• Lykilorð:
  • Fjárdráttur
  • Skaðabætur
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 26. febrúar 2018 í máli nr. S-54/2017:

Ákæruvaldið

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn:

Benedikt Jónssyni

(Kristján Óskar Ásvaldsson hdl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 20. desember 2017 á hendur, Benedikt Jónssyni, Vitabraut 1, Hólmavík;

„ fyrir fjárdrátt, en til vara fyrir umboðssvik, með því að hafa, heimildarlaust og í auðgunarskyni, í september 2017, í starfi sínu sem starfsmaður verslunar Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Hólmavík, dregið sér alls kr. 53.116, með millifærslum inn á greiðslukortareikning sinn nr. […], í gegnum afgreiðslukerfi verslunarinnar, í fimm skipti eins og hér greinir:

 

Tilvik:

Dagsetning:

Fjárhæð:

1.

16.9. 2017

kr. 11.767

2.

16.9. 2017

kr. 8.396

3.

21.9. 2017

kr. 13.342

4.

21.9. 2017

kr. 7.783

5.

24.9. 2017

kr. 11.828

 

Telst þetta varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.„

 

Af hálfu Kaupfélags Steingrímsfjarðar, Höfðatúni 4, Hólmavík, er gerð krafa um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 53.116, auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 24. september 2017 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafan var birt kærða, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

 

I.

Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins þann 17. janúar sl., en hafði þá boðað forföll, þar sem ófært var frá Hólmavík til Ísafjarðar vegna veðurs. Kristján Óskar Ásvaldsson lögmaður mætti í þinghaldið og var skipaður verjandi ákærða að hans ósk. Var málinu frestað til 7. febrúar s.l. en hvorki ákærði né verjandi hans sóttu þá þing. Var því gefið út nýtt fyrirkall, sem birt var ákærða þann 12. febrúar sl. Ákærði sótti ekki þing þann 21. febrúar, né heldur verjandi hans, og var málið því dómtekið að kröfu ákæruvaldsins samkvæmt 1. mgr. 161. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Með vísan til þeirrar lagagreinar má jafna útivist ákærða til játningar hans, enda fer sú niðurstaða ekki í bága við sakargögn. Brot ákærða telst því sannað og varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og tilgreint er í ákæru.

II.

Ákærði er fæddur […], hann var því rétt að verða  […] ára þegar brotin voru framin. Við ákvörðun refsingar ber til þess að líta að ákærði hefur ekki áður verið dæmdur fyrir auðgunarbrot og sú fjárhæð sem um ræðir er ekki há, auk þess sem ákærði játaði brot sitt fyrir lögreglu. Á hinn bóginn ber að líta til þess að brot ákærða voru ítrekuð og af ásetningi auk þess sem hann hefur ekki endurgreitt þá fjárhæð sem hann tók ófrjálsri hendi.

Að öllu þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi.

Eftir atvikum þykir með heimild í 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 rétt að fresta fullnustu refsingar ákærða og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi hann almennt skilorð nefndrar 57. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar hefur krafist greiðslu skaðabóta eins og greinir í ákæru. Þar sem sú bótakrafa er nægilega rökstudd og í samræmi við gögn málsins verður hún tekin til greina, ásamt vöxtum sem í dómsorði greinir.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Óskars Ásvaldssonar lögmanns, að meðtöldum viðisaukaskatti eins og í dómsorði segir. Annan sakarkostnað leiddi ekki af meðferð málsins.

Dóm þennan kveður upp Bergþóra Ingólfsdóttir héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Benedikt Jónsson, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði Kaupfélagi Steingrímsfjarðar 53.116 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. september 2017 til 3. febrúar 2018 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Óskars Ásvaldssonar lögmanns, 86.800 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir