• Lykilorð:
  • Skuldamál
  • Sönnunarbyrði
  • Sönnunarfærsla
  • Verksamningur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 21. mars 2019 í máli nr. E-16/2018:

Smiðsafl ehf.

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

gegn

Geirnaglanum ehf.

(Bjarki Þór Sveinsson hrl.)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 15. febrúar 2019, er höfðað 27. mars 2018. Stefnandi er Smiðsafl ehf., Gilsárstekk 1, Reykjavík. Stefndi er Geirnaglinn ehf., Strandgötu 7b, Hnífsdal.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 1.689.387 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. október 2014 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. s.l. er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst að frágenginni kröfu um frávísun, sem hafnað var með úrskurði 10. október 2018, sýknu af öllum dómkröfum stefnanda auk málskostnaðar úr hendi stefnanda.

 

II

Málsatvik eru þau að stefnandi, sem rekur þjónustu á sviði byggingar-, íbúða- og atvinnuhúsnæðis, hefur stefnt stefnda til greiðslu reiknings, sem útgefinn var 8. september 2014, vegna vinnu kranamanns í tengslum við byggingu hjúkrunarheimilis, að fjárhæð 1.689.387 krónur, ásamt vöxtum. Krafan var ítrekuð með bréfum 13. og 26. október 2015 áður en mál þetta var höfðað.

Stefndi hefur andmælt greiðsluskyldu sinni og telur sér ekki skylt að greiða kröfuna. Hefur stefndi vísað til verksamnings aðila málsins frá 27. júlí 2013 um tiltekin verk sem stefnandi skyldi vinna í tengslum við byggingu hjúkrunarheimilisins Eyrar. Umkrafin vinna hafi verið utan við samning aðila, auka- eða viðbótarverk, sem stefnanda hafi verið óheimilt að inna af hendi nema samkvæmt skriflegri beiðni stefnda, sbr. 10. gr. samnings aðila.

 

III

Stefnandi byggir kröfu sína á reikningi, dagsettum 8. september 2014, að fjárhæð 1.689.387 krónur, fyrir vinnu kranamanns í 445 stundir, við byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði. Skuldin hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því hafi verið nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 45., 47., 52. og 54. gr. laga nr. 50/2000. Um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga. Kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglu III. og V. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá er um varnarþing vísað til 33. gr. laga um meðferð einkamála.

 

IV

Stefndi kveðst byggja sýknukröfur sínar á því að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti um rétt sinn, ekki hafi verið krafist greiðslu meðan á framkvæmdum stóð. Reikningnum hafi verið hafnað af stefnda þegar í upphafi. Rúmu ári síðar, eða í október 2015, hafi stefnandi hafið innheimtuaðgerðir. Stefndi hafi þá enn andmælt kröfunni. Stefnandi hafi svo ekki frá þeim tíma og þar til mál þetta var höfðað haft uppi frekari kröfur á hendur stefnda, né áréttað kröfuna. Stefndi hefði því mátt hafa réttmæta ástæðu til að ætla að málinu væri lokið. Að þessu virtu verði að líta svo á að stefnandi hafi glatað þeim rétti sem hann kynni að hafa átt gagnvart stefnda sakir tómlætis.

Þá byggir stefndi á því að ekki hafi verið færðar sönnur fyrir tilvist kröfunnar. Stefnandi virðist byggja á því að munnlegt samkomulag hafi verið með aðilum um verkið sem stefndi kannist ekki við. Sönnunarbyrði fyrir því samkomulagi og efnisatriðum þess sem og því hvenær vinnan fór fram og að hverju var unnið liggi hjá stefnanda. Engum sönnunargögnum hafi verið teflt fram um þessi atriði og því beri að sýkna stefnda.

Þá byggir stefndi á því að umrædd kranavinna hafi fallið undir skyldur stefnanda samkvæmt samningi aðila, sbr. 2. gr. samningsins. Verði fallist á að umrædd vinna hafi verið aukaverk í skilningi samningsins þá hafi stefnanda borið að fá skriflegt samþykki fyrir því, sbr. 10. gr. samnings aðila, sbr. einnig gr. 0.7.4 í útboðsgögnum verksins og gr. 3.6.5 í ÍST 30/2012. Stefnandi hafi ekki lagt fram skriflega beiðni um aukaverk né gert rökstudda grein fyrir því að það stæði til og því hafi umþrætt vinna verið unnin á ábyrgð og kostnað stefnanda.

Auk þess byggir stefndi á því að ekki sé ljóst hvenær umkrafin vinna var innt af hendi. Krafist hafi verið greiðslu sem ekki hafi rúmast innan ágústmánaðar 2014. Reikningsgerðin hafi því farið í bága við 5. gr. verksamnings aðila, kafla 0.409 í útboðsgögnum og ákvæði kafla 5.1 í ÍST 30:2012, einkum gr. 5.1.4 og 5.1.5. Reikningurinn og fylgigögn hafi verið ófullnægjandi auk þess sem hann hafi verið gefinn út eftir að lokareikningur hafði verið gerður vegna verksins.

