• Lykilorð:
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Vanreifun
  • Ógildingarmál

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 7. maí 2019 í máli nr. E-1762/2018:

Emilía Björg Jónsdóttir

(Konráð Jónsson lögmaður)

gegn

Bjarna Pálssyni

(Árni Ármann Árnason lögmaður)

Brautarholti 11 ehf.,

Kirkjuhóli ehf.,

Landsbankanum hf.,

(Þorvaldur Emil Jóhannesson lögmaður)

Stjörnugrís hf.,

(Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður)

Stjörnueggi hf. og

(Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður)

Íslenska ríkinu

(Einar K. Hallvarðsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem var höfðað með stefnu birtri 24. og 26. maí 2018 og framhaldsstefnu birtri 9. ágúst 2018, var tekið til úrskurðar 19. mars sl. Stefnandi er Emilía Björg Jónsdóttir, Markholti 18 í Mosfellsbæ. Stefndu eru Bjarni Pálsson, Brautarholti 1 í Reykjavík, Brautarholt 11 ehf., Brautarholti 11 í Reykjavík, Kirkjuhóll ehf., Brautarholti 2 í Reykjavík, Landsbankinn hf., Austurstræti 11 í Reykjavík, Stjörnugrís hf., Vallá, 116 Reykjavík, Stjörnuegg hf., Vallá, 162 Reykjavík, og íslenska ríkið.

 

I.

Dómkröfur stefnanda eru:

1.             Á hendur íslenska ríkinu: Að ógilt verði ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins frá 20. maí 2008 um að leysa óðalsjörðina Brautarholt á Kjalarnesi úr óðalsböndum. Nánar tiltekið er átt við lausn úr óðalsböndum jarðarhlutanna Brautarholt 2 til 11. Bjarna Pálssyni er jafnframt stefnt undir þessum lið til að þola dóm.

2.             Verði fallist á framangreinda kröfu eru jafnframt gerðar eftirtaldar kröfur á hendur stefndu Bjarna Pálssyni, Brautarholti 11 ehf., Kirkjuhóli ehf., Landsbankanum hf., Stjörnugrís hf. og Stjörnueggi hf.: Að eignar- og óðalsréttur stefnanda á jörðinni Brautarholti á Kjalarnesi verði viðurkenndur miðað við eignarhluta stefnanda í þeim jarðarhlutum og lóðum að meðtöldu fylgifé, þ.m.t. mannvirkjum og húsakosti, sem óðalsjörðin samanstóð af hinn 11. mars 2008, nánar tiltekið varðandi hvern og einn af þessum stefndu, eins og mörk lóða eru samkvæmt þingslýsingabókum í dag:

a.     Á hendur stefnda Brautarholti 11 ehf.: Að viðurkennt verði að stefnandi njóti eignar- og óðalsréttar yfir 50% í óskiptri sameign að lóðinni Brautarholti VI-B. Sameiganda að hinum 50% eignarhlutans, Bjarna Pálssyni, er jafnframt stefnt til að þola dóm. Jafnframt er sú krafa gerð á hendur stefnda Brautarholti 11 ehf. að stefnandi njóti eignar- og óðalsréttar yfir lóðunum Brautarholti, Kjal. 9 og Brautarholti 11.

b.    Á hendur stefnda Kirkjuhóli ehf.: Að viðurkennt verði að stefnandi njóti á móti þessum stefnda eignar- og óðalsréttar yfir 50% í óskiptri sameign að lóðunum Brautarholti 3 og Brautarholti ásamt fasteign með fasteignanúmer 221-7129.

c.     Á hendur stefnda Landsbankanum hf.: Að viðurkennt verði að stefnandi njóti á móti þessum stefnda eignar- og óðalsréttar yfir 50% að lóðinni Brautarholti IV ásamt fasteign með fasteignanúmer 221-7116.

d.    Á hendur stefnda Stjörnugrís hf.: Að viðurkennt verði að stefnandi njóti eignar- og óðalsréttar yfir jarðarhlutunum Brautarholti 2 ásamt fasteign með fasteignanúmer 208-5172, Brautarholti 8 ásamt fasteign með fasteignanúmer 221-7167 og Brautarholti VII ásamt fasteign með fasteignanúmer 221-7140 og yfir 50% í óskiptri sameign að lóðinni Brautarholti VII-B ásamt fasteign með fasteignanúmer 232-9069.

e.     Á hendur stefnda Stjörnueggi hf.: Að viðurkennt verði að stefnandi njóti eignar- og óðalsréttar yfir lóðinni Brautarholti 5 og Brautarholti 10.

Stefndu íslenska ríkið, Bjarni Pálsson, Landsbankinn hf., Stjörnugrís hf. og Stjörnuegg hf. krefjast þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara krefjast þeir sýknu. Í báðum tilvikum krefjast þeir greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda. Brautarholt 11 ehf. og Kirkjuhóll ehf. hafa ekki látið málið til sín taka.

 

Stefnandi mótmælir frávísunarkröfunni. Ágreiningur um frávísunarkröfuna var tekinn til úrskurðar 19. mars sl. eftir munnlegan málflutning um þann þátt málsins. Dómari upplýsti við sama tilefni að frávísun málsins án kröfu varðandi aðra stefndu yrði tekin til úrlausnar í þessum úrskurði.

 

II.

Málavextir eru þeir helstir að jörðin Brautarholt var gerð að ættaróðali í júní 1944. Þáverandi eigandi jarðarinnar var Ólafur Bjarnason. Árið 1956 afsalaði Ólafur hluta jarðarinnar til sona sinna Páls og Jóns. Var þá stofnað nýbýlið Brautarholt II og aðrir hlutar jarðarinnar nefndir Brautarholt I. Hafa jarðirnar upp frá því verið tvö aðskilin lögbýli. Ólafur afsalaði sér Brautarholti I til bræðranna með afsali dagsettu 30. júní 1967.

 

Með landskiptagerð dagsettri 9. desember 1989 skiptu Páll og Jón Brautarholti á milli sín. Í skiptagerð var tilgreint að Brautarholt I yrði séreign Páls en Brautarholt II, V, og VIII séreign Jóns. Brautarholt III var skilgreint sem lóð umhverfis hús Björns Jónssonar samkvæmt lóðarleigusamningi, en lóðin liggur innan Brautarholts IV. Brautarholt IV, VI og VII var sameign Jóns og Páls samkvæmt landskiptagerðinni.

 

Með samkomulagi 15. mars 2000 slitu bræðurnir samrekstri, gerðu upp skuldir og skiptu upp sameignum. Þeim eignum sem ágreiningur var um var skipt með gerðardómi 4. apríl 2001. Var jörðinni skipt á milli bræðranna (óðalsbændanna) nema Andríðsey, sem skyldi vera í óskiptri sameign en þeir skiptast á að nýta hana.

 

Árið 2004 afsöluðu bræðurnir óðalsrétti sínum til barna sinna, Jón til stefnanda og Páll til sonar síns Bjarna.

 

Með bréfi dagsettu 11. mars 2008 óskaði stefnandi eftir leyfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að leysa óðal sitt úr óðalsböndum með vísan til 51. gr. jarðarlaga. Tók beiðnin til Brautarholts 2 til 11. Var tekið fram í beiðninni að óskað væri eftir því að óðalið allt yrði leyst úr óðalsböndum. Beiðnin var undirrituð af stefnanda og systkinum hennar. Ráðuneytið varð við beiðni stefnanda og leysti nánar greinda hluta jarðarinnar Brautarholts úr óðalsböndum með ákvörðun dagsettri 20. maí 2008. Er í ákvörðuninni vísað til heita jarðarhlutanna eins og þeir voru skráðir í þinglýsingabók, sem Brautarholt 1 til 11, og getið landsnúmera. Eru það sömu landshlutar og kröfugerð stefnanda í 2. kröfulið tekur til.

 

Allir framangreindir eignarhlutar hafa nú skipt um eigendur og er eigendasaga þeirra rakin í stefnu. Fram kemur að stefnandi hafi ýmis afsalað sér eignarhlutum með frjálsri sölu eða eignir hafi verið seldar nauðungarsölu. Þá kemur jafnframt fram í stefnu að í sumum tilvikum hafi þeir sem þannig eignuðust jarðirnar selt þær áfram til þriðja aðila. Óumdeilt er að þeir sem stefnt er í þessu máli til að þola að viðurkenndur verði óðals- og eignarréttur stefnanda að jörðinni eru núverandi afsalshafar.

 

Með bréfi dagsettu 12. júní 2017 fór stefnandi fram á það við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að eignar- og óðalsréttur hennar og fjölskyldu hennar á jörðinni Brautarholti yrði viðurkenndur og staðfestur og sá gjörningur að leysa hálft óðalið úr óðalsböndum árið 2008 yrði felldur úr gildi. Ráðuneytið hafnaði því erindi 26. september s.á.

 

III.

Stefndi íslenska ríkið reisir frávísunarkröfu sína á því að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn um kröfur sínar og hafi hún haft slíka hagsmuni séu þeir nú liðnir undir lok. Ákvörðun ráðuneytisins frá 20. maí 2008 um að leysa jörð stefnanda úr óðalsböndum hafi verið tekin að beiðni hennar sjálfrar. Óðalsbönd séu fremur talin íþyngjandi hvað heimildir óðalseiganda varðar og feli í sér sérstakar kvaðir. Stefnandi eigi ekki lengur umræddar eignir. Hún hafi ýmist selt þær eða þær færst yfir á hendur annarra aðila með nauðungarsölu. Ráðstöfunarréttur stefnanda og sala byggðist að öllu leyti á því að hún hefði heimildir yfir umdeildu landi. Verði ekki séð hvaða lögvörðu hagsmuni stefnandi hafi af því að jörð sem hún eigi ekki lengur verði aftur bundin takmörkunum með sérstakri óðalskvöð. Ekki verði heldur séð að hagsmunir stefnanda séu tengdir búsetu á óðalsjörðinni.

 

Þá byggir íslenska ríkið á því að kröfur stefnanda gagnvart meðstefndu séu vanreifaðar og óljósar og það hafi einnig áhrif á kröfur hennar á hendur íslenska ríkinu. Stefnandi krefjist viðurkenningar á því gagnvart meðstefndu að hún eigi eignar- og óðalsrétt yfir eigninni eins og hún var með fylgifé hinn 11. mars 2008. Stefnandi setji kröfu sína gagnvart íslenska ríkinu þannig fram að hún sé forsenda krafna hennar á hendur öðrum stefndu. Stefnandi hafi á hinn bóginn ekki krafist riftunar á sölu umræddra eignarhluta gagnvart meðstefndu og kröfur hennar séu ekki háðar endurgreiðslu kaupverðs eða söluandvirðis. Kröfur hennar á hendur meðstefndu byggist því ekki á málsástæðum sem gætu leitt til þess að eigendaskiptum á landinu yrði hrundið. Að því leyti sé ekki samræmi milli dómkrafna og málsástæðna gagnvart meðstefndu.

 

Til stuðnings frávísunarkröfunni vísar íslenska ríkið til óskráðrar reglu um nauðsyn lögvarinna hagsmuna af úrlausn máls, sbr. 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Jafnframt er vísað til meginreglu um skýran og glöggan málatilbúnað og þess að stefnandi hafi ekki forræði á sakarefni um það hverjar verði takmarkanir á eignarráðum yfir eign sem hún eigi ekki.

 

Aðrir stefndu sem taka til varna, þ.e. Bjarni Pálsson, Landsbankinn hf., Stjörnugrís hf. og Stjörnuegg hf., byggja frávísunarkröfu sína á sömu sjónarmiðum og rakin hafa verið hér að framan varðandi skort á lögvörðum hagsmunum og vanreifun.

 

Hvað þá málsástæðu snertir að stefnandi hafi ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins vísar Bjarni Pálsson enn fremur til þess að jafnvel þótt fallist yrði á að ákvörðun ráðuneytisins frá 20. maí 2008 hafi brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar, þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að réttaráhrif slíkrar dómsniðurstöðu geti orðið þau að aðrir stefndu, sem eru þinglýstir eigendur tilgreindra fasteigna, verði sviptir eignarrétti sínum að þeim eignum og hann færður til stefnanda án endurgjalds. Stefnandi hafi ekki boðið endurgreiðslu kaupverðs fasteignanna eða krafist riftunar eða ógildingar á framsali fasteignanna eða síðar gerðum kaupsamningum. Hvað vanreifun varðar byggir stefndi Bjarni m.a. á því að óljóst sé á hvaða grundvelli gerð sé krafa um að hann þoli dóm um dómkröfu samkvæmt 1. lið kröfugerðar stefnanda. Umdeild ákvörðun ráðuneytisins snerti ekki hans eign eða óðalsrétt hans. Hann geti ekki borið skyldu vegna ætlaðra ólögmætra ákvarðana ráðuneytisins sem hann hafi ekki komið að á nokkurn hátt.

 

Stefndi Landsbankinn hf. byggir á því að málatilbúnaður stefnanda standist ekki kröfur d-, e-, f- og g-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað og vísar til sömu sjónarmiða varðandi vanreifun og skort á lögvörðum hagsmunum og aðrir stefndu, eins og rakið hefur verið hér að framan.

 

Þá byggja stefndu Bjarni Pálsson, Landsbankinn hf., Stjörnugrís hf. og Stjörnuegg hf. frávísunarkröfu sína á því að í kröfu stefnanda felist í raun krafa um stofnun nýs ættaróðals, en slíkri kröfu sé ekki unnt að verða við með vísan til 2. mgr. 42. gr. jarðalaga nr. 81/2004. Þá byggja sömu stefndu jafnframt á því að kröfur stefnanda á hendur þeim séu í öllu falli ekki enn orðnar til þar sem krafa á hendur þeim í 2. lið kröfugerðar stefnanda sé háð því skilyrði að krafan í 1. lið verði viðurkennd. Vísa þessir stefndu til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings þessari málsástæðu.

 

Loks er í greinargerð Stjörnugríss hf. og Stjörnueggs hf. byggt á því að skilyrði 19. gr. laga nr. 91/1991 um samlagsaðild stefndu séu ekki uppfyllt, auk þess sem það sé vanreifað hvernig unnt sé að líta svo á að aðild stefndu eigi rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Það sé ekki tilvikið í þessu máli enda sé kröfu beint að stefndu á grundvelli ólíkra atvika og samninga.

 

IV.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfum stefndu verði hafnað og byggir á því að kröfugerðin sé varfærin þar sem öllum sem hagsmuna eigi að gæta sé gefið færi á að gæta réttar síns. Þá sé kröfugerðin skýr, sem megi sjá á því að stefndu hafi án vandræða tekið til efnislegra varna.

 

Stefnandi byggir á því að hún eigi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kröfu sína í 1. tölulið sem hún kveður vera kröfu sem unnt sé að fullnægja með aðför á grundvelli 74. gr. laga nr. 90/1989. Kröfugerð hennar sé skilyrt með þeim hætti að kröfur í 2. tölulið falli niður verði ekki fallist á kröfur í 1. tölulið. Stefnandi sé aðili að umdeildri ákvörðun ráðuneytisins og byggt sé á því að framsöl á lóðum eftir að ákvörðun ráðuneytisins var tekin séu ógild þar sem þau hafi ekki verið lögum samkvæm. Stefnandi njóti því enn óðals- og eignarréttar og því eigi hún lögvarða hagsmuni af því að fá ákvörðun ráðuneytisins ógilta. Eigi stefnandi ekki þá hagsmuni leiði það til sýknu en ekki frávísunar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Þá sé aðild Bjarna Pálssonar, sem nú sé óðalsréttarhafi, á grundvelli þess að hann sé sameigandi að réttindum sem séu óskipt, og eigi það bæði við kröfur í kröfulið 1 og 2a.

 

Stefnandi byggir á því að kröfur í 2. tölulið séu skilyrtar viðurkenningarkröfur sem komi því aðeins til úrslausnar dóms fallist dómurinn á kröfu í 1. tölulið kröfugerðar um að ógilda ákvörðun ráðuneytisins. Henni sé heimilt á grundvelli 2. mgr. 25. gr. að setja kröfur fram með þessum hætti. Krafan felist í því að eignar- og óðalsréttur stefnanda verði færður í sama horf og var þegar hin ólögmæta ákvörðun var tekin.

 

V.

Í máli þessu krefst stefnandi ógildingar á ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins frá 20. maí 2008 þar sem fallist var á beiðni hennar um að aflétta óðalsböndum af eignarhluta hennar í jörðinni Brautarholti. Ákvörðun ráðuneytisins haggaði hins vegar ekki stöðu eignarhluta stefnda Bjarna Pálssonar sem á hluta Brautarholts, svo sem rakið er í atvikalýsingu. Byggist krafa stefnanda á því að ákvörðunin hafi brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar þar sem óheimilt hafi verið að leysa hluta jarðarinnar Brautarholts úr óðalsböndum. Verði fallist á framangreint krefst stefnandi þess jafnframt að viðurkennt verði að hún sé eigandi að umræddri jörð og að jörðin sé enn í óðalsböndum.

 

Fyrir liggur að frá því að umdeild ákvörðun ráðuneytisins var tekin hefur stefnandi selt hluta jarðarinnar og veðsett aðra hluta sem síðar hafa verið seldir nauðungarsölu eftir reglum þar að lútandi. Er málatilbúnaður stefnanda á því reistur að ákvörðun ráðuneytisins hafi aldrei haft þau réttaráhrif sem henni var ætlað og njóti stefnandi því enn óðalsréttar yfir jörðinni Brautarholti í heild sinni ásamt Bjarna Pálssyni. Jafnframt hafi öll afsöl sem gefin hafi verið út eftir að ákvörðun ráðuneytisins var tekin „ekki verið lögum samkvæm“, eins og segir í stefnu. Á þeim grundvelli krefst hún þess að óðals- og eignarréttur hennar verði færður í sama horf og hann var þegar hún óskaði eftir að óðalsböndum yrði aflétt þann 11. mars 2008. Styðst sú krafa einnig við þá málsástæðu að hún beri enga sök á því að eignarrétturinn hafi færst úr hennar höndum heldur sé það alfarið stefndi íslenska ríkið sem hafi tekið þá ákvörðun í andstöðu við lög.

 

Fallist er á það með stefndu að málatilbúnaður stefnanda sé verulega vanreifaður og óljós, einkum að því er varðar kröfu um viðurkenningu á eignarrétti hennar að umdeildri jörð. Um lagarök er í stefnu vísað til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglna stjórnsýsluréttar, jarðalaga nr. 81/2004 og meginreglna eignarréttar og kröfuréttar til stuðnings kröfum stefnanda. Í stefnu er með engum hætti gerð grein fyrir því hvað í nefndum lögum eða hvaða meginreglur nefndra réttarsviða geti stutt kröfu stefnanda um að viðurkenna beri eignarrétt hennar á jörðinni. Óumdeilt er, og rakið í stefnu, hvernig einstökum pörtum úr þeim jarðarhluta stefnanda sem hún eignaðist með afsali frá föður sínum árið 2004 hefur verið ráðstafað, ýmist með frjálsri sölu eða nauðungarsölu.

