- Fyrning
- Tómlæti
- Vinnulaun
D Ó M U R
Héraðsdóms Vesturlands 2. maí 2019 í máli nr. E-1/2018:
Magnús Hrafn Hafliðason
(Ólafur Karl Eyjólfsson lögmaður)
gegn
Hval hf.
(Stefán A. Svensson lögmaður)
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 7. mars sl., er höfðað af Magnúsi Hrafni Hafliðasyni, Vallarási 2, Reykjavík, á hendur Hval hf., Miðsandi, 301 Akranesi.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda 990.032 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 68.832 krónum frá 4. til 18. júlí 2013, af 149.136 krónum frá 18. júlí til 1. ágúst 2013, af 225.616 krónum frá 1. til 15. ágúst 2013, af 302.096 krónum frá 15. til 29. ágúst 2013, af 383.374 krónum frá 29. ágúst til 29. júní 2014, af 452.206 frá 29. júní til 13. júlí 2014, af 532.510 krónum frá 13. til 27. júlí 2014, af 605.166 krónum frá 27. júlí til 10. ágúst 2014, af 677.822 krónum frá 10. til 29. ágúst 2014, af 754.302 krónum frá 29. ágúst til 11. september 2014, af 834.606 krónum frá 22. til 25. september 2014, af 907.262 krónum frá 25. september til 3. október 2014 og af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda að mati dómsins.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
II.
Stefnandi starfaði hjá stefnda tvær hvalvertíðir, árin 2013 og 2014. Til grundvallar ráðningu hans bæði árin lágu skriflegir ráðningarsamningar sem stefnandi og stefndi rituðu undir við upphaf vertíðar. Stefnandi vann á vöktum sem voru átta klukkutímar í senn. Í ráðningarsamningi stefnanda segir að fyrir hverja tólf tíma vakt skyldi greiða sérstaka greiðslu að fjárhæð 5.736 krónur auk orlofs á greiðsluna. Sú greiðsla samsvarar í hlutföllum til greiðslu uppá 3.824 krónur fyrir hverja átta tíma vakt. Þessar sérstöku greiðslur voru ekki greiddar til handa stefnanda.
Einn fyrrverandi starfsmaður stefnda á hvalvertíð höfðaði mál gegn stefnda í ársbyrjun 2016, m.a. vegna ágreinings aðila um uppgjör á slíkum greiðslum sem um er deilt í máli þessu vegna vinnu hans á því ári. Var dómur í því máli, málinu nr. E-6/2016, kveðinn upp 28. júní 2017 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að upp á laun stefnandans hefði vantað sem næmi uppgjöri greiðslu skv. 3. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings aðila, sem stefnda hefði borið að greiða til viðbótar greiðslu fyrir hverja vakt skv. 2. mgr. 3. gr. Hins vegar var í dóminum tekið fram að gegn mótmælum stefnanda yrði við úrlausn málsins ekki horft til þeirrar málsástæðu stefnda að stefnandi hefði firrt sig rétti til að gera athugasemdir við vangreiðslu kröfunnar vegna tómlætis, þar sem hún væri of seint framkomin.
Í kjölfar framangreinds dóms gerði stéttarfélag stefnanda, Rafiðnaðarsamband Íslands, kröfu á hendur stefnda í bréfi, dags. 17. ágúst 2017, um að laun yrðu leiðrétt afturvirkt í samræmi við 3. mgr. 3. gr. ráðningarsamningsins. Erindinu var hafnað með bréfi lögmanns stefnda, dags. 23. ágúst sama ár, með þeim rökum að fordæmisgildi dómsins væri takmarkað, m.a. vegna þess að ekki hefði í málinu reynt á tómlæti, en það kynni mögulega að hafa þýðingu gagnvart öðrum starfsmönnum. Stefnandi höfðaði þá mál þetta á hendur stefnda í desember 2017, en málið var þingfest 16. janúar 2018. Eftir að stefnandi höfðaði málið staðfesti Hæstaréttur framangreinda niðurstöðu héraðsdóms með dómi uppkveðnum 14. júní 2018, í máli nr. 594/2017.
Við aðalmeðferð málsins voru skýrslur teknar af stefnanda, forsvarsmanni stefnda, Kristjáni Loftssyni og vitnunum Vilhjálmi Birgissyni, Guðmundi Steinbach, Sæmundi Rúnari Þorgeirssyni og Halldóri R. Lárussyni.
III.
Stefnandi vísar til þess að laun hans eigi að vera í samræmi við ráðningarsamning hans og þau lágmarksréttindi sem stefndi hafi skuldbundið sig til að hlíta samkvæmt kjarasamningi.
Stefnda hafi borið að greiða stefnanda skv. 3. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings, þar sem fram komi að greiða beri sérstaka greiðslu að fjárhæð 5.736 krónur fyrir hverja 12 klst. vakt í vaktavinnu, en fyrir 8 klst. vakt nemi hún samtals 3.824 krónum (8/12 x 5.736 kr.). Á því sé byggt að stefndi hafi ekki greitt honum í samræmi við þetta. Þá hafi stefnandi ekki fengið greitt orlof ofan á sérstöku greiðsluna, en greiða eigi 10,17% orlof ofan á heildarlaun, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof. Hafi stefnandi átt að fá orlofið greitt með síðustu launagreiðslu hvort ár, sbr. 8. gr. sömu laga.
Stefnandi byggi á því að hann hafi verið í góðri trú um að hafa fengið hinar sérstöku greiðslur, enda hafi hann talið að þær væru innifaldar í launum hans. Hafi hann og talið sig hafa fengið orlof ofan á heildarlaun, líkt og lög um orlof nr. 30/1987 kveði á um. Hafi stefnandi af þeim sökum ekki gert athugasemdir við launagreiðslur fyrr en eftir að dómur hafi verið kveðinn upp í Héraðsdómi Vesturlands í fyrrgreindu máli nr. 6/2016, hinn 28. júní 2016, þar sem staðfest hafi verið að hinar sérstöku greiðslur væru ekki innifaldar í greiddum launum. Þá fyrst hafi stefnandi vitað að hann ætti inni sérstakar greiðslur hjá stefnda og hafi hann frá þeim tíma haldið þeim kröfum sínum á lofti. Krafa þessi sé því ekki fyrnd skv. lögum nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.
IV.
Stefndi byggir á því að hvers konar kröfuréttindi stefnanda eldri en fjögurra ára miðað við birtingu stefnu málsins teljist fyrnd, sbr. nánar 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.
Stefndi byggir og á því að stefnandi hafi glatað kröfum sínum sakir tómlætis. Því eldri sem meint kröfuréttindi séu og því lengur sem stefnandi hafi unnið hjá stefnda þeim mun meira sé tómlæti stefnanda. Viðlíka orðalag um hina sérstöku greiðslu hafi verið notað í ráðningarsamningum stefnda við starfsmenn allt frá árinu 2009 og byggt á sambærilegum útreikningsforsendum án þess að einn einasti starfsmaður hafi hreyft þeim skilningi sem stefnandi hafi byggt á. Stefnandi hafi unnið hjá stefnda á árin 2013 og 2014 án þess að hafa haft í frammi neinar viðbárur vegna þess sem um sé deilt. Sé því hvers konar meintur réttur hans niður fallinn. Sé þetta og til merkis um að stefnandi hafi talið ráðningarsamninga aðila vera þess efnis sem stefndi hafi byggt á.
Stefndi vísar til þess að allan þann tíma sem stefnandi hafi unnið fyrir stefnda hafi hann engar athugasemdir gert við útborguð laun, frekar en aðrir. Þá hafi hann sjálfur engar kröfur sett fram á hendur stefnda fyrr en við höfðun máls þessa. Geti stefnandi í þessu sambandi ekki skákað í skjóli málshöfðunar annars launþega, s.s. ráða megi af réttarframkvæmd. Það geti því ekki verið neinum vafa undirorpið að stefnandi hafi fyrirgert hvers konar hugsanlegum rétti til umkrafinna greiðslna vegna tómlætis.
V.
Eins rakið er í kafla II hér að framan var með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 14. júní 2018, í málinu nr. 594/2017, staðfest sú niðurstaða héraðsdóms frá 28. júní 2017 um að fallast bæri á þann hluta kröfugerðar fyrrverandi starfsmanns stefnda á hvalvertíð er laut að hinni sérstöku greiðslu samkvæmt 3. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings aðila vegna vakta. Var og staðfest sú niðurstaða að ekki yrði við úrlausn málsins horft til þeirrar málsástæðu stefnda að stefnandi hefði firrt sig rétti til að gera athugasemdir við vangreiðslu kröfunnar vegna tómlætis, þar sem krafa þar um hefði komið of seint fram undir rekstri málsins.
Stefnandi höfðaði mál þetta í kjölfar uppkvaðningar framangreinds í desember 2017. Krefst hann leiðréttingar á uppgjöri stefnda við sig með hliðsjón af niðurstöðu dómsins vegna hinnar sérstöku greiðslu, sbr. 3. mgr. 3. gr. ráðningasamnings, að viðbættu orlofi, fyrir vinnu á hvalvertíð sumrin 2013 og 2014. Lýtur ágreiningur aðila máls þessa einungis að því hvort framangreindar kröfur séu fallnar niður sökum fyrningar og/eða tómlætis stefnanda við að halda þeim fram.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda fyrnast umræddar launakröfur stefnanda á fjórum árum frá því þær áttu að greiðast, enda verður ekki fallist á að stefnandi geti í þeim efnum borið fyrir sig ákv. 1. mgr. 10. gr. laganna vegna skorts á nauðsynlegri vitneskju um kröfuna. Kemur fram á fyrirliggjandi launaseðlum stefnanda vegna hins umkrafða tímabils að hann fékk laun sín frá stefnda útborguð á hálfsmánaðar fresti, fyrst hinn 4. júlí 2013. Þar sem fyrning var fyrst rofin með birtingu stefnu í máli þessu í desember 2018 teljast þær launakröfur stefnanda sem til greiðslu áttu að koma 4. júlí til og með 29. ágúst 2013 því fallnar niður fyrir fyrningu.
Við úrlausn þess hvort stefnandi hafi að öðru leyti sýnt af
sér slíkt tómlæti við að fylgja eftir launakröfum sínum gagnvart stefnda að
hann hafi þar með fyrirgert rétti sínum til þeirra er fyrst til þess að líta að
ekkert er fram komið um það að stefnandi hafi á starfstíma sínum hjá stefnda á
árunum 2013 og 2014 gert nokkrar athugasemdir við launayfirlit sín og
launaseðla. Endurnýjaði hann ráðningarsamband sitt við stefnda á árinu 2014 án
þess að gera athugasemdir við það fyrirkomulag sem tíðkast hafði hjá stefnda um
greiðslu launa að þessu leyti. Var það fyrst með kröfubréfi lögmanns
stéttarfélags stefnda, dags. 23. ágúst 2017, sem krafist var leiðréttingar á
vangreiðslu stefnda á umræddum launagreiðslum til stefnanda. Stefndi hafnaði
hins vegar þeirri kröfu 23. ágúst sama ár, eins og fyrr segir. Voru þá liðin
rúmlega þrjú og hálft ár frá því stefnandi lét endanlega af störfum hjá stefnda
á árinu 2014 eftir að hafa starfað hjá honum tvö sumur. Að framangreindu virtu, og óháð
því hvort stefnandi hafi átt rétt til þeirra greiðslna sem um er deilt, verður
á það fallist með stefnda að stefnandi hafi vegna tómlætis fyrirgert rétti
sínum til ætlaðra vangoldinna launa að því leyti sem þær kröfur voru þá ekki
þegar fyrndar, eins og áður segir. Verður engu talið breyta í því tilliti, með
hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 370/1989 og máli
nr. 182/2006, þótt stefnandi telji sig fyrst hafa fengið vitneskju um kröfu
sína með fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. E-6/2017. Verður
stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan, en við uppkvaðningu hans var gætt ákv. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómsorð:
Stefndi, Hvalur hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Magnúsar Hrafns Magnússonar.
Málskostnaður fellur niður.
Ásgeir Magnússon