• Lykilorð:
  • Umboðssvik
  • Sýkna

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 8. nóvember 2018 í máli nr. S-705/2016:

Ákæruvaldið

(Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari)

gegn

Hreiðari Má Sigurðssyni og

(Hörður Felix Harðarson lögmaður)

Z

(Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 11. október sl., er höfðað með ákæru útgefinni 19. september 2016 af héraðssaksóknara á hendur Hreiðari Má Sigurðssyni, kt. [...], með lögheimili [...], og Z, kt. [...], með lögheimili [...], fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um verðbréfaviðskipti:

 

I

a

            Á hendur ákærða, Hreiðari Má, þáverandi forstjóra Kaupþings banka hf., kt. 560882-0419, Borgartúni 19 í Reykjavík, fyrir umboðssvik með því að hafa í ágúst 2008 misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í verulega hættu þegar hann lét bankann veita einkahlutafélaginu Hreiðari Má Sigurðssyni, kt. […], sem var í eigu og laut stjórn ákærða, eingreiðslulán að fjárhæð 574.520.995 krónur, án þess að fyrir lægi samþykki stjórnar bankans fyrir láninu og án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins, einkum þar sem einu tryggingarnar að baki láninu, allir hlutir einkahlutafélagsins í Kaupþingi banka hf., stóðu einnig sem veð fyrir öllum öðrum og eldri skuldum félagsins við bankann og veittu ekki nægilegt veðrými til hinnar nýju lánveitingar samkvæmt reglubók bankans og samningi um lánveitinguna, dags. 11. ágúst 2008. Einnig vissi ákærði, eða hlaut að vita, að fyrrgreindir hlutir í Kaupþingi banka hf. gátu á þessum tíma ekki talist fullnægjandi sem einu tryggingarnar fyrir láninu. Láninu var ráðstafað til að fjármagna að fullu kaup einkahlutafélagsins af ákærða á 812.000 hlutum í bankanum, 6. ágúst 2008, fyrir 704 krónur á hlut, eða fyrir samtals 571.648.000 krónur, en þá sömu hluti keypti ákærði sama dag í eigin nafni samkvæmt kauprétti fyrir 303 krónur á hlut, eða fyrir samtals 246.036.000 krónur. Greiðsla að fjárhæð 324.000.000 krónur, eða sem nam um það bil mismun á síðastgreindum tveimur fjárhæðum, rann 19. ágúst 2008 af bankareikningi (sjóðsbók) nr. 0329-26-446728, sem tengdur var vörslusafni ákærða hjá Kaupþingi banka hf., inn á bankareikning ákærða nr. 301-13-302818 hjá sama banka og stóð ákærða eftir það til frjálsrar ráðstöfunar.

            Lánið var á gjalddaga 11. ágúst 2011. Einkahlutafélagið var tekið til gjaldþrotaskipta 13. apríl sama ár. Arion banki hf., kt. 581008-0150, sem þá var orðinn kröfuhafi vegna lánsins, lýsti kröfu við búskiptin að fjárhæð samtals 819.258.433 krónum með áföllnum vöxtum og kostnaði. Upp í kröfuna greiddust 1.612.170 krónur við úthlutun úr búi einkahlutafélagsins. Skiptum lauk 24. janúar 2014 og var einkahlutafélagið afskráð 30. sama mánaðar. Eftirstöðvar lánsins má því telja að fullu glataðar.

            Er brot þetta talið varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

b

            Á hendur ákærðu, Z, þáverandi fjármálastjóra Kaupþings banka hf., fyrir hlutdeild í umboðssvikum ákærða Hreiðars Más sem lýst er í ákærukafla I-a með því að hafa veitt liðsinni í verki við að koma þeim fram, einkum með fyrirmælum og samskiptum við lægra setta starfsmenn bankans síðari hluta ágústmánaðar 2008 um  uppgjör og frágang vegna þeirra verðbréfaviðskipta og lánveitingar til einkahlutafélags ákærða, Hreiðars Más, Hreiðar Már Sigurðsson ehf., sem lýst er í ákærukafla I-a. Ákærða vissi eða henni gat ekki dulist að tryggingar fyrir lánveitingunni til einkahlutafélagsins væru ófullnægjandi og hafði meðal annars upplýsingar um að tryggingastaða þess gagnvart bankanum, vegna fyrri lánveitinga bankans til þess, væri þá þegar ófullnægjandi og að frekari tryggingar teldust vanta fyrir skuldum þess við bankann. Ákærða gaf einnig fyrirmæli um útgreiðslu á lánsfjárhæðinni að frádregnum kostnaði til einkahlutafélagsins 21. ágúst 2008 en það var áður en samningur vegna lánsins hafði verið frágenginn og undirritaður. Í ljósi allra aðstæðna og atvika gat ákærðu ekki dulist að lánveitingin til einkahlutafélagsins væri óheimil og til þess fallin að valda bankanum verulegri fjártjónshættu.

            Er brot þetta talið varða við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 19/1940.

 

II

            Á hendur ákærða, Hreiðari Má, fyrir innherjasvik með því að hafa, 6. ágúst 2008, selt 812.000 hluti í Kaupþingi banka hf., sem hann keypti í eigin nafni sama dag, til einkahlutafélagsins Hreiðars Más Sigurðssonar, kt. 500506-1990, sem var í eigu og laut stjórn ákærða, fyrir 571.648.000 krónur þrátt fyrir að hafa þá búið yfir innherjaupplýsingum um Kaupþing banka hf. sem hann varð áskynja um í starfi sínu sem forstjóri þess banka og lutu að því að skráð markaðsverð hlutabréfa í bankanum gaf á þessum tíma ranga mynd af verðmæti þeirra og hærri en efni stóðu til, vegna langvarandi og stórfelldrar markaðsmisnotkunar með hlutabréf í bankanum sem þá hafði staðið yfir að minnsta kosti frá nóvember 2007 og ákærði átti þátt í.

            Er brot þetta talið varða við 1. tölulið 1. mgr. 123. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 146. gr. sömu laga.

 

III

            Er þess krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Inngangur 

Búnaðarbanki Íslands var stofnaður með sérstökum lögum um hann, sem voru nr. 115/1941, og var hann í eigu íslenska ríkisins. Með lögum nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, varð sú breyting að Búnaðarbanki Íslands hf. tók til starfa 1. janúar 1998, en um sinn var hann þó áfram eign ríkisins. Þeim lögum var svo breytt, með 1. gr. laga nr. 70/2001, á þann hátt að ríkinu var heimilað að selja þann hlut, sem það átti þá enn í Búnaðarbanka Íslands hf., og var þeirrar heimildar endanlega neytt 16. janúar 2003. Síðar á því ári var félagið sameinað Kaupþingi hf. og fékk sameinaða félagið seinna heitið Kaupþing banki hf. Frá árinu 1998 mun Kaupþing hf. hafa átt dótturfélagið Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem hafði á hendi starfsemi í því landi og varð dótturfélag Kaupþings banka hf. eftir fyrrgreinda sameiningu. Þá mun Kaupþing banki hf. jafnframt hafa, á árinu 2005, keypt enskan banka og á grunni hans sett á fót dótturfélag þar í landi með heitinu Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. Á þessum árum jókst starfsemi Kaupþings banka hf. mjög, hér á landi og erlendis, og á árinu 2008 mun hafa verið svo komið að félagið átti ýmist dótturfélög eða rak orðið útibú í 15 löndum. Á þeim tíma var ákærði, Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings banka hf.

Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar, samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd, en slit á félaginu, sem nú ber heitið Kaupþing hf., hófust 22. apríl 2009 og standa þau enn yfir. Í framhaldi af þessari aðgerð Fjármálaeftirlitsins mun Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar og Banque Havilland S.A. á síðari stigum tekið yfir starfsemi bankans.

 

Upphaf rannsóknar málsins

Upphaf rannsóknar þess sakamáls sem hér er til úrlausnar má rekja til þess að með kæru Fjármálaeftirlitsins 27. maí 2011 voru ætluð innherjasvik ákærða Hreiðars Más með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. kærð til lögreglu. Í kærunni er vísað til þess að á aðalfundi Kaupþings banka hf. 27. mars 2004, þeim fyrsta eftir sameiningu Kaupþings banka hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., hafi ákærða, sem forstjóra og X, sem stjórnarformanni Kaupþings banka hf., verið veittir kaupréttir í bankanum. Hafi þeir báðir, samkvæmt samþykkt fundarins, átt rétt á að kaupa 812.000 hluti á genginu 303 krónur á hlut árlega í 5 ár, eða til og með árinu 2008. Tekið er fram að ekki hafi legið fyrir sérstakur kaupréttarsamningur á milli ákærða og bankans, en kauprétturinn hafi verið staðfestur á aðalfundi bankans, 27. mars 2004, og sérstaklega til hans vísað í ráðningarsamningi ákærða frá 18. desember 2006.

Ákærði hafi nýtt sér kauprétt sinn, 6. ágúst 2008, að 812.000 hlutum á genginu 303 á hlut. Samtals hafi fjárhæð viðskiptanna numið 246.036.000 krónum. Ákærði hafi áður keypt 3.248.000 hluti í Kaupþingi banka hf. í tengslum við kaupréttaráætlunina og hún því fullnýtt eftir þessi viðskipti. Viðskiptin hafi verið tilkynnt í fréttabréfi Kauphallarinnar sama dag og tekið fram að ákærði hafi framselt hlut sinn til eignarhaldsfélagsins, Hreiðars Más Sigurðssonar ehf. Við nýtingu kaupréttarins 6. ágúst 2008 hafi Kaupþing banki hf. veitt ákærða lán að fjárhæð 574.520.955 krónur. Uppgjör viðskiptanna hafi verið 11. ágúst 2008. Lánið hafi verið veitt til þriggja ára og greitt inn á vörslureikning ákærða 21. ágúst 2008, en látið taka gildi 11. ágúst 2008. Samkvæmt yfirliti yfir reikninginn hafi einkahlutafélagið greitt fullt verð fyrir hlutabréfin eða 571.648.000 krónur. Ákærði hafi nýtt sér kauprétt sinn, 22. mars 2007, á sama fjölda hluta og á sama gengi. Ólíkt viðskiptunum 6. ágúst 2008 hafi Kaupþing banki hf. einungis lánað ákærða fyrir kaupverði bréfanna miðað við 303 krónur á hlut eða 247.641.202 krónur. 

Fjallað hafi verið um fjármögnun á hlutabréfakaupum starfsmanna Kaupþings banka hf. á stjórnarfundi, 28. september 2005. Meginniðurstaða fundarins hafi verið sú að lykilstarfsmenn sem hygðust fjárfesta í bankanum með lántöku skyldu gera það með fjármagni frá bankanum sjálfum. Kjör lánanna myndu vera sambærileg og ef um væri að ræða bestu viðskiptavini bankans. Öll fjármögnun forstjóra og stjórnarformanns skyldu tilkynnt sérstaklega til upplýsinga á næsta stjórnarfundi eftir viðkomandi lánveitingu. Í fundargögnum þar sem fyrirhugaðar lánveitingar væru kynntar kæmi fram að nauðsynlegt væri að ákvörðun um slíkar lánveitingar væru í samræmi við verklagsreglur bankans. Á stjórnarfundum Kaupþings banka hf., 26. apríl 2006 og 24. maí 2006, hafi stjórn bankans rætt um lán til ákærða og samþykkt að hann gæti haldið utan um hlutabréfaeign sína í einkahlutafélagi, ásamt því að samþykkja lán til félags ákærða við ráðstöfun hlutabréfanna til félagsins. Þá hafi stjórn bankans einnig heimilað frekari lánafyrirgreiðslu til einkahlutafélagsins að fjárhæð 1.000.000.000 króna, til eins árs, til fjármögnunar frekari hlutabréfakaupum félagsins. Kaupþing banki hf. hafi veitt einkahlutafélagi ákærða lán vegna kauprétta bæði á árinu 2007 og 2008. Til viðbótar hafi félaginu verið veitt lán í tengslum við yfirtöku félagsins á eignarhaldi í Kaupþingsbréfum og fasteignakaup í London, vegna kaupa á 1.000.000 hluta í KAUP SS, til endurfjármögnunar á lánum félagsins og yfirdráttarreikningi hjá bankanum í eigu ákærða og loks vegna ádráttarláns að fjárhæð 360.000.000 króna, sem félagið hafi nýtt sér fjórum sinnum. Til trygginar skuldum félagsins við bankann hafi félagið sett bankanum að handveði öll hlutabréf þess í bankanum. Handveðssamningur þess efnis hafi verið undirritaður 4. maí 2006. Um hafi verið að ræða veð fyrir öllum skuldum félagsins við bankann. Þrír viðaukar hafi verið gerðir við samninginn en í þeim hafi aðeins verið gerðar breytingar á fjölda þeirra hluta sem bankanum hafi verið settir að handveði. Þann 22. nóvember 2006 hafi félagið keypt 1.000.000 hluti í bankanum og þeim verið bætt við í viðauka við handveðið. Þann 23. mars 2007 hafi félagið keypt 812.000 hluti í bankanum sem hafi verið lagðir til tryggingar samkvæmt viðauka við handveðið. Þann 6. ágúst 2008 hafi félagið keypt 812.000 hluti í bankanum sem bætt hafi verið við handveðið.

Þann 11. ágúst 2008 hafi verið gerður lánssamningur nr. 8387, milli Kaupþings banka hf. og Hreiðars Más Sigurðssonar ehf. Samkvæmt gr. 2,4 í samningum hafi tilgangur lánsins verið að fjármagna hlutabréfakaup. Fjárhæð lánsins hafi verið 574.520.955 krónur. Þrjú önnur lán frá Kaupþingi banka hf. hafi hvílt á félaginu. Staða þeirra, miðað við 11. ágúst 2008, hafi verið samtals 5.021.142.688 krónur. Skuld félagsins við bankann, eftir undirritun láns 8387, hafi því verið orðin 5.595.663.643 krónur. Í þremur lánssamningum hafi verið kveðið á um að hlutabréf félagsins í bankanum væru tekin að handveði. Samkvæmt handveðsyfirlýsingu hafi hún náð til allra lána félagsins og því rétt að taka tillit til heildarstöðu þegar veðþekja væri reiknuð. Við veitingu láns nr. 8387 hafi verið gerður viðauki við handveðsyfirlýsinguna þar sem nýju hlutabréfin, sem félagið hafi keypt af ákærða, voru tiltekin sérstaklega sem viðbót við handveðið. Trygging bankans fyrir framangreindum lánum hafi því verið 8.047.239 hlutir í Kaupþingi banka hf. Verð hlutabréfanna hafi þá verið 718 krónur á hlut og verðmæti veðsins því 5.777.917.602 krónur, eða sem svaraði til u.þ.b. 103% veðþekju, ef miðað væri við 11. ágúst 2008. Miðað við gögn Fjármálaeftirlitsins hafi ekki verið gengið frá lánveitingunni fyrr en 29. ágúst 2008. Í tölvupóstsamskiptum innan bankans, á tímabilinu 6. ágúst 2008 til 29. ágúst 2008, hafi verið að finna umræður um lánveitinguna vegna láns nr. 8387. Póstarnir gefi til kynna að A, aðstoðarmaður ákærða, hafi haft milligöngu af hans hálfu um lánveitinguna. Hennar tengiliður hafi verið B, sérfræðingur í lánastýringu, sem hafi verið í sambandi við ákærðu, Z, fjármálastjóra bankans, og D, framkvæmdastjóra útlána bankans. Jafnframt hafi tveir aðrir starfsmenn komið að framkvæmd lánsins og einn til viðbótar fengið afrit af póstum.

Fjármálaeftirlitið telji það hvorki heilbrigða né eðlilega viðskiptahætti að veita einkahlutafélagi ákærða lánafyrirgreiðslu þegar ákvæði um veðþekju eldri lánanna hafi ekki verið uppfyllt, sem og að greiða út lán sem ekki uppfyllti skilmála um veðþekju. Ekki sé að finna nein gögn um að lánið hafi verið afgreitt á þar til bærum lánanefndarfundum innan bankans, eins og lánareglur kveði á um. Þá sé ekki að finna umfjöllun um að lánveitingin hafi farið fyrir stjórn bankans. Ákærða, Z, D, B og E hafi verið meðvituð um tilvist lánssamningsins. Þá telji Fjármálaeftirlitið að þrátt fyrir að ákærði, Hreiðar Már, hafi ekki verið aðili að tölvupóstsamskiptum þá hljóti hann að hafa beitt sér fyrir afgreiðslu lánsins þar sem aðstoðarmaður hans hafi rekið á eftir afgreiðslu þess þangað til lánið hafi verið greitt inn á reikning einkahlutafélagsins, 21. ágúst 2008. F hafi einn undirritað lánssamninginn en samkvæmt undirskriftarreglum bankans hafi það ekki verið fullnægjandi þar sem aðra undirskrift hafi þurft til frá aðila með A eða B undirskriftarheimild til þess að skuldbinda bankann. Lánið frá 23. mars 2007 hafi verið skoðað vegna kaupréttar ákærða á árinu 2007. Við veitingu þess láns hafi skilyrði um veðþekju verið uppfyllt. Hafi kjör virst vera í samræmi við bestu markaðskjör viðskiptavina bankans. Lánssamningurinn hafi hvorki verið undirritaður af hálfu bankans eða einkahlutafélags ákærða. Lánveitingin hafi ekki verið tekin fyrir í lánanefnd og ekki sé að finna umfjöllun í stjórnarfundargerðum. Lánið hafi verið veitt til nýtingar kaupréttar og miðast við verð kaupréttarins. Loks telji Fjármálaeftirlitið að ákærði, Hreiðar Már, hafi hugsanlega gerst sekur um innherjasvik í tengslum við sölu á hlutabréfunum 6. ágúst 2008 til einkahlutafélags síns.    

Við aðalmeðferð málsins gáfu ákærðu skýrslu fyrir dóminum. Þá komu fyrir dóminn A, fyrrverandi ritari forstjóra Kaupþings banka hf., G, fyrrverandi forstöðumaður hlutabréfamiðlunar Kaupþings banka hf., H, fyrrverandi starfsmaður á fyrirtækjasviði Kaupþings banka hf., J, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi hf., I, fyrrum innri endurskoðandi Kaupþings banka hf., F, fyrrverandi stjórnarmaður í Kaupþingi banka hf. og formaður starfskjaranefndar bankans, K, fyrrverandi yfirlögfræðingur Kaupþings  banka hf., X, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings banka hf. og loks M, fyrrverandi stjórnarmaður í Kaupþingi banka hf.

Ákærðu og vitni gáfu skýrslur hjá lögreglu. Skýrslur ákærðu og vitna þar verða ekki raktar í dóminum. Hins vegar verður gerð grein fyrir framburðum ákærðu og vitna hér fyrir dóminum, að því marki sem máli skiptir fyrir niðurstöðu málsins.

 

Skjalleg gögn   

Í upphafi verður gerð grein fyrir þeim helstu skjallegu gögnum er lögregla aflaði við rannsókn málsins og tengjast fjármunayfirfærslum samkvæmt ákæru.

Á meðal gagna málsins er fundargerð aðalfundar Kaupþings banka hf., 27. mars 2004. Í fundargerðinni kemur fram að á meðal fundarefna hafi verið tillaga að kaupréttarstefnu í bankanum sem meðal annars hafi falist í því að starfsmönnum yrði heimilt að kaupa hlutabréf í bankanum og að bankinn myndi lána starfsmönnum fyrir þeim kaupum. Formaður starfskjaranefndar hafi kynnt kaupréttaráætlunina þar sem fram hafi komið að forstjóri bankans og stjórnarformaður mættu ekki selja bréf sem þeir keyptu í bankanum í þrjú  ár eftir kaupin. Þá hafi verið rætt um varnir gagnvart æðstu stjórnendum í því tilviki að verðfall yrði á hlutabréfum. Kaupréttaráætlunin hafi verið samþykkt af stjórn.

Afrit stjórnarfundargerðar Kaupþings banka hf., 28. september 2005, er á meðal gagna málsins. Fram kemur að á fundinum hafi formaður starfskjaranefndar fjallað um lánveitingar til starfsmanna til fjármögnunar á hlutabréfakaupum í bankanum. Stjórn bankans hafi samþykkt kaupréttaráætlun fyrir starfsmennina. Tekið er fram í fundargerðinni að stjórn hafi velþóknun á kaupum starfsmanna á hlutabréfum í bankanum. Lán skuli veitt til kaupanna og skuli þau vera í samræmi við kjör til bestu viðskiptavina bankans. Stjórn bankans skuli upplýst um lánveitingar til forstjóra og stjórnarformanns á næsta stjórnarfundi. Á fundinum var undirrituð stjórnarsamþykkt varðandi kaup lykilstarfsmanna á hlutabréfum bankans og fjármögnun þeirra. Kynning á kaupréttaráætlun Kaupþings banka hf., sem kynnt var á stjórnarfundinum 28. september 2005, er á meðal gagna málsins. Að því er fjármögnun kaupréttar varðar er tekið fram í kynningunni að kauprétturinn skuli fjármagnaður af bankanum. Ákveði starfsmaður að halda bréfum í bankanum geti myndast tekjuskattskrafa vegna mismunar á því verði sem hlutabréfin væru keypt á og söluverði þeirra, sem myndi miða við markaðsgengi. Fjármögnun af hálfu bankans nái jafnframt til þessara skattkrafna. 

Afrit stjórnarfundargerðar Kaupþings banka hf. frá 26. apríl 2006 er á meðal gagna málsins. Undir umfjöllun um starfskjaranefnd er tekið fram að formaður starfskjaranefndar hafi farið yfir kaup forstjóra og stjórnarformanns á hlutabréfum í bankanum og fjármögnun bankans á kaupum. Forstjóri hafi stofnað einkahlutafélag í tengslum við fjárfestingar sínar í bankanum. Forstjóra hafi verið heimilað að halda utan um hlutabréfaeign sína í bankanum í einkahlutafélaginu.

Samkvæmt tilkynningu Kaupþings banka hf., 6. ágúst 2008, um viðskipti fruminnherja, sem birtist í Kauphöll þann dag, tilkynnti bankinn um að forstjóri og stjórnarformaður hafi þann dag, hvor um sig, nýtt kauprétt að 812.000 hlutum í bankanum á genginu 303 krónur á hlut í samræmi við kaupréttaráætlun sem samþykkt hafi verið á aðalfundi bankans 27. mars 2004. Þá var tekið fram að forstjóri hefði framselt hlut sinn til einkahlutafélagsins Hreiðars Más Sigurðssonar.

Í gögnum málsins er afrit af ráðningarsamningi ákærða, Hreiðars Más, við Kaupþing Búnaðarbanka frá 27. mars 2004. Samkvæmt ákvæði 3.5 í samningnum átti ákærði kauprétt að 812.000 hlutum í bankanum árlega næstu 5 árin. Skyldi bankinn lána ákærða fyrir hlutabréfakaupunum. Þá liggur fyrir í gögnum málsins afrit af ráðningarsamningi ákærða við Kaupþing banka hf. frá 18. desember 2006. Samkvæmt ákvæði 3.3. í ráðningarsamningi átti ákærði kauprétt að hlutabréfum í bankanum, í samræmi við kaupréttaráætlun sem samþykkt var í stjórn bankans í mars 2004. Kauprétturinn miðar við 812.000 hluti á ári til og með árinu 2008.

Á meðal gagna málsins er lánssamningur á milli Kaupþings banka hf., sem lánveitanda, og ákærða Hreiðars Más, sem lántaka, dagsettur 11. ágúst 2008. Ákærði ritar undir samninginn en F ritar undir fyrir hönd bankans. Lánsfjárhæðin er 574.520.955 krónur. Tekið er fram að lánið sé veitt til fjármögnunar kaupa á hlutabréfum. Til tryggingar greiðslu skuldarinnar setti lántaki bankanum að handveði hluti í Kaupþingi banka hf. í eigu lántaka, alls 8.047.239 hluti, samanber handveðsyfirlýsingu frá 4. maí 2006 og viðauka við hann frá 27. nóvember 2006 og 23. mars 2007.  

Fjöldi tölvupóstsamskipta innan Kaupþings banka hf. er á meðal málsgagna. Þar á meðal eru póstar sem sýna samskipti milli starfsmanna sem tengjast lánveitingu bankans til ákærða, Hreiðars Más, í tilefni af því að ákærði nýtir kauprétt sinn í bankanum í ágúst 2008. Gerð verður grein fyrir þeim helstu hér. Að morgni miðvikudagsins 6. ágúst 2008 sendi B, sérfræðingur í lánastýringu á fyrirtækjasviði, tölvupóst til ákærðu Z fjármálastjóra og D, framkvæmdastjóra útlána, með afriti til A, aðstoðarmanns forstjóra, og  L, um að ákærði, Hreiðar Már, hafi óskað eftir því að taka ádráttarlán, samtals að fjárhæð 270 milljónir króna, til greiðslu skatta. Yfirskrift þessa tölvupóstar er ,,HMS – nýtt lán“. B spyr hvaða kjör eigi að vera á láninu. Ákærða, Z, svarar þessum pósti sama dag með ábendingu um hvaða álag hafi verið á síðasta láni. B svarar þessum pósti sama dag með upplýsingum um lánstíma á síðasta láni til ákærða, álag og lántökugjald. Hún tekur fram að veðþekjan sé nú 107% en ef allur ádrátturinn 270 milljónir yrði nýttur yrði veðþekjan 101% miðað við gengi dagsins. B sendir póst í lok þessa dags með þessari sömu yfirskrift með þeim skilaboðum að hún verði í fríi næsta dag og að L skuli upplýst um kjörin.

Næsti tölvupóstur er tengist lánveitingu til ákærða er frá 20. ágúst 2008. Þann dag sendir aðstoðarmaður forstjóra tölvupóst til Bar og spyr hvort það hafi verið komin staða á málinu fyrir ákærða. Yfirskrift þessa tölvupósts er ,,HMS/lán“. Væri hún byrjuð að hafa áhyggjur af því hvort málið yrði komið í höfn 29. þegar hún þyrfti að greiða ,,fyrstu greiðsluna“. B framsendir þennan tölvupóst til ákærðu, Z, og framkvæmdastjóra útlána og spyr hvort þau hafi verið búin að taka ákvörðun um hver kjörin ættu að vera. Framkvæmdastjóri útlána svarar þessum tölvupósti sama dag með tilmælum um kjör. Næsta dag, eða 21. ágúst 2008, sendir B tölvupóst á ákærðu, Z, og framkvæmdastjóra útlána með tillögu að kjörum miðað við fjárhæð lánsins 270 milljónir króna. Er yfirskrift þessa tölvupósts ,,HMS ehf. lán“. Spyr hún hvort þau séu sammála þessum kjörum. Þennan sama dag sendi ákærða, Z, tölvupóst til N innan Kaupþings banka hf., með afriti á Bu, vegna lánssamnings tengdum kauprétti ákærða Hreiðars Más og stjórnarformanns bankans. Yfirskrift þessa tölvupósts er ,,viltu greiða fyrir mig“. Er tekið fram að fjárhæðin verði að greiðast í dag vegna ,,value mála“. Fjárhæð lánsins til ákærða persónulega og vegna viðskipta við einkahlutafélag hans er sagt vera 571.648.350 krónur. Næsta dag, eða 22. ágúst 2008, sendir B aftur tölvupóst á ákærðu, Z, með afriti á framkvæmdastjóra útlána, og spyr hvort hún megi setja lánið inn miðað við þær forsendur er hún hafi áður nefnt. Tölvupóstinn sendir hún fyrir hádegi og er pósturinn hluti samskipta undir yfirskriftinni ,,HMS ehf. lán“. Þennan sama dag, eftir hádegið, sendir B tölvupóst til ákærðu, Z, og framkvæmdastjóra útlána, sem er svar við pósti: ,,viltu greiða fyrir mig“, þar sem hún segir að það væri fínt að fá kjörin svo hún geti gengið frá skjalagerð og sett lánið inn í kerfið. 

B sendi tölvupóst 28. ágúst 2008 til ákærðu, Z, og framkvæmdastjóra útlána, sem svar við tölvupóstum undir yfirskriftinni ,,HMS-SE“ þar sem lán til ákærða, Hreiðars Más, er sagt vera að fjárhæð 571.648.350 krónur, með nánar tilgreindum kjörum. Segir hún að sig vanti upplýsingar um fjölda hluta og hvort bæta eigi lántökugjaldi við höfuðstól. Lán þurfi að vera komið inn í kerfið fyrir mánaðamót. Næsta dag, eða 29. ágúst 2008, sendi B tölvupóst til E innan Kaupþings banka hf., með afriti til ákærðu Z og framkvæmdastjóra útlána, með yfirskriftinni ,,HMS – SE“ þar sem B biður E um að útbúa lánasamninga á ákærða, Hreiðar Má, og stjórnarformann bankans í samræmi við upplýsingar sem komi fram í tölvupóstinum að neðan. Er um að ræða lánsfjárhæðina 571.648.350 krónur að því er ákærða, Hreiðar Má, varðar. E svarar að vörmu spori og segist gera það. Ákærða, Z, sendir svar í kjölfarið til B og E, með afriti á framkvæmdastjóra útlána, að um 812.000 hluti sé að ræða. Ákærða spyr E og B þá í tölvupósti hvort þetta fari inn í kerfið í dag. B svarar því, í beinu framhaldi, játandi og bætir við, í tölvupósti stuttu síðar, að samningurinn eigi að vera á ,,Hreiðar…..ehf.“. 

