• Lykilorð:
  • Gáleysi
  • Manndráp af gáleysi
  • Miskabætur
  • Skilorð
  • Ökuréttarsvipting

 

 Ár 2018, föstudaginn 13. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er í dómsal embættisins að Austurvegi 4, Selfossi af Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra í málinu nr. S-153/2018 

 

                                                Ákæruvaldið

                                                (Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi)

                                                gegn

                                                Carl Edward Siegel

                                                (Helga Melkorka Óttarsdóttir lögmaður)

 

 

kveðinn upp svohljóðandi

 

dómur:

           

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi, dagsettri 10. júlí 2018, á hendur ákærða, Carl Edward Siegel, f. ……, til heimilis …….., Bandaríkjunum:

 

„fyrir hegningar- og umferðarlagabrot

með því að hafa, miðvikudaginn 16. maí 2018, ekið bifreiðinni […] austur Suðurlandsveg um brú yfir Gunnarshólmalænu í Rangárþingi eystra, yfir á rangan vegarhelming miðað við akstursstefnu, með 101 km hraða á klukkustund þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km á klukkustund, með þeim afleiðingum að bifreiðin lenti þar í árekstri við bifreiðina […], sem kom úr gagnstæðri átt; allt framangreint með þeim afleiðingum að ökumaður bifreiðarinnar […] A …….. hlaut fjöláverka og lést nær samstundis.

 

Teljast brot ákærða varða við 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, 1. mgr. 14. gr., 1. mgr. 19. gr. og 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

 

Einkaréttarkrafa:

Í málinu gerir Björn Jóhannesson hrl. kröfu f.h. B, um að ákærða verði með dómi gert að greiða miskabætur að fjárhæð kr. 3.000.000, auk vaxta skv. 8. gr. sbr 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 16. maí 2018 til þess dags þegar mánuður er liðinn frá því bótakrafan er kynnt ákærða en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

 

 

             Í þinghaldi í dag var upplýst að samkomulag hefði tekist utan réttar um fullnaðaruppgjör miskabóta auk vaxta og kostnaðar og var ofangreind bótakrafa því afturkölluð.

Ákærði mætti við þingfestingu málsins þann 11. júlí sl. ásamt skipuðum verjanda sínum, Helgu Melkorku Óttarsdóttur lögmanni. Ákærði fékk þá frest til þess að kynna sér gögn málsins og taka afstöðu til ákærunnar. Í þinghaldi í dag viðurkenndi ákærði skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Af hálfu ákærða er þess krafist að honum verði ekki gerð refsing en til vara er krafist vægustu refsingar er lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin að öllu leyti. Þá er þess aðallega krafist að ákærða verði ekki gerð ökuréttarsvipting en til vara að henni verði markaður skammur tími. Þá gerir verjandi kröfu um þóknun sér til handa að mati dómsins.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Við ákvörðun refsingar ber að hafa í huga að ákærði hefur skýlaust játað brot sitt og þá hefur hann komist að samkomulagi við bótakrefjanda um miskabætur honum til handa. Þá hefur sækjandi upplýst að ákærði hafi verið samstarfsfús við lögreglu og samþykkt umbeðnar rannsóknir. Þá verður ekki fram hjá því litið að atvik þetta hefur haft gríðarleg áhrif á heilsu ákærða og hefur það verið staðfest með læknisvottorði.

Með hliðsjón af öllu framansögðu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði en fresta ber fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum ber að svipta ákærða ökurétti og er ökuréttarsvipting hans hæfilega ákveðin 10 mánuðir frá birtingu dómsins að telja.

Þá ber með vísan til 1. mgr. 233. gr., sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu útlagðs sakarkostnaðar, samtals 1.969.793 krónur, en með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 249/2016 verður ákærða hvorki gert að greiða kostnað vegna flutnings ökutækja né flutnings á líki. Þá verður ekki talið að ákærða beri að greiða kostnað vegna endurrits á skýrslutöku. Ákærða verður jafnframt gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helgu Melkorku Óttarsdóttur lögmanns, 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Carl Edward Sigel, sæti fangelsi í 2 mánuði.

Fresta ber fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði er sviptur ökurétti í 10 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði útlagðan sakarkostnað, samtals 1.969.793 krónur auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Helgu Melkorku Óttarsdóttur lögmanns, 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

 

                                                       Hjörtur O. Aðalsteinsson.