• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Skilorð
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 11. september 2018 í máli nr. S-40/2018:

Ákæruvaldið

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn:

Guðmundi Karli Bergmann

(Bergur Hauksson hdl.)

 

I

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið miðvikudaginn 5. september sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Vestfjörðum þann 11. júlí sl., á hendur Guðmundi Karli Bergmann, kennitala [...], [...], Reykjavík,

 

„fyrir þjófnað á orkuforða, með því að hafa á tímabilinu frá því í lok árs 2015 og fram til miðvikudagsins 12. júlí 2017, stolið allt að 34.546 kílóvattstundum af rafmagni, að áætluðu verðmæti kr. 270.148, með því að tengja rafstreng hitatúbu hússins, að [...], beint inn á aðalvör neysluveitu hússins og þannig framhjá raforkumæli Orkubús Vestfjarða, og með þeim hætti komist hjá því að orkunotkun hitatúbunnar kæmi fram á raforkumælinum, sem gerði orkusala ókleift að reikningsfæra umrædda orku.

 

Teljast þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

II

Ákærði mætti við þingfestingu málsins og viðurkenndi að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Með vísan til játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

III

Um málavexti vísast til ákæruskjals og gagna málsins. Sannað þykir að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Ákærði er fæddur árið [...] og hefur samkvæmt framlögðu sakavottorði ekki áður sætt refsingu, þá horfir játning ákærða honum til málsbóta. Samkvæmt því og að broti ákærða virtu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Eftir atvikum, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Engan sakarkostnað leiddi af máli þessu.

Dóm þennan kveður upp Bergþóra Ingólfsdóttir héraðsdómari.

 

DÓMSORÐ:

Ákærði Guðmundur Karl Bergmann sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1040.

                                               

Bergþóra Ingólfsdóttir