Loks kveðst stefndi byggja á því að endurgjaldið, sem stefnandi krefst, sé ósanngjarnt.

 

V

Við aðalmeðferð málsins gaf Örn Erlingsson, stjórnarformaður stefnanda, Smiðsafls, skýrslu gegnum síma. Hann gerði grein fyrir því að stefnandi hefði tekið að sér uppslátt við byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði og um það hefði samist að félaginu yrði útvegaður kranamaður. Gerður hafði verið skriflegur samningur um verkið, en ýmislegt í þeim samningi stæðist þó ekki skoðun. Stefndi hefði átt að útvega krana, kranamann og kranamót til verksins en verkefni stefnanda hefði verið það eitt að sjá um vinnu við uppslátt.

            Í miðju verki hefði komið í ljós að kranamaðurinn nýttist stefnanda að hluta til sem aðstoðarmaður við uppsláttinn. Þá hefði stefnandi einnig verið farinn að sjá um kranann og hefði því viljað fá greitt fyrir það sérstaklega. Kvað Örn Þórhall Snædal, starfsmann stefnda, hafa komið fram fyrir hönd stefnda í samningum við sig, m.a. um hvernig uppgjör skyldi vera milli fyrirtækjanna vegna afnota stefnanda af kranamanni við smíðar og hins vegar umsjónar stefnanda með krana og kranavinnu. Þá kvað hann sérstakan fund hafa verið haldinn þar sem samist hefði með aðilum um skiptingu kostnaðar vegna kranamanns og kranavinnu. Þann fund hefðu auk sín setið Gunnar Magnússon af hálfu stefnanda, en Sævar Hjörvarsson, Þórhallur Snædal og Magnús Geir af hálfu stefnda. 

Aðspurður hvers vegna ekki hafi verið gefinn út reikningur vegna vinnu kranamanns fyrr en eftir verklok svaraði Örn því til að reikningurinn hefði verið gerður eftir að farið var yfir öll gögn að loknu verki. Kvaðst hann annað slagið hafa verið í sambandi við Þórhall Snædal vegna þessa eftir það um innheimtuna, enda hefði hann verið tengiliður stefnanda við stefnda.

Sævar Óli Hjörvarsson, starfsmaður stefnda Geirnaglans og meðstjórnandi stefnda, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann kvaðst hafa séð um samninga við stefnanda, Smiðsafl ehf., og útgáfu reikninga. Hann kvað stefnanda hafa átt að vinna að uppslætti húss og sjá um alla vinnu en stefndi hefði átt að útvega krana og mót. Stefndi ætti kranann og greiddi af honum öll gjöld og hefði lagt hann til.

Svo hefði komið upp ágreiningur með aðilum um það hvort vinna kranamanns ætti að vera hluti samningsins, þ.e. á kostnað stefnanda. Hefði stefnandi haft uppi hótanir um að hætta við verkið ef svo væri. Því hefði verið haldinn fundur með aðilum, og til að leysa málið hefði hann sjálfur stungið upp á því að stefnandi fengi ákveðinn afslátt af vinnu kranamanns, 45%.

            Aðspurður um umboð Þórhalls Snædal til að gera samninga við stefnanda kvað hann Þórhall ekki hafa neitt umboð í þeim efnum enda hefði fyrrnefndur fundur verið haldinn til að leysa þann ágreining. Kvaðst hann hafa talið ágreining aðila úr sögunni þar til umþrættur reikningur kom. Verkfundir hefðu verið haldnir reglulega og reikningar gerðir hálfsmánaðarlega. Framkvæmdum hefði lokið í júlí 2014 og lokauppgjör verið í september sama ár þar sem ákveðin viðbótargreiðsla hefði verið innt af hendi til stefnanda vegna ákveðinna viðbótarverka.

            Sævar kannaðist við reikning þann sem til grundvallar liggur í málinu en kvað að honum hefði verið hafnað. Þá hefði komið innheimtuviðvörun sem einnig hefði verið andmælt. Önnur samskipti hefðu ekki verið með aðilum um kröfuna.

 

 

VI

Ágreiningur máls þessa lýtur að réttmæti reiknings stefnanda á hendur stefnda fyrir vinnu kranamanns. Óumdeilt er að stefnandi tók að sér með samningi við stefnda ákveðinn verkhluta við byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði, uppslátt steypumóta. Þá er og sammæli með aðilum um að stefndi lagði krana til verksins og að stefnandi greiddi stefnda fyrir vinnu kranamanns og naut ákveðins afsláttar af þeirri vinnu. Stefnandi hefur byggt á því að munnlegt samkomulag hafi verið um það með aðilum að stefndi ætti að sama skapi að greiða fyrir vinnu annars kranamanns sem hann útvegaði sjálfur.

