• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Ávana- og fíkniefni
  • Ítrekun
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot
  • Ölvunarakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2018 í máli nr. S-550/2018:

Ákæruvaldið

(Kristmundur Stefán Einarsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Guðmundi A. Ástráðssyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 31. október sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 11. september 2018, á hendur Guðmundi A. Ástráðssyni, kt. [...], [...], fyrir eftirtalin umferðarlagabrot með því að hafa:

 

I.

Föstudaginn 9. júní 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 250 ng/ml af amfetamíni og 35 ng/ml af metamfetamíni, í þvagi mældist amfetamín og metamfetamín) um Breiðholtsbraut í Reykjavík, við Stekkjarbakka, uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

Teljast brot þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

II.

Aðfaranótt þriðjudagsins 13. júní 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og á 78 km/klst. þar sem leyfilegur hámarkshraði er 70 km/klst. suður Hvalfjarðargöng.

Teljast brot þessi varða við 1. sbr. 4. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

III.

Föstudaginn 8. september 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 90 ng/ml af amfetamíni, 100 ng/ml af kókaíni og 60 ng/ml af MDMA, í þvagi mældist amfetamín, kókaín, MDMA og metamfetamín) og undir áhrifum áfengis (í blóði mældist 0,72‰) suður Dalveg í Kópavogi, uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar við Trönuhjalla nr. 17.

Teljast brot þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

IV.

Mánudaginn 15. janúar 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti austur Stekkjarbakka í Reykjavík, uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

V.

Föstudaginn 13. apríl 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti um Fiskislóð í Reykjavík, uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá var krafist sviptingar ökuréttar, skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006 í ákæru en við þingfestingu málsins var fallið frá þeirri kröfu af hálfu ákæruvaldsins.

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa. Þá bendir verjandi ákærða á að framangreind brot í ákæru séu hegningarauki við dóm Hæstaréttar sem féll í máli ákærða 24. maí sl. og því ekki tilefni til að gera ákærða sérstaka refsingu í máli þessu.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í júní 1985. Í málinu liggur fyrir að ákærði á nokkurn sakaferil að baki sem nær allt aftur til ársins 2004. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 30. október 2018, kemur fram að ákærði hefur margítrekað verið dæmdur fyrir að aka sviptur ökuréttindum undir áhrifum áfengis- og eða áhrifum ávana- og fíkniefna. Nú síðast hlaut ákærði 17 mánaða fangelsisdóm fyrir slík brot með dómi Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 23. mars 2017, en þar kemur fram að ákærði hafi rofið skilyrði reynslulausnar af eftirstöðvum 270 daga refsingar, sem tekin var upp og dæmd í því máli. Málinu var áfrýjað til Landsréttar, sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með dómi uppkveðnum 23. mars sl. Jafnframt staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu Landsréttar með dómi uppkveðnum 24. maí sl. Þau brot sem nú er ákært fyrir voru öll framin eftir að áðurnefndur dómur Héraðsdóms Reykjaness, dagsettur 23. mars sl., var upp kveðinn. Ekki er því um hegningarauka að ræða í skilningi 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við dóm Hæstaréttar, enda var niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða sem fyrr segir staðfest með þeim dómi.

Með hliðsjón af framangreindu, dómvenju og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem og skýlausri játningu ákærða bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna í ljósi sakaferils ákærða.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar lögmanns, 105.400 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 377.730 krónur í annan sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Elín Hrafnsdóttir aðstoðarsaksóknari.

Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                   D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Guðmundur A. Ástráðsson, sæti fangelsi í níu mánuði.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar lögmanns, 105.400 krónur og 377.730 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                   Þórhildur Líndal