• Lykilorð:
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2019 í máli nr. E-1764/2018:

A og

B

(Árni Helgason lögmaður)

gegn Skálpa ehf.

(Ásgeir Helgi Jóhannsson lögmaður)

 

 

I.     Kröfur aðila.

Mál þetta var þingfest 31. maí 2018 en tekið til dóms 29. janúar 2019 að lokinni aðalmeðferð. Endanleg dómkrafa stefnenda, [...], sem búsett eru í [...], er að stefndi, Skálpi ehf., Köllunarklettsvegi 2 í Reykjavík, greiði þeim. 4.220.523 kr., auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 5. janúar 2017 til og með 31. maí 2018, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 31. maí 2018 til greiðsludags. Þá gera stefnendur kröfu um að þeim verði dæmdur málskostnaður, auk virðisaukaskatts.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnenda en til vara er þess krafist að kröfur þeirra verði lækkaðar til muna. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

II.  Málsatvik

Stefnendur eru ástralskir ríkisborgarar sem voru á ferðalagi hér á landi í byrjun árs 2017. Munu þau hafa komið hingað til lands 2. janúar 2017 og ráðgert að fara af landi brott 8. janúar til Barcelona þar sem til stóð að halda áfram að ferðast.

Þann 5. janúar 2017 fóru þau í skipulagða ferð með fyrirtækinu Mountaineers of Iceland, en stefndi er rekstraraðili þess félags. Stefnendur höfðu keypt ferðina nokkru áður en í henni fólst að farþegar voru sóttir, ekið var með þá Gullna hringinn og komið við á Gullfossi en að lokum var farið með hópinn í vélsleðaferð frá Skálpanesskála. Alls voru 34 farþegar í ferðinni, þar af tvö börn.

Samkvæmt gögnum málsins hljóðaði veðurspá Veðurstofu Íslands sem gefin var út kl. 9 að morgni þennan dag fyrir svæðið þar sem vélsleðaferðin var farin upp á 18-25 metra á sekúndu. Þá um morguninn hafði Veðurstofan einnig gefið út stormviðvörun fyrir svæðið.

Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur, staðfesti í vitnaskýrslu fyrir dómi að miklu hvassviðri hefði verið spáð fyrir svæðið strax daginn áður 4. janúar 2017 og einnig um morguninn sama dag og einnig að þessi spá hafi gengið eftir.

Ferðahópurinn kom að skálanum um hádegi og hófst þá undirbúningur fyrir vélsleðaferðina. Ragnar Símonarson, þáverandi starfsmaður stefnda, mun hafa útskýrt fyrir þátttakendum í ferðinni hvernig ætti að keyra um á sleðanum. Þá var tekið fram að ef einhver yrði villtur á jöklinum bæri honum að halda kyrru fyrir og þá myndu starfsmenn stefnda finna viðkomandi strax í kjölfarið. Framburði stefnenda og vitna fyrir dómi ber hins vegar ekki saman um hversu lengi þeim hafi verið sagt að bíða ef svo bæri undir.

Í minnisblaði Elínar Jónasdóttur veðurfræðings sem fyrir liggur í málinu kemur fram að í hádeginu þennan dag hafi vindur á Miðhálendinu verið 15-25 metrar á sekúndu. Á Hveravöllum hafi meðalvindur verið 18-23 metrar á sekúndu frá kl. 12 en veðurstöðin á Hveravöllum gefi ábendingar um lægri mörk veðurs á Langjökli þar sem Langjökull sé hærri og vindur aukist almennt með hæð.

Lagt var af stað með þann hóp sem stefnendur voru í klukkan 12.45. Tveir og tveir farþegar voru á hverjum sleða en sleðarnir voru alls 17. Var [A] ökumaður á sleða stefnenda. Alls voru fjórir leiðsögumenn með hópnum, Ragnar Símonarson, Magnús Freyr Hlynsson, Jón Ingi Teitsson og Stefán Haukur Guðjónsson en þeir voru allir starfsmenn stefnda á þessum tíma. Ágreiningslaust er að þegar hópurinn á vegum stefnda var lagður á stað í ferðina aflýsti fyrirtækið snowmobile.is ferð sinni vegna veðurs.

Samkvæmt upplýsingum úr gögnum málsins mun leiðin sem farin var þennan dag hafa legið úr aðstöðunni við Geldingafell til norðausturs meðfram vegi að Skálpanesi (vegur nr. F336) en farið norðan megin við Skálpanesið til norðvesturs þar sem stoppað var til útsýnisskoðunar og gefið færi á ljósmyndatöku. Þá mun hafa verið haldið til baka nánast sömu leið. Í skýrslum lögreglu frá 11. janúar og 9. maí 2017 er vettvangi ferðarinnar og leitarinnar lýst þannig að hún hafi verið á hálendi/afrétti og á sunnanverðum Langjökli.

Upphaflega mun hafa verið farið í átt að Hvítárvatni og stöðvað á tilteknum stað þar sem hægt var að taka myndir og sjá vel yfir vatnið. Þegar farið var af stað á ný hafði veðrið versnað, vindur aukist og skyggnið orðið afar lítið. Um þetta leyti slitnaði á milli í sleðaröðinni þannig að í fremri sleðahópnum voru ellefu sleðar og einn leiðsögumaður, en tveir leiðsögumenn voru með aftari hópnum, þar sem sleðarnir voru sex. Fjórði leiðsögumaðurinn fór á milli hópanna í fyrstu en var hann með aftari hópnum. Lagt var að farþegum að vera mjög nálægt næsta sleða. Leiðsögumaðurinn keyrði fram og til baka meðfram röðinni.

Í lögregluskýrslu frá 9. maí 2017 þar sem rætt var við Jón Inga Teitsson, Ragnar Símonarson og Magnús Frey Hlynson, starfsmenn stefnda, er haft eftir Jóni Inga að veðrið hefði skollið á þeim skyndilega, þegar um það bil 15 mínútur voru liðnar af ferðinni, og að veðurhæð hefði farið allt að 25 metrum og þá orðið tvísýnt. Lýsti Jón Ingi atvikum þannig í lögregluskýrslu að hann hefði ekið aftur með línunni í hópnum þannig að ellefu sleðar voru fyrir framan. Sagðist Jón Ingi hafa ekið ,,eftir tracki“ til að finna hópinn sem var fyrir aftan sem hann fann. Síðan hefði hann reynt að finna hópinn fyrir framan og hefði hann ekið í tvo hringi, fyrst minni hring og síðan stærri hring. Hann hefði þó ekki fundið hópinn fyrir framan þar sem það hefði orðið of blint. Jón Ingi sagði í lögregluskýrslu að ákveðið hefði verið að koma aftari hópnum niður í skála, enda hefðu verið í honum tvö börn. Erfitt hefði verið að fara til baka þar sem mikið rok hefði orðið. Þegar komið hefði verið niður í hús hafi komið í ljós að það vantaði sleða eftir nafnaköll og hefðu þá verið gerðar ráðstafanir til að finna hitt fólkið á 11 sleðum og leit hafist.

Framburður þeirra Ragnars Símonarsonar og Magnúsar Freys í lögregluskýrslu er að meginstefnu á sama veg. Er haft eftir Magnúsi að það hefði tekið um 1 til 2 klukkustundir að koma hópnum niður.

Af lögregluskýrslu, dags. 11. janúar 2017, má ráða að haft var samband við lögreglu af hálfu starfsmanns á skrifstofu stefnda klukkan 14.42. Í skýrslunni segir að starfsmaður stefnda hafi hringt til að láta vita að hún væri í sambandi við starfsmenn fyrirtækisins á Langjökli og að þar væri hópur ferðamanna sem væri kaldur en ekki týndur. Á meðan á samtalinu stóð upplýsti konan hins vegar að hópurinn væri fundinn, verið væri að ferja ferðamenn á bílum og að ekki væri óskað eftir frekari aðstoð.

Aftur var hringt frá fyrirtækinu kl. 15.06, rúmlega 20 mínútum síðar. Í þetta skipti var óskað eftir því að björgunarsveitir væru settar í viðbragðsstöðu, þar sem ekki hafi fengist staðfest að allir væru fundnir. Starfsmaðurinn upplýsti að talning væri í gangi. Klukkan 15.18 var enn hringt og þá var upplýst að einn vélsleða með tveimur ferðamönnum vantaði. Í framhaldi af því hafi varðstjórinn samband við bakvakt svæðisstjórnar björgunarsveita og boðaði til leitar. Til leitarinnar voru fengnar björgunarsveitir í Árnessýslu (svæði 3) og af höfuðborgarsvæðinu (svæði 1). Fólkið sem týnt væru væru ástralskir ríkisborgarar, [...], 59 ára karlmaður og [...], 46 ára kona, stefnendur í málinu.

            Í sömu lögregluskýrslu frá 11. janúar 2017 er haft efir Stefáni Hauki Guðjónssyni leiðsögumanni hjá stefnda að þegar komið hefði verið með fólkið í bíla um kl. 14:00 hafi orðið ljóst að tvo einstaklinga á einum sleða hafi vantað. Stefán hefði þá gefið upp hnit þar sem talið var vitað að fólki hefði enn verið með hópnum. Er jafnframt haft eftir Herberti Haukssyni, fyrirsvarsmanni stefnda, í lögregluskýrslunni að þegar þetta varð ljóst hafi hann farið strax ásamt 12 öðrum leiðsögumönnum frá stefnda og samkeppnisaðilanum snowmobile.is til leitar. Svæðið í kringum slóðina sem ekin var hafi verið fínkembt en fólkið hafi ekki fundist. Lagt hafi verið af stað í leitina um kl. 14:15 en eftir um 30 mínútna leit hafi verið ákveðið að óska eftir aðstoð björgunarsveita við að leita að fólkinu.

            Framburður starfsmanna stefnda fyrir dómi er hins vegar á nokkuð annan veg um hvenær þeir hafi fyrst orðið þess varir að [...]-hjónin vantaði í hóp ferðamannanna, eins og síðar verður rakið.

Í kjölfarið af þessu hófst leit að stefnendum og björgunarsveitir byrjuðu að undirbúa aðgerðir. Björgunarsveitir fundu stefnendur klukkan 20.38 um kvöldið og náðu að bjarga þeim. Munu stefnendur á hafa verið um 1000 metrum vestan við þann stað þar sem hópurinn stöðvaði til útsýnisskoðunar. Var þeim ekið í skálann og svo þaðan aftur til Reykjavíkur. Ekki var talin ástæða til að fara með þau í læknisskoðun strax í kjölfarið heldur var þeim ekið á hótel sitt í Reykjavík.

Í lögregluskýrslunni frá 11. janúar 2017 er haft eftir [...], öðrum stefnanda, að hann hafi orðið viðskila við hópinn þannig að skyndilega hefði drepist á sleða hans. Hann hafi þá veifað til leiðsögumannsins og sá hafi snúið við en ekki séð þau. Þau hafi veifað og öskrað en enginn hafi séð eða heyrt til þeirra og röð sleðanna hafi fjarlægst þau. Hann kvaðst hafa reynt að koma sleðanum í gang en það hefði ekki tekist. Er haft eftir honum í skýrslunni að honum hafi verið kennt að drepa á sleðanum í upphafi ferðar en ekki hvernig ætti að kveikja á honum. Það hafi tekið hann um 30 mínútur að finna út úr því hvernig sleðinn væri settur aftur í gang og hann hafi þá haft sleðann í gangi til að ljósin sæjust. Í lögregluskýrslunni er haft eftir [A] að þau hjónin hafi beðið róleg í um það bil klukkustund en þegar engin hafi verið kominn til þeirra og þau orðin köld hafi þau ákveðið að færa sleðann áfram öðru hvoru, mjög stuttan spöl og fylgt förum eftir vélsleða sem voru fyrir framan hann. Það hafi hann gert þar til hann sá enginn för lengur. Sagði [A] að um kl. 19:00 hafi þau ákveðið að drepa á sleðanum til að spara eldsneytið þar sem þau höfðu áhyggjur af því að eldsneytið myndi klárast.

Stefnendur fóru á Landspítala í skoðun daginn eftir, þ.e. 6. janúar. Í ljós kom að [A] var með verki í báðum fótum, bólgu á hægri hendi og frostbit á fótum og [B] var með frostbit á fingrum og tám og áverka á hnjám eftir að hafa fallið á harðan jökulísinn.

Sama dag og stefnendur fóru á sjúkrahús sendi stefndi svohljóðandi tilkynningu til fjölmiðla:

 

„Vegna atviks við Langjökul í dag og leitar að tveimur ferðamönnum vilja Mountaineers of Iceland koma eftirfarandi á framfæri.

Mountaineers of Iceland vill færa öllu því björgunarsveitafólki sem tók þátt í leit og björgun fólksins, sem varð viðskila við hóp á vegum fyrirtækisins í vélsleðaferð við Langjökul í dag, hugheilar þakkir.

Vegna atviksins í dag skal taka fram að leiðsögumenn Mountaineers of Iceland þekkja svæðið sem hópurinn fór um mjög vel, en þeir hafa samanlagt áratugareynslu í ferðum á svæðinu. Eins og fram hefur komið hafði verið gefin út stormviðvörun en vegna hagstæðrar vindáttar á svæðinu var ákveðið að fara af stað upp að jöklinum eftir að leiðsögumenn fóru á undan hópnum til að kanna aðstæður sem að þeirra mati reyndust ágætar. Vegna fyrri reynslu leiðsögumanna, góðrar þekkingar á svæðinu og hagstæðrar vindáttar var ákveðið að halda af stað.

Mountaineers of Iceland tekur öryggi allra þeirra sem ferðast á vegum fyrirtækisins alvarlega og setur velferð ferðamanna ávallt í fyrsta sæti. Ferðamennirnir sýndu hárrétt viðbrögð með því að fara eftir leiðbeiningum sem gefnar höfðu verið í upphafi ferðar og bíða við vélsleðann um leið og þeir áttuðu sig á að þeir höfðu orðið viðskila við hópinn. Þessi viðbrögð má þakka góðum undirbúningi leiðsögumanna Mountaineers of Iceland áður en lagt er af stað í ferðina.

Atvikið í dag verður rannsakað gaumgæfilega og farið verður í saumana á öllu því sem kom upp á öllum stigum málsins. Í kjölfarið verður verklag skoðað og hvort eitthvað megi endurskoða með tilliti til þessa atviks.“

 

Stefnendur gáfu skýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins í gegnum Skype-fjarfundabúnað. Fyrir dómi lýsti [A] ferðinni þannig í aðilaskýrslu sinni að í upphafi hennar hefðu allir farið í snjógalla og vettlinga í skála. Úr þeim skála hafi ferðalangarnir síðan farið í annan skála þar sem þeim var sýnt hvernig þau ættu að nota vélsleðann. Hefði leiðbeinandinn sagt þeim að ef þau týndust þá ættu þau að halda kyrru fyrir á þeim stað sem við stoppuðum og það kæmi einhver að sækja okkur innan 5-10 mínútna. Leiðbeinandinn hefði tjáð fólkinu að því myndi líða eins og biðin væri heil eilífð en fyrirtækið hefði aldrei týnt neinum áður. Síðan hafi allir hlegið.

Í skýrslu sinni kvað [A] ekkert hafa verið farið í hvernig væri kveikt og slökkt á vélsleðanum. Þau hjónin hafi verið leidd að sínum vélsleða og leiðbeinendurnir hefðu kveikt á þeim. Kvaðst [A] hafa haldið að leiðbeinendurnir vildu ekki að þau væru að kveikja og slökkva á sleðanum.

Fyrir dómi sagði [A] ferðina hafa byrjað þannig að þau hefðu öll verið í beinni röð. Enginn hefði minnst á það við þau að spáð væri vondu veðri. Hann kvaðst hins vegar eiga erfitt með að lýsa hvernig veðrið hefði verið þar sem hann hefði aldrei verið í snjó áður. Hann hafi þó fundið að veðrið væri að versna. Allt hafi orðið mjög hvítt og erfitt að sjá frá sér. Þau hafi stansað á ákveðnum stað og leiðsögumaður komið og tekið mynd af öllum. Síðan hafi leiðsögumennirnir rætt saman og sagði [A] að þeir hefðu verið orðnir mjög órólegir. 

Í kjölfarið hefði verið farið af stað aftur. Á einhverjum tímapunkti hafi vélsleði oltið þannig að maður varð undir. Leiðsögumennirnir hefðu hins vegar losað viðkomandi og ferðinni verið haldið áfram.

[A] kveðst minnast þess að eiginkona hans, sem sat fyrir aftan hann á sleðanum, hafi bankað á öxlina á honum og hún hafið tekið eftir að enginn væri fyrir aftan þau. Þá höfðu sex vélsleðar horfið úr röðinni með þeim þrír leiðbeinendur. Það hafi hins vegar verið leiðsögumaður fyrir framan þau sem hafi sagt [A] að fara mjög hægt áfram og vera mjög nálægt næsta sleða.

Síðan hefðu þau haldið áfram og hanskar [A] rekist í slökkvarann. Sleðinn hafi drepið á sér og hann reynt að snúa lyklinum en ekkert gerðist. [A] kvaðst hafa sagt við konuna sína að það væri slokknað á sleðanum og veifað til leiðsögumannsins. Hann hafi komið í áttina til þeirra en síðan hafi hann snúið við og hópurinn farið. [A] sagðist ekki hafa trúað sínum eigin augum. Þau hefðu allt í einu verið þarna ein.

[A] sagði veðrið þarna hafa verið orðið hræðilegt. Það hafi verið ískalt, hvítt allt í kring og vindurinn orðið mikill. Þarna hafi klukkuna vantað stundarfjórðung í tvö og konan hans hafi byrjað að gráta. [A] kvaðst hafa sagt henni að hafa ekki áhyggjur þar sem leiðsögufólkið myndi koma. Síðan hafi tíminn liðið og þau beðið og konan hans bent á klukkuna sem hafi þá verið orðin þrjú. Þau hefðu þá teygt úr sér og hreinsað sleðann.

Í skýrslu sinni sagði [A] að hjónin hefðu í kjölfarið fært vélsleðann um einn metra í senn þannig að þau myndu ekki verða föst. Síðan var klukkan orðin 16:30. Það var farið að dimma og þau orðin óttaslegin en þá voru tæplega þrjár klukkustundir liðnar frá því að þau urðu viðskila við hópinn.

[A] sagði þau ekki hafa á þessum tíma vitað hvar þau væru. Þau hafi verið hrædd um að þau hefðu gleymst og að samferðafólk þeirra væri bara farið á jeppanum. [A] kvaðst hafa talið að þau myndu deyja ef þau gerðu ekki eitthvað. Hann hafi hugsað til þess að í Ástralíu þá sé leit hætt að ferðafólki eftir klukkan níu á kvöldin. Þá hafi þau kveikt á sleðanum og það hafi komið ljós og þau séð slóðina sem þau voru viss um að væri rétt leið. Þau hafi þá farið löturhægt áfram og fylgt slóðinni af mikilli nákvæmni en síðan týnt henni við slóðanum.

Að sögn [A] grófu þau í kjölfarið holu í snjóinn þar sem þau bjuggust við að þurfa að hafast við þarna um nóttina. Kvaðst [A] hafa grafið í tvo tíma en holan hafi fyllst jafnóðum af snjó. Þau hafi síðan komið sér ofan í holuna og haldið utan um hvort annað, en það hafi verið kalt og linsur sem hann hafi verið með í augunum hafi frostið. Þau hefðu hreyft sig á 15 mínútna fresti og [A] hvatt [B] áfram sem hafi þarna verið orðin þreytt en þá hafi klukkan verið orðin 8:30 um kvöldið.

Þá hafi það gerst að [B] hafi sagt við hann að hún héldi að hún sæi ljós. Fyrst hefði litið svo út að ljósið væri að fara í hina áttina en síðan hafi það komið að þeim og þau áttað sig á því að það væri verið að bjarga þeim.

Í skýrslu sinni sagði [A] að það hefði verið erfitt að komast til baka. Þau hefðu verið í bíl þar sem björgunarsveitarmennirnir sáu ekki einu sinni út og þeir hafi keyrt eftir GPS-leiðsögubúnaði en ferðin til baka hefði tekið um klukkustund.

Þegar komið var á áfangastað hefðu tveir tekið á móti þeim og líka eigandinn stefnanda en lögreglumennirnir sögðu að hefði einnig verið að leita að hjónunum. [A] kveðst hafa sagt að það hefði hann líka átt að gera, enda hefði hann skilið hjónin eftir úti á jökli. Þessum orðum hefði eigandinn snöggreiðst hann og hann hafi farið tala um hversu góðan feril hann hefði í öryggismálum.

[A] sagði lögregluna hafa tekið af þeim skýrslu á staðnum og spurt hvort þau væru slösuð. [A] sagði þessa lífreynslu hafa haft mikil áhrif en erfitt sé að útskýra það. Þau hjónin hafi misst vini þar sem þeir vita ekki hvernig eigi að takast á við þetta. Konan hans hafi grátið reglulega, en hann sé sjálfur orðinn kvíðnari og reiðigjarnari. Þetta hafi einnig haft áhrif á vinnuna hans og hann sé í meðferð hjá sálfræðingi.

Aðspurður um hvort hann hefði skrifað undir yfirlýsingu um að honum væri kunnugt um að ferðin væri hættuleg og að hann myndi fylgja fyrirmælum svaraði hann þeirri spurningu játandi. Hann sagði að þau hefðu ekki fært nema um einn metra á 20-30 mínútna fresti og þau hefðu haldið kyrru fyrir á sama stað í yfir 3 tíma.

[A] kvað ekki rétt sem segði í stefnu að það hafi verið hægt að sjá vel yfir vatnið þar sem vélsleðarnir staðnæmdust fyrir myndatöku að Hvítárvatni. Hann kvaðst heldur gera sér grein fyrir hversu langt hann hefði farið frá þeim stað þar sem sleðinn stöðvaðist upphaflega en taldi þó algerlega ómögulegt að hann hefði farið 800-1000 metra úr leið.

[B] sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hún væri enn að glíma við afleiðingar þessarar ferðar. Þetta hafi verið hræðileg upplifun og hún hafi leitað sér sálfræðimeðferðar í kjölfarið.

Herbert Hauksson, fyrirsvarsmaður stefnda, sagði í aðilaskýrslu fyrir dómi að ferðum sé almennt aflýst þegar stormviðvörun kemur. Ákvörðun um hvort farið sé í ferð sé hins vegar tekin þegar komið er upp á jökul. Herbert sagði stefnda fara eftir Skálpanesinu sem starfsmenn kalli ríkisleiðina og ekki sé farið upp á jökul þegar spáin fer yfir 15 m/s.

Herbert kvað vera stuðst við ákveðin viðmið um hvort ferð sé farin hverju sinni og það komi fyrir að vélsleðaferðir séu felldar niður. Fólki sé þá boðin önnur ferð sem flestir taki. Að sögn Herberts voru það hann og vaktstjórinn Stefán Torfi, starfsmaður stefnda, sem tóku ákvörðun um að fara í ferðina þennan dag. Hann segir að þau hafi verið undirbúin að eitthvað kæmi upp á. Þau hafi verið með auka mannskap í ljósi settra viðmiða. Viðmið séu 5 sleðar á hvern leiðsögumann en þennan dag hafi þau verið með fimm leiðsögumenn á 17 sleða.

Herbert lýsti tilhögun hverrar ferðar þannig að í upphafi væri farið yfir stjórntæki sleðans, m.a. bensíngjöf og neyðarhnappinn. Mikil áhersla væri lögð á að fólk þekkti virkni neyðarhnappsins þar sem algengt sé að sleðarnir fari á hliðina og þá þurfi að slökkva á sleðanum.

Herbert kveðst hafa frétt af málinu þennan dag þannig að Ragnar Símonarson, leiðsögumaður, sem var fremstur hafi hringt í Stefán Torfa og sagt að það vantaði aðstoð. Ástæðan fyrir því að hann stöðvaði sleðann var að keðjan hefði slitnað á milli aðila. Ragnar hafi ekki lagt af stað í að fara með 11 sleða því að hann væri bara einn.

Í skýrslu Herberts kom fram að stefndi hefði gengist fyrir svonefndri greiðuleit með samkeppnisaðilanum en í henni fælist að keyrt væri eftir leiðinni eins og hún var merkt í GPS. Við þá leit hefði stefndi verið með ellefu sleða í röð og 10 metrar á milli. Herbert kvað þá sem tóku þátt í leitinni hafa séð enda á milli og skyggnið hafi verið ágætt á þessum tíma. Stefnendur hafi hins vegar ekki virst vera á leiðinni. Þá kvað Herbert nokkra rekistefnu hafa orðið þegar þeir hafi áttað sig á því að hjónin væru á ferðinni.

Herbert sagði fyrir dóminum að hann teldi lýsingar [A] á viðbrögðum sínum ekki standast þar sem daginn eftir hafi hann séð stóran hring eftir vélsleða sem myndist þegar fólk keyri villt. Þá taldi hann stefnendur ekki skýra rétt frá þegar hann segði þau hafa grafið sig í fönn. Þá lagði hann áherslu á að stefndi hefði ekki farið með þau á jökulinn heldur hefði ferðin einungis verið á Skálpanesinu.

Aðspurður út í ummæli í fréttatilkynningu frá stefnda um að stefnendur hefðu sýnt „hárrétt viðbrögð“ kvaðst Herbert ekki hafa skrifað tilkynninguna og að sú fullyrðing sem þar sé sett fram sé röng. Herbert gekkst þó við því að starfsmaður hans hefði skrifað fréttatilkynninguna og hann hafi samþykkt hana áður en hún varð send til fjölmiðla.

Í vitnaskýrslu Bjarnýjar Bjargar Arnórsdóttir, fyrrverandi starfsmanns stefnda, sem mun hafa verið í stjórnstöð stefnda þennan dag, kom fram að hún hefði fengið fregnir af því að það væri búið að skipta sleðaferðinni í tvennt. Sendir hafi verið starfsmenn til að aðstoða Ragnar með hans hóp og starfsmenn stefnda hafi gefið sér klukkustund til að leita sjálfir áður eða hjálpa til við aðstæður eins og gert sé ráð fyrir í öryggisáætlun. Á þessum tímapunkti hafi ekki verið komið í ljós að stefnendur væru týnd en þau hefðu fengið fréttir af því að hópurinn væri í vandræðum. Þess vegna hafi verið ákveðið að hringja í björgunarsveitina og óska eftir aðstoð en það hafi verið um kl. 14:40.

Síðan hafi farið að berast misvísandi upplýsingar um hversu margir væru í hverjum hópi. Leiðsögumenn hafi kallað sín á milli hvað þeir væru með marga sleða. Fyrri hópurinn hafi sagt að sleðarnir væru fimm en Ragnar hafi sagt sinn hóp vera með 11 sleða. Þessar tölur hafi ekki stemmt. Bjarný kvað aðspurð líklega rétt að það væri í kringum 15.18 sem starfsmenn stefnda hefðu áttað sig á þessu og að [...]-hjónin vantaði í hóp ferðalanganna.

Aðspurð um tildrög og efni fréttatilkynningarinnar sem stefndi sendi frá sér og Bjarný mun hafa samið og hvers vegna því hafi þar verið lýst afgerandi hætti að stefnendur hefðu ,,sýnt hárrétt viðbrögð“ kvaðst Bjarný hafa haft samráð við fjölmiðlafulltrúa hjá Samtökum ferðaþjónustunnar og hann hafi tjáð henni að það væri ,,sniðugt“ að hæla þeim sem hefðu lent í áföllum.

Vitnið Stefán Haukur Guðjónsson, sem var einn leiðsögumanna í umræddri ferð, sagði það vera staðlað ferli hvernig ferðamönnum væri kynnt hvernig þeir notuðu sleðann en meðal annars væri farið yfir hvað gera ætti þegar fólk yrði viðskila við hópinn. Kvað Stefán ekki nefndar ákveðnar tímasetningar í því sambandi, enda væri ekki hægt að miða við slíkar tímasetningar þegar fólk týndist. Þá væri fólki kennt að drepa á og kveikja á sleðanum. Farið væri yfir rauða hnappinn og hvernig hann virkaði.

Stefán Haukur sagði að vegna veðurspárinnar þennan dag hefði verið ákveðið að fara ekki inn á jökul. Þau hefðu farið af stað en síðan hefðu veðrið og vindáttin breyst, sem gerðu það að verkum að hópurinn keyrði með vindinn í fangið á bakaleiðinni. Þau hefðu ekkert veður haft af því að það vantaði sleða í hópinn fyrr en þau voru komin niður í skála en þá hefði verið farið yfir nöfn og hverjir væru á staðnum.

Stefán kvað leit hafa hafist strax og í ljós kom að það vantaði sleða en það hafi verið þegar komið var niður í skála. Hann sagði að GPS-tæki á sleðunum væru með slóðina upp á sentimeter og ástæðan fyrir að stefnendur hefðu ekki fundist hafi verið sú að þau voru ekki á slóðinni. Vitnið kvaðst ekki geta sagt nákvæmlega hvenær þeir voru komnir á slóðina en það gæti hafa verið um klukkan 15:30. Hann segist telja að þau hefðu fundist fyrr ef þau hefðu haldið sig á slóðinni.

Vitnið Ragnar Símonarson, leiðsögumaður, sem var á þessum tíma starfsmaður stefnda, lýsti því fyrir dóminum að hann hafi sótt fólkið í bæinn og farið með það upp í skála og aðstoðað það við að klæða sig í galla. Hópurinn hafi tekið hina svokölluðu ,,Ríkisleið“ og það sé alltaf keyrt eftir sömu leiðinni. Ragnar kvað veðrið hafa verið gott framan af en síðan hefði vindáttin breyst. Síðan hafi keðjan slitnað og þeir náð henni saman. Hann og annar leiðsögumaður, Jón Ingi, hafi komið saman með 11 sleða síðan hafi Jón Ingi Teitson farið eftir hinum sleðunum. Ragnar hafi beðið eftir aðstoð og þá hafi fleiri komið.

Ragnar kvaðst hafa kynnt öryggisatriði fyrir hópnum. Hann sagði kennsluna hafa farið fram inni í bröggum í Skálpanesinu áður en lagt var af stað. Alltaf sé rætt um að ef fólk sjái ekki leiðsögumenn eigi það að halda kyrru fyrir. Ragnar sagði að þegar Jón hafi farið út til Stefáns þá hafi stefnendur strax verið farin út úr slóðinni þar sem annars hefði hann fundið þau. Hann telur óhugsandi að þau hafi ekki kunnað að kveikja á sleðanum þar sem allir hafi kveikt á honum eftir að hafa stansað hjá útsýnisleiðinni.

Ragnar kvaðst aðspurður hafa sagt að tíminn myndi líða sem heil eilífð fyrir þann sem yrði viðskila við hópinn og þyrfti að bíða eftir að vera sóttur. Hann kvað afar ósennilegt að hann hefði lofað því að hann kæmi eftir 5-10 mínútur ef einhver dytti úr röðinni. Ragnar segir að þegar þau hafi stoppað hafi verið slökkt á öllum sleðunum. Síðan hafi allir getað kveikt á honum. Hann kveðst vera 100% viss um að hann hafi kveikt á sleðanum.

Aðspurður um hvenær það hafi fyrst runnið upp fyrir honum að það vantaði sleða í hópinn kvaðst Ragnar að það væri erfitt fyrir hann að gera sér grein fyrir því. Í annað skiptið sem slitnað hefði á milli hópanna hefðu hann og Jón Ingi endað með ellefu sleða saman. Þeir hafi talið sleðana og þétt þá. Hann hafi sagt Jóni Inga að fara til baka og finna strákana en þeir hefðu þá átt að vera með sex sleða. Þegar Jón Ingi kom ekki til baka og Ragnar hafi áttað sig á því að hann væri ekki á leiðinni til baka hafi hann tekið upp símann og hringt í Stefán sem hafi verið vaktstjóri þann daginn og óskað eftir aðstoð. Lýsti Ragnar því þannig að þótt hann hefði sjálfur komist einn leiðar sinnar við þær aðstæður sem uppi voru hefði ekki verið hættandi á það fyrir hann að keyra einn með óreynda einstaklinga. Það hafi verið ástæðan fyrir að sendir hefðu verið þrír auka leiðsögumenn.

Ragnar kveðst hafa gert sér fyrst grein fyrir á því að sleða vantaði þegar Stefán og aðrir hafi komið til hans og talið sleðanna. Þá hafi menn áttað sig á því að hugsanlega vantaði sleða en þá hafi verið farið með allt fólkið niður í ,,gallageymsluna” þar sem fram hafi farið nafnakall. Hafi þeim þá orðið ljóst að sleða vantaði og leit farið í gang. Ragnar kvaðst ekki muna nákvæmlega tímasetningu hvenær leitin hófst en hann hefði verið að koma í hús eftir klukkan þrjú.

Vitnið Magnús Freyr Hlynson, sem var einnig starfsmaður stefnda á þessum tíma, sagði hópinn hafa lagt af stað í roki en fínu skyggni framan af. Síðan hafi verið tekið stopp á miðri leið í um það bil 10 mínútur til að taka myndir. Á þeim tímapunkti hafi verið útsýni yfir allt Hvítárvatn en að því vatni séu fleiri kílómetrar frá útsýnisstaðnum. Síðan hafi fólki verið orðið kalt og ákveðið hafi verið að halda til baka. Síðan þegar þau hafi verið að koma úr stoppinu hafi skyggnið fljótlega orðið lítið og snjókoma. Tveir úr hópnum veltu sleðunum en þegar þau voru komin slitnaði línan aftur. Þá hafi annar leiðsögumaður, Jón Ingi Teitsson, komið og þá hafi línan slitnað enn aftur. Þá hafi skyggnið orðið mjög slæmt og hópurinn ekki fundið Jón Inga. Hafi þá verið ákveðið að leita ekki lengur að Jóni Inga og hópnum þar sem þau hefðu verið með tvö börn í sínum hópi.

Magnús segist fyrst hafa frétt af því að stefnendur vantaði þegar hann kom í Geldingafell, en Geldingafell mun vera við Kjalveginn á leið upp að Langjökli. Þegar það fréttist hafi allar björgunarsveitir verið kallaðar út. Hann segir stefnendur hafa fundist fyrr ef þau hefðu haldið kyrru fyrir.

Vitnið Hjörleifur Kristjánsson var viðstaddur leitina á Skálpanesi þennan dag en hann var að vinna hjá öðru fyrirtæki við vélsleðaferðir. Kvaðst Hjörleifur sjálfur hafa hætt við ferð þennan dag. Hann hafi farið stuttan hring með hóp en svo aftur inn í bragga þar sem veðrið var orðið slæmt. Í framburði sínum sagði Hjörleifur að almennt væri veður metið sérstaklega á staðnum, og það réði ekki úrslitum þótt stormviðvörun væri gefin út. Almennt væri fólk sem ferðast í þessum hópum beðið um að stoppa ef það yrði viðskila við hópinn þar sem erfiðara væri að finna það annars.

Þórður Björn Steinke Þorbergsson, leiðsögumaður sem var með annan hóp á svæðinu þennan dag sagðist hafa snúið við með sinn hóp í vélsleðaferð þennan dag fljótlega eftir að ferðin hófst en þau hafi þá nánast verið í augsýn við skálann. Hann hafi þá verið búinn að skoða veðurspána og sagt við fólkið í sínum bíl að það gæti vel verið að þau kæmust ekki á sleða. Hann hafi lagt af stað í sína ferð nokkrum mínútum  á eftir hópi stefnda og í reynd lent á „veðurvegg“ og snúið við.

Vitnið Borgþór Vignisson lýsir aðkomu sinni að málinu þannig að hann hafi tekið þátt í leitinni að stefnendum sem björgunarsveitarmaður og verið gerður að vaktarstjóra í Skálpanesi. Útkallið hafi komið um kl. 15:40 og hann hafi mætt í skála á svæðinu í kringum kl. 18:15. Hann segir björgunarsveitamennina fljótlega hafa fengið útgangspunkt leitar sem hafi verið staðurinn þar sem þeim var sagt að starfsmenn stefnda hefðu staðnæmst með hópinn. Borgþór sagði stefnendur ekki hafa verið á þessari línu sem hópurinn hefði farið. Taldi vitnið augljóst að þegar menn færu til baka að leita að einstaklingi sem hefði orðið viðskila við einhvern og hann væri ekki línunni þá tefðist leitin töluvert og það gæti verið mjög erfitt að leita á þessu svæði.

Vitnið Bárður Árnason, var einn þeirrra þriggja sem var í bílnum sem fann stefnendur. Hann lýsti því fyrir dómi að þeir sem voru í bílnum hefðu séð ljós en síðan hefðu þeir allt í einu verið komnir að fólkinu. Í vitnisburði sínum sagði Bárður það hafi verið erfitt að fóta sig þar sem stefnendur fundust, það hafi verið komið kolniðamyrkur og ekkert skyggni. Það hefði enn fremur verið ákveðin heppni að rekast á stefnendur.

Einnig komu fyrir dóminn vitnin Hjördís Inga Guðmundsdóttir, sálfræðingur hjá Rauða krossi Íslands, Jón Hlöðver Hrafnsson lögreglumaður og Kristján Björnsson vígslubiskup. Að mati dómsins er óþarft að rekja vitnisburð þeirra sérstaklega enda hefur hann ekki þýðingu fyrir úrlausn sakarefnisins sem hér er til úrlausnar.

Stefnendur eru í dag búsett í Ástralíu. Þau kveða umrætt atvik sitja mjög í þeim og hafa haft mikil áhrif á þau og líðan þeirra. Bæði hafa þau sótt sálfræðimeðferð vegna málsins. Í málinu liggur fyrir skýrsla Dr. Önnu Zapral, sálfræðings sem starfar í Ástralíu, en hún mun hafa hitt [A] fimm sinnum en [B] í sjö skipti frá því þau komu aftur til Ástralíu eftir ferðina til Íslands. Í skýrslunni kemur fram að [A] hafi orðið fyrir áfalli í snjósleðaferðinni og að hann hafi heilkenni áfallastreituröskunar. Það lýsi sér í því að [A] hafi fundið fyrir reiði, pirringi, svefnleysi, aukinni streitu og minni lífsgleði, hætt við þátttöku í mörgum félagslegum viðburðum sem hann taki reglulega þátt í og almennt skort vilja til að taka þátt í ánægjulegum athöfnum. Klínískt mat sálfræðingsins er að þessir andlegu og líkamlegu erfiðleikar séu í tengslum við áfallið sem hann varð fyrir í janúar 2017.

Í skýrslunni segir jafnframt að [B] hafi heilkenni áfallastreituröskunar. Meðal annars hafi hún hætt við þátttöku í mörgum félagslegum viðburðum sem hún taki annars reglulega þátt í og fundið skort á vilja til að taka þátt í ánægjulegum athöfnum. Þá forðist hún að ræða atvikið þar sem henni þyki það yfirþyrmandi og að það komi henni í uppnám. Klínískt mat sálfræðingsins sé að þessir andlegu og líkamlegu erfiðleikar séu í tengslum við áfallið sem hún varð fyrir í janúar 2017.

 

III.             Málsástæður aðila

Málsástæður stefnenda

Stefnendur fara fram á greiðslu skaða- og miskabóta úr hendi stefnda. Til stuðnings kröfu sinni vísa þau til meginreglu skaðabótaréttarins um skaðabótaábyrgð á tjóni sem valdið sé með saknæmum og ólögmætum hætti, enda sé tjónið sennileg afleiðing hegðunar og raski hagsmunum sem verndaðir eru af skaðabótareglum. Enn fremur að huglægar afsökunarástæður á borð við æsku eða skortur á andlegri heilbrigði eigi ekki við um tjónvald.

Stefnendur benda á að ekki sé að dreifa beinum lagaákvæðum um ferðir eins og þær sem farið var í á vegum stefnda 5. janúar 2017, fyrir utan 3. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (hgl.) en þar segir að sá skuli sæta refsingu sem „úthýsir ferðamanni eða segir honum rangt til vegar, enda hefði hann átt að geta séð, að ferðamanninum myndi verða að því háski búinn.“

Stefnendur vísa til þess að lagaákvæðið hafi verið í hegningarlögum allt frá því að þau voru sett árið 1940. Á þeim tíma hafi skipulagðar ferðir með erlenda ferðamenn um náttúru Íslands lítið sem ekkert verið stundaðar og ekki í þeirri mynd sem nú er. Ljóst sé þó að ákvæðið leggi ákveðnar skyldur á þá sem taka að sér að leiðsögn ferðamanna. Ákvæðið kveði á um að óheimilt sé að segja rangt til vegar. Undir þetta geti einnig fallið að leiða ferðamenn áfram í aðstæður sem var að sjá að væru háskalegar. Síðastnefnda atriðið hafi átt við um háttsemi starfsmanna stefndu þar sem þeir virtu að vettugi stormviðvörun Veðurstofu Íslands, þrátt fyrir að vera kunnugir aðstæðum á jöklinum og vera þannig kunnugt um hve skyggni á jöklinum verður lítið í stormi.

Af hálfu stefnenda er vísað til þessa að í lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála, komi fram í 1. mgr. 3. gr. laganna að Ferðamálastofa fari með framkvæmd ferðamála og í 1. tl. 4. gr. laganna segir að verkefni stofunnar sé útgáfa leyfa og eftirlit með að skilyrðum fyrir þeim sé fullnægt. Í 2. tl. 4. gr. komi fram að verkefni stofunnar séu einnig þróunar-, gæða- og skipulagsmál ferðaþjónustu.

Stefnandi vísar einnig til þess að Ferðamálastofa hafi sett leiðbeinandi reglur um öryggismál. Í reglunum komi m.a. fram í 3. gr. að Ferðamálastofa hvetji þá sem bjóða ferðamönnum upp á skipulagðar ferðir innanlands til að útbúa öryggisáætlun vegna þeirra ferða. Öryggisáætlun skuli samanstanda af „áhættumati, verklagsreglum, viðbragðsáætlun og atvikaskýrslu.“ Í 4. gr. reglnanna kemur fram að gera skuli skriflegt áhættumat fyrir hverja ferð.

Af hálfu stefnanda er bent á stefndi hafi sett sér sérstaka öryggisáætlun, sem tók gildi í nóvember 2016 og liggi frammi í málinu. Áætlunin sé greinilega unnin út frá leiðbeinandi reglum Ferðamálastofu og sé hún í samræmi við ákvæði reglnanna. Í henni segir að hlutverk öryggisáætlunarinnar sé að tryggja „öryggi ferðamannsins“. Einnig að stefndi gefi út handbók sem innihaldi leiðarlýsingar fyrir hverja ferð og áhættumat. Fram kemur í umfjöllun áætlunarinnar um ábyrgð á starfsemi á jökli að svæðisstjóri sé ábyrgðarmaður á jöklinum og að hann og vaktstjóri sleðasvæðis meti aðstæður hverju sinni. Svæðisstjóri beri ábyrgð á að leiðarval ferða sé öruggt og forskoði leiðir þegar þess þarf og sjái um að hefla og ýta og gera sleðaleiðir öruggar.

Í 6. kafla áætlunarinnar er síðan fjallað um áhættumat og komi fram að helstu hættur sem hafi verið skilgreindar í ferðum stefnda séu „veðurfar / vindur eða lítið skyggni“ og að dæmi um aðgerðir til að minnka áhættu séu „verklagsreglur og gátlistar fyrir leiðsögumenn á öllum stigum ferðar“ og „leiðbeiningar til leiðsögumanna um viðkomandi ferð, staðhætti og annað“. ‚

Í 7. kafla er fjallað um þjálfun starfsmanna, búnaðarlista og gátlista og er þar m.a. fjallað sérstaklega um jöklaferðir. Fram kemur að sleðaferðir á jökul séu áhættusömustu ferðir fyrirtækisins og að allar „ferðir á jökul séu varasamar þar sem veður getur breyst á örskömmum tíma og sprungur leynst“. Í kafla 7.3. er tekið fram að í handbók leiðsögumanna séu skilgreindar verklagsreglur og gátlistar til að draga úr áhættu og auka öryggi ferðamanna. Meðal annars sé gátlisti yfir „skoðun veðurspár“. Loks kemur fram í 8. kafla að fyrirtækið hafi innleitt viðbragðsáætlanir vegna atvika sem upp geti komið í ferðum fyrirtækisins, m.a. viðbrögð ef „farþegi týnist og utanaðkomandi aðstoðar er óskað“.

Á blaðsíðu 11-12 í áætluninni er síðan fjallað um hvað skuli gera ef farþegi týnist. Annars vegar er fjallað um þá aðstöðu þegar farþegi týnist og finnst svo fljótt og hins vegar þegar farþegi týnist og utanaðkomandi aðstoðar er óskað. Í báðum tilfellum kemur fram að vista skuli GPS punkt um leið og farþega sé saknað.

Stefnendur telja að farþegar sem kaupa sér far í ferðum hjá stefnda megi treysta því að unnið sé eftir öryggisáætlun fyrirtækisins. Farþegarnir megi einnig treysta því að ferðin séu skipulögð af sérfræðingum sem þekki vel til, hafi kannað og metið aðstæður og hafi eftirlit með farþegum sínum á jöklinum.

Að mati stefnenda stóðst framkvæmd sleðaferðar stefnda á jökulinn þann 5. janúar 2017 á engan hátt ákvæði öryggisáætlunarinnar. Óljóst sé með hvaða hætti áhættumat í skilningi áætlunarinnar fór fram. Hafi það farið fram á annað borð er vandséð hvernig niðurstaða þess áhættumats hafi verið að fara í umrædda ferð í ljósi veðurútlits, en fram komi í áætluninni að veðurfar, vindar og lítið skyggni séu helstu hættur í jöklaferðum. Sú vernd sem átti að felast í þessu gagnvart farþegum hafi því ekki verið tryggð. Ekki liggi fyrir að leiðir hafi verið forskoðaðar eða tryggt hafi verið að leiðarval væri öruggt. Í viðbragðsáætlun um hvað skuli gera ef farþegi týnist komi fram að vista skuli GPS-punkt um leið og farþega er saknað. Þetta hafi ekki verið gert, enda tóku leiðsögumenn stefnda hvorki eftir því að sleði stefnenda drap á sér né urðu þeir þess varir að stefnendur væru ekki lengur í hópi farþega. Sú staðreynd ein og sér segi margt um skipulag og umgjörð ferðarinnar þennan dag. Skilyrði voru greinilega svo slæm að sá leiðsögumaður sem fylgdi sleðahóp stefnenda tók ekki eftir því að einn sleða vantaði í hópinn. Raunar tók enginn á vegum stefnda eftir þessu fyrr en allur hópurinn var kominn til baka og hringt er til lögreglu klukkan 15.18. Á þeim tímapunkti höfðu stefnendur þegar setið föst í um 80 mínútur.

Stefnendur telja einnig að leiðbeiningum í upphafi ferðar af hálfu stefnda hafi verið verulega ábótavant. Í yfirferð starfsmanns stefnda hafi einungis komið fram hvernig ætti að keyra sleðann. Þannig hafi ekkert verið komið inn á það hvað gerðist ef það slokknaði á sleðanum eða hvernig ætti að kveikja á honum aftur, líkt og gerist í tilviki stefnenda, vegna óhappatilviks, þar sem [A] rakst í neyðarhnapp á sleðanum. Umræddur hnappur sé á áberandi stað og því geti það vel gerst að farþegar reki sig í hnappinn eða ýti óvart á hann. Stefnda beri að fara yfir öll þau atriði sem upp kunna að koma í byrjun ferðar, eða þá að geta brugðist við slíkum aðstæðum í ferðinni. Í tilmælum starfsmannsins sagði svo aðeins það að ef eitthvað kæmi upp á ætti bara að halda kyrru fyrir og þá kæmu leiðsögumenn innan skamms. Svo reyndist þó ekki vera, enda biðu stefnendur klukkutímunum saman eftir að þau týndust án þess að neinn kæmi. Leiðbeiningaskylda stefnda í upphafi ferðar hafi verið sérstaklega rík í ljósi þess hvernig veðurútlitið var og þeirrar hættu sem yrði ef einhver farþeganna týndist á jöklinum. Brást stefndi leiðbeiningarskyldu sinni að þessu leyti.

Stefnendur benda einnig á að stefndi selji sleðaferðir á jökul í atvinnuskyni til neytenda. Ekki sé gerð krafa um að farþegar hafi neina reynslu eða kunnáttu í jöklaferðum heldur standi ferðirnar opnar fyrir öllum ferðamönnum. Ljóst sé því að ábyrgð stefnda sé mikil á því að öryggismál í ferðum sem þessum séu í lagi og að stefndi beri allan halla af því að hafa ekki staðið betur að málum í þeim efnum. Ferðirnar séu alfarið skipulagðar af stefnda, þar með talið hvernig útbúnaður farþega og sleðanna er og beri stefnda að tryggja að farþegar séu öruggir ef eitthvað kemur upp á.

Í ljósi ummæla starfsmanns stefnda í fjölmiðlum í kjölfar atviksins á jöklinum og sjónarmiða sem koma fram í svarbréfi lögmanns stefnda 17. janúar 2017 þykir rétt að taka fram að stefnendur hafna því alfarið að það sé með einhverjum hætti þeim að kenna hvernig fór á jöklinum og er raunar með nokkrum ólíkindum með hvaða hætti fulltrúar stefnda hafa tjáð sig um þetta atriði, þar sem reynt sé að færa ábyrgðina yfir á stefnendur. Líkt og rakið hafi verið hefur stefndi þá skyldu að tryggja öryggi þeirra sem fara í jöklaferðir á vegum fyrirtækisins, samkvæmt ákvæðum öryggisáætlunar stefnda og í samræmi við þær kvaðir sem hvíla á skipuleggjenda slíkra ferða sem seldar eru í atvinnuskyni. Öryggisáætlun stefnda hafi verið þverbrotin í málinu og megi heita mildi að ekki hafi verr farið þennan dag.

Stefnendur hafna því alfarið að þeim sé um að kenna hvernig fór. Þótt stefnendur hafi fært sleðann sinn eftir að hafa beðið klukkustundum saman í blindbyl eftir því að einhver kæmi þeim til bjargar, án þess að neinn kæmi, þá geti það á engan hátt talist mistök af þeirra hálfu, heldur skiljanleg viðbrögð fólks sem lendir allt í einu í því að vera týnt upp á jökli.

Af öllu þessu samandregnu telja stefnendur ljóst að skilyrðum sakarreglunnar sé fullnægt, að starfsmenn stefnda hafi brotið gegn henni og að stefndi beri ábyrgð á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar. Um lagagrundvöll reglunnar megi vísa til 1. mgr. 23. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Stefnendur kveða tjón þeirra skiptast í annars vegar beint tjón vegna ferðarinnar og útlagðs kostnaðar af þeim sökum og hins vegar miskabætur vegna þeirrar erfiðu lífsreynslu sem stefnendur urðu fyrir. Stefnendur hafi orðið fyrir ýmiss konar beinu tjóni og útlögðum kostnaði sökum atviksins á Langjökli 5. janúar 2017. Sá kostnaður komi til vegna þess að ferðaáform riðluðust, fatnaður eyðilagðist á jöklinum og útlagður kostnaður hafi fallið til við öflun læknisvottorða, þýðingu skjala og fleira. Í þessu sambandi hafa stefnendur lagt fram alls 21 reikning vegna heimsókna til lækna og sálfræðinga og þýðingar löggilts skjalaþýðanda á umræddum gögnum en samtals nemur krafa þeirra vegna útlagðs kostnaðar að þessu leyti 205.589 kr. Eins og þau gögn beri með sér hafi stefnendur sótt sálfræðitíma og er þeirri meðferð sé ekki að fullu lokið. Stefnendur áskilja sér því rétt til að bæta við fleiri reikningum af þeim sökum og hækka dómkröfu sína í málinu af þeim sökum undir meðferð málsins.

Stefnendur vísa til þess að í 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er heimild til þess að dæma miskabætur til þess sem misgert er við samkvæmt því sem nánar greinir í a) og b) lið ákvæðisins. Stefnendur telja ljóst að þau hafi lent í lífshættu þann 5. janúar 2017 þar sem þau hafi verið týnd á jökli í vonskuveðri í um átta klukkustundir.

Ábyrgðin sé á herðum stefnda. Hefðu stefnendur ekki fundist um kvöldið eru verulegar líkur á því að þau hefðu ekki lifað af nóttina. Stefnendum var þessi lífsreynsla eðlilega verulegt áfall. Það sé mat sálfræðings sem þau hafa sótt tíma hjá að stefnendur þjáist af áfallastreituröskun vegna atviksins sem lýsir sér í margs konar kvillum, s.s. reiði, svefnleysi, pirringi, minni félagslegri virkni. Skýrslur sálfræðingsins í þýðingu löggilds skjalaþýðanda liggja frammi í málinu.

Hafa beri í huga að stefndi sé fyrirtæki sem selur ferðir til ferðamanna í atvinnuskyni og hafi af því verulegar tekjur og hafi haft mikinn hagnað. Byggja stefnendur á því við mat á miskabótum skuli m.a. taka mið af því og hvernig stefndi lét sína hagsmuni ráða því að farið var af stað í hinu umræddu ferð, þar sem starfsmenn stefndu létu sér í léttu rúmi liggja skýrar viðvaranir Veðurstofu fyrir svæðið og fóru í ferðina, enda hefði ella þurft að endurgreiða farþegum sem hefðu keypt ferðina.

Á því er byggt að unnt sé að heimfæra háttsemi stefnda undir a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, enda sé stefnendum valdið líkamstjóni þar sem þau hafa átt við andlega erfiðleika að etja frá þessu atviki. Til vara megi einnig heimfæra háttsemina undir b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, þar sem vanræksla starfsmanna stefnda fól í sér meingerð gegn friði og persónu stefnenda.

Farið er fram á miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000,- fyrir hvort um sig, alls 4.000.000 kr. Heildardómkrafa stefnenda nemur því samtölu útlagðs kostnaðar, 205.589,- og miskabóta, kr. 4.000.000,-, eða alls 4.205.589 kr. Gerð er krafa um vexti frá tjónsdegi í samræmi við 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá og með því að mál þetta er þingfest, sbr. 4. mgr. 5. gr. sömu laga.

Sameiginleg aðild stefnenda byggir á 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, enda eiga dómkröfur þeirra rót sína að rekja til sama atviksins. Aðild stefnda byggir á reglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð.

 

Málsástæður stefndu

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda. Stefndi telur engar forsendur fyrir skaðabótaskyldu sinni þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að stefndu hafi orðið fyrir nokkru tjóni sem stefndi geti borið skaðabótaskyldu á.

Stefndi telur sig í engu hafa brotið gegn lögum eða settum reglum um þá starfsemi sem hann stundar. Stefndi hafi ekki virt veðurspár að vettugi. Eins og komið hafi fram þá hafi stefndi og starfsmenn hans áralanga reynslu af vélsleðaferðum á því svæði sem hér um ræðir. Farið hafi verið í margar ferðir þennan dag um sömu leið, ferðin sé tiltölulega stutt og leiðsögumenn stefnda hafi treyst sér í ferðina og ekki talið hættu á að aðstæður myndu breytast til hins verra. Jafnframt hafi ferðinni verið haldið áfram þeim megin í Skálpanesi þar sem sé almennt skjól fyrir sunnan áttum eins og spáð var þennan dag.

Stefndi kveður veðrið ekki hafa breyst til hins verra fyrr en ferðin hafi verið rúmlega hálfnuð, en það hafi ekki verið hægt að sjá fyrir við upphaf ferðar, enda hafi veðurspáin gefið til kynna að veður myndi breytast til hins betra þegar líða átti á daginn. Veðurskilyrði hafi verið könnuð og fleiri ferðir höfðu verið farnar þennan sama dag. Því hafi ekki verið ástæða til þess að ætla að veður myndi versna eins og raun bar vitni. Það liggi því ekkert fyrir um að stefndi hafi af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi haldið í þessa ferð þannig að það geti talist brot á 3 mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða að um gáleysi hafi verið að ræða sem geti valdið stefnda skaðabótaskyldu.

Stefndi bendi á að hann hafði nýlokið við að setja upp ítarlega öryggisáætlun í lok árs 2016 og höfðu allir leiðsögumenn lokið námskeiði í tengslum við gerð hennar. Eins og fram komi í stefnu þá sé öryggisáætlun stefnda í samræmi við leiðbeiningar Ferðamálastofu. Það að ferðmaður týnist feli ekki sjálfkrafa í sér brot á öryggisáætlun, hvað þá að það geti eitt og sér valdið skaðabótaskyldu. Stefndu fóru í einu og öllu eftir öryggisáætlun sinni, í stefnu séu ekki talin upp nein raunveruleg brot á öryggisáætluninni, heldur aðeins almennt vísað til þess að meta hefði mátt veður betur og að merkja hefði átt GPS hnit stefnenda þegar vitað var að þau voru týnd. Eins og fram hafi komið hafi veður verið metið og hnit skráð alla ferðina, hnit þar sem líklegast að stefnendur urðu viðskila voru tilkynnt um leið og hægt var og leit hófst um leið og grunur var um að stefnendur hefðu orðið viðskila við aðra ferðamenn. Sú leit hófst kl. 14:00-14:15 en ekki kl. 15:18 eins og ranglega sé tilgreint í stefnu.

Stefendur telur að það hafi torveldað leit eftir GPS hnitum að stefnendur færðu sig úr stað í trássi við reglur og leiðbeiningar. GPS hnitin hafi því verið gagnlítil vegna eigin athafna stefnenda. Því sé einnig ranglega haldið fram í stefnu að gera þurfi skriflegt áhættumat í hvert skipti sem farið er í staka ferð, hið rétta er að gera skal skriflegt áhættu mat fyrir hverja tegund ferðar. Áhættumat á ferðinni liggi fyrir og það hafi verið framkvæmt. Í áhættumati fyrir tiltekna ferð sem kölluð er Perluferðin liggur fyrir að áhætturnar eru nokkrar. Verklagsreglum fyrir áhættumat á veðri er lýst í málavaxtalýsingu, en mikilvægast við það mat sé að meta skyggni, sem hafi verið gert.

Stefndi kveðst ekki hafa brotið gegn eigin reglum heldur fylgt þeim til hins ítrasta sem hafi orðið til þess að ekki varð meira úr því atviki sem átti sér stað. Það að stefnendur fóru ekki eftir settum reglum sem þeim voru kynntar hafði aftur á móti mikil áhrif á atburðarrásina og tafði alla leit.

Stefndi segir leiðbeiningum leiðsögumanna stefnda í upphafi ferðar í engu hafa verið ábótavant. Leiðsögumenn hafi farið ítarlega yfir alla helstu eiginleika vélsleðans og mikilvægustu regluna um að ef ferðamenn misstu sjónar á vélsleðum fyrir framan sig skyldi stöðva för og bíða þess að finnast. Mikilvægast fyrir aðila sem verða viðskila í ferð sem þessari sé að hreyfa sig ekki úr stað enda sé leiðin GPS hnituð, þekkt og því einfaldara að finna þau ef þau séu kyrr. Eigi þessi regla við í öllum skipulögðum ferðum á vegum stefnda og annarra aðila sem stunda sams konar ferðir. Þetta hafi verið útskýrt vel fyrir stefnendum sem undirrituðu jafnframt yfirlýsingu þess efnis að að farið hefði verið yfir öll öryggisatriði í ferðinni og þeim hefði verið kynnt að um áhættusama ferð væri að ræða. Þrátt fyrir kynningu á því að um hættusama ferð væri að ræða þá kusu þau að fara í ferðina.

Þrátt fyrir að stefnendur hefðu sjálf gert ráð fyrir því að finnast fljótlega, þá var ekkert í leiðbeiningum stefndu sem gaf nokkurn tímann til kynna að stefnendur ættu að færa sig úr stað á nokkrum tímapunkti. Það væri enda í hróplegu ósamræmi við meginregluna sem stefnendur vissu mæta vel að gilti, þ.e. að ferðamenn ættu að halda kyrru fyrir ef þau misstu sjónar á öðrum sleðum.

Það að stefnendur gátu ekki gangsett sleðann fyrr en eftir 15 mín eins greint er frá í lögregluskýrslu hafi ekki áhrif á það að stefnendur fengu skýr fyrirmæli um að halda kyrru fyrir í þeim aðstæðum sem þau lentu í. Þess er þó rétt að geta hér að í skýrslu Ragnars Símonarsonar til lögreglu kemur fram að hann hafi sýnt stefnendum hvernig þau hefðu átt að gangsetja sleðann. Jafnframt liggi fyrir að ræsihnappurinn sé beint fyrir neðan neyðarhnappinn á sleðanum. Þetta hafi því ekki verið áhrifaþáttur í málinu, að öðru leyti en svo að stefnendur torvelduðu leit með því að færa sig úr stað eftir að þau gangsettu vélsleðann. Það að þau skyldu síðan ekki hafa kveikt á sleðanum allan tímann gerði það að verkum að leit var enn erfiðari en ljósbjarminn af sleðanum hefði auðveldað leit til muna.

Stefndi telur það liggja fyrir í gögnum málsins og framburði stefnenda að þeim var kunnugt um að þau áttu að halda kyrru fyrir. Það voru því ekki bara mistök af hálfu stefnenda að færa sleðann úr stað, heldur var það bein óhlýðni við þá sérstöku reglu sem þau margviðurkenna að hafa fengið kynningu á um að halda kyrru fyrir. Með þessu töfðu stefnendur leitina að þeim um marga klukkutíma.

Stefndu telur stefnendur ekki hafa sýnt fram á það með nokkrum hætti að þau hafi orðið fyrir tjóni. Engin læknisfræðileg gögn liggi fyrir um líkamlega áverka og engin sönnun liggi fyrir um að fatnaður þeirra hafi eyðilagst. Þau litlu gögn sem liggja fyrir í málinu, byggja á einhliða frásögn stefnenda af atvikum. Miðað við að ekkert amaði að stefnendum við skoðun af lögreglu á vettvangi og að þau þáðu ekki boð um að fara til læknis eða að fá áfallahjálp þegar það var boðið þá liggur ekki fyrir að þau hafi orðið fyrir nokkru raunverulegu tjóni.

Stefndi telur einnig að engar upplýsingar liggi fyrir um heilsufar þeirra fyrir atvikið, hvorki andlegt né líkamlegt og engar sannanir liggja því fyrir um það að þau hafi orðið fyrir nokkrum miska í skilningi 26. gr. laga nr. 50/1993 vegna þessa tiltekna atburðar sem hér um ræðir. Staðhæfingar í skýrslum sálfræðings stefnda byggi á einhliða lýsingum stefnenda af aðstæðum og engu öðru, en þeim fullyrðingum er mótmælt sem ósönnuðum. Stefndi vísar einnig til þess að samkvæmt yfirlýsingu stefnenda sem þau hafi undirritað taki þau á sig alla ábyrgð á skaða vegna atvika sem má leiða af því að þau hafi ekki farið eftir gefnum leiðbeiningum en í enskum texta segi: ,,I myself bear all responsibility for damage caused by me due to my carelesness or failure to follow set/given/published instructions.“.

Fyrir liggi að stefnendur hafi viðurkennt að hafa brotið gegn þeim reglum og leiðbeiningum sem þau fengu í upphafi ferðar. Verði þau því að bera ábyrgð því tjóni sem þau telja sig hafa orðið fyrir. Stefnendur hafi hafnað því að vera færð á heilsugæslu og höfnuðu áfallahjálp, en hvoru tveggja stóð þeim til boða og rétt eins öðrum ferðamönnum sem tóku þátt í ferðinni.

Öllum fullyrðingum um að stefndi hafi með nokkrum hætti valdið stefnendum miska samkvæmt 2. tl. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, er mótmælt sem ósönnuðum. Ekkert gefi til kynna að ummæli stefnda eða starfsmanna hans hafi verið röng eða ófullnægjandi, þannig að þau feli í sér ólögmæta meingerð gegn stefnendum.

Ef ekki verði fallist á kröfur stefnda af sýknu þá telur stefndi að ábyrgð stefnenda og eigin sök sé í ljósi alls fyrrgreinds, umtalsverð og að það eigi að leiða til þess að bæturnar verði lækkaðar til muna. Stefnendur hafi gefið út fyrrnefnda yfirlýsingu um að þau myndu fara eftir leiðbeiningum stefnda og að þau hefðu fengið kynningu á öllum reglum stefnda og hættueiginleikum vélsleðaferðarinnar, þrátt fyrir það hafi þau kosið að taka þátt í ferðinni. Þau hafi vísvitandi ekki farið eftir reglum og eiga því stærstan þátt í því að leit að þeim tafðist til muna og upplifun þeirra varð eins slæm og þau telja.

Krafist er málskostnaðar að skaðlausu hvort sem fallist verður á aðal- eða varakröfu stefnda.

 

IV. Niðurstaða

 

1.      Megintinntak ágreinings og sjónarmið um sönnunarmat

Ágreiningur þessa máls fjallar verulegu leyti um veður og ólíkar skoðanir manna á hvernig bregðast hafi átt við veðurhorfum. Þannig byggist málatilbúnaður stefnanda að meginstefnu á því að ákvörðun starfsmanna stefnda um að fara með þau í vélsleðaferð á hálendi Íslands við Langjökul í janúar 2017 þrátt fyrir slæma veðurspá og að Veðurstofan hefði gefið út stormviðvörun fyrir svæðið hafi einkennst af gáleysi. Þetta gáleysi hafi leitt til fjártjóns og miska fyrir stefnendur sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á.

Ljóst er að stefnendur telja meðal annars að stefndi hafi ekki farið eftir því sem fram kemur í 7. kafla eigin öryggisáætlunar um skoðun veðurspár og viðbrögð við því að farþegi týnist. Í því sambandi nefna stefnendur sérstaklega að starfsmönnum stefnda hafi láðst að vista GPS-punkt um leið og þeirra sé saknað. Starfsmenn stefnda hafi hins vegar hvorki tekið eftir að vélsleði stefnenda hafi drepið á sér né að þau hafi vantað í hóp ferðamanna fyrr en allur hópurinn var kominn til baka úr ferðinni og hringt var í lögreglu klukkan 15.18. Á þeim tímapunkti hafi stefnendur setið föst í um 80 mínútur.

Af hálfu stefnda er þessum málatilbúnaði mótmælt. Stefndi vísar til þess að veðurskilyrði hafi verið könnuð og fleiri ferðir hafi verið farnar þennan sama dag. Ekki hafi því verið ástæða til þess að ætla að veður myndi versna eins og raunin varð og því liggi ekkert fyrir um að um gáleysi hafi verið að ræða sem geti valdið stefnda skaðabótaskyldu. Stefndi telur einnig að hann hafi í einu og öllu farið eftir öryggisáætlun sinni. Þá kveður hann hnit þar sem líklegast var að stefnendur hefðu orðið viðskila hafa verið tilkynnt um leið og hægt var og leit hófst um leið og grunur var um að stefnendur hefðu orðið viðskila við aðra ferðamenn. Af hálfu stefnda er byggt á því að sú leit hafi hafist kl. 14:00-14:15 og mótmælt fullyrðingum í stefnu um að hún hafi hafist kl. 15:18.

Af hálfu stefnenda er einnig byggt á því að starfsmenn stefnda hafi veitt þeim óviðunandi leiðbeiningar um viðbrögð ef þau yrðu viðskila við hópinn og hvernig ætti að kveikja á sleðanum aftur. Stefnendur hafna því að þeim verði kennt um það hvernig fór. Þótt stefnendur hafi fært sleðann sinn eftir að hafa beðið klukkustundum saman í blindbyl eftir því að einhver kæmi þeim til bjargar, án þess að neinn kæmi, þá geti það á engan hátt talist mistök af þeirra hálfu. Þarna hafi einfaldlega verið um að ræða skiljanleg viðbrögð fólks sem lendi allt í einu í því að vera týnt upp á jökli.

            Í málinu liggur fyrir að ferðin sem málið snýst um var farin á vegum fyrirtækisins Mountaineers of Iceland en stefndi er rekstraraðili félagsins. Ekki verður annað séð af málatilbúnaði stefnenda en að hann sé byggður á reglum um skaðabótaskyldu utan samninga. Í ljósi þessa og þegar haft er í huga að við aðalmeðferð málsins kom fram að leiðsögumennirnir í ferðinni voru starfsmenn stefnda verður að telja að stefnda sé með réttu stefnt til aðildar í málinu. Þá er rétt að taka fram að stefndi hefur engan ágreining gert um aðild sína að málinu. Í samræmi við framangreint verður því lagt til grundvallar hér í framhaldinu að ferðin sem um ræðir hafi verið farin á vegum stefnda og verið á ábyrgð hans.

            Aðila greinir að öðru leyti verulega á um atvik málsins. Þannig er heldur stefndi því fram að stefnendur hafi fært sig úr stað eftir viðskilnað sinn við hópinn og með því torveldað alla leit að sér. Þessu hafa stefnendur mótmælt og vísað til þess að þau hafi haldið kyrru fyrir í um það bil klukkustund. Þegar engin hafi komið til þeirra og þau orðin köld hafi þau ákveðið að færa sleðann áfram öðru hvoru, mjög stuttan spöl og fylgt förum eftir vélsleða sem voru fyrir framan hann. Það hafi hann gert þar til hann sá engin för lengur. Þá aðila málsins einnig á um það hvort leit að stefnendum hafi hafist kl. 14:00 eða 15.18 og hvaða leiðbeiningar stefnendur hafi fengið um notkun vélsleðans.

Við mat á sönnunargildi framburðar vitna málsins um þessi atvik er óhjákvæmilegt að horfa til þess að þau eru ýmist fyrrverandi eða núverandi starfsmenn stefnda og að ávirðingar þær sem stefnendur bera á stefnda lúta óbeint að framgöngu þeirra við tilhögun ferðarinnar, sbr. 59. gr. laga nr. 91/1991. Bæði lýsingar vitna sem og aðila málsins hafa því takmarkað gildi við að leysa úr málinu að því marki sem þær stangast á. Þetta á þó ekki við að því marki sem aðilar og vitni viðurkenna atvik sem eru þeim í óhag.

Við mat á málatilbúnaði aðila er enn fremur ekki unnt að horfa alfarið framhjá því sem rakið er í kafla II hér að framan að stefndi sendi að eigin frumkvæði frá sér opinbera fréttatilkynningu til fjölmiðla daginn eftir að atvik málsins áttu sér stað þar sem fullyrt er að stefnendur hafi sýnt „hárrétt viðbrögð með því að fara eftir leiðbeiningum sem gefnar höfðu verið í upphafi ferðar og bíða við vélsleðann um leið og þeir áttuðu sig á að þeir höfðu orðið viðskila við hópinn“.

Fyrirsvarsmaður stefnda hélt því fram í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi að þessi ummæli væru ósönn en viðurkenndi þó jafnframt að þessi tilkynning hefði verið lesin fyrir hann áður en hún var send fjölmiðlum. Þá sagði Bjarný Björg Arnórsdóttur, fyrrverandi starfsmaður stefnda, sem ritaði fréttatilkynninguna, að þessi ummæli hefði verið sett inn fyrir áeggjan fjölmiðlafulltrúa hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, sem hafi kveðið „sniðugt“ að hæla þeim sem lent hefðu í áföllum.

Fjölmiðlafulltrúin sem um ræðir hefur hins vegar ekki komið fyrir dóm til að staðfesta frásögn vitnisins. Af þeim sökum og í ljósi þess að sú fréttatilkynning stefnda sem um ræðir var send til opinberrar birtingar áður en ágreiningur verður á milli aðila um hvort stefnendur hafi orðið fyrir því tjóni sem krafa þeirra í málinu lýtur að verður að telja að þessi tilkynning hafi umtalsvert vægi þegar tekin er afstaða til sannleiksgildis andstæðra fullyrðinga aðila um málsatvik og málatilbúnaðar stefnda um að stefnendum verði að einhverju leyti sjálfum kennt um það hversu seint þau fundust þennan dag.

Að sama skapi verður ekki að hjá því litið að í vitnisburði Bjarnýjar, Ragnars Símonarsonar, fyrrverandi starfsmanna stefnda, og Stefáns Hauks Guðjónssonar, núverandi starfsmanns stefnda, kemur fram að starfsmenn hafi ekki orðið þess varir að stefnendur vantaði í hópinn fyrr en komið var niður í skála en þá mun klukkan hafa verið að ganga fjögur. Fyrir liggur að ekki var haft samband við lögreglu um að stefnenda hafi verið saknað fyrr en klukkan 15.18. Í ljósi alls þessa þykir dóminum ekki óvarlegt að leggja til grundvallar að það hafi farið framhjá starfsmönnum stefnda að stefnendur hefðu orðið viðskila við hópinn fyrr en rúmlega hálfri annarri klukkustund eftir að síðast var vitað með vissu að stefnendur hefðu verið í hópnum.

 

2. Afstaða dómsins til þess hvort starfsmenn stefnda hafi sýnt gáleysi

Í ljósi málatilbúnaðar aðila og framburðar vitna verður að telja óumdeilt að veður og þá einkum skyggni séu meðal helstu áhættuþátta í ferðum af því tagi sem mál þetta lýtur að. Fram hefur komið að veðrið þennan dag leiddi til þess að snúið var fyrr til baka úr ferðinni og aðrar ferðir voru felldar niður, þar á meðal vélsleðaferð hóps á vegum samkeppnisaðila stefnda sem lagt var af stað í aðeins nokkrum mínútum á eftir ferð stefnda. Eitt meginágreiningsefna málsins er því hvernig starfsmenn stefnda lögðu mat á veðurhorfur þennan dag og hvort sú ákvörðun starfsmanna stefnda að fara í vélsleðaferðina þrátt fyrir slæmar veðurspár á svæðinu verði virt þeim til gáleysis sem leiði til bótaábyrgðar stefnda.

Varnir stefnda um að ákvörðunin verði ekki rakin til gáleysis starfsmanna hans hafa einkum byggst á því að ferðin sé tiltölulega stutt. Þá hafi leiðsögumenn stefnda kannað veðurskilyrði og treyst sér í ferðina og ekki talið hættu á að aðstæður myndu breytast til hins verra. Jafnframt hafi ferðinni verið haldið áfram þeim megin í Skálpanesi þar sem sé almennt skjól fyrir sunnanáttum eins og spáð hafi verið þennan dag. Stefndi kveður veðrið enn fremur ekki hafa breyst til hins verra fyrr en ferðin hafi verið rúmlega hálfnuð, en það hafi ekki verið hægt að sjá fyrir við upphaf hennar, enda hafi veðurspáin gefið til kynna að veður myndi breytast til hins betra þegar líða átti á daginn.

 Við mat á háttsemi starfsmanna stefndu í þessu sambandi er ekki unnt að líta framhjá því að starfsmönnunum mátti vera nokkuð auðvelt að sjá þá áhættu sem fólst í því að taka hóp af ferðamönnum í vélsleðaferð á hálendi Íslands í byrjun janúar með tilliti til þeirrar veðurspár sem fyrir lá um hálendið strax daginn áður og síðan að morgni dagsins sem ferðin var farin. Jafnframt verður að horfa til þess að slæm veðurspá fyrir svæðið lá þegar fyrir daginn áður en ferðin var farin. Starfsmenn stefnda höfðu því nokkurt ráðrúm um hvernig þeir ákváðu að bregðast við veðurspánni.

Telja verður að ýmis atriði í tengslum við ferðina hafi enn fremur gert það að verkum að stefnda hafi borið að sýna ríka aðgát við mat á veðurástæðum. Í því sambandi verður að hafa í huga að stefnendur höfðu enga reynslu af slíkum ferðum, auk þess sem ferðin var farin í 34 manna hópi sem í voru tvö börn. Þá var stefnendum einnig falið að aka farartæki sem þau höfðu enga reynslu af að stjórna. Af vitnisburði fyrrverandi starfsmanns stefnda, Ragnars Símonarsonar, verður enn fremur ráðið að fleiri óreyndir einstaklingar hafi verið með í för á vegum stefnda þennan dag.

Að því er varðar þau sjónarmið stefnda að stefnendum hafi verið kynnt sú áhætta sem fylgdi ferðinni þá liggur fyrir í gögnum málsins undirrituð yfirlýsing átta þátttakenda, þar á meðal stefnenda, um að þeim væri ljós að ferðin gæti falið í sér „einhverja hættu“ (e. ,,some danger“). Á hinn bóginn verður ekkert ráðið af gögnum málsins eða þess sem fram kom við aðalmeðferð málsins hvaða áhætta stefnendum var kynnt að þessu leyti eða hvaða áhrif veðurskilyrði gætu haft á ferðina. Þótt í yfirlýsingunni sem um ræðir komi fram að þátttakendur skuldbindi sig til að kynna sér leiðbeiningar og öryggisreglur stefnda og fylgja þeim í öllu hefur stefndi ekki sýnt fram á að stefnendum hafi fengið að kynna sér slíkar reglur og leiðbeiningar umfram þá leiðsögn sem þau fengu munnlega í skálanum áður en lagt var af stað. Sjónarmið um áhættutöku og samþykki koma ekki til skoðunar í þessu sambandi, enda hefur stefndi heldur ekki borið við slíkum málsástæðum í greinargerð sinni.

Eins og áður er rakið þá ber framburðum stefnanda og Davíðs Símonarsonar, sem var leiðsögumaður þeirra í umræddri ferð, ekki saman um hvort hann hafi sagt þeim að ekki myndu líða meira en 5-10 mínútur þar til einhver kæmi til þeirra ef þau yrðu viðskila við hópinn og héldu kyrri fyrir. Ágreiningslaust er þó að Davíð sagði þeim að þau myndu upplifa biðtíma sem heila eilífð ef til þess kæmi.

Hvað sem líður ólíkum framburði aðila á hvað stefnendum og starfsmönnum stefnda fór á milli um hversu lengi þau gætu átt von á því að bíða, verður að telja nægilega fram komið með tilliti til framburðar vitna fyrir dómi að starfsmenn stefnda gerðu sér ekki grein fyrir að stefnendur vantaði í hópinn fyrr en þau höfðu verið týnd rúmlega hálfa aðra klukkustund í aftakaveðri á miðhálendi Íslands.

Að virtum öllum atvikum málsins verður að telja að starfsmenn stefnda hafi í með ákvörðun sinni um að fara í umrædda vélsleðaferð með óreynda ferðamenn á hálendi Íslands 5. janúar 2017 sýnt af sér gáleysi sem varðað geti stefnda bótaábyrgð. Þá verður að telja að sama gildi um þá háttsemi starfsmanna stefndu að missa sjónar á stefnendum og átta sig ekki á því að þau vanti í hópinn fyrr en rúmlega hálfri annarri klukkustund síðar.

Við mat á gáleysi starfsmanna stefndu verður ekki dregin fjöður yfir það að stefndi hefur um árabil selt erlendum ferðamönnum skipulagðar ferðir um hálendi Íslands. Þá liggur einnig fyrir að starfsmenn stefnda sem fóru með stefnendum í þessa ferð höfðu áralanga reynslu af leiðsögn og handleiðslu ferðamanna í slíkum ferðum. Mátti þeim því vera fulljóst hvaða hætta stefnendum gat verið búin miðað við þær aðstæður sem uppi voru í málinu. Að mati dómsins var gáleysi þeirra að þessu leyti verulegt. Þá verður það ekki talið stefnendum til eigin sakar að þau hafi keyrt vélsleða sinn áfram þegar liðið var á þriðju klukkustund frá því að þau urðu viðskila við hópinn eins og þau hafa sjálf viðurkennt. Telja verður að í ljósi þess að þau voru í óvæntum og erfiðum aðstæðum, auk þess sem tekið var að rökkva, verði þau ekki látin gjalda þess að sjálfsbargarviðleitni þeirra hafi tekið völdin á þessum tímapunkti.

Að mati dómsins hefur hins vegar ekki verið sýnt fram á að leiðbeiningum til stefnenda hafi verið áfátt um notkun sleðans. Þá verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að stefnendur hafi fært sleða sinn af leið strax í kjölfar þess að þau urðu viðskila við hópinn. Þótt leiðsögumenn hafi ekki fundið þau þegar þeir keyrðu á milli hópa þá kom það fram við aðalmeðferð málsins að þeir hafi átt í erfiðleikum með að finna hópa hvers annars vegna skyggnis og versnandi veðurs. Verður því ekki byggt á því að stefnendur hafi farið strax af leið.

 

3. Ákvörðun bóta

Eins og áður er rakið felur lúta kröfur stefnenda í málinu annars vegar greiðslu skaðabóta vegna fjártjóns og hins vegar greiðslu bóta fyrir miska. Að því er varðar fjártjónið hafa stefnendur lagt fram alls 21 reikning vegna heimsókna til lækna og sálfræðinga, auk þýðingar löggilts skjalaþýðanda á umræddum gögnum. Samtals nemur krafa þeirra vegna útlagðs kostnaðar að þessu leyti 205.589 kr. eftir að útlagður kostnaður í áströlskum dölum hefur verið umreiknaður í íslenskar krónur. Stefndi hefur ekki mótmælt útreikningum stefnda hvað það varðar. 

Til stuðnings kröfu sinni um fjártjón hafa stefnendur lagt fram skjöl á ensku Þessi skjöl hafa ekki verið lögð fyrir dóminn í löggiltri þýðingu. Af efni skjalanna verður þó auk þess ekki alltaf ráðið hvaða kostnað stefnendur hafi á endanum þurft að hafa á hverri heimsókn eða hvert tilefni hverrar heimsóknar hafa verið.

Ljóst er þó að 14 þessara skjala stafa frá Dr. Önnu Zapral en í gögnum málsins liggja fyrir skjöl um að stefnendur hafi sætt meðferð hjá henni vegna þeirrar óskemmtilegu lífsreynslu sem þau urðu fyrir á hálendi Íslands 5. janúar 2017. Í ljósi þessa þykir ekki óvarlegt að leggja til grundvallar að sá kostnaður sem stefnendur hafa tilfært vegna kostnaðar af heimsóknum til Dr. Zapral standi í slíkum tengslum við atvik þessa máls að hann verði talinn til fjártjóns þeirra vegna háttsemi starfsmanna stefndu, sem dómurinn hefur talið stefnda bera ábyrgð á.

Með vísan til þess sem að framan er rakið fellst dómurinn á kröfur stefnenda um útlagðan kostnað vegna heimsókna þeirra til Önnu Zapral en samkvæmt þeim gögnum sem stefnendur hafa lagt fram nemur þessi kostnaður alls 86.796 kr.

Hvað varðar önnur gögn sem stefnendur hafa lagt fram þá verður hins vegar ekkert ráðið af þeim gögnum hvert hafi verið tilefni kostnaðarins og í hvaða tengslum hann standi við háttsemi starfsmanna stefndu. Í ljósi þessa verður ekki fallist á að sá kostnaður sé meðal bótaskylds fjártjóns stefnda í þessu máli.

Þá verður heldur ekki séð hvernig kostnaður af löggiltri skjalaþýðingu skjala sem lögð hafa verið fyrir dóminn verði talinn til bótaskylds fjártjóns stefnanda sem rakið verði til gáleysis starfsmanna stefndu. Samkvæmt e-lið 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, telst þóknun til þýðenda til málskostnaðar í einkamáli sem og annar kostnaður sem stafar beinlínis af máli. Þar sem ekki verður annað séð en að umræddra þýðinga hafi beinlínis verið aflað í tilefni þess dómsmáls sem hér er rekið verður ekki fallist á kröfu stefnanda sem felur í sér að þessi kostnaður sé meðal bótaskylds fjártjóns.

Stefnendur gera einnig kröfu um það að stefndi greiði hvoru þeirra um sig 2.000.000 kr. í miskabætur vegna háttsemi starfsmanna stefnda. Um kröfu sína að þessu leyti vísa stefnendur bæði til a- og b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Af þessum ákvæðum leiðir að heimilt er að láta þann sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni, sbr. a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, eða ber ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns, sbr. b-lið sama ákvæðis, að greiða miskabætur til þess sem misgert er við.

Ljóst er af lögskýringargögnum við ákvæði skaðabótalaga að hugtakið líkamstjón tekur ekki aðeins til meiðsla eða líkamsspjalla heldur einnig annars heilsutjóns, þar á meðal geðræns tjóns. Að því er varðar skilyrðið um ólögmæta meingerð samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga þá kemur fram í athugasemdum við ákvæðið að í skilyrðinu um ólögmæta meingerð samkvæmt ákvæðinu felist að um saknæma hegðun sé að ræða. Til þess að tjónsatvik verði talið ólögmæt meingerð þurfi gáleysi þó að vera verulegt. Hefur í dómaframkvæmd verið við það miðað að lægsta stig gáleysis fullnægi ekki kröfum ákvæðisins, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 6. desember 2018 í máli nr. 843/2017 og þá dóma sem þar er vitnað til.

Til stuðnings kröfu sinni um greiðslu miskabóta fyrir líkamsstjón hafa stefnendur einkum vísað til skýrslna Dr. Önnu Zapral sálfræðings frá 10. og 13. apríl 2018 sem fyrir liggja í löggiltri þýðingu. Stefnendur hafa staðið einhliða af því að afla umræddra skýrslna og hafa ekki lagt frekari grundvöll að því að sanna líkamstjón sitt, eins og t.d. með öflun matsgerðar. Þá var dr. Zapral ekki kvödd fyrir dóminn til að staðfesta það sem fram kom í skýrslu hennar. Af þeim sökum verður ekki talið að stefnendur hafi sýnt nægilega fram á líkamstjón sitt hvað þetta varðar og er kröfum þeirra hafnað að því leyti sem þær varða líkamstjón.

Að því er snýr að kröfum stefnenda um miskabætur með tilliti til þess að þau hafi orðið fyrir ólögmætri meingerð, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, þá er það mat dómsins eins og fyrr greinir að gáleysi starfsmanna stefndu þennan dag hafi verið verulegt og þeir hafi komið fram við stefnendur með þeim hætti að það teljist ólögmæt meingerð.

Þegar tekin er afstaða til kröfu stefnenda um miska verður að horfa til þess að í dómaframkvæmd hafa ekki verið gerðar eins ríkar kröfur til þess að stefnendur færi fram sönnur fyrir miska sínum vegna ólögmætrar meingerðar og vegna líkamstjóns, sjá hér m.a. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 26. júní 2018 í máli nr. 729/2017.

Í ljósi þessa þykja stefnendur hafa sýnt fram á að sú lífsreynsla sem þau urðu fyrir 5. janúar 2017 hafi haft víðtæk og íþyngjandi áhrif á þau, en í framburði þeirra fyrir dómi sem og gögnum málsins kemur fram að þau hefðu glímt við aukinn kvíða, streitu og félagsfælni. Verður að telja hæfilegt í ljósi dómaframkvæmdar að stefndi greiði hvorum stefnanda fyrir sig 300.000 krónur í miskabætur.

           Um ákvörðun vaxta af skaðabótakröfu stefnenda fer eftir 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Stefndu hafa í samræmi við ákveðið krafist vaxta

frá 5. janúar 2017 til og með 31. maí 2018, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 31. maí 2018, daginn sem málið var þingfest, til greiðsludags. Í ljósi niðurstöðu dómsins og fyrrgreindra lagaákvæða eru engin efni til annars en að fallast á kröfu stefnenda um vexti og dráttarvexti sem í dómsorði greinir.

           Í samræmi við þessi málsúrslit verður stefnda gert að greiða stefndu óskipt málskostnað í málinu sem þykir hæfilega ákveðinn 1.300.000 krónur án virðisaukaskatts.

           Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm að gættu ákvæði 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

Dómsorð:

           Stefndi, Skálpi ehf. greiði stefnendum, [A] og [B], 86.796 kr. í skaðabætur vegna fjártjóns en 600.000 kr. í bætur vegna miska, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 5. janúar 2017 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af sömu fjárhæð frá 31. maí 2018 til greiðsludags.

           Stefndi greiði stefnendum óskipt 1.300.000 krónur í málskostnað.

 

                                                            Kjartan Bjarni Björgvinsson

 

Rétt endurrit staðfestir,

Héraðsdómi Reykjavíkur, 8. mars 2019.

 

 

Gjald kr. 2,500            Greitt.