Í málflutningi sínum lagði lögmaður stefnanda áherslu á að það hefði verið forsenda samnings aðila að stefndi, Geirnaglinn ehf., legði til mann á byggingarkrana við verkið, enda ætti stefndi kranann. Samningar aðila hefðu verið lausir í reipunum, en sú staðreynd að stefndi hefði gert stefnanda reikning fyrir vinnu síns kranamanns með 45% afslætti renndi stoðum undir málatilbúnað stefnanda. Stefnandi hefði viljað vinna alla daga og því útvegað annan kranamann. Verkið hefði því unnist hratt, það hefði verið í þágu stefnda og því eðlilegt að hann greiddi fyrir vinnu kranamannsins.

Þessu hefur stefndi mótmælt og byggt á því að stefnandi hafi aðeins átt að vinna í samræmi við samning aðila og að um kröfu stefnanda giltu reglur um auka- eða viðbótarverk. Stefndi hefði lagt stefnanda til krana og leigt honum kranamann. Samið hafi verið um afslátt af vinnu þess manns, eins og framlagðir reikningar beri með sér. Stefndi hefði á hinn bóginn aldrei samþykkt að greiða fyrir kranamann sem stefnandi kveðist nú sjálfur hafa útvegað. Stefnandi hafi með samningi undirgengist að sjá um alla vinnu við verkið og beri sönnunarbyrði fyrir öðru því en fram kemur í samningi aðila.

Samkvæmt verksamningi þeim sem aðilar máls gerðu með sér skyldi stefnandi sjá um alla vinnu og efni er að þeim verkþáttum laut sem stefnandi tók að sér og skila því fullunnu í samræmi við teikningar. Fyrir það skyldi hann fá ákveðna fjárhæð, 46.433.000 krónur, sem verkaupi greiddi eftir því sem verkinu miðaði. Þá er í samningnum vísað til útboðsgagna og verklýsinga frá Tæknideild Ísafjarðarbæjar og ÍST 30:2012, útgáfu 6, -2012-01-09, annarra staðla og reglugerða er varða verkið. Hvergi er það vikið sérstaklega að krana eða kranavinnu.

Í skýrslum af fyrirsvarsmönnum aðila fyrir dómi kom fram að reikningar hefðu verið gefnir út yfir verktímann og haldnir hefðu verið verkfundir en krafa samkvæmt þeim reikningi sem um er þrætt hefði ekki komið fram fyrr en eftir verklok. Þó liggur fyrir að aðilar áttu fund meðan á verkinu stóð vegna ágreinings um kostnað af kranamanni. Stjórnarformaður stefnanda kvaðst fyrir dómi hafa setið þann fund ásamt Gunnari Magnússyni, verkstjóra sínum, en Sævar Hjörvarsson, Þórhallur Snædal og Magnús Geir Helgason hefðu setið þann fund af hálfu stefnda. Kannaðist fyrirsvarsmaður stefnda við að hafa setið þann fund. Um hvað fór fram á þeim fundi eru aðilar hins vegar ekki sammála. Stefnandi kveður þar hafa tekist með aðilum það samkomulag er hann byggir kröfu sína á en stefndi kveðst þar hafa fallist á að veita stefnanda afslátt af vinnu kranamanns. Gegn mótmælum stefnda og að því virtu að stefnandi hefur ekki gert reka að því að leiða vitni fyrir dóminn til að bera um meint samkomulag verður ekki fallist á að stefnanda hafi lánast sönnun fyrir því að samist hafi með aðilum um greiðslu þess kostnaðar sem hann nú gerir kröfu um, en fyrir því ber stefnandi sönnunarbyrði.

Þá ber og til þess að líta að gögn sem stefnandi lagði fram undir rekstri málsins, og sem hann hefur sjálfur útbúið, bera ekki með sér hver eða hverjir þeir starfsmenn voru er inntu umkrafða vinnu af hendi, eða hvað unnið var í raun og veru. Þá hefur stefnandi ekki leitt fyrir dóm hlutaðeigandi starfsmann eða starfsmenn til staðfestu þessa vinnuframlags. Verður því að líta svo á að umfang umkrafinnar vinnu og fjárhæð dómkröfunnar sé með öllu ósannað.

            Að ofanrituðu virtu og gegn mótmælum stefnda er það niðurstaða dómsins að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda. 

            Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 900.000 krónur.

Uppkvaðning dómsins hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Dómari og aðilar voru á einu máli um að ekki væri þörf á því að málið yrði endurflutt.

Af hálfu stefnanda flutti málið Bragi Dór Hafþórsson lögmaður og af hálfu stefnda flutti málið Jörgen Már Ágústsson lögmaður.

            Bergþóra Ingólfsdóttir kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

 

            Stefndi, Geirnaglinn ehf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Smiðsafls ehf.

Stefnandi greiði stefnda 900.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                        Bergþóra Ingólfsdóttir