• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Ávana- og fíkniefni
  • Hegningarauki
  • Ítrekun
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot
  • Upptaka
  • Vopnalagabrot
  • Vörslur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2019 í máli nr. S-187/2019:

Ákæruvaldið

(Auðbjörg Lísa Gústafsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Daniel Arciszewski

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 8. maí sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 5. mars 2019, á hendur Daniel Arciszewski, kt. 000000-0000, [...], Reykjavík, fyrir eftirtalin brot:

 

I.

Umferðarlagabrot með því að hafa:

1.      Föstudaginn 9. febrúar 2018 ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 55 ng/ml og metýlfenídat 105 ng/ml), frá Krónunni Flatahrauni 13 í Hafnarfirði í átt að Álfaskeiði, þar til lögregla stöðvaði akstur hennar við Mávahraun 1.

2.      Sunnudaginn 15. apríl 2018 ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti austur Engihjalla í Kópavogi á vegarkafla við Valahjalla, þar sem lögregla stöðvaði akstur hennar.

3.      Að morgni laugardagsins 30. september 2017 ekið bifreiðinni [...], sviptur ökuréttindum frá Arnarholti á Kjalarnesi að Olís við Vallargrund á Kjalarnesi, þar sem lögregla hafði afskipti af ákærða.

 

Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 48. gr. og brot skv. ákærukafla I.1 einnig við 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a, allt sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

II.

            Vopnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 19. júlí 2018 í bifreiðinni [...] utan við umferðarmiðstöð BSÍ á Vatnsmýravegi í Reykjavík, haft í vörslum sínum afsagaðan 22 kalibera riffil ásamt skothylkjum, sem lögregla fann við leit í bifreiðinni.

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 12. gr. sbr. og 23. gr., allt sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

 

III.

            Umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa laugardaginn 18. ágúst 2018 ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist metýlfenídat 105 ng/ml), að [...] í Reykjavík, þar sem lögregla hafði afskipti af ökumanni á bifreiðastæði framan við hús nr. [...]. Jafnframt á sama tíma haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni, alls 44,50 stykki af ecstasy, sem lögregla fann við leit í farangursrými bifreiðarinnar.

            Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a, 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987. Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og       2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

 

IV.

Umferðar- og vopnalagabrot með því að hafa:

1.      Að kvöldi föstudagsins 7. september 2018 ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 30 ng/ml, metýlfenídat 80 ng/ml og morfín 55 ng/ml), um Breiðhöfða í Reykjavík, þar til lögregla stöðvaði akstur hennar við Straum. Jafnframt á sama tíma haft í vörslum sínum veiðihníf sem lögregla fann við leit á ákærða.

2.      Aðfaranótt föstudagsins 28. desember 2018 ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 65 ng/ml), um Breiðhöfða í Reykjavík, þar til lögregla stöðvaði akstur hennar við Straum. Jafnframt á sama tíma haft í vörslum sínum 2 stykki ecstasy og ásamt 59 stykkjum af 22. cal Remington riffilskotum, sem lögregla fann við leit í bifreiðinni.

 

            Teljast brot þessi varða við 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., sbr.     1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987 og brot skv. IV.1. kafla ákærunnar einnig við a. lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og brot skv. IV.2. kafla ákærunnar einnig við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og     23. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

 

V.

            Fíkniefna- og vopnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 23. júlí 2018, í bifreiðinni [...] framan við [...] í Kópavogi, haft í vörslum sínum 8,58 g af amfetamíni, 4,50 ml af amfetamíni og  4,87 g af maríjúana sem lögregla fann við leit á ákærða og sveðju með 48 cm löngu blaði, sem lögregla fann á gólfi bifreiðarinnar.

            Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. og 6. gr. sömu laga, að því er varðar meðferð ákærða á maríjúana, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og d-lið 2. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

 

VI.

            Fíkniefnalagabrot með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 18. nóvember 2018, haft í vörslum sínum 4,86 g af amfetamíni og 6 stykki ecstasy og sem lögregla fann við leit á ákærða.

            Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. og 6. gr. sömu laga, að því er varðar meðferð ákærða á ecstasy, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar, og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Jafnframt er krafist upptöku á afsöguðum 22 kalibera riffli, skothylkjum, veiðihníf og sveðju, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998. Þá er gerð krafa um að framangreind fíkniefni 52,5 stykki af ecstasy, 13,44 g af amfetamíni, 4,50 ml af amfetamíni og 4,87 g af maríjúana, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

            Undir rekstri málsins féll fulltrúi ákæruvaldsins frá kafla II í ákæru um ætlað vopnalagabrot ákærða hinn 19. júlí 2018 og frá kröfu um upptöku á þeim riffli og skothylkjum sem þar er getið.

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa. Þá kveður hann ákærða vera á leið í vímuefnameðferð til að leita sér aðstoðar við fíknivanda sínum.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 27. febrúar 2019, á ákærði allnokkurn sakaferil að baki sem nær allt aftur til ársins 1999. Meðal annars hefur ákærði hlotið níu fangelsisdóma fyrir ýmis hegningarlagabrot, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Með dómi Héraðsdóms Vesturlands, dagsettum 30. desember 2008, var ákærði dæmdur til að greiða sekt vegna ölvunaraksturs. Þá var ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 11. janúar 2012, meðal annars fyrir vörslur fíkniefna og fyrir að aka undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna. Næst hlaut ákærði þriggja ára fangelsisdóm með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 6. september 2012 fyrir fíkniefnalagabrot, ýmis hegningarlagabrot og fyrir að aka undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna, sviptur ökurétti. Þá var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 23. júní 2015, fyrir sams konar brot. Loks var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi með dómi sama dómstóls hinn                 12. september 2016, meðal annars fyrir vörslur fíkniefna og enn fyrir að aka undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna, sviptur ökurétti. Við ákvörðun refsingar hér verður þannig við það miðað að ákærði gerist nú í sjötta skipti innan ítrekunartíma, sbr. 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sekur um að aka undir áhrifum áfengis- og/eða ávana- og fíkniefna og í þriðja skipti sviptur ökurétti.

            Að endingu ber þess að geta að ákærði gekkst undir greiðslu 120.000 króna sektar hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hinn 19. nóvember 2018 fyrir vörslur fíkniefna. Öll þau brot er ákærði er nú sakfelldur fyrir í máli þessu, nema umferðarlagabrot framið 28. desember 2018, sbr. lið 2 í IV. kafla ákæru, voru framin fyrir gerð framangreindrar lögreglustjórasáttar og verður ákærða því dæmdur hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hvað þau brot varðar.

            Með hliðsjón af öllu framangreindu, sakarefni þessa máls, sem og dómvenju og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Að sakaferli ákærða virtum þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

            Með vísan til lagaákvæða í ákæru er gert upptækt til ríkissjóðs veiðihnífur og sveðja, 52,5 stykki af ecstasy, 13,44 g af amfetamíni, 4,50 ml af amfetamíni og 4,87 g af maríjúana, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

            Þá er jafnframt með vísan til lagaákvæða í ákæru áréttuð ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dómsins að telja.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 274.040 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 852.969 krónur í annan sakarkostnað.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kristmundur Stefán Einarsson saksóknarfulltrúi fyrir hönd Auðbjargar Lísu Gústafsdóttur, aðstoðarsaksóknara.

            Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                   D Ó M S O R Ð:       

            Ákærði, Daniel Arciszewski, sæti fangelsi í 12 mánuði.

            Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dómsins að telja.

            Upptækt er gert til ríkissjóðs veiðihnífur og sveðja, 52,5 stk af ecstasy, 13,44 g af amfetamíni, 4,50 ml af amfetamíni og 4,87 g af maríjúana.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar, 274.040 krónur og 852.969 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                   Þórhildur Líndal