Aðstoðarmaður forstjóra sendi tölvupóst, 6. ágúst 2008, til starfsmanns innan Kaupþings banka hf. með yfirskriftinni ,,HMS/skattar“. Í tölvupóstinum segir ,,Muna“. Þann 6. ágúst 2008 svarar starfsmaðurinn þessum tölvupósti þannig að greiðslur séu í öllum tilvikum við lok mánaðar. Tilteknir eru mánuðirnir ágúst til og með desember og fjárhæðin liðlega 45 milljónir fyrir hvern mánuð. Aðstoðarmaður forstjóra sendi annan tölvupóst, 1. ágúst 2008, til annars starfsmanns innan Kaupþings banka hf., sem ber yfirskriftina ,,HMS/eindagi er 29. ágúst“. Lýsir aðstoðarmaðurinn því að hún ætli ekki að greiða þetta núna því eindagi sé 29. ágúst. Hún nái örugglega að ganga frá láninu áður og því sé yfirdráttar ekki þörf í bili. Ætli þó að hafa starfsmanninn sér til aðstoðar til öryggis þegar að greiðslu komi. Starfsmaðurinn svarar sama dag og segir að þau verði í sambandi. Þennan sama dag sendir aðstoðarmaðurinn ákærða, Hreiðari Má, tölvupóst um að hún borgi þetta á síðasta degi. 

Miðvikudaginn 6. ágúst 2008 sendi forstjóri Kaupþings á Íslandi hf. tölvupóst á regluvörð Kaupþings banka hf., með afriti á ákærðu, Z, um að ákærði, Hreiðar Már, og stjórnarformaður Kaupþings banka hf. hafi komið að máli við sig og sagt að þeir ætluðu að nýta árlegan kauprétt sinn þennan dag. Þurfi regluvörðurinn að aðstoða þá við að gera ,,allt rétt“, sem og að senda út viðeigandi tilkynningar. Eigi regluvörðurinn að fara vel yfir þetta og leita til ákærðu, Z. Regluvörður bankans sendi í kjölfarið tölvupóst þennan sama dag á ákærða, Hreiðar Má, og stjórnarformann bankans. Lýsir regluvörðurinn fyrir þeim hvernig ferlið sé. Þeir þurfi að senda beiðni til regluvarðar um nýtingu kauprétta, regluvörður veiti heimildina. Þegar heimildin hafi verið veitt geti nýting kauprétta farið fram, en nýtingin hafi eftir bestu vitund regluvarðar ávallt farið í gegnum ákærðu, Z. Að viðskiptunum loknum beri ákærða og stjórnarformanni að senda regluverði tölvupóst sem sjái um að koma tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins. Þennan sama dag sendi regluvörður ákærða, Hreiðari Má, tilkynningu um að regluverði sé ekki kunnugt um að innan bankans liggi fyrir innherjaupplýsingar og sé því veitt heimild til umbeðinna viðskipta með hluti í Kaupþingi banka hf. 

Á meðal rannsóknargagna málsins er hljóðritað símtal frá 6. ágúst 2008 þar sem ákærði, Hreiðar Már, ræðir við forstöðumann hlutabréfamiðlunar Kaupþings banka hf. Ákærði biður forstöðumanninn um að afgreiða ein viðskipti fyrir sig í Kaupþingi banka hf. Hefði ákærði viljað selja 812.000 hluti í bankanum á síðasta viðskiptaverði. Kaupandi væri Hreiðar Már Sigurðsson ehf. Sé ákærði að nýta sér síðustu kauprétti sína sem hann hafi fengið 2004. Kaupi ákærði bréfin í eigin nafni en selji á markaðsgengi dagsins.    

PriceWaterhouseCoopers vann greinargerð 1. nóvember 2010 fyrir lögreglu um lánveitingar til ákærða, Hreiðars Más, í tengslum við innlausn kaupréttar hans á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Fram kemur að ákærði hafi átt umtalsverð viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. og ekki einungis í tengslum við nýtingu kauprétta í samræmi við kaupréttarsamning. Á fundi stjórnar bankans, 28. september 2005, hafi stjórn bankans ákveðið að starfsmenn skyldu fjármagna öll hlutabréfakaup sín í Kaupþingi banka hf. hjá bankanum sjálfum. Í samræmi við þessa ákvörðun hafi ákærði, 1. desember 2005, endurfjármagnað öll hlutabréfakaup sín í bankanum með undirritun lánssamnings nr. 3010. Fjárhæð lánsins hafi numið 816.832.706 krónum. Á fundi stjórnar Kaupþings banka hf., 26. apríl 2006, hafi verið fjallað um lánveitingar til ákærða vegna hlutabréfakaupa í bankanum. Hafi stjórn ákveðið að veita ákærða lán að fjárhæð 500 milljónir króna vegna nýtingar kaupréttar 2006. Samhliða hafi verið ákveðið að veita ákærða allt að einum milljarði króna til að fjármagna hlutabréfakaup á næstu 12 mánuðum. Á sama fundi var ákveðið að heimila ákærða að stofna einkahlutafélag í þeim tilgangi að halda utan um hlutabréfaeign sína í Kaupþingi banka hf. ásamt skuldbindingum sem því tengdust. Ákærði hafi, 3. maí 2006, keypt 2.624.000 hluti í bankanum. Í framhaldi hafi ákærði flutt hlutina í nýstofnað einkahlutafélag sitt. Næsta dag hafi verið gengið frá lánssamningi við félagið. Andvirði lánsins hafi verið notað til að greiða upp lánssamning ákærða nr. 3010. Ákærði hafi, 22. nóvember 2006, keypt eina milljón hluta í Kaupþingi banka hf. og hafi einkahlutafélagi hans verið veitt lán fyrir kaupunum að fjárhæð 792.845.742 krónur. Ekki verði séð að ákvörðun um kaup og lánveitingu hafi verið tekin fyrir sérstaklega í stjórn bankans eða lánanefndum hans. Ákærði hafi, 22. mars 2007, keypt 812.000 hluti í samræmi við kauprétt sinn. Næsta dag hafi hlutirnir verið færðir yfir í einkahlutafélag ákærða. Félaginu hafi verið veitt lán fyrir kaupunum að fjárhæð 247.641.202 krónur.

Þann 28. ágúst 2007 hafi einkahlutafélagi ákærða verið veitt lán að fjárhæð 3.616.556.730 krónur til endurfjármögnunar á áður teknum lánum. Ekki verði séð að ákvörðun um endurfjármögnun og lánveitingu hafi verið tekin sérstaklega fyrir í stjórn eða lánanefndum bankans. Sama dag hafi einkahlutafélagi ákærða verið veitt yfirdráttarlán að fjárhæð 360.000.000 krónur vegna greiðslu persónulegra skatta fyrir ákærða. Ætla megi að stór hluti þeirrar skattskuldar hafi verið tilkomin vegna yfirfærslu eignarhluta ákærða til einkahlutafélags síns á árinu 2006 þar sem markaðsverð hafi verið mun hærra en kaupverðið. Ekki verði séð að þessi ákvörðun um lánveitingu hafi verið tekin sérstaklega fyrir í stjórn eða lánanefnd bankans. Ákærði hafi keypt 812.000 hluti í bankanum 6. ágúst 2008 í samræmi við kaupréttarsamning. Einkahlutafélag ákærða hafi keypt hlutabréfin samdægurs á markaðsgengi. Veitt hafi verið lán fyrir kaupunum alls að fjárhæð 571.648.350 krónur. Kaupverð samkvæmt kaupréttarsamningi, að viðbættum kostnaði, hafi numið 246.774.458 krónum. Ekki verði séð að samþykki lánanefnda bankans hafi legið fyrir í þessu tilviki önnur en þau fyrirmæli stjórnar að fjármagna hlutabréfakaup starfsmanna.   

 

Skýrslur fyrir dómi

Ákærði, Hreiðar Már Sigurðsson, var forstjóri Kaupþings banka hf. fram að falli bankans í október 2008. Ákærði lýsti því að kaupréttarstefna fyrir lykilstarfsmenn hafi verið innan bankans. Á stjórnarfundi í bankanum hafi verið tekin ákvörðun um að ákærði og stjórnarformaður bankans gætu árlega keypt ákveðinn fjölda hluta í bankanum. Jafnframt hafi stjórn ákveðið að lánað skyldi fyrir þessum kaupum. Eins hafi verið ákveðið að lánið yrði ekki einungis fyrir kaupverðinu heldur einnig vegna skatta sem á myndu leggjast þegar bréfin yrðu seld aftur á markaðsgengi, en þá var gert ráð fyrir að verulegur skattskyldur söluhagnaður hefði myndast. Í ráðningarsamningum ákærða við bankann frá árunum 2004 og 2006 hafi þessi kaupréttur komið fram og lánveiting bankans við það tilefni. Starfskjaranefnd bankans hafi verið eins konar framlenging stjórnar í kaupréttarmálum.  

Ákærði kvaðst í starfi sínu m.a. hafa haft það hlutverk að hafa umsjón með kaupréttarstefnu bankans gagnvart starfsmönnum bankans. Á árinu 2006 hafi hann stofnað einkahlutafélagið Hreiðar Már Sigurðsson. Hafi félagið verið stofnað til að halda utan um og fara með hluti ákærða í Kaupþingi banka hf. Stjórn bankans hafi heimilað það á árinu 2006 með sérstakri stjórnarsamþykkt. Sama ár og félagið hafi verið stofnað hafi ákærði fært alla hluti sína í Kaupþingi banka hf. inn í þetta félag. Hafi ákærði talið betra að hafa hlutina í sérstöku félagi heldur en að eiga þá í eigin nafni. Inn í það hafi m.a. spilað skattamál. Eini tilgangur félagsins hafi verið að halda utan um þennan eignarhlut. Enginn rekstur hafi verið í félaginu. Hafi ákærði ekki tekið nein laun út úr því eða arð. Hlutir hafi aldrei verið seldir út úr þessu félagi þar sem bann við framsali þessara hluta hafi verið í ráðningarsamningum ákærða. Hafi félagið verið með bankareikning í Kaupþingi banka hf. Ástæða þess hafi verið sú að ekki hafi verið unnt að stofna verðbréfareikning nema bankareikningur væri að baki. Kaupþing banki hf. hafi lánað fyrir kaupum á hlutabréfum er ákærði hafi nýtt kauprétt sinn. Haldinn hafi verið stjórnarfundur í Kaupþingi banka hf., 30. júlí 2008. Hafi ákærði setið fundinn. Umfjöllun um nýtingu kaupréttar ákærða hafi ekki komið til umræðu á fundinum. Ástæða þess hafi verið sú að ákærði hafi áður verið búinn að gera samning um þennan kauprétt og stjórn samþykkt hann. Engin ástæða hafi því verið til að fjalla um það atriði aftur. Bankinn hafi frá árinu 2005 verið með sérstaka kaupréttarstefnu sem lögð hafi verið fyrir á stjórnarfundi það ár. Þegar kaupréttur hafi verið nýttur hafi bankinn þurft að fjármagna mismun á kaupréttargengi og markaðsgengi. Ákærði kvaðst hafa fengið lán hjá Kaupþingi banka hf. þegar hann hafi nýtt sér kauprétt sinn í ágúst 2008. Lánið hafi numið hærri fjárhæð en hann hafi þurft að greiða fyrir bréfin. Ástæða þess hafi verið sú að við söluna til einkahlutafélagsins á markaðsgengi hafi myndast skattskyldur hagnaður hjá ákærða. Sala á markaðsgengi hafi verið það eina sem komið hafi til greina. Skattyfirvöld og Kauphöll hefðu aldrei tekið annað í mál. Að öðrum kosti hafi röng skilaboð verið send út á markaðinn. Hafi bankinn verið búinn að ákveða að lána líka fyrir þessum skattskylda hagnaði, sem numið hafi verulegum fjárhæðum. Það hafi verið nauðsynlegur hluti kaupréttarkerfisins, þar sem ella hefðu starfsmenn lent í skattskuld sem gert hafi kaupréttarkerfið að engu. Sú fjárhæð sem ákærði hafi fengið lánaða í ágúst 2008 og verið hafi umfram kaupverð hlutabréfanna hafi öll farið í að greiða skattskuldir ákærða. Ákærði hafi á árinu 2007 fengið lánafyrirgreiðslu hjá Kaupþingi banka hf. til að greiða skattskuldir sem myndast hafi við yfirfærslu á hlutabréfum hans í Kaupþingi banka hf. á árinu 2006 yfir til einkahlutafélags síns. Við þá yfirfærslu hafi myndast töluverður skattskyldur söluhagnaður þar sem bréfin hafi verið seld yfir á markaðsverði. KPMG hafi tekið saman yfirlit um skattkröfur sem hafi myndast gagnvart ákærða á árunum 2005 til 2008 vegna nýtingar ákærða á kauprétti í Kaupþingi banka hf. og sölu hans á eignarhlutum til einkahlutafélagsins Hreiðars Márs Sigurðssonar. Samtals hafi ákærði greitt í tekjuskatt, útsvar og fjármagnstekjuskatt 752.004.584 krónur, á árunum 2006 til 2009, vegna innleystra kauprétta og sölu á eignarhlutum í Kaupþingi banka hf., á árunum 2005 til 2008. Stjórn Kaupþings banka hf. hafi verið vel upplýst um stöður þeirra lána sem bankinn hafi veitt ákærða, en tekin hafi verið ákvörðun um að stjórn skyldi haldið upplýstri á stjórnarfundi um lánastöður lykilstarfsmanna. Bréf innri endurskoðanda Kaupþings banka hf., frá 26. febrúar 2014, til Embættis sérstaks saksóknara varðandi gagnabeiðni lýsi því hvernig innri endurskoðandi hafi haldið stjórn upplýstri um stöður lána ákærða. Ákærði kvaðst ekki vita af hverju bankinn hafi veitt ákærða eitt lán í ágúst 2008 bæði fyrir kauprétti og skattskuldum. Allt eins hafi komið til greina að veita ákærða ádráttarlán fyrir skattskuldinni. Ákærði hafi ekki tekið ákvörðun um eða vitað af því að þetta yrði eitt lán. Fundargerðir stjórnar Kaupþings banka hf., frá 25. og 26. september 2008, beri með sér að stjórn bankans hafi verið upplýst um stöður lána ákærða, en tekið sé fram að lán ákærða séu í lagi. Í ágúst 2008 hafi ákærði viljað virkja kaupréttinn sinn. Hann hafi látið í ljós þá ósk innan bankans til að málið færi af stað. Samtal við verðbréfamiðlara hafi verið vegna þess. Hann hafi ekki haft neina aðkomu að lánveitingu því tengdu innan bankans eftir að hann hafi gert það. Hafi hann ekki komið neitt að lánveitingunni eða tekið neinar ákvarðanir varðandi hana.  

Ákærði kvaðst hafa verið eini stjórnarmaður í einkahlutafélaginu Hreiðar Már Sigurðsson. Hafi hann því, eðli málsins samkvæmt, verið með allar sömu upplýsingar og ákærði persónulega þegar hann hafi selt hlutabréfin inn í einkahlutafélagið. Gæti ekki verið um innherjasvik þegar slík staða væri uppi að seljandi og kaupandi væri í raun sami einstaklingurinn. Ákærði kvaðst þekkja vel reglur um innherjaviðskipti. Ef tveir lögaðilar í eigu sama aðila ættu viðskipti sín á milli og byggju þar með yfir sömu upplýsingum, gæti það ekki flokkast undir að vera innherjasvik. Hafi Fjármálaeftirlitið lýst yfir sömu skoðun á samstarfsfundi Fjármálaeftirlitsins og Kauphallarinnar, 3. maí 2006.    

Ákærða, Z, var fjármálastjóri fyrir Kaupþing samstæðuna og sá um bókhald og uppgjör fyrir hana. Ákærða kvaðst hafa verið í fríi í byrjun ágúst 2008 þegar meðákærði, Hreiðar Már, hafi ákveðið að nýta kauprétt sinn í bankanum. Hafi ákærða ekki komið til baka úr fríi fyrr en 20. ágúst 2008. Hún hafi þó í fríinu verið í tölvupóstsamskiptum við starfsmenn bankans. Ákærða kvaðst ekki hafa komið að lánveitingu í tilefni af nýtingu kaupréttarins og vegna skattskulda ákærða eða tekið neina ákvörðun þar að lútandi. Stjórn Kaupþings banka hf. hafi á stjórnarfundi verið búin að heimila lánveitingar vegna kaupanna og tilheyrandi skattskulda. Hafi þættir eins og veðþekja tengd lánveitingunni ekki komið inn á borð ákærðu. Ýmis tölvupóstsamskipti hafi gengið á milli starfsmanna tengd lánveitingunni og ákærða verið hlutaðeigandi í sumum þeirra. Skýra hafi þurft einstök atriði við útfærsluna. Engin samskipti hafi verið höfð við meðákærða um lánveitinguna eða útfærsluna. Þá hafi ákærða ekki þekkt hver hafi tekið ákvarðanir um fjárhæðir í lánveitingunum. Að því er varðaði lánveitinguna 6. ágúst 2008 hafi það verið ákvörðun stjórnar að veita slíkt lán og formaður starfskjaranefndar tekið ákvarðanir um fjárhæðir í umboði stjórnar bankans. Ákærða kvaðst hafa verið á stjórnarfundi í Kaupþingi banka hf. 25. og 26. september 2008. Á fundinum hafi formaður starfskjaranefndar farið yfir stöðu lánamála æðstu stjórnenda bankans.

Vitnið, A, var aðstoðarmaður forstjóra Kaupþings banka hf. Kvaðst vitnið muna eftir að hafa verið milliliður þegar ákærði, Hreiðar Már, hafi óskað eftir því að taka lán innan bankans vegna skattskulda sinna í tilefni af nýtingu kaupréttar innan bankans. Hafi verið um að ræða ádráttarlán vegna skattskuldanna. Kynni að vera að vitnið hafi borið áfram ósk ákærða um lánveitinguna.

Vitnið, G, var forstöðumaður hlutabréfamiðlunar Kaupþings banka hf. Kvaðst vitnið kannast við að ákærði, Hreiðar Már, hafi hringt í sig, 6. ágúst 2008, vegna sölu á hlutabréfum samkvæmt kauprétti yfir í einkahlutafélag sitt. Hafi vitnið framkvæmt þessi verðbréfaviðskipti. Vitnið hafi ekki velt fyrir sér hvernig fjármögnun viðskiptanna hafi verið háttað.

Vitnið, B, starfaði sem sérfræðingur á fyrirtækjasviði Kaupþings banka hf. Hluti af starfi vitnisins hafi verið að undirbúa skjöl vegna lánsviðskipta einkahlutafélags ákærða, Hreiðars Más, gagnvart bankanum. Samkvæmt gögnum málsins hafi vitnið haft upplýsingar um veðþekju lána ákærða, Hreiðars Más. Vitnið viti ekki hvaðan þær upplýsingar hafi komið né myndi það eftir því að ákærði, Hreiðar Már, hafi komið að lánveitingunni til hans, 8. ágúst 2008, tengdri kauprétti hans. 

