Dómstólar hafa það hlutverk að skera úr um ágreining milli aðila og hvort einstaklingar, lögaðilar eða opinberir aðilar hafi brotið gegn lögum. Hér á landi eru starfandi tvö dómstig, þ.e. héraðsdómur og Hæstiréttur. Öll mál koma fyrst til úrlausnar fyrir héraðsdómstól, sem nefnist lægra dómstig. Niðurstöðum héraðsdómstóla er svo að uppfylltum ákveðnum skilyrðum hægt að skjóta til æðra dómstigs, Hæstaréttar Íslands, en niðurstöður hans eru endanlegar.
Til hliðar við héraðsdómstólana og Hæstarétt starfa einnig tveir sérdómstólar, annars vegar Landsdómur og hinsvegar Félagsdómur. Þessir sérdómstólar starfa á grundvelli sérstakra laga. Landsdómur starfar á grundvelli 14. gr. stjórnarskrárinnar sem leggur það í vald Landsdóms að fjalla um ætluð brot ráðherra í embætti að mati Alþingis. Félagsdómur starfar á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur og er hlutverk hans að dæma í réttarágreiningi aðila vinnumarkaðarins.
Hér að neðan er að finna stutta kynningu á helstu þáttum starfsemi héraðsdómstólanna og samspili þeirra og ofangreindra dómstóla.
Héraðsdómstólarnir eru átta talsins og starfa hver á sínu landsvæði.
Héraðsdómstólarnir nefnast Héraðsdómur Reykjavíkur, Héraðsdómur Reykjaness, Héraðsdómur Vesturlands, Héraðsdómur Vestfjarða, Héraðsdómur Norðurlands vestra, Héraðsdómur Norðurlands eystra, Héraðsdómur Austurlands og Héraðsdómur Suðurlands.
Innan hvers héraðsdómstóls starfa meðal annars dómarar, aðstoðarmenn dómara, dómritarar og starfsfólk skrifstofu. Einn af dómurum viðkomandi dómstóls er skipaður dómstjóri. Þar sem þrír eða fleiri dómarar starfa kjósa þeir einn úr sínum röðum sem dómstjóra, ef dómari er einn við dómstól verður hann skipaður þar dómstjóri. Dómstjórar fara með stjórn héraðsdómstóla og bera ábyrgð á störfum þeirra. Dómstólaráð fer svo með yfirstjórn stjórnsýslu héraðsdómstólanna og starfar samkvæmt ákvæðum dómstólalaga.
Meginhlutverk héraðsdómstólanna er að tryggja að allir njóti réttlátrar og sanngjarnar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum dómstóli. Dómararnir skulu vera sjálfstæðir í störfum sínum, þeim ber að fara einungis eftir lögum og kveða upp rökstudda og skiljanlega dóma innan lögbundinna tímamarka. Málsmeðferð héraðsdómstóla er opinber sem þýðir að almenningur getur alla jafna verið viðstaddur þinghöld og fylgst með störfum dómstólanna. Samkvæmt meginreglunni um opinbera málsmeðferð fyrir dómi skulu dómar að meginstefnu vera gefnir út. Dómstólaráð hefur tekið þá ákvörðun að útgáfa dóma skuli vera í formi birtingar á vefsíðu héraðsdómstólanna samkvæmt nánari reglum þar um.
Héraðsdómstólum ber einnig að stuðla að trausti og aukinni þekkingu almennings á störfum þeirra sem og réttarríkinu. Í því skyni leggja héraðsdómstólarnir mikið upp úr hæfu starfsfólki, skilvirkni og hagkvæmni ásamt því að miðla upplýsingum til almennings.
Að tilteknum skilyrðum uppfylltum er hægt að skjóta niðurstöðum héraðsdómstólanna til Hæstaréttar.
Héraðsdómstólarnir taka til meðferðar gjaldþrotaskiptabeiðnir, beiðnir um opinber skipti á dánarbúum og beiðnir um opinber fjárslit hjóna eða sambúðarfólks.
Gjaldþrotaskipti.
Að uppfylltum tilteknum skilyrðum getur lánadrottinn krafst þess að bú skuldara (einstaklingur eða lögpersóna) sem ekki hefur staðið í skilum, verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá getur skuldari (einstaklingur eða lögpersóna) einnig að uppfylltum tilteknum skilyrðum, krafist þess sjálfur að bú sitt verði tekið til gjaldþrotaskipta. Gjaldþrotaskiptabeiðni er send þeim héraðsdómstól sem fer með lögsögu í því umdæmi sem skuldarinn er með skráð lögheimili. Ef bú viðkomandi aðila er tekið til gjaldþrotaskipta er um leið skipaður skiptastjóri sem sér um að ljúka skiptum utan dómstólsins.
Dánarbússkipti.
Ef ekki er hægt að ljúka skiptum á dánarbúi með svokölluðum einkaskiptum, er unnt að beina skriflegri kröfu um opinber skipti á dánarbúi til héraðsdómstóls sem hefur lögsögu í umdæmi þess sýslumanns sem skiptin eiga undir. Ef viðkomandi dánarbú er tekið til opinberra skipta er um leið skipaður skiptastjóri sem sér um að ljúka skiptum utan dómstólsins.
Opinber fjárslit hjóna.
Ef ekki næst sátt á milli hjóna eða sambúðarfólks um skiptingu eigna við skilnað/sambúðarslit getur annað hjóna eða annar eða báðir af sambúðaraðila, beint kröfu um opinber skipti fjárslita til héraðsdómstóls í því umdæmi sem lögheimili þeirra er skráð. Þegar um sambúðarfólk er að ræða er gerð krafa um að viðkomandi hafi búið saman samfleytt í tvö ár hið skemmsta. Eftir að bú hjóna eða sambúðarfólks hefur verið tekið til opinberra skipta er skipaður skiptastjóri sem sér um að ljúka skiptum utan dómstólsins.
Aðfaragerðum, kyrrsetningu og lögbanni verða því gerð nánari skil hér að neðan.
Þvingunarráðstafanir/fullnustugerðir
Aðfarargerðir, kyrrsetning og lögbann eru þvingunarráðstafanir sem stjórnvöld geta beitt í því skyni að knýja fram eða tryggja efndir á skyldum aðila, eða til varnar ólögmætu atferli. Þessar gerðir eru oft kallaðar fullnustugerðir. Unnt er að vísa ágreiningi um fjárnám og nauðungarsölu, kyrrsetningu, lögbann, aðfaragerðir og þinglýsingar til héraðsdóms.
Hér að neðan er að finna nánari skýringar á hverri fullnustugerð fyrir sig.
Aðför, aðfararheimild og aðfarafrestur
Aðför er almennt beitt til að knýja á um fullnustu skyldu, hvort sem skyldan er fólgin í greiðslu peningaskuldar, athöfn eða athafnaleysi.
Í tilviki útburðargerða liggur fyrir aðfararheimild sem kveður á um skyldu gerðarþola til að víkja af fasteign eða láta gerðarbeiðanda af hendi umráð fasteignarinnar eða til að fjarlægja hluti af fasteigninni. Í tilviki innsetningar liggur fyrir aðfararheimild sem kveður á um skyldu gerðarþola til að veita gerðarbeiðanda umráð lausafjár eða annarra hluta en eignarheimild yfir fasteign.
Í grófum dráttum er með aðfararheimild átt við hvernig krafa þarf að vera úr garði gerð til þess að henni verði fullnægt með aðför.
Aðfararfrestur er sá tími sem líða má frá því að aðfararheimildin varð til og þar til aðför má fara fram. Almennt er aðfararfrestur 15 dagar.
Kyrrsetning og lögbann
Kyrrsetning og lögbann eru bráðabirgðaaðgerðir og er gripið til þeirra ef hætta þykir á að athöfn raski með ólögmætum hætti rétti gerðarbeiðanda meðan leitað er úrlausnar dómstóla.
Þegar um kyrrsetningu er að ræða kyrrsetur sýslumaður eignir gerðarþola að kröfu gerðarbeiðanda í þeim tilgangi að eignin verði til staðar þegar fjárnámsheimildar hefur verið aflað og hægt er að framkvæma fjárnám.
Með lögbanni eru stöðvaðar fyrirhugaðar aðgerðir sem líklegar eru til að raska lögvörðum hagsmunum manns.
Í öllum tilvikum er gerð sú krafa að gerðarbeiðandi leggi fram tryggingu fyrir því tjóni sem gerðarþoli kann að verða fyrir og að höfðað sé dómsmál til staðfestingar kyrrsetningunni eða lögbanninu innan við viku frá því að gerðin var framkvæmd.