• Lykilorð:
  • Orlof
  • Vinnusamningur
  • Vinnulaunamál

 

D Ó M U R

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 15. maí 2018 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 12. mars sl. Stefnandi er Sigríður Aðalheiður Pálmadóttir, Þverholti 21, Reykjavík. Stefndi er fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhváli við Lindargötu, Reykjavík.

 

            Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi greiði henni 1.763.968 krónur, en til vara 526.858 krónur, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. febrúar 2018 til greiðsludags. Hún krefst einnig málskostnaðar.

 

            Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

 

Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika

 

            Stefnandi er hjúkrunarfræðingur að mennt og mun hafa tekið við stöðu yfirhjúkrunarfræðings hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á árinu 2012. Stefndi tilkynnti stefnanda með bréfi 20. september 2016 um að starf hennar yrði lagt niður miðað við 31. desember 2016 og að þá hæfist bótatímabil samkvæmt 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þ.e. biðlaunatími í eitt ár. Hóf stefnandi töku biðlauna frá og með 1. janúar 2017 og fram til loka þess árs. Er ekki deilt um launagreiðslur til stefnanda vegna þess tímabils. Hins vegar deila aðilar í fyrsta lagi um greiðslu orlofs sem stefnandi telur sig hafa áunnið sér við starfslok sín í árslok 2016. Í annan stað deila aðilar um laun vegna umframvinnustunda stefnanda sem safnast höfðu upp við téð starfslok hennar.

 

            Af hálfu stefnanda er á því byggt að það fyrirkomulag yfirvinnu hafi tíðkast hjá yfirhjúkrunarfræðingum hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, þ.m.t. stefnanda, að þeim hafi ekki verið greitt sérstaklega fyrir þá tíma sem unnir voru umfram dagvinnuskyldu, heldur hafi yfirhjúkrunarfræðingarnir verið hvattir til og þeim heimilað að taka umfram vinnustundir út í fríi. Ein unnin yfirvinnustund hafi þannig veitt yfirhjúkrunarfræðingi rétt til töku einnar stundar í fríi. Þetta fyrirkomulag, sem stefnandi hefur vísað til sem „tími á móti tíma“, segir hún hafa tíðkast allan þann tíma sem hún gegndi störfum fyrir heilsugæsluna sem yfirhjúkrunarfræðingur. Af hálfu stefnda er því mótmælt að þetta fyrirkomulag hafi tíðkast og vísað til þess að starfsmenn, þ. á m. stefnandi, hafi ekki átt rétt til greiðslu frekari yfirvinnu en sérstaklega var um samið, eða fyrir 15 stundir í tilviki stefnanda. Hins vegar er ekki sérstaklega um það deilt að við starfslok stefnanda í árslok 2016 námu umframtímar hennar samkvæmt vinnutímaskráningarkerfi heilsugæslunnar 159,67 stundum. Þá er ekki um það deilt að yfirvinnukaup stefnanda nam 7.747,92 krónum fyrir hverja yfirstund og er því ekki uppi tölulegur ágreiningur að þessu leyti. Sömuleiðis er ágreiningslaust að stefnandi fékk ekki greidda téða umfram vinnutíma við endanlegt uppgjör launa sinna 1. febrúar 2018.

 

            Í málinu liggur fyrir afrit launaseðils vegna gjaldfallins orlofs sem stefnandi kveður heilsugæsluna hafa sent sér fyrri hluta janúarmánaðar 2018. Eru orlofstímar þar tilgreindir 88,78 og heildarfjárhæð vegna þeirra, sem koma átti til greiðslu 1. febrúar 2018, alls 724.063 krónur. Samkvæmt stefnu var hér um að ræða greiðslu fyrir orlof sem stefnandi hafði áunnið sér við starfslok sín á árinu 2016. Stefnanda var síðar sendur nýr launaseðill þar sem orlofstímar voru tilgreindir 24,18 stundir og heildargreiðsla vegna þeirra 197.205 krónur sem koma átti til greiðslu 1. febrúar 2018. Samkvæmt gögnum málsins mun stefnandi hafa verið upplýst um það símleiðis 29. janúar 2018 af deildarstjóra launadeildar heilsugæslunnar að dagar sem hún hafði ekki unnið á árinu 2016 og ekki voru tilgreindir sem orlofsdagar yrðu dregnir frá orlofstímum, en samtals væri hér um að ræða 14 daga. Ekki er um það deilt að stefnandi var fjarverandi umrædda daga. Hins vegar byggir stefnandi á því, gegn mótmælum stefnda, að henni hafi verið heimilt að nýta sér uppsafnaða umframvinnutíma með þessum hætti og eigi þetta því ekki að koma niður á orlofsrétti hennar.

 

            Í ljósi úrlausnar málsins er ekki ástæða til að rekja nánar samskipti aðila í aðdraganda lokauppgjörs launa stefnanda eða bréfaskipti eftir það. Að öðru leyti er gerð nánari grein fyrir atvikum málsins við reifun málsástæðna og lagaraka aðila, svo og í niðurstöðum dómsins.

 

            Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni Gunnar Helgason, sviðstjóri kjara- og réttindasviðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Helga Sæunn Sveinbjörnsdóttir, fyrrverandi yfirhjúkrunarfræðingur, Svanhvít Jakobsdóttir, fyrrverandi forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Jónas Guðmundsson, framkvæmdastjóri sviðs fjármála og rekstrar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og Stefán Aðalsteinsson, deildarstjóri launadeildar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

 

            Stefnandi reisir aðalkröfu sína á því að hún eigi lögvarðar og samningsbundnar kröfur á hendur stefnda um greiðslu orlofslauna og launa fyrir óuppgerðar unnar yfirvinnustundir. Að því er varðar síðargreinda atriðið er vísað til þess fyrirkomulags sveigjanlegs vinnutíma sem áður greinir og tíðkast hafi athugasemdalaust um árabil. Þá er vísað til þess að ágreiningslaust sé að umframvinnustundir stefnanda hafi numið 159,67 tímum við starfslok hennar í árslok 2016. Stefnandi mótmælir því að sú fasta yfirvinna sem hún naut, þ.e. 15 stundir á mánuði, hafi þýðingu um þetta atriði. Þeirri yfirvinnu hafi verið ætlað að fela í sér bætur fyrir ýmis konar vinnuáreiti utan starfsstöðvar og hefðbundins vinnutíma, svo sem vegna símtala, tölvupóstssamskipta o.fl.

 

            Að því er varðar kröfu um vangreitt orlof lítur stefnandi svo á að orlof vegna ársins 2016 hafi verið uppgert við hana. Með ákvörðun sinni í janúar 2018 hafi heilsugæslan því í reynd skuldajafnað endurgreiðslukröfu vegna ætlaðs oftekins orlofs á árinu 2017 við orlof stefnanda sem koma átti til greiðslu við endanlegt uppgjör launa hennar 1. febrúar 2018. Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að henni hafi verið heimilt að nýta sér umframvinnutíma til töku frídaga samkvæmt því fyrirkomulagi sem áður ræðir og eigi þeir því ekki að leiða til skerðingar á orlofsrétti hennar. Án tillits til þessa vísar hún til þess að skilyrði skuldajafnaðar hafi ekki verið fyrir hendi, einkum þess að orlofslaun séu lögbundin og verði ekki skert vegna krafna af öðrum toga, svo sem kröfu um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Í þessu sambandi vísar hún einnig til tómlætis vinnuveitanda síns sem hafi ekki haft uppi kröfu vegna ætlaðra óútskýrðra fjarvista hennar fyrr en 15 mánuðum eftir að þær voru taldar eiga sér stað og greitt henni laun vegna tímabilsins fyrirvaralaust. Þá telur hún að með því að senda henni fyrrgreindan launaseðil fyrri hluta janúarmánaðar 2018 hafi vinnuveitandi hennar í reynd tekið stjórnvaldsákvörðun sem síðar hafi verið afturkölluð eða breytt. Telur stefnandi að málsmeðferð og ákvörðun heilsugæslunnar um skerðingu á orlofsgreiðslu til hennar brjóti gegn ýmsum reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, svo og meginreglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. meðalhófsreglu, jafnræðisreglu og rannsóknarreglu. Með hliðsjón af úrlausn málsins er ekki ástæða til að rekja nánar málsástæður og lagarök stefnanda þar að lútandi. Stefnandi krefst dráttarvaxta frá gjalddaga krafna, 1. febrúar 2018, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda

 

            Stefndi hafnar þeim málatilbúnaði stefnanda að hún hafi í starfi sínu og samkvæmt munnlegu samkomulagi við vinnuveitanda áunnið sér frí fyrir hverja stund sem unnin var umfram dagvinnuskyldu. Stefndi kannast ekki við að venja eða samkomulag hafi ríkt um slíka tilhögun, sbr. til hliðsjónar grein 2.3.8 í þeim kjarasamningi sem gilti um störf stefnanda. Í stefnu sé engin grein gerð fyrir tilurð ætlaðs samkomulags, sem og hver eða hverjir stjórnenda Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafi staðið að því, en að efni til virðist það ekki uppfylla kröfur nefnds kjarasamningsákvæðis.

 

Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi notið launa í formi greiðslu launaflokks samkvæmt kjarasamningi auk fastrar greiðslu 15 yfirvinnustunda á mánuði. Þau launakjör hafi falið í sér endurgjald fyrir vinnuframlag stefnanda í þágu heilsugæslunnar, þ. á m. fyrir vinnu umfram dagvinnuskyldu. Fastir yfirvinnutímar stefnanda hafi verið greiddir alla mánuði ársins og þeim ætlað að mæta sveiflum í vinnuálagi. Ljóst sé af öllum gögnum málsins að ekki hafi átt að greiða sérstaklega fyrir tilfallandi aukavinnu. Stefndi bendir einnig á að aðrir stjórnendur hafi ekki notið viðlíka kjara eins og stefnandi byggir á. Er því ekki fallist á að afstaða stefnda feli í sér að stefnanda hafi verið mismunað í samanburði við aðra starfsmenn. Stefnandi bendir einnig á að samkvæmt vinnuskráningarkerfi hafi hún ekki náð að vinna upp í þann fjölda fastra yfirvinnustunda sem hún fékk greiddar.

 

Stefndi hafnar því að stefnandi eigi rétt til að fá greiddar þær orlofsstundir sem færðar voru til frádráttar orlofsstundum sem ekki höfðu verið greiddar upp í lok árs 2017. Stefndi hafnar því að í lokauppgjörinu hafi falist stjórnvaldsákvörðun í merkingu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og með því hafi verið brotið gegn ákvæðum þeirra laga eða óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins. Um hafi verið að ræða hefðbundið uppgjör samkvæmt ákvæðum kjarasamnings og ákvæðum orlofslaga sem reist var á málefnalegum sjónarmiðum og að undangenginni viðhlítandi rannsókn. Stefnandi hafi verið yfirmaður á vinnustað og borið ábyrgð og skyldur sem slíkur, þ. á m. ábyrgð á skráningu vinnutíma og viðveru starfsmanna, yfirferð vinnuskýrslna, skráningu orlofs og annarra leyfa sem og öllum samskiptum og upplýsingagjöf til launadeildar stofnunarinnar. Hún hafi einnig yfirfarið og staðfest eigin vinnuskýrslur en ekki framkvæmdastjóri hjúkrunar.

 

Stefndi byggir á því að í ljósi stöðu stefnanda og langrar starfsreynslu hafi stofnunin mátt treysta því að hún stæði rétt að skráningu á fjarvistum sínum í vinnuskráningarkerfi. Tilefni þess að þær skráningar hafi verið teknar til endurskoðunar á árinu 2016 hafi mátt rekja til krafna sem stefnandi setti fram í tengslum við lokauppgjörið um uppgjör á yfirvinnu. Sjónarmið stefnanda sem lágu þeirri kröfugerð til grundvallar, nánar tiltekið þau að hún hefði talið sér heimilt að taka út eina stund í frí á móti einni stund sem unnin var umfram dagvinnuskyldu, hafi gefið tilefni til endurskoðunar. Við athugun stefnda hafi komið í ljós að stefnandi hafði í nokkrum tilvikum veitt sjálfri sér frí á þeim grunni án samþykkis stofnunarinnar og án skýringa í vinnuskráningarkerfi. Í því ljósi hafi orlofsdagar stefnanda ekki verið réttilega taldir og hafi það hlotið að hafa áhrif við mat á umfangi orlofsréttar sem þá hafði ekki að öllu leyti verið gerður upp. Lokauppgjörið hafi byggt á skriflegum gögnum og upplýsingum sem að verulegu leyti stöfuðu frá stefnanda sjálfri auk þess sem samskipti aðila beri með sér að stefnandi hafi áður en til þess kom verið fullkomlega ljós afstaða stefnda til ætlaðs samkomulags um úttekt á unninni yfirvinnu í formi frítöku.

 

Að öllu virtu hafnar stefndi sjónarmiðum stefnanda um að málið hafi ekki verið nægilega vel upplýst í aðdraganda lokauppgjörsins og jafnframt að stofnunin hafi sýnt af sér tómlæti við að koma fram þeirri leiðréttingu sem í því fólst. Vitneskja um tilurð og forsendur leyfistöku stefnanda hafi ekki fyrir hendi á þeim tíma sem leyfin voru tekin. Leiðréttinguna megi rekja til óviðunandi skráninga stefnanda í vinnuskráningarkerfi sem hún sjálf bar ábyrgð á í ljósi stöðu sinnar. Lokauppgjörið hafi tekið mið af raunverulegum aðstæðum út frá fyrirliggjandi upplýsingum. Ekki hafi því verið um skuldajöfnuð að ræða, eins og haldið sé fram í stefnu. Yrði eftir sem áður talið að svo hefði verið hafi öll lögmæt skilyrði skuldajafnaðar verið uppfyllt.

 

Niðurstaða

 

Dómurinn telur fram komið, meðal annars með skýrslu Helgu Sæunnar Sveinbjörnsdóttir, fyrrverandi yfirhjúkrunarfræðings, að það fyrirkomulag hafi tíðkast athugasemdalaust hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, þ. á m. vegna starfa stefnanda, að vinna umfram venjulegan vinnutíma væri ekki greidd sérstaklega út en þess í stað ættu starfsmenn kost á því að jafna vinnuskyldu sína út með því að minnka við sig vinnu á öðrum dögum eða jafnvel taka frídaga. Af gögnum málsins verður ráðið að breyting á þessu fyrirkomulagi hafi fyrst verið gerð með samþykkt framkvæmdastjórnar heilsugæslunnar 21. febrúar 2017, þar sem meðal annars var kveðið á um að vinnuskylda skyldi uppfyllt innan launatímabils hvers mánaðar. Er þannig ljóst að umrætt fyrirkomulag var fyrir hendi á því árabili þegar stefnandi starfaði fyrir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og atvik málsins gerðust.

 

Í málinu er ágreiningslaust að við starfslok stefnanda hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í árslok 2016 gerði ráðningarsamningur hennar ráð fyrir 15 stundum í yfirvinnu mánaðarlega. Fram er komið að þessir tímar voru hvorki skráðir í vinnutímakerfi heilsugæslunnar né var starfsmanni ætlað að gera sérstaka grein fyrir þeim verkefnum sem tímunum var ætlað að bæta fyrir. Ekki er heldur um það deilt að samkvæmt skráningu í téð vinnutímakerfi hafði stefnandi unnið sem nam 159,67 stundum umfram skyldu við starfslok sín hjá heilsugæslunni í árslok 2016 og hafði þá verið tekið tillit til frídaga utan orlofs sem hún hafði nýtt á því ári. Við aðalmeðferð málsins kom fram að fyrrgreindir umfram tímar hefðu byrjað að safnast upp þegar á árinu 2013 eða fljótlega eftir að stefnandi hóf störf hjá heilsugæslunni. Þá kom fram í aðilaskýrslu stefnanda að vegna þeirra skipulagsbreytinga, sem unnið var að hjá heilsugæslunni á árinu 2016 og leiddu til niðurlagningu stöðu hennar, hafi hún í sumum tilvikum þurft að vinna umfram venjulegan vinnutíma en jafnframt hafi hún á þessum tíma haft takmarkaða möguleika á því að minnka vinnu á öðrum dögum, eða taka frídaga, þannig að vinnuskyldu væri jafnað út.

 

Samkvæmt framangreindu telur dómurinn að leggja beri til grundvallar að þeir yfirvinnutímar sem stefnandi fékk mánaðarlega greidda hafi verið ótengdir þeim umframstundum sem hún kynni að vinna í daglegum störfum sínum og bæta skyldi fyrir með færri stundum á öðrum dögum eða frídögum. Ekki er komið fram að nein nánari viðmið eða takmarkanir hafi gilt um heimild stefnanda í þessu efni og verður því að gera ráð fyrir að nánari framkvæmd þessa fyrirkomulags sveigjanlegs vinnutíma hafi þurft að gera í samráði við yfirmann hverju sinni. Í því efni er ekki komið fram að með téðri umframvinnu hafi stefnandi brotið gegn skráðum eða munnlegum fyrirmælum yfirmanna sinna en um þetta ber stefndi sönnunarbyrði. Verður því að leggja til grundvallar að störf stefnanda á árinu 2016 hafi farið fram án athugasemda yfirmanna hennar, bæði hvað varðaði fjarvistir og vinnu umfram venjulegs vinnutíma. Í þessu efni verður einnig að horfa til þess að stefnandi var yfirmaður hjá heilsugæslunni sem starfaði að verulegu leyti sjálfstætt og bar sjálf ábyrgð á því að verkefnum hennar væri sinnt með fullnægjandi hætti.

 

Samkvæmt framangreindu er hafnað málsástæðu stefnda þess efnis að fjarvistum stefnanda á árinu 2016 verði jafnað til þess að hún hafi tekið sér leyfislaust orlof sem heimilt hafi verið að draga frá orlofsgreiðslum hennar vegna þess árs. Þegar af þessum ástæðum verður fallist á þá kröfu stefnanda sem lýtur að kröfu hennar til greiðslu orlofs og þarf því ekki að taka afstöðu til málsástæðna stefnanda sem byggjast á reglum kröfuréttar um skuldajöfnuð og tómlæti, svo og reglum stjórnsýsluréttar, vegna þessa þáttar málsins.

 

Hins vegar er ljóst að téð fyrirkomulag sveigjanlegs vinnutíma, sem við meðferð málsins hefur verið vísað til sem „tíma fyrir tíma“, grundvallaðist á því að ekki kæmi til sérstakra peningagreiðslna vegna unnina umfram tíma heldur væri bætt fyrir þá með færri tímafjölda á öðrum dögum, eða jafnvel heilum frídögum, og þannig væri heildarvinnuskylda væri að endingu jöfnuð út og vinnustundir stæðu á sléttu. Ljóst er að við starfslok stefnanda í árslok 2016 brustu forsendur fyrir því að vinnuskylda hennar væri jöfnuð út í samræmi við þetta fyrirkomulag en jafnframt lá þá fyrir að stefnandi átti uppsafnaðar 159,67 umframstundir samkvæmt vinnuskráningarkerfi heilsugæslunnar, svo sem áður greinir. Í ljósi þess að yfirmenn stefnanda gerðu engar ráðstafanir vegna þessara umfram tíma stefnanda eða leituðust við að ná samkomulagi við hana um uppgjör að þessu leyti, svo sem eðlilegt hefði verið vegna fyrirhugaðra starfsloka hennar, kemur til úrlausnar hvort stefnandi eigi nú rétt á peningagreiðslu í samræmi við kröfugerð hennar.

 

Að mati dómsins verður að leggja til grundvallar þá meginreglu vinnuréttar að launþegi eigi rétt á því að fá greitt fyrir þá vinnu sem hann innir af hendi í þágu vinnuveitanda í samræmi við vinnusamning. Svo sem áður greinir hafa ekki verið færð að því rök að téð umframvinna stefnanda hafi verið innt af hendi gegn fyrirmælum yfirmanna hennar eða með öðrum hætti brotið gegn þeim nánari reglum sem hún starfaði eftir. Þvert á móti verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að störf stefnanda, þ. á m. skráning hennar á vinnutímum sem hún bar sjálf ábyrgð á, hafi farið fram án nokkurra athugasemda yfirmanna eða launadeildar. Verður þar af leiðandi að miða við að stefnandi hafi innt af hendi téða umframtíma í samræmi við vinnusamning sinn eins og hann var framkvæmdur og túlkaður af henni og vinnuveitanda. Við þær aðstæður sem uppi eru í málinu, og áður ræðir, verður að miða við að stefnandi eigi því rétt á greiðslu samkvæmt almennum reglum. Þar sem hér var um að ræða vinnu umfram samningsbundna vinnuskyldu verður einnig að leggja til grundvallar að hér hafi verið um að ræða yfirvinnu í skilningi greinar 2.3 í kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og stefnda sem óumdeilt er að gilti um störf stefnanda. Samkvæmt þessu verður einnig fallist á kröfu stefnanda vegna ógreiddra launa.

 

Ekki er tölulegur ágreiningur um fjárhæð kröfu stefnanda, að fengnum framangreindum forsendum, sem verður þar af leiðandi tekin til greina eins og hún er fram sett. Með vísan til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu dæmast dráttarvextir frá 1. febrúar 2018, svo sem krafist er í stefnu, en óumdeilt er að síðustu launagreiðslur til stefnanda skyldu greiðast út þann dag.

 

Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.700.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

 

            Af hálfu stefnanda flutti málið Jón Sigurðsson lögmaður.

 

            Af hálfu stefnda flutti málið Eiríkur Áki Eggertsson lögmaður.

 

            Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

 

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Sigríði Aðalheiði Pálmadóttur, 1.763.968 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2018.

 

            Stefndi greiði stefnanda 1.700.000 krónur í málskostnað.

 

Skúli Magnússon