Vitnið, J, var forstjóri Kaupþings á Íslandi hf. Vitnið kvaðst ekki muna sérstaklega eftir því þegar ákærði, Hreiðar Már, hafi nýtt kauprétt sinn á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. í ágúst 2008. Kannaðist vitnið þó við að hafa sent tölvupóst til regluvarðar bankans í tilefni af því að ákærði hafi lýst því yfir að hann vildi nýta kauprétt sinn. Ekki væri vitninu ljóst hvort stjórn bankans hafi vitað af þeim áformum ákærða. Sala til lykilstjórnenda hafi verið tilkynnt Kauphöll og hefðu því alltaf fréttir farið í loftið. Vitnið kvaðst hafa komið að viðskiptum af þessu tagi þegar lykilstjórnendur hafi nýtt kauprétt sinn. Í svonefndu STM skjali hafi verið haldið utan um hlutabréfaeign lykilstjórnenda í bankanum. Í ágúst 2008 hafi staðan almennt ekki verið góð því margir starfsmenn hafi verið komnir í vandræði vegna þessarar eignar sinnar þar sem lán að baki kaupum hafi verið orðin hærri en virði hlutabréfanna. Vitnið hafi aldrei komið að lánveitingum gagnvart kaupum samkvæmt kauprétti.

Vitnið, I, var innri endurskoðandi Kaupþings banka hf. Sem innri endurskoðandi hafi vitnið ekki haft umsjón með lánveitingum bankans. Innri endurskoðun hafi beint sjónum sínum að framlínu bankans en síður að stjórnendum og stjórn bankans. Ekki hafi vitnið haft aðkomu að lánveitingu til ákærða 8. ágúst 2008. Á stjórnarfundi 25. og 26. september 2008 hafi vitnið kynnt fyrir stjórn bankans stöðu lána til lykilstarfsmanna bankans.   

Vitnið, F, sat í stjórn Kaupþings banka hf. í ágúst 2008 og var formaður starfskjaranefndar bankans. Það hafi komið í hlut vitnisins, sem formanns starfskjaranefndar, að semja um laun við ákærða, Hreiðar Má, og stjórnarformann bankans. Kaupréttarkerfi fyrir lykilstjórnendur bankans hafi verið samþykkt í stjórn bankans. Þá hafi verið samþykkt í stjórn að ákærði, Hreiðar Már, mætti vera með eignarhlut sinn í bankanum í einkahlutafélagi. Vitnið hafi ekki litið svo á að í starfi þess sem formanns starfskjaranefndar hafi falist umboð til að samþykkja einstakar lánveitingar. Vitnið hafi því ekki komið að því að samþykkja lánveitinguna til ákærða í ágúst 2008. Kaupréttaráætlunin hafi verið samþykkt í stjórn 28. september 2005. Ákveðið hafi verið að starfsmenn skyldu einungis fá lán frá Kaupþingi banka hf. til hlutabréfakaupanna. Afleiðing af kauprétti starfsmanna hafi verið ákvörðun um að lána einnig fyrir tekjuskatti sem myndast hafi vegna kaupanna vegna mismunar á gengi við sölu. Rík áhersla hafi verið lögð á í stjórn bankans að starfsmenn yrðu ekki fyrir tjóni vegna nýtingar kaupréttarins. Á árinu 2007 hafi ákærði, Hreiðar Már, fengið ádráttarlán til að standa skil á tekjuskatti við yfirfærslu eigna sinna í bankanum til einkahlutafélags síns. Hafi stjórn bankans verið upplýst um stöðu lána ákærða gagnvart bankanum. Vitnið hafi verið með kynningu á stöðu lána lykilstjórnenda á stjórnarfundi í bankanum 25. og 26. september 2008. Á þessum tíma hafi verið uppi áhyggjur af stöðu lykilstjórnenda vegna þess hve lán voru há gagnvart verðmæti hlutabréfa. Áhyggjur af þeim toga hafi ekki verið uppi varðandi ákærða, Hreiðar Má. Vitnið kannaðist við að hafa undirritað lánsskjal í ágúst 2008 fyrir hönd bankans varðandi lánið til ákærða. Vitnið myndi ekki eftir tilvikinu sem slíku en almennt hafi ekki verið í verkahring þess að undirrita slík skjöl. 

Vitnið, K, var yfirlögfræðingur Kaupþings banka hf. Þá var vitnið ritari stjórnar bankans frá árinu 2002 fram að falli bankans í október 2008. Í vætti þess kom fram að á stjórnarundi í bankanum, 28. september 2005, hafi kaupréttaráætlun fyrir lykilstarfsmenn verið samþykkt. Ákveðið hafi verið að kaupréttur starfsmanna yrði fjármagnaður af Kaupþingi banka hf. Svo hafi verið litið á að með þessari stjórnarsamþykkt hafi ekki þurft frekara samþykki innan bankans varðandi kaupréttinn og lánveitingar honum tengdar. Lánveitingin til ákærða, Hreiðars Más, í ágúst 2008 hafi ekki farið fyrir stjórn bankans þar sem fyrir hafi legið ákvörðun um það frá því á stjórnarfundi 2005. Starfsmennirnir hafi átt að vera skaðlausir af þessum viðskiptum. Á stjórnarfundi 26. apríl 2006 hafi ákærða, Hreiðari Má, verið heimilað að halda utan um hlutabréfaeign sína í bankanum í gegnum einkahlutafélag. Þar sem skattakvöð hafi komið í kjölfar nýtingar kaupréttar við yfirfærslu yfir í einkahlutafélag hafi legið fyrir ákvörðun um að bankinn myndi einnig lána fyrir þeim skattskuldbindingum. Ákveðið hafi verið að starfskjaranefnd bankans myndi halda utan um upplýsingar um lán til forstjóra bankans og stjórnarformanns. Hafi upplýsingar um lánveitingar verið lagðar fyrir stjórn bankans í upplýsingaskyni. Eins hafi innri endurskoðandi farið reglulega yfir stöður starfsmanna og haldið utan um upplýsingar um það. Formaður starfskjaranefndar hafi undirritað ráðningarsamninga við forstjóra og stjórnarformann. Eins hafi hann undirritað lánssamninga til þeirra fyrir hönd bankans. Lánveitingin hafi verið hluti af starfskjörum. Gengið hafi verið út frá því að starfskjaranefnd myndi annast málin gagnvart æðstu stjórnendum. Í því ljósi hafi ekki verið óeðlilegt að formaður starfskjaranefndar ritaði undir lánssamninga vegna nýtingar kauprétta. Ákærða, Hreiðari Má, hafi ekki sem forstjóra, verið heimilt að skipta sér af lánveitingunni fyrir hönd lánveitanda. Ákærði hafi ávallt vikið af stjórnarfundum í bankanum þegar hans mál hafi verið til umræðu. Á stjórnarfundi 26. september 2008 hafi verið fjallað um starfskjaranefndina. Þar hafi komið fram það álit að lán til ákærða, Hreiðars Más, og stjórnarformanns væru í góðu lagi, eða ,,in good order“. Fleiri en ákærði, Hreiðar Már, innan bankans hafi stofnað einkahlutafélög til að halda utan um eignarhlut sinn í bankanum. Aldrei hafi komið til umræðu að sala frá starfsmönnum til einkahlutafélaga í þeirra eigu gætu flokkast sem innherjasvik.

Vitnið, X,var stjórnarformaður Kaupþings banka hf. frá því á árinu 2003 allt til í október 2008. Á stjórnarfundi í Kaupþingi banka hf., 28. september 2005, hafi verið samþykkt kaupréttaráætlun innan bankans fyrir æðstu stjórnendur. Bankinn hafi lánað starfsmönnum fyrir kaupum á hlutabréfum samkvæmt áætlun og hafi formaður starfskjaranefndar gert grein fyrir áætluninni. Fram hafi komið að stjórn bankans skyldi tilkynnt um nýtingu kaupréttar á næsta fundi þar á eftir. Þar sem búið hafi verið að samþykkja að bankinn myndi fjármagna kaupréttinn hafi ekki þurft að samþykkja einstakar lánveitingar neitt frekar. Yfirlit um lánin hafi verið lögð fyrir næsta stjórnarfund á eftir til upplýsingar. Á stjórnarfundi 26. apríl 2006 hafi verið fjallað um lánveitingar til ákærða Hreiðars Más og vitnisins. Hafi annars vegar verið um að ræða lán vegna kauparéttarins og hins vegar lán vegna hlutabréfaaukningar í bankanum. Þá hafi ákærða Hreiðari Má verið heimilað að halda utan um hlutabréfaeign sína í bankanum í gegnum einkahlutafélag. Við þá yfirfærslu hafi myndast skattskuldbinding, sem fallið hafi undir þá fjármögnun sem bankinn hafi verið búinn að heimila og standa fyrir. Það hafi komið fram í kaupréttaráætluninni sjálfri. Vitnið hafi í ágúst 2008 nýtt sér kauprétt sinn. Stjórn bankans hafi verið upplýst um það. Í fundargerð stjórnar frá fundi 25. til 26. september 2008 hafi verið upplýst um lán til ákærða, Hreiðars Más, og sagt að lán til ákærða væru í góðu lagi. Hlutverk starfskjaranefndar bankans hafi verið að móta kjarastefnu innan bankans. Hafi nefndin átt að framfylgja því hlutverki í umboði stjórnar. Ekki kæmi á óvart að formaður starfskjaranefndar hafi fyrir hönd bankans ritað undir lánssamninginn frá í ágúst 2008 gagnvart ákærða, Hreiðari Má.     