 

Verður málatilbúnaður stefnanda að þessu leyti helst skilinn þannig að allir samningar um eigendaskipti að jarðarhlutum og yfirfærsla eignarréttinda með nauðungarsölu séu ógildir eða marklausir gerningar frá öndverðu þar sem ákvörðun ráðuneytisins, sem heimilaði henni frjálsa ráðstöfun eignarinnar, hafi verið ólögmæt, án þess þó að gerð sé grein fyrir því í stefnu hvaða áhrif það eigi að hafa á réttindi núverandi eigenda einstakra hluta jarðarinnar. Er málatilbúnaður stefnanda í þessu efni bæði óljós og vanreifaður þannig að í bága fer við e- og f-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

 

Jafnvel þótt ákvörðun ráðuneytisins hafi verið haldin annmörkum, sem kynnu að hafa leitt til þess að sú ákvörðun hefði verið ógildanleg á sínum tíma, getur það ekki leitt til þess að síðar gerðir samningar stefnanda um sölu eignarinnar eða aðför lánardrottna eða annarra kröfuhafa í eignarhluta hennar í jörðinni verði ógildir. Er þess að gæta að ákvörðun ráðuneytisins laut hvorki að eignarhaldi stefnanda né síðari eigenda að jörðinni heldur inntaki þeirra eignarráða sem stefnandi hafði á þeim tíma.

 

Stefnandi hefur samkvæmt framansögðu ekki fært haldbær rök fyrir því að hún eigi eignarrétt að umdeildri jörð eða jarðarhlutum sem leyst voru úr óðalsböndum með ákvörðun ráðuneytisins 20. maí 2008. Hún hefur heldur ekki leitt líkur að því eða rökstutt með neinum hætti að hún njóti annars konar réttinda yfir eigninni eða hafi með öðrum hætti hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort tilgreindir hlutar af jörðinni Brautarholti séu óðalsjörð eða ekki. Af því leiðir að stefnandi hefur ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þess álitaefnis. Ber þegar af þessari ástæðu, með vísan til 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og undirstöðuraka að baki þeim lagaákvæðum, að vísa málinu frá dómi.

 

Í ljósi niðurstöðu málsins verður stefnanda gert að greiða þeim stefndu sem tóku til varna málskostnað, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Málskostnaður íslenska ríkisins, Bjarna Pálssonar og Landsbankans hf. er hæfilega ákveðinn 900.000 krónur til hvers þessara stefndu. Málskostnaður stefndu Stjörnugríss hf. og Stjörnueggs hf. er hæfilega ákveðinn 700.000 krónur, og er þá litið til þess að sami lögmaður gætti hagsmuna þessara stefndu og varnir þeirra byggjast í öllum aðalatriðum á sömu málsástæðum.

 

Mál þetta flutti Konráð Jónsson lögmaður fyrir stefnanda. Fyrir stefndu fluttu málið lögmennirnir Einar Karl Hallvarðsson fyrir íslenska ríkið, Árni Ármann Árnason fyrir Bjarna Pálsson, Þorvaldur Emil Jóhannesson fyrir Landsbankann hf. og Sigurður Kári Kristjánsson fyrir Stjörnugrís hf. og Stjörnuegg hf.

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Máli þessu er vísað frá dómi. Stefnandi, Emilía Björg Jónsdóttir, greiði stefndu, íslenska ríkinu, Bjarna Pálssyni og Landsbankanum hf. hverjum um sig 900.000 krónur í málskostnað, og Stjörnugrís hf. og Stjörnueggi hf., hvorum um sig 700.000 krónur í málskostnað.

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir