• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Skilorðsrof
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands föstudaginn 8. júní 2018 í máli nr. S-83/2018:

  Ákæruvaldið

(Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi)

gegn

Arnari Jóhanni Ragnarssyni

(Jón Egilsson hrl.)

 

 

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið fimmtudaginn 17. maí sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 16. apríl sl., á hendur Arnari Jóhanni Ragnarssyni, óstaðsettum í hús á Selfossi,   

 

I. fyrir fíkniefnilagabrot

með því að hafa, að morgni laugardagsins 23. desember 2017, á móts við hús númer [..] við Eyraveg á Selfossi haft í vörslu sinni 7,49 g af amfetamíni, sem ákærði kastaði frá sér er lögregla hafði afskipti af honum umrætt sinn.

 

Telst brot ákærða varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 með síðari breytingum.

 

II. fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, að kvöldi sunnudagsins 25. febrúar 2018, ekið bifreiðinni […] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa amfetamíns, metamfetamíns og tetrahýdrókannabínóls.

 

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum, til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum sbr. ákærulið I. (efnaskrá lögreglu nr. 36779) samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Ákærði mætti við þingfestingu málsins ásamt Jóni Egilssyni lögmanni, sem skipaður var verjandi ákærða að hans ósk. Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

 

Í matsgerð frá rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, sem liggur frammi meðal rannsóknargagna lögreglu, kemur fram að amfetamín, metamfetamín og tetrahýdrókannabínólsýra hafi fundist í þvagi ákærða. Þá hafi í blóði hans mælst amfetamín 60 ng/ml, metamfetamín 640 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 13 ng/ml. Um málavexti að öðru leyti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

 

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði ellefu sinnum áður sætt refsingu. Þann 8. júní 2012 var ákærða gerð sekt vegna þjófnaðar, eignaspjalla, nytjastuldar og aksturs undir áhrifum fíkniefna sem og lyfja. Var hann þá jafnframt sviptur ökurétti tímabundið. Þann 28. desember sama ár var ákærða dæmdur hegningarauki og honum gerð sekt vegna nytjastuldar, aksturs undir áhrifum fíkniefna og aksturs án ökuréttar, var hann þá aftur sviptur ökurétti tímaundið. Þann 17. október 2013 var ákærða gerð sekt vegna ölvunaraksturs, aksturs undir áhrifum fíkniefna og aksturs sviptur ökurétti, var hann þá enn sviptur ökurétti tímabundið. Þann 24. júní 2014 var ákærði fundinn sekur um fíkniefnalagabrot og hann dæmdur til að sæta fangelsi í tvo mánuði, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið til þriggja ára. Þann 26. mars 2015 var ákærða gerð sekt vegna umferðarlagabrots og fíkniefnalagabrots. Var þar um að ræða rof á skilorði framangreinds dóms, en refsingin var ekki dæmd upp. Þann 22. október sama ár var ákærði fundinn sekur um fíkniefnalagabrot, og honum gert að sæta fangelsi í sex mánuði, en fullnustu þriggja mánaða refsingarinnar var frestað skilorðbundið til þriggja ára. Var þá dæmd upp refsing áðurgreinds skilorðsdóms. Þann 30. júní 2016 var ákærði fundinn sekur um ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti og honum gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði og var fullnustu þriggja mánaða refsingarinnar þá frestað skilorðsbundið til þriggja ára. Var þá dæmd upp refsing síðastgreinds skilorðsdóms. Þann sama dag gekkst ákærði undir greiðslu sektar vegna umferðarlagabrots. Þann 9. janúar 2017 var ákærði  fundinn sekur um stórfellda líkamsárás og honum gert að sæta fangelsi í átta mánuði, og var þá fullnustu fimm mánaða refsingarinnar frestað skilorðsbundið til þriggja ára. Var þar um hegningarauka að ræða og dæmd upp refsing síðastgreinds skilorðsdóms.  Þann 14. febrúar sama ár var ákærði fundinn sekur um akstur undir áhrifum fíkniefna, akstur sviptur ökurétti og fíkniefnalagabrot og honum dæmdur hegningarauki við síðastgreindan dóm, en ekki gerð sérstök refsing. Loks var ákærði þann 27. febrúar sl., fundinn sekur um þjófnað, húsbrot og fíkniefnalagabrot og honum gert að sæta fangelsi í sex mánuði, en fullnustu þriggja mánaða refsingarinnar var frestað skilorðsbundið til þriggja ára. Var þá enn dæmt upp skilorð eldri dóms. Brot þau sem ákærði er nú fundinn sekur um eru framin fyrir uppkvaðningu síðastgreinds dóms og verður ákærða því nú dæmdur hegningarauki. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ber að taka framangreinda refsingu upp og dæma með hinum nýja brotum og ákveða refsingu ákærða í einu lagi með vísan til 78. sömu laga. 

 

Líkt og að framan er rakið á ákærði þó nokkurn sakaferil að baki. Þá hefur ákærði margítrekað rofið skilorð og er nú í fimmta sinn dæmdur upp eldri skilorðsdómur yfir honum. Að öllu framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Með vísan til 57. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og þar sem um er að ræða hegningarauka við fyrri dóm, eru ekki skilyrði til að skilorðsbinda refsingu ákærða að hluta. Að öllu framangreindu virtu, sem og með vísan til dómvenju þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsingu hans að nokkru leyti. Með vísan til 101. og 102. gr., þó einkum 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, ber að árétta ævilanga sviptingu ökuréttar ákærða. Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, eru gerð upptæk framangreind fíkniefni líkt og greinir í dómsorði. Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með síðari breytingum, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem nemur samkvæmt yfirliti lögreglu samtals 155.641 kr., auk þóknunar skipaðs verjanda ákærða, sem er hæfilega ákveðin 126.480 kr., að teknu tilliti til virðisaukaskatts, og ferðakostnaðar verjanda, sem nemur 13.200 kr.

 

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

 

 

D ó m s o r ð :

 

Ákærði, Arnar Jóhann Ragnarsson, sæti fangelsi í sex mánuði.

Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða.

Gerð eru upptæk 7,49 g af amfetamíni.

Ákærði greiði sakarkostnað samtals 295.321 krónu, þar af nemur þóknun skipaðs verjanda, Jóns Egilssonar lögmanns, 126.480 krónum, að teknu tilliti til virðisaukaskatts og ferðakostnaður verjanda 13.200 krónum.

 

 

                                                                        Sólveig Ingadóttir.