Vitnið, M, sat í stjórn Kaupþings banka hf. frá í mars 2008 þar til í október 2008 og var á þeim tíma varaformaður. Á árinu 2005 hafi verið samþykkt að veita lykilstjórnendum í bankanum kauprétt að hlutabréfum í bankanum. Hlutverk starfskjaranefndar hafi verið að semja við forstjóra og stjórnarformann um kaup og kjör. Ákærði, Hreiðar Már hafi í ágúst 2008 nýtt sér kauprétt sinn að hlutabréfum. Það hafi komið fram á stjórnarfundi í september 2008. Ekki hafi komið til tals að bóka sérstaklega um lánveitingu vegna nýtingar kaupréttarins. Á fundinum hafi komið fram áhyggjur vegna stöðu lána margra starfsmanna. Bókað hafi verið að engar áhyggjur væru vegna stöðu lána ákærða, Hreiðars Más. Í kaupréttaráætlun bankans hafi verið mælt fyrir um að lánveitingar vegna kauprétta skyldu einnig ná til skattskuldbindinga sem kynnu að myndast vegna nýtinga kauprétta. Fyrir hafi legið að starfsmenn mættu ekki selja hluti sína í bankanum. Það hafi verið í samræmi við hlutverk formanns starfskjaranefndar að rita undir lánsskjöl vegna lánveitinga til ákærða, Hreiðars Más.    

 

Niðurstaða

I.

            Ákærða, Hreiðari Má, eru í I. kafla ákæru gefin að sök umboðssvik með því að hafa í ágúst 2008 misnotað aðstöðu sína og stefnt fé Kaupþings banka hf. í verulega hættu þegar hann hafi látið bankann veita einkahlutafélaginu Hreiðari Má Sigurðssyni, sem var í hans eigu og laut stjórn ákærða, eingreiðslulán að fjárhæð 574.520.995 krónur, án þess að fyrir lægi samþykki stjórnar bankans fyrir láninu og án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins. Í ákæru er á því byggt að láninu hafi verið ráðstafað til að fjármagna að fullu kaup einkahlutafélagsins af ákærða á 812.000 hlutum í bankanum 6. ágúst 2008 fyrir samtals 571.648.000 krónur en sömu hluti hafi ákærði keypt samkvæmt kauprétti á 246.036.000 krónur. Greiðsla sem numið hafi um það bil mismun greindra fjárhæða, eða 324.000.000 króna hafi runnið inn á bankareikning ákærða hjá Kaupþingi banka hf. og staðið ákærða til frjálsrar ráðstöfunar.

            Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Úr frávísunarkröfum var leyst á fyrri stigum undir rekstri málsins, enda ber að leysa úr kröfum um frávísun máls áður en til efnismeðferðar málsins kemur, sbr. 2. mgr. 159. gr. laga nr. 88/2008. Að því er sýknukröfu varðar byggja varnir ákærða einkum á því að ákærði hafi aldrei gefið fyrirmæli um lánveitingar til sjálfs sín eða félags í hans eigu, né hafi hann látið bankann veita slík lán. Meðferð lánamálanna hafi alfarið verið í höndum annarra starfsmanna bankans í umboði stjórnar. Ákærði hafi verið í hlutverki lántaka en ekki lánveitanda og af þeim sökum hafi hann ekki með nokkrum hætti komið að ákvörðun um lánveitingar. Hann hafi mátt treysta því að lánveitingar bankans vegna fjármögnunar kaupréttar hafi verið samþykktar af stjórn og í samræmi við þá stefnu sem stjórn bankans hafi mótað um framkvæmd kaupréttarstefnu bankans. Hafi hann hvorki verið í aðstöðu til að hafa eftirlit með ákvörðunum stjórnar um þetta efni né hafi honum borið skylda til slíks eftirlits, allra síst þegar hann hafi sjálfur verið í stöðu lántaka. Því sé haldið fram að lánveitingin til hans í ágúst 2008 hafi ekki verið samþykkt af stjórn bankans. Ekki verði annað séð en að stjórn bankans hafi samþykkt lánveitinguna, en lánið hafi verið undirritað af formanni starfskjaranefndar sem setið hafi í stjórn bankans. Hafi starfskjaranefnd haft umsjón með framkvæmd kaupréttarstefnunnar í umboði stjórnar. Ef formaður starfskjaranefndar hefði ekki haft umboð stjórnar væri ekki hægt að virða ákærða það til sakar. Ákærði hafi verið í hlutverki lántaka og ekki haft nokkra skyldu til að fylgja lánamálinu eftir innan bankans. Þá hafi ákærði með réttu mátt ganga út frá því að bankinn myndi veita lánið. Í ráðningarsamningi ákærða við bankann hafi komið fram að bankinn myndi fjármagna kauprétt ákærða. Ákærði hafi ekki borið ábyrgð á lánveitingunni væri það þannig að veðþekja einkahlutafélags ákærða væri komin niður fyrir tilskilin mörk samkvæmt reglubók bankans og ákvæðum lánssamnings. Þá verði að líta til þess að á stjórnarfundi, 28. september 2005, hafi verið sérstaklega tiltekið að bankinn gæti þurft að fjármagna greiðslur þeirra skattkrafna sem til stofnaðist hjá starfsmönnum við nýtingu kaupréttarins. Til að markmiðum kaupréttarstefnu bankans yrði náð hafi verið ljóst að fjármögnun af þeim toga þyrfti að koma til. Bankinn hafi á árinu 2007 veitt ákærða lán fyrir sköttum sem gjaldfallið hafi á því ári. Leggja verði til grundvallar að stjórn bankans hafi verið upplýst um þá lánveitingu og henni samþykk. Ætlun ákærða hafi verið að hafa sama háttinn á við greiðslu þeirra skuldbindinga sem féllu til á árinu 2008. Úr hafi orðið að útbúinn hafi verið einn lánssamningur í stað tveggja. Sú útfærsla hafi ekki verið að ósk ákærða eða samkvæmt fyrirmælum hans.  

            Aðalfundur Kaupþings Búnaðarbanka hf., 27. mars 2004, samþykkti kaupréttarstefnu fyrir bankann. Í fundargerð aðalfundar kemur fram að formaður starfskjaranefndar bankans hafi gert grein fyrir stefnunni og mikilvægi þess að þeir lykilstarfsmenn er nýttu kauprétt sinn bæru ekki fjárhagslega áhættu af kaupum á hlutafé. Fram kom að bankinn veitti starfsmönnum lán vegna kaupréttarins. Þennan sama dag var undirritaður ráðningarsamningur á milli bankans og ákærða. Í samningnum kemur fram að ákærða verði árlega boðinn kaupréttur í bankanum að 812.000 hlutum, næstu 5 árin. Tekið er fram að bankinn myndi lána ákærða fyrir kaupunum til að gera honum kleift að nýta kaupréttinn. 

Á fundi stjórnar bankans, 28. september 2005, var fjallað um kaupréttaráætlun bankans. Formaður starfskjaranefndar kynnti skýrslu nefndarinnar og framkvæmdastjóri áhættustýringar gerði grein fyrir kaupréttaráætluninni. Í þeirri umfjöllun kom fram að forstjóri og stjórnarformaður bankans ættu að fjármagna hlutabréfakaup í bankanum með lánum frá bankanum sjálfum. Í fundargerð stjórnar er tekið fram að þau kaup bæri að tilkynna stjórn bankans til upplýsingar á næsta fundi eftir kaupin. Þegar kaupréttaráætlunin var kynnt var sérstaklega vísað til þess að bankinn myndi einnig fjármagna þær skattkröfur sem kynnu að myndast við nýtingu söluréttarins.

            Á fundi stjórnar bankans, 26. apríl 2006, var samþykkt að veita ákærða heimild til að færa hlutabréfaeign sína í bankanum í einkahlutafélag. Á sama fundi var samþykkt að veita ákærða lán til fjármögnunar á kauprétti á um 812.000 hlutum í bankanum. Gerður var ráðningarsamningur á milli ákærða og Kaupþings banka hf., 18. desember 2006. Í þeim samningi er áframhaldandi kaupréttur ákærða staðfestur.

            Svo sem að framan er rakið lá fyrir allt frá árinu 2004 kaupréttur ákærða að hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Stjórn bankans hafði mælt fyrir um kaupréttinn og ákveðið að honum skyldu fylgja lán úr bankanum til hlutabréfakaupanna. Þá kynnti starfskjaranefnd stjórnar bankans þá fyrirætlun að lánafyrirgreiðslan skyldi einnig ná til skattkrafna sem kynnu að myndast við sölu hlutabréfa. Að baki voru þau rök að ella kynni kauprétturinn að verða lítils virði, þar sem um verulegar skattfjárhæðir kynni að vera að ræða sem starfsmenn gætu ekki staðið skil á, auk þess sem kauprétturinn átti að vera sem næst án áhættu fyrir starfsmennina. Lánssamningurinn, 6. ágúst 2008, er undirritaður af stjórnarmanni í Kaupþingi banka hf., sem jafnframt var formaður starfskjaranefndar. Gögn málsins leiða ekki annað og meira í ljós en að ákærði hafi í ágúst 2008 óskað eftir að nýta kauprétt sinn innan bankans og að hann hafi í kjölfarið leitað til forstöðumanns hlutabréfamiðlunar Kaupþings banka hf. um sölu hlutabréfanna til einkahlutafélags síns. Samtal ákærða við forstöðumanninn verður ekki skilið á þann veg að ákærði hafi verið að ákveða lánveitingu af hálfu bankans til einkahlutafélags síns. Tölvupóstar og önnur gögn leiða ekki óyggjandi í ljós frekari aðkomu ákærða að viðskiptunum. Þá leiða gögn málsins í ljós að ákærði hafi á árinu 2007 fengið lánafyrirgreiðslu innan bankans til að geta staðið skil á skattskuldbindingum í tilefni af færslu hlutabréfa sinna yfir í einkahlutafélag sitt á árinu 2006. Gögnin leiða einnig í ljós að á árinu 2008 hafi starfsmaður í bankanum verið að vinna að því, fyrir hönd ákærða, að fá lán frá bankanum vegna skattskuldbindinga sem væru á gjalddaga á árinu 2008. Er það um líkt leyti og ákærði nýtir kauprétt sinn. Þegar þessi atriði málsins eru virt er fátt sem hnekkir þeirri staðhæfingu ákærða að lánveitingunni, 6. ágúst 2008, hafi verið ætlað að standa straum af nýtingu kaupréttarins sem og af skattskuldbindingum ákærða. Ákærði hafi þó ekki óskað sérstaklega eftir því að um eitt lán yrði að ræða, svo sem orðið hafi reyndin. Allan vafa um það atriði ber að virða ákærða í hag. Með hliðsjón af því sem hér að framan greinir hefur ákæruvaldi ekki tekist að sýna fram á að ákærði hafi látið Kaupþing banka hf. veita einkahlutafélagi ákærða lán, 6. ágúst 2008. Með hliðsjón af því verður ákærði sýknaður af sök samkvæmt I. kafla ákæru.

Í ljósi þess að ákærði, Hreiðar Már, er sýknaður af sök samkvæmt I kafla ákæru, verður ákærða, Z, sýknuð af hlutdeildarbroti sínu samkvæmt I. kafla ákæru.

 

II.

            Ákærða, Hreiðari Má, eru í II. kafla ákæru gefin að sök innherjasvik með því að hafa 6. ágúst 2008 selt 812.000 hluti í Kaupþingi banka hf., sem hann hafði keypt í eigin nafni sama dag, til einkahlutafélagsins Hreiðars Más Sigurðssonar, í eigu ákærða og undir hans stjórn, fyrir 571.648.000 krónur, þrátt fyrir að hafa þá búið yfir innherjaupplýsingum um Kaupþing banka hf. sem hann hafi orðið áskynja í starfi sem forstjóri bankans; upplýsingar sem lutu að því að skráð markaðsverð hlutabréfanna í bankanum hafi á þeim tíma gefið ranga mynd af verðmæti þeirra og verið metið hærra en efni stóðu til, vegna langvarandi og stórfelldrar markaðsmisnotkunar með hlutabréf í bankanum, sem þá hafi staðið yfir að minnsta kosti frá því í nóvember 2007 og ákærði hafi tekið þátt í. Er brot ákærða talið varða við 1. tl. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 108/2007, sbr. 3. tl. 1. mgr. 146. gr.

            Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Varnir ákærða byggja á því að reglum um innherjaviðskipti sé fyrst og fremst ætlað að tryggja jafnræði meðal fjárfesta á skipulögðum verðbréfamarkaði og trúverðugleika markaðarins. Ætlunin sé að koma í veg fyrir að aðili sem búi yfir innherjaupplýsingum hagnist á kostnað annarra þátttakenda á markaði. Ákærði hafi ekki búið yfir innherjaupplýsingum. Í tilvikum þar sem aðilar viðskipta búi yfir sömu upplýsingum geti ekki verið um svik eða misnotkun að ræða. Það geti ekki skaðað trúverðugleika markaðarins eða raskað jafnræði á milli fjárfesta. Þetta viðhorf komi skýrt fram í tilskipun Evrópuráðsins nr. 89/593/EEC og í svokallaðri MAD tilskipun sem leyst hafi hana af hólmi. Í ljósi kaupréttar ákærða sé ljóst að hvorki kaupin á hlutunum né sala þeirra hafi komið til vegna innherjaupplýsinga. Ákvörðun um viðskiptin hafi verið tekin á árinu 2004 þótt gjalddagi hafi verið annar. Tilkynningar inn á markaðinn hafi einungis verið með vísan til kaupréttargengisins, sem hafi verið ákveðið 2004. Við framsal hlutanna hafi báðir aðilar búið yfir nákvæmlega sömu upplýsingum. 

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 108/2007 er innherja óheimilt að afla eða ráðstafa fjármálagerningum með beinum eða óbeinum hætti, fyrir eigin reikning eða annarra, búi hann yfir innherjaupplýsingum. Samkvæmt 120. gr. laganna er með innherjaupplýsingum átt við nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafi verið gerðar opinberar og varði beint eða óbeint útgefendur fjármálagerninga, fjármálagerningana sjálfa eða önnur atriði og séu líkleg til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninga ef opinberar væru.

            Samkvæmt tilkynningu Kaupþings banka hf. til Kauphallar, 6. ágúst 2008, þegar ákærði seldi umrædd hlutabréf til einkahlutafélags síns, kemur fram að um sé að ræða viðskipti fruminnherja. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 498/2015 var ákærði m.a. sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 8. október 2008. Var talið að með sölu hlutabréfa í bankanum í stórum hlutum til tilgreindra félaga hafi ranglega verið látið líta svo út að félögin hefðu lagt fé til kaupanna og borið af þeim fulla markaðsáhættu þegar reyndin hafi verið sú að kaupin voru að fullu fjármögnuð með lánveitingum frá bankanum sem bar sem seljandi áfram fulla markaðsáhættu af hlutunum, enda voru ýmist litlar eða engar aðrar tryggingar fyrir endurgreiðslu lánanna en hinir seldu hlutir. Þessi viðskipti hafi því byggst á blekkingum og sýndarmennsku og þannig verið líkleg til að gefa eftirspurn eftir hlutunum ranglega og misvísandi til kynna.

Ákærði bjó yfir innherjaupplýsingum í skilningi 120. gr. laga nr. 108/2007 þegar hann seldi hlutabréf sín 6. ágúst 2008 til einkahlutafélags síns. Ákærða var þá kunnugt um að markaðsverð bréfanna gaf verðmæti þeirra ekki rétt til kynna þar sem átt hafði sér stað langvarandi og stórfelld markaðsmisnotkun með hlutabréfin í bankanum. Ákvæði 1. tl. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 108/2007 er fortakslaust þegar það mælir fyrir um að innherja sé óheimilt að afla eða ráðstafa fjármálagerningum með beinum hætti eða óbeinum, fyrir eigin reikning, búi hann yfir innherjaupplýsingum. Sem fyrr greinir er ákvæði þessu fyrst og fremst ætlað að tryggja jafnræði og trúverðugleika markaðarins. Einkahlutafélagið Hreiðar Már Sigurðsson var sjálfstæð lögpersóna að lögum þegar viðskiptin áttu sér stað. Er því ekki um sama aðila að ræða, þó svo ákærði hafi verið í fyrirsvari fyrir félagið. Sem fyrr greinir er innherja óheimilt að ráðstafa fjármálagerningum búi hann yfir innherjaupplýsingum. Ákærði ráðstafaði með sölu hlutabréfum sem hann átti til einkahlutafélagsins og kom fullt verð fyrir. Með því ráðstafaði hann fjármálagerningi. Með þeirri aðgerð sendi hann þau skilaboð út á verðbréfamarkaðinn að virði hlutabréfanna samkvæmt markaðsgengi væri rétt, þó svo hann hafi vitað að svo var í reynd ekki. Blekkti hann með því aðra á hinum skipulagða verðbréfamarkaði. Verður því ekki við annað miðað en að ákærði hafi gerst sekur um brot samkvæmt II. kafla ákæru. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum kafla ákæru og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærði, Hreiðar Már, er fæddur í nóvember 1970. Ákærði var síðast með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, 4. júlí 2017, dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Brot ákærða nú eru hegningarauki við þennan síðastgreinda dóm og aðra fyrri, sem ekki verða tíundaðir hér sérstaklega. Verður refsing ákveðin með hliðsjón af 78. gr. laga nr. 19/1940. Í ljósi þeirra fangelsisrefsinga er ákærði hefur á liðnum árum sætt í málum sem tengjast starfi hans sem forstjóra Kaupþings banka hf. eru ekki efni til að gera ákærða til viðbótar refsingu í þessu máli.

Ekki hefur annan sakarkostnað leitt af máli þessu en kostnað við vörn ákærðu. Allur þungi í rannsókn og meðferð málsins gagnvart ákærða, Hreiðari Má, hefur snúist um hina umþrættu lánveitingu til einkahlutafélags hans. Snýr I. kafli ákæru að þessu ætlaða broti, sem ákærði hefur verið sýknaður af. Að því er varðar brot samkvæmt II. kafla ákæru eru atvik málsins í raun óumdeild, en næstum hefði nægt að tefla fram tilkynningu Kaupþings banka hf. til Kauphallarinnar vegna kaupa ákærða á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. og eftirfarandi sölu til einkahlutafélags hans. Rannsókn málsins og meðferð hefur því að nánast engu leyti snúist um þennan lið ákæru. Þegar öll þessi atriði eru virt er rétt að allur kostnaður af vörn ákærða greiðist úr ríkissjóði, svo sem í dómsorði greinir.

Í tilviki ákærðu, Z, greiðast úr ríkissjóði málsvarnarlaun verjanda ákærðu sem í dómsorði greinir. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.  

Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

 

D ó m s o r ð :

Ákærða, Hreiðari Má Sigurðssyni, er ekki gerð refsing í málinu. 

Ákærða, Z, er sýkn af kröfum ákæruvalds. 

Úr ríkissjóði greiðast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hreiðars Más, Harðar Felix Harðarsonar lögmanns, 14.271.160 krónur.

Úr ríkissjóði greiðast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu Z, Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns, 3.583.600 krónur.

 

Símon Sigvaldason

 

------------ ------------- -----------

Rétt endurrit staðfestir:

Héraðsdómur Reykjavíkur 8. nóvember 2018.