Um dómstólinn

Héraðsdómur Reykjavíkur, Dómhúsinu við Lækjartorg, Reykjavík. Sími: 432-5200.                                       

Myndasafn úr dómhúsi   

Afgreiðsla dómstólsins er opin á virkum dögum frá kl. 08.30 - 12.00 og kl. 13.00 - 15.00.

  • Dómhúsið er opið frá kl. 08.30 - 16.00.
  • Þingstaður : Dómhúsið við Lækjartorg í Reykjavík. 
  • Upplýsingar um dómsmálagjöld og reikningsnúmer má finna hér.           

Héraðsdómur Reykjavíkur starfar samkvæmt lögum nr. 50/2016

Tölfræði dómstóla

Umdæmi Héraðsdóms Reykjavíkur

Umdæmið ein dómþinghá, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1109/2010

Eftirtalin sveitarfélög heyra til umdæmis Héraðsdóms Reykjavíkur:

  • Reykjavík,
  • Seltjarnarnes,
  • Mosfellsbær
  • Kjósarhreppur.

Regluleg dómþing í einkamálum eru þriðjudaga og fimmtudaga kl. 10.00.

Þingstaður er í dómsal 102 í Dómhúsi Héraðsdóms Reykjavíkur við Lækjartorg. 

Hlé eru á reglulegum dómþingum í einkamálum mánuðina júlí og ágúst svo og frá 20. desember til 6. janúar, að báðum dögum meðtöldum, ár hvert. Þá falla regluleg dómþing í einkamálum niður á lögboðnum frídögum, sbr. lög nr. 88/1971.

Jafnréttisstefna og -áætlun.


Um dómhúsið
Húsnæði Héraðsdóms Reykjavíkur, Dómhúsið við Lækjartorg, samanstendur af tveimur byggingum. Syðri byggingin var upprunalega húsnæði Íslandsbanka en sú nyrðri var upprunalega verslunarhúsnæði reist af Páli Stefánssyni (nefnt Pálshús). Austurstræti var upphaflega stígur sunnan við lóðirnar við Hafnarstræti og myndaðist rétt fyrir aldamótin 1800. Fyrsta húsið við götuna var Austurstræti 4, byggt árið 1800. Á þessum árum nefndist gatan Tværgaden og var hún blaut og ill yfirferðar. Árið 1820 var gerð steinstétt eftir götunni og eftir það var hún nefnd Langefortorv. Árið 1848 var götunni gefið formlegt nafn, Austurstræti, sem hún hefur borið eftir það.


Lengi hafði verið rætt um að koma á fót öflugri peningastofnun en Landsbankinn var á þeim tíma og þá jafnan rætt um bankastofnun með hlutafélagsformi. Lög um heimild til að stofna hlutabanka voru samþykkt á Alþingi árið 1901 og þegar fullnægt hafði verið skilyrðum laganna var hafist handa um undirbúning þess að Íslandsbanki gæti hafið störf. Var þá farið af stað með að útvega lóð undir bankahús og keypti bankinn lóðina á horni Austurstrætis og Lækjartorgs. Árið 1904 hófst bygging Íslandsbankahússins eftir teikningum danska arkitektsins Christian Thuren en fimm árum áður hafði Landsbankahúsið risið eftir teikningum hans. Íslandsbankahúsið var byggt úr höggnu grágrýti með granítsteinum umhverfis glugga- og dyraumbúnað. Valmaþak var á húsinu. Bankabyggingin var tilbúin árið 1906 og flutti bankinn þá starfsemi sína í húsið en hafði frá opnun sinni 7. júní 1904 starfað í Ingólfshvoli á horni Pósthússtrætis og Hafnarstrætis.

Hagur bankans stóð sæmilega fram til ársins 1928 en þá snöggversnaði hann og kom þar margt til. Bankanum var lokað 3. febrúar árið 1930 vegna fjárhagsörðugleika þar sem ríkisaðstoð fékkst ekki en 12. apríl sama ár var bankinn endurreistur sem Útvegsbanki Íslands hf. Iðnaðarbanki Íslands, Verslunarbanki Íslands og Alþýðubankinn keyptu hlut ríkisins í Úvegsbankanum 1. janúar 1990 og voru þessir fjórir bankar reknir sem einn, Íslandsbanki hf. Var bankinn í húsinu um eins árs skeið en ríkissjóður keypti húsið 30. október 1991 undir Héraðsdóm Reykjavíkur.

Eins og áður segir samanstendur Dómhúsið af tveimur byggingum. Stendur nyrðri byggingin á lóð sem upphaflega var hluti Hafnarstrætis 18. Fyrsta húsið var reist á lóðinni árið 1818 af Gísla Símonarsyni og var húsið ætlað sem íbúðarhús fyrir verslunarstjóra Jacobæusarverslunar. P.C. Knudtzon kaupmaður varð eigandi hússins árið 1944. Vestan við húsið var pakkhús, nefnt Suðurpakkhúsið, en austan við það var óbyggt svæði að Læknum.

Árið 1846 keypti Jón Johnsen yfirdómari húsið af Knudtzon til íbúðar. Sigurður Melsted, kennari við Lærða skólann, keypti íbúðarhúsið og Suðurpakkhúsið af Jóni Johnsen en lóðin, sem fylgdi húsunum, náði að Austurstræti. Árið 1901 eignaðist KFUM Melstedshús, sem kallað var, og var það samkomuhús félagsins um nokkurt skeið. Páll Stefánsson kaupmaður frá Þverá keypti Melstedshús af KFUM ásamt skúr sem stóð á milli bankahússins og Melstedshús sem talið var til Lækjargötu 2. Í þessum skúr var um nokkurt skeið í kringum 1920 rekin bifreiðarstöð. Melstedshús var rifið árið 1928 og byggði þá Páll Stefánsson þar þrílyft steinsteypuhús eftir teikningu Einars Erlendssonar húsameistara. Páll var umboðssali fyrir Ford-bifreiðar hér á landi og í húsinu rak hann verslun með varahluti auk viðgerðarverkstæðis og bílasmiðju.

Árið 1938 keypti Útvegsbankinn hús Páls Stefánssonar þar sem farið var að þrengjast um starfsemina í gamla bankahúsinu og stendur hús Páls enn með þó nokkrum breytingum.

Frá árinu 1935 er byggingasaga bankahússins og Pálshúss samofin en þá var reist viðbygging norðan við bankahúsið í sundinu milli húsanna. Tveimur árum síðar var inngangur bankans með súlum og fallega gerðum bjór úr graníti fluttur frá suðurhlið hússins á austurhlið þess þar sem hann er enn. Sama ár var Pálshúsi gjörbreytt og það tengt bankahúsinu með millibyggingu. Teikningar af þessum breytingum gerði Sigurður Guðmundsson arkitekt. Nyrðra húsið var hækkað um eina hæð árið 1950 eftir teikningu Sigurðar og Eiríks Einarssonar arkitekts og þremur árum síðar var millibyggingin einnig hækkuð eftir teikningum Sigurðar.

Árið 1962 voru byggðar fjórar hæðir ofan á gamla bankahúsið og samtímis var gerð viðbygging vestan við það þar sem Kolasund var áður. Einnig var byggt norðan við húsið. Þá var einnig gerð ný þakhæð ofan á nyrðra húsið. Teikningar að þessum viðbótum og breytingum gerðu fyrrnefndur Eiríkur Einarsson og Hörður Björnsson tæknifræðingur.

Kolasund var þröngt sund milli Hafnarstrætis og Austurstrætis og tengdist fyrrnefndu götunni milli húsanna nr. 16 og 18 við Hafnarstræti. Eigandi beggja húsanna var Smith kaupmaður en framundan sundinu var bryggja hans. Við sundið stóðu pakkhús sem tilheyrðu verslun hans en þeirra á meðal var kolageymsluhús. Nafn sitt fékk sundið sennilega af pakkhúsunum og þeirri verslun með kol og kolaflutningum sem þar fór fram. Þótt Kolasund sé ekki lengur til sem gata í Reykjavík er þó enn skilti með götunafninu á húsinu nr. 16 við Hafnarstræti.

Árið 1983 var inngangi bankans breytt þannig að inngangur frá Austurstræti yrði fær hreyfihömluðum. Teikningar að þessum breytingum gerði Halldór Gíslason arkitekt.

Það var svo árið 1991, eftir að ríkissjóður hafði keypt húsin, að innréttingum þeirra var gjörbreytt í samræmi við þá starfsemi sem nú fer fram í húsinu. Höfðu Gylfi Guðjónsson arkitekt og Svavar Þorvarðarson, tæknifræðingur hjá Fasteignum ríkissjóðs, umsjón með breytingunum.