. K-2/2019:

 

A

(Bernhard Bogason lögmaður)

gegn

Ríkisskattstjóra

(Jóhanna Lára Guðbrandsdóttir lögmaður)

 

Mál þetta hófst með kröfuskjali sóknaraðila frá 7. mars sl. sem barst dómnum sama dag. Sóknaraðili er A, […], […] […], og til varnar er Ríkisskattstjóri, Laugavegi 166, 101 Reykjavík, í samræmi við lög nr. 142/2018 þar sem embættið tók við þessu hlutverki af Tollstjóra. Málið var tekið til úrskurðar eftir munnlegan málflutning fimmtudaginn 9. maí sl.

 

Sóknaraðili krefst þess að kyrrsetningargerð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, nr. 2018-[…], sem fram fór hjá sóknaraðila þann […]. […] 2018 að kröfu Tollstjóra, verði felld úr gildi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Til vara er þess krafist að fjárhæð kyrrsetningar hjá sóknaraðila verði lækkuð verulega. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu.

 

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað.

 

I.        Málsatvik

 

Rannsókn á skattskilum sóknaraðila vegna tekjuáranna 2010 til og með 2015 hófst með tilkynningu til sóknaraðila af hálfu embættis skattrannsóknarstjóra ríkisins (SRS) […]. september 2016. Henni lauk formlega, að sögn sóknaraðila, […]. október 2018, en samkvæmt varnaraðila gerðist það hins vegar ekki fyrr en með tilkynningu dagsettri […]. nóvember 2018 til sóknaraðila um lok rannsóknar.       

Niðurstaða rannsóknarinnar varð sú að SRS telur sóknaraðila hafa vanframtalið tekjur vegna greiðslna inn á bankareikning hans frá fyrirtækinu […], á gjaldárunum 2010 til og með 2015. Umræddar greiðslur til sóknaraðila frá […] námu, að sögn sóknaraðila, samtals 200.000 evrum.    

 

Að sögn sóknaraðila mun þarna hafa verið um að ræða annars vegar endurgreiðslu á láni sóknaraðila til […], að fjárhæð 192.000 evrur, sem sóknaraðili hafi veitt félaginu á árinu 2006, og hins vegar endurgreiðslu hlutafjár vegna lækkunar hlutafjár/slita félagsins að fjárhæð 8.000 evrur. Dómurinn skilur málatilbúnað sóknaraðila þannig að hann hafi fengið þessi framlög sín endurgreidd, eða samtals 200.000 evrur frá […] á árinu 2016, annars vegar 10.000 evrur 16. maí 2016 og hins vegar 190.000 evrur 2. júní 2016. Málatilbúnaðurinn er þó nokkuð ruglingslegur um þetta atriði, en það skiptir ekki höfuðmáli, sbr. niðurstöðukafla úrskurðarins.   

Um framangreint vísist til dómskjala, annars vegar yfirlits frá […] um inngreiðslur til félagsins og hins vegar staðfestingar B á hlutafé og láni hluthafa í […].       

Með bréfi 7. nóvember 2018 óskaði SRS eftir því við Tollstjórann í Reykjavík að embættið hlutaðist til um að eignir sóknaraðila yrðu kyrrsettar til tryggingar greiðslu væntanlegrar skattkröfu og sektar að fjárhæð 33.200.000 kr., sbr. 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.  

 

Þann 15. nóvember 2018 lagði Tollstjórinn í Reykjavík fram kyrrsetningarbeiðni á hendur sóknaraðila til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar sem krafist var kyrrsetningar á tilteknum eignum til tryggingar væntanlegri kröfu ríkissjóðs að fjárhæð 33.200.000 kr.. Var þess einnig óskað að gerðin færi fram án tafar og að sóknaraðili yrði ekki boðaður til gerðarinnar, með vísun til 4. mgr. 8. gr. laga um kyrrsetningu o.fl. nr. 31/1990, sbr. 21. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.

 

Kyrrsetningarbeiðni Tollstjóra fylgdi útreikningur hans á ætlaðri sekt og skattkröfu, sem þar er sögð 33.200.000 kr., þar af 14.100.000 kr. í tekjuskatt en 19.100.000 kr. í sekt. Sóknaraðili kveður fjárhæðirnar ekki hafa verið rökstuddar á neinn hátt í kyrrsetningarbeiðni tollstjóra eða útreikningi SRS.

 

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu tók beiðnina fyrir þann 16. nóvember 2018 á skráðu lögheimili sóknaraðila í […]. Sóknaraðili hittist ekki fyrir við gerðina, né nokkur sem málstað hans gat tekið, enda hefur hann ekki búið þar um árabil. SRS sendi öll bréf til sóknaraðila, að sögn hans, á heimilisfang hans í Danmörku.            
Gerðinni var fram haldið og var fallist á kyrrsetningarbeiðni Tollstjórans í Reykjavík, sbr. endurrit kyrrsetningargerðar. Að sögn sóknaraðila hafi þetta verið gert þótt sýslumanni hafi verið fullkunnugt að sóknaraðili hefði ekki búið á hinu skráða lögheimili í mörg ár. Þá hafi tilkynning til sóknaraðila um kyrrsetninguna verið send í almennum pósti á það heimilisfang. Varnaraðili mótmælir því að kunnugt hafi verið um búsetu sóknaraðila í Danmörku, en engin ástæða hafi verið til annars en að ætla að hann byggi á skráðu lögheimili.

 

Eftirfarandi eignir sóknaraðila voru kyrrsettar að ábendingu gerðarbeiðanda: 37,5% eignarhluti sóknaraðila í fasteigninni að […], […], fnr. […], fyrir 11.719.813 kr., innstæða á bankareikningi hjá Íslandsbanka nr. […]-14-[…] fyrir samtals 20.318.211 kr. ásamt inneignarvöxtum og loks innstæða á bankareikningi hjá Íslandsbanka nr. […]-14-[…] fyrir samtals 1.161.976 kr. ásamt inneignarvöxtum.

 

SRS mun hafa tilkynnt sóknaraðila um lok rannsóknar með bréfi 29. nóvember 2018. Það bréf var sent á heimilisfang sóknaraðila í Danmörku. Í bréfinu var ekki minnst á að þá hefði þegar farið fram kyrrsetning á eignum sóknaraðila.   

 

II.     Málsástæður og lagarök sóknaraðila

 

Sóknaraðili byggir á því að fjárhæðin sem krafist var kyrrsetningar fyrir, þ.e. áætluð krafa að fjárhæð 33.200.000 kr., sé órökstudd. Hafi varnaraðili með engum hætti rökstutt fjárhæðina, hvorki í kyrrsetningarbeiðni né í útreikningum sem henni fylgdu. SRS hafi heldur ekki rökstutt hina áætluðu fjárhæð. Hann byggir á því að umræddar greiðslur frá […] til hans að fjárhæð 200.000 evrur hafi ekki verið skattskyldar tekjur í skilningi tekjuskattslaga.          

 

Sóknaraðili byggir á því að framangreindar greiðslur frá […] hafi verið annars vegar endurgreiðsla á láni sóknaraðila til […], að fjárhæð 192.000 evrur, sem sóknaraðili veitti félaginu á árinu 2006, og hins vegar endurgreiðsla hlutafjár vegna lækkunar hlutafjár/slita félagsins að fjárhæð 8.000 evrur, eins og fyrr segir. Sóknaraðili hafi greitt  […] samtals 200.000 kr. á árinu 2006.

 

Jafnvel þótt ekki verði fallist á að um endurgreiðslu láns hafi verið að ræða verði ekki hægt að líta svo á að um almennar tekjur sóknaraðila hafi verið að ræða, heldur einvörðungu fjármagnstekjur; tekjur af hlutaeign.            

Hins vegar sé meginatriði málsins að sóknaraðili taldi og telur enn að um endurgreiðslu væri að ræða frá […] en ekki tekjur og geti því ekki verið um saknæma háttsemi að ræða. Saknæmisskilyrðum sé ekki fullnægt. Þar kunni að vera um lögfræðilegt álitamál að ræða en þetta geti aldrei talist stórfellt gáleysi eða ásetningur.   


Sóknaraðili telur jafnframt að meginskilyrði kyrrsetningar samkvæmt 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt hafi ekki verið fyrir hendi.

Heimild til kyrrsetningar samkvæmt 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt byggist á þeim meginskilyrðum að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi sem varði við 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og að hætta sé á að eignum verði skotið undan, þær glatist eða rýrni að mun.
 

Sóknaraðili byggir á því að fyrrtilgreinda skilyrðið í ákvæðinu, að um sé að ræða rökstuddan grun um refsiverða háttsemi samkvæmt 109. gr. laga nr. 90/2003 og 262. gr. almennra hegningarlaga, hafi ekki verið uppfyllt. SRS segi í bréfi sínu til tollstjóra að embættið hafi rökstuddan grun um að meint háttsemi varði við 1. mgr. 262. gr. alm. hgl. en það sé ekki rökstutt með nokkrum hætti. Þá sé fullyrðingin ekki í samræmi við lokaskýrslu SRS sem dagsett sé 26. nóvember 2018 og ekki heldur í samræmi við bréf SRS til sóknaraðila frá 29. nóvember 2018.  

Hvergi í framangreindri lokaskýrslu komi fram að SRS telji að meint háttsemi varði við 1. mgr. 262. gr. alm. hgl. Í bréfinu frá 29. nóvember 2018 segi að meint „háttsemi kann að varða refsingu samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt“ en ekki sé minnst á 1. mgr. 262. gr. alm. hgl.   

Í bréfi SRS, dags. 29. nóvember 2018, sé jafnframt vakin athygli á möguleikanum til að ljúka málinu með sektargerð. Slík málalok komi ekki til greina ef grunur er uppi um brot gegn 1. mgr. 262. gr. alm. hgl. Vísist þar m.a. til útprentunar af heimasíðu SRS um refsimeðferð mála sem hafa verið rannsökuð af embættinu og til 2. mgr. 3. gr. reglna SRS um kyrrsetningu eigna.

 

Af framangreindu verði að telja alveg skýrt að SRS geti ekki hafa haft rökstuddan grun um að hin meinta háttsemi varðaði við 1. mgr. 262. gr. alm. hgl. þegar hann sendi bréf til Tollstjóra 7. nóvember 2018.      

Sóknaraðili byggir á því að síðara skilyrði ákvæðisins hafi ekki heldur verið uppfyllt. Í beiðni SRS frá 7. nóvember 2018, þar sem óskað sé eftir því að Tollstjóri hlutist til um kyrrsetningu á eignum sóknaraðila, hafi ekki á nokkurn hátt verið greint frá því hvað gæfi tilefni til þess að ætla að eignum yrði skotið undan, þær myndu glatast eða rýrna að mun.       

Í kyrrsetningarbeiðni Tollstjóra er rökstuðningi fyrir hættu á undanskoti eigna ábótavant að mati sóknaraðila. Einungis komi fram að sóknaraðili hafi selt tvær fasteignir og þrjár bifreiðar á árinu 2017 og að eignastaða hans hafi af þeim sökum farið versnandi. Tollstjóra beri lögum samkvæmt skylda til að meta sjálfstætt hvort tilefni sé til þess að óska kyrrsetningar. Felist í þeirri skyldu að embættinu beri að rannsaka það hvort nauðsynlegt sé að óska kyrrsetningar og hversu mikið af eignum skuli kyrrsetja. Gera verði þá kröfu að þessari heimild sé beitt varlega og að ekki sé gengið lengra en nauðsyn krefji. Með hliðsjón af því að ætlast sé til að þessari heimild sé beitt af varúð og með hliðsjón af meðalhófsreglunni um að ganga ekki lengra en nauðsynlegt sé verði að telja að Tollstjóra hafi borið að rökstyðja ítarlega hvaða hætta hafi verið á undanskoti eigna.    

Sérstaklega sé vísað til þess að í lögskýringargögnum með lögum nr. 23/2010 sé hnykkt á því að Tollstjóri skuli meta sjálfstætt hvort tilefni sé til að fara með kyrrsetningarbeiðni fyrir sýslumann að fenginni beiðni frá SRS og að kyrrsetning eigna sé íþyngjandi þvingunarúrræði sem beri að beita af sérstakri varúð.         

Eins og áður segir sé í kyrrsetningarbeiðninni vísað til þess að sóknaraðili hafi nýlega selt tvær fasteignir, þ.e. […], og […]. Sóknaraðili byggir á því að þær ráðstafanir eigi sér eðlilegar skýringar og hafi alls ekki verið um undanskot eigna að ræða.      

Fasteignin að […], […], hafi verið seld þar sem sóknaraðili hafi ekki lengur haft not fyrir hana. Hafi fasteignin verið seld fyrir 72.500.000 kr. með kaupsamningi 7. […] 2016. Hafði fasteignin þá verið skráð til sölu í langan tíma. Sölu fasteignarinnar hafi því ekki borið brátt að og henni hafi verið lokið hálfu ári áður en sóknaraðila var tilkynnt um rannsókn SRS á skattskilum hans. Örðugt sé því að sjá með hvaða hætti sóknaraðili hafi verið að skjóta undan eignum með sölu fasteignarinnar. Söluandvirði fasteignarinnar hafi verið ráðstafað inn á bankareikning […]-14-[…] sem nú hafi verið kyrrsettur, en þess beri að geta að hluta söluandvirðisins hafi verið ráðstafað til greiðslu veðskulda sem hvíldu á fasteigninni. Þá skuli því haldið til haga að eignin var í helmingseigu eiginkonu sóknaraðila og hafi því helmingur söluandvirðisins, eðli málsins samkvæmt, runnið til hennar.           

Vegna fasteignarinnar að […] bendir sóknaraðili á að hún hafi verið seld syni hans og tengdadóttur fyrir 28.000.000 kr., sbr. kaupsamning um eignina, dags. 19. […] 2016. Sóknaraðili hafi ekki heldur haft not fyrir þá eign lengur. Hann hafi því selt syni sínum eignina, enda hafi sonurinn haft hana á leigu mánuðina á undan. Eins og sjáist á kaupsamningnum, þá hafi langstærstum hluta söluandvirðisins verið ráðstafað til greiðslu veðskulda sem hvíldu á eigninni. Eftirstöðvar kaupverðsins skyldu greiðast með vaxtalausu láni frá sóknaraðila til sonarins, enda hafi hann viljað styðja við bakið á honum við kaupin. Lán þetta hafi enn ekki verið greitt.

Hvað varði þrjár bifreiðar sem sóknaraðili seldi árið 2016 bendi sóknaraðili á að sala tveggja þeirra hafi átt sér stað áður en að honum var tilkynnt um rannsókn SRS. Allar þrjár bifreiðarnar hafi verið orðnar gamlar og verðlitlar. Hafi sóknaraðili ákveðið að selja þær, enda ekki lengur haft not fyrir þær. Sé fráleitt að halda því fram að um hafi verið að ræða undanskot eigna með sölu þeirra.     

Sóknaraðili byggir jafnframt á því að ekki hafi verið skilyrði til að verða við kröfu um kyrrsetningu eftir að rannsókn SRS lauk þann 5. október 2018. Eftir lok rannsóknarinnar hafi SRS ekki haft lagaheimild til að krefjast kyrrsetningar eða beita öðrum þvingandi rannsóknaraðgerðum.

 

Í bréfi SRS til tollstjóra komi fram að rannsókn standi yfir. Í kyrrsetningarbeiðninni sjálfri sé tekið sérstaklega fram að málið sé til rannsóknar hjá SRS. Þetta sé rangt þar sem rannsókn SRS lauk þann 4. október, eins og fram komi í gögnum málsins.

Þá byggir sóknaraðili sérstaklega á því að fella beri niður kyrrsetningargerðina vegna óforsvaranlegs framgangs málsins. Svo virðist sem SRS sé að reyna að valda sóknaraðila sem mestu tjóni með aðgerðum sínum eða réttara sagt aðgerðaleysi. Eins og fram komi í gögnum málsins hafi rannsókn þess hjá SRS í raun lokið 5. október sl. Rúmlega mánuði síðar hafi SRS farið fram á kyrrsetningu eigna sóknaraðila. Þann 29. nóvember, eða 13 dögum eftir lok kyrrsetningargerðarinnar, hafi SRS svo sent bréf til sóknaraðila um lok rannsóknar en leynt því að kyrrsetning hafði þá þegar verið gerð vegna málsins.           

 

Þann 21. febrúar 2019 hafi SRS upplýst lögmann sóknaraðila um að málið væri enn hjá SRS og hefði ekki verið sent Ríkisskattstjóra til meðferðar til endurákvörðunar skatta. Mjög mikilvægt sé að sá hluti málsins tefjist ekki þar sem RSK rannsaki málið efnislega að nýju og taki afstöðu til þess hvort álit SRS sé rétt í skattalegu tilliti. Það sé óforsvaranlegt að SRS liggi á málinu í marga mánuði og tefji meðferð þess, algerlega án ástæðu.             

Þann 22. febrúar hafi lögmaður sóknaraðila sent SRS bréf og krafist þess að kyrrsetningin yrði felld niður. Því bréfi hafi ekki verið svarað.

 

Samkvæmt framangreindu sé ljóst að SRS beiti mjög alvarlegu þvingunarúrræði en sinni málinu svo af léttúð og kæruleysi og tefji meðferð þess algerlega að óþörfu. Á slíku sleifarlagi þurfi að taka og tryggja að það skaði ekki hagsmuni sóknaraðila umfram það sem eðlilegt geti talist. Beri af þeim sökum að fella niður kyrrsetningargerðina.

 

Í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem hér um ræði telji sóknaraðili rétt að minna á þá skyldu sem hvíli á SRS og öðrum yfirvöldum um hraða málsmeðferð. Sé um að ræða stjórnarskrárvarin réttindi sóknaraðila til að leyst verði úr máli hans innan hæfilegs tíma, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins nr. 33/1944. Þá sé reglan enn fremur lögfest í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og í ákvæðum laga um meðferð sakamála, m.a. um hraða meðferð máls á rannsóknarstigi í 2. mgr. 53. gr. laganna. 

 

Varakrafa um lækkun fjárhæðarinnar byggist einkum á því að útreikningur SRS á væntanlegri sektarfjárhæð sé fjarstæðukenndur og algerlega órökstuddur.

 

Þá byggist varakrafan um lækkun á því að sóknaraðila sé nauðsynlegt að nýta hluta af kyrrsettum fjármunum til að verjast aðgerðum SRS og einnig danskra skattyfirvalda sem standa yfir á sama tíma vegna tengdra mála. Sóknaraðili verði að geta greitt sérfræðingum sem séu að aðstoða hann þóknanir svo hann geti varið sig með eðlilegum hætti.         

 

Krafa sóknaraðila er byggð á 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 53. og 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Um varnarþing vísar sóknaraðili til 49. gr. laga nr. 88/2008.          

Vísað er til 109. gr. og 6.–9. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Þá er vísað til 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Ennfremur er vísað til 53. gr. og 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er vísað til 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála vegna umfjöllunar um hraða málsmeðferð.

 

III.  Málsástæður og lagarök varnaraðila

 

Varnaraðili kveður Skattrannsóknarstjóra ríkisins hafa rökstuddan grun um að sóknaraðili hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi skv. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hvor tveggja með áorðnum breytingum. Nánari lýsing á hinu ætlaða broti komi fram á framlögðum dómskjölum.

 

Skattrannsóknarstjóri ríkisins telji að ætluð skattkrafa og sekt sóknaraðila vegna rangra skattskila muni að lágmarki nema 33.200.000 kr. og hafi því farið fram á að eignir hans verði kyrrsettar til tryggingar greiðslu þeirra.

 

Varnaraðili annist rekstur kyrrsetningarmála vegna rannsókna á brotum á tekjuskattslögum, sbr. 7. mgr. 113. gr. laganna, og sé það mat varnaraðila að nauðsynlegt hafi verið að kyrrsetja eignir sóknaraðila til að koma í veg fyrir undanskot þeirra.

 

Varnaraðili telur og hættu á að eignir sóknaraðila rýrni og að þær verði ekki fyrir hendi við lok rannsóknar þegar álagning skatta og ákvörðun sektar á sér stað. Litið sé til þess að frá því að rannsókn skattrannsóknarstjóra á máli sóknaraðila hófst hefur hann selt skráðar eignir sínar á Íslandi. Fasteignin að […], fnr. […], hafi verið seld með kaupsamningi 19. […] 2016. Þá hafi hann selt bifreiðarnar […], […] og […]. Fasteignin […], fnr. […], hafi verið seld með kaupsamningi sem hafi verið móttekinn til þinglýsingar 11. […] 2016. Eignastaða sóknaraðila hafi þannig versnað og einu aðfararhæfu eignir hans á Íslandi, sem vitað sé um, séu innstæður á bankareikningum sem auðvelt sé að flytja með litlum fyrirvara. Þá gefi skattframtöl sóknaraðila ekki til kynna að hann hafi tekjur sem hann geti greitt fyrirhugaða kröfu með. 

 

Í kröfuskjali til dómsins sé því haldið fram að sóknaraðili hafi flust til Danmerkur þrátt fyrir að hann eigi enn skráð lögheimili á Íslandi. Þá sé til þess að líta að rannsókn skattrannsóknarstjóra hefur beinst að erlendum fjárskiptum sóknaraðila og tengslum hans við félagið […], sem skráð sé á Seychelleseyjum. Sóknaraðili hafi þannig mikil tengsl við útlönd og því sé sérstök hætta á að innheimta muni reynast að mun erfiðari en ella.

 

Varnaraðili telur fullvíst að gerðin hafi farið fram í samræmi við lög. Gerðin hafi farið fram á lögheimili sóknaraðila í samræmi við 3. mgr. 21. gr. l. nr. 90/1989, sbr. 4. mgr. 8. gr. l. nr. 31/1990. Sóknaraðili haldi því ranglega fram að sýslumaður hafi vitað að sóknaraðili hefði ekki búsetu á lögheimili sínu. Það sé rangt. Hvorki sýslumaður né varnaraðili höfðu ástæðu til að ætla annað en að sóknaraðili byggi á skráðu lögheimili. Þá myndi slík vitneskja ekki breyta því að lögmætt hefði verið allt að einu að framkvæma kyrrsetningargerðina á skráðu lögheimili sóknaraðila.

 

Að mati varnaraðila eru skilyrði kyrrsetningar skv. 6. mgr. 113. gr. l. nr. 90/2003 uppfyllt. Skattrannsóknarstjóri hafi sóknaraðila grunaðan um að hafa framið brot sem varðað geti við 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og hafi tilkynnt aðila um það. Í þeirri tilkynningu sé því lýst með almennum hætti hvernig refsimeðferð máls geti lokið og aðila boðið að koma að sjónarmiðum í samræmi við 2. mgr. 35. gr. reglugerðar nr. 373/2001 um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna. Sóknaraðili virðist ranglega byggja á því að þar komi fram sú afstaða að brot hans varði ekki við 262. gr. almennra hegningarlaga. Lestur skjalsins sýni að sú túlkun er röng.

 

Öll skilyrði ákvæði 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt séu því uppfyllt. Hið ætlaða brot varði við 262. gr. almennra hegningarlaga og hætta sé á að eignir sóknaraðila rýrni og verði ekki til reiðu við lok álagningar skatts og sektar.

 

 

IV.  Niðurstaða dómsins

 

Samkvæmt 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt er heimilt, til tryggingar greiðslu væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar í málum er sæta rannsókn hjá Skattrannsóknarstjóra ríkisins, að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðila og öðrum þeim sem rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi samkvæmt 109. gr. sömu laga beinist að, ef hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun, enda megi ætla að meint refsiverð háttsemi varði við 262. gr. almennra hegningarlaga. Fram kom í 7. mgr. 113. gr. laganna að tollstjóri skyldi annast rekstur mála samkvæmt 6. mgr. og skyldi skattrannsóknarstjóri tilkynna tollstjóra um mál þar sem hann teldi að rannsókn hans myndi leiða til þess að skattar skattaðila yrðu hækkaðir eða honum eða öðrum þeim sem grunaðir væru um refsiverða háttsemi samkvæmt 109. gr. sömu laga yrði gerð fésekt. Frá 1. apríl sl. hefur þetta hlutverk verið falið Ríkisskattstjóra í stað Tollstjóra, sbr. 7.  og 48. gr. laga nr. 142/2018, og var því aðild málsins breytt til samræmis við það. Þá kemur fram í sömu málsgrein að um framkvæmd og gildi kyrrsetningar fari sem um kyrrsetningu fjármuna almennt, með þeim undantekningum að tryggingu þurfi ekki að setja, mál þurfi ekki að höfða til staðfestingar á kyrrsetningu og gjöld skuli ekki greiða fyrir ráðstafanirnar. Tekið er fram í 9. mgr. sömu greinar að leggja megi fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti kyrrsetningargerðar með sama hætti og greinir í 2. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála.

 

Ákvæði 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 er sérstök regla um kyrrsetningu sem heimilar yfirvöldum að krefjast kyrrsetningar eigna í afmörkuðum tilvikum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í samræmi við almennar lögskýringarreglur verður að líta svo á að ákvæðið sé sérregla sem gangi framar almennu kyrrsetningarheimildinni í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Það rennir styrkari stoðum undir þessa ályktun að í lokamálslið 7. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 er tekið fram að um „framkvæmd og gildi kyrrsetningar“ en ekki skilyrði kyrrsetningar fari sem um kyrrsetningu fjármuna almennt með þeim undantekningum sem þar greini. Því verður litið svo á að sambærileg sjónarmið eigi við þegar kyrrsetning fer fram samkvæmt ákvæðinu og gilda þegar um kyrrsetningu ræðir samkvæmt 88. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en þar er heimild til kyrrsetningar veitt til að tryggja greiðslu sektar, sakarkostnaðar eða upptöku ávinnings sem aflað hefur verið með broti, sbr. og 9. mgr. 113. gr. sem vísar til laga nr. 88/200. Um þau sjónarmið sem þá gilda má vísa til dóma Hæstaréttar í máli nr. 601/2013 frá 17. september 2013 og í máli nr. 73/2010.

 

-------

 

Fallist er á það, miðað við framlögð gögn málsins, að uppi sé rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi og að hún geti, eins og henni er lýst, varðað við 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kemur þetta og skýrt fram í bréfi skattrannsóknarstjóra til tollstjóra frá 7. nóvember sl., þar sem óskað var atbeina varnaraðila til kyrrsetningar, en þar var jafnframt lýst þeim brotum sem sóknaraðili er grunaður um. Sú krafa verður eðli máls samkvæmt ekki gerð í málum sem þessum að fyrir liggi ótvíræð sönnun um refsiverða háttsemi eða að meint ásetningsstig eða saknæmisstig þess er grunaður er um undanskot hafi hér þýðingu. Enginn dómur verður því felldur hvað þetta varðar eða einhverjar þær ályktanir dregnar á þessum nótum sem komið geta í veg fyrir að gerðin standi. Það athugist þó í þessu sambandi að samkvæmt reglum skattrannsóknarstjóra um kyrrsetningu eigna sem lagðar hafa verið fram í málinu telst brot stórfellt ef meintur undandreginn skattur nemur yfir sjö milljónum króna.

 

-------

 

Málsástæðu sóknaraðila, sem byggð er á því að varnaraðili hafi ekki lagt sjálfstætt mat á það hvort ástæða væri til að krefjast kyrrsetningar en í staðinn byggt einvörðungu á sjónarmiðum skattrannsóknarstjóra, verður að telja haldlausa. Dómurinn telur það eðli máls samkvæmt að þegar varnaraðila berst beiðni sem þessi leggi hann mat á það hvort ástæða sé til að fylgja henni eftir, enda verður að telja ábyrgðina á tjóni sem gerðin gæti valdið sóknaraðila liggja hjá varnaraðila. Ekki verður þannig séð að gerð verði krafa um að varnaraðili rökstyðji það sérstaklega að hann telji nauðsynlegt að óska eftir kyrrsetningu í samræmi við beiðni skattrannsóknarstjóra, ef hann þá ljóslega hefur fallist á að sú beiðni sé réttmæt.

 

Sóknaraðili hefur ekki byggt á því að formreglur hafi verið brotnar við gerðina, a.m.k. ekki byggt á því að form tilkynninga frá sýslumanni eða sendingarháttur eigi að hafa einhverja þýðingu fyrir gerðina og gildi hennar. Athugasemdir hans beinast fyrir og fremst að því að rökstuðning fyrir kröfu skattrannsóknarstjóra, þ.e. fjárhæð hennar, skorti. Eins og lögmaður varnaraðila benti á í málflutningi er krafan byggð á væntanlega umfangsmikilli rannsókn, a.m.k. verður að ganga út frá því að sú rannsókn sé mun umfangsmeiri en birtist í rekstri þessa kyrrsetningarmáls, sem er jú bráðabirgðagerð. Ekki verður fallist á að skilyrði sé að Ríkisskattstjóri hafi endurákvarðað gjöld þegar gerð fari fram eða mjög fljótlega eftir lok gerðar. Kyrrsetning undir þessum kringumstæðum er, sem fyrr, segir bráðabirgðaaðgerð þar sem grundvöllurinn er jafnframt, eðli máls samkvæmt, einhvers konar áætlun til bráðabirgða um þá fjárhæð sem um geti verið að tefla. Um endanlega fjárhæð skattkröfu og eftir atvikum sektar verður ekki skorið úr í máli sem þessu, enda beinlínis gert ráð fyrir því að kyrrsetning fari fram undir rannsókn máls, en ekki eftir lok rannsóknar. Ekki verður í því sambandi fallist á að rannsókn málsins hafi lokið 4. eða 5. október 2016, eins og sóknaraðili byggir á, þ.e. ekki verður getið í eyðurnar með slíkt heldur verður að miða við formlega tilkynningu Skattrannsóknarstjóra um lok rannsóknar, sem send var 29. nóvember, eins og fyrr segir, eftir lok kyrrsetningargerðarinnar. Þá verður ekki séð að það hafi sérstaka þýðingu fyrir sakarefni í þessu ágreiningsmáli þótt hugsanlegt sé að afgreiðsla málsins hafi dregist um of, eins og sóknaraðili heldur fram, eða að skattyfirvöld hafi gert sér sérstakt far um að bregða fæti fyrir sóknaraðila, enda ekkert sem bendir til þess að mati dómsins. Á grundvelli framangreindra sjónarmiða verður því að líta svo á að meint krafa skattyfirvalda sé nægjanlega rökstudd eins og málið er vaxið en athygli vekur að samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila sjálfs snýst krafan um meint lán og framlög hans til félags sem hann síðan fékk, að því er virðist, greidd til baka síðar. Sú fjárhæð sem hann telur þá um að ræða sé 200.000 evrur, eða á gengi dagsins í dag í kringum 27.500.000 krónur, sem er ekki ýkja fjarri þeirri kröfu sem málið varðar án þess reyndar að það skipti höfuðmáli. Um þessar varnir sóknaraðila verður á hinn bóginn ekki fjallað sérstaklega í máli þessu, enda megna þær ekki að hagga gerðinni sem slíkri, auk þess sem þær verður að telja vanreifaðar.

 

-------

 

Það er skilyrði fyrir kyrrsetningu samkvæmt 6. mgr. 113. gr. laga um tekjuskatt að hætta þyki á því, nái kyrrsetning ekki fram að ganga, að eignum verði skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun.

 

Ekki verður fallist á að það dugi í þeim efnum að vísa til þess eins að ef til rannsóknar eru skattalagabrot, skattasniðganga, sé þessi hætta eðli málsins samkvæmt fyrir hendi, eins og varnaraðili hefur að hluta til byggt á. Að aðili sem hafi orðið, að því er virðist, uppvís að skattsvikum sé líklegur til þess að freista þess að koma eignum undan. Ef litið væri svona á væri ákvæðið vafalaust orðað með öðrum hætti, þannig að mat á þessu skilyrði þyrfti ekki til hverju sinni því heimildin í 6. mgr. 113. gr. er enda bundin við skattalagabrot. Þá er það einnig svo að þótt um sé að ræða eignir sem mjög auðveldlega sé hægt að ráðstafa þannig að þær verði ekki til reiðu þegar raunveruleg skattskuld stofnast, þá réttlætir það eitt ekki að mati dómsins að slíkar eignir verði kyrrsettar, þótt svo virðist sem eitthvað sé slegið af kröfum undir slíkum kringumstæðum, sbr. til dæmis orðalag í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 73/2010.

 

Augljóst er þannig að mati dómsins að fram þarf að fara heildstætt mat hverju sinni á því hvort hætta á undanskotum eða rýrnun verðmæta sé fyrir hendi. 

 

Ekki er hægt að segja að stórkostlegar breytinga hafi orðið á eignastöðu sóknaraðila hér á landi undanfarin ár, að því er best verður séð. Slíkar tilfærslur geta því ekki orðið grundvöllur þess að ætla að hætta hafi skapast á undanskotum eða rýrnun eigna. Kaupsamningur um íbúð að […], að verðmæti 28.000.000 kr., var reyndar gerður 19. […] 2016, eða þremur dögum eftir að tilkynning var send um upphaf rannsóknar. Aðrar eignir sem varnaraðili vísar til, þ.e. einbýlishús við […], var þannig selt 7. […] 2016 fyrir 72.500.000 kr., eða fyrir upphaf rannsóknar, sem og tvær bifreiðar af þremur, allt fremur verðlitlar eignir sóknaraðila. Þá liggur fyrir að rúmum tveimur árum eftir að rannsókn hófst voru fyrir hendi eignir í reiðufé inni á bankareikningum, til að tryggja, að því er virðist, kröfu varnaraðila að fullu, þ.e. í samræmi við kröfur hans.

 

Af dómum Hæstaréttar verður á hinn bóginn ráðið að eignatilfærslur fyrir kyrrsetningargerð þurfi ekki til svo að skilyrðinu teljist vera fullnægt. Í fyrrgreindum dómi réttarins í máli nr. 73/2010, sem varðaði reyndar kyrrsetningu á grundvelli 1. mgr. 88. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, var komist að þeirri niðurstöðu að við mat á skilyrðinu yrði litið til eðlis þeirra eigna sem kyrrsettar væru, fjárhæðar þeirrar kröfu sem reynt væri að tryggja og hvort aðrar eignir væru fyrir hendi sem tryggt gætu fullnustu. Í máli nr. 385/2015, sem varðaði einnig kyrrsetningu samkvæmt lögum um meðferð sakamála, þar sem hafnað var afléttingu kyrrsetningar, verður ekki séð að um eignatilfærslur hafi verið að ræða heldur var meint skattkrafa mun hærri en sem nam verðmæti kyrrsettra eigna, þ.á.m. fasteigna. Dómurinn telur ekki óvarlegt að miða við að sömu skilyrði skuli gilda þegar um kyrrsetningu samkvæmt 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 ræðir, sbr. framangreinda umfjöllun.

 

Í máli þessu er meint skattkrafa talin nema 33.200.000 krónum. Kyrrsettar voru bankainnstæður fyrir 21.480.187 kr., og þarf þar ekki mats við, eðli máls samkvæmt, og ekki er gerður ágreiningur um það sem kyrrsett var. Þá verður ekki séð að sóknaraðili geri ágreining um að verðmæti eignarhluta hans í fasteigninni við […], sé í námunda við 11.719.813 kr., eins og varnaraðili miðar við og gengið var út frá við kyrrsetningargerðina. 

 

Þótt svo virðist sem góðar líkur geti staðið til þess að varnaraðili fái lúkningu á því sem hann segir vera lágmarksálagningu og sekt vegna meintra brota sóknaraðila, þá athugist að sóknaraðili hefur ekki bent á aðrar eignir sem tryggt gætu kröfu varnaraðila, heldur þvert á móti heldur því fram að hann þurfi að fá að nýju aðgang að a.m.k. hluta af þessum fjármunum til að standa straum af kostnaði við að verjast kröfum skattyfirvalda bæði hér heima og að sögn í Danmörku þar sem hann nú býr. Sú staðreynd, þ.e. búseta þess sem til skattrannsóknar er á erlendri grundu, hefur á stundum verið talin geta skipt máli við mat á líkum fyrir því að innheimta takist og þar með hvort skilyrði séu fyrir kyrrsetningu eigna, sbr. til dæmis dóm Landsréttar í máli nr. 662/2018. Þá verður gengið út frá því að hinar kyrrsettu eignir séu þess eðlis að mjög auðvelt sé að koma þeim undan ef ásetningur skyldi vakna til slíks. Samkvæmt heildstæðu mati verður því að líta svo á að hætta geti verið á undanskotum eigna eða þá að þær geti rýrnað.

 

-------

 

Með vísan til alls framangreinds telur dómurinn óhjákvæmilegt að líta svo á að fullnægt hafi verið skilyrðum 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt til að fram færi kyrrsetning í eignum sóknaraðila til tryggingar væntanlegri skattkröfu, fésekt og sakarkostnaði sem hlotist geti af téðri rannsókn skattrannsóknarstjóra. Dómurinn telur þá engar þær ástæður verið færðar fram sem geri kleift að fallast á varakröfu sóknaraðila, sem væntanlega yrði þá að einhvers konar álitum, og telur þá kröfu þannig vanreifaða.

 

Verður því ekki hróflað við kyrrsetningu sýslumanns í málinu nr. 2018-[…].

 

Varnaraðili hefur ekki gert kröfu um málskostnað og verður hann ekki úrskurðaður.

 

Bernhard Bogason lögmaður flutti málið fyrir sóknaraðila og Jóhanna Lára Guðbrandsdóttir lögmaður fyrir varnaraðila.

 

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu sóknaraðila, A, þess efnis að kyrrsetningargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í máli nr. 2018-[…], Tollstjóri gegn A, verði felld úr gildi eða henni breytt, er hafnað.

 

Lárentsínus Kristjánsson (sign.)