• Lykilorð:
  • Sönnun

Árið 2018, miðvikudaginn 21. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er af Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómara að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp í máli nr. S-127/2017:

 

Ákæruvaldið

(Arndís Bára Ingimarsdóttir saksóknarfulltrúi )

gegn

A og

B

(Jón Egilsson lögmaður)

 

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 19. maí 2017, á hendur A og B,

 

„fyrir hættubrot með því að hafa, að kvöldi mánudagsins 27. júní 2016 af gáska og á ófyrirleitinn hátt stofnað lífi eða heilsu C og D í augljósan háska með því að hafa velt bifreiðinni […]  á vinstri hliðina, er hún stóð kyrrstæð fyrir utan Kaffi Selfoss við Eyrarveg 2 á Selfossi, þrátt fyrir að hafa vitað af B og C inni í bifreiðinni. Af framangreindri háttsemi hlutu B og C líkamstjón.

 

Telst þetta varða við 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Málið var þingfest 3. júlí 2017.

            Ákærðu neita báðir sök.

            Frávísunarkröfu ákærðu var hafnað með úrskurði 15. nóvember 2017.

            Aðalmeðferð málsins fór fram 12. febrúar 2018 og var málið tekið til dóms að henni lokinni. Fyrir uppkvaðningu dóms var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

            Af hálfu ákæruvalds eru þær kröfur gerðar sem að ofan greinir.

            Af hálfu ákærðu er krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvalds, en til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði að fullu skilorðsbundin. Þá er gerð krafa um hæfileg málsvarnarlaun úr ríkissjóði.

 

Málavextir

            Aðfaranótt 28. júní 2016 barst lögreglu á Suðurlandi tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð lögreglu vegna slagsmála við Kaffi Selfoss, en jafnframt var tilkynnt að búið væri að velta þar bifreið á hliðina. Fór lögregla á staðinn og var þar mikið af fólki, en jafnframt var þar téð bifreið, þ.e. […]. Segir í frumskýrslu að lögregla hafi talað við E á vettvangi sem hafi sagt lögreglu að hann hafi séð nokkra aðila, að hann hafi talið um 6, við hægri hlið bifreiðarinnar að rugga henni, sem hafi endað með því að hún hafi oltið á vinstri hliðina. Segir í skýrslunni að E hafi tjáð lögreglu að hann hafi reynt að koma í veg fyrir veltuna með því að ýta í hina áttina, en án árangurs. Er haft eftir honum í skýrslunni að hann hafi svo fengið hjálp við að ýta þegar bifreiðina hafi verið komin á hliðina. Er jafnframt haft eftir honum í skýrslunni að C, systir hans, hafi verið í bifreiðinni ásamt D þegar bifreiðinni hafi verið velt. Þá segir í skýrslunni að E hafi sagst hafa séð F í hópi gerenda. Þá kemur fram í frumskýrslunni að lögregla hafi rætt við C, eiganda bifreiðarinnar. Hún hafi verið í bílstjórasætinu þegar bifreiðinni hafi verið velt og er haft eftir henni að D hafi dottið á hana þar sem hann hafi ekki verið í öryggisbelti. Hún hafi fundið kipp þegar bifreiðinni var velt til baka og fundið til í hálsi og vinstri öxl. Hún hafi verið í öryggisbelti. Þá segir að haft hafi verið tal af G vegna gruns um að hann hafi tekið þátt í að velta bifreiðinni. Hann hafi sagt að hann hafi verið fyrir framan hótelið þegar hann hafi séð að nokkrir aðilar hafi verið að reyna að velta bifreiðinni og að hann hafi þá hlaupið að henni og tekið þátt í að velta bifreiðinni á hliðina. Þá segir að sjá hafi mátt beyglu rétt við afturhurð bifreiðarinnar og einnig hafi bílstjóraspegill verið brotinn vinstra megin. Þá segir að C og D hafi verið flutt með lögreglubifreið á heilsugæslu til aðhlynningar. 

            Í vottorði H læknakandidats um C, dags. 16. ágúst 2016, segir að hún virðist hafa orðið fyrir því að bíl hennar hafi verið velt úr kyrrstöðu yfir á bílstjórahliðina og aftur til baka. Við þetta virðist C hafa hlotið hálstognun og mögulega tognun í baki vinstra megin, en hún sé áður með þekkta hryggskekkju og bakverkjasögu, en hún segist hafa verið verkjalaus fyrir atburðinn svo erfitt sé að meta hvort þessir verkir séu nýjir eða hvort áverkinn hafi valdið því að gamlir verkir hafi tekið sig upp. Verkir í vinstri öxl en engin skýring hafi fundist á því við nákvæma myndrannsókn. Þá segir að hún sé byrjuð í sjúkraþjálfun.

            Í vottorði áður nefndrar H um D, dags. 20. september 2016, segir í samantekt og áliti að D virðist hafa verið farþegi í framsæti í bíl sem hafi verið velt með handafli úr kyrrstæðri stöðu yfir á vinstri hlið og aftur til baka. Hann hafi við þetta hlotið tognun á vöðvum í hálsi. Góðar líkur séu á að hann nái sér vel af þessu og að hann hafi ekki aftur leitað á heilsugæsluna vegna þessa.

            Í skýrslu sem C gaf lögreglu vegna málsins segir að hún hafi verið í bifreiðinni með D og verið að sækja E bróður sinn. Þá hafi einhverjir menn komið og byrjað að lyfta bifreiðinni en svo sett hana niður aftur. Hún hafi ekkert verið að pæla í því en verið að skoða símann sinn og tala við D. Allt í einu hafi bifreiðin lyfst upp og hún hafi þá panikað og öskrað um að setja bifreiðina aftur niður. Það hafi ekki haft nein áhrif og hafi hún svo rankað við sér þegar hún hafi séð götuna. Þá hafi hún fengið innilokunarkennd, enda hafi hún ekki komist út. Lítið kvaðst hún muna eftir því hvað gerðist eftir það, fyrr en hún var allt í einu komin inn á Kaffi Selfoss og var að biðja um að hringt yrði á lögregluna. D hafi ekki verið í belti og hann hafi lent ofan á henni. Ekki muni hún eftir því þegar bifreiðin hafi verið rétt við og viti því ekki hverjir hafi gert það. Aðspurð um það hverjir hafi velt bifreiðinni kvað hún að þarna hafi margir verið. Hún hafi séð F, ákærða A, ákærða B og I. Allir þessir menn hafi átt þátt í að lyfta bifreiðinni, en hún hafi ekki séð hverjir hafi fyrst komið að bifreiðinni. Þeir hafi allir komið að henni í einu þegar bróðir hennar hafi komið að henni.

            Í skýrslu sem D gaf lögreglu segir að hann hafi ekki þekkt eða hitt C fyrr en þetta kvöld. Auk þess hafi hann þekkt þarna ákærðu A og B. Þau hafi setið í bifreiðinni og hún verið í gangi. Svo hafi komið þarna glaður múgur sem hafi verið að horfa á knattspyrnuleik. Hafi múgurinn farið að „trolla“ bifreiðina með því að taka undir hana. Fyrst hafi þetta verið í lagi, en svo farið að ganga heldur langt og kvaðst hann muna eftir að hafa reynt að renna niður hliðarrúðunni en það hafi ekki virkað. Þá hafi hann bankað í rúðuna og reynt með því að ná sambandi við þá sem voru fyrir utan og fá þá til að hætta. Síðan hafi bifreiðin farið á hliðina og hann dottið úr sætinu og á C, en hann hafi reynt að ýta henni frá sér með því að setja vinstri höndina í toppinn á bifreiðinni. Fljótlega hafi bifreiðinni verið velt til baka og þá hafi komið einhver slinkur á þau. Svo hafi þau farið út úr bifreiðinni. Aðspurður um hverjir hafi komið að þessu kvaðst vitnið ekki hafa hugmynd um það og ekki muna eftir neinum. Þegar hann hafi komið út úr bifreiðinni hafi hann séð ákærðu A og B og þeir hafi sagt að þeir hafi verið með í þessu og ætluðu ekki að reyna að koma sér undan þessu.

            Ákærði A gaf lögreglu skýrslu við rannsókn málsins. Er haft eftir honum í skýrslu að þarna hafi verið múgæsing og þetta hafi verið mjög furðuleg lífsreynsla. Hann hafi verið undir áhrifum áfengis, en ekki mikið. Auk hans hafi verið þarna ákærði B, F og J, en hann haldi að J hafi ekki verið þarna úti heldur hafi hann verið inni í anddyrinu. Er haft eftir ákærða að hann hafi tekið þátt í því að velta bifreiðinni og hann hafi vitað af því að það hafi verið fólk í bifreiðinni þegar henni hafi verið velt á hliðina. Þeir sem veltu bifreiðinni hafi ekkert rætt það áður. Þá kvaðst ákærði ekki vita neina ástæðu fyrir þessu aðra en að þetta hafi bara verið einhver múgæsing. Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið við framhurð bifreiðarinnar hægra megin, ákærði B hafi verið öðru hvoru megin við hlið hans og A hafi líka verið við hlið hans. Þá kemur fram að ákærði kannist við að G hafi líka lyft bifreiðinni.

            Ákærði B gaf skýrslu hjá lögreglu við rannsókn málsins. Er haft eftir honum að hann sé ekki viss um hverjir hafi tekið þátt í að velta bifreiðinni. Í þessu hafi verið […] og félagi hans. Það hafi einhver komið með hugmynd um að velta bifreiðinni og hafi alltaf bæst fleiri í hópinn en enginn hafi verið að stjórna þessu. Hafi þetta endað með því að bifreiðin hafi lent á hliðinni. Hann hafi sjálfur verið aftarlega við bifreiðina en kvaðst ekki geta sagt til um hver hafi verið við hlið hans. Þegar hann hafi komið að bifreiðinni hafi ekki verið búið að lyfta henni. Kvaðst ekki viss um hve margir hafi velt bifreiðinni en giskaði á að þeir hafi verið 5. Hann hafi vitað að D hafi verið í bifreiðinni þegar hann hafi komið að henni. Í byrjun hafi ekki verið ætlunin að velta bifreiðinni, en síðan hafi verið komnir það margir þarna að bifreiðin hafi farið á hliðina. Þeir hafi síðan sett bifreiðina aftur á hjólin og hafi bróðir C verið með í því en hann minnist þess að sá hafi líka verið með í að lyfta bifreiðinni. Aðspurður hvort hann hafi gert sér grein fyrir því hvað hann væri að gera kvaðst ákærði ekki telja að það hafi verið meðan á þessu stóð. Ætlunin hafi aðeins verið að lyfta bifreiðinni en ekki að setja hana á hliðina. Þá kvaðst ákærði aðspurður ekki hafa hugmynd um hlut […] í þessu.

            Áður hefur gefi út ákæra vegna þessa atburðar og var sú ákæra send dóminum. Þá fylgdi málinu mynddiskur þar sem sjá má hluta af atburðarásinni. Var því máli vísað frá dómi með úrskurði þess dómara sem dæmir þetta mál. Sá úrskurður var ekki kærður til Hæstaréttar. Mynddiskur fylgdi ekki gögnum málsins þegar ákæra í þessu máli var send dóminum og við aðalmeðferð var hvorki vísað til myndupptökunnar af hálfu sækjanda né verjanda ákærðu, en jafnframt var myndupptakan ekki borin undir ákærðu eða vitni við aðalmeðferð málsins.

            Ekki eru efni til að gera frekari grein fyrir málavöxtum.

 

 

            Forsendur og niðurstaða

            Ákærði A gaf skýrslu við aðalmeðferð og kvaðst hafa verið að horfa á landsleik í knattspyrnu og verið mikil gleði kringum það. Þetta hafi verið á Hótel Selfossi. Hann hafi gengið út af hótelinu í lok kvölds ásamt öðru fólki. Hafi E verið þarna og vaðið fyrstur að bifreiðinni, sem ákærði hafi haldið að E ætti. Hafi Efarið að taka á bifreiðinni. Þeir hafi farið nokkrir að bifreiðinni og tekið á henni ásamt E. Hafi þeir tekið undir sílsinn og bifreiðin farið að lyftast. Þá hafi E sagt að hann væri að gera grín í systur sinni sem væri inni í bifreiðinni. Hafi verið mikið hlegið. Hafi fleira fólk bæst í hópinn, en sumir farið frá. Svo hafi hjólin farið að lyftast og þá hafi ákærði dregið sig frá þessu og farið að anddyri hótelsins. Hafi fleira fólk bæst í hópinn og farið að ýta á bifreiðina sem hafi lyfst meira. Þegar bifreiðin hafi farið að lyftast meira hafi einhverjir, þ. á m. ákærði B, farið að reyna að vinna á móti þessu og taka bifreiðina niður þegar hún hafi verið í hæstu stöðu, en þegar menn hafi áttað sig á því að bifreiðin hafi verið komin svona hátt og verið farnir að reyna að taka bifreiðina niður þá hafi […] komið hlaupandi nokkra metra og átt síðasta átakið aftan á bifreiðina til að ýta henni þannig að hún hafi farið á hliðina. Við þetta hafi E brjálast og farið að berja í þakið á bifreiðinni til að koma henni til baka á hjólin. Hafi hann fengið einhverja tvo eða þrjá með sér í það. Þá hafi ákærði og einhverjir aðrir farið hinum megin við bifreiðina til að milda höggið þegar hún skylli aftur niður á hjólin. Hafi þeir haldið við bifreiðina á móti til að milda fallið, en svo hafi bifreiðin skollið aftur niður á hjólin. D og C hafi komið út úr bifreiðinni.

            Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa tekið þátt í að velta bifreiðinni. Hann hafi séð þegar bifreiðin hafi oltið. […] hafi átt síðasta átakið á bifreiðina þegar hún hafi oltið. Um það hverjir fleiri hafi verið þar gat ákærði um F. Frá því að byrjað var að taka undir bifreiðina þangað til hún valt hafi kannski liðið einhverjar mínútur í mesta lagi. Ákærði B hafi verið við bifreiðina þegar hún hafi oltið, en þá hafi ákærði B verið farinn að taka hana til baka og leitast við að koma í veg fyrir að bifreiðin ylti, ásamt E. Þeir hafi togað á móti þannig að bifreiðin ylti ekki. Þetta hafi ákærði séð sjálfur.

            Aðspurður kvaðst ákærði hafa vitað að C og D hafi verið í bifreiðinni strax frá upphafi, enda hafi það verið auðséð gegnum glerrúður bifreiðarinnar. Ákærði kvaðst hafa drukkið áfengi þetta kvöld.

            Aðspurður kvaðst ákærði aldrei hafa ætlað sér að skemma bifreiðina eða stofna fólki í hættu.

            Kvaðst ákærði telja að um 6-7 manns hafi verið við bifreiðina þegar hún hafi oltið. Kvaðst ákærði ekki vera til stórræða við að lyfta þungum hlutum vegna vinnulyss fyrir allnokkrum árum. Ekki hafi ákærði talið fólkið í bifreiðinni í hættu þegar bifreiðinni hafi verið velt. Helsta hættan hafi verið fyrir þá sjálfa þegar bifreiðinni hafi verið velt til baka og þeir verið þeim megin þar sem hún skall niður. Ákærðu hafi báðir verið þeim megin og reynt að vinna á móti högginu þegar bifreiðin skall aftur á hjólin, með því að taka undir sílsinn. Þeir hafi verið tveir við þetta.

            Aðspurður um hvar í ferlinu ákærði hafi hætt að lyfta undir bifreiðina kvað ákærði að það hafi verið þegar hjólin hafi verið farin að lyftast og komin svona 30 sentimetra frá jörðu, ekki alveg í hnéhæð. Þegar ákærði hafi hætt þá hafi F […], K, E, ákærði B og mögulega I verið við bifreiðina. Ákærði B hafi líka hætt að lyfta þegar bifreiðin hafi verið komin ívið hærra og farið að vinna á móti lyftunni, ásamt E, en þá hafi það verið orðið of seint. Þeir hafi þá verið við fremri hluta bifreiðarinnar. Ákærði hafi sjálfur ekki verið í því þarna að reyna að taka bifreiðina aftur til baka á hjólin og hindra það að henni yrði velt. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu kvað ákærði að hann hafi aðeins tekið þátt í þessu í upphafi, en ekki tekið þátt í því að velta bifreiðinni á hliðina. Þá hafi hann verið hættur. Hafði ákærði ekki sérstakar skýringar á því að hafa ekki sagt frá því hjá lögreglu að hann hafi reynt að vinna gegn því að bifreiðin færi á hliðina.

            Ákærði B gaf skýrslu við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa verið ásamt meðákærða á knattspyrnulandsleik og kvöldið hafi verið mjög skemmtilegt. Þegar þeir hafi komið út af hótelinu ásamt E og fleirum hafi þeir séð umrædda bifreið fyrir framan hótelið. E hafi stokkið á bifreiðina og farið að taka á henni og kallað á þá. Þeir hafi farið til hans og farið að taka á bifreiðinni með E, sem hafi sagt að systir hans væri inni í bifreiðinni. Þetta hafi verið eitthvað grín sem hafi beinst að henni. Svo hafi bifreiðin byrjað að takast á loft. Þegar bifreiðin hafi verið komin í einhverja hæð þá hafi ákærði séð að E hafi verið farinn að skynja að bifreiðin myndi velta á hliðina og byrjað að toga hana til baka. Þá hafi ákærði sjálfur byrjað að toga með E, en þá hafi verið komnir svo margir á bifreiðina að ekki hafi verið nein stjórn á hópnum og bifreiðin hafi endað á hliðinni. Á að giska 6-7 manns hafi verið að velta bifreiðinni. Eftir það hafi E tryllst og farið óður um bifreiðastæðið. Hafi svo E byrjað að berja í þak bifreiðarinnar og fengið einhverja með sér í að rétta bifreiðina við. Þeir hafi séð að komið hafi hreyfing á bifreiðina og hún að byrja að réttast við, en enginn hafi verið hinu megin til að taka við fallinu. Hafi þá ákærði og meðákærði stokkið til og farið hinu megin við bifreiðina og gripið í hana og reynt að ýta á móti til að draga úr fallinu og svo hafi bifreiðin skollið niður á hjólin. Hafi D komið út úr bifreiðinni og virst vera í lagi og hafi sagt það sjálfur, en mögulega verið nokkuð brugðið. Þá hafi C  komið út úr bifreiðinni á sama tíma og farið að rífast við E bróður sinn. Menn hafi stokkið frá þegar bifreiðin hafi oltið á hliðina. Hugmyndin hjá sér hafi bara verið að taka þátt í því með E að stríða systur hans. Aðspurður kvað ákærði að D og C hefðu alveg getað komist úr úr bifreiðinni eftir að hún hafi verið komin á hliðina, áður en henni hafi aftur verið velt á hjólin. Aðal skellurinn hafi orðið þegar bifreiðinni hafi verið velt aftur á hjólin. Aðspurður kvaðst ákærði hafa snúið baki í meðákærða þegar bifreiðin hafi oltið á hliðina og því ekki séð hann. Hafi ákærði ekki orðið var við meðákærða þegar bifreiðin hafi farið á hliðina. Kvaðst ekki hafa orðið var við að meðákærði hafi farið að anddyri hótelsins. Allt hafi þetta gerst hratt. Aðspurður kvaðst ákærði hafa vitað af C og D í bifreiðinni, enda glerrúður allan hringinn. Aðspurður kvað ákærði að bifreiðin hafi oltið rólega á hliðina. Ef hún hefði farið hraðar þá hefði hún mögulega farið á hvolf. Þetta hafi eiginlega gerst löturhægt. Ákærði kvaðst hafa drukkið nokkra bjóra á leiknum auk þess að hafa drukkið einhver skot. Aðspurður kvaðst ákærði aldrei hafa haft ásetning til að velta bifreiðinni á hliðina. Ekki hafi verið nokkur vilji hjá sér til að fremja afbrot þarna. Ekki hafi ákærði haft ásetning til að skemma bifreiðina eða valda líkamstjóni. Hafi hann ekki talið vera hættu á líkamstjóni. Þá lýsti ákærði því að hafa átt við að stríða meiðsli í hnjám. Ekki kvaðst ákærði hafa orðið var við læti í bifreiðinni eða beiðnir innan úr honum um að þessu yrði hætt. Aðspurður um hverjir hafi verið með í því í upphafi að rugga bifreiðinni kvaðst ákærði eiga erfitt með það. E hafi byrjað og svo hafi ákærði komið að, næst fremstur á eftir E, en ákærði ætti erfitt með að segja til um hverjir hafi verið fyrir aftan hann, utan þess að meðákærði hafi verið með í því. Þá hafi ákærði orðið var við F, en jafnframt hafi hann skynjað nærveru eða þátttöku fleiri en gæti ekki tilgreint hverjir það hafi verið. Kvaðst ekki átta sig á því hvenær meðákærði hafi farið frá. Um það hvenær í atburðarásinni ákærði hafi hætt að lyfta og farið að toga á móti kvað ákærði að það hafi verið þegar E hafi gert það. Þá hafi hjól bifreiðarinnar verið komin kannski í mjaðmahæð. Ef þá hefði verið hætt að lyfta þá hefði bifreiðin farið aftur niður á hjólin. Það hafi verið ákærði og E sem hafi farið að vinna á móti veltunni, en þá hafi fleiri verið að lyfta undir og hafi […] komið í lokin og virst hafa náð mjög góðri spyrnu og átt loka hnykkinn í veltunni. Ákærði hafi verið við bifreiðina allan tímann og ekki hlaupið í burtu þegar bifreiðin hafi verið komin á hliðina. Ekki hafi aðrir en ákærðu unnið á móti skellinum þegar bifreiðinni hafi verið velt aftur á hjólin.

            Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu kvað ákærði að grínið sem hann hafi tekið þátt í hafi verið að rugga bifreiðinni eða lyfta aðeins undir hana, en aldrei hafi hugur sinn staðið til þess að velta bifreiðinni. Kvaðst ákærði ekki telja að fólkið í bifreiðinni hafi verið í hættu þegar bifreiðinni hafi verið velt á hliðina. Ákærði kvaðst ekki hafa hvatt til þess að bifreiðinni yrði velt á hliðina.

            Vitnið C kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og lýsti því að hafa verið að sækja bróður sinn fyrir utan hótelið þetta sinn. Svo hafi D komið í bifreiðina til að fá far. Þau hafi beðið eftir bróður hennar og svo hafi allt í einu fullt af fólki, þ. á m. bróðir vitnisins, ákærðu, G og F, komið út af hótelinu og aftan að bifreiðinni og lyft henni en svo sett hana aftur niður. Fyrst hafi þetta bara verið grín en svo hafi þetta verið gert aftur og það næsta sem hún muni sé að hafa séð götuna eftir að bifreiðinni hafi verið velt á hliðina. Kvaðst ekki muna eftir að hafa séð E lyfta bifreiðinni. Kvaðst ekki muna þetta vel en allt í einu hafi bifreiðin bara verið komin á hliðina. D hafi svo lent á hliðinni á vitninu og reynt að halda sér. Hún hafi fengið verki við þetta. Hann hafi ekki verið í öryggisbelti, en það hafi hún verið. Henni hafi fundist bifreiðin vera lengi á hliðinni, ekki haft neinn kost á að komast út og fengið innilokunarkennd. Hún hafi öskrað þegar bifreiðin hafi lyfst hærra. Minnti vitnið að D hafi sagt mönnum að láta bifreiðina niður aftur. Aðspurð um hverjir hafi velt bifreiðinni kvað vitnið það hafa verið ákærðu báða, en þeir hafi verið við farþegahurðina. Aðspurð um hvort þeir hafi verið að reyna að rétta bifreiðina af eða vinna gegn veltunni kvaðst vitnið lítið hafa horft á þetta þar sem hún hafi verið skíthrædd, enda óttast að bifreiðinni myndi hvolfa. Um það hvort hún hafi séð einhverja aðra kvað vitnið að G og F […] hafi líka verið. Ekki kvaðst vitnið vita hvort þessir menn hafi vitað að hún og D væru í bifreiðinni, en þeir hljóti að hafa getað dregið þá ályktun þar sem hún hafi verið í gangi. Vitnið kvaðst hafa farið í röntgenrannsókn eftir þetta þar sem voða lítið hafi sést, en bak hennar sé ónýtt eftir þetta. Hún hafi fengið marblett. Þá sé andleg heilsa hennar slæm eftir ýmis áföll. Ekki kvaðst vitnið muna eftir að hafa séð einhvern fara frá bifreiðinni sem hafi verið kominn að henni. Vitnið kvaðst ekki gera neinar bóta- og eða refsikröfur vegna málsins. Vitnið kvað að verra högg hafi komið þegar bifreiðin hafi skollið á hjólin aftur en þegar henni hafi verið velt á hliðina. Hún hafi fundið til þegar bifreiðin hafi skollið aftur niður á hjólin. Þá hafi komið slinkur og það hafi verið verra og þá hafi hún fengið í bakið. Kannaðist vitnið við að fyrst hafi þetta verið fyndið, en það hafi ekki verið þegar bifreiðinni hafi verið lyft hærra. Kvaðst ekki vita hvort E bróðir hennar hafi tekið þátt í að rugga bifreiðinni og gat ekki útilokað það. E hafi verið skráður fyrir bifreiðinni, en hún hafi í rauninni átt hana. Aðspurð kvað vitnið að I hafi tekið þátt í að lyfta bifreiðinni. Aðspurð hverjir hafi lyft bifreiðinni og velt henni á hliðina kvað vitnið að það hafi verið I sem hafi verið við spegilinn, ákærðu báðir, G og F. Ekki gat vitnið útilokað að það hafi verið fleiri. Hún hafi bara séð þessa sem hún hafi nefnt, en viti ekki hvort eða hverjir hafi verið fyrir aftan. Um það hvort einhverjir hafi verið farnir að vinna á móti veltunni kvaðst vitnið ekki vita um það, enda hafi hún eiginlega bara dottið út. Kvaðst ekki muna eftir að hafa rifist við bróður sinn eftir að hún hafi verið komin út úr bifreiðinni. Kvaðst ekki geta sagt til um hvort ákærði A hafi farið frá bifreiðinni þegar hún hafi verið komin í nokkra hæð, enda muni hún illa þann hluta. Hún muni eftir honum þegar bifreiðinni hafi verið lyft í fyrra skiptið, áður en hún hafi verið sett niður.

            Vitnið D kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og kvaðst hafa verið í bifreiðinni hjá C og bifreiðin verið kyrrstæð. Í sigurgleði eftir einhvern íþróttaleik hafi einhverjir menn þarna farið að „trolla“ bifreiðina, þ.e. að rugga henni. Þegar ruggið hafi að verða aðeins meira en fyndið hafi vitnið reynt að opna rúðu á bifreiðinni en það ekki gengið. Hafi vitnið ætlað að minnast á það við þá sem hafi verið að rugga bifreiðinni að slaka á. Í því hafi bifreiðin oltið á vinstri hliðina. Allt sem í bifreiðinni hafi verið hafi rúllað yfir í vinstri hlið hennar. Hafi vitnið reynt að bera fyrir sig höndina svo að þungi hans lenti ekki allur á bílstjóranum. Skömmu síðar hafi bifreiðinni verið velt við aftur og þau þá farið út úr henni. Fljótlega hafi þau svo verið komin á sjúkrahús í skoðun. Allt hafi þetta tekið skamma stund. Bifreiðinni hafi verið vaggað kannski 4-6 sinnum og svo hafi hún farið á hliðina og mjög fljótlega hafi bifreiðinni verið velt aftur til baka. Kvaðst þó ekki hafa sérstakt tímaskyn á þessu. Kvaðst halda að hann hafi mjög lítið lent á C á meðan bifreiðin hafi verið á hliðinni, enda hafi þetta gerst mjög hægt og hann því náð að bera fyrir sig höndina. Hann hafi ekki verið í öryggisbeltinu. Aðspurður um hvort vitnið hafi séð hverjir hafi staðið að þessu kvaðst vitnið ekki hafa séð nokkurn mann. Hafi vitnið verið að reyna að rifja þetta upp, en hann muni ekki eftir neinum tilteknum. Um það hvort hann hafi verið hræddur kvaðst vitnið alveg hafa áttað sig á því að enginn myndi deyja, en þetta hafi þó verið alveg orðið gott. Vitnið hafi ekki verið neitt hræddur um líf sitt eða þannig. Sennilega hefði vitnið getað farið út úr bifreiðinni í upphafi þegar ruggið hafi verið nýbyrjað. Kvaðst örugglega hefði getað komist út úr bifreiðinni meðan hún hafi verið á hliðinni. Vitnið hafi farið á sjúkrahús í skoðun eftir þetta og verið stífur í hálsi 2 daga eftir á, en ekki meiðst frekar. Ekki kvaðst vitnið geta sagt neitt til um það hvort þeir sem veltu bifreiðinni hafi vitað af þeim inni í bifreiðinni. 

            Aðspurður kvaðst vitnið hafa jafnað sig að fullu og gera engar refsi- og bótakröfur í málinu. E hafi verið þarna en vitnið hafi ekki hugmynd um hvort hann hafi átt upptök að þessu. Þegar bifreiðinni hafi verið velt þá hafi hún lagst alveg sallarólega á hliðina. Hafi þetta gerst alveg ótrúlega hægt. Hafi verið meira högg þegar bifreiðin hafi aftur farið á réttan kjöl. Vitnið kvaðst ekki hafa upplifað sig í einhverri hættu þarna. Aðspurður um fjölda kvað vitnið að talsvert af fólki hafi verið þarna kringum bifreiðina þegar þetta var, en vitnið kvaðst ekki vita hve marga þurfi til að velta svona bifreið. Vitnið kvaðst ekki vita neitt um það hvort einhver hluti þeirra manna sem í upphafi voru að rugga bifreiðinni hafi verið farinn frá henni þegar hún hafi svo oltið á hliðina. Ekki kvaðst vitnið heldur vita neitt um það hvort einhverjir hafi verið byrjaðir að toga á móti veltunni þegar bifreiðinni hafi verið velt hærra. Ekki hafi verið sjáanlegur nokkur maður út um rúðuna þar sem vitnið sat. Vitnið hafi ekki einu sinni séð úlpu eða jakka. Það hafi ekki verið sjáanlegar andlitslausar fígúrur, heldur hafi vitnið einfaldlega ekki séð nokkurn mann þegar bifreiðinni hafi verið velt. Frá því að bifreiðin hafi lyfst og þangað til hún hafi verið komin á hliðina hafi vitnið ekki séð nokkurn mann sem hafi staðið að því. Vitnið kvaðst muna að í samtali við ákærðu báða strax eftir atvikið hafi komið fram að þeir hafi tekið þátt í að velta bifreiðinni. Vitnið hafi ekki spurt þá neitt sérstaklega um þátt þeirra í þessu. Vitnið kvaðst ekki átta sig á því hvort hann hafi fengið frekari slink við veltuna eða þegar bifreiðin hafi farið aftur á réttan kjöl. Það hafi verið meiri skellur við að fara til baka, en vitnið áttaði sig ekki á því hvort hann hafi meitt sig við veltuna eða það að komast aftur á réttan kjöl.

            Vitnið F kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og kvaðst ekki muna atburðarásina mjög vel. Þetta hafi verið eftir knattspyrnulandsleik og verið mikil drykkja og ölvun. Hafi verið nokkur múgæsing fyrir utan hótelið og undarleg stemning. Talsvert hafi verið þarna af fólki. Vitnið kvaðst muna eftir að hafa komið að afturhlutanum á bifreiðinni þegar hún hafi verið farin af stað, en svo hafi vitnið farið frá bifreiðinni áður en hún hafi farið á hliðina. Kvaðst ekki geta gert grein fyrir hvernig það hafi komið til að bifreiðinni hafi verið velt. Aðspurður um hverjir hafi verið með í að velta bifreiðinni kvaðst vitnið ekki muna það nákvæmlega. Vitnið mundi eftir að hafa séð ákærðu þarna. Kvaðst ekki muna frekar til að fullyrða hverjir hafi verið við bifreiðina þegar henni hafi verið velt. Vitnið kvaðst ekki vita neitt um það hvort einhverjir þeirra sem hafi staðið við bifreiðina þegar henni hafi verið velt, hafi verið að vinna gegn því eða toga hana til baka til að hún ylti ekki. Kvaðst ekki vita hvort fleiri en vitnið sjálfur hafi farið frá bifreiðinni eftir að hafa ruggað henni, en áður en hún hafi oltið. Vitnið kvaðst ekki gera sér grein fyrir hve margir hafi tekið þátt í bílveltunni. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað af fólki í bifreiðinni. Kvaðst ekki muna eftir að hafa heyrt nein hljóð innan úr bifreiðinni. Mundi vitnið hvorki hvernig bifreiðin hafi lagst eða skollið á hliðina, né á hjólin aftur. Vitnið hafi verið ölvaður. Vitnið kvaðst hafa verið með G þarna. Vitninu hafi fundist þetta vera eitthvað grín sem hafi farið úr böndum. Aðspurður um þann framburð sinn hjá lögreglu að ákærði B hafi tekið þátt í þessu kvaðst vitnið hafa skýrt rétt frá í skýrslu. Kvaðst ekki aðspurður muna hvort ákærði B hafi verið við bifreiðina þegar henni hafi verið velt á hliðina. Gat vitnið ekki fullyrt hverjir hafi ýtt bifreiðinni á hliðina.

            Vitnið G kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og lýsti því að hafa verið á hótelinu að horfa á knattspyrnuleik og hafi verið stemning og gleði í fólki. Eftir lokun staðarins hafi vitnið komið út og tekið eftir því að verið væri að rugga bifreið á planinu. Hafi vitnið komið að bifreiðinni og í því að vitnið hafi komið að eða fljótlega hafi bifreiðin farið á hliðina. Svo hafi bifreiðinni verið velt við aftur og svo hafi lögreglan komið fljótlega. Hann hafi rætt við einhverja lögreglumenn á vettvangi og farið svo heim. Vitnið kvaðst hafa tekið undir bifreiðina þegar henni hafi verið velt. Um það hverjir hafi verið þarna líka kvaðst vitnið hafa tekið eftir ákærða B við bifreiðina þegar henni hafi verið velt. Kvaðst ekki muna hvar ákærði B hafi verið við bifreiðina. Kvaðst vitnið eiga erfitt með að átta sig á hve margir hafi tekið þátt í þessu, en sér finnist það hafa verið margir. Hafi vitnið t.a.m. ekki tekið eftir æskuvini sínum F sem þó muni hafa verið þarna. Kvaðst vitnið ekki heldur muna eftir að hafa séð ákærða A við bifreiðina. Vitnið hafi komið að hægra afturhorni bifreiðarinnar og þá hafi hún verið komin vel á loft, u.þ.b. í mjaðmarhæð. Vitnið hafi ekki vitað að í bifreiðinni hafi verið fólk og ekki haft um það neina hugmynd og ekki orðið þess var. Bifreiðin hafi oltið mjúklega á hliðina, en að líkindum hafi komið meiri slinkur þegar hún hafi farið aftur á hjólin. Vitnið kvaðst ekki muna hvort einhver hafi farið frá bifreiðinni áður en hún hafi oltið á hliðina. Vitnið kvaðst ekki hafa upplifað neitt hættuástand eða líkur á líkamstjóni þegar þetta hafi gerst. Aðspurður kvaðst vitnið ekki geta sagt til um það hverjir aðrir hafi tekið þátt í að lyfta bifreiðinni, að öðru leyti en því að hann muni að hafa séð ákærða B á einhverjum tímapunkti. Kvaðst ekki vita hvort einhver hafi farið frá bifreiðinni eftir að byrjað hafi verið að lyfta henni, en það geti vel verið. Kvaðst ekki vita neitt um það hvort einhver af þeim sem voru við bifreiðina hafi reynt að vinna gegn veltunni með því að toga bifreiðina til baka áður en hún hafi oltið.

            Vitnið H læknir gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa hitt D og C á heilsugæslu umrædda nótt. Staðfesti vottorð sín um þau bæði. C hafi komið á bráðamóttöku og lýst því að hafa verið í bifreið sem hafi verið velt á hliðina og svo aftur á hjólin. Hún hafi sagst slæm af verkjum vinstra megin í hálsi, öxl, viðbeini og herðablaði. Hún hafi verið í miklu sjokki og þetta hafi greinilega tekið á hana. D hafi verið með C og hann hafi tekið undir frásögn hennar um atvikið, en jafnframt hafi komið fram hjá honum að hann hafi dottið á vinstri hliðina, á C en reynt að halda sér í þakið. Svo þegar bifreiðin hafi farið aftur á hjólin þá hafi hann dottið aftur til baka. D hafi líka verið í sjokki, en þó rólegri en C. Aðspurð um hvort þau hefðu getað fengið af þessu mun alvarlegri áverka kvaðst vitnið ekki telja það líklegt miðað við lýsingu á atburðinum. Erfitt sé að segja um þetta en það fari t.d. eftir því hve fast höggið hafi verið. Ekki hafi verið neinir sýnilegir áverkar á þeim. Dhafi fengið væga hálstognun sem hafi jafnað sig á tveimur dögum. C hafi haft fyrri sögu um hryggskekkju og bakverki, en hún hafi sagst hafa verið verkjalaus fyrir atvikið. Hafi henni verið ráðlagt að leita til heimilislæknis daginn eftir og hafi vitnið látið hana fá verkjalyf.

            Vitnið E, bróðir C, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að eftir umræddan knattspyrnuleik, fyrir utan innganginn á Hótel Selfoss, hafi eitthvað fólk verið utan í bifreiðinni. Hafi bifreiðinni verið lyft eitthvað aðeins upp og hafi vitnið tekið þátt í því að hrista hana eitthvað, en um leið og bifreiðin hafi verið komin í einhverja hæð þá hafi vitninu ekki fundist þetta neitt sniðugt lengur. Hafi vitnið reynt að taka eitthvað í hjólin til að draga til baka en það hafi ekkert þýtt þar sem margir hafi verið að lyfta undir bifreiðina. Aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa pælt neitt í því hvort aðrir væru að reyna að toga bifreiðina til baka. Kvaðst ekki hafa upplifað að það hafi verið. Kannski hefði dugað að 2-3 hefðu togað til baka til að bifreiðin ylti ekki. Um það hverjir hafi verið að lyfta undir bifreiðina kvaðst vitnið ekki geta sagt til um það, en eftir á hafi C sagt sér einhver nöfn í því sambandi. Vitnið neitaði að hafa átt upptökin að þessu, en hann hafi átt bifreiðina ásamt C sem hafi verið skráður eigandi. Kvaðst ekki hafa heyrt nein öskur eða læti úr bifreiðinni. Ekki kvaðst vitnið muna hvort einhver hafi farið frá bifreiðinni eftir að byrjað hafi verið að lyfta henni, en það geti þó verið. Kvaðst ekki vita neitt um það hverjir hafi ýtt bifreiðinni á hliðina og hverjir hafi ekki gert það. Aðspurður um hvort vitnið hafi orðið var við að ákærði B hafi gert eins og vitnið, þ.e. að lyfta undir bifreiðina í byrjun, en reyna svo að vinna gegn því að hún færi á hliðina, kvað vitnið það vel geta verið en vitnið hafi bara ekkert pælt í því. Vitnið kvaðst ekki hafa dottið í hug að þetta gæti leitt til líkamstjóns. Um það hvort ákærði A hafi farið frá bifreiðinni áður en henni var velt kvaðst vitnið ekki vita neitt um það. Vitnið kvaðst ekki muna þetta mjög vel og kannaðist við að hafa verið ölvaður umrætt sinn. Kvaðst ekki vita hverjir hafi borið ábyrgð á því að velta bifreiðinni.

            Vitnið L kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa verið á vettvangi umrætt sinn. Þegar hann hafi verið utandyra eftir lokun hafi komið hópur af fólki út af hótelinu og einhver sagt eitthvað um að lyfta bifreiðinni. Svo hafi það bara gerst og vitnið ekki pælt sérstaklega í því fyrr en bifreiðin hafi verið komin á hliðina. Vitnið kvaðst hafa verið ölvaður og myndi ekki eftir að bifreiðinni hafi verið velt aftur á réttan kjöl. Aðspurður um hverjir hafi tekið þátt í að velta bifreiðinni kvað vitnið að hann minnti rosalega að ákærði B hafi átt þátt í því og að hann hafi jafnvel sagt „lyftum þessum bíl“, en kvaðst ekki vera 100% á þessu. Kvaðst líka muna eftir F […] og D, en hann hafi verið í bifreiðinni ásamt einhverri stelpu. E hafi líka verið þarna. Kvaðst vitnið ekki muna hverjir hafi tekið þátt í að velta bifreiðinni. Vitnið kvaðst ekki muna eftir að hafa heyrt hljóð innan úr bifreiðinni. Vitnið kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis. Vitnið kvaðst ekki muna eftir að hafa séð einhvern vera að reyna að draga bifreiðina til baka þannig að hún ylti ekki. Vitnið kvaðst hafa verið í einhverju spjalli þegar bifreiðinni hafi verið lyft. Vitnið kvaðst ekki vita neitt um það hvort einhver hafi verið að reyna að toga á móti þannig að bifreiðin ylti ekki. Bifreiðin hafi farið rólega á hliðina. Vitnið hafi ekki talið hættu á ferðum eða efni til að skipta sér af þessu. Aðspurður kvað vitnið geta verið að E, en ekki ákærði B, hafi sagt „lyftum þessum bíl“. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um það hverjir hafi staðið við bifreiðina þegar henni hafi verið velt. Þetta hafi verið hópur af mönnum. Kvaðst ekki muna hverjir. Þetta hafi verið á bilinu 5-10 manns, en kvaðst ekki geta nefnt nöfn þeirra, nema ákærða B, og kvaðst ekki vita hvort einhverjir þeirra hafi verið farnir að toga til baka áður en bifreiðin hafi oltið, enda hafi vitnið aðeins fylgst með þessu með öðru auganu þangað til bifreiðin hafi verið komin á hliðina. Vitnið kvaðst ekki vita hvort einhver hafi farið frá bifreiðinni eftir að byrjað var að lyfta henni, en áður en hún hafi oltið á hliðina. Vitnið kvaðst ekki muna hvort einhver hafi verið að reyna að toga bifreiðina til baka áður en hún hafi oltið. Vitnið hafi ekki haft á þessu fulla athygli fyrr en eftir að bifreiðin hafi verið komin á hliðina. Vitnið kvaðst ekki muna eftir ákærða A þarna.

            Vitnið K kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa verið á vettvangi umrætt sinn og margt fólk hafi verið þarna. Svo hafi orðið einhver múgæsing og bifreiðinni hafi verið lyft og hún farið á hliðina, en svo verið velt aftur á réttan kjöl. Vitnið hafi séð þetta. Um það hverjir hafi gert þetta kvaðst vitnið ekki muna það nákvæmlega. Vitnið kvaðst ekki hafa talið þetta hættulegt eða ástæðu til að kalla á lögreglu. Þetta hafi sennilega verið eitthvað grín. Kvaðst ekki hafa séð farþega í bifreiðinni. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða B á vettvangi, en minntist ekki að hafa séð ákærða A þar. Aðspurður kvaðst vitnið ekki muna eftir að hafa séð ákærða B lyfta bifreiðinni. Kvaðst ekki muna eftir að hafa séð ákærða A lyfta bifreiðinni. E hafi verið þarna, en ekki mundi vitnið hvort hann hafi átt í þessu þátt. Vitnið kvaðst hafa verið ölvaður og engan þátt tekið í þessu.

