• Lykilorð:
  • Jafnræðisregla
  • Stjórnsýsla

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október í máli nr. E-805/2018:

Ásgeir Sighvatsson

Hilda Sara Torres Ortis

(Kristján Gunnar Valdimarsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu.

(Fanney Rós Þorsteinsdóttir hrl.)

 

 

D Ó M U R

Mál þetta, sem var dómtekið 24. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ásgeiri Sighvatssyni og Hildu Söru Torres Ortiz, báðum til heimilis að [...], á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík, með stefnu birtri 9. mars 2018.

Stefnendur krefjast þess:

-að úrskurður fjármála- og efnahagsráðuneytisins dags. 9. júní 2016 (tilv. FJR16020018/16.2.1) verði felldur úr gildi og jafnframt að úrskurður ríkisskattstjóra dags. 22. janúar 2016 (tilv. 20151204919/10.0) verði felldur úr gildi.

-að viðurkennt verði að stefnendur hafi sótt um og eigi rétt á leiðréttingu höfuðstóls vegna láns frá Íbúðalánasjóði sem tekið var 2007 á fasteignatryggðu veðláni (númer láns er 100474343466) þann 25. júní 2014 og lagt fyrir ríkisskattstjóra að taka umsóknina til löglegrar meðferðar samkvæmt lögum nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda og málskostnaðar úr hendi stefnenda.

I

Stefnendur málsins eru hjón sem tóku lán frá Íbúðalánasjóði á árinu 2007 (númer lánsins er 100474343466).

Hinn 25. júní 2014 telja stefnendur að þau hafi sótt um leiðréttingu verðtryggðs fasteignaláns, samanber lög nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Kveðst stefnandi, Ásgeir, hafa farið inn á vefsvæði sitt á leiðretting.is með því að skrá sig inn gegnum veflykil til að sækja um leiðréttinguna. Á sama tíma hafi hann sótt um tiltekna notkun á séreignarlífeyrissparnaði á sama vefsvæði í gegnum sama veflykil. Það liggur fyrir að sú umsókn var skráð móttekin 25. júní 2014 klukkan 15.56.33 í tölvukerfi ríkisskattstjóra. Stefndi staðfestir að stefnandi hafi verið innskráður hinn 25. júní 2014. Hins vegar hafi umsóknarferlinu varðandi leiðréttingu verðtryggða fasteignalánsins ekki verið lokið og engin umsókn hafi verið send.

Í nóvember 2014 kveðast stefnendur hafa farið að grennslast fyrir um niðurstöður umsóknar sinnar um leiðréttingu og hafi þá komið í ljós að engin leiðrétting hefði átt sér stað. Stefnendur kveðast hafa haft samband við ríkisskattstjóra og fengið þau svör að engin umsókn hefði borist og þar af leiðandi ættu þau ekki rétt á leiðréttingu, þar sem umsóknarfrestur væri liðinn. Ástæðan fyrir því að stefnendur fengu ekki skuldaleiðréttingu var sögð sú að þótt þau hefðu farið á vefsvæðið leiðrétting.is hjá ríkisskattstjóra til að sækja um leiðréttingu þá hefðu þau ekki smellt á hnappinn „Senda umsókn“. Þannig hafi stefnendur aldrei sótt um leiðréttinguna.

Hinn 21. nóvember 2014 sendu stefnendur beiðni um endurskoðun málsins á netfangið adstod@leidretting.is. Hinn 24. nóvember 2014 synjaði ríkisskattstjóri beiðni þeirra á þeirri forsendu að umsóknarfrestur væri liðinn. Í kjölfarið munu þau hafa verið í samskiptum við starfsmenn ríkisskattstjóra og einn þeirra kvaðst skyldu koma erindinu áleiðis til stjórnar leiðréttingarinnar.

Hinn 12. febrúar 2015 barst svar um að málið yrði skoðað og haft samband við stefnendur.

Hinn 22. janúar 2016 synjaði ríkisskattstjóri erindinu á þeirri forsendu að ríkisskattstjóra skorti lagalegan grundvöll til að taka við umsóknum um leiðréttingu sem bærust eftir að umsóknarfresti lyki og vísaði í tímaramma laganna máli sínu til stuðnings.

Hinn 1. febrúar 2016 var ákvörðun ríkisskattstjóra kærð með stjórnsýslukæru til fjármálaráðuneytisins. Ráðuneytið tók kæruna til meðferðar og sendi hana til ríkisskattstjóra til umsagnar og skilaði ríkisskattstjóri umsögn sinni 27. apríl 2016. Stefnendur sendu fjármálaráðuneytinu svo viðbrögð sín við umsögn ríkisskattstjóra. Hinn 9. júní 2016 staðfesti ráðherra ákvörðun ríkisskattstjóra. Í kjölfarið kvörtuðu stefnendur til umboðsmanns Alþingis, sem skilaði áliti sínu 4. nóvember 2016 og taldi að kvörtun stefnenda veitti ekki tilefni til athugasemdar af hálfu umboðsmanns.

Stefnendur telja nauðsyn á að höfða þetta mál til að fá hlut sinn réttan þannig að viðurkennt verði að þau eigi rétt til leiðréttingar höfuðstóls á láni sínu nr. 100474343466 hjá Íbúðalánasjóði.

 

II

            Krafa stefnenda byggist í fyrsta lagi á því að þau hafi uppfyllt öll skilyrði laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána og eigi þar með rétt á leiðréttingu lánsins. Stefnendur hafi farið inn á sitt svæði hjá leiðrétting.is þótt þau hafi ekki ýtt á lokatakann um umsókn. Stefnendur telja að þau hafi sótt um leiðréttinguna og eigi þar með rétt samkvæmt lögum nr. 35/2014 á leiðréttingu lánsins. Að auki telja stefnendur sig eiga rétt til leiðréttingar, jafnvel þótt litið verði svo á að umsókn þeirra hafi misfarist.

            Í annan stað telja stefnendur að umsóknarferlið hafi ekki uppfyllt kröfur 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Markmið leiðbeiningarskyldunnar sé að gera borgurunum kleift að gæta réttar síns og eiga auðveld og virk samskipti við stjórnvöld. Í tilfelli stefnenda hafi þau aldrei fengið skilaboð um að þau væru að yfirgefa umsóknarvefsvæðið án þess að hafa lokið umsóknarferlinu. Ríkar kröfur þurfi að gera til stjórnvalda í þessu tilviki þar sem umsóknarferlið var með öllu rafrænt, en það hafi verið nýlunda.

Stefnendur mótmæla sérstaklega þeim sjónarmiðum ríkisskattstjóra að stefnendur hafi orðið að gefa lánveitanda sérstakt leyfi til að veita ríkisskattstjóra upplýsingar. Þessar upplýsingar séu þegar til hjá ríkisskattstjóra vegna skattframtalsgerðar. Þá hafi líka legið fyrir á vefsvæðinu leiðrétting.is upplýsingar um öll lán viðkomandi aðila. Ríkisskattstjóri hafi því verið með allar nauðsynlegar upplýsingar. Einnig hafi ríkisskattstjóri verið með upplýsingar um það hvort lánið og vaxtagjöld af því hefði veitt rétt til vaxtabóta, enda ákvarði embættið vaxtabætur. Stefnendur telja að áminna hefði þurft stefnendur um að ekki væri búið að skila umsókninni áður en þau yfirgáfu vefsvæðið, svo sem gert er til dæmis þegar færður er frádráttur vegna lífeyrissjóðsgreiðslna eða fenginna dagpeninga. Það sé í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Ekki sé unnt að gera þá kröfu á almenna borgara, eins og stefnendur, að þeir þekki tölvukerfi ríkisins til hlítar, sér í lagi þar sem um var að ræða algjörlega nýtt og í raun einnota kerfi.

Þá telja stefnendur að ríkisskattstjóri hafi ekki sent tölvupóst á markhóp þegar frestur vegna umsóknar um leiðréttinguna var að renna út, svo sem gert hafi verið er umsóknarfrestur til að sækja um ráðstöfun séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð var að renna út. Stefnendur telja að ætla megi, ef þau hefðu fengið slíkan tölvupóst, að þau hefðu áttað sig á því að umsókn þeirra hefði mögulega ekki borist embætti ríkisskattstjóra. Vegna þessa byggja stefnendur jafnframt á því að stefndi hafi brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við afgreiðslu mála.

Í þriðja lagi hafi málið tekið óhæfilega langan tíma hjá stjórnsýslunni og brotið þar með gegn málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ríkisskattstjóri hafi ekki fylgt þeirri skýru lagareglu að skýra stefnendum frá töfum á málinu, upplýsa um ástæður tafanna og greina frá því hvenær ákvörðunar væri að vænta. Því hafi afgreiðsla málsins ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

 

III

Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að óumdeilt sé að stefnendur sóttu ekki um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána á umsóknartímabilinu sem hófst 15. maí 2014 og lauk þann 1. september sama ár, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014. Hin lögbundnu skilyrði sem tilgreind séu í lögunum séu ófrávíkjanleg og einstaklingar sem ekki sóttu sannanlega um leiðréttingu á vef ríkisskattstjóra innan þess umsóknartímabils sem lögin kveða á um teljist ekki eiga rétt á leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Ekki nægi að fara inn á vefsvæðið, eins og stefnendur haldi fram. Til viðbótar bendir stefndi á að stefnendur hökuðu ekki heldur við reit um að hafa kynnt sér reglur um miðlun og öflun upplýsinga skv. 6. gr. laganna, en hafna bar umsóknum þar sem þessi heimild var ekki veitt.

            Þar sem stefnendur sóttu ekki um leiðréttingu innan lögákveðins umsóknartímabils verði þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnenda enda hafi forsendur leiðréttingar ekki verið til staðar.

            Í annan stað sé því hafnað að skort hafi á leiðbeiningarskyldu ríkisskattstjóra samkvæmt 7. gr. laga nr. 37/1993.

Umsóknarferill leiðréttingarinnar á vef ríkisskattstjóra hafi verið þrepaskiptur. Einstaklingar hafi skráð sig inn á þjónustusíðuna leidretting.is, annaðhvort með veflykli ríkisskattstjóra eða með rafrænum skilríkjum. Í kjölfarið hafi þeir þurft að upplýsa um tölvupóstfang sitt. Á forsíðu þjónustusíðunnar hafi síðan verið unnt að velja hvort sótt væri um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána eða ráðstöfun séreignarsparnaðar og gátu einstaklingar valið annan kostinn eða eftir atvikum báða kostina. Senda hafi þurft sína hvora umsóknina vegna þessara tveggja kosta, en ekki hafi verið hægt að senda eina umsókn vegna beggja.

Við umsókn um leiðréttingu áttu einstaklingar þess kost að yfirfara þær upplýsingar sem lagðar yrðu til grundvallar við afgreiðslu umsókna þeirra. Til að umsókn yrði gild og skil á henni gætu átt sér stað var í samræmi við 4. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 gerð krafa um að umsækjandi staðfesti, með því að haka í ákveðinn reit, að hann hefði kynnt sér reglur um öflun og miðlun upplýsinga, sbr. 6. gr. laganna. Að því loknu þurfti einungis að senda umsókn inn undir hnappnum „Senda umsókn“. Þá hafi umsækjendum birst tilkynning þess efnis að umsókn hefði verið móttekin. Jafnframt hafi verið hægt að nálgast staðfestingu umsóknar undir flipanum „Samskipti“ á vefsvæði umsækjenda á leidretting.is. Í þeim tilvikum þar sem umsókn var send, án þess að búið væri að haka við staðfestingu á að lánveitanda væri heimilt að gefa upplýsingar og afhenda gögn til ríkisskattstjóra, kom fram villutilkynning, sem greindi frá því að gleymst hefði að haka við staðfestinguna.

Stefndi telur að umsóknarferli vegna leiðréttingar á fasteignaveðlánum hafi verið einfalt í sniðum. Umsóknarferill ráðstöfunar séreignarsparnaðar hafi hins vegar verið mun flóknara ferli þar sem umsækjendur hafi þurft að velja þau lán sem ráðstafa átti inn á, velja vörsluaðila og eftir atvikum að skipta á milli sín ráðstöfunarfjárhæð.

Allar upplýsingar varðandi umsóknir um leiðréttinguna á vefnum leidretting.is hafi verið sóttar til umsóknarkerfis leiðréttingarinnar með vefþjónustum og allar færslur á vefnum verið skráðar af umsjónarkerfinu. Einnig hafi allar aðgerðir sem einstaklingar framkvæmdu á vefnum verið skráðar í atvikaskráningarkerfi embættis ríkisskattstjóra af vefnum sjálfum ásamt því að þær voru skráðar í umsóknarkerfið sem lagði til upplýsingarnar. Því hafi atvikaskráningin verið tvöföld til viðbótar við vistun á viðeigandi gögnum í gagnagrunni. Allar tilraunir einstaklinga til auðkenningar og/eða innskráningar hafi verið skráðar í atvikaskráningarkerfi embættisins hvort sem þær báru árangur eða ekki. Þá hafi allar aðgerðir sem einstaklingur framkvæmdi á vefnum eftir að hann auðkenndi sig verið skráðar með sama hætti.

Þá bendir stefndi á að á síðunni leidretting.is hafi einnig verið ítarlegt kynningarmyndband um umsóknarferlið í heild sinni auk greinargóðra upplýsinga um það hvert unnt væri að leita til að fá frekari leiðbeiningar. Þá vísar stefndi til bréfs umboðsmanns Alþingis vegna kvörtunar stefnenda, en þar sé staðfest að leiðbeiningar ríkisskattstjóra hafi verið fullnægjandi.

Stefndi bendir á að ekki sé líku saman að jafna um áminningu þegar skattframtali sé skilað, sem sé lögbundið, og því sem gildir um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, sem hafi verið einstakt valkvætt úrræði. Framkvæmd leiðréttingarinnar hafi ekki verið skattaleg aðgerð og því hafi ekki verið sjálfgefin heimild til að nýta mætti þær upplýsingar sem aflað hafi verið til skattheimtu við leiðréttinguna. Af þeirri ástæðu hafi verið veitt sérstök heimild í 6. gr. laga nr. 35/2014 til nýtingar fyrirliggjandi upplýsinga og jafnframt áskilið í 4. mgr. 4. gr. að umsækjandi hefði kynnt sér þessa heimild til notkunar á upplýsingum við framkvæmd leiðréttingarinnar.

Stefndi bendir á að krafa um staðfestingu umsækjenda hafi annars vegar verið forsenda fyrir því að unnt væri að ljúka umsóknarferlinu og hins vegar því að unnt væri að nýta þær upplýsingar sem leggja þurfti til grundvallar afgreiðslu umsóknar.

Þá hafnar stefndi því að um brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga hafi verið að ræða. Ráðstöfun séreignarsparnaðar sé úrræði, upphaflega samkvæmt lögum frá 2014, þar sem heimilt hafi verið að nýta séreignarsparnað til ráðstöfunar inn á lán á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017. Með lögum nr. 111/2016 um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð hafi kaupendum fyrstu íbúðar hins vegar verið gert kleift að nýta séreignarsparnaðinn á samfelldu tíu ára tímabili. Mörgum notendum úrræðisins hafi hins vegar mátt vera ókunnugt um að tímabilið hefði verið framlengt og sækja þyrfti sérstaklega um að nýta sér það, þar sem umfjöllun og umræða um framlenginguna hafi ekki verið áberandi, t.d. í fjölmiðlum. Hafi aðstaðan verið mjög ólík því sem hafi verið um leiðréttinguna, bæði í aðdraganda hennar og þegar lög nr. 35/2014 tóku gildi, en fjölmiðlaumfjöllun var þá gríðarleg auk upplýsinga til almennings.

Stefndi bendir á að um tvö ólík og valkvæð úrræði hafi verið að ræða sem einstaklingum sem uppfylltu tiltekin skilyrði stóð til boða að nýta sér en var það ekki skylt. Ekki verði séð að mismunandi nálgun ríkisskattstjóra í samskiptum við viðskiptavini sína, vegna tveggja ólíkra og ótengdra úrræða, geti talist brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Í þessu sambandi megi benda á að ábending var send til þeirra sem þegar nýttu sér heimild til ráðstöfunar séreignarsparnaðar. Umsóknarfrestur um áframhald þeirrar ráðstöfunar var að renna út, gagnstætt því sem gerist þegar einhver hefur mögulega sótt umsóknareyðublöð eða kynnt sér umsóknarkost, en óvíst er með öllu hvort viðkomandi hyggst sækja um og fylla út umsókn, hvað þá senda hana inn, eins og var varðandi leiðréttinguna.

IV

            Með lögum nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána var ráðherra heimilað að gera við lífeyrissjóði, Íbúðalánasjóð og fjármálafyrirtæki, sem starfa samkvæmt lögum nr. 161/2002, samning um framkvæmd og uppgjör á almennri leiðréttingu þeirra verðtryggðu fasteignaveðlána einstaklinga sem til staðar voru á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Um sérstakt úrræði var að ræða og var ríkisskattstjóra falin framkvæmd þess.

            Í 3. gr. laga nr. 35/2014 var leiðréttingin afmörkuð og ekki er ágreiningur um að stefnendur uppfylltu þau skilyrði er þar komu fram og þá varða. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. sömu laga var kveðið á um að umsóknartímabilið hæfist 15. maí 2014 og því lyki 1. september sama ár. Í 3. mgr. 4. gr. segir að umsókn skuli beint til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveði og að málsmeðferðin skuli vera rafræn. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 35/2014 er sérstaklega tekið fram að ósk um leiðréttingu skuli vera að frumkvæði þeirra einstaklinga sem áttu íbúðarhúsnæði og nýttu til eigin nota á því tímabili sem leiðréttingunni sé ætlað að taka til. Í 5. mgr. 4. gr. er kveðið á um að umsækjandi skuli staðfesta við umsókn að hann heimili viðkomandi lánveitanda að miðla nauðsynlegum upplýsingum og gögnum til ríkisskattstjóra um þau fasteignaveðlán sem umsóknin taki til. Ef umsækjandi veitir ekki þær upplýsingar eða leggur ekki fram þau gögn sem óskað er eftir í rafrænu umsóknarferli skuli hafna umsókninni, samanber 5. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014.

            Það er ágreiningslaust í málinu að umsókn stefnenda um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána barst ekki á umsóknartímabilinu, þ.e. 15. maí 2014 til 1. september 2014. Engu skiptir þó stefnandi, Ásgeir, hafi farið inn á vefsvæðið leiðretting.is á greindu tímabili. Umsókn barst ekki ríkisskattstjóra, og það af atvikum er eingöngu varða stefnendur. Lagaheimild skortir til að taka til greina umsókn sem berst ekki í umsóknarfresti.

            Stefnendur bera því við að ríkisskattstjóri hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. sömu laga. Byggt sé á því að leiðbeiningarnar hafi verið óskýrar, stefnendur hafi aldrei fengið skilaboð um að þau væru að yfirgefa umsóknarsvæðið án þess að hafa lokið umsóknarferlinu og þá hafi tölvupóstur ekki verið sendur til markhóps um að umsóknarfresti væri að ljúka eins og gert var varðandi ráðstöfun séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð.

Í 1. mgr. 7.gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Eins og að framan greinir liggur óumdeilt fyrir að umsókn stefnenda skilaði sér ekki til ríkisskattstjóra.

            Við aðalmeðferð málsins gaf sviðsstjóri atvinnurekstrarsviðs ríkisskattstjóra skýrslu og lýsti því hvernig leiðbeiningum til umsækjenda hefði verið háttað. Úrræðið hafi verið ítarlega auglýst í fjölmiðlum. Umsækjendur hafi annaðhvort notað veflykla ríkisskattstjóra eða rafræn skilríki til að fara inn á heimasíðu ríkisskattstjóra. Þeir hafi valið það úrræði sem þeir ætluðu að sækja um. Þá hafi hvoru tveggja birst skriflegar leiðbeiningar og myndrænar um umsóknarferlið. Síðan hafi verið farið inn á umsóknina og þar hafi umsækjendur verið leiddir áfram. Stefnendur þurftu að haka í reit um að þeir hefðu kynnt sér reglur um öflun og miðlun upplýsinga, sbr. 6. gr. laga 35/2014. Síðan þurfti að senda umsóknina með því að smella á hnappinn „Senda umsókn“. Þannig hafi umsóknarferlið verið mjög einfalt og er ekki fallist á að skort hafi á leiðbeiningar af hálfu ríkisskattstjóra varðandi umsóknina.

Eins og að framan greinir kemur fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 35/2014 að ósk um leiðréttingu skuli vera að frumkvæði þeirra einstaklinga sem áttu íbúðarhúsnæði og nýttu til eigin nota á því tímabili sem leiðréttingunni var ætlað að taka til. Frumkvæðið var því hjá umsækjendum og það var á þeirra ábyrgð að senda umsóknina. Í aðilaskýrslu annars stefnanda fyrir dómi kom fram að það hefði hvarflað að honum við gerð umsóknarinnar að hann hefði ekki fengið neina staðfestingu á skilum. Þrátt fyrir það hafi hann ekki leitað aðstoðar ríkisskattstjóra, en þangað gat hann hvort sem var hringt eða sent fyrirspurn, en sérstakt þjónustuver var sett upp vegna þessa málaflokks. Leiðbeiningarskylda stjórnvalda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga verður ekki skýrð svo rúmt sem stefnendur krefjast. Borgarar landsins verða einnig að bera ábyrgð á eigin aðgerðum eða aðgerðaleysi.

            Þá halda stefnendur því fram að ríkisskattstjóri hafi brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Í því sambandi telja stefnendur að ríkisskattstjóra hafi borið að senda þeim aðilum (um tíu þúsund einstaklingum) tölvupóst sem farið höfðu inn á vefsvæðið án þess að senda inn umsókn og minna þá á að senda hana. Vísa stefnendur þá til þess að ríkisskattstjóri hafi sent slíkan póst til þeirra er voru að sækja um úrræði byggt á lögum nr. 111/2016 um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Með því að tölvupósturinn hafi ekki verið sendur hafi jafnræðisreglan verið brotin.

Varðandi úrræði um notkun séreignarsparnaðar vegna kaupa á fyrstu íbúð, þá kom slíkt úrræði fyrst inn með lögum frá 2014 sem heimiluðu nýtingu séreignarsparnaðar til ráðstöfunar inn á lán á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017. Með lögum nr. 111/2016 var umsækjendum gert kleift að nýta séreignarsparnaðinn á samfelldu tíu ára tímabili. Því var þeim aðilum sem áður höfðu sótt um það úrræði bent á lagabreytinguna og gefinn kostur á því að sækja um samkvæmt nýrri lögum. Hér er að mati dómsins ólíku saman að jafna. Um tvö ólík og valkvæð úrræði er að ræða og eðlilegt og rétt hafi verið að ríkisskattstjóri vekti athygli umsækjenda á breyttu lagaumhverfi. Því er ekki fallist á að ríkisskattstjóri hafi brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Með vísan til þess sem að framan greinir ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda, enda skortir lagaheimild til að taka kröfuna til greina. Þá er því hafnað að fullnægjandi leiðbeiningar hafi ekki verið veittar af hálfu stefnda og að jafnræðis hafi ekki verið gætt. Ætlaður dráttur á málsmeðferð getur aldrei orðið til þess að kröfur stefnenda yrðu teknar til greina og er sú málsástæða haldlaus.

            Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður verði felldur niður.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnenda, Ásgeirs Sighvatssonar og Hildu Söru Torres Ortiz.

Málskostnaður fellur niður.

 

Sigrún Guðmundsdóttir.