• Lykilorð:
  • Aðild
  • Skaðabætur
  • Vanreifun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september í máli nr. E-2284/2014:

Víglundur Þorsteinsson

Lindarflöt ehf

(Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

gegn

Arion banka hf.

(Sigurður Guðmundsson lögmaður)

 

       Mál þetta, sem var dómtekið 23. ágúst 2018, var höfðað 16. maí 2014 af Víglundi Þorsteinssyni og Lindarflöt ehf., báðum til heimilis að [...], gegn Arion banka hf., [...].

       Endanlegar dómkröfur stefnenda eru að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda gagnvart stefnendum hvorum fyrir sig vegna þess fjártjóns sem þeir urðu fyrir þegar stefndi kom í veg fyrir fjárhagslega endurskipulagningu BM Vallár hf., 14. maí 2010, sem leiddi til gjaldþrots félagsins 18. maí 2010. Þá krefjast stefnendur hvor fyrir sig málskostnaðar úr hendi stefnda.

       Endanlegar dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda og að þeim verði gert að greiða honum málskostnað.

       Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2018 var málinu vísað frá dómi. Með úrskurði Landsréttar frá 21. júní sama ár í máli nr. 378/2018 var úrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

I

       Stefnendur kveðast vera eigendur alls hlutafjár í BM Vallá hf., en bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 18. maí 2010 og skiptum er ekki lokið. Fyrir liggur að stefnandinn Víglundur Þorsteinsson gegndi starfi framkvæmdastjóra BM Vallár hf. frá árinu 1971 og var jafnframt stjórnarformaður félagins frá 1991. A tók við sem framkvæmdastjóri félagins frá árinu 2002 og gegndi því starfi þar til bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta.

       Í stefnu er því lýst að efnahagshrunið hafi haft mikil áhrif á rekstur og efnahag BM Vallár hf. Hafi langtímaskuldir félagins nærri þrefaldast milli áranna 2007 og 2008, þegar þær hækkuðu úr liðlega 1,8 milljarði króna í rúmlega 5,3 milljarða króna. Þá hafi vörusala félagsins dregist verulega saman samhliða samdrætti í byggingarframkvæmdum. Kaupþing banki hf. var aðalviðskiptabanki BM Vallár hf. og mun hafa verið lánveitandi að um 60% langtímalána félagsins. Þá voru um 30% lána fengin frá B hf. og um 10% frá C hf.

       Í kjölfar setningar laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sem tóku gildi 7. október 2008, var sett skilanefnd yfir Kaupþing banka hf. Kröfur og tryggingaréttindi Kaupþings banka hf. á hendur BM Vallá hf. voru framseld stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. október 2008 sem tekin var með heimild í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Við upphaf árs 2009 hóf úrlausnarhópur á vegum stefnda vinnu við að greina stöðu BM Vallár hf. og rekstrarerfiðleika félagsins. Fyrir liggja tölvupóstsamskipti á milli framkvæmdastjóra BM Vallár hf. og starfsmanns stefnda frá maí 2009. Þar kom fram að félagið myndi greiða 500 milljónir króna af lánum sínum og skyldu greiðslur inntar af hendi 25. hvers mánaðar, fyrst í júní, út árið 2009. Greiða átti umrædda fjármuni inn á tiltekinn reikn­ing í eigu stefnda samkvæmt handveðssamningi frá 29. júní 2009. Ráðið verður af færsluyfirliti reikningsins að BM Vallá hf. hafi einungis greitt stefnda 100 milljónir króna vegna þessa.

       Fyrir liggur að stefndi setti sér í janúar 2009 verklagsreglur um úrlausn á útlánavandamálum fyrirtækja. Fram kemur að reglurnar hafi verið settar vegna sérstakra aðstæðna í efnahagslífinu og tilmæla ríkisstjórnarinnar frá 2. desember 2008 um aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja. Reglurnar voru endurskoðaðar í september sama ár og tók þá önnur útgáfa þeirra gildi. Með lögum nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins var meðal annars gert ráð fyrir því að kröfueigendur settu sér reglur um skuldbreytingar og breytingar á skilmálum skuldabréfa og lánssamninga sem kynnu að leiða til eftirgjafar skulda eða annarra ívilnana fyrir skuldara, sbr. 3. gr. laganna. Samtök fjármálafyrirtækja gáfu út sameiginlegar reglur fjármálafyrirtækja um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, með vísan til 3. gr. laga nr. 107/2009, og voru þær staðfestar af Fjármálaeftirlitinu í mars 2010.

       Í nóvember 2009 lagði BM Vallá hf. fram svonefnda „Endurreisnaráætlun“ sem hafði að geyma tillögur um endur­skipu­lagn­­­ingu félagsins. Var þar meðal annars gert ráð fyrir því að stefndi tæki yfir tilteknar eignir, að lán yrðu afskrifuð að hluta og að leitað yrði samninga við innlenda og erlenda lánardrottna. Tillögunni var hafnað af hálfu stefnda og kveður hann ástæðuna hafa verið þá að tillagan samrýmdist hvorki fyrrgreindum verklagsreglum bankans um lausn á útlánavanda fyrirtækja né reglum Samtaka fjármálafyrirtækja. Stefndi kveður úrlausnarhóp bankans hafa lokið greiningu á BM Vallá hf. í nóvember 2009 og talið stöðu félagsins vera mjög alvarlega. Fulltrúi stefnda og A, þáverandi framkvæmdastjóri félagsins, funduðu 17. nóvember og kom þar fram að stefndi teldi rétt að félagið óskaði eftir greiðslustöðvun, en að á þeim tíma væri bankinn reiðubúinn til að vinna með félaginu til að leita lausnar á vanda þess. Stefndi og C hf. munu hafa samþykkt að fjármagna BM Vallá hf. á meðan á greiðslustöðvun stæði í samstarfi við aðstoðarmann félagsins í greiðslustöðvun.

       BM Vallá hf. óskaði eftir heimild Héraðsdóms Reykjavíkur til greiðslustöðvunar 2. febrúar 2010 og með úrskurði uppkveðnum degi síðar var slík heimild veitt til 24. sama mánaðar. Fundir með helstu kröfuhöfum voru haldnir 8. og 19. febrúar 2010. Á síðari fundinum fór framkvæmdastjóri félagsins yfir fjárhagsstöðu þess og er glærusýning frá þeim fundi á meðal málsgagna. Eftir fundinn tók D, ráðgjafi aðstoðarmanns fél­ags­ins í greiðslu­­­stöðvun, saman greinargerð um stöðu félagsins sem er dagsett 26. febrúar 2010. Fram kom að greinargerðin væri ekki tæmandi og væri um vinnuskjal að ræða. Tekið var fram að greinargerðin væri að „megin hluta til“ byggð á upplýsingum frá stjórnendum BM Vallár hf. og að endanleg útgáfa hefði verið yfirfarin af framkvæmdastjóra félagsins sem hefði ekki gert efnislegar athuga­semd­ir við texta hennar. Í greinargerðinni kom meðal annars fram að í febrúar 2010 hefði eigið fé félagsins verið neikvætt um rúmar 2.900 milljónir króna og að hagnaður fyrir afskriftir og vexti félagsins árið 2009 hefði verið neikvæður um 612 milljónir króna.

       BM Vallá hf. sótti um framlengingu greiðslustöðvunar og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2010 var fallist á framlengingu til 24. mars sama ár. Forsvarsmenn félagsins lögðu í kjölfarið fram nýjar áætlanir um endur­skipu­lagningu þess. Þar var meðal annars gert ráð fyrir því að tilteknar fasteignir yrðu afhentar stefnda og skuldir afskrifaðar í ákveðnum mæli. Þá var ráðgert að félagið gæfi út skulda­bréf að fjárhæð 1.800 til 2.000 milljónir króna sem yrðu seld utanaðkomandi aðilum samkvæmt fjórum mögulegum útfærslum. Þessi tillaga var ekki samþykkt af hálfu stefnda. Á fundi aðila 15. mars 2010 lögðu for­svars­menn BM Vallár hf. fram frekari tillögur að fjár­hags­legri endurskipu­lagningu og var gerð grein fyrir þremur útfærslum. Þessum tillögum var jafnframt hafnað af stefnda.

       Þess var óskað að stefndi og C hf., sem stærstu kröfuhafar BM Vallár hf., samþykktu fram­lengingu greiðslustöðvunar um tvo mánuði, eða til 24. maí 2010. Með bréfi stefnda frá 22. mars 2010 var fallist á framlengingu greiðslustöðvunar gegn því skilyrði að BM Vallá hf. tækist að sölutryggja að minnsta kosti 1.800 milljóna króna skuldabréfaútgáfu innan fjögurra vikna. Tekið var fram að tækist að uppfylla skilyrðið yrði sá tími sem eftir yrði nýttur til að afla frumvarpi að nauðasamningi fylgis. Tækist það ekki væru forsvarsmenn félagsins skuldbundnir til að óska eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu, sem og tengdum félögum eftir því sem við ætti. C hf. hafði áður með bréfi 18. mars 2010 sam­þykkt framlengingu greiðslustöðvunar með frekari skilyrðum sem upp­fylla átti innan fjögurra vikna. Í kjölfarið sótti BM Vallá hf. um framlengingu greiðslu­stöðvunar og var fallist á hana til 24. maí 2010 með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.

       Stefnandinn Víglundur og þáverandi framkvæmdastjóri félagsins leituðu í kjölfarið til fyrirtækisins E hf. sem tók að sér að annast undirbúning skuldabréfaútboðs fyrir BM Vallá hf. Skuldabréfaútboðið var kynnt fyrir ýmsum fagfjárfestum og liggur fyrir kynning sem var útbúin af E hf. Hinn 24. apríl 2010 hafði ekki tekist að fá fjárfesta til að skuldbinda sig til þátttöku í skuldabréfaútboð­inu. Stefndi og C hf. veittu BM Vallá hf. frekari frest til 1. maí til að fullnægja þeim skilyrðum sem sett höfðu verið fram í bréfum bankanna. Ráðið verður af gögnum málsins að þegar sá frestur var á enda hafi ekki tekist að fá fjárfesta til þátttöku í útboðinu.

       Haldinn var fundur með forsvars­mönn­um fél­ags­ins, full­trú­um stefnda, fulltrúum C hf. og aðstoðarmanni félagsins í greiðslu­stöð­vun í höfuðstöðvum stefnda 14. maí 2010. Þar lagði stefnandinn Víg­lundur fram minnis­blað þar sem stöðu félagsins var lýst, gerð var grein fyrir mismunandi viðhorfum fjárfesta til kynningar á skuldabréfaútboði og mikilvægi frekari viðræðna um kjör sem yrðu boðin. Lagt var til að stefndi, C hf. og B hf. styddu beiðni félagsins um heimild til formlegra nauðasamninga sem byggði á greiðslu félagsins á um 30% almennra krafna. Tekið var fram að þessi leið myndi færa lánardrottnum mun betri endurheimtur en gjaldþrot, sem myndi valda verðrýrnun eigna og rofi á verðmætum viðskiptasamningum. Stefndi dró á fundinum til baka stuðning sinn við greiðslustöðvun fél­ags­ins og kom á framfæri þeirri afstöðu sinni að taka bæri félagið til gjaldþrotaskipta.

       Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2010 óskaði stjórn BM Vallár hf. eftir því að bú félagsins yrði tekið til gjald­þrota­skipta með vísan til 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Fram kom í bréfinu að á fundi forsvarsmanna félagsins með fulltrúum stefnda og C hf. 14. maí hefði verið óskað eftir því að félagið fengi heimild til að leggja fram nauðasamningsfrumvarp og freista þess að ljúka skuldabréfaútboði sem unnið hefði verið að. Hefði stefndi hafnað því og krafist þess að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Væri stjórn félagsins því nauðbeygð til að óska eftir því að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta og hefði ákvörðun þess efnis verið tekin á stjórnarfundi. Þann 18. maí 2010 féllst héraðsdómur á beiðni félagsins og var E hæstaréttarlögmaður skipaður skiptastjóri. Skiptum á búi félagsins er ekki lokið.

 

 

 

 

II

Málsástæður stefnenda

Stefnendur byggja aðild sína á því að þeir séu eigendur alls hlutafjár í BM Vallá hf. Því er lýst í stefnu að þegar bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta hafi félagið verið í eigu eignarhaldsfélagsins Plateau de Pierre S.A.R.L. í Lúxemborg, en efnahagslegur eigandi þess verið stefnandinn Lindarflöt ehf. Hafi eignarhaldsfélaginu verið slitið og eignum félagins, þar á meðal hlutunum í BM Vallá hf., verið úthlutað til Lindarflatar ehf. Byggt er á því að í dag eigi Lindarflöt ehf. 99,99% hlutafjár í BM Vallá hf. og stefnandinn Víglundur 0,01%. Sé málið höfðað af stefnendum í sameiningu samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Til stuðnings aðild sinni hafa stefnendur meðal annars vísað til ársreiknings BM Vallár hf. vegna ársins 2008 og yfirlits um fyrirtækið í lánabók Kaupþings banka hf. frá 25. september 2008. Þá hafa stefnendur lagt fram ársreikning stefnandans Lindarflatar ehf. fyrir árið 2015 sem er án endurskoðunar eða könnunar. Þar kemur meðal annars fram að félagið eigi eignarhlut í BM Vallá hf. sem sé metinn á 1000 krónur og sé verðmæti hlutarins óbreytt frá árinu 2014. Jafnframt er vísað til bréfs löggilts endurskoðanda hjá Deloitte frá 17. apríl 2018 þar sem því er lýst að félagið Plateau de Pierre S.A.R.L. hafi verið stofnað í ágúst 2000 af stefnandanum Víglundi um eignarhald á hlutabréfum í BM Vallá hf. Þann 30. nóvember 2007 hafi hann selt stefnandanum Lindarflöt ehf. öll hlutabréf í Plateau de Pierre S.A.R.L. Hafi stefnandinn Víglundur persónulega talið fram á skattframtali sínu hlutabréfin í BM Vallá hf. í samræmi við persónulegan eignarhlut í þeim. Eftir afskráningu Plateau de Pierre S.A.R.L. 7. desember 2010 hafi móðurfélag þess, stefnandinn Lindarflöt ehf., talið fram eignarhluta í BM Vallá hf. Þá er tekið fram í bréfinu að Deloitte sé endurskoðandi beggja stefnenda.

Stefnendur byggja á því að með setningu laga nr. 125/2008 og laga nr. 107/2009 hafi verið settar bindandi reglur um það hvernig staðið skyldi að endurreisn íslensks efnahagslífs í kjölfar bankahrunsins sem reið yfir í október 2008. Hafi öllum borið að virða þessar reglur í samskiptum við skuldara og við uppgjör krafna samkvæmt lánasamningum og skuldabréfum sem höfðu stökkbreyst vegna óðaverðbólgu og gengisfalls íslensku krónunnar. Hafi starfsmenn stefnda, sem stefndi beri húsbóndaábyrgð á, brotið gegn reglum þessara laga og lögum nr. 161/2002 með saknæmum og ólögmætum hætti þegar þeir stóðu í vegi fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu BM Vallár hf. og knúðu stjórn félagsins til að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta á fundi í höfuðstöðvum stefnda 14. maí 2010. Hafi það leitt til fjártjóns fyrir eigendur hlutafjár félagsins þegar úrskurður um að bú félagsins væri tekið til gjaldþrotaskipta var kveðinn upp 18. maí 2010 og eignum félagsins þegar í kjölfarið ráðstafað til stefnda.

Við mat á hinni saknæmu og ólögmætu háttsemi starfsmanna stefnda verði að horfa til þess að Alþingi setti lög nr. 107/2009 til að hraða endurreisn íslensks efnahagslífs í kjölfar bankahrunsins og til að tryggja að jafnvægi kæmist á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindinga einstaklinga og fyrirtækja hins vegar. Hafi það verið meginverkefni nýju bankanna að leiða skuldamál til lykta gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum í kjölfar setningar laganna. Við þá vinnu hafi nýju bönkunum borið að taka mið af þeim varúðarfærslum eða niðurfærslum sem gerðar höfðu verið við flutning útlána frá eldri bönkunum til hinna nýju með stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Komi meðal annars fram í athugasemdum í því frumvarpi sem varð að lögunum að það þjóni ekki tilgangi að halda áfram innheimtu krafna sem í raun séu tapaðar og sé eftirgjöf eða skuldbreyting lána í raun lokahnykkurinn í því skuldaaðlögunarferli sem hafi hafist með setningu neyðarlaganna. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 107/2009 hafi kröfueigendur átt að setja sér reglur um skuldbreytingar á skilmálum skuldabréfa og lánasamninga sem kynnu að leiða til eftirgjafar skulda eða annarra ívilnana fyrir skuldara. Hafi þessar reglur átt að vera aðgengilegar skuldurum og staðfestar af Fjármálaeftirlitinu. Sé stefnendum ekki kunnugt um hvort og þá hvenær stefndi hafi sett sér slíkar reglur, en þær hafi aldrei borið á góma í viðræðum forsvarsmanna BM Vallár hf. við starfsmenn stefnda. Hafi slíkar reglur verið settar hafi starfsmenn stefnda þverbrotið þær, enda hafi kröfur stefnda á hendur félaginu ekki verið skýrar og réttmætar þar sem hluti þeirra hafi verið bundinn ólögmætri gengistryggingu. Hafi því verið með öllu óljóst hver hafi verið hin raunverulega skuld félagsins við stefnda og bankanum borið að gæta ítrustu varúðar við beitingu skuldaskilaúrræða. Þrátt fyrir ætlun löggjafans hafi starfsmenn stefnda ekki gefið því gaum að félagið hefði verið byggt upp af stefnandanum Víglundi, stjórnarformanni félagsins, og syni hans sem hafi búið yfir mikilli reynslu, þekkingu og tengslum á þeim sviðum sem félagið starfaði á.

Stefnendur leggja áherslu á að 19. gr. laga nr. 161/2002 leggi þá skyldu á stefnda að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Geti það aldrei talist í samræmi við slíkt að starfsmenn stefnda taki þátt í því með stjórnvöldum og skilanefnd Kaupþings banka hf. að ákveða hvaða viðskiptavinir stefnda fái samið um skuldir sínar og hverjir ekki, eins og reyndin hafi verið í tilfelli BM Vallár hf. Hafi verið ákveðið að hirða félagið af eigendum þess til að hjálpa skilanefnd Kaupþings banka hf. við að brúa skuldina við stefnda og gera kröfuhöfum bankans mögulegt að komast yfir hlutafé ríkisins í stefnda á ódýran og áhættulausan hátt. Með saknæmri og ólögmætri háttsemi, sem hafi jafnframt falið í sér grófa mismunun, hafi starfsmenn stefnda komið því til leiðar að stefnandinn Víglundur missti fyrirtæki sem hann hefði helgað starfskrafta sína allt frá 1961. Hafi hann og stefnandinn Lindarflöt ehf. orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna aðgerða starfsmanna stefnda og beri stefndi skaðabótaábyrgð á því. Jafnframt er tekið fram að 3. gr. laga nr. 107/2009 feli í sér ólögmætt valdframsal Alþingis til fjármálafyrirtækja sem hafi gert það að verkum að stefndi og önnur fjármálafyrirtæki voru við skuldauppgjör yfirfærðra útlána fyrst bundin af efnisreglum laganna og vilja löggjafans, sem veittu enga heimild til aðgerða á borð við þær sem stefndi beitti BM Vallá hf. í maí 2010.

Stefnendur breyttu kröfugerð sinni undir rekstri málsins þannig að fallið var frá þeirri fjárkröfu sem greinir í stefnu og er þess í stað gerð krafa um viðurkenningu á bótaskyldu. Hvað varðar tjón stefnenda vísa þeir einkum til útreikninga Deloitte og leiðréttingar á efnahagsreikningi félagsins 31. desember 2018 því til samræmis. Tekið er fram að farið hafi verið yfir lánasamninga BM Vallár hf. með hliðsjón af dómaframkvæmd um gengistryggð lán og hafi niðurstaðan verið sú að langtímaskuldir félagsins við stefnda í árslok 2008 hafi átt að vera liðlega 2,1 milljarðar króna, en ekki 3,6 milljarðar króna eins og stefndi hafi byggt á. Vísað er til þess að eigið fé BM Vallár hf. hafi í reynd verið jákvætt að teknu tilliti til skattalegrar skuldbindingar sem beri að leggja við eigið fé. Svari tjón stefnenda til verðmætis þess eigin fjár sem farið hafi forgörðum við gjaldþrot BM Vallár hf.

 

Málsástæður stefnda

Stefndi byggir á því að um aðildarskort stefnenda sé að ræða þar sem það sé ekki ljóst af stefnu eða málsgögnum að þeir eigi þá hagsmuni sem þeir geri kröfu um. Verði því að sýkna stefnda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Því er mótmælt að starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi við meðferð máls BM Vallár hf. Hafi þeir í einu og öllu farið eftir ákvæðum laga nr. 107/2009 og þeim reglum sem stefndi setti sér á grundvelli laganna. Hafi stefndi unnið með stjórn­endum félagsins til að leita lausnar á greiðslu- og eiginfjárvanda þess og jafnframt veitt félaginu fyrir­greiðslu á meðan á því stóð. Lögð er áhersla á að markmið reglna stefnda um fjárhagslega endurskipulagningu hafi verið að skipuleggja rekstur „lífvænlegra fyrirtækja“ en BM Vallá hf. hafi ekki fallið í þann flokk. Hafi fjár­hagur félagsins verið svo bágborinn, meðal annars með tilliti til eigin fjár og sjóð­streymis, að réttmætt hafi verið að hafna frekari samn­inga­viðræðum milli aðila. Hafi sjóðstreymi á árinu 2009, sem var síðasta heila rekstrarár félagsins, verið neikvætt um 612 milljónir króna og félagið verið hætt að greiða af lánum sínum, auk þess sem það hafi ekki getað staðið skil á greiðslu virðisaukaskatts. Liggi fyrir fjöldi gagna sem sýni neikvætt eigið fé félagsins, svo sem ársreikningur fyrir árið 2008 og skýrslur sem unnar voru um félagið á meðan á greiðslustöðvun stóð.

Samkvæmt verklagsreglum stefnda hafi sjóðstreymi fyrst verið kannað og reynst vera neikvætt. Jafnframt hafi verið lagt mat á skulda­­­stöðu og greiðslubyrði félagsins enda þótt það hafi ekki verið skylt samkvæmt reglunum í ljósi neikvæðs sjóðstreymis. Þá hafi eigið fé félagsins verið verulega nei­kvætt. Sé ljóst að koma hefði þurft til verulegra afskrifta, en hluthafar hafi haft lítinn áhuga á að koma með nýtt eigið fé eða gefa eftir hluta af hlutafé sínu. Jafnframt hafi forsvarsmenn BM Vallár hf. lítið lagt sig fram um að upplýsa stefnda um raunverulega stöðu félag­sins og samstarfsvilji verið takmarkaður, en litið sé til slíks samkvæmt verklagsreglum stefnda. Hafi niðurstaða stefnda verið sú að BM Vallá hf. væri ekki lífvænlegt félag og það mat verið byggt á gögnum um rekstur félagsins, svo sem ársreikningi fyrir árið 2008, skýrslum sem unnar voru um félagið og samskiptum aðila. Hafi stefnda því verið nauðugur sá kostur að slíta viðræðum um fjár­hags­lega endurskipulagningu félagsins.

Stefndi byggir jafnframt á því að það sé ekkert ákvæði í lögum nr. 125/2008, lögum nr. 107/2009 eða lögum nr. 161/2002 sem leggi þá skyldu á bankann að veita BM Vallá hf., eða öðrum félögum, eftirgjöf skulda, óháð aðstæðum hvers og eins félags. Þá standist það ekki að Fjármálaeftirlitinu hafi með fyrrgreindum lögum verið veitt heimild til að veita eftirgjöf af kröfum, annaðhvort við framsal þeirra til hinna nýju banka eða við önnur tækifæri. Að sama skapi felist ekki í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008 ákvörðun um að tiltekinn hluti lána BM Vallár hf. skuli felldur niður, eins og stefnendur virð­ist byggja á. Væri það jafnframt í ósamræmi við aðferðafræði laga nr. 107/2009 og verk­lags­reglur stefnda um fjárhagslega endur­skipu­­lagningu fyrirtækja þar sem gert sé ráð fyrir mati á hverju og einu fyrirtæki og að skuldir félags séu lagaðar að greiðsluþoli og eignastöðu sé félagið talið lífvænlegt.

Hugleiðingum stefnenda um samning milli Kaup­þings banka hf. og stefnda um vörslu og skilyrtan virðisrétt frá 3. desember 2009 er mótmælt. Í samningnum sé kveðið á um að Kaupþing banki hf. fái skilyrtan virðisrétt í safni stærstu lána sem framseld voru stefnda, þar sem kveðið er á um að ábata af þeim eign­­­um, umfram fyrirfram ákveðið gildi, yrði skipt á milli félaganna tveggja í ákveðnum hlutföllum. Í viðauka 2 við samninginn séu tilteknar þær eign­ir sem falli undir samninginn, en kröfur stefnda á hendur BM Vallá hf. og tengd­um fél­­ög­um séu þar tilgreindar í 19. tölulið. Á listanum séu einnig félög sem séu í fullum rekstri í dag.

Því er alfarið hafnað að stefndi hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 161/2002 eða mismunað BM Vallá hf. með einhverjum hætti. Hafi stefndi gætt jafnræðis og hlut­lægni í vinnu sinni við fjárhagslega endur­skipu­lagn­ingu félagsins og tekið ákvarðanir á málefnalegum grunni. Þá eigi fullyrðingar stefnenda um að Kaupþing banki hf. eða aðrir aðilar hafi haft áhrif á tilraunir stefnda til fjárhagslegrar endur­skipu­­­lagningar BM Vallár hf. sér ekki stoð í raunveru­leik­anum.

Stefndi leggur áherslu á að eigið fé BM Vallár hf. hafi verið neikvætt þegar í árslok 2008 og einnig þegar félagið var tekið til gjald­þrota­skipta í maí 2010. Í stefnu sé fullyrt að hluti lána félagsins til stefnda hafi verið gengis­tryggð lán í íslenskum krónum. Umfjöllun um þetta í stefnu sé mjög takmörkuð og til að mynda ekki upplýst um hvaða lán sé að ræða eða hvaða atriði valdi því að lánin teljist ólögmæt gengistryggð lán. Rökstutt er að þau lán, sem stefnendur gætu verið að vísa til, séu öll lögmæt lán í erlendum myntum með vísan til dómaframkvæmdar Hæstaréttar. Sé því engin ástæða til að telja eftirstöðvar lánanna aðrar en komi fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2008 og hafi eigið fé verið neikvætt um að minnsta kosti þá fjárhæð sem þar komi fram. Þá er leiðréttingu á ársreikningi, sem stefnendur hafa lagt fram, harðlega mótmælt. Áréttað er að fram hafi komið í kynningu þáverandi framkvæmdastjóra félagsins og skýrslu D, sem hafi verið yfirfarin af framkvæmdastjóranum, að eigið fé og sjóðstreymi félagsins væri verulega neikvætt. Þá hafi reynst erfitt að fá upp­lýsingar frá forsvarsmönnum félagsins um fjár­hags­stöðu þess og villandi upplýsingar í sumum tilvikum verið sendar. Þar að auki hafi áætlan­ir og tillögur forsvars­manna félagsins um endurskipulagningu þess verið óraunhæfar að mati stefnda. Hafi því verið réttmætt að hafna því að reyna frekar að endurskipuleggja rekstur BM Vallár hf. og öll skilyrði verið uppfyllt til að taka bú félagsins til gjaldþrotaskipta. Þá hafi það verið stjórn félagsins sem óskaði gjaldþrota­skipt­a samkvæmt ákvörðun sem tekin hafi verið á stjórnarfundi. Hafi raunar komist á bindandi samningur milli aðila um að óskað yrði gjald­þrota­skipta á búi félagsins yrðu tiltekin skilyrði, sem rakin voru í bréfi stefnda frá 22. mars 2010, ekki uppfyllt. Beri stjórn félagsins því alla ábyrgð á gjaldþroti þess og sé ekki um að ræða sök starfsmanna stefnda.

       Því er jafnframt mótmælt að orsakatengsl séu milli hinnar meintu saknæmu hátt­semi starfsmanna stefnda og þess tjóns sem stefnendur telja sig hafa orðið fyrir eða að tjónið geti talist sennileg afleiðing af háttsemi starfs­­­­manna stefnda. Þá hafi stefnendur ekki sannað eða gert líklegt að þeir hafi orðið fyrir tjóni af völdum stefnda og er rökstutt að útreikningar Deloitte standist ekki. Stefndi styður sýknukröfu sína jafnframt við eigin sök stefnenda og vísar meðal annars til þess að stefnandinn Víglundur hafi sem stjórnarformaður félagsins tekið virkan þátt í rekstri þess og átt þátt í því að stefnda voru veittar takmarkaðar og oft á tíðum villandi upplýsingar. Verði ekki fallist á sýknu á grundvelli þessa byggir stefndi á því að skaðabótakrafa stefnenda sé fyrnd, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Samkvæmt málatilbúnaði stefnenda hafi hinn skaða­bótaskyldi verkn­aður átt sér stað þegar stefndi gaf út skilyrt samþykki sitt til áframhaldandi greiðslustöðvunar BM Vallár hf. 22. mars 2010, en í síðasta lagi þegar fundur starfs­manna stefnda og fulltrúa félagsins fór fram 14. maí 2010. Stefna hafi verið birt 16. maí 2014 og hafi fjögurra ára fyrningarfrestur þá verið liðinn.

 

III

Niðurstaða

A.

Stefnendur reisa málatilbúnað sinn á því að þeir hafi sem eigendur alls hlutafjár í BM Vallá hf. orðið fyrir tjóni vegna saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnda sem hafi komið í veg fyrir fjárhagslega endurskipulagningu félagsins og hafi það leitt til gjaldþrots þess 18. maí 2010. Stefndi telur ekki hafa verið sýnt fram á að stefnendur eigi þá hagsmuni sem þeir krefjast dóms um og beri því að sýkna stefnda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnendur styðja aðild sína við eignarhald á hlutafé í BM Vallá hf. Byggt er á því að stefnandinn Lindarflöt ehf. eigi 99,99% hlutafjár í félaginu og stefnandinn Víglundur 0,01%. Ráðið verður af gögnum málsins að þegar bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 18. maí 2010 hafi það verið í eigu eignarhaldsfélagsins Plateau de Pierre S.A.R.L. í Lúxemborg. Meðal þeirra gagna sem lögð voru fyrir dóminn 24. ágúst sl. var bréf frá endurskoðanda hjá Deloitte, frá 17. apríl 2018, sem kveðst vera endurskoðandi beggja stefnenda. Í bréfinu er því meðal annars lýst að Plateau de Pierre S.A.R.L. hafi verið stofnað af stefnandanum Víglundi um eignarhald á hlutabréfum í BM Vallá hf. Hafi hann í nóvember 2007 selt stefnandanum Lindarflöt ehf. öll hlutabréf í eignarhaldsfélaginu, en eftir afskráningu þess félags 7. desember 2010 hafi Lindarflöt ehf. talið fram eignarhluta í BM Vallá hf. Þá hafi stefnandinn Víglundur talið persónulega fram á skattframtali sínu hlutabréf í BM Vallá hf. í samræmi við persónulegan eignarhlut í þeim. Jafnframt hefur verið lagður fram ársreikningur Lindarflatar ehf. vegna ársins 2015 og kemur þar fram að félagið eigi eignarhlut í BM Vallá hf. sem sé metinn á 1000 krónur og er verðmæti hlutarins óbreytt frá árinu 2014. Samkvæmt þessu varð breyting á eignarhaldi BM Vallár hf. frá því að úrskurður um gjaldþrotaskipti var kveðinn upp og þar til að mál þetta var höfðað. Ráðið verður af fyrrgreindu bréfi Deloitte að stefnandinn Lindarflöt ehf. hafi tekið við eignarhaldi á þeim hlutabréfum í BM Vallá hf. sem voru í eigu Plateau de Pierre S.A.R.L. eftir afskráningu síðastnefnds félags í desember 2010. Þetta fær meðal annars stoð í ársreikningi Lindarflatar ehf. vegna ársins 2015. Það var nánar skýrt við munnlegan málflutning að eignarhald stefnandans Víglundar á 0,01% hlutafjár í BM Vallá hf. hefði verið nauðsynlegt vegna áskilnaðar laga nr. 2/1995 um hlutafélög um að hluthafar skuli jafnan vera tveir hið fæsta. Þá var staðfest í fyrrgreindu bréfi Deloitte að stefnandinn hefði talið persónulega fram á skattframtali sínu hlutabréf í BM Vallá hf. í samræmi við persónulegan eignarhlut sinn. Samkvæmt þessu er að mati dómsins nægilega sýnt fram á að stefnendur eigi sem hluthafar í BM Vallá hf. þá hagsmuni sem þeir krefjast dóms um, en skiptum á búi félagsins er ekki lokið. Verður því ekki fallist á sýknu stefnda vegna aðildarskorts stefnenda.

B.

Stefnendur byggja á því að starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem hafi leitt til gjaldþrots BM Vallár hf. Einkum er byggt á því að starfsmenn stefnda hafi staðið í vegi fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins með ólögmætum hætti, ekki virt þau sjónarmið sem lög nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins byggist á og brotið gegn þeim reglum sem hafi verið settar samkvæmt 3. gr. laganna. Þá er vísað til þess að hluti krafna stefnda á hendur BM Vallá hf. hafi verið bundinn ólögmætri gengistryggingu og hafi því verið óljóst hver raunveruleg skuld félagsins hefði verið. Jafnframt er byggt á því að viðskiptavinum bankans hafi verið mismunað í andstöðu við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

       Stefndi var í samskiptum við BM Vallá hf. bundinn af lögum nr. 161/2002, þar með talið 19. gr. laganna þar sem fram kemur að fjármálafyrirtæki skuli starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Þá hafði stefndi sjálfur sett sér verklagsreglur um „Úrlausnir útlánavandamála“ þar sem fjallað var um málsmeðferð við úrlausn á fjárhagslegum erfiðleikum fyrirtækja. Þessar reglur voru settar vegna sérstakra aðstæðna í efnahagslífinu og tilmæla ríkisstjórnarinnar frá 2. desember 2008 um aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja. Fyrsta útgáfa reglnanna frá janúar 2009 var í gildi þegar úrlausnarhópur stefnda tók málefni BM Vallár hf. fyrst til skoðunar, en reglurnar voru endurskoðaðar í september sama ár. Í báðum útgáfum reglnanna var gert ráð fyrir því að sérstök alþjóðleg aðferðafræði (e. the London approach) yrði höfð til hliðsjónar við úrlausn á fjárhagsvanda fyrirtækja þar sem hún ætti við og var tekið fram að meginmarkmið viðmiðanna væri að koma í veg fyrir að lífvænleg fyrirtæki yrðu gjaldþrota vegna deilna eða úrræðaleysis kröfuhafa. Almennt var gert ráð fyrir könnun á því hvort sjóðstreymi væri jákvætt eða neikvætt, mati á skuldastöðu og greiðslubyrði félagsins og nánara mati á rekstrargrundvelli þess.

       Með 3. gr. laga nr. 107/2009, sem stefnendur leggja áherslu á, var mælt fyrir um að kröfueigendur skyldu setja sér reglur um skuldbreytingar og breytingar á skilmálum skuldabréfa og lánssamninga sem kynnu að leiða til eftirgjafar skulda eða annarra ívilnana fyrir skuldara. Á meðan á greiðslustöðvun BM Vallár hf. stóð voru reglur Samtaka fjármálafyrirtækja um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, sem settar voru með vísan til umrædds lagaákvæðis, samþykktar og staðfestar af Fjármálaeftirlitinu 2. mars 2010. Fram kom í reglunum að fjármálafyrirtæki skyldu hafa þær til viðmiðunar við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja til að tryggja samræmi í vinnubrögðum við úrvinnslu mála. Þá sagði meðal annars að reglurnar tækju mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 107/2009 um jafnræði og gegnsæi við meðferð einstakra mála, auk hinnar almennu kröfu um heilbrigða og góða viðskiptahætti. Í reglunum var meðal annars fjallað um þau skilyrði sem fyrirtæki þyrftu almennt að uppfylla til að eiga kost á fjárhagslegri endurskipulagningu og hvernig kannað skyldi hvort skilyrði til slíks væru uppfyllt. Gert var ráð fyrir tilteknum viðmiðum og kom til að mynda fram að það væri almennt skilyrði fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu að fyrirtæki gæti sýnt fram á að sjóðstreymi stæði undir greiðslu á skuldum eftir endurskipulagningu. Þá var tekið fram að við mat á því hvort skilyrði fjárhagslegrar endurskipulagningar væru uppfyllt kannaði fjármálafyrirtækið ýmsa þætti sem sneru að rekstri, stjórnun, efnahag og rekstrarumhverfi fyrirtækisins, þar með talið eignum og skuldum, greiðslugetu, sem og verðmæti þess með hliðsjón af áætluðu sjóðstreymi. Að mati dómsins er rétt að líta til framangreindra verklagsreglna, sem og sameiginlegra reglna Samtaka fjármálafyrirtækja, við mat á því hvort starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér saknæma háttsemi í tengslum við tilraunir til fjárhagslegrar endurskipulagningar BM Vallár hf.

C.

       Fyrir liggur að í byrjun árs 2009 hóf úrlausnarhópur á vegum stefnda vinnu við að greina stöðu BM Vallár hf. og rekstrarerfiðleika félagsins. Var það í samræmi við þágildandi verklagsreglur stefnda frá janúar 2009. Ráðið verður af gögnum málsins, svo sem ársreikningi BM Vallár hf. vegna ársins 2008 og samskiptum stefnda við forsvarsmenn félagsins sem áður hafa verið rakin, að félagið hafi á þeim tíma átt í talsverðum fjárhagslegum erfiðleikum og ekki getað greitt af lánum sínum. Stefndi kveður úrlausnarhópinn hafa lokið greiningu á BM Vallá hf. í nóvember 2009 og talið stöðu félagsins vera mjög alvarlega. Hafi í samræmi við verklagsreglurnar fyrst verið lagt mat á sjóðstreymi félagsins sem reyndist neikvætt. Þá hafi verið lagt mat á rekstrargrundvöll, sem og skuldastöðu og greiðslubyrði þess, en ljóst hafi verið að eigið fé þess var verulega neikvætt. Líkt og rakið hefur verið óskaði BM Vallá hf. eftir heimild til greiðslustöðvunar 2. febrúar 2010, en stefndi og C hf. höfðu samþykkt að fjármagna félagið á þeim tíma í samstarfi við aðstoðarmann í greiðslustöðvun. Á meðan á greiðslustöðvun BM Vallár hf. stóð voru unnin ýmis gögn til að varpa ljósi á fjárhagslega stöðu félagsins, svo sem greinargerð ráðgjafa aðstoðarmanns félagsins í greiðslustöðvun frá 26. febrúar 2010 sem var yfirfarin af þáverandi framkvæmdastjóra félagsins og sætti ekki athugasemdum. Þá lögðu forsvarsmenn félagsins fram ýmsar tillögur til lausnar á rekstrarvanda félagsins líkt og gerð hefur verið grein fyrir, en stefndi taldi tillögurnar óraunhæfar og féllst ekki á þær.                 Stefndi vísar til þess að það hafi verið mat starfsmanna bankans að BM Vallá hf. gæti ekki talist vera „lífvænlegt fyrirtæki“ í skilningi þeirra verklagsreglna sem voru í gildi. Hefur því til stuðnings einkum verið vísað til þess að fyrirliggjandi gögn, svo sem ársreikningur vegna ársins 2008 og fyrrgreind greinargerð sem unnin var á meðan á greiðslustöðvun stóð, sýni að eigið fé félagsins hafi verið verulega neikvætt og hafi sjóðstreymi jafnframt verið neikvætt. Þá hafi þurft að koma til verulegra afskrifta krafna, en eigendur félagsins hafi ekki haft hug á að leggja fram nýtt eigið fé eða gefa eftir af hlutafé sínu. Byggt er á því að stefndi hafa hagað meðferð sinni í samræmi við þau lög og reglur sem voru í gildi og ekki verið skylt að styðja við frekari tilraunir til fjárhagslegrar endurskipulagningar félagsins. 

D.

       Meðal gagna málsins er ársreikningur BM Vallár hf. vegna ársins 2008. Þar kemur meðal annars fram að eigið fé félagsins hafi verið neikvætt um rúmlega 1.319 milljónir króna við árslok 2008 og að afkoma ársins var neikvæð um tæpar 2.934 milljónir króna. Að mati dómsins er ekki unnt að taka tillit til „leiðrétts efnahagssreiknings“ sem lagður hefur verið fyrir dóminn sem viðauki. Leiðréttingin virðist byggjast á þeirri forsendu að lán félagsins hjá stefnda hafi verið bundin ólögmætri gengistryggingu, en líkt og nánar verður rakið síðar liggur ekkert fyrir um að svo hafi verið.

       Þá liggja fyrir tölvupóstsamskipti á milli framkvæmdastjóra BM Vallár hf. og starfsmanns stefnda frá maí 2009 vegna skuldar félagsins. Þar kom fram að félagið skyldi á því ári greiða stefnda 500 milljónir króna inn á tiltekinn reikning, en ráðið verður af færsluyfirliti reikningsins að eingöngu hafi verið greiddar 100 milljónir króna. Samkvæmt þessu gat félagið ekki staðið við samkomulag um greiðslur vegna lánsskuldbindinga þess gagnvart stefnda. Í fundargerð frá fundi með kröfuhöfum, sem haldinn var 19. febrúar 2010, í kjölfar greiðslustöðvunar, var gerð grein fyrir lýsingu þáverandi framkvæmdastjóra félagsins á fjárhagslegri stöðu þess. Þar kom meðal annars fram að skuldir félagsins umfram eignir væru um 3.000 milljónir króna, að aðeins um 3–4% eigna félagsins væru óveðsettar og að eigið fé félagsins væri „verulega neikvætt“. Jafnframt liggur fyrir glærukynning frá fundinum og kemur þar meðal annars fram að eignir nemi samtals 7.227.106.951 krónu, en skuldir 10.151.223.747 krónum. Samkvæmt þessu var eigið fé félagsins neikvætt um rúmar 2.900 milljónir króna. Það er í samræmi við fyrrgreinda greinargerð frá 26. febrúar 2010 sem ráðgjafi aðstoðarmanns fél­ags­ins í greiðslu­­­stöðvun tók saman og var meðal annars ætluð forsvarsmönnum stefnda líkt og fram kemur í inngangi skjalsins. Tekið var fram að um væri að ræða vinnuskjal sem væri að meginhluta byggt á upplýsingum frá „stjórnendum BM Vallár“ og hefði endanleg útgáfa verið yfirfarin af framkvæmdastjóra félagsins sem gerði ekki „efnislegar athugasemdir“ við texta skjalsins. Fram kom að miðað við bókhald félagsins væru skuldir umfram eignir um 2.925 milljónir króna hinn 2. febrúar 2010. Þá kom fram að væri allt til tínt og húsaleiga, kaup- eða fjármögnunarleiga og öll laun dregin frá EBITDAR í uppgjöri frá stjórnendum væri afkoma félagsins fyrir afskriftir og vexti neikvæð um 612 milljónir króna. Jafnframt má nefna að í beiðni um að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta sem stjórn þess beindi til Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2010 var meðal annars tekið fram að skuldir félagsins umfram eignir hefðu verið liðlega þrír milljarðar króna miðað við frestdag 2. febrúar 2010 og var vísað til fyrrgreindrar greinargerðar frá 26. febrúar 2010 því til stuðnings.

       Samkvæmt þessu er ljóst að BM Vallá hf. átti í verulegum fjárhagslegum erfiðleikum á þeim tíma sem um ræðir og er það raunar óumdeilt. Fyrir liggur að eigið fé félagsins var neikvætt um að minnsta kosti 2.900 milljónir króna í febrúar 2010 þegar óskað var eftir greiðslustöðvun. Þá má sjá af fyrirliggjandi gögnum að tekjur félagsins höfðu dregist verulega saman og að hagnaður fyrir afskriftir og vexti var neikvæður um 612 milljónir á árinu 2009. Var því þörf á afskriftum skulda af hálfu kröfuhafa í umtalsverðum mæli. Fyrir liggur að stefndi studdi í upphafi greiðslustöðvun félagsins og féllst tvívegis á framlengingu hennar, en í síðara skiptið var sett skilyrði um að félaginu tækist að sölutryggja að minnsta kosti 1.800 milljóna króna skuldabréfaútgáfu innan fjögurra vikna og tókst það ekki þó að veittur væri frekari frestur. Jafnframt liggur fyrir að tillögur forsvarsmanna BM Vallár hf. um lausn á rekstrarvanda félagsins voru teknar til skoðunar af stefnda, en líkt og stefndi hefur bent á gerðu þær ráð fyrir verulegum afskriftum skulda án teljandi breytinga á eignarhaldi eða nýs fjármagns frá hluthöfum. Verður ekki séð að með því að hafna umræddum tillögum hafi starfsmenn stefnda brotið gegn ákvæðum laga nr. 161/2002 eða öðrum reglum sem bar að líta til.

       Að teknu tilliti til framangreinds verður ekki fallist á að starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér saknæma háttsemi í samskiptum við forsvarsmenn BM Vallár hf. og þannig komið í veg fyrir fjárhagslega endurskipulagningu félagsins. Ítarleg gögn, sem meðal annars stöfuðu frá forsvarsmönnum stefnda eða höfðu verið yfirfarin af þeim, sýndu slæma fjárhagslega stöðu félagsins. Verður ekki fallist á að mat stefnda á stöðu félagsins hafi verið ófullnægjandi, enda lágu fyrrgreind gögn fyrir og var litið til þeirra við mat á möguleikum á fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Byggðist afstaða stefnda meðal annars á upplýsingum um sjóðstreymi, skuldastöðu, greiðslubyrði og önnur atriði sem vörðuðu rekstrargrundvöll félagsins. Verður samkvæmt þessu ekki annað séð en að starfsmenn stefnda hafi tekið mið af fyrrgreindum verklagsreglum bankans og að þær hafi verið í samræmi við reglur Samtaka fjármálafyrirtækja um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja sem voru staðfestar af Fjármálaeftirlitinu rúmum tveimur mánuðum áður en bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta. Til þess er að líta að um matskenndar reglur var að ræða þar sem gerð var grein fyrir viðmiðum og umtalsverðu svigrúmi fjármálafyrirtækja við mat á einstökum málum. Þá hafa stefnendur ekki rökstutt sérstaklega með hvaða hætti þeir telja að brotið hafi verið gegn þessum reglum. Að mati dómsins eru fullyrðingar stefnenda um að stefndi hafi mismunað BM Vallá hf. með saknæmum hætti jafnframt órökstuddar og fá ekki stoð í gögnum málsins.

       Af hálfu stefnenda er byggt á því að hluti krafna stefnda á hendur BM Vallá hf. hafi byggst á ólögmætum gengistryggðum lánum í íslenskum krónum og hafi eftirstöðvar þeirra því verið lægri en stefndi hafi talið. Málatilbúnaður stefnenda er að þessu leyti verulega vanreifaður og er til að mynda ekki vikið að því um hvaða lán sé að ræða eða rökstutt að þau hafi verið bundin ólögmætri gengistryggingu. Stefndi hefur aftur á móti fært rök fyrir því að þau lán sem geti komið til álita hafi verið lögmæt lán í erlendum myntum og hafi því ekki verið ástæða til að endurreikna eftirstöðvar þeirra. Hefur verið vísað til ýmissa dóma Hæstaréttar því til stuðnings, en stefnendur hafa hvorki leitast við að hrekja það með röksemdum eða gögnum. Röksemdir stefnenda um þetta atriði geta þegar af þeirri ástæðu ekki stutt málatilbúnað þeirra.

       Samkvæmt framangreindu verður ekki fallist á að háttsemi eða meðferð starfsmanna stefnda á málefnum BM Vallár hf. hafi verið í ósamræmi við þau lög og reglur sem við eiga, þar með talda 19. gr. laga nr. 161/2002 og þær reglur sem stefnda bar að hafa hliðsjón af. Þá verður ekki séð að starfsmenn stefnda hafi að öðru leyti hagað sér með saknæmum hætti við meðferð málsins þannig að leitt geti til þess að fallist verði á kröfu stefnenda um viðurkenningu á bótaskyldu. Verður þegar af þessari ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnenda.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnendum óskipt að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

Ásgerður Ragnarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt Halldóri Björnssyni héraðsdómara og Kjartani Arnfinnssyni, löggiltum endurskoðanda.

 

D Ó M S O R Ð:

       Stefndi, Arion banki hf., er sýkn af kröfum stefnenda, Víglundar Þorsteinssonar og Lindarflatar ehf.

       Stefnendur greiði stefnda óskipt 800.000 krónur í málskostnað.

 

 

Ásgerður Ragnarsdóttir

Halldór Björnsson

Kjartan Arnfinnsson