            Vitnið I kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa verið á vettvangi umrætt sinn og kvaðst ekki muna þetta vel. Vitnið hafi verið frekar nálægt þegar byrjað hafi verið að lyfta bifreiðinni. Hafi vitnið tekið þátt í því. Svo hafi bifreiðin verið sett aftur niður á hjólin. Þá hafi vitnið gengið frá og einhverju eftir það hafi bifreiðin farið á þakið að því er vitnið hélt. Aðspurður um hvort vitnið hafi séð bifreiðina velta kvaðst vitnið ekki geta sagt til um það, en bæði sé langt um liðið og mikið búið að tala um atburðinn. Vitnið hafi vitað um fólk í bifreiðinni. Hafi vitnið séð það. Vitnið gat ekki sagt til um hvort ákærðu hafi verið við bifreiðina. Vitnið kvaðst hafa verið mjög ölvaður. Vitnið kvaðst ekki muna eftir að einhver sérstakur hafi verið hvatamaður að því að lyfta og velta bifreiðinni. Vitnið kvaðst ekki geta fullyrt hverjir hafi velt bifreiðinni. Kvaðst ekki geta sagt til um hvort einhverjir hafi reynt að vinna gegn því að bifreiðinni yrði velt. Kvaðst heldur ekki geta fullyrt neitt um að einhver hafi hætt að lyfta og farið frá bifreiðinni í þessari atburðarás.

            Ákærði A hefur þannig lýst því að hafa lyft undir bifreiðina í upphafi, en hætt því áður en hún valt og hafi hann ekki átt þátt í því að velta bifreiðinni, en um ákærða B bar ákærði A að ákærði B hafi lyft undir bifreiðina en síðan leitast við að toga til baka til að hindra það að bifreiðinni yrði velt. Um sinn þátt í þessu bar ákærði B á sama veg, en ekki gat hann borið neitt um hvort ákærði A hafi átt þátt í að velta bifreiðinni, en hann hafi ekki orðið hans var í þeim hluta atburðarásarinnar, en það er í samræmi við framburð ákærða A sem kveðst þá hafa verið farinn frá bifreiðinni.

            Vitnið C lýsti því að báðir ákærðu hefðu átt þátt í að lyfta bifreiðinni í upphafi, en lítið kvaðst hún muna eftir þeim hluta atburðarásarinnar þegar bifreiðinni hafi verið velt og gat hún ekkert borið um hvort einhverjir hefðu þá reynt að vinna á móti því að bifreiðin ylti. Á þeim tíma hafi hún eiginlega bara dottið út og gat ekki sagt neitt til um það t.a.m. hvort ákærði A hafi verið farinn frá bifreiðinni.

            Vitnið D gat ekkert borið um hverjir hefðu velt bifreiðinni og kvaðst á þeim tíma engan hafa séð sem hafi velt bifreiðinni.

            Vitni F gat ekki fullyrt hverjir hefðu velt bifreiðinni á hliðina og mundi t.d. ekki hvort ákærði B hafi þá verið við bifreiðina, þó hann mydi að hafa á einhverjum tíma séð báða ákærðu á vettvangi.

            Vitnið G kvaðst hafa tekið eftir ákærða B við bifreiðina þegar hún hafi oltið, en gat ekki sagt til um hvar hann hafi staðið við bifrieðina og kvaðst ekkert vita hvort ákærði B hafi þá verið farinn að reyna að vinna gegn því að bifreiðin ylti eins og hann hefur borið. Kvaðst vitnið ekkert vita hvort ákærði A hafi verið við bifreiðina eða hvort einhver hafi farið frá bifreiðinni áður en hún valt, eins og ákærði A hefur borið.

            Vitnið E kvaðst ekki vita hverjir hefðu borið ábyrgð á því að velta bifreiðinni, vissi ekki hvort einhver hefði farið frá bifreiðinni áður en henni var velt og vissi ekki hvort einhverjir þeirra sem voru við bifreiðina þegar hún valt hafi verið farnir að reyna að vinna gegn veltunni, umfram það að vitnið kvaðst sjálfur hafa gert það.

            Vitnið L kvaðst minna „rosalega“ að ákærði B hafi átt þátt í að velta bifreiðinni, en kvaðst samt ekki muna hverjir hefður gert það og gat engin nöfn nefnt í því sambandi annað en ákræða B. Þá kvaðst vitnið aðeins hafa fylgst lauslega með þessu þangið til bifreiðin hafi oltið, en vissi ekkert um það hvort einhverjir þeirra sem voru við bifreiðina hefðu þá verið farnir að toga til baka. Vitnið kvaðst ekki muna eftir að hafa séð ákærða A lyfta bifreiðinni.

            Vitnið K kvaðst hafa séð ákærða B á vettvangi, en ekki að hafa séð hann lyfta bifreiðinni. Mundi vitnið hvorki eftir að hafa séð ákærða A á vettvangi, né að hafa séð hann lyfta bifreiðinni.

            Vitnið I kvaðst ekki geta fullyrt um það hverjir hafi velt bifreiðinni.

            Að öllu framangreindu virtu verður að telja með öllu ósannað, gegn neitun ákærðu, að ákærðu hafi haft ásetning til að velta umræddri bifreið á hliðina og jafnframt að þeir hafi átt þátt í því að hún valt á hliðina. Jafnframt er með öllu ósannað að ákærðu hafi haft ásetning til að stofna lífi eða heilsu C og D í augljósan háska af gáska og á ófyrirleitinn hátt. Dómari hefur kynnt sér framangreindan mynddisk sem sýnir hluta af umræddri atburðarás. Að mati dómsins hnekkir hann ekki framburði ákærðu, en upptökunni lýkur áður en bifreiðin veltur.

            Verða því ákærðu báðir sýknaðir af öllum kröfum ákæruvalds í málinu.

            Samkvæmt 235. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærðu ekki gert að greiða sakarkostnað í málinu og fellur hann því á ríkissjóð, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Jóns Egilssonar lögmanns, sem eru ákveðin í einu lagi vegna beggja ákærðu, kr. 1.200.000 að virðisaukaskatti meðtöldum, auk ferðakostnaðar verjandans kr. 52.800.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærðu, A og B, eru sýknaðir af öllum kröfum ákæruvalds í málinu.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda beggja ákærðu, Jóns Egilssonar lögmanns, kr. 1.200.000, auk ferðakostnaðar verjandans kr. 52.800.

 

Sigurður G